Færsluflokkur: Bloggar

Hvergi í stjórnskipunarlögum er gert ráð fyrir meirihluta og minnihluta, hvorki í sveitarstjórnum né á Alþingi

Hanna Birna borgarstjóri í Reykjavík hefur sett fram þá hugmynd að eftir sveitarstjórnarkosningarnar í lok maí setjist menn niður og komi sér saman um stjórn Reykjavíkurborgar án þess að mynda meirihluta og þar af leiðandi engan minnihluta. Það hefur lengi verið talið að myndun meirihluta í sveitarstjórnum sé sjálfsagður hlutur en þannig var það ekki í árdaga þegar sveitarstjórnir voru að þróast. Heldri bændur, sem skipuðu hreppsnefndina, komu saman eftir mjaltir og tóku ákvarðanir, Auðvitað þróaðist það þannig að sumir höfðu meiri áhrif en aðrir í krafti síns persónuleika en allir höfðu áhrif. Meirihlutamyndun í sveitarstjórn er ákaflega ólýðræðislegt fyrirbæri. Í sjö manna sveitarstjórn kom fjórir sér saman um að þeir skuli ráða ölu, þrír skuli engin áhrif hafa. Ég held að menn ættu í alvöru að fara að skoða þetta ólýðræðislega stjórnskipulag, sem ekki byggir á neinum lögum, gagnrýnum augum. Það alvarlegasta er þó þegar einhverjir taka upp á því að "slíta" meirihlutasamstarfi, reka bæjarstjórann (borgarstjórann) með tilheyrandi kostnaði fyrir sveitarsjóð (borgarsjóð). Slíkir atburðir gerðust í Árborg og Grindavík á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið. En það er fagnaðarefni, og sýnir hve Hanna Birna er sterkur stjórnmálamaður, að hún skuli leggja í að nefna þetta vandamál með meirihluta og minnihluta í sveitarstjórnum. Það ætti þó ekki að koma á óvart; sirkusinn í Borgarstjórn Reykjavíkur á þessu nánast liðna kjörtímabili var með slíkum ólíkindum að égskil vel að  Hanna Birna sé með með óbragð í munni eftir alla þá gerninga, slíkt rugl og vitleysa sem þar var í gangi.

Loksins nokkur orð um Rannsóknarskýrsluna

Ég býst við að fleirum hafi orðið svo bylt við Rannsóknarskýrsluna að hafa ekki haft sig í það að fjalla um hana. Það sem ég hef kynnt mér Skýrsluna er hér um mjög vandað tímamótaverk að ræða sem við öll verðum að læra af hvort sem okkur líkar betur eða verr. Vissulega vissum við margt af því sem gerst hafði en samt er Skýrslan meiri hrollvekja en nokkurn grunaði.

 

Bankmenn, fjármálamenn, braskarar

Ekki er nokkur vafi á því að þessir aðilar eru höfuðpaurar hrunsins sem grundvöllurinn var lagður að með sukkinu í kring um einkavæðingu bankanna? Dag eftir dag koma í ljós svo ótrúlegar upplýsingar um þá sem þarna hrærðu í fjármálapottinum. Eigendur bankanna, stjórnendur bankanna og stærstu lántakendur bankanna. Varla nokkurs staðar á jarðkringlunni hefur orðið til jafn hrikaleg spilling í fjármálaheiminum. Það vekur ekki litla athygli að þessir þrír bankar, Landsbanki, Glitnir og Kaupþing (+Straumur) voru allir jafn spilltir, allir stjórnendur og eigendur voru búnir að búa til einn allsherjar suðupott sem allir hrærðu í og jusu úr, ekki aðeins til sín eigendanna heldur einnig til ýmissa fjárglæframanna í útlöndum. Laun og bónusar voru yfirgengilegir. Satt að segja getur maður ekki annað sagt en þetta: Hvernig gat það verið að í öllum bönkunum misstu menn vitið á sömu stundu, það er ekkert anað hægt að segja en að þessir bankamenn hafi verið algjörlega vitskertir. Vissu  þeir ekki betur?

Umhverfið, eftirlit og almenningur

Því miður áttum við flest, íslenskur almenningur, nokkra sök, við studdum þessa menn, við höfðum mörg hver ofsatrú á þeirra hæfileikum við trúum því mörg eða flest að öll gagnrýni að utan væri "öfund" og "illgirni", Danir  væru enn spældir yfir að við sögðum skilið við þá, allt flæddi í peningum, allir gátu engið lán eins og þeir vildu. Enn sannaðist það sem ég hef áður sagt: Mannskepnan virðist flest geta þolað, drepsóttir, styrjaldir, hungurneyð, náttúruhamfarið. En eitt getur mannskepnan ekki þolað; það er góðæri, stöðugt batnandi góðæri. Þá fer fyrir mörgum eins og fjármála- og bankamönnunum okkar; öll skynsemi, öll varkárni, allt siðferði fer út í buskann. Við getum vissulega tekið undir það að eftirlit Fjármálaeftirlits og Seðlabanka var allt í skötulíki. En á síðari tímum hefur sú tilhneiging orðið æ meira áberandi að það séu eftirlitsaðilar sem beri ábyrgð á hegðun borgaranna. Ef umferðalys verður eru fjölmiðlar allir komnir í kór og þeir sem ábyrgðina bera eru yfirleitt ekki þeir sem tækjunum stýra, það er æpt á Lögregluna, það er æpt á Vegagerðina og svo koll af kolli. Þannig hafa fjölmiðlar magnað upp þá grýlu að ófarir hvort sem er í fjármálum, umferð að hverjum sem er sé einhverjum allt, allt öðrum að kenna en þeim sem raunverulega bera ábyrgðina. Áttum við ekki kröfu á því að þeir sem stjórnuðu bönkunum höguðu sér eins og viti bornir menn en ekki sem vitfirringar? Dæmi um þetta eru margendurtekin ummæli fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde. Hann hefur margsinnis lýst því yfir að ófarirnar í banka- og fjármálaheimi hérlendis sé lögum þeim sem við tókum upp við inngöngu á Evrópska efnahagssvæðið að kenna!

Hverjir ber ábyrgðina?

Það eru þeir sem ég hef að framan talið upp. Stjórnendur bankanna, eigendur þeirra sem létu greipar sópa um fjárhirslur bankanna. þetta er í fyrst sinn á Íslandi sem hvorki þurfti lambhúshettu, hníf eða byssu við bankarán. Bankaránið var framið þannig að það þurfi engum að ógna, það þurfti engar rúður að brjóta, engin göng að grafa. Peningarnir var einfaldlega stolið með tölvum, miklu einfaldari tæki til bankaráns en gamla draslið. En þeir sem einkavæddu bankana og "gáfu" þá einkavinum, brutu allar reglur sem um bankasöluna voru settar, þeir byrjuðu "ballið". Og vissulega brugðust Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, enda ekki við öðru að búast, Seðlabanki undir stjórn gamals stjórnmálrefs úr Sjálfstæðisflokknum og Fjármáleftirlitið undir stjórn dusilmennis sem hafði það eitt unnið sér til ágætir að vera Heimdellingur.

En hvað um stjórnvöld, hvað um ríkistjórnir og ráðherra? Bera þeir enga ábyrgð?

Jú, svo sannarlega, ræðum það í næsta pistli. 


Vonandi hafa Davíð og Halldór horft á Kastljós í kvöld

Einhver viðurstyggilegast glæpur síðari ára er Íraksstríðið. Síðan drullusokkurinn Bush Bandaríkjaforseti fór í það stríð með Breska drullusokknum Tony Blair er búið að murka lífið úr 600.000 óbreyttum borgurum í Írak. Það var ógurlega gaman hjá þeim sem sátu við hríðskotabyssurnar í þyrlunum og ekki stóð á því að einhverjar stjórnendur, sem voru víðs fjarri, gæfu leyfi til að skjóta menn sem voru á gangi á götu. Út yfir tók þó þegar hjálpsamur vegfarandi ætlar að hjálpa lífshættulega særðum manni og þá er byrjað að skjóta aftur, maðurinn drepinn og börn hans tvö hættulega særð í bílnum. Bandaríski herinn, herinn þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, var ekki að hafa fyrir því að koma tveimur ungum börnum,  sem þeir voru búnir að særa, undir læknishendur. Heimamenn gátu séð um það. Síðan hefur verið unnið að því hörðum höndum af innrásarliði Bush, Blair, Davíðs og Halldórs að breiða yfir glæpina.

Og umheimurinn horfði upp á þennan viðbjóðslega glæp, innrásina í Írak, flestir ypptu öxlum, margir lofuðu Bush og kompaný. 

Hvað er orðið um samvisku fólks?


Það stendur hvergi í lögum að þú megir mála húsið þitt, svo láttu það vera, annars geturðu haft verra af!

Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sló öll met í Sjónvarpsfréttum nýlega þegar hún var spurð að því hvort úrskurður Svandísar Svavarsdóttir, núverandi umhverfisráðherra, um að staðfesta ekki skipulag þeirra sveitarfélaga þar sem fyrirhugaðar virkjanir munu rísa í neðri Þjórsá, stæðust lög, hvort einhver lög kveði á um að sveitarfélög megi ekki afla fjár til að greiða fyrir skipulag síns sveitarfélags nema beint frá hefðbundnum tekjustofnum.

Þórunn viðurkenndi að það væri ekkert sem bannaði sveitarfélögum að afla fjár til að greiða fyrir skipulagsvinnu  hvar sem væri, en það væri heldur hvergi til lög um það að það væri leyft!

Þess vegna stæðist úrskurður Svandísar!!!

Þvílík hundalógik.


Aukum veiðar á þorski

Það er engin spurning; við eigum að auka veiðar á þorski, við höfum ekki efni á því að láta þorskinn verða ellidauðann í sjónum í stórum stíl eða láta hann synda til okkar nágranna sem ekki fúlsa við slíkri gjafmildi.

Ég er dæmigerður landkrabbi en hver fylgist ekki með sjávarútvegi og fiskveiðum. Hef ætíð haft meira álit á ráðgjöf Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og Kristins Péturssonar fiskverkanda á Bakkfirði en á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun finnur ekki þorskseiðin en einn ágætur Grímseyingur sagðist í hádegisfréttum geta upplýst Hafró um hvar þau eru.

Jóhann Sigurjónsson, hættu að leita og hringdu norður til Grímseyjar, það er miklu ódýrari leið til að finna seiðin en skrapa alla firði.

Eftir yfirgengilegt stjórnleysi og vitleysu undanfarin sukkár virðist sem svo að komin sé upp ákveðin stirðleiki í kerfinu; nú þora menn vart að taka ákvarðanir, tæplega að ræða róttækar aðgerðir til að koma okkur úr vandanum sem fyrst.

Við eigum að taka djarfar ákvarðanir og fylgja þeim eftir:

Auka fiskveiðar og skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, ekki aðeins séreignasparnað heldur allar inngreiðslur.


Hægrikrati enn á ferð

Það er óralangt síðan síðasti Geirfuglinn hvarf af jörðu hér. Það er styttra síðan til var sérstök pólitísk tegund sem nefndust "hægrikratar". Þeir voru með flokksskírteini í gamla Alþýðuflokknum en völdu sér bólstað þétt upp við landamærin sem lágu að Sjálfstæðisflokknum. Lítið mátti út af bregða svo þeir færu ekki út um bakdyramegin þegar mikið lá við og skiluðu stundum atkvæðum sínum í kassa Sjálfstæðisflokksins. Sérstaklega stunduðu þeir þetta í Borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, héldu þar Sjálfstæðsiflokknum við völd árum saman.

Satt best að segja hélt maður að þessi tegund pólitíkusa væri útdauð eða þannig. Sumir fóru yfir svo sem Gísli bæjarstjóri á Akranesi. Að vísu var hann keyptur yfir með þægindi ágætu sem hann settist þegar í og var hvorki meira ná minna en bæjarstjórastóllinn á Akranesi. Og þar virðist Gísli una hag sínum vel og vonandi verður hann þar áfram, enginn býst við honum yfir landamærin aftur. 

Það er til einn Geirfugl hérlendis, reyndar uppstoppaður í Náttúrugripasafninu. En það er líka til einn ósvikinn "hægrikrati" ekki uppstoppaður og sprelllifandi.

Það er Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu og bókmenntaspekingur í Kiljunni.

Kolbrún segist vera búin að fá nóg af upphlaupsliði Vinstri grænna sem séu aftur og aftur tilbúnir til að taka stjórnarflokana í gíslingu. Vissulega er talsvert til í þessu hjá Kolbrúnu en hún sér ljósið og er greinilega búin að setja upp gömlu hægrikrata gleraugun. Hennar framtíðarsýn er að Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfinu við Vinstri græn en myndi á stundinni aðra ríkisstjórn.

Hún vill fá aftur Þingvallamynstrið, að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. 

Ja, þvílík framtíðarsýn!!!

Á Samfylkingin að ganga til samstarfs aftur við Sjálfstæðisflokkinn sem ber höfuð ábyrgð á hruninu mikla í október 2008? Á virkilega að horfa fram hjá því að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður í mörgum málu?. Á að gleyma því að enn ríkir andi Davíðs Oddssonar yfir flokknum? Á að horfa framhjá því að þeir í flokknum sem eru jákvæðir gagnvart samningum við Evrópusambandið er haldið niðri hvað sem það kostar? Á að horfa fram hjá því að útgerðarauðvaldinu var færður allur fiskveiðikvóti Íslands til eignar, til að braska með, til að veðsetja hvarvetna þar sem einhverja peninga var að fá? 

Ef Samfylkingin vill fremja pólitískt harakiri þá fer hún í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. En það verður ekki, ég held að Kolbrún sé síðasti hægrikratageirfuglinn.


Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. halda áfram í lýðskrumi og ábyrgðarleysi

Þá er líklega komið að lokapunkti Icesve samninga. Samningar munu hafa verið undirskrifaðir í dag, frumvarp lagt fram á Alþingi einnig, mælt fyrir því og það tekið til umræðna og afgreiðslu þar á eftir.

Það er með ólíkindum að lesa margt sem sagt er á blogginu um Icesve og það er einnig með ólíkindum að lesa og heyra viðbrögð foringja stjórnarandstöðunnar um þetta sama mál. Það er hægt að krefja stjórnmálaforingja um meiri ábyrgð og yfirvegun en einhverja bloggara þó mér ofbjóði orðbragð margra bloggara og svívirðingarnar sem dunið hafa á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Það virðist sem svo að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. haldi að þeir geti komið þeirri skoðun inn hjá almenningi að Icesave skrímslið  hafi verið skapað af núverandi stjórn og stjórnarflokkum, Samfylkingu og Vinstri grænum.

En svo er aldeilis ekki. Það voru Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sem  lögðu grunnin að þessu skrímsli. Þeir voru í ríkisstjórn árum saman og það voru þeir sem stjórnuðu einkavæðingu bankanna, sem að vísu var enginn einkavæðing. Bankarnir voru afhentir á spottprís vildarvinum flokkanna sem sumir hafa reynst einstaklingar sem ekki voru hæfir til að reka banka og eru  að verða uppvísir að fjárglæfrum sem engu tali tekur.

Ætlast þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben til þess að þeim verði aftur afhent völdin í þjóðfélaginu? Örugglega þrá þeir það heitast, þá gætu þeir jafnvel brugðið fæti fyrir það öfluga starf sem í gangi er til að fletta ofan af þeim þokkapiltum sem fengu bankana nánast gefna, það kann að verða æði óþægilegt fyrir þessa tvo flokka, Sjálfstæðisflokka- og Framsóknarflokk, ýmislegt sem á eftir að koma í ljós.


Stjórnarandstaðan fær skelfilega útkomu í skoðanakönnun "capacent"

Það er varla að maður trúi þeirri skelfilegu niðurstöðu sem stjórnarandstaðan fékk í skoðanakönnun "capacent". Þar var spurt:

"Ert þú ánægð(ur) eða ánægð(ur) með störf stjórnarandstöðunnar?

Heildarniðurstaðan er sú að 18% eru ánægð, 27% hvorki né og 51% óánægð.

Þessum niðurstöðum hefur lítt verið flíkað í fjölmiðlum. Eitt er víst að ef þetta væru niðurstöður um fylgi ríkisstjórnarmeirihlutans hefðu verið rekin upp mikil ramakvein og þess krafist að Ríkisstjórnin segði af sér tafarlaust.

En nú getur stjórnarandstaðan ekki sagt af sér, hún hefur sitt umboð frá kjósendum til að sitja á Alþingi og mun sitja sem fastast.

En hvað veldur þessari hrikalegu niðurstöðu fyrir stjórnarandstöðuna, það er vert að velta því fyrir sér.

Eftir hið skelfilega hrun er þjóðin óttaslegin og ráðvillt, það er  sannarlega skiljanlegt. Mikill meirihluti þjóðarinnar gerði þá kröfu til Alþingis og Alþingismanna að tekin yrðu upp ný vinnubrögð, steingelt karp lagt til hliðar og allir legðust á árar til að koma okkur sem fyrst upp úr kreppunni. Kosningarnar sl. vor gáfu Samfylkingunni og Vinstri grænum hreint og klárt umboð til að mynda ríkisstjórn og leiða uppbygginguna. Sjónarandstöðuflokkarnir fengu nýja forystu. Talsverðar vonir voru bundnar við nýju formennina, Bjarna Benediktsson hjá Sjálfstæðisflokki og Sigmund Davíð Gunnlaugsson hjá Framsóknarflokki.

Hafa þessir forystumenn breytt um vinnubrögð eða þeirra flokkar?

Það er nú eitthvað annað. Bjarni hefur verið ákaflega óöruggur og fálmandi í sinni forystu en hefur meir og meir verið að sækja inn á óraunsætt karp og yfirboð. Ég hafði vissulega trú á Sigmundi Davíð en ef einhvertíma hefur komist lýðskrumari inn á Alþingi þá er það hann. Þessir tveir menn hafa gefið tóninn um vinnubrögð stjórnarandstöðunnar. Þau vinnubrögð eru að reyna sífellt í öllum málum að koma höggi á Ríkisstjórnina. Það er oft æði auðvelt. Ríkisstjórnin tók við einhverjum mestu vandamálum sem nokkur ríkisstjórn á Íslandi hefur tekið við. Það er lítill vandi að fiska í gruggugu vatni, þessari stjórn hefur vissulega verið mislagðar hendur á stundum en verkefnið er tæplega mannlegt, hve lengi geta forystumenn stjórnarflokkanna risið undir hinni gífurlegu byrði sem þau bera?

Niðurstaða skoðanakönnunar "capacent" á traustinu sem fólk ber til stjórnarandstöðunnar lýsir skipbroti þessara tveggja forystumann, Bjarna og Sigmundar Davíðs. En þeir hafa með forystu sinni dregið fram lýðskrum margra flokksfélaga sinna. Fremstir fara þar Höskuldur Þórhallsson í Framsóknarflokki og Birgir Ármannsson í Sjálfstæðisflokki. En það er líka athyglisvert að sumir af þingliði þessara flokka láta ekkert í sér heyra.

En eru ekki stjórnarandstöðuflokkarni þrír?

Vissulega, þriðji flokkurinn sem var afsprengi Pottlokabyltingarinnar, Borgarahreyfingin, fékk fjóra þingmenn í síðustu kosningum. Þetta var flokkur sem ætlaði að bæta siðferðið á vinnubrögðin á Alþingi og í stjórnsýslunni. En hvernig stendur þá á því að þegar aðeins hált ár  er liðið frá kosningum hefur þessi flokkur, Borgarahreyfingin, engan mann á þingi?

Ástæðan er einfaldlega sú að þessir fjórir Alþingismenn Borgarahreyfingarinn reyndust gjörsamleg heillum horfnir, vissu ekkert hvað þeir vildu annað en að rífast, kljúfa og ganga á bak orða sinna. Er það sú siðbót sem við höfðum mesta þörf fyrir?

Innkoma þessar fjórmenninga á Alþingi íslendinga er orðinn skrípaleikur, jafnvel harmleikur. Störf á Alþingi eru svo mikilvæg fyrir þjóðina að þar er ekki rúm fyrir neina sirkustrúða. Þessir fjórir einstaklingar geta aðeins gert þjóð sinni einn greiða, mikill greiða.

Að segja af sér þingmennsku á stundinni!!!

En þroski þjóðarinnar er á hærra stigi en ég þorði að vona. Almenningur hefur lýst vantrausti á hina nýju forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson að ekki sé talað um þá fjóra sirkustrúða sem skolaði inn á Alþingi á vegum flokksins sáluga, Borgarahreyfingarinnar. Íslenska þjóðin krefst ÁBYRGRA vinnubragða af öllum stjórnmálamönnum, að sjálfsögðu af þeim sem eru í meirihluta á Alþingi en ekki síður af þeim sem er í stjórnarandstöðu.

Ætlar stjórnarandstaðan að halda áfram á sömu braut lýðskrums og upphrópana eða ætlar hún að taka upp virðingarverð, öguð og árangursrík vinnubrögð?

 

 


Varasamar skotgrafir

Eftirfarandi athugasemd gerði ég við skrif Eyþórs Arnalds foringja Sjálfstæðismanna í Árborg. Ég nota sömu fyrirsögn og hann og vona að hann og aðrir Sjálfstæðismenn fari nú að líta í eigin barm, gangast við sínum verkum og biðjast afsökunar. Ég get einnig bætt því við að fjölmargir Sjálfstæðismenn hafa verið miklu svæsnari,  óbilgjarnari og orðljótari en Eyþór.

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif.

 Þetta segir þú Eyþór Arnalds að framan og engan hittir það jafn rækilega fyrir og sjálfan þig. Frá því flokkur þinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hrökklaðist frá völdum eftir langt valdatímabil þar sem þessum sama flokki tókst að leggja grundvöllinn að hruninu mikla með einkavinavæðingu bankanna og nýfrjálshyggju þá hefur þú og fjölmargir flokksfélagar þínir meira farið eftir þessu mottói sem ég vitna í:

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif. 

Í stað þess að sýna auðmýkt og biðja Íslenska þjóð afsökunar á framferði ykkar stundið þið einmitt að sem þú segir. Þið fiskið í gruggugu vatni í öllum málum, haldið að það sé leiðin til að komast aftur til valda.

Er almenningur svo skyni skroppinn að hann láti glepjast?

Þið Sjálfstæðismenn hafið sloppið ótrúlega vel. Þið er ráðist á núverandi Ríkisstjórn vegna ICESAVE en hverjir bjuggu þann óskapnað til? Það voru þeir sem Sjálfstæðisflokkurinn rétti Landsbankann á silfurfati (þar með talinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins) og þessir útvöldu óreiðumenn  áttu ekki einu sinni fyrir útborguninni, slógu lán í Búnaðarbankanum og  ætlast nú til að eftirstöðvarnar verði afskrifaðar!!!

Við skulum ekki gleyma því að það var núverandi ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum Seðlabankastjóri sem kom þeim banka, sem átti að var bakhjarl íslensks fjármálalífs, á svo kaldan klaka að hann varð gjaldþrota. Ríkisstjórnin neyddist til að byggja Seðlabankann aftur upp með 300 milljarða kr. framlagi, það var og er skelfileg blóðtaka sem við öll súpum seiðið af.

Og þennan mann vörðuð þið með kjafti og klóm og gerið enn og nú hefur hann yfirtekið Morgunblaðið til að gera það að málpípu harðasta kjarnans úr Sjálfstæðisflokknum sem ábyrgð ber á hruninu.


Hvað varð um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?

Þegar Donald Rumsfield ákvað að leggja niður herstöðina á Keflavíkurflugvelli góðu heilli tæmdust allar byggingar herstöðvarinnar á augabragði. Þessar byggingar hafa síðan fengið ný hlutverk og komið að góðum notum margar hverjar.

En svo stór herstöð sem sú sem var á Miðnesheiði hlýtur að hafa rekið stórt og mikið fangelsi, í öllum herstöðvum Bandríkjanna eru rekin fangelsi og þau mörg hver notuð til voðaverka og mannréttindabrota.

Í fréttum RÚV í hádeginu var við tal við Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra um þá furðulegu stöðu sem upp er komin í fangelsismálum hérlendis; brotamenn ganga lausir svo hundruðum skiptir vegna þess að fangelsi landsins eru yfirfull. Ráðherrann sagði að nú ætti að auglýsa eftir húsnæði fyrir fangelsi og auðvitað mun það kalla á mikil fjárútlát að innrétta leiguhúsnæði svo það verði fangelsi.

  • En ég spyr; er ekki til það fangelsi sem Kanarnir ráku á Keflavíkurflugvelli, er það ekki lengur til? Ef það er enn til hvers vegna er það þá ekki notað til að koma lögum yfir eitthvað af þeim brotamönnum sem ganga lausir? Meira að segja dæmdir brotamenn eiga kröfu á að mannréttindi séu ekki brotin. Ef dæmdur maður getur ekki afplánað og verður jafnvel að bíða árum saman vegna "húsnæðisskorts" þá er í raun verið að þyngja refsingu hans umfram það sem dómsstólar ákváðu.

Hvað um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 113864

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband