Færsluflokkur: Bloggar
10.9.2009 | 16:59
Yfirlýsing mörgæsanna
Þeir hafa húmor hjá Danmarks Meterologiska Institute og það hefur einnig Mikkel Sander í Kaupmannahöfn sem sendi þeim þessa skemmtilegu mynd.
Undir myndinni stendur i lauslegri þýðingu:
Harðlínumörgæsir á Istedagade hafna alfarið allri málmiðlun, þó það þýði að allar plöntur deyja út.
Framtíðin hrein af CO2
Yes sir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2009 | 16:55
Yfirlýsing mörgæsanna
Þeir hafa húmor hjá Danmarks Meterologiska Institute og það hefur einnig Mikkel Sander í Kaupmannahöfn sem sendi þeim þessa skemmtilegu mynd.
Undir myndinni stendur i lauslegri þýðingu:
Harðlínumörgæsir á Istedagade hafna alfarið allri málmiðlun, þó það þýði að allar plöntur deyja út.
Framtíðin hrein af CO2
Yes sir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2009 | 10:09
Systkinin frá Bakka ætla að verða tengiliðir þings og þjóðar
Þetta er boðskapur Borgarahreyfingarinnar í Morgunblaðinu í dag. Minn skilningur nær víst æði skammt, ég sá bloggið hans Þór Saari og hélt að hann væri að fjalla um eigin flokk:
En svo djúpt fer ekki hans innri rýni, þremenningarnir hafa aðeins eitt skotmark; það er það sem þau kalla Fjórflokkinn. Borgarahreyfingin ætlaði að koma inn með nýja sýn, nýtt siðferði og ný vinnubrögð á Alþingi. En allir vita hver framvindan hefur orðið.
Hinsvegar kom fram nokkuð merkilegt fram í bloggi Birgittu Jónsdóttur. Í fyrsta lagi að Þór Saari sé ákaflega hláturmildur maður, sérstaklega geti hann hlegið endalaust að Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Í örðu lagi ennþá merkilegri frétt. Þór Saari ætlar ekki eingöngu að bjarga Íslandi frá bæði Fjórflokknum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum heldur fer hann eins og logi yfir akur um þriðjaheims löndin og sópar upp óstjórn og ráðleysi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skilið eftir sig eftir misheppnaða hjálp.
Þetta hlýtur að vera rétt, þetta segir Birgitta í sínu bloggi. Það er enginn smátækur kraftaverkamaður sem ekki aðeins ætlar að bjarga Íslandi eftir hrunið og frá Fjórflokknum heldur einnig flestum þeim frumstæðu þjóðfélögum sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur verið skaða á undanförnum árum.
Erum við að fá nýjar persónur inn í þjóðsögurnar, þessi sérkennilegu systkini frá Bakka?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2009 | 17:20
Agnes Bragdóttir er söm við sig
Samtal Agnesar við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í dag er fyrir margra hluta sakir stórmerkilegt. Það sem stendur þó upp úr er hve Steingrímur fer vel yfir vettvang þeirrar gífurlegu vinnu og þeirra nánast yfirgengilegu erfiðleika sem hann og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eiga við að glíma. Það er öruggt að meginþunginn liggur á herðum hans og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Ég get ekki séð fyrir mér tvo aðra hæfari einstaklinga úr röðum stjórnmálamanna til að glíma við vandann, vonandi að þeim endist þrek til glímunnar.
En annað var athyglisvert og það voru spurningar Agnesar. Í hveri spurningu voru settar fram allskyns fullyrðingar um ýmislegt sem var annaðhvort lævís áróður eð fullyrðingar sem voru fjarri því að vera staðreyndir. Steingrímur þurfti nánast í hverju svari að byrja á því að leiðrétta frasana og röngu fullyrðingarnar sem frá Agnesi komu. Þá læddi hún því inn að leiðréttingar Steingríms sýndu hvað hann væri viðkvæmur!
Að lestri loknum datt mér í hug að breyta um svið og skipta um aðalleikanda. Lét Agnesi sitja sem fastast í sínu hlutverki en lét hann hafa annan viðmælanda, sá heitir Davíð Oddsson, fyrrum var forsætisráðherra, utanríkisráðherra og að lokum formaður bankastjórnar í Seðlabankanum. Raunar er handritið til, það hljóta allir að muna eftir flaðrandi viðtölum Agnesar Bragadóttur við átrúnaðargoð sitt.
Þá hefði engar getsakir eða neikvæðar og rangar fullyrðingar komið frá spyrlinum.
Það verður seint sagt að Agnes Bragadóttir sé með heiðarlegustu blaðamönnum á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2009 | 16:58
Aðalheiður "verslar" innlenda framleiðslu
Aðalheiður er samskiptastjóri Tækniskólans-skóla atvinnulífsins. Fyrir skömmu kom fylgirit með Morgunblaðinu sem bar nafnið Sóknarfæri. Þar var á bls. 4 stutt viðtal við fyrrnefnda Aðalheiði sem sagði m. a:
"Í gegnum tíðina hef ég reynt að temja mér að versla innlenda framleiðslu".
Tilvitnun lýkur.
Hér er enn einu sinni unnið ötullega að því að afbaka íslenska tungu, þetta er sýnishorn af því hve tamt mörgum er að útrýma sögninni "að kaupa" úr málinu. Þó Aðalheiður hafi gloprað þessari ambögu "að versla innlenda framleiðslu" út úr sér hefði sómakær blaðamaður átt að leiðrétta hana og setja á prent "að kaupa íslenska framleiðslu". Kannski er Aðalheiður sárasaklaus, var það ambögusmiður í blaðmannastétt sem breytti því sem hún sagði? Það virðist vera nægt framboð af þeim. Því miður er viðtalið við Aðalheiði ekki merkt neinum blaðamanni svo hún verður að eiga amböguna ein.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2009 | 00:14
Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús
Menn flykktust á Austurvöll eftir hrunið mikla, börðu bumbur og pottlok undir stjórn Harðar Torfasonar, hentu drullu og eggjum í lögregluna, brutu rúður í Alþingishúsinu og Stjórnarráðinu, réðust inn á Hótel Borg og skemmdu útsendingarbúnað, komu í veg fyrir að "stjórnmálamenn" gætu komið máli sínu til almennings, þannig var málfrelsið á síðasta degi ársins 2008, ársins þegar bankaránin voru framin af þeim sem áttu alla möguleika til þess því þeir höfðu lyklana.
Niður með alla stjórnmálmenn, nýtt blóð, nýjar heilbrigðar persónur taki við!
Þetta var herhvötin, allt í einu var okkur sagt að það væri fullt af fólki í þjóðfélaginu sem hefði gáfur, hæfileika og framtíðarsýn, það þyrfti aðeins kosningar og henda öllu gamla settinu út, inn með nýjar mublur. Vissulega var það uppörvandi að fá að heyra það að meðal pottlokahjarðarinnar á Austurvelli leyndist afburðafólk sem gæti bjargað öllu, fólk sem hefði hugsjónir, fólk sem væri heiðarlegt og ekki síst þeim kostum búið að þekkja og virða lýðræðið, fólk sem gæti unnið af heilindum, fólk sem ætlaði að hlýða vilja "fólksins" í landinu, ef það fengi að taka við yrði allt gott, öll dýrin í skóginum yrðu vinir.
Svo komu kosningar
Nú áttu landsmenn tækifærið og hreinsa til í þeim hópi sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka og kjósa nýja fólkið frá Austurvelli. Þá gerðist nokkuð sérkennilegt:
Tugir þúsunda kusu aftur þá sem höfðu eyðilagt okkar ágæta þjóðfélag, þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, þessa tvo flokka sem höfðu stjórnað allri spillingu á Íslandi svo lengi sem ég man eftir og er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá (lítið á myndina). Þessir tveir flokkar tóku "nýfrjálshyggjunni" opnum örmum, þeir einkavæddu ekki fyrirtækin sem þjóðin átti, þeir "einkavinavæddu" þau flest svo sem bankana, Símann, Íslenska aðalverktaka og svo mætti lengi telja.
En það gerðist einnig í þessum merkilegu kosningum að nýja aflið frá Austurvelli bauð fram til Alþingis albúið til að reisa aftur þjóðarbúið. Að vísu sprungu sumir á limminu strax og gáfust upp eftir nokkra misheppnaða upplýsingafundi. Bjarni bóksali á Selfossi (þessi með rýtinginn í erminni) og sakleysislegur og ágætur klerkur í Hafnarfirði Þórhallur að nafni sögðust ekki nenna þessu, ágæt dómgreind.
En AFLIÐ komst á þing, Borgarahreyfingin. Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn. Satt best að segja hélt ég að Þór og Margrét hefðu eitthvað til brunns að bera, jafnvel Birgitta einnig en ég hafði enga trú á Þráni, þessum ágæta kvikmyndaleikstjóra og rithöfundi með allan sinn húmor. En hvað nú? Eini maðurinn sem ég ber einhverja virðinu fyrir nú er Þráinn, hann er þó þeirrar náttúru að vera heiðarlegur og vilja standa við sín orð. Um þau hin þrjú ætla ég ekki að eyða fleiri orðum. Og hvar er sá ágæti Hörður Torfason, sem ég held upp á bæði sem trúbador og ekki síður sem eindreginn kjarkmann í mannréttindamálum eins og hann hefur sýnt óumdeilanlega í baráttu samkynhneigðra á liðnum áru. Er hann týndur?
Ég hef enn trú á minni þjóð
Vegna þess að kjarni þessarar þjóðar skynjaði hvar veilan lá. Kjarni þessarar þjóðar bar gæfu til þess að veita tveimur vinstri flokkum ( þetta hugtak er að vísu að verða æði gamaldags en við höfum ekkert betra) Samfylkingunni og Vinstri grænum MEIRIHLUTA Á ALÞINGI. Ég mun ætíð á þeim árum sem ég á eftir verða stoltur af Alþingiskosningunum í apríl 2009. Ef eitthvað verður til þess að bjarga okkur út úr því skelfilega frjálshyggjusukki sem Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi Framsóknarflokksins kom okkur í þá er það þessi ótrúlegu úrslit: AÐ ÞESSIR TVEIR FLOKKAR SKYLDU FÁ MEIRIHLUTA ATKVÆÐISBÆRRA MANNA Í KOSNINGUNUM 2009! Þess vegna er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Ég ætla að ljúka þessum pistli með þökkum til Steingríms J. Sigfússonar fyrir rökfastan og málefnalegan málflutning í Kastljósi í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.8.2009 | 10:09
Hvernig eru hinir útvöldu bloggarar valdir?
Ég er búinn að vera samferða Morgunblaðinu æði lengi; sem áskrifandi, sem pistlahöfundur og nú bloggari um nokkurt skeið. Bloggið er vissulega merkilegt fyrirbæri þó ég hafi ekki séð jafn mikið bull í nokkrum fjölmiðli sem blogginu. En á milli eru ýmsar góðar ábendingar og sumir stunda yfirveguð og nokkuð innihaldsrík skrif.
En þegar slegið er á <blog.is> þá birtist fyrst aðgangur að einhverjum 8 útvöldum sem þá auðvitað verða þeir sem mest eru heimsóttir, þar fyrir neðan ýmsir sem hægt er að velja á mismunandi hátt.
En það sem vekur athygli mína er að þessir 8 útvöldu eru svo sannarlega útvaldir því líklega er þetta ekki nema 20 - 30 manna hópur sem nýtur þeirrar náðar að komast inn í þessa "elítu". Þess vegna koma þarna fyrir aftur og aftur sömu andlitin (eða merkin) og það sem er merkilegra; flestir sem þangað upp komast eru neikvæðir nöldrarar, svo virðist sem jákvæðni og bjartsýni eigi ekki upp á pallborðið þegar í "elítuna" er valið.
Nú kann einhver að spyrja; hefur þú sem þessar línur ritar aldrei komist í "elítuna" og svo er ertu þá ekki bar öfundsjúkur? Ég hef aldrei þangað upp komist, sé örstutt í smettið á mér stundum þegar ég skrifa pistil undir <nýtt blog> en er venjulega horfinn að kveldi eða morgni.
En eftir stendur spurningin: Hver velur og hvernig er "elíta þeirra átta valin"?
Líklega fæ ég aldrei svar við því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2009 | 10:19
Spellvirkjunum hossað á kostnað björgunarsveitarinnar
Sá Fréttablaðið í morgun, þökk sé nágranna mínum Ragnari. Í sjálfu sér væri mér nokkuð sama þó ég sæi ekki það blað en þegar það er komið inn um lúguna les maður það auðvitað.
Þar segir í frétt að stuðningur við Ríkisstjórnina sé kominn niður í 43%, að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn aukist, að fylgi Vinstri Græna fari dvínandi en aðrir flokkar haldi sjó. Þetta er mjög merkileg frétt og sýnir og sannar að minni háttvirtra þjóðfélagsþegna nær ákaflega skammt.
Æði margir virðast ýmist vera búnir að gleyma því, eða einfaldlega hafa aldrei gert sér grein fyrir því, að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem ber höfuðábyrgð á hruninu mikla haustið 2008 enda búinn að vera í ríkisstjórn samfellt í 18 ár.
Vissulega naut Sjálfstæðisflokkurinn dyggilegs stuðnings Framsóknarflokksins við að teppaleggja brautina fyrir fjárglæframennina sem því miður hafa fengið það allt of virðulega heiti "útrásarvíkingar". Þeir tveir menn sem þeim óhappaverkum stýrðu voru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Halldór var síðan gerður skaðlaus og sendur úr landi en Davíð Oddsson aldeilis ekki. Honum var lyft til æðstu valda í Seðlabanka Íslands til að gæta hagsmuna þjóðarinnar ásamt Heimdellingi nokkrum Jónasi Fr. sem stýrði Fjármálaeftirlitinu.
Og allir vita hvernig fór!
Ríkisstjórnin núverandi vinnum hörðum höndum við að bjarga landi og þjóð út úr ógöngum þeim sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur komu okkur við. Það er ekki auðvelt verk. Ég get hins vegar ekki séð neina tvo aðra einstaklinga til að leiða það verk en þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Auðvitað verða þau að grípa til margra óvinsælla ráðstafana. Við mig persónulega kemur það sér mjög illa að hámark tekjutengingar eldri borgara var lækkað úr 1.300.00 í 480.000. En samt sem áður styð ég þessa ríkisstjórn, hvað annað eigum við að gera?
Eigum við að leiða spellvirkjaflokkinn Sjálfstæðisflokk aftur til valda og áhrifa í íslensku þjóðfélagi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2009 | 13:57
Vofa Don Kíkóti (Don Quixote) gengur laus á G-8 fundi
Þá hafa valdamenn átta stærstu og mestu iðnríkja heims gert samþykkt sem mun síðar meir verða að athlægi og verður framvegis þekkt dæmi um heimsku og hroka, samþykkt sem nálgast að vera álíka og gjörð Kaþólsku kirkjunnar fyrr á öldum þegar hún samþykkti af miklum þunga að jörðin væri flöt og Galileo mátti þakka fyrir að ganga út frá réttarhöldum með höfuðið á búknum, sökin var að halda því fram að jörðin væri hnöttótt.
Samþykkt karlanna sjö og Angelu var hvorki meira né minna en þessi:
Hiti á hnetti okkar skal ekki hækka um meira en 2°C fram til ársins 2050!!!
Mannskepnan er vissulega orðin ráðvillt en einnig hefur hún greinilega ofmetnast, telur sig nú hafa náð svo langt að hún geti ráðið lofslagi og hitastigi heimsins. Sem betur fer er langt frá því að svo sé, maðurinn hefur engin teljandi áhrif á hitastig jarðar. Það hefur aldrei verið sannað að CO2 koltvísýringur í andrúmslofti sé að hækka hita á jörðinni. Hins vegar er CO2 ein af þeim gastegundum sem halda hita á jörðinni, án þeirrar virkni væri meðalhiti á jörðinni ekki plús 15°C heldur mínus 18°C, jörðin væri óbyggileg. Þessu "markmiði" G-áttmenninganna skal ná með því að stöðva sem mest kolefnisbruna og til þess á að verja óheyrilegum fjárhæðum. Þetta á að gera á sama tíma og börn og fullorðnir deyja úr sulti, malaríu og öðrum sjúkdómum, á meðan stór hluti mannkyns fær ekki ómengað drykkjarvatn og fátækt eykst og milljónir manna eru á flótta vegna styrjalda.
Eru engin takmörk fyrir heimsku mannanna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2009 | 23:07
Samfylkingarmaður telur að skoða eigi tillögu Sjálfstæðismanna rækilega
Horfði á Kastljós í kvöld þar sem þeir Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður og Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður tókust á um tillögu Sjálfstæðismanna um að skattleggja greiðslur í lífeyrissjóði um leið og greiðslur eiga sér stað en ekki um leið og lífeyrisgreiðslur eru greiddar út sem lífeyrir. Það var athyglisvert að þarna tókust á tveir Sjálfstæðismenn en voru þó algjörlega ósammál. Líklega er Tryggvi Þór aðal hugmyndasmiðurinn að þessari skattalegu breytingu sem myndi, eftir því sem Sjálfstæðismenn segja, gefa Ríkissjóði miklar tekjur strax og ekki veitir af, nú er leitað í hverri smugu eftir fjármunum til að fylla upp í þann rosalega fjárlagahalla sem verður viðvarandi næstu árin.
Það er skemmst frá því að segja að ég fékk þó nokkurn áhuga á þessari hugmynd Sjálfstæðismanna. Þórarinn gerði sig sekan um rökleysu þegar hann hélt því fram a þetta myndi svipta ríkið skatttekjum síðar meir en þann málflutning skil ég ekki. Almenningur mun halda áfram að greiða í lífeyrissjóði um ókomin ár og þar með mun alltaf myndast skattstofn. Það má líkja þessari breytingu við það þegar við tókum upp staðgreiðslu skatta sem ekki nokkur maður í dag efast um að var mikið heillaspor. Þar var breytt um innheimtu skatta. Fyrir breytinguna var skattur greiddur að tekjum síðasta árs (skattur greiddur að lífeyrisgreiðslum við útborgun) en eftir að staðgreiðslan var tekin upp var skattur greiddur af tekjunum um leið og þær mynduðust (skattur greiddur af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóði).
Eflaust er það rétt hjá Tryggva Þór að á þessari hugmynd eru magrir agnúar en eins og hann sagði það á að finna leiðir til að sníða þá af og einnig að það er lítil framsýni að skjóta hugmynd í kaf um leið og einhver agnnúi sést. Þórarinn sagði reyndar að ef skattur yrði tekinn af lífeyrisgreiðslum strax í upphafi væri stofninn sem ber vaxtatekjur minni framvegis og það er eflaust rétt.
En væri ekki hægt að mæta því að nokkru með því að "skera ofan af kökunni". Rekstur lífeyrissjóða er óheyrilega fjármagnsfrekur og er ekki hægt að hagræða með því að fækka lífeyrissjóðum. Hvað eru margir lífeyrissjóðir reknir hjá þessari 320.000 manna þjóð?
Ég skora á þau Jóhönnu forsætisráðherra og Steinrím fjármálaráðherra að skoða þessa tillögu Sjálfstæðismanna vandlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar