Færsluflokkur: Bloggar

Sigmundur Davíð og Vigdís voru í lágkúrunni, hryllingssaga Ásbörns Óttarssonar af kvótabraski var með ólíkindum

Eflaust hefðu margir viljað að stefnuræða Jóhönnu hefði verið miklu ítarlegri og sagt okkur nákvæmlega hvað er framundan í skattamálum, niðurskurði, skuldastöðu og fl. en við því var tæpast að búast. Lágkúruna áttu þau Sigmundur Davíð og Vigdís Hauksdóttir. Það er dapurlegt að tveir nýir þingmen skulu vera á svo lágu plani eins og þau voru í kvöld og svo kórónaði Sigmundur Davíð allt með hroka sínum; ávarpaði hvorki forseta þingsins eða áheyrendur. Það er vissulega áhyggjuefni fyrir Framsóknarflokkinn ef hann ætlar að grafa sig niður í kalt stríð að gamalli fyrirmynd. Það var nokkur annar blær á ræðu Guðmundar Steingrímssonar og ég fagna því að það skuli kominn maður á þing sem hefur það vald á mæltu máli að geta talað blaðalaust, að undanförnu hefur það verið Steingrímur einn sem hefur haft það á valdi sínu. Mér fannst Borgarahreyfingin nokkuð málefnaleg enda getur hún varla verið öðruvísi ef hún ætlar að vera trú sínum uppruna.

En Sjálfstæðisflokkurinn kom mér á óvart. Ólöf Nordal var yfirveguð eins og hún á kyn til,  var málefnaleg án allra upphrópana. Hins vegar varð ég undrandi á hvernig Bjarni Benediktsson form. Sjálfstæðisflokksins beraði sig sem vaktmann fyrir óbreytt kvótakerfi, hann eyddi talsverðu af ræðutíma sínum í að rekja hryllingsmynd útgerðarauðvaldsins að allur sjávarútvegur færi á hausinn ef fyrningaleiðin væri farin. En að hann skyldi vera svo seinheppinn að segja fyrningarleiðina "þjóðnýtingu" var með ólíkindum, Hver á veiðiréttinn, hver á auðlindina, hver á fiskinn í sjónum? Var formaður Sjálfstæðisflokksins að lýsa því yfir að auðlindir hafsins væru ekki sameign þjóðarinnar heldur óafturkræf eign fárra sægreifa?

En nýi þingmaðurinn frá Rifi var þó sá seinheppnasti í umræðunum. Sem útgerðarmaður rak hann áróður fyrir sín einkasjónarmið eins og þau koma honum fyrir sjónir en sagði sögu sem lýsti í hnotskurn hversu kvótakerfið er rotið og óheilbrigt. Útgerðarmaður í Ólafsvík seldi honum og öðrum útgerðarmanni á Rifi allan kvótann sinn á  tugi milljóna. Þeir á Rifi áttu ekki krónu og slógu lán fyrir kvótakaupunum 100%. Nú hafa þessi lán hækkað og hækkað vegna óstjórnar Sjálfstæðisflokksins, en hvað um þann sem seldi?. Hann lifir eins og blómi í eggi, ávaxtaði það sem hann fékk fyrir kvótann og þarf ekki að dýfa hendi í kalt vatn, Hann á enn bátinn sem hann fékk kvótann út á en sá bátur fer aldrei úr höfn lengur.

Þetta sagði Ásbjörn í ræðu á Alþingi, þarna lýsti hann réttilega þessu  gjörspillta kerfi, maður selur réttindi sem samfélagið veitir honum, hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi sameign þjóðarinnar yrði braskvara sem gerði suma svo ríka að þeir geta lifað í vellystingum praktuglega án þess að þurfa nokkuð fyrir því að hafa.

Hvernig fór fyrir Eskju á Eskifirði, hvert fóru lötu erfingjar Alla ríka með andvirði kvótans, hvernig var með "dýrasta" skilnað Íslandsögunnar þegar Samherjaforstjórinn skildi við eiginkonu síns. Hann varð að borga henni væna summu vegna syndandi þorska í sjónum. Áður hafði sameigandi hans og frændi fengið einnig stórar summur fyrir lifandi þorska sem þeir töldu sig eiga, frændinn flutti til Reykjavíkur og braskaði þar með þorskapeningana, sem við, þjóðin, héldum að við ættum.

Ef einhver útgerðar - eða fiskvinnslufyrirtæki fara á hausinn við fyrninguna þá mega þau fara rúllandi á hausinn, þá er enginn grundvöllur fyrir tilveru þeirra. Það eru nógu margir sem eru reiðubúnir til að ná í þann fisk sem við fáum að veiða árlega.


Frá árinu 2002 hefur verið kólnun á jörðinni, ekki hlýnun

Hér kemur línurit sem sýnir þróun hitastigs á jörðinni frá árinu 2001.

 L�nurit um �r�un hitastigs

Dökka línan sýnir mælingar úr gervitungli, sú rauða mælingar á jörðu.

Þetta sýnir "Global cooling" en ekki "Global warming". Það er hinsvegar staðreynd að koltvísýringur CO2 hefur aukist í andrúmslofti á sama tíma. Af hverju hefur þá ekki verið stöðug hlýnun á jörðinni ef þetta gas er sá orsakavaldur sem "alarmistar" (dómsdagsspámenn) halda fram?

Af hverju stafaði sú mikla hlýnun sem var á miðöldum þegar miklu minna var af CO2 í andrúmslofti? Af hverju stafaði "Litla ísöld" á milli áranna 1600 - 1700?


Það var miklu hlýrra á Sturlungaöld en í dag, það viðurkenna allir heiðarlegir vísndamenn

Hann Hilmar í Sápuboxinu er loksins búinn að viðurkenna að Hokkýstafurinn hans Michael Mann er röng vísindi, ég segi ekkert annað en fölsun. Hokkýstafinn bjó MM til svo hann gæti sannað að hitastig á jörðinni hefði ekki verið hærra á norðurhveli jarðar sl. 1000 ár en á síðustu árum frá aldamótum. Hann þurrkaði einnig út "Litlu ísöld" þegar frost voru svo ströng að Thamsá í London varð ísilögð.

Samaburður á Hokkýstaf og raunveruleika

Hér er samanburður á hinum fráleita Hokkýstaf og því sem sannast hefur verið talið miðað við gögn, sögur og annála. Af því má sjá að hitinn var mestur um 1200 en lægstur 1600 - 1700. Nú er Michael Mann búinn að viðurkenna sína fölsun og færa Hokkýstafinn nær hinum eldri gögnum. Þá er hann heldur ekki lengur neinn Hokkýstafur heldur verður honum kastað á ruslahaug vísindanna, því miður er sá haugur allt of stór.

 


Dómsdagur er í nánd segir World Wildlife Fund

Það er hrikaleg frétt í Fréttablaðinu í morgun. Það lítið hægt að segja við því að fjölmiðlar flytji slíkar fréttir. Hins vegar get ég sagt út frá þeirri þekkingu sem ég ef aflað mér að þessi"dómsdagsspá" er að nánast ekkert annað en enn ein skelfingarfréttin frá "alarmistum" sem ekki er byggð á vísindum heldur trúarhita, það skal ofan í lýðinn að maðurinn sé með sínum gjörðum að eyðileggja jörðina.

Sem betur fer er þetta litla peð, maðurinn, ekki með þá þekkingu og kraft til að vinna slíkt skemmdarverk. Því síður getur hann breytt neinu teljandi á jörðinni, allra síst að minnka magn koltvísýrings CO2 í andrúmslofti. Það er ekki hægt að neita því alfarið að maðurinn geti aukið magn CO2 en það er svo lítið að ekki skiptir máli. Nú er búið að reka flestar iðnvæddar þjóðir til að vinna gegn þessum meinta vágesti, CO2, með óheyrilegum kostnaði, skattlagningu og ekki síður að byggja heilu "skrímslin" til að vinna CO2 úr loftinu og festa niður í berglögum. Þó er vitað að það er sáralítið sem vinst í því að minnka magn CO2.

Hins vegar hefur þessi eindæma barátta gegn þessu lífsnauðsynlega gasi CO2 (það stendur undir öllum gróðri á jörðinni og sér okkur þar með fyrir súrefni) orðið til þess að athyglin beinist eingöngu þangað, allt annað virðist ekki skipta máli. Öll sú mengun sem er á jörðu niðri virðist gleymd, mengunin sem liggur í strætum borga, CO útblástu bíla (CO er ekki það sam og CO2) svifryk, allt það óhemjudrasl sem er hent í höfin, allt votelndið sem er eyðilagt,  svo mætti lengi telja.

Það er ekki í "tísku" að tala um annað en "loftslagsbreytingar af manna völdum".

Þær eru sáralitlar sem engar.


Getur verið að ég sé með áfallastreituröskun?

Hvað veit maður. Satt best að segja hef ég verið sáralítið sótthræddur á minni löngu ævi en kannski ætti maður að vera betur á verði. Ég hef látið mér í léttu rúmi liggja hvort svínainflúensan er komin til landsins og hvorki keypt mér grímu, spritt eða einhver töfralyf til að varna þessum veiruher að komast inn í skrokkinn á mér (Biðst afsökunar, ég á víst að segja "versla mér" en ekki "kaupa mér" skv. hinum einörðu tilskipunum fjölmiðlafólks).

En það er þetta með áfallastreituröskunina. Ég held að ég skilji íslensku nokkuð vel en verð að segja eins og er; orðið áfallastreituröskun veldur mér talsverðum heilabrotum, ég veit að þetta kemur eitthvað inn á heilbrigðið. En nú held ég að ég sé búinn að skilja þetta til fulls.Þetta á við ef maður verður fyrir áfalli, dettur niður stiga, verður fyrir bíl, stígur á nagla eða eitthvað annað. Þá er áfallið komið, ekki vafi. Af áfallinu fæ ég líklega streitu, það er víst eitthvað skylt við það sem í gamla daga var kallað taugveiklun eða móðursýki. En þá fer málið að vandast. Ef streitan er ekki  viðvarandi heldur að koma og fara þá er streitan sem sagt að raskast, hún slitnar sundur. Er það þá jákvætt að vera stöðugt með streitu, er það betra en að hún sé á stöðugut að raskast? En ef hún kemur og fer eins og sjávarföll þá er viðkomandi klárlega kominn með "áfalla-streitu-röskun"

Nei skrattakornið, ég held að ég sé ekki með "áfallstreituröskun".

 


Nýja ríkisstjórnin stendur frammi fyir hrikalegum vandamálum

Aldrei hefur nokkur ríkisstjórn á íslandi tekið við jafn hrikalegu búi og ríkisstjórnin sem tók við í gær. Það er full ástæða til að fagna því að í fyrsta skipti hefur komist til valda ríkisstjórn sem byggir á norrænum gildum jafnaðarmanna. Ráðherralisti stjórnarinnar er traustvekjandi. Það er rétt ráðið að þeir tveir ráðherrar sem eru utan þings, þau Ragna og Gylfi og sátu í 99 dag ríkisstjórninni, sitji áfram. Störf Rögnu hafa verið meira í skugga en ég vona af heilum hug að hún taki til hendi nú strax og rösklega að þvo þann smánarblett af stjórnvöldum og þjóðinni allri; hvernig við höfum tekið við hrjáðum flóttamönnum, það má telja á fingrum annarrar handar þá einstaklinga sem við höfum rétt hjálparhönd, viðbrögðin gagnvart flóttamönnum hafi nær alltaf verið þau að hrekja þá úr landi. Þetta verður Ragna að taka föstum tökum. Það er mikill fengur að Gylfi verði ráðherra efnahagsmála, hann er yfirvegaður og hefur mikla þekkingu á sínu sviði. Vonandi á Svandís farsælan feril sem Umhverfisráðherra framundan, hún hefur vítin að varast ef hún lítur á störf fyrirrennara sinna Þórunnar og Kolbrúnar. Fyrir Kópavogsbúa til margra áratuga er það sérstakt fagnaðarefni að "Kata stelpan úr Kópavogi" sé orðinn ráðherra, tekur hvorki meira né minna við einu af umdeildustu ráðherraembættunum, verður Iðnaðarráðherra. Og svo er það "Árni Páll strákurinn úr Kópavogi" sem tekur við einu viðkvæmasta málaflokknum, félagsmálunum. Ég tel að það hafi verið rétt að fjölga í ráðherrastöðunum við þessar aðstæður sem nú eru, að sjálfsögðu hefði það ekki verið neitt vit að Steingrímur hefði verið með sjávarútveg og landbúnað á sínum herðum ofan á fjármálaráðuneytið svo dæmi sé tekið. En Jóhanna forsætisráðherra er verkstjórinn og tæpast væri hægt að finna hæfari einstakling til að sinna því risavaxna verkefni en hana.

En svo kemur stóra spurningin; hvernig mun stjórnarandstaðan starfa á Alþingi?

Það eru vissulega slæm teikn á lofti um hvernig Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, þessir tveir flokkar sem eiga nær alfarið sök á óförum lands og þjóðar ásamt fjárglæframönnum sem fengu að leika sér að fjöreggjum þjóðarinnar í boði þessara tveggja flokka, ætla að starfa í stjórnaraðstöðu. Hjá báðum foringjunum, Bjarna Ben. og Sigmundi Davíð, er þegar farið að glitta í skóflublöðin. Ætla þeir virkilega að grafa sig niður í gamaldags skotgrafir? Framganga Sjálfstæðismanna á Alþingi fyrir kosningar er svo sannarlega ekki góð vísbending um hvað í vændum er. En við skulum vona það besta. Þessir foringjar stjórnarandstöðunnar ættu að gera sér grein fyrir því að þjóðin mun fylgjast með þeirra störfum ekki síður en með störfum ríkisstjórnarinnar. Mér sýnist að hinir fáu þingmenn Borgarahreyfingarinnar ætli að vinna málefnalega, vonandi vinnur öll stjórnarandstaðan þannig.


Svínaflensan er ekkert annað er svínaríis blekking

Fyrir það fyrsta kemur þessi flensa svínum ekkert við. Það er líklega of seint að koma þeim skilaboðum til Egypta, þeir eru víst þegar búnir að slátra sínum svínastofni, 300.000 dýrum, líklega hafa þau verið brennd.

Þeir sem yngri eru muna víst ekki hvað gerðist árið 1976. Þá kom upp "svínaflensa" með tilheyrandi "hysteríu" svipaðri og í dag. Þetta fjaraði að mestu út eins og er að koma á daginn með núverandi "svínaflensu". Þegar eru farnar að berast fréttir frá Mexíkó sem segja að þetta sé ekki eins alvarlegt og einhlýtt og af var látið í byrjun. Þetta er búið að skaða stórlega þjóðarbú Mexíkó en það eru aðrir púkar sem fitna. Það sama er að koma í ljós og árið 1976 að þessir púkar eru lyfjaframleiðendur. Þeir eru búnir að setja allt í gang til að framleiða bóluefni og þeir sem framleiða önnur flensulyf rokselja sína framleiðslu og ekki má gleyma öllum grímunum sem selst hafa.

Og að sjálfsögðu taka hinar einföldu sálir á fjölmiðlunum þátt í leiknum, fréttafólk sem er stöðugt í vandræðum með að verða sér út um krassandi fréttir, hér komust þeir í feitt. Allir fréttatímar í ljósvakamiðlum og prentmiðlum  stútfullir af æsifréttum um þessa ómerkilegu flensu, toppar fréttanna eru auðvitað ef hægt er að segja frá að einhverjir hafi dottið niður dauðir af hennar völdum.

Það er dapurlegt að "upplýstir" Íslendingar skuli láta draga sig á asnaeyrunum og kaupa og kaupa eins og þeir eigi lífið að leysa alls kyns óþarfa út af einhverri flensu sem er ekkert verri né hættulegri en flensur eru yfirleitt. Á ári hverju deyja  margir víðs vegar um heiminn úr inflúensu, það er nú einu sinni gangur lífsins.

Eitt sinn skal hver deyja! 


Það vantar almanna og hlutlausa umræðu um loftslagsmál

Loftslagsstofnun Sameinuðu þjóðanna heitir Intergovernmental Panel on Climate Change, skammstafað IPCC. Flestir stjórnmálamenn heimsins styðjast við niðurstöður hennar til að mynda sér skoðun í loftslagsmálum.
Það er ógnvekjandi hve sáralítil þekking er á hugtökum og efnum sem helst eru nefnd í umræðu um þetta mikilvæga mál. Það er sífellt verið að nefna gróðurhúsalofttegundir, gróðurhúsahjálm og koltvísýring CO2. Það er engin furða þó það sé orðin útbreidd skoðun, eða jafnvel trú, að þetta þrennt sé einungis af hinu illa,  eitthvað nýtilkomið sem ógni framtíð okkar hér á jörðu.
Eigum við að skoða þessi þrjú hugtök aðeins nánar?

Gróðurhúsalofttegundir
Fjórir ráðherrar í sænsku ríkisstjórninni voru nýlega spurðir hvað væri ríkjandi gas eða efni í hinum svonefnda gróðurhúsahjálmi. Einn svaraði ekki, hinir þrír voru ekki í vafa; það væri að sjálfsögðu koltvísýringur CO2.
Er það svo?
Fjarri því, það efni sem er þar ríkjandi er vatnsgufa, hún er 95% af gróðurhúsahjálminum, önnur efni má nefna svo sem metan og óson. En hvað þá um CO2, er það ekki þarna einnig og alltaf að aukast?
Koltvísýringur CO2 er aðeins 0,039% af því sem nefnist gróðurhúsalofttegundir í gufuhvolfi jarðar, þetta gas hefur aukist nokkuð frá því mælingar á því hófust árið 1958. Síðan geta menn deilt um það hvort þessi litla aukning sé af manna völdum eða ekki. Eitt er víst; magn þessa gass hefur oft verið miklu meira fyrr á árum og öldum og það meira að segja áður en maðurinn fór að ganga uppréttur. Slíkar upplýsingar hafa fengist úr borkjörnum á Grænlandsjökli og Suðurskautinu og ekki síður úr setlögum á botni Atlantshafs.
Svo geta menn dregið sínar ályktanir af því hvað áhrif svona örstærð, 0,039%, getur haft á veðurfar heimsins.

Gróðurhúsahjálmur
Það eru margir farnir að líta á þetta náttúrufyrirbrigði sem óvin lífs á jörðinni, jafnvel að grípa þurfi til aðgerða. Með orðinu gróðurhúsahjálmur er átt við það sem á ensku nefnist”greenhouse effect” sem er samansafn efna í gufuhvolfinu sem hafa þann eiginleika að halda á okkur hita. Sólargeislarnir eru svo sterkir að þeir fara auðveldlega í gegnum þessi efni og til jarðar sem betur fer. En við vitum að eftir sólríkan dag og með heiðan himinn töpum við miklum varma aftur til baka. En þá vinnur gróðurhúsahjálmurinn sitt verk; hann hamlar miklu af þessu varmaútstreymi og þar er komin enn ein forsenda þess að það er líf á jörðinni.
Það er erfitt að meta hver er meðalhiti á jörðinni en hann er talinn nálægt +14°C. Ef enginn gróðurhúsahjálmur væri til og ekkert hindraði þar með endurkast varma frá jörðinni væri meðalhiti á jörðinni ekki +14°C heldur -18°C, með öðrum orðum það væri hér 18 stiga frost sem meðalhiti.
Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um það að þá væri lífið erfitt á jarðkúlunni eða jafnvel útilokað.




Koltvísýringur CO2
Því miður virðast fjölmargir vera komnir með þann skilning að koltvísýringur CO2 sé hættulegasta mengun heimsins í dag og það er farið að verja gífurlegum fjárhæðum í að binda þetta gas og loka það niður í berglögum svo það vinni ekki meintan skaða. Meira að segja er Orkuveita Reykjavíkur farin að föndra við það á Hellisheiði. En eru menn að gleyma því að koltvísýringur CO2 er ein af undirstöðum lífs á jörðinni? Það er einn helsti og nauðsynlegasti vaxtarhvati allra jurta og við þá vinnslu verður súrefnið eins konar aukaafurð, lofttegundin sem flestar dýrategundir, ekki aðeins maðurinn, verða að hafa til að lifa. Það er velþekkt hjá garðyrkjubændum að auka vaxtarhraða gróðurs með því að fá koltvísýring CO2 á tönkum og auka magn hans inni í gróðurhúsum. Þær raddir hafa heyrst að CO2 í andrúmslofti mætti gjarnan vera þrisvar sinnum meira en er staðreynd til að tryggja öruggan vöxt jarðargróðurs sem víðast.
Það má því halda því fram með fullum rökum að með því að berjast gegn og hefta myndun koltvísýrings CO2 sé unnið skemmdarverk gegn náttúrunni, gegn gróðrinum. Allir þekkja þetta gas í kolsýrðum drykkjum og þar kemur ýmislegt fróðlegt í ljós svo sem að ekki er hægt að kolsýra vökva nema hann sé undir +5°C.
Þetta gas er bundið í miklu magni í höfunum og það þarf ekki mikla hækkun sjávarhita til að losun koltvísýrings CO2 aukist. Er aukning CO2 í andrúmslofti kannski alleiðing af hækkandi sjávarhita en ekki orsök hitnunar? Hvað er eggið og hvað er hænan?
Okkur er sagt að yfirborð sjávar sé að hækka vegna bráðnunar íss, látum það liggja milli hluta. En það er eðli flestra vökva að rúmmál þeirra eykst ef hitastig þeirra hækkar, að sjálfsögðu gerist það í höfunum einnig. Það er mögulegt að sjávarborð hækki þó enginn ís sé að bráðna umfram það sem gerist árlega.
Skemmtileg spurning; hvað mundi yfirborð sjávar hækka ef allur ís á Norðurskautinu bráðnaði?
Svari nú hver fyrir sig.
Vegna þess hve einhliða fréttir í fjölmiðlum um meinta hlýnun jarðar er og að hún sé af manna völdum er rétt að benda á slóðina sem Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur heldur úti, þar er samankominn mikill fróðleikur, settur fram á skiljanlegu máli og af hlutleysi.
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/#entry-787046+

Nú er lag, Kristján Möller



Allt er til endurskoðunar eftir fall frjálshyggjunnar, við verðurm að velta hverri krónu fyrir okkur til að brjótast upp úr því fjárhagslega dýki sem þjóðin er fallin í og hófst með einkavæðingu bankanna til fjármálamanna og fjárglæframanna tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og svo kom hin skelfilega útrás í kjölfarið.
Það er líklega eins og að skvetta olíu á eld að leyfa sér að taka enn upp þráðinn; er ekki hægt að fara skynsamlegri leiðir í endurbyggingu Suðurlandsvegar en þá misráðnu leið sem valin hefur verið? Fjölmargir Sunnlendingar eru haldnir þeirri áráttu að sjá ekkert annað er 2+2 lausnina þó það sé kristalstært að sú leið er að minnsta kosti helmingi dýrari en 2+1, jafnvel þrisvar sinnum.
Allur aðdragandi að ákvarðanatöku um endurbyggingu Suðurlandsvegar var flumbrugangur þegar þjóðin var enn á fjármála- og útrásarfylliríi. Skítt með hvað hlutirnir kostuðu, allt átti að vara fínt og flott, helst eins flott og í henni Ameríku þar sem 2+2 vegir liggja þvers og kruss yfir það mikla meginland. En á þeim tíma, sem þær ákvarðanir voru teknar, voru Evrópuþjóðir farnar að hugsa sinn gang, jafnvel að fleygja ekki peningum í óþarfa eða flottræfilshátt. Nú er svo komið að Ameríkanar eru orðnir lærisveinar Svía í að velja frekar 2+1 lausn í vegamálum, nýta fjármagnið betur og tryggja hámarksöryggi á nýjum vegum.
Það verður a segja það eins og er; ákvörðun um lagningu 2+2 vegar milli Reykjavíkur og Selfoss er ekkert annað en flottræfilsháttur. Á umferðarþingi, sem haldið var í Reykjavík á síðasta ári, var einn af fremstu umferðafræðingum heims furðu lostinn yfir þessari ákvörðun. Sagði að þar sem menn hugsuðu af skynsemi þyrfti umferðin að vera tvöfalt meiri en nú er á Suðurlandsvegi til að svo mikið sem til greina kæmi að leggja 2+2 veg, bætti því svo við að reynslan sýndi að 2+1 vegur væri ekki aðeins helmingi ódýrari heldur jafnvel öruggari.
En ákvörðunin um endurbyggingu Suðulandsvegar var tekin í flaustri að pólitíkusum sem völtuðu yfir Vegagerðina og alla sérfræðinga í vegamálum, létu undan múgsefjun og háværum hrópendum hér austan fjalls. Aðeins tvennt kom til greina; í fyrsta lagi að elta gamla vegastæðið eins og það liggur yfir veðravítið Hellisheiði og blása á allt sem hét hagsýni í peningamálum.
Nú vill svo til að lykilmaðurinn í öllum þessum ákvörðunum er enn á sínum stað, Kristján Möller er ennþá samgönguráðherra.
Ég skora hér með á Kristján Möller að taka allt málið til endurskoðunar, bæði val á vegastæði og hugsa svolítið meira um fjárhagslega hagkæmni, ekki veitir af eða hvað?
Tökum upp aftur þá hugmynd að Suðurlandsvegur verði lagður um Þrengsli en ekki Hellisheiði. Vegurinn verði síðan lagður þvert yfir Ölfus frá Þrengslum að Ölfusá og nýja brúin yfir Ölfusá komi fyrir sunnan Selfoss, en ekki norðan. Suðurlandsvegurinn verði síðan tengdur við núverandi Suðurlandsveg við Gaulverjabæjarveg eða á þeim slóðum austan við Selfoss. Vegurinn yfir Hellisheiði verði á sínum stað og haldið við, endurbættur í 2+1 þar sem þörf þykir, það endar hvort sem er með því að það verða boruð göng undir Hellisheið þegar við komumst upp úr fjárhagslega dýkinu. Um Hellisheiði færu Hvergerðingar og íbúar í efri hluta Árnessýslu ásamt öllum sumarhúsaeigendum sem eiga bústaði á því svæði. Með þessu er létt miklli umferð af efra Ölfusi, þar er að þéttast byggð og það er mikið glapræði að leggja Suðurlandsveginn, sem þjónar ekki aðeins Suðurlandi heldur einnig Austfjörðum, um það svæði.
Kjarninn í þessum hugmyndum, sem eru engan veginn nýjar af nálinni, er að kljúfa umferðina í sundur við gatanmótin í Svínahrauni, þar velja vegfarendur þá leið sem þeim hentar best. Þessar hugmyndir gera einnig hinn rándýra 2+2 veg með öllu óþarfan og ég veit, eða vona, að allir gera sér grein fyrir að nú þarf að nýta fjármuni sem allra, allra best.
Kristján Möller samgönguráðherra,nú er lag.
 
Þessi grein er búinað liggja lengi hjá héraðsfréttablaðinu "Dafskráin" á Selfossi án birtingar. En svo virðist sem Magnús Hlynur ritstjóri og útgefendur hugsi ekkert um annað en að græða á auglýsingum eftir að héraðsfréttablaðið "Glugginn" lagði upp laupana. Það væri kannski ráð að endurvekja "Gluggann"?

Sigurður Grétar

Sérfræðingur


Lagnafréttir: Er þetta heiðarleg ráðgjöf?


Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan hófst merkileg þróun. Þá hófst fyrir alvöru lögn snjóbræðslukerfa hérlendis. Þá höfðu Svíar um nokkur ár þróað snjóbræðslukerfi sem þeir nefndu Meltaway, lögðu talsverða fjármuni í þetta verkefni, framleiðslu á snjóbræðslurörum, val á öðrum búnaði og rannsökuðu hvað þyrfti mikla orku til að hitun gangstíga, gatna og torga kæmi að gagni. En einmitt fyrir um þrjátíu og fimm árum kom áfall sem síðan hefur verið nefnt olíukreppan, olíuverð rauk upp í svimandi hæðir. Þetta varð til þess að snjóbræðslur urðu sjaldséðar í Svíþjóð þar sem borga þurfti fyrir hverja hitaeiningu sem fór til hitunar.
En eins dauði er annars brauð og þarna fengu Íslendingar kjörið tækifæri. Hérlendis var í hverju húsi kastað talsverðum varma með afrennsli frá hitakerfum. Þá var unnið að hitaveitulögnum víðs vegar um land, Reykjavík var öll hituð upp með jarðvarma, Kópavogur samdi við Hitaveitu Reykjavíkur um lögn hitaveitu um kaupstaðinn, síðan komu flestir nágrannar Reykjavíkur í kjölfarið.
Það var sænska Meltaway kerfið sem varð grundvöllur þróunar snjóbræðslukerfa hérlendis, en það kerfi hentaði ekki að öllu leyti okkar góðu aðstæðum. Þess vegna varð að laga það að íslenskum aðstæðum, fyrst og fremst hvernig hægt væri að beisla og nota þann ókeypis varma sem rann fram að því beint í skólpkerfið engum til gagns.
Það sem haft var að leiðarljósi við þá aðlögun var að þróa einfalda, örugga og eins ódýra tengigrind og unnt var. Þetta tókst það vel að síðan hafa verið lögð og tengd þúsundir snjóbræðslukerfa eftir þessari fyrstu forsögn. Þessi kerfi hafa unnið sitt verk og skilað því sem til var ætlast; að halda gangstígum, bílastæðum og götum hálkulausum, að nýta svo sem unnt var afgangsvatnið frá hverju húsi, stundum með svolítilli viðbót sem ekki kom nema sáralítið við pyngjuna.
En nú er kominn markviss áróður frá lagnaverslunum að þessa einföldu og öruggu leið, sem hefur ótvírætt sannað gildi sitt, sé ekki hægt að fara lengur. Nú verði hver sá sem vill kallast maður með mönnum að kaupa innflutta stöð sem samanstendur af öllum þeim ónauðsynlegu tækjum sem hægt er að koma fyrir í einum slíkum grip. Þar verði að vera auk hefðbundins stýribúnaðar varmaskiptir, þensluker, dæla o. fl. Þá verði einnig að setja frostlög á öll kerfi, hina góðu reynslu af því að nota afrennslisvatnið beint sé úrelt tækni. Meðfylgjandi er sýnd auglýsing frá einni lagnaverslun, gæti verið frá hverri sem er, það er sami rassinn undir þeim öllum hvað þetta varðar. Í auglýsingunni stendur svart á hvítu að nú sé tíminn til að ráðast í snjóbræðslulögn, rörin séu ódýr og hin gjörsamlega óþarfa stöð hafi verið lækkuð í verði og kosti nú ekki nema röskar 153.000 kr. Svo er klykkt út með það að starfsmenn verslunarinnar veiti viðskiptamönnum ráðgjöf varðandi snjóbræðslukerfi.
Þarna er verið að reyna að lokka saklausa viðskiptamenn til að kasta á glæ á annað hundrað þúsund krónum, verið að beina þeim inn á þá braut að hafna áratuga reynslu til þess að fleiri krónur komi á kassann hjá versluninni.
Er þetta heiðarleg ráðgjöf?

gamalt_og_gott.png
Góð reynsla Þetta er ódýr og einföld tenging á snjóbræðslukerfi við fjölbýlishús í Reykjavík. Þar var lagt mat á í hve stórt svæði afrennslið frá hitakerfinu mundi duga. Lagt var snjóbræðslukerfi í gangstétt meðfram þremur stigahúsum, í tröppur og akbraut meðfram bílastæðum. Þetta kerfi er eingöngu hitað upp með afrennslinu, engin viðbót, hefur gengið áfallalaust í 20 ár.
 
Grímulaus sölumennska Þessi auglýsing frá lagnaverslun reynir að sannfæra viðskiptamanninn  um að kaupa „stöð“ með ónauðsynlegum búnaði, reynt að lokka hann til að leggja á annað hundrað þúsund krónur að nauðsynjalausu í kassann hjá seljandanum.

Grímulaus sölumennska

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er pistillinn "Lagnafréttir" sem dæmdur var óhæfur til birtingar í Fasteignablaði Morgunblaðsins. Mér finnst ástæða til að birta hann nú þegar vorverkin eru að hefjast.

Sigurður Grétar Guðmundsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband