Færsluflokkur: Evrópumál
23.2.2011 | 15:03
Ólafur Ragnar fyrir ári: Stöndum við skuldbindingar okkar
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Bloomberg TV Europe í morgun að allsendis væri óvíst hvort Íslendingar skulduðu Bretum og Hollendingum neitt vegna Icesave.
Fyrir rúmu ári skömmu eftir að hann synjaði lögum um Icesave staðfestingar í fyrra skipti sagði forsetinn þetta í viðtali við sömu sjónvarpsstöð: Ég vil segja þetta alveg skýrt: Íslendingar eru ekki að hlaupast undan skuldbindingum sínum. Lögin sem ég skrifaði undir í september [2009] og eru í gildi byggjast á þeirri meginreglu að Íslendingar viðurkenna ábyrgð sína og skuldbindingar sínar, samkvæmt samkomulagi við Breta og Hollendinga.
Fréttakonan spurði þá: Fá Bretar og Hollendingar endurgreitt að fullu? og forsetinn svaraði:
Að sjálfsögðu. Eins og ég sagði þá byggjast núgildandi lög á samningi milli landanna. [...] Íslendingar eru á engan hátt að hlaupast undan þeim skuldbindingum.
Meiri undrun vekur að Davíð Oddsson seðlabankastjóri Íslands skuli leyfa sér að hljóðrita samtal við stéttarbróður sinn en það er skylda í öllum samskiptum rafrænt, á netinu og einnig í síma, að láta viðmælandann vita að viðtalið sé tekið upp eða hljóðritað. Ekki vekur það minni furðu það sem kom í fréttum RÚV í morgun að ein af nefndum Alþingis sé búin að fá þetta samtal í útskrift. Strax eru Alþingismenn farnir að ræða innihald samtalsins en segja svo í öðru orðinu að auðvitað séu þeir bundnir þagnarskyldu!
Hvað skyldi sú þagnarskylda halda lengi?
Var samtalið birt með samþykki Mervyn King eða blásum við á allar samskiptareglur og lágmarks kurteisi?
15.12.2010 | 10:23
Aðeins um tvennt að velja í ICESAVE málinu skelflega
Hverjir eru þessir tveir kostir?
1. Samþykkja fyrirliggjandi samning.
2. Samþykkja ekki fyrirliggjandi samning og vísa þar með málinu inn á dómstólaleiðina.
Margir lögfróðir menn halda því stíft fram að Íslendingum beri ekki að greiða nokkurn skapaðan hlut vegna ICESAVE. Ekki er ég nægilega lögfróður til að gata gert mér grein fyrir ábyrgð okkar á greiðslu eða ekki. En eitt er víst, það ólánsfyrirtæki gamli Landsbankinn fór með ryksugu um Holland og Bretland til að hafa sparifé út úr auðtrúa sálum. Nú eru allar líkur á að þær eignir sem til eru í þrotabúi gamla Landsbankans fari langleiðina til að greiða skuldina. Ekki getur nokkur maður efast um að þar er um réttláta kröfu að ræða, ICESAVE skuldin mun greiðast að mestu leyti með eignum gamla Landsbankans, þar er um forgangskröfu að ræða.
En eitthvað stendur út af og þar kemur til kasta Ríkissjóðs að standa skil á því, líklega nær 50 milljörðum króna sem að sjálfsögðu verður að greiðast í evrum og pundum. Þar í liggur nokkur gengisáhætta, tæplega mun gengi íslensku krónunnar styrkjast næstu árin, hættan á falli er meiri.
Hvað gæti gerst ef samningum um ICESAVE verður hafnað (annaðhvort af þingi eða þjóð)?
Það er möguleiki á að gjaldskylda íslenska ríkisins verði dæmd okkur í vil, Ríkissjóði beri ekki að greiða umfram það litla sem er í Tryggingarsjóði fjármálafyrirtækja.
En hættan leynist bak við hornið. Íslenska ríkið ábyrgðist sparifé í íslenskum bönkum en aðeins á Íslandi, ekki í útlöndum. Þar er ekki um þjóðernislega mismunun að ræða heldur landfræðilega. Útlendingar sem kunna að hafa átt sparifé í íslenskum bönkum á Íslandi njóta tryggingar, en Íslendingar sem eiga sparifé í íslenskum bönkum í útlöndum njóta ekki tryggingar.
Það er mikil hætta á að þessi mismunun verði dæmd ólögleg og þá er ekki aðeins um lágmarkstryggingu á sparifé að ræða heldur 100% ábyrgð. En slíkur dómur skellur á íslenska ríkinu eru dökkir dagar framundan í íslenskum fjármálaheimi, mundum við standa undir slíkum dómi?
Það er ákaflega léttvægt að hrópa borgum ekki, borgum ekki. Hver og einn Íslendingur verður að skoða ICESAVE málið vandlega, allir verða að gera sér grein fyrir hvað það getur kostað að samþykkja fyrirliggjandi samning til lausnar deilunni, en ekki síður hver áhættan er að hafna honum.
Ég hef komist að niðurstöðu; ég tel að Alþingi eigi að samþykkja samninginn. Þar skora ég á stjórnarandstöðuna að vinna af heilindum og ábyrgð, það er full ástæða til að hafa grun um að hún (eða hluti hennar) ætli að nota þetta grafalvarlega mál í pólitískum hráskinnaleik.
Ef málið fer í þjóðaratkvæði mun ég greiða atkvæði með samþykkt þess samnings sem nú liggur fyrir til lausnar ICESAVE deilunni. Að láta það fara dómstólaleiðina er yfirþyrmandi áhætta, það gæti endað með ósköpum.
19.11.2010 | 11:59
Það verður að endurheimta eignarétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, ætlum við að gefast upp fyrir afturhaldsaflinu LÍÚ?
Mér er minnisstæð heimsókn til góðs vinar í Vestmannaeyjum. Hann ók mér um alla Heimaey, upp á nýja hraunið og að lokum umhverfis höfnina. Þar lágu reisuleg fiskiskip við festar. Hann benti mér á nýlegan togara af minni gerðinni og sagði "Þarna er arðsamasta skip flotans hér í Eyjum, það hefur þó ekki farið úr höfn síðustu árin". Ég varð eitt spurningamerki og skildi ekki neitt. "Einfalt mál, eigandinn nennti ekki að standa í þessu útgerðarströggli, fór í land og leigði kvótann. Hann lifir nú góðu lífi á þessum ágætu tekjum".
Ef eitthvað sýnir í hnotskurn það skelfilega sukk og spillingu sem íslenskur sjávarútvegur er sokkinn í þá er þessi litla saga efst í mínum huga.
Sú var tíðin að allir gátu róið til fiskjar og fiskað eins og hver vildi. Einkennilegt finnst mér samt að það var á þeim árum sem útlendingar, einkum Bretar, gátu fiskað eins og þeir vildu á íslenskum miðum. En með órofa samstöðu (slíkri sem okkur sárvantar nú í þjóðmálum í heild) var ekki látið staðar numið fyrr en við höfðum fengið lögsögu yfir 200 mílna belti umhverfis landið frá grunnlínupunktum. Þvílík breyting frá því að lögsaga okkar var einungis 3 mílur frá strandlengju.
En svo einkennilega bregður við að eftir að við leiðum vísindi inn í fiskveiðarnar og rekum alla útlendinga frá okkar fiskmiðum þá dregst afli saman. Þá er kvótakerfið innleitt, ekki hægt að komast hjá því segja menn. En eins og alltaf verður þegar gæði eru takmörkuð þá heldur spillingin innreið sína. Útgerðarmann sóttu fast á að fá kvótann eignfærðan og misvitrir stjórnmálamenn létu undan þrýstingnum enda áttu sumir þeirra beinna hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Fyrir tuttugu árum var kvótinn í rauninni gefinn útgerðarmönnum, hann gerður að braskvöru, keyptur, seldur og leigður.
Kvótinn er orðinn eign útgerðarmanna á ólöglegan hátt eins og dómar hafa staðfest. Þar með eru útgerðarmenn komnir með dýrmæta eign sem ekki aðeins má kaupa, selja eða leigja. Þess eign má ekki síður veðsetja og fá peninga í kassann, þá drukku útgerðarmenn eiturbikarinn í botn.
Ég átti í nokkrum skoðanaskiptum við útgerðarmann hér í Þorlákshöfn ekki fyrir löngu og hann viðurkenndi tvennt alveg óvænt. Í fyrsta lagi að íslenskur sjávarútvegur væri búinn að veðsetja sig upp í rjáfur, ekki aðeins í íslenskum lánastofnunum heldur einn í útlendum bönkum og í öðru lagi að skuldsetningin kæmi fyrst og fremst af þeim skelfilegu peningaútlátum greinarinnar til að kaupa þá, sem hættu útgerð, út úr greininni. Þannig hafa þeir sem hætt hafa mergsogið greinina, horfið á braut með mikið fjármagn sem þeir hafa ýmist braskað með í öðrum greinum eða notað til að lifa hinu ljúfa lífi í heimsborgum eða flatmaga á sólarströndum.
Það hefur aldrei staðið til að rústa íslenskri útgerð með því að vinda ofan af þessu skelfilega kerfi. Það er undarlegt að útgerðarmann sjálfir sjái ekki að það er verið að rétta þeim hjálparhönd til að draga þá upp ur því kviksyndi sem þeir eru sokknir í. Sú samningaleið sem þeir eru að þvinga fram er ekkert annað en framlenging á sukkinu og spillingunni, þessu verður að linna.
Ég fer inn á Stjórnlagaþing með opinn huga tilbúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og tillögur sem þar koma fram. En ef ekki verður tekið á auðlind hafsins og hún færð aftur í þjóðareign þá sé ég ekki að til mikil sé barist.
Þarna verður að skera upp, þarna verður að grípa til róttækra aðgerða.
Þessu
1.11.2010 | 12:05
Þrjár stofnair eða samtök grafa sína eigin gröf
Ég við Þjóðkirkjuna, Landsamband íslenskra útvegsmanna og Bændasamtök Íslands. Ég hef hér að framan lýst þeirri skoðun minni að það eigi að aðskilja Þjóðkirkjuna og Ríkið alfarið. Þetta er af neinum fjandskap við hina evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjuna. En ég undrast viðbrögð biskupa, presta og preláta við hófsömum tillögum Menningarráðs Reykjavíkur um að ekki skuli stunda trúboð í skólum. Enginn dregur í efa að meirihluti Íslendinga eru í hinni evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunni, en á fleira ber að líta.
Þarna komum við að mikilvægu atriði sem varðar störf þeirra sem á Stjórnagaþing setjast. Meirihlutinn verður ætíð að taka tillit til þeirra sem eru í minnihluta. Mér blöskrar hvað forystumenn hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar, eru blindir á þessi sjálfsögðu mannréttindi. Þeir berjast gegn öllum breytingum á eigin forréttindum í skólum landsins. Þeir ættu nú að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig; erum við ekki að skaða okkar eigin kirkju og boðskap hennar með þessu framferði, er það kirkju okkar til framdráttar að búa til vaxandi óvild í garð hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar?
Landsamtök íslenskra útvegsmann eru hagsmunasamtök þeirra sem gera út fiskiskip, allavega stærri fiskiskip. Þeir sem þann atvinnuveg stunda fengu fyrir um tuttugu árum eignarhald á auðlindinni, fiskinum í sjónum. Á meðan tilfinningar blossa vegna auðlinda á landi virðast flestir láta sér þetta í léttu rúmi liggja.
En ég held áfram að klifa á því að með þessu ólöglega eignarhaldi (þeir sem það framseldu höfðu engan rétt til þess) hafi útvegsmönnum verið réttur eitraður bikar sem nú er að leggja heilbrigði þeirra í rúst. Þetta er það sem hefur sogað gífurlega fjármuni út úr greininni.
En útvegsmenn umhverfast í hvert sinn sem aðeins er kvakað um endurheimtur á réttlætinu, að þjóðin fái til baka sína eign, auðlindir hafsins. Íslenskur sjávarútvegur ætti að taka slíku fagnandi, fagna því að þeir væru frelsaðir frá því að dæla fármagni í kaup á kvóta eða leigu, borga þeim fúlgur fjár sem hætta og leggjast í ljúfa lífið í útlendur stórborgum og flatmaga á sólarströndum, þess í stað að greiða samfélaginu sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni.
En útvegsmenn eru sjálfum sér verstir, þeir halda að þeir muni missa spón úr aski, engu má breyta.
Bændasamtök Ísland hafa viðurkennt að þau standi að hluta undir rekstrarkostnaði Heimssýnar, samtaka sem ekki aðeins berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur vinna að því öllum árum að aðildarviðræðum verði hætt. Ég get engan veginn sagt á þessari stundu hvort ég muni greiða atkvæði með inngöngu Íslands í Evrópusambandið, til þess skortir mig þær upplýsingar sem aðildarviðræðurnar skila. Reyndar tel ég að frekar ólíklegt að við fáum viðunandi samning, en umfram allt; látum reyna á það. En nú er spurningin þessi: Hafa Bændasamtök Íslands rétt til að láta mikla fjármuni af hendi rakana til samtaka sem berjast fyrir því að við fáum aldrei svör við því hvort við náum fram þeim samningum við Evrópusambandið að það verði þess virði að skoða hann og meta og taka afstöðu til hans í þjóðaratkvæðagreiðslu? Eru Bændasamtök Íslands með umboð allra bænda til að verja fjármunum í það að bændur fái aldrei að vita hvað í boði er og hvaða kvaðir fylgja? Er það ekki með öllu siðlaust að samtök og atvinnugrein, sem þiggur geysilegt fé úr okkar sameiginlegu sjóðum, verji fé til einhliða áróður fyrir að berja niður öflun upplýsinga sem bændur landsins hafa sannarlega rétt til að fá?
Enn ein samtökin sem augljóslega vinna gegn eigin hagsmunum og hika ekki við siðleysi og jafnvel lögbrot í þeim tilgangi.
11.10.2010 | 16:53
Er skynsamlegt að gera landið að einu kjördæmi?
Þessi krafa, að Ísland verði eitt kjördæmi, er ekki ný af nálinni. Það sem fyrir þeim vakir, sem aðhyllast þessa stefnu, er að sjálfsögðu múmer 1, 2 og 3 að þannig verði endanlega náð fram algjörlega jöfnu vægi atkvæða sem lengi hefur verið stefnt að. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á kjördæmaskipan hníga allar í þá átt. En fólksflutningar innanlanda skekkja fljótlega þann jöfnuð sem í sjálfu sér var ætíð nokkuð langt frá því að nást.
Vissulega er það lýðræðislega rétt að vægi atkvæða sé sem jafnast, helst algjört.
En í þessu máli, sem svo mörgum öðrum, fylgir böggull skammrifi. Með því að gera Ísland að einu kjördæmi koma fylgifiskarnir:
Efling flokksræðis er sá hættulegasti. Er ekki hættan sú að með þeirri gjörð verði allt vald og ákvarðanir um framboð flutt til höfuðstöðva flokkanna sem allar eru í Reykjavík? Hvað mundi Gunna á Raufarhöfn eða Jón á Rauðasandi hafa um þetta að segja? Hætt er við að áhrif þeirra, og annarra á landbyggðinni sem oft á tíðum eru sáralítil í dag, hverfi næstum því með öllu.
En ein spurning vekur aðra. Er hægt með því að stórauka persónukjör og gefa kjósendum meira val í kjörklefanum að vinna gegn nefndu flokksræði. Er mögulegt að frambjóðendur séu á listum flokka og einnig einstaklingar sem bjóða sig fram á eigin vegum eða á vegum ákveðinna hópa?
Ég veit ekki af hverju ekki er hægt að ræða jafn mikilvægt mál og aðildarumsókn Íslands að ESB án þess að grípa til útúrsnúninga. Það er sérkennilegt að segja að Joe Borg hafi verið boðið til Ísland til trúboðs. Eitt er víst, trúboð á heima hjá trúflokkum, ekki í alvarlegri umræðu um mikilvæg þjóðmál. Joe Borg var boðið hingað til lands til að miðla reynslu sinni og þekkingu, en hann leiddi aðildarviðræður Möltu við ESB. Þarftu Jón Baldur að grípa til svo lágkúrulegra meðala að reyna að lítillækka mann sem Joe Borg með því að koma því inn að hann hafi síðar, eftir inngöngu Möltu orðið hálaunaður embættismaður hjá ESB. Fyrst sagðirðu 4 milljóna maður en nú ertu búinn að lækka launin um 25%, nú eru þau 3 millj. Eftir inngöngu hvers lands skipar það fulltrúa sinn hjá ESB og var ekki eðlilegast að Malta skipaði sinn reyndasta mann. Er málefnafátækt þín slík að þú þurfir að reyna að lítillækka þennan ágæta gest? Og má ég spyrja; af hverju þorðir þú ekki að koma á fyrirlestur Joe Borg í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag?
Malta er lítil eyja með 400.000 íbúa svo það liggur í augum uppi að við höfum margt af þeim að læra þegar af þeirra reynslu af aðildarviðræðum og inngöngu. Það sem kemur hér fram að ofan, að Ísland sé að bera sig saman um fiskveiðar við Möltu og reynslu þeirra, þá er það alrangt. Maltverjar eiga nánast engin fiskiskip nema minni báta sem veiða aðallega innan 50 mílna frá landi og hlutur fisveiða og vinnslu er örlítið brot að þeirra þjóðarframleiðslu, algerlaga öfugt við Ísland.
Það kom margt athyglisvert fram hjá Joe Borg og því hefur ekki verið gerð skil ef undan er skilið Silfur Egils. Eitt það athyglisverðasta var þetta:
Fisveiðistefna ESB er í algjörri endurskoðun. Það er því tilgangslaust að mála skrattann á vegginn og búa til einhver ákvæði um að hér yrðu Spánverjar, Portúgalar og fleiri ESB þjóðir komnar með rétt til veiða innan okkar lögsögu ef við göngum í ESB enda mundum við ALDREI samþykkja slíkt. Joe Borg taldi að við þessa endurskoðun gæti svo farið að ESB mundi frekar aðalaga sig að fiskveiðistefnu Íslands en öfugt. (Þá er örugglega ekki verið að miða við okkar skelfilega kvótakerfi með frjálsu framsali, sölu og leigu).
24.9.2010 | 12:44
Skora á þingmenn Samfylkingarinnar að fella tillöguna um að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm
Ég hef aldrei dregið dul á mínar pólitísku skoðanir og að ég er flokksbundinn, ég er í Samfylkingunni. Líklega munu margir vilja túlka afstöðu mína sem að ofan greinir sem ákall um að hlífa flokksfélögum mínum.
Það er alrangt, ég hef önnur rök fyrir minni afstöðu og skoðum þau rök sem ég legg fram.
Þegar Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, var mynduð um mitt ár 2007 var skaðinn skeður, Hrunið var óumflýjanlegt, þannig höfðu samstjórnir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins stjórnað þjóðarbúinu. Það var á ábyrgð þessara tveggja flokka að einkavæða bankana, að afhenda þá fjárglæframönnum sem ekkert kunni í bankastarfsemi og rændu síðan bankana innanfrá, lánuðu sjálfum sér himinháar fúlgur til að kaupa ýmis fyrirtæki á yfirverði og þurftu engar tryggingar að setja fyrir þeim lánum sem þeir pumpuðu út úr bönkunum. Þannig sýndu þeir betri stöðu bankanna og notuðu einkum "óefnislegar eignir" svo sem viðskiptavild til að hækka verðgildi þeirra. Andvirði þessar lána hurfu síðan og álítur Vilhjálmur Bjarnason, sem flestir þekkja, að hvorki meira né minna en 6.000 - 7.000 milljarðar hafi þannig verið sognir út úr bankakerfinu og þjóðarbúinu og séu faldir í skálkaskjólum víða um heim. Ekki má gleyma glæpastarfsemi Landsbankans í Hollandi og Bretlandi þar sem saklausir launamenn m. a. voru lokkaðir til að trúa bankanum fyrir sparifé sínu og það liggur í augum uppi að það stóð aldrei til að skila þessu fé til baka. Hvar liggja þessir fjármunir í dag? Án efa að stórum hluta í skálkaskjólum víða um heim og bíða þess að refirnir komst í forðann.
Þetta eru aðeins helstu ástæður Hrunsins mikla og þó tekið sé tillit til hinnar að alþjóðlegu bankakreppu hefði þetta skelfilega hrun aldrei orðið á Íslandi þó við hefðum engan veginn komist hjá einhverjum skellum vegna þeirra áhrifa.
En fyrir hvað á að ákæra fjóra fyrrum ráðherra úr Þingvallastjórninni? Eftir því sem mér skilst er það ekki síst fyrir vanrækslu þó það liggi í augum uppi að þessi Ríkisstjórn, sem tók við um mitt ár 2007, gat engan veginn komið í veg fyrir Hrunið. Sýndi stjórnin vanrækslu? Vissulega má leiða rök að því þó alltaf sé hægt að vara vitur eftirá.
Á árinu 2007 var öll þjóðin meðvirk í bankabrjálæðinu eða mikill meirihluti hennar. Enginn hlustaði á örfár varnaðarraddir innanlands og því síður þær sem komu frá útlöndum, Danske bank var ekkert annað en nöldur öfundsjúkra Dana og þannig var öll gagnrýni afgreidd, við vorum nánast öll meðvirk. Á þessum tíma lét einn aðalhöfundur hrunsins, Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra og þá Seðlabankastjóri, nánast afnema bindiskyldu fjármagns hjá íslensku bönkum, álíka gjörð og að ausa bensíni á brennandi hús.
Gat Ríkistjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, gripið til einhverra ráðstafana til að koma í veg fyrir hluta af skaðanum?
Já það gat hún vissulega. Hún gat gengið fram og skýrt þjóðinni frá því að glæpaklíkur innan bankanna væru að steypa þjóðinni fram af fjárhagslegum hengiflugi, hún gat afhjúpað skelfilega óstjórn í Seðlabankanum sem leiddi til þess að hann varð gjaldþrota og upplýst um að við værum með handónýtt Fjármálaeftirlit.
Hverjar hefðu afleiðingarnar orðið?
Líklegt að þá hefðu Hrunið mikla orðið samstundis, þá hefði fjármálablaðran sprungið ári fyrr eða haustið 2007. Ekki vafi á að þá hefði skaðinn orðið mun minni fyrir þjóðarbúið en samt hefði hann orðið gífurlegur.
Hvernig hefði alþjóð brugðist við?
Ég tel allar líkur á því að Ríkistjórninni hefði verið kennt um, hún hefði með því aða upplýsa um ástandið, sem var þó staðreynd, fellt íslenski bankana og kallað yfir þjóðina skelfilegt hrun. Glæpamennirnir bönkunum hefðu fengið samúð, þessir lúðulakar sem almenningur leit á að væru "snillingar".
En hefði Ríkistjórn, sem var samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks átt möguleika á að grípa til slíkra verka?
Nei, útilokað. Þarna sátu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þeir Geir Haarde og Árni Mattheisen, menn sem höfðu verið á kafi í því undir forystu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að "einkavæða" bankana í orðsins fyllstu merkingu, afhenda þá Bjrögólfunum, Ólafi í Samskip og Finni Ingólfssyni og álíka kónum á spottprís og síðan að gera Davíð Oddsson að æðsta manni peningamála hjá þjóðinni, Seðlabankastjóra.
Hver eru þá afglöp ráðherra Samfylkingarinar?
Að reyna ekki að berja fram það ómögulega, að upplýsa þjóðina um ástandið sem aldrei hefði náðst fram í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Hverra kosta átti Samfylkingin þá?
Að slíta stjórnarsamstarfinu, en þá hefði hún orðið að upplýsa um ástandið í banka- og fjármálum landsins með sömu afleiðingum og raktar voru að framan, Hrunið mikla hefði orðið haustið 2007 sem hefði þó sparað þjóðinni mikið tap.
Hverjum hefði verið kennt um Hrunið mikla? Að sjálfsögðu flokknum sem sleit Ríkisstjórninni og upplýstu um hið rétta ástand þjóðarbúsins, Samfylkingunni, gegn henni hefðu öll öfl snúist hvort sem það voru stjórnmálaöfl að ég ekki tali um bankaræningjanna sem með því hefðu líklega ekki getað hreinsað fjárhirslur bankanna endanlega.
En hversvegna er ég þá á móti að ráðherrar séu dregnir fyrir Landsdóm?
Þar til liggur fleira en ein átæða. Það eru aðeins ráðherrar úr Ríkisstjórn Geirs Haarde sem á að ákæra og vissulega eru ráðherrar úr Sjálfstæðsflokknum í þeirri Ríkistjórn Geir Haarde og Árni Mattheisen sekir um að vera meðhöfundar að Hruninu mikla haustið 2008. En ég held að flestum sé misboðið hvernig staðið er að þessum ákærum þó eflaust sé þar farið að lögum. Að þeir sem þyngsta sökina bera af að hafa undirbyggt Hrunið, Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson, sitji á friðarstóli og að við þeim sé ekki blakað er eins og blaut tuska framan í hvern þjóðfélagsþegn. Það má heldur ekki gleyma þeim Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur.
Þið, sem sátuð í þingnefndinni fyrir hönd Samfylkingarinnar, unnuð mjög margt ágætt í þeirri nefnd eins og nefndarmen allir, þið hafið unnið kappsamlega og margt sem frá nefndinni kom er vandað og orð í tíma töluð. En þið hafið látið draga ykkur inn í lævíst samsæri. Það hefur verið massífur áróður fyrir því undir forystu Morgunblaðsins, og allir vita hver ritstýrir því, að kom allri sök af Hruninu mikla á Þingavallastjórnina, í dag eru það aðeins veikar raddir eins og mín sem andæfa og rekja með rökum hverjir eru sekastir af því að Hrunið varð úr hópi stjórnmálamanna.
Ætla menn að það sé tilviljun að útgerðarauðvaldið hafi komist yfir Morgunblaðið og gert höfuðskúrk Hrunsins, Davíð Oddsson, að ritstjóra og einvaldi yfir. Með því vinnst svo margt, það er auðvelt að trylla þjóðina og leiða athyglina frá Davíð, Halldóri og þeirra líkum, það er hægt að ónýta endurbætur á fiskveiðikerfinu og þeir vona einnig að þeim takist að trylla þjóðina enn frekar og eyðileggja umsóknarferil Íslands að Evrópusambandinu.
Allt er þegar þrennt er, Íslands óhamingju virðist verða allt að vopni.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.9.2010 | 10:54
Engir útlendingar fá veiðiréttindi í íslenskri lögsögu þó við göngum í Evrópusambandið
Ég hef lengi vonað að umræðan hérlendis um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði málefnaleg. Ég hef ekkert við það að athuga að margir séu andvígir inngöngu í ESB, en ef litið er á það sem frá andstæðingum inngöngu hér á blogginu kemur er ekki hægt að neita því að þar hafa komið fram allskyns fullyrðingar sem eiga enga stoð í veruleikanum. Ungir bændur vara við herskyldu ungra Íslendinga ef við göngum í ESB og fjölmargir hanga endalaust á fiskveiðistefnu ESB sem eitthvað sem sé óumbreytanlegt. Það er örugglega algjör samstaða um það hérlendis að við munum ALDREI gefa eftir yfirráð okkar yfir fiski og fiskveiðum í okkar lögsögu. Það get ég fullyrt sem fylgismaður inngöngu ef við fáum svo hagstæðan samning að það tryggi betur tilveru og efnahag Íslands auk margra annarra kosta.
Ég hef oftar en einu sinni skrifað um þessi mál á blogginu og haldið því fram að við gætum náð samningum við ESB um inngöngu Íslands og jafnframt haft tryggt yfirráð yfir auðlindum hafsins, bæði í botni og sjó í okkar lögsögu.
Það er ánægjulegt að hlusta á aðalsamningamann okkar við ESB þegar hann segir:
Stefán sagði það vera á kristaltæru að aðrar þjóðir hefðu ekki veiðiréttindi við Ísland, því hér hefðu engir aðrir verið að veiða í yfir 30 ár! Hann sagði þetta mæta skilning innan ESB og að framkvæmdastjórnin myndi t.d. ekki styðja kröfur Spánverja um fiskveiðiréttindi hér við land. ,,Enginn annar en við eigum rétt hér við land," sagði Stefán á fundinum.
Er þetta ekki kristalstært, þurfum við að halda áfram að fullyrða að við verðum við inngöngu að gangast undir stórgallaða fiskveiðistefnu Evrópusambandsins sem þeir eru þar að auki að gefast upp á?
4.9.2010 | 11:54
Vilborg G. Hansen hikar ekki við að fara með rangt mál varðandi viðræður Íslands við Evrópusambandið
Ég veit af fyrri reynslu að það er skörp sía hjá Vilborgu á athugasemdum, þó hefur hún birt athugasemd Sigurðar Grétarssonar þar sem hann leiðréttir rangfærslur hennar sem eru þær sömu og Jón Bjarnason ráðherra setti fram í forsíðuviðtali Morgunblaðsins; að við séum í aðlögunarferli í viðræðunum við ESB. Ég tek mér það bessaleyfi að afrita athugasemd nafna míns og líma hana hér inn. Þetta eru orð í tíma töluð:
Þetta er rangt hjá þér. Hér er aðeins verið að greina hvað þarf að gera til að íslensk stjórnsýsla standist ESB reglur auk þess að gera tímasetta áætlun um það hvernig henni skuli hrint í framkvæmd fari svo að aðild verði samþykkt. Ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verður áætluninni ekki hrint í framkvæmd. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í viðtali Kastljóss þann 1. semptember við Stefán Hauk Jóhannesson aðalsamningamann Íslands í samningunum við Evróusambandið. Viðtalið má sjá hér:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544920/2010/09/01/0/
Í þessu viðtali kemur skýrt fram að samningaferlið og aðlögunarferlið eru sitthvort ferlið. Aðlögunarferlið hefst eftir að búið er að samþykkja aðild Íslands að ESB og getur tekið allt að tvö ár. Það er fyrst eftir að því er lokið, sem við göngum formlega í ESB. Þetta ferli feri hins vegar ekki í gang ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það að þjóðaratkvæðagreiðslan verði ekki formlega bindandi gefur okkur ekkert tilefni til að óttast að við göngum samt inn í ESB þó aðild verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í fyrsta lagi þá er mjög ólíklegt að ESB myndi vilj okkur inn ef aðild er hafnað í þjóðaratkvæðagreiðsl og í öðru lagi þá munu væntanlega flokkar með það kosningaloforð að segja okkur aftur úr ESB sigra í næstu þingkosningum þar á eftir ef ESB hefði geð í að taka okkur inn gegn vilja meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því fengi ESB einfaldlega úrsögn frá okkur eftir næstu þingkosningar.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar