Færsluflokkur: Evrópumál

Athugasemd til Tryggva Gíslasonar sem er færi inn í mitt blogg

Tryggvi, þú ert einn af þeim mönnum sem ég hef fylgst með á minni löngu ævi, allar götur frá því þú varst fréttamaður á góðu gömlu gufunni og alltaf haft dágott álit á þér.

Að ofan kemur þú inn á eitt mikilvægasta hlutverk þeirra sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa á Alþingi. Ég veit, og það vitum við öll, að Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tók við skelfilegasta búi sem nokkur Ríkisstjórn Íslands hefur fengið til úrlausnar. Þessi Ríkisstjórn hefur unnið þrekvirki en eflaust orðið oft á og ekki ráðið við öll verkefnin. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, það eru þau tvö sem með órofa samstöðu  eru að draga okkur upp úr feni hrunsins. Mér finnst grátlegt að heyra og sjá stjórnarandstöðuna á þingi, þar er engin jákvæð rödd til, aðeins gamaldagsnöldur eins og best þótti á Hriflutímanum. Þó ég taki þannig til orða er ég þar engan veginn að vega að einum framsæknasta stjórnmálamanni Íslands fyrr og síðar, Jónasi frá Hriflu.

En stjórnarandstaðan á Alþingi er sífrandi hjörð vælukjóa sem halda að það eitt sé pólitík minnihlutans að vera sífellt á móti. Þeir eru vissulega samtaka þar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins og Þór Saari talsmaður Hreyfingarinnar sem öllu ætlaði að breyta, allt ætlaði að bæta. 

Af hverju hefur Framsóknarflokkurinn ekki bætt við sig nokkru fylgi í skoðanakönnunum?

Af því að maðurinn sem áttu mesta möguleika í íslenskri pólitík til að hefja sig yfir dægurþrasið og gefa íslenskri pólitík nýjan tón, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sökk á kaf í þraspyttinn og lítilmennskuna, hann eyðilagði gjörsamlega möguleika Framsóknarflokksins til að verða endurnýjað afl í íslenskri pólitík og byggja aftur á samvinnuhugsjóninni sem á tvímælalaust að endurreisa á Íslandi. En arftaki Jónasar, Hermanns, Eysteins og Steingríms  kaus í þess stað að verða frosinn þrasbelgur sem hefur ekki bætt neinu við fylgi þess flokks sem kaus hann sinn foringja.

Sjálfstæðisflokkurinn er á algjöru valdi manns sem var eitt sinn glæstur foringi, Davíð Oddsson. Veikindi hans eru staðreynd, hann skilur ekki sinn vitjunartíma og þeir sem gerðu hann að ritstjóra Morgunblaðsins eru óhappamenn Íslands. Landfundur Sjálfstæðisflokksins sat skellihlæjandi undir ömurlegri ræðu Davíðs Oddssonar þegar bæði fyrrum fylgismenn hans og andstæðingar fylgdust með og hugsuðu það sama; hann átti skilið betra en að gera sjálfan sig að trúði

 Og þessi sami landsfundur kaus aftur drenginn úr Garðabæ með silfurskeiðina í munninum sem formann sinn, drenginn sem í dag þorir ekki að kvaka eitt orð nema fá til þess leyfi frá Hádegismóum. Þetta er flokkurinn sem hafði ekki vit á því að kjósa sem foringja sinn þrautreyndan mann til sjós og lands, Kristján Þór Júlíusson fyrrum bæjarstóra og sjómann. Mann með þá reynslu sem er mikilvæg fyrir þann sem tekur að sér forystuhlutverk í íslenskri pólitík.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á það fámenna lið sem telur sig til Hreyfingarinnar, Þetta ruglulið sem ætlaði öllu að bjarga en eru í dag ekkert annað en innantómir þrasbelgir sem koma ekki fram með eitt einasta jákvætt kvak.

En hvers vegna er ég að harma það að flokkar, sem ég fylgi ekki, hafa  verið svo seinheppnir í að velja sér lélega forystu? Ætti ég ekki að vera ánægður með það að dusilmenni séu í forystu í mínum andstöðuflokkum?

Nei, svo langt frá því. Við þurfum öll á því að halda að hinir víðsýnustu og hæfustu séu í forystu í öllu þeim öflum og flokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi. Það er höfuðnauðsyn til að við getum myndað öfluga Ríkisstjórn til að takast á við þau vandamál sem þjóðin glímir við. 

Hinsvegar er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá; mér finnst vandamál íslensku þjóðarinnar i dag ekki vera nema stormur í vatnsglasi miðað við hvaða erfiðleika var við glíma fyrr á árum.

Tryggvi, þetta átti aðeins að vera stutt athugasemd en orðið nokkuð lengri en ég ætlaði. Taktu það ekki illa upp þó ég afriti hana og lími inn í eigið blogg. 


Ögmundur Jónasson fer yfir siðferðismörkin, hörmulegt að fylgjast með orðræðu hans

Það er nokkuð líkt með pólitískri framgöngu Ögmundar Jónassonar og Spaugstofunni. Hvorugur aðilinn þekkir sinn vitjunartíma, skilur ekki að tímaglasið er runnið út. Ögmundur varð ungur öflugur foringi opinberra starfsmann og safnaði að sér harðskeyttri fylgissveit sem bar hann á höndum sér alla leið inn í sali Alþingis.

Við síðustu myndun Ríkistjórnar varð Ögmundur ráðherra, það taldi að sjálfsögðu hans harðskeytta fylgissveit sjálfsagt, ekki kom annað til greina.

En þá fór að halla undan fæti hjá Ögmundi. Þessi maðu,r sem alla tíð hafði verið baráttummaður launþega og andófsmaður á Alþingi, fótaði sig ekki þegar pólitíska ábyrgðin lagðist á hans herðar; hann kiknaði og sagði af sér ráðherradómi.

Síðan þá hefur farið fram ótrúlegur sirkus í kringum Ögmund Jónasson. Heimssveit hann í Vinstri grænum hefur rembdist við eins og rjúpan við staurinn að koma Ögmundi aftur í ráherrastöðu, nokkuð sem hann hefur einu sinni kiknað undan, einu sinni er nóg.

En nú hefur Ögmundur farið rækilega yfir strikið í hatrömmum málflutning sínum gegn aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Þeir eru vissulega til á blogginu sem hafa gripið til samlíkinga við alræðisríki nasista, sem atti heiminum út í hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar, en að maður sem hefur verið jafn áhrifamikill og Ögmundur Jónasson gerði slíkt bjóst ég ekki við. Að voga sér slíkan samanburð, svo sem að Evrópusambandið sé að auka sitt "lífsrými"  er eins og köld vatnsgusa framan í hvern mann. En Ögmundur bætir um betur og líkir Evrópusambandinu við hvítu mennina sem komu frá Evrópu, sölsuðu undir sig lönd Indíána í Vesturheimi og borguðu fyrir með glerperlum og spíra.

Ég held að Ögmundur ætti að fara að dæmi Einars Kristjánssonar óperusöngvara sem ég rakti í pistlinum um Spaugstofuna.

Það þurfa allir að þekkja sinn vitjunartíma, einnig Ögmundur Jónasson!


Fréttastofa Sjónvarpsins verður sér til skammar

Fréttastofa Sjónvarpsins boðaði í yfirliti frétta að rætt yrði við Ögmund Jónasson þar sem hann krefðist þess að auðlindir landsins yrðu í þjóðareign í viðræðum um Magma málið. Ég sló því auðvitað föstu að Ögmundur ætlaði að verða það óheiðarlegur, eins og margir fleiri, að halda því fram að Magma Energy væri að kaupa auðlind með kaupum sínum á HS-orku.

En svo kom viðtalið og þá blöskraði mér óheiðarleiki fréttamanns Fréttastofu Sjónvarpsins. Ögmundur ræddi vissulega um Magma Energy en hann minntist ekki einu orði á að það fyrirtæki hefði með kaupunum eignast hlut í auðlind. Hann talaði um orkufyrirtæki og gerði þá kröfu um að slík fyrirtæki væru í íslenskri eigu, í eigu hins opinbera, að þau væru rekin sem þjóðnýtt fyrirtæki.

Ég er ákaflega ósammála Ögmundi í hans einstrengingslegu afstöðu, hann er einstrengingur í öllum málum. En það er til skammar að fréttamaður Fréttastofu Sjónvarpsins leggi mönnum orð í munn eins og það að Ögmundur hafi rætt um auðlindir þegar hann ræddi um orkufyrirtæki.


Ríkisstjórnin lyppast niður fyrir öfgaöflunum í Vinstri grænum

Það er ekki hægt að kaupa friðinn á hvað verði sem er. Allt sem kom frá blaðamannfundi Jóhönnu og Steingríms staðfesti hrollvekjandi staðreyndir. Það á að vinna að því öllum árum að ógilda kaupin síðustu á Magma Energy, jafnvel að steypa Ríkissjóði í enn meiri skuldir til að eyðileggja þessa mjög svo vel þegnu útlendu fjárfestingu. Ég hef bent rækilega á það að arður af fyrirtækjum á Íslandi í eigu útlendinga fer að sjálfsögðu að einhverjum hluta til eigendanna. En ég hef líka bent á það að fyrirtæki í orkugeiranum að fullu í eigu Íslendinga borga ekki minni arð til útlendinga í formi vaxta að lánum sem tekin hafa verið í útlöndum til að reisa virkjanir hvort sem er vatnsaflsvirkjanir eða jarðgufuvirkjanir.

Ég hef ætíð haft mikið álit á Steingrími J. Sigfússyni en hann kaupir formannssætið í Vinstri grænum og stól fjármálaráðherra því verði að láta öfgafullar skoðanir Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur verða ráðandi stefnu í málefnum Magma Energy. Hins vergar hefði ég haldið að Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin létu ekki undan í þessu máli. Þetta mál er grafalvarlegt, ekki út af eignarhaldinu í Magma Energy heldur út af framtíðinni. En öfgahópurinn í Vinstri grænum ná fram sínum villtustu og heimskulegustu áætlunum er búið að vinna slíkt skemmdarverk á endurreisn íslenskara atviknunnuvega, gegn því að nokkrir útlendur fjárfestir vilji leggja fjármuni í íslenskt atvinnulíf, fjármagn sem okkur sárvantar. Ég endurtek; það er okkur mun hagkvæmara að fá áhættufjármagn frá útlöndum sem er á ábyrgð fjármagnseigenda en að taka yfirþyrmandi lán með vöxtum sem verður að greiða og einnig að endurgreiða lánin að fullu, undan því verður ekki vikist.

Ég hlýt að endurskoða stuðning minn við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eftir þessa atburði. Það hefur verið að koma æ betur í ljós að Vinstri grænir eru ekki samstarfshæfir. Hélt lengi að Steingrímur formaður flokksins gæti ráðið þar ferðinni en því miður hefur hann verið kúgaður til hlýðni af öfgaöflum flokksins.

Og það sem er ennþá verra; Samfylkingin hefur einnig lyppast niður og keypt áframhaldandi líf Ríkisstjórnarinnar með því að láta undan öfgaöflunum í VG. 

Er þetta það sem koma skal, á að kaupa líf Ríkisstjórnarinnar hvaða verði sem er? Það er búið að rétta öfgaöflunum litla puttann, það verður ekki langt þar til þau taka höndina alla.

Það er skynsamlegra að draga að sér höndina og láta öfgaöfl Vinstri grænna sigla sin  sjó.


Skora á alla, meira að segja Vinstri græna, að ræða Magma málið og og fyrirkomulag orkuvinnslu á Íslandi af skynsemi

Ég held að það væri hollt fyrir alla að fara inn á

askja.blog.is

þar sem Ketill Sigurjónsson bloggar undir fyrirsögninni "Um eignarhald og arðsemi". Mér finnst Ketill komast þar vel að kjarna málsins og sýna fram á hvað innihaldslausar upphrópanir hafa verið í gangi í Magma málinu.

Eitt ætla ég að koma inn á og það er röksemd Vinstri grænna, Bjarkar og fleiri að fyrirtækið Magma Energy verði að vara í Íslenskri eigu til að við töpum ekki af þeim ágóða sem af rekstri fyrirtækisins verður vonandi.

Það er vissulega góðra gjalda vert að vilja halda arðinum í landinu en er það tryggt með því að hið opinbera eigi fyrirtækin?

Hve mikill hluti af arðinum af rekstri Landsvirkjunar hefur orðið eftir í landinu, 100% eða hvað? Nei aldeilis ekki, stór hluti af arði Landvirkjunar hefur runnið úr landi sem vextir af þeim gífurlegu lánum sem Landsvirkjun hefur orðið að taka hjá útlendum bönkum til að byggja sínar virkjanir.

Hafa Vinstri grænir aldrei leitt hugann að þessari staðreynd?

Útlent fjármagn sem fjárfesting eða útlent fjármagn sem lánsfé; hvoru tveggja mun taka til sín fjármuni sem fara úr landi, annarsvegar sem arður til fjármagnseigenda, hinsvegar sem vextir til banka og fjármálafyritækja. 


Er ekki ógerningur að standa áfram í kattasmölun?

Verkefni núverandi Ríkisstjórnar eru hrikaleg, þessari stjórn er ætlað að reisa landið úr þeim rústum sem Framsóknarflokkur og ekki síður Sjálfstæðisflokkur komu komu landi og þjóð í. Til að það sé mögulegt þarf sterka og samstillta Ríkisstjórn sem hefur afl til að standa að hörðum og jafnvel sársaukafullum aðgerðum. Forystumen Ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafa verið brimbrjótar stjórnarinnar.

En nú eru veður öll válynd á stjórnarheimilinu, þeim veðrum ræður órólega deildin í Vinstri grænum. Ég er í Samfylkingunni og hef ætíð stutt Ríkisstjórnina. En nú er svo komið að ég sé ekki að stjórnin geti setið mikið lengur. Stjórn sem á líf sitt undir Guðríði Lilju Grétarsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Ásmundi Daða Einarssyni og Ögmundi Jónassyni getur tæplega verið starfhæf til lengri tíma. Þessi hópur svífst einskis til að koma höggi á stjórnina og nú virðist vera að sverfa til stáls í Magma Energy málinu. Ríkisstjórn sem hefur jafn sundurleitan flokk á bak við sig og Vinstri græna ræður ekki við þau gífurlega mikilvægu mál sem stjórnin verður að glíma við. Þessi ríkisstjórn má ekki falla í sömu gryfju og stjórn Gunnars Thoroddsen, að sitja sem fastast en hafa þó ekkert afl til að koma fram nauðsynlegum og aðkallandi málum áfram.

En hvað tekur þá við?

Svo einkennilega vill til að flokkarnir sem hruninu ollu, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, hafa ekki sýnt neinar tilhneigingar í þá átt að vilja taka við stjórnartaumunum, frekar að vera óábyrg stjórnarandstaða. Þessir tveir flokkar hafa reyndar ekki afl til að mynda meirihlutastjórn og yrðu því að finna víðari samstarfsvettvang.

Aðeins eitt er víst; ef óábyrga hávaðfólkið í Vinstri grænum tekst að fella Ríkisstjórnina og fella Samfylkinguna frá því að vera í forystu,  þá mun Samfylkingin  ekki taka þátt í  myndun nýrrar Ríkisstjórnar

Þá hljóta þeir sem stjórnina fella og þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu að mynda nýja Ríkisstjórn, þá yrði mynduð samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins. Hvoru megin hryggjar Hreyfingin liggur skiptir engu máli. Þá yrðu þessir gömlu hrunflokkar S+F að beygja sig undir þá meginkröfu að ógilda kaupsamninginn á Magma Energy með illu eða góðu, löglega eða ólöglega. Annað ættu þessir flokkar auðvelt með að sporðrenna. Aðildarumsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði dregin til baka, slegin skjaldborg um íslensku krónuna með öllum ráðum og margskonar höftum, gjaldeyrishöftin verða föst næsu árin. Vinstri grænir munu eflaust feta í fótspor Ungverja og krefjast þess að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verið slitið, því yrði sporðrent af hinum flokkunum, algjörlega neitað að greiða ICESAVE, framundan þar illvíg og langvinn málferli með gífurlegum fjárútlátum Íslands.

Um þetta ættu Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir að eiga auðvelt með að ná saman, þar mun andi ritstjóra Morgublaðsins svífa yfir vötnum. Þar með hefur íhaldsdeildin í Vinstri grænum náð því sem hún stefnir að, ómeðvitað ef til vill, að ná saman við íhalds- og þjóðernisstefnuna frá Hádegismóum í Sjálfstæðisflokknum.

Eina sem kynni að vera óljóst er hvernig mun Framsóknarflokkurinn taka á málun við myndun þessarar Ríkisstjórnar?

Það er svo furðulegt sem það er að í dag veit enginn hver í rauninni stefna Framsóknarflokksins er, það verður því að byggja á því sem formaður Framsóknarflokksins sagði áður en hann missti málið. Miðað við það ættu þessir þrír flokkar að ná saman og stofna Rikisstjórn á þeim málefnagrundvelli sem að framan var rakinn.

Rennur engum kalt vatn milli skins og hörunds?


Hælbíturinn Grétar Mar ræðst á Ingibjörgu Sólrúnu

Aldrei hef ég haft mikið álit á Grétari Mar fyrrum alþingismanni, skipstjóra og fyrrum formanni Farmanna- og fiskimannasambandsins ef ég man rétt. En í dag gengur bókstaflega fram af mér hvernig hann reynir að stinga Ingibjörgu Sólrúnu í bakið a ósvífinn og rætinn hátt. Það hefur  oft komið í ljós að Grétar Mar er karlremba sem þolir ekki sterkar og ákveðnar konu. Satt best að segja hélt ég að Ingibjörg Sólrún fengi að vera í frið eftir að hún hætti þingmennsku og dró sig í hlé,  m. a. vegna veikinda.

En í Fréttablaðinu í dag upplýsir nefndur Grétar Mar að hann hafi sent Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem hann mótmælir því að Ingibjörg Sólrún verði valin til að stýra rannsókn á meintum mannréttindabrotum Ísraela í morðæði þeirra og eyðileggingu á Gasa. Hann tilgreinir í þessu óþokka bréfi sínu til Mannréttindanefndarinnar að Ingibjörg Sólrún hafi ekki brugðist við mannréttindabrotum í íslenska   fiskveiðistjórnunarkerfinu meðan hún var formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra!

Stundum verður manni orða vant, í hvaða ástandi var Grétar Mar þegar hann skrifaði bréfið til Mannréttindanefndarinnar?

Fiskveiðistjórnunarkerfinu, þar sem hið frjálsa framsal varð að veruleika með kaupum, sölu og leigu og öllu braskinu var komið á áður en Ingibjörg Sólrún hóf þátttöku í stjórnmálum. Hvernig átti henni einni að vera megnugt að endurheimta þessa sameign þjóðarinnar sem misvitrir stjórnmálamenn "gáfu" örfáum mönnum eða fjölskyldum? Er það ekki staðreynd að Samfylkingin var fyrst og jafnan eini stjórnmálflokkurinn sem tók upp baráttuna fyrir því að þjóðin endurheimti þessa auðlind, fiskinn í sjónum, úr höndum sægreifanna í LÍÚ? Var það ekki Samfylkingin sem fyrst kom fram með hugmyndina um fyrningarleiðina, var ekki Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar?

Og hvar varst þú Grétar Mar þegar öll þessi ósköp gengu yfir, LÍÚ klíkunni gefinn kvótinn, varst þú út undir vegg að pissa?

Grétar Mar, ég gef þér það ráð að þú látir renna af þér, sendir annað bréf til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og biðjir auðmjúklegast um að fyrra bréfinu sé þegar stungið í ruslakörfuna.

Svo ættirðu auðvitað að biðjast afsökunar á röfli þínu en það verður tæplega; þú ert ekki bógur til þess!!!


Stakk Morgunblaðið hluta af skoðanakönnun um ESB undir stól?

Sveinn Andri Sveinsson lögfræðingur og Sjálfstæðismaður er borinn fyrir þeirri sögu að Morgunblaðið hafi ekki birt allt sem fram kom í skoðanakönnun um afstöðu almennings til inngöngu í ESB. Þar er fullyrt að ein spurningin hafi verið á þessa leið:

Ert þú fylgjandi því að við göngum í Evrópusambandið ef við fáum full  yfirráð yfir fiskimiðum okkar?

Sagt er að 71% spyrjenda hafi sagt já við þessari spurningu.

En þetta hefur hvergi komið fram, ekki í Morgunblaðinu sem stóð fyrir þessari könnun.

Er það virkilega satt að Morgunblaðið hafi ákveðið að leyna svarinu við þessari spurningu af því hún féll ekki að því sem Morgunblaðið vildi fá fram?


Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar?

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins er lokið. Á fundinum bar hæst sú fáránlega tillaga, sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að sagt er, að Ísland dragi umsókn sína um inngöngu í  Evrópusambandið til baka.

Satt best að segja hafði ég það mikið álit á Sjálfstæðisflokknum að mér datt ekki í hug að svo heimskuleg tillaga yrði samþykkt á landsfundi flokksins. En það er líklega enn einu sinni að sannast það sem Hannes Hólmstein sagði "sjálfstæðismenn eru ekkert að hugsa um pólitík, þeir vinna á daginn og grilla á kvöldin".

Ömurlegast er þetta fyrir formann flokksins Bjarna Benediktsson sem var gerður afturreka með hófsamari tillögu "að leggja aðildarumsóknina á hilluna í bili". Þetta afhjúpar tvennt rækilega. Mikill meirihluti landsfundarfulltrúa setur sig ekki á nokkurn hátt inn í mál sem fyrir fundinum liggja, núverandi formaður Bjarni Benediktsson hefur mjög takmörkuð áhrif og völd. Í sjónvarpsfréttum frá landsfundinum brá fyrir gamalkunnu andliti Davíðs Oddssonar sem gekk glaðbeittur milli borða og heilsaði fólki kampakátur. 

Þarna fór sá maður sem öllu ræður í Sjálfstæðisflokknum í dag, hann leggur allar línur og það er eins gott fyrir Bjarna Benediktsson og hans meðstjórnendur að lúta vilja þess sterka, annars munu þeir hafa verra af. Svo virðist eins og megnið af landfundarfulltrúum hafi ekki skilið um hvað var kosið, flestir héldu að það væri verið að kjósa um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Því fór víðs fjarri. Aðildarviðræður eru til þess að við fáum allir landsmen þau svör sem við verðum að fá til að hægt sé að ljúka þessu máli. Aðildarviðræðurnar leiða í ljós hvaða kosti það hefur fyrir Ísland að ganga í ESB og ekki síður; hvaða fórnir við verðum að færa séu þær einhverjar. Þá fyrst getur þjóðin svarða þeirri spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við göngum í ESB eða ekki. Ég er hlynntur inngöngu en get engan vegin sagt til um það nú hvort ég munu greiða atkvæði með inngöngu eða hafna. Það get ég ekki fyrr en svörin liggja á borðinu.

Hvers vegna vilja ýmis sterk öfl í þjóðfélaginu allt til vinna til að koma í veg fyrir áframhaldandi aðildarviðræður?

Sterkustu öflin eru Bændasamtökin og Landsamband íslenskra útvegsmanna að ógleymdum ritstjóra Morgunblaðsins Davíð Oddssyni, og þar með því málgagninu sem hann stýrir, Morgunblaðinu. Það er ekki óeðlilegt að ritstjóri ráði mestu um stefnu þess blaðs sem hann stýrir en það háskalega er að enn þann dag í dag ræður Davíð Oddsson ekki aðeins Morgunblaðinu, hann ræður einnig öllu í einum  stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokknum. Kjörnir stjórnarmenn flokksins, ekki síst formaðurinn Bjarni Benediktsson formaður eru ekki annað en strengjabrúður í höndum Davíðs Oddssonar og það er enginn í augsýn sem  ógnar hans veldi. Sjálfstæðismenn svo sem Þorsteinn Pálsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Benedikt Jóhannesson og margir fleiri skoðanabræður þeirra fengu viðvörun á landsfundinum. Gegn þeim er spjótinu beint þegar formaður flokksins var gerður afturreka með sína tillögu um aðildarviðræðurnar  að skipan úr Hádegismóum, þannig samþykkt að aðildarviðræður skyldu stöðvaðar skilyrðislaust.

En ég hef ekki svarað því enn hvers vegna þessu sterku afturhaldsöfl sem ég að framan nefndi leggja höfuðáherslu á að stöðva aðildarviðræður?

Það er augljóst mál hver ástæðan er. Það er óttinn við hvaða árangri við náum í aðildarviðræðum það er óttinn við það að þar muni komi í ljós að kostirnir séu yfirgnæfandi af inngöngu, ókostirnir sáralitlir. Það kann að koma í ljós að okkur standi til boða að ráða áfram alfarið yfir fiskinum í sjónum og landhelginni og að sjálfsögðu; óskert yfirráð yfir öllum auðlindum til lands og sjávarbotns eins og öll aðildarríki ESB hafa haldið við inngöngu.

Þessi svör mega ekki sjá dagsins ljós að áliti fyrrnefndra afturhaldafla; reyndar gleymdi ég þar að nefna afturhaldið í Vinstri grænum undir forystu Ögmundar Jónassonar og Ásmundar Daða.

 


Svar til Jóns Péturs Líndal og skoðanabræðra um Evrópusambandið og aðildarumsókn Íslands

Eftirfarandi skrifaði ég sem athugasemd við blogg Jóns Péturs Líndal um ESB umsóknina, finnst rétt að hún komi hér fram

Mér ofbýður málflutningur ykkar hér að framan þar sem ekki er gerður greinarmunur á réttu eða röngu. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, ICESAVE verðum við að borga, það liggur fyrir að öðruvísi getur það ekki verið. Það hefur hvergi komið fram að við verðum að opna landhelgina fyrir veiðum annarra þjóða, fiskveiðistefna ESB er í endurskoðun og þar munu viðræður okkar koma að góðu gagni. Hvergi hefur nokkuð land , sem gengið hefur i ESB þurft að leggja niður sinn landbúnað. Íslenskur landbúnaður er sem betur fer í mikilli þróun þar sembúskapur er að breytast mikið. Var í ferðalagi með eldri borgurum í Þorlákshöfn og gistum nokkrar nætur á Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit, en þar hafa ábúendum breytt búskaparháttum í takt við tímann. Fengum okkur kvöldmat síðasta kvöldið á Hótel Dyrhólaey á Brekkum í Mýrdal, þar hafa bændur brugðist eins við. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, íslenskur landbúnaður verður að þróast í takt við tímann með þjónustu við ferðamenn og að selja beint frá býli. Þessi þróun mun ekki eiga síðri möguleika með Íslandi í ESB en utan. Það hlýtur að koma að því, og meira að segja hið rammasta afturhald Alþjóðahvalveiðiráðið er að komast á þá skoðun, að hvalveiðar eigi að leyfa að vissu marki. ESB verður að gera sér ljóst að það er hluti af fiskveiðistefnu að halda jafnvægi innan stofna í hafinu, annað er ekki hægt. Ekki nokkrum manni dettur í hug að afhenda orkulindir eða aðrar auðlindir þjóðarinnar. Hafa Danir eða Skotar þurft að afhenda olíu- og gaslindir sínar til ESB? Síður en svo, þessar auðlindir eru enn í fullri eigu þjóðríkjanna á sama hátt og járngrýti Svía í Kiruna eða kolin í þýskri jörðu eða olían í Rúmeníu.

Að það skuli koma fram tillaga á Alþingi um að draga aðildarumsóknina til baka lýsir ótrúlegri skammsýni og ofstæki. Aðildarviðræður verða að halda áfram, aðeins á þann hátt getum við fengið svörin sem okkur vantar:

Eigum við erindi inn í ESB, hvaða ávinning fáum við og þurfum við einhverju að fórna. Þá fyrst getum við tekið afstöðu með eða móti með þjóðaratkvæði. Eftir það þurfum við ekki að bulla og rífast um þetta mál, þið hér að ofan  þurfið þá að finna ykkur annað málefni til að skrumskæla og þvæla um. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband