Færsluflokkur: Evrópumál
30.1.2010 | 13:30
Við höfum ekki gleymt því hverjir stofnuðu Icesave reikningana, þar í hópi var Kjartan Gunnarsson þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins
Þennan pistil sendi ég manni að nafni Axel Jóhann, hann er greinilega einn af þessum forstokkuðu Sjafstæðismönnum sem heldur að hægt sé að sefja almenning til að gleyma því hvaða stjórnmálflokkar stóðu fyrir hinni svokölluðu "einkavæðingu" bankanna og hverjir stofnuðu hina skelfilegu ICESAVE reikninga
Þér væri nær Axel Jóhann að beina geiri þínum að þeim pólitíkusum sem létu fjárglæframenn úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum stela ríkisbönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka. Voru þessir pólitíkusar ekki einmitt úr þessum tveimur fyrrnefndum flokkum? Voru það ekki fjárglæframenn úr Sjálfstæðisflokknum sem stofnuðu ICESAVE reikningana í Hollandi og Bretlandi, þeir sem þóttust ætla að kaupa Landsbankann en fengu lán til þess hjá Framsóknarglæframönnunum í Búnaðarbankanum og borguðu aldrei lánið. Var ekki framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins Kjartan Gunnarsson í bankaráði Landbankans þegar þessir glæpsamlegu ICESAVE reikningar voru stofnaðir til að sjúga fé út úr sparifjáreigendum í Hollandi og Bretlandi.
Hvert var þeim peningum komið, eru þeir grafnir á Tortóla eyjum? Þú og aðrir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins haldið að það sé hægt að fá íslenskan almenning til að gleyma öllu þessu glæpsamlega athæfi með því að ráðast að þeim sem eru að vinna hörðum höndum að því að endurreisa Ísland en ykkur verður ekki kápan úr því klæði!!!
17.12.2009 | 10:43
"Út vil ek" sagði Snorri og fór heim til Íslands
Ég er ekki búin að lesa alla grein Þorvarðar Gylfasonar hagfræðings í Fréttablaðinu í dag en hann byrjar grein sína á því að Íslendingar hafi löngum leitað út í heim, farið óhikað til annarra landa og nefnir þar Egil á Borg sem fór æði víða og heimsótti háa sem lága. En hann hrasar svolítið á frægri tilvitnun og er engan veginn sá fyrsti sem gerir það. Hann vitnar í hina frægu setningu sem lögð er Snorra Sturlusyni í munn "út vil ek" og ef hún væri sögð í dag mundi meining hennar eflaust vera sú að sá sem þetta segði vildi til annarra landa.
En þetta sagði Snorri þegar hann sat fastur í Noregi í gíslingu Noregskonungs en sá pótentáti notaði það óspart að taka Íslendinga í gíslingu í baráttu sinni fyrir því að ná völdum á Íslandi.
Þessi setning "út vil ek" á við það að sigla frá Noregi til Íslands, ekki öfugt.
Snorri afréð að hafa farbann Noregskonungs að engu, sagði "út vil ek" og sigldi til Íslands.
Þar með voru örlög Snorra ráðin, þarna undirritaði hann sinn eigin dauðadóm.
14.11.2009 | 14:55
Sóðalegasti sorakjaftur landsins orðinn framlenging á penna Davíðs Oddssonar
Morgunblaðinu var bjargað frá gjaldþroti og útrýmingu og flestir héldu að tækifærið yrði notað til að efla blaðið sem víðsýnan fréttamiðil þar sem allir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en svo varð aldeilis ekki. Það mátti sjá hvað klukkan sló þegar hinn afdankaði forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, var gerður að ritstjóra. Var furða þó sá grunur læddist að mörgum að þarna ætti "sá fyrrverandi" að fá tækifæri til að naga og stinga fyrrum andstæðinga, en ganga svo einnig vasklega fram í því að verja í líf og blóð mesta rán Íslandssögunnar, ránið á fiskinum í sjónum, gjöfinni til gæðinganna. Ekki síður að berjast hatrammlega gegn endanlegri könnun á því hvað biði okkar í Evrópusambandinu sem ekki er hægt að fá úr skorið nema með því að sækja um aðild og fara í alvöru aðildarumræður. Þetta mátti ekki gerast, koma kynni í ljós í þeim umræðum að hag okkar yrði tvímælalaust betur borgið innan ES en utan.
Það er staðreynd að fjölmargir mótmæltu strax og sögðu blaðinu upp. Ég var ekki einn af þeim, ég var pistlahöfundur Morgunblaðsins í 16 ár og fann ætíð gott viðmót þar meðan Styrmir Gunnarsson var ritstjóri. Ég vildi sjá hver þróunin yrði, Morgunblaðið og morgunkaffið hafa í mörg ár verið óaðskiljanleg, erfitt að skera á þau bönd. Kannski mundu hraklegustu spár ekki rætast.
En nú er svarið komi. Það mátti auðvitað vera sterk vísbending að hlutdrægasti fjölmiðlamaður landsins, Agnes Bragadóttir, fékk að að sitja áfram við sína Gróu á Leitis tölvu í ritstjórninni. En ég var enn með svolitla von; kannski mundi Eyjólfur hressast.
En endanlega svarið kom í morgun laugardaginn 14. nóv. árið 2009.
Á þeim degi birtist í Morgunblaðinu nýr pistlahöfundur, greinilegt að það var kominn nýr "Laugardagspistill" og höfundur hans er persóna sem nefnist Sverrir Stormsker. Ritstjóri sem velur sér til hjálpar sóðalegasta sorakjaft þessarar þjóðar hlýtur að hafa með því ákveðinn tilgang.
Sá tilgangur er augljós.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er lagður í krossferðina; að lemja niður þá sem hann telur að verði að jafna um, fólk sem hann stundum fann fyrir minnimáttarkennd gagnvart. Já vissulega ótrúlegt að ætla að Davíð Oddsson viti hvað minnimáttarkennd er, en sú kennd leynist víða og birtingarmynd hennar er oft andstæðan.
En Davíð Oddsson leggur ekki í það að koma framundir eigin nafni þegar sorinn skal vera sem mestur; hann fær sér leiguþý og sá fyrsti í þeim hópi er Sverrir Stormsker, vart hægt að fá hæfari mann til verksins. Engum kemur á óvart að fyrsti einstaklingurinn sem sorakjafturinn skal níða niður er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Níðgrein Sverris Stormskers (SS) um Ingibjörgu Sólrúnu er algjört einsdæmi í nútímanum, slíkt níð hefði jafnvel þótt fulllangt gengið á hinum margumtöluðu Hriflutímum sem svo eru nefndir og var þó Jónas frá Hriflu ekkert verri í skrifum sínum þá en margir aðrir sem voru á þeim dögum í pólitíkinni.
Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun. Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.
Þessi grein skiptir sköpum fyrir mig. Ég mun á eftir senda Morgunblaðinu uppsögn á áskrift til áratuga. Ég vona að sem flestir fari að dæmi mínu og segi blaðinu upp. Það þarf að fá þá ráðningu sem það á skilið. Það endar líklega sem sorppollur sem gamall uppgjafapólitíkus notar til að ná sér niður á þá sem áttu í fullu tré við hann.
Það munu verða endalok Morgunblaðsins.
9.11.2009 | 12:20
Hægrikrati enn á ferð
Það er óralangt síðan síðasti Geirfuglinn hvarf af jörðu hér. Það er styttra síðan til var sérstök pólitísk tegund sem nefndust "hægrikratar". Þeir voru með flokksskírteini í gamla Alþýðuflokknum en völdu sér bólstað þétt upp við landamærin sem lágu að Sjálfstæðisflokknum. Lítið mátti út af bregða svo þeir færu ekki út um bakdyramegin þegar mikið lá við og skiluðu stundum atkvæðum sínum í kassa Sjálfstæðisflokksins. Sérstaklega stunduðu þeir þetta í Borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, héldu þar Sjálfstæðsiflokknum við völd árum saman.
Satt best að segja hélt maður að þessi tegund pólitíkusa væri útdauð eða þannig. Sumir fóru yfir svo sem Gísli bæjarstjóri á Akranesi. Að vísu var hann keyptur yfir með þægindi ágætu sem hann settist þegar í og var hvorki meira ná minna en bæjarstjórastóllinn á Akranesi. Og þar virðist Gísli una hag sínum vel og vonandi verður hann þar áfram, enginn býst við honum yfir landamærin aftur.
Það er til einn Geirfugl hérlendis, reyndar uppstoppaður í Náttúrugripasafninu. En það er líka til einn ósvikinn "hægrikrati" ekki uppstoppaður og sprelllifandi.
Það er Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu og bókmenntaspekingur í Kiljunni.
Kolbrún segist vera búin að fá nóg af upphlaupsliði Vinstri grænna sem séu aftur og aftur tilbúnir til að taka stjórnarflokana í gíslingu. Vissulega er talsvert til í þessu hjá Kolbrúnu en hún sér ljósið og er greinilega búin að setja upp gömlu hægrikrata gleraugun. Hennar framtíðarsýn er að Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfinu við Vinstri græn en myndi á stundinni aðra ríkisstjórn.
Hún vill fá aftur Þingvallamynstrið, að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Ja, þvílík framtíðarsýn!!!
Á Samfylkingin að ganga til samstarfs aftur við Sjálfstæðisflokkinn sem ber höfuð ábyrgð á hruninu mikla í október 2008? Á virkilega að horfa fram hjá því að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í herðar niður í mörgum málu?. Á að gleyma því að enn ríkir andi Davíðs Oddssonar yfir flokknum? Á að horfa framhjá því að þeir í flokknum sem eru jákvæðir gagnvart samningum við Evrópusambandið er haldið niðri hvað sem það kostar? Á að horfa fram hjá því að útgerðarauðvaldinu var færður allur fiskveiðikvóti Íslands til eignar, til að braska með, til að veðsetja hvarvetna þar sem einhverja peninga var að fá?
Ef Samfylkingin vill fremja pólitískt harakiri þá fer hún í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. En það verður ekki, ég held að Kolbrún sé síðasti hægrikratageirfuglinn.
19.9.2009 | 11:30
"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur"
Það var að koma ný skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka, ríkisstjórnar og flokksforingja. Þessi skoðanakönnun er að því leyti sérstök að hún byggir á mannréttingabrotum. Þeir sem eru 67 ára og eldri eru slegnir af, fá ekki að vera með, líklega halda þeir sem þessari skoðanakönnun stýra að allir sem komnir eru á þennan aldur séu elliærir. Ekki í fyrsta sinn sem eldra fólki er sýnd fyrirlitning.
En það sem vekur athygli er að Sjálfstæðisflokkurinn er skv. þessari skoðanakönnun stærsti flokkur landsins og stuðningurinn við Ríkisstjórnina er komin niður í um 43%, sem sagt minni hluti landsmanna styður stjórnina sem er að berjast við að moka þann flór sem Sjálfstæðisflokkurinn útbíaði með dyggum stuðningi Framsóknarflokksins.
Eru þeir Davíð, Árni Matt., Halldór og Finnur gleymdir?
Erfiðasta mál þessarar Ríkisstjórnar er tvímælalaust Icesave málið
Skammtímaminni fólks er ótrúlega lélegt. Allur áróðurinn núna virðist beinast að því að gera núverandi Ríkisstjórn ábyrga fyrir því að Icesave reikningar Landsbankans urðu til, þessi ryksuga sem var sett í gang til að sópa peningum frá sárasaklausum almenningi í Hollandi og Bretlandi.
Voru að Jóhanna og Steingrímur sem stofnuðu þessa svikamillu sem Icesave reikningarnir voru?
Þeir sem þá stofnuðu voru þessir fjórmenningar, Davíð, Árni matt., Halldór og Finnur Ing. sem lögðu grundvöllinn að því að hér varð til einhver mesta fjarhags- og bankabóla sem þekkst hefur í heiminum, bóla sem síðan sprakk framan í okkur öll íbúa þessa lands. Davíð var gerður að Seðlabankastjóra og hann vann það afrek að gera Seðlabanka Íslands gjaldþrota!!! Ríkissjóður varð að leggja bankanum til 200 milljarða krónu svo hægt væri að segja að hann væri starfhæfur. Heimdellingur Jónas stýrði Fjármálaeftirlitinu þannig að bankarnir fengu að valsa um óáreittir og þannig gátu þeir Sigurjón, Halldór, Kjartan og Björgúlfur sett ryksuguna í gang og sópað til sín peningum í útlöndum, peningum sem nú eru týndir og við öll fáum að súpa seiðið af um ókomin ár.
Og nú er stór hópur fólks búinn að gleyma því hverjir komu okkur á kaldan klaka, hvaða einstaklingar og hvaða flokkar.
Þessir tveir flokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur og foringjar þeirra koma nú fram af ótrúlegu ábyrgðarleysi, reyna eingöngu að fiska í gruggugu vatni, vinna gegn hagsmunum almennings, nota hverja smugu til að reyna að koma höggi á þá sem eru að reyna að bjarga landi og þjóð frá þeim hörmungum sem þeir bera ábyrgð á.
Ætlar stór hluti þjóðarinnar virkilega að sýna þessum flokkum, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og foringjum þeirra Bjarna og Sigmundi Davíð traust? Við þessa tvo menn voru bundnar nokkrar vonir, að þeir mundu endurnýja starfsaðferðir þessara flokka, þeir mundu leggjast á árar og hjálpa til við björgunarstarfið.
Þessir flokkar og þessir forystumenn hafa gjörsamlega brugðist.
9.9.2009 | 10:15
Olli Rehn og sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins
Mér finnst full ástæða til að bjóða þann finnska Olli Rehn velkominn til Íslands. Við erum að fara í aðildarviðræður við ES, þess vegna er fengur að komu þessa góða gests sem hefur í tösku sinn litlar 2000 spurningar sem Jóhanna, Steingrímur og við öll verðum að svara skilmerkilega.
Sem betur fer tókst svo vel til að Alþingi samþykkti, naumlega þó, að sækja um aðild að ES. Á engan annan hátt var hægt að binda enda á áralangt þras um hvort þarna væru gull og græna skóga að fá eða ginnungagap ofstjórnar og allsherjar taps sjálfstæðis þjóðarinnar væri öruggt. Hvorutveggja er fjarri lagi.
En innganga íslands í EB er allt annar handleggur en umsókn um aðild og aðildarviðræður. Menn setja fyrir sig einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu bandalagsins og það er svolítið sem vefst fyrir mér, algjörum landkrabba, þegar ég kíki inn í þann furðulega heim sem kallast sjávarútvegsstefna ES. Ég ætla samt að velta þessu aðeins fyrir mér í von um að einhverjir sérfræðingar í þjóðarrétti kunni að álpast inn á bloggið mitt og sýni mér fram á hvað ég er grunnhygginn eða þá sem ég vona frekar; að ég sé að ræða mál sem sé þess virði að það sé skoðað.
Sjávarútvegsstefna ES virðist vera einhverskonar grautur á þann hátt að þjóðir fái leyfi til að fara inn í landhelgi annarra ríkja og veiða þar fisk, sérstaklega ef þær hafa eitthvað sem kallast veiðireynsla sem oftast er fyrri rányrkja eins og margar þjóðir stunduðu á Íslandsmiðum.
En nú spyr þessi fávísi landkrabbi:
Hvers vegna er það ótvírætt að hver þjóð á þau gæði sem felast í hafsbotninum undir eigin landhelgi?
Danir eiga ótvíræðan rétt til olíu og gass undir sinni landhelgi, það eiga Skotar einnig.
Enginn dregur í efa að við eigum það sem leynast kann á hafsbotni Drekasvæðisins, þessu horni lengst norður í höfum út undir 200 mílna mörkunum.
Og enn spyr landkrabbinn:
Af hverju gildir ekki ótvírætt það sama um fiskinn í sjónum og það sem gildir um það sem leynast kann í hafsbotninum. Víða eru staðbundnar fiskitegundir sem alast upp verða veiðanlegir með hækkandi aldri, hjá okkur er víst þorskurinn fremstur meðal jafningja í þeirri stóru fjölskyldu.
Svo eru líka flökkustofnar svo sem síld, makríll og kolmunni sem fara má segja "milli landa". Í dag verðum við að semja um veiðar úr slíkum stofnum, það er engin nýlunda.
Evrópusambandið er í syngjandi rugli með sína sjávarútvegsstefnu. Geta Íslendingar lagt fram lausnir sem losa þá úr snörunni, hver þjóð skal eiga þá staðbundnu fiskistofna sem eru sannarlega í þeirra landhelgi. Ef fiskur þvælist í Norðursjó yfir mörkin, fer úr Skoskri landhelgi yfir í Dnaska þá einfaldlega breytir hann um ríkisfang, verður Danskur.
Þetta var hans val.
31.8.2009 | 10:12
Það hvarflar ekki að mér að Ólafur Ragnar muni synja því að staðfesta samþykkt Alþingis um Icesave
Það hefur verið lítil freisting að setjast við tölvuna til að blogga um hásumarið. Garðurinn býður upp á skemmtilega útiveru og vinabæjarmótið sem við 20 Ölfusingar sóttum í Skærbæk í Danmörku fyrstu vikuna í júlí var bráðskemmtilegt og vel skipulagt og stjórnað af Dönum.
En nú er Icesave máið að mestu komið í höfn, það er við hafnarkjaftinn, það á aðeins eftir að leggjast að bryggju og fá landfestar frá forseta vorum Ólafi Ragnari.
Menn hafa verið að gera því skóna, og sumir að krefjast þess, að Ólafur Ragnar synji því að samþykkja þessa afdrifaríku lagasetningu Alþingis. Margir líkja þessu við synjun forsetans á alræmdu frumvarpi Davíðs og Halldórs, hið svokallað fjölmiðjafrumvarp. Slík samlíking er algjörlega út í hött, raunar var fjölmiðlafrumvarpið ekki nema stormur í vatnsglasi miðar við stórviðri og brimskafla Icesave málsins. Ég veit að Ólafur Rafnar forseti er það raunsær maður að hann mun ekki setja þjóðlífið á annan endann með synjun.
En eitt er víst; þeir sem komu okkur Ísendingum í þetta skelfilega Icesave mál eru líklega einhverjir mestu óhappamenn sem finnast á landi hér og það má alveg fara allt aftur í landnám til samanburðar!
Það hefur verið bent á Gamla sáttmála til samanburðar en í raun var hann að sumu leyti ill nauðsyn, landið var að einangrast, loftslag breyttist til hins verra, lífkjör versnuðu, skipum fækkaði. En nóg um Gamla sáttmál.
En gerði ríkisstjórnin mikil mistök í Icesave málinu? Ekki er nokkur vafi á því í mínum huga að við bárum ábyrgð á Icesave reikningum Landsbankans sem óheillakrákan Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri LÍ segir að okkar ábyrgð hafi aldrei verið til. Sigurjón Árnason og hans samverkamenn ættu að skammast sín og láta sem minnst fyrir sér fara. En hvað um ríkistjórnina? Ég var yfir mig undrandi þegar Steingrímur fjármálráðherra skipaði gamlan flokksbróður sinn Svavar Gestsson sendiherra sem formann samninganefndarinnar, það var með eindæmum óheppilegt. Ég tel að samninganefndin um Icesave hafi ekki verið skipuð þeim hæfustu sem finnanlegir voru innanlands og það átti tvímælalaust að fá einnig hæfustu menn í útlöndum til að taka beinan þátt í samningaviðræðum.
En hvað um þátt Alþingis? Þar kemur furðuleg afstaða margra til Alþingis í ljós. Almenningur er orðinn svo vanur að ríkisstjórnin og framkvæmdavaldið í heild valti yfir Alþingi að fjölmargir halda að eitthvað sé bogið við það að Alþingi taki málið í sínar hendur og vinni það án þess að láta ríkisstjórnina segja sér fyrir verkum frá degi til dag.
Þar var Guðbjartur Hannesson form. fjárlaganefndar tvímælalaust fremstur með jafningja og vegur Alþingis hefur tvímælalaust vaxið af þessari glímu.
En svo reyndu sumir að fiska í gruggugu vatni og þar fór Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins fremstur. Ég hafði trú á þessum manni fyrst þegar hann kom inn í pólitíkina en sú trú er löngu gufuð upp. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn undarlegur söfnuður sem virðist ekkert vita hvert á að stefna. Öðru vísi mér áður brá þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði niðurnjörvaða stefnu og fylgdi henni gegn um þykkt og þunnt ekki síst til að hygla sínum mönnum og fyrirtækjum. Bjarni Benediksson virðist ekki ná neinum tökum á stjórn flokksins. Bláa höndin virðist enn stjórna bak við tjöldin. Það sáu það allir sem sjá vildu að það var óheppilegt að gera mann úr innstu elítu flokksins að formanni til að leiða endurreisnina eftir hina fráleitu arfleið Davíðs en Bláa höndin réði ferðinni. Það kom ekki til greina að sækja foringjann út á land, mann sem hafði víðtæka reynslu úr atvinnulífi og sveitarstjórn. En hann var ekki í elítunni eða af Ættunum, því fór sem fór. Ég hef ekki orku til að ræða um garminn hann Ketil, Borgaraflokkinn.
Þvílíkir rugludallar hafa líklega aldrei sest á Alþingi Íslendinga og hafa þó margir undirmálsmenn náð að smeygja sér þar inn.
3.8.2009 | 23:24
Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður Jóhönnu forsætisráðherra?
Það er gott framtak hjá Ágústi H. Bjarnasyni að birta mjög umtalaða grein Evu Joly um framkomu útlendinga, ráðandi manna í æðstu stöðum, gagnvart Íslandi, meira að segja á norsku, ensku, frönsku og íslensku. Ég er þegar búinn að senda greinina á norsku til tveggja í Noregi, einnig tveggja í Svíþjóð og svo sendi ég syni mínum í Frakklandi hana auðvitað á frönsku. Mér finnst grein Evu hnitmiðuð og rökföst og hún rifjar upp stutta grein eftir Ólaf Hauksson fjölmiðlatengil um að ekki hafi verið staðið nógu vel að kynningarmálum erlendis á okkar sérstæðu aðstæðum eftir hrunið og reyndar skortir enn á það að nógu vel sé að því staðið innanlands.
En hvað um Hrannar?
Hrannar er aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Jóhanna valdi hann sjálf til þeirra verka að vera hennar nánasti samverkamaður. Þess vegna bregður manni illilega þegar persóna í slíkri stöðu veður fram og gagnrýnir hvað er sagt um íslensk málefni eins og Eva Joly gerði í grein sinni. Hrannar mun hafa sagt á heimasíðu sinni að Eva ætti ekki að skipta sér af efnahagsmálum Íslands, það væru aðrir sem færu með þau mál. Er hægt að líta á það öðruvísi en þannig að það sem aðstoðarmaður forsætisráðherra lætur frá sér fara sé bergmál af skoðunum ráðherrans? Í öðru lagi; eiga aðstoðarmenn ráðherra yfirleitt að vera að leggja orð í belg í opinberri umræðu, þeir eru í mjög viðkvæmri og sérstæðri stöðu.
Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður forsætisráðherra?
Auðvitað verður Jóhanna að ákveða það. En hún verður að gera sér það ljóst að ef engin breyting verður á högum og störfum Hrannars er hún að taka afstöðu með hans skoðunum sem hann hefur sett fram á ákaflega óheppilegan hátt.
Að mínu áliti á Jóhanna að víkja Hrannari úr starfi.
.
24.4.2009 | 10:19
Hnitmiðuð og vel skrifuð grein eftir Grím Atlason
Stundum rekst maður á vel skrifaðar og hnitmiðaðar greinar í prentmiðlum, þessi grein Gríms Atlasonar er ein af þeim en hún birtist í Fréttablaðinu í dag. Fréttablaðið sé ég nú einungis á netinu, við hér í Þorlákshöfn fáum nokkur eintök send sem eru horfin fyrir kl 9:00 á morgnana. Þar sem ég tel að þessi ágæta grein Gríms eigi mikið erindi til allra daginn fyrir kjördag og Fréttablaðið virðist á fallandi fæti gerist ég svo djarfur að taka hana traustataki og birta á mínu bloggi. Ef ég man rétt var Grímur bæjarstjóri í Bolungarvík en er nú sveitarstjóri í Dalabyggð (Búðardal) og eins og sést neðst á framboðslista VG. Þessi grein fyllir mig Samfylkingamanninn bjartsýni á að núverandi stjórnarflokkar haldi áfram samstarfi í næstu ríkisstjórn, þá meirihlutastjórn, og sú stjórn sæki þegar um inngöngu í Evrópusambandið. Það er ekki sama og innganga, þá lyftist lokið og við sjáum svart á hvítu hverra kosta við eigum völ. Síðan er það þjóðarinnar að taka afstöðu til þess sem býðst.
Grímur Atlason skrifar um Evrópumál
Við verðum að skipta um gjaldmiðil - það er staðreynd. Kerfið, sem kallað var íslenska efnahagsundrið, bjó hér til loftbóluhagkerfi sem sprakk í andlitið á okkur með hrikalegum afleiðingum. Vaxtamunur og ónýtur gjaldmiðill hafa síðan gert það að verkum að við erum í algjörri pattstöðu. Nú er svo komið að þessi fyrirtæki eru flest farin að pakka niður og ætla sér annað. Við verðum að bregðast við.
Verkefni stjórnvalda eftir þessar kosningar eru eftirfarandi:
1. Setja sér samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu og lýsa yfir eindregnum vilja okkar til þess að leggja af krónuna sem gjaldmiðil og taka upp evru.
2. Þjóðnýta kvótann og tryggja þannig að auðlindin haldist hjá þjóðinni og að byggðir landsins geti blómstrað á ný.
3. Ofangreindar aðgerðir ásamt samningum við lánardrottna okkar og jöklabréfaeigendur gerir það að verkum að hægt verður að lækka vexti fljótt og örugglega og verðbólga lækkar í kjölfarið.
4. Menntun menning og aftur menntun og menning eru lykilhugtök uppbyggingarinnar.
5. Styrkja sveitarstjórnarstigið þannig að nærsamfélagið verði starfhæft - en það er lykillinn að uppbyggingu.
6. Veðja á margt smátt í stað þess að veðja á eina patent lausn: Álver og bankar eru ágæt með en bara álver og bara bankar er fullreyndur stígur.
7. Fæðuöryggi þjóðarinnar verður best tryggt með því að hlúa að og styrkja íslenska matvælaframleiðslu - það fer ágætlega saman við inngöngu í Evrópusambandið.
Það er klárt mál að samningsmarkmið okkar eiga að vera skýr þegar kemur að samningum við ESB. Sérstaða íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs liggur fyrir. Við erum eyþjóð og það er klárt að óheftur innflutningur t.d. á hráu kjöti gengur ekki upp. Það er líka rétt að 90% af pakkanum liggur ljós fyrir. En það er ekki eins og það sé slæmt.
Það er ekki stefna ESB að ofveiða fisk. Reglur ESB stuðla að hlutfallslegum stöðugleika og tryggja að íslenskur sjávarútvegur nýtur nálægðarinnar við miðin og hefðarréttar á stofnum sem ekki eru deilistofnar. Innan ESB verðum við ein af þremur stærstu fiskveiðiþjóðum sambandsins og í sterkri stöðu til að hafa mikil áhrif á mótun nýrrar fiskveiðistefnu. Þessu verður að halda til haga fyrir grátkórnum.
Stöðu sveitarfélaga á Íslandi, ekki síst þeirra sem eru á landsbyggðinni, er betur borgið innan Evrópusambandsins. Mýmargar áætlanir sem miða að uppbyggingu á harðbýlum svæðum og köldum hagkerfum innan einstakra landa eru í gangi. Þessar áætlanir hafa skilað umtalsverðum árangri m.a. í Portúgal, Spáni, Svíþjóð, Finnlandi, Slóveníu og Póllandi. Hverfum frá haftastefnunni, hún er vond og mun ekki byggja upp blómlega byggð á Íslandi. Losum bændur, sjómenn og aðra undan klöfum ofurvaxta og einhæfni.
Tökum þátt í samfélagi þjóða og öxlum okkar ábyrgð. Höfum trú á okkur sjálfum og því sem við getum gert fyrir Evrópu. Spyrjum ekki bara; hvað getur Evrópusambandið gert fyrir okkur? Spyrjum líka: Hvað getum við gert fyrir Evrópu? Okkur mun farnast vel sem fullgildum þátttakanda í samfélagi Evrópuríkja. Þess vegna er ég sammála því að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið strax að loknum kosningum. Ef þú ert sammála skráðu þig þá á www.sammala.is.
Höfundur er í 6. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar