Færsluflokkur: Evrópumál

Þjóðremba nær nýjum hæðum hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur náði hæstu hæðum í þjóðrembu með sinni fáránlegu tillögu um að skora á Ríkisstjórnina að hún komi í veg fyrir að Evrópusambandið taki umsókn Íslands  til umræðu og líklega afgreiðslu á 17. júní af því að þessi dagur er þjóðhátíðardagur Íslendinga!!!

Aðeins Oddný Sturludóttir  sá hversu fáránleg þessi ályktun var og gerði sérstaka bókun gegn því að ÍTR færi að skipta sér af utanríkismálum. En sex ráðsmenn voru einhuga um þessa endemisþvælu. Það virðist svo að ýmsir umhverfist algjörlega ef minnst er á umsóknaraðild Íslands að ESB. Umsóknin er þó einganveginn ákvörðun um inngöngu, við vitum ekki hvað kemur í ljós, en það sem út úr þeim viðræðum kemur ætti að vísa öllum veginn hvort sem er gegn inngöngu eða með inngöngu.

Ég beini því til sexmenninganna hvort þeir ættu ekki að snúa sér frekar að því að starfa innan sértrúarhópa þar sem bókstafurinn blífur. Vottar jehóva væri þeim ábyggilega góður staður eða þá Krossinn. Þar vantar sárlega nýja stríðsmenn sem láta sig ekki aðeins sig varða trúna einu og sönnu. Landsmálin munu jafnvel skyggja á hin háleitari markmið, sanna trú, þar sem Gunnar í Krossinum mun jafnvel fara í framboð í næstu forsetakosningum.


Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er á hörmulega lágu stigi

Ég var í þeim hópi sem vonaði að umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði til þess að umræðan um hugsanlega kosti og galla aðildar yrðu yrði yfirvegaðri en áður þar, væntanlega fáum við staðreyndir og svör um aðild sem við getum byggt á.

En því er ekki aldeilis að heilsa. Þeir sem fara mikinn hér á blogginu og hafa í frammi "svartagallsraus" um hvað bíði okkar ef við göngum þar inn hafa færst í aukana en þeir sem vilja upplýsta umræðu hafa nánast þagnað.

Ég get vel endurtekið hver mín afstaða til aðildar er, það hef ég reyndar gert áður hér á blogginu. Ég get engan vegið gert það upp við mig með jái eða neii, ég verð fyrst að fá mörg svör við áleitnum spurningum. Því miður eru margar fullyrðingar i gangi um allar þær skelfingar sem bíði okkar ef við förum inn en í rauninni veit enginn neitt  hvað er handan hornsins. Þeir neikvæðu benda til dæmis oft á hina meingölluðu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, það liggur í augum uppi að hana munum við aldrei samþykkja, við eigum og munum eiga óskoraða lögsögu yfir okkar landhelgi og þeim staðbundnu fiskistofnum sem þar eru. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af ísl. landbúnaði. Í honum býr það mikil sköpunargleði (ef hann fær að starfa óáreittur af stóra bróður) að hann mun spjara sig.

Ég hef fylgst með ýmsum svartagallsbloggurum hér sem tína allt til sem er skelfilegt við aðild að Evrópusambandinu. Ein fáránlegasta röksemdin er sú að ofboðslegir erfiðleikar Grikkja séu Evrópusambandinu og evrunni að kenna. Þarna er staðreyndum algjörlega snúið á haus, ef það er eitthvað sem getur bjargað Grikkjum út úr fjármálöngþveiti þeirra er það einmitt aðildin að ESB og upptaka evrunnar.

Það er full ástæða til að rifja það upp af hverju fjármálöngþveiti Grikkja stafar. Það er algjörlega heimatilbúinn vandi. Grikkland hefur alla tíð verið spillt land sem hefur eytt langt um efni fram. Embættismenn og pólitíkusar hafa rænt og ruplað úr fjárhirslum ríkisins undanfarna ártugi auk þess að stjórnvöld hafa falsað opinberar tölur úr ríkisbúskapnum, reynt með því að leyna vandanum og fegra ástandið. Það þarf því engan að undra þó almenningur í Grikklandi rísi upp svo að við borgarastyrjöld liggur. Allur almenningur veit og hefur alltaf vitað hvað yfirstéttin, stjórnmálamennirnir, embættismennirnir og fjármálbraskararnir eru eru gjörspilltir mútuþegar og ekki nóg með það. Þar hafa menn stolið , rænt og ruplað og nú á almenningur að borga brúsann með versnandi hag, lægri launum og hærri sköttum. Munurinn á Grikklandi og Íslandi er sá að þar hefur glæpalýðurinn haft miklu meiri tíma til að stela og blekkja, hérlendis voru þeir stöðvaðir það fljótt en voru þó búnir a tæma bankana og hirða alla þá fjármuni sem þeir komust yfir.

Ég hef ekkert á móti því að fá ábendingar um það sem slæmt er við aðild Íslands að ESB, en farið ekki með bull og rangar staðhæfingar. En ég efa ekki að þeir svæsnustu munu halda áfram að berja höfðinu við steininn og kenna ESB um spillinguna og þjófnaðinn á þjóðarauði í Grikklandi.

 


Margt er gott sem gamlir kveða

Í gær var stutt viðtal við þann aldna hagspeking Jónas Haralz í Speglinum, fréttasýringarþætti Ríkisútvarpsins. Þar rifjaði Jónas upp ummæli Ásgeirs Ásgeirssonar, sem síðar varð Forseti íslands, ummælin að ég held frá árinu 1929. Þar benti Ásgeir á að krónan, gjaldmiðill okkar, getur ekki staðið ein sér, þá hafði hún gullfótinn til að styðjast við. En gullfóturinn er löngu týndur og tröllum gefinn og Jónas sagði að þessi örmynt okkar, íslenska krónan, gæti aldrei staðið ein og óstudd. Krónan yrði að minnsta kosti að komast í myntbandalag með öðrum sterkari þjóðum og það lægi beinast við að það yrðu ríki á meginlandi Evrópu, m. ö. o. að við gengjum í Evrópusambandið og tækjum upp Evruna, þannig skyldi ég Jónas Haralz í viðtalinu í gær.

Annað mikilvægt atriði sem Jónas kom inn á var sú mikla breyting sem orðið hefur á bakgrunni þeirra sem sitja á Alþingi og ekki síður sú mikla breyting sem hefur orðið á bakgrunni embættismann ríkisins. Alþingismenn fyrr á árum voru langflestir sterkir og reyndir einstaklingar sem voru valdir til að fara með umboðsvald þjóðarinnar vegna þess að þeir höfðu sannað sig í atvinnulífinu. Þetta voru bændur, útgerðarmenn, iðnrekendur og auk þess var það nánast algilt að á Alþingi sátu forystumenn úr verkalýðsfélögum og sveitarstjórnum. Þeir sem voru það sem kalla má atvinnustjórnmálamenn voru í minnihluta. Nú er allt breytt. Risið hefur upp stétt "atvinnupólitíkusa" sem fara blautir á bak við eyrun frá skólagöngu (mjög líklega með lögfræðipróf) hafa hvergi tekið til hendi í atvinnulífinu. Þessir "atvinnupólitíkusar" eru til í öllum flokkum og eru svo heillum horfnir að þeir skilja það ekki að það sé nokkuð athugavert við það að skófla til sín milljónum og milljóntugum króna til að ryðjast fram fyrir samherja og flokksbræður og systur, nánast til að kaupa sér atkvæði. Því miður hafa almennir kjósendur gleypt þetta agn og fylgt sér á bak við þá sem skrapað hafa saman mestu fjármununum til að kaffæra félaga sína.

En það er sjálfsagt að láta alla njóta sannmælis. Það hafa komið fram einstaklingar alla tíð sem hafa á ungra aldri farið beint í stjórnmál frá prófborðinu en þeir eru í miklum minnihluta. Flestir sem létu að sér kveða á Alþingi áður fyrr komu frá hinum ýmsu afkimum þjóðfélagsins með mikla reynslu að baki.

En hvað um embættismennina? Áður fyrr var mikið lagt upp úr því að embættismenn væru valdir vegna óumdeilanlegra hæfileika sinna en á síðari árum hefur flokksskírteini verið mikilvægara en meðfæddir eða áunnir hæfileikar.


Smákóngaárátta er undirrótin að baráttunni gegn Iðnaðarmálagjaldinu

Maður er nefndur Vörður og er húsasmíðameistari. Hann hafði sigur gegn Iðnaðarmálagjaldinu fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Ætla mætti að þar færi maður mikilla hugsjóna en sagan er reyndar allt önnur. Samtök iðnaðarins, sem hafa tekið við þessu gjaldi og ráðstafað því til góðra verka, eru samtök flestra þeirra sem reka iðnfyrirtæki þar á meðal flestra meistarafélaga í iðnaði, flestra félaga í byggingariðnaði. Gjaldinu hefur verið varið til uppbyggingar menntunar í iðnaði. Ég er hér fyrir framan mig 6 binda flokk kennslubóka fyrir pípulagnanema sem sækja sína bóklegu menntun í Fjölbrautar- og iðnskóla. Þetta er flokkur kennslubóka, sem ég hafði forgöngu um að var saminn og gefinn út á þeim árum sem ég var starfandi með Samtökum iðnaðarins. Þessi bókaflokkur var að mestu kostaður af þeim fjármunum sem fékkst með Iðnaðarmálagjaldinu, auk þessa fjölmörg önnur framfaramál iðnaðarins í landinu.

En það eru til smákóngar sem ekki vilja styðja heildina og þar eru fremstir forystumenn Meistarafélags húsasmiða, Meistarafélags dúklagningamann og Félag pípulagningameistara. Þeir vilja ekki skipa sér í megin afl sem Samtök iðnaðarins enda augljóst að þar kæmust þeir ekki til fremstu mannaforráða vegna eigin verðleika, þess vegna er betra að hokra í kotinu heldur en eiga heimilisfesti á höfuðbólinu.

En þessir hokrarar sáu ofsjónum yfir Iðnaðarmálagjaldinu sem þeir eins og aðrir iðnrekendur þurftu að borga. Þeir hófu baráttu, ekki að leggja gjaldið niður heldur að þeir fengju hluta af kökunni. Sú barátta stóð lengi en löggjafinn taldi að gjaldið kæmi flestum að bestum notum ef einn, í þessu tilfelli Samtök iðnaðarins, sæju um vörslu þess og ráðstöfun.

Þá gáfust kotbændur upp en hófu nýja baráttu. Fyrst þeir fengju ekkert í sinn vasa skyldi enginn fá neitt. Þannig var stefnunni kúvent og nú hófst mikill málarekstur fyrir Héraðsdómi fyrst og síðan Hæstarétti. Á báðum dómstigum töpuðu kotbændur. Þá var stefnt fyrir Mannréttindadómstólinn þar sem þeir höfði sigur. Ekki að skatturinn væri ólöglegur heldur að eitt hagsmunafélag, Samtök iðnaðarins, fengi hann til umráða og ráðstafaði honum. Ef þessum skatti sem var ráðstafað til  eflingar iðnaði í landinu, fyrst og fremst til menntunar og í önnur mikilvæg málefni iðnaðar, og það hefði verið óháður aðili sem hefði stýrt því hefði gjaldið ekki verið dæmt stangast á við mannréttindi.

Það er skaði fyrir allan iðnað á Íslandi að þessi skattstofn og tekjustofn fyrir menntun og þróun iðnaðar skuli þar með verða afnuminn. Mér finnst rétt að sagan komi fram eins og hún er rétt, þeir sem þarna unnu að málum eru ekki réttlætismenn sem höfðu sigur heldur litlir kallar sem af öfundsýki og lítilmennsku börðust fyrir því að skaða íslenskan iðnað og höfðu sigur, því miður.

En það eru fjölmörg önnur samtök á Íslandi sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Bændasamtökin og Félag smábátaeigenda. Þess vegna er ég undrandi á því sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir (sé það rétt eftir haft) að þó Iðnaðarmálagjaldið verði afnumið verði ekki hreyft við annarri skattheimtu á ýmsar atvinnugreinar þar sem skattheimtan rennur til hagsmunasamtaka.

Nú er um tvennt að velja fyrir stjórnvöld:

1. Afnema iðnaðarmálagjaldið og öll önnur hliðstæð gjöld sem í gildi eru hérlendis.

2. Láta öll þessi gjöld standa en færa þau til óháðra aðila sem ráðstafi þeim til eflingar viðkomandi  atvinnugrein. Óháðu aðilarnir gætu einfaldlega verið stjórnir sjóða sem myndast af gjaldinu,  þessar stjórnir gætu verið skipaðar af ráðherra þó með tilnefningum að hluta frá helstu hagsmunaaðilum. Þetta yrði ekki ólíkt og stjórnir lífeyrissjóða sem vissulega eru ekki góðar fyrirmyndir.

Eitt er víst; við getum ekki hundsað dóm Mannréttindadómstólsins. En við getum samt með breytingum látið þessa gjaldtöku standa. Það er þörf fyrir hana og þetta gjald hefur á undanförnum árum staðið undir kostnaði við mörg framfaramál iðnaðarins. En það eru samtök hér á landi sem beinlínis líta á þetta gjald sem félagsgjald sinna samtaka og það getur ekki staðist. Ég fullyrði að svo er ekki raunin með Iðnaðarmálagjaldið en íslenskur iðnaður má ekki missa þann slagkraft góðra verka sem þetta gjald stendur undir.

Ég vona að "kotbændurnir" hjá húsasmíðameisturum, dúkagningameisturum og pípulagningameisturum verðir ekki hafnir til skýjanna með geislabaug réttlætis um höfuðið. Þeirra gjörð var í upphafi að skara eld að sinni köku en þegar það tókst ekki var kúvent; fyrst þeir fengju ekkert skyldi enginn fá neitt.

 


Þetta skrifaði ég til konu sem heitir Guðrún Sæmundsdóttir hér á blogginu, vona hennar vegna að hún fjalli um menn og málefni á heiðarlegri hátt en hingað til

Sú endurvakning sem ég vonaði að Skýrslan mikla hefði í för með sér var að ekki aðeins sú að forystumenn þjóðarinnar, heldur hver og einn, temdi sér heiðarlegri starfshætti, sérstaklega margir bloggarar þyrftu á því að halda.

Guðrún, þú virðist ekki taka það til þín að heiðarleg umfjöllun um öll mál er nauðsyn, þú virðist ekki hafa neitt á móti því að fara með rangt mál ef þér finnst það henta þér, tilgangurinn helgar meðalið:

1. Skýrslan mikla segir ítarlega frá því hvernig Bresk yfirvöld reyndu nánast allt sumarið 2008 að fá Landsbankann til að færa Icesave innlánin inn í banka sinn í London úr útibúinu. Ef það hefði verið gert værum við á engan hátt í ábyrgð fyrir þessum innlánum þau hefðu orðið á ábyrgð breska fjármáleftirlitsins og þarlends tryggingarsjóðs innlána. Landsbankinn hafði góð orð um þetta í byrjun en þæfði það stöðugt og lét ekki undan þrýstingi Breta. Hversvegna? Landsbanka menn segja frá því í skýrslunni. Það var vegna þess að þá hefðu þeir ekki getað mergsogið útibúið í London, flutt þessi innlán til Íslands til að lána þetta fjármagn Björgólfunum og öðrum tortúlulubbum.

Ætlar þú að halda því fram að það sem sagt er í Skýrsluni um þetta sé rangt?

2. ESB reglum var ekki þröngvað upp á okkur, við samþykktum á Alþingi að taka þessar reglur upp. Bankahrunið er ekki þessum reglum að kenna heldur þeim sem brutu þær. Er það umferðarlögum að kenna að skelfileg umferðaslys verða á íslenskum þjóðvegum á hverju ári?  Þeir menn sem eyðilögðu bankana voru eigendur og stjórnendur allra íslensku bankanna sem hafa, skv. Skýrslunni brotið nær öll lög og  reglur um bankastarfsemi og sópuðu að lokum fjármagni úr gjaldþrota bönkum, lánuðu sjálfum sér og einnig erlendum fjárglæframönnum.

3. Við höfum ekki hugmynd um hvaða réttindi og skyldur fylgja því að ganga í ESB, það  fæst einungis með aðildarviðræðum. ESB er í miklum ógöngum með sína sjávarútvegsstefnu. Við munum ALDREI framselja yfirráð okkar yfir fiskveiðilögsögunni til ESB, ég er fylgjandi aðild, en þetta mundi ég aldrei samþykkja slíkt. Er einhver von til að við fáum það samþykkt? Á langri ævi hef ég upplifað þá tíma sem íslensk landhelgi var aðeins 3 mílur frá strönd. Þá áttum við framsýna og dugmikla stjórnmálamenn svo sem Ólaf Thors og Lúðvík Jósepsson sem hikuðu ekki við að hefja baráttu fyrir auknum réttindum okkar til að ráða okkar eigin auðlindum, hafinu í kringum Ísland. Fyrsta baráttan var 12 mílur frá grunlínupunktum, sigur í þeirri baráttu. Síðan barátta fyrir 50 mílum frá grunnpunktum, þá barátta fyrir200 mílum einnig sigur þar. Við segjum einfaldlega við Evrópusambandið: hvers vegna eiga Danir og Bretar rétt á olíu og gasi í sinni lögsögu, hvers vegna eigum við rétt á því sama á Drekasvæðinu. Hvers vegna gildir ekki það sama um staðbundna fiskistofna innan lögsögunnar? Það á enginn sögulegan rétt til fiskveiða innan lögsögu Íslands.

Getur þú fullyrt að við getum ekki náð fram þessum sjálfsögðu réttindum okkar?

Guðrún, eitt að lokum. Ef þú ætlar að halda áfram að blogga þá ég bið þig að bera það mikla virðingu fyrir sjálfri þér og þínum viðmælendum að hafa það sem sannara reynist en ekki gaspra um hluti sem þú greinilega hefur ekkifyrir að kynna þér.

Sammála Sigríði Ingibjörgu en ósammála Ingibjörgu Sólrúnu

Ber Samfylkingin einhverja ábyrgð á Hruninu mikla í október 2008? Ég er algjörlega sammála Sigríði Ingibjörgu alþingiskonu Samfylkingarinnar að við Samfylkingarfólk eigum tvímælalaust að bera höfuðið hátt og þola þá sjálfskoðun hvort við berum einhverja ábyrgð í þessu skelfilega Hruni. Það mun ekki sýkna þá sem hófu þá vegferð með því að nánast gefa vildarvinum sínum Landsbankann og Búnaðarbankann, en þar var sáð til Hrunsins auk þess sem skefjalaus frjálshyggjustefna þeirra Davíðs og Halldórs var stór og mikill áhrifavaldur.

En í hver gæti þá ábyrgð Samfylkingarinnar verið?

Ég held að allir hafi flotið sofandi að feigðarósi, það voru flestir sem hrifust með djarfri uppbyggingu tortúlugæjanna sem voru svo ofsaklárir að þeir stóðu, að eigin áliti og mikils meirihluta þjóðarinnar, framar öllum fjármálamönnum heimsins, hvergi kristallaðist það betur en í þeirri makalausu ályktun þeirrar makalausu frjálshyggjustofnunar, Verslunarráðs, að Norðurlöndin stæðu okkur langt að baki í stjórn þjóðfélaga og fjármála.

Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar um mitt ár 2007 undir stjórn Geirs Haarde. Það á eftir að koma í ljós hvort ráðherrar Samfylkingarinnar voru nógu vel á verði þá 16 mánuði sem hún var aðili að Ríkisstjórn, þar kann ýmislegt að koma í ljós. Ekki víst að okkar ráðherrar hafi gert sér það ljóst að þessari Ríkisstjórn var fjarstýrt að fyrrum pólitíkus, Davíð Oddssyni, sem sat í forsæti í bankastjórn Seðlabankans

En af hverju er ég ósammála Ingibjörgu Sólrúnu og um hvað?

Ég skil ekki hvað hún er að fara með því að koma upp með þá fráleitu hugmynd að við hættum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún rökstyður það með því að ef aðild væri nú borin undir þjóðina þá yrði hún felld. Ég er sammála því. En það eru fjölmargir sem betur fer sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn, ég er meðal þeirra. Það er útilokað að taka afstöðu til inngöngu nema fyrir liggi hverjir kostirnir eru og  kvaðirnar sem fylgja. Mér finnst líklegt að við getum fengið góða kosti hjá Evrópusambandinu, þar með talið að við ráðum áfram yfir okkar staðbundnu fiskistofnum, ég held að íslenskur landbúnaður verði engan vegin verr setur eftir inngöngu, en þar þarf margt að breytast hvort sem við göngum inn eða ekki. Ísl. landbúnaður getur ekki legið endalaust uppi á landsmönnum með sinn betlistaf. Ég hef þá trú að með aðild að ES mundi hagur íslensk landbúnaðar vænkast, en þyrfti að breyta starfháttum sínu stórlega og standa á eigin fótum, það eiga allir atvinnuvegir landsins að gera.

Ef við drögum okkur til baka og hættum viðræðum um aðild að ES nú þá hefur það eitt gott í för með sér; við getum endanlega hætt að rífast um hvort okkur vegnar betur utan eða innan, aðildarviðræður sem svarað getur því hvað okkur býðst og hvaða kvaðir þurfum við að undirgangast verður aldrei svarað, það verða líklega engar aðildarviðræður teknar upp aftur næstu áratugi. Hverjir vilja ræða við þvílíka ruglukolla sem sækja um aðild en hlaupa frá þeim.

Ef Ingibjörg Sólrún hefur ekkert gáfulegra til umræðunnar leggja ætti hún að hugleiða hvort það sé ekki betra að sitja heima og segja ekkert.


Batnandi manni er best að lifa

Framsóknarmenn hafa sett fram nýja stefnu, ekki hef ég fengið plaggið til yfirlestrar en inntakið er "samvinna" og einhverntíma hefði það ekki þótt saga til næsta bæjar að það væri höfuðinntak í stefnu Framsóknarflokksins. Ég ætla nú ekki að vera svo sjálfhverfur að halda því fram að Sigmundur Davíð hafi lesið pistilinn minn hérna á blogginu sem bar þá þungu fyrirsögn "Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun" ef ég man rétt. Ég benti Sigmundi Davíð á það að hann hefði haft gullið tækifæri til að hefja sig og Framsóknarflokkinn upp úr skotgröfunum og starfa og tala af víðsýn,i en það hefur þessi maður aldeilis ekki gert, en sé svo að pistillinn minn hafi haft þessi áhrif á hann til betri manns þá er það vel

Ég við benda Sigmundi Davíð og öllum sem áhrif hafa í stjórnkerfinu á grein Magnúsar Orra Schram í Fréttablaðinu í dag. Málefni dagsins í dag er einmitt það sem hann bendir á; við verðum að komast að samkomulagi við Breta og Hollendinga um ICESAVE og það strax. Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og halda í einhveri óskhyggju að við komumst að betri kjörum en okkur stóðu til boða efir áramótin? Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og bíða í algjörri óvissu eftir kosningum í báðum löndunum sem eru okkar viðsemjendur?

Það sem við eigum að gera núna er að ná sambandi að nýju við Breta og Hollendinga á æðsta stjórnstigi (ráðherrastigi) og segja eignfaldlega "við göngum að ykkar tilboði sem þið settuð fram eftir áramótin og undirritum samkomulag um áframhaldið", þannig sleppum við eins vel og hægt er úr því sem komið er. Það hefur alltaf verið kristalstært að ICESAVE skuldina yrðum við að greiða á einhvern hátt.

Öll bið á lausn málsins er okkur miklu, miklu dýrari en að semja á grundvelli síðasta tilboðs Breta og Hollendinga. Ég tel það fullvíst þrátt fyrir stjórnmálaástandið í þessum löndum (starfsstjórn og kosningar framundan) að sitjandi stjórnir geta sem best gengið frá málinu eins og þær lögðu það upp eftir áramótin.

Ég hef ásakað Sigmund Davíð fyrir að hafa verið sá sem kom í veg fyrir samninga. Ég er ekki í nokkrum vafa að ég hef rétt fyrir mér. En nú hefur Sigmundur Davíð það gullna tækifæri að rísa upp fyrir argaþrasið, koma upp úr skotgröfunum og starfa af víðsýni út frá þjóðarheill, en ekki lágkúrulegum atkvæðaveiðum.

Hann ætti að sjá það manna best að þau veiðarfæri sem hann hefur notað hafa ekki fangað eina einustu bröndu.


Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokka og Ríkisstjórnar er merkilegt um margt. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir tapa fylgi frá síðustu skoðanakönnun og tæplega er hægt að búast við öðru eins og ástandið var um það leyti sem skoðanakönnunin var tekin. Ég er ekki í nokkrum vafa að þar eru þrjú mál helstu orsakavaldar.

1. ICESAVE. Almenningur er orðinn yfir sig þreyttur á þessu máli og það alvarlegasta er að mikill fjöldi fólks skilur hvorki upp né niður í því, það er engin furða. Minnið er stutt og fjölmargir eru búnir að gleyma því hvernig þetta mál varð til. Fjölmargir eru búnir að gleyma því að orsökin er einkavæðing (les gjöf) forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til helstu fjárglæframanna og gæðinga sinna flokka ásamt því hömlulausa frelsi sem þessum einkabönkum var gefið.

2. Sú skelfilega bóla sem þandist út í kjölfar hrunsins í skuldstöðu allra sem skulduðu á Íslandi og oftast hefur verið kallað "Skuldastaða heimilanna"er mikil orsök,  en rétt er að muna að þetta ástand hefur einnig hitt fyrir stóran hluta íslenskra fyrirtækja Þetta orsakast aðallega af tvennu; a) lánum sem miðast við erlenda mynt b) vísitölutrygging skulda. Risstjórninni hefur verið ásökuð fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við þessum gífurlega vanda hins venjulega Íslendings og það má taka undir það. Hún gat brugðist miklu hraðar við og sýnt meiri stjórnun. Vissulega er búið að gera ráðstafanir til að bjarga mörgum, það þekki ég persónulega. En síðustu ráðstafanir sem Ríkisstjórnin hefur boðað eru mikil réttarbót fyrir hinn venjulega mann. Ég við enn og aftur undirstrika, eins og ég hef gert áður, að það verður aldrei hægt að bjarga öllum, sumir munu missa allt sem þeir eiga og hefði líklega misst allt þó ekkert hrun hefði orðið. En þeir eiga einnig sinn rétt til að lifa í framtíðinni við þolanleg kjör. Það á ekki að gefa skuldheimtumönnum og fjármálastofnunum rétt til að halda þessu fólki í fátækragildru ár eða áratugi fram í tímann. Með þeim ráðstöfunum sem Ríkisstjórnin er nú að gera á að vera girt fyrir það. Að standa uppi eignalaus er skelfilegt, það þekki ég einnig persónulega. En að vera hundeltur árum saman er ennþá verra, það þekki ég einnig. Ég bjó við það að banki og Skattheimta ríkisins voru með mig í sínum greipum í meira en ártug eftir að ég hafði misst allt. Ég vona að enginn þurfi að lifa slíku lífi og ég held að nú séu að renna upp mannúðlegri tímar.

3. Órólega deildin hjá Vinstri grænum hefur valdið miklum skaða. Ögmundur springur á limminu og er hylltur sem hetja að öfgafólki til hægri og vinstri. Ég þarf ekki að lýsa því nánar, hér áundan er sérstakur pistill um það efni. Sú hugmynd að dekstra Ögmund aftur í ráðherrastól hefur kannski ekki kostað Vinstri græna svo mikið í þessari skoðanakönnun. En ég er ekki í nokkrum vafa að margir góðir og gegnir jafnaðarmenn eru að refsa Samfylkingunni, þetta spil í kringum prímadonnuna Ögmund var of beiskur biti til að margt Samfylkingarfólk, og þar á meðal ég, geti kyngt honum.

Skoðum meira í þessari mjög svo merkilegu skoðanakönnun. Hún sýnir mikla sókn Sjálfstæðisflokksins og það ætti ekki að koma svo mjög á óvart. Þarna er Sjálfstæðisflokkurinn að fá fylgi sem byggist engan veginn á verðleikum Bjarna Benediktssonar eða annarra forystumanna flokksins. Þarna birtist að fjölmargir fylgjendur Samfylkingarinnar og reyndar "skynsama" hluta Vinstri grænna eru að refsa sínum flokkum, ekki síst fyrir samstöðuleysið sem orsakast af órólegu deildinni í VG og "kóngalátum" Ögmundar. Ég endurtek enn og aftur; þá var mér nóg boðið. 

En skoðum þá eitt. Ef þetta er rétt greining hvers vegna kemur þetta ekki fram í aukningu hjá Framsóknarflokknum?

Þetta er það athyglisverðasta við þessa skoðanakönnun. Þessi niðurstaða sýnir hve mjög nýbakaður formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð, er rúinn öllu trausti. Þetta sýnir að almenningur í þessu landi lætur ekki hvað gapuxa sem er vaða uppi með stóryrði og bakferli, lætur ekki bjóða sér endalaust lýðskrum eins og Sigmundur Davíð hefur haft í frammi frá þeim fyrsta degi sem hann hefur starfað sem formaður Framsóknarflokksins. Enginn ungur maður, sem komið hefur inn í íslenska pólitík frá hruninu, hefur fengið annað eins tækifæri til ná tökum á sínu hlutverki, koma fram sem víðsýnn framtíðarleiðtogi, leiðtogi sem hóf sig upp fyrir það skelfilega argaþras sem mörgum, og það með réttu, finnst íslensk stjórnmál veru sokkin í.

En Sigmundur Davíð hélt að með því að stunda pólitískan smásmugulegan skotgrafahernað gæti hann orðið stór kall í íslenskri pólitík og fékk fullkominn frið til að stunda þann leik. Hann hafði fullan og óskoraðan stuðning þeirra Höskuldar, Vigdísar og Eyglóar þingmanna til að verða hælbítur en ekki leiðtogi. En rödd Höskuldar virðist þögnuð, lítið heyrist í Vigdísi. En Eygló kom mér á óvart þegar hún kom fram í Kastljósi til að ræða  nýjustu ráðstafanir Ríkisstjórnarinnar í skuldamálum almennings, skyndilega var komin þingkona sem talaði af yfirvegun og málefnalega. Við skulum vona að þarna sé Eygló örlítið að opna augu fyrir því að moldvörpustefna Sigmundar Davíðs  er dauðadæmd.

Þessi skoðanakönnun er rasskelling fyrir Sigmund Davíð og Framsóknarflokkinn. Það koma Alþingiskosningar fyrr eða síðar. Eina von Framsóknarmanna er sú, ef þeir vilja ná einhverjum árangri þar, er að losa sig við þann mann sem ég hef leyft mér að nefna versta "maðk" sem komið hefur inn í íslenska pólitík á síðustu árum.

Sá maður heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Það var hann sem réði því að við tókum ekki tilboði Breta og Hollendinga eftir áramótin um mikla lækkun á vaxtabyrði á ICESAVE. Ég hef að framan skrifað pistil um þetta moldvörpustarf Sigmundar Davíðs. Ef við hefðum samið á þessum nótum værum við laus úr ICESAVE spennitreyjunni. Við komumst ekki hjá því að greiða þessa skuld, en núna hangir þetta mál ófrágengið yfir okkur.

Getu Sigmundur Davíð skýrt fyrir okkur hvað það mun kosta okkur?

Sjálfstæðismenn ættu að stíga varlega til jarðar. Sú háa súla sem þeir sjá bláa á síðum Fréttablaðsins er ekki vegna þess að þeir njóti svo mikils álits og traust. Fylgi í skoðanakönnun, sem byggist á tímabundinni óánægju með aðra flokka, tollir illa í húsi. 

 

 


Vil ég að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður eru framundan. Ég er mjög jákvæður fyrir inngöngu í Evrópusambandið en er þó engan veginn búinn að gera upp við mig hvernig ég muni kjósa ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur um inngöngu. Það er gert mikið úr því að mikill meirihluti landsmanna sé andvígur inngöngu en satt að segja get ég ekki skilið hvernig hægt er að ákveða það fyrirfram hvað afstöðu menn hafa til inngöngu þegar það liggur engan veginn fyrir hvaða það muni færa okkur jákvætt eða neikvætt. Ég veit að þeir eru nokkuð margir sem eru sannfærðir um að Ísland eigi aldrei að ganga í Evrópusambandið. Það eru þeir sem eru eindregnir í gamla tímanum og sjá í inngöngunni að við séum að afsala okkur sjálfstæði landsins eða næstum því.

Mér fannst það mikið fagnaðaefni þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðildina, undirstrika enn og aftur að það þýðir ekki það að við höfum samþykkt að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst mikil ástæða til að undirstrika það en aðildarumsóknin og sá samningur sem út úr því kemur sýnir mér ljóslega hvaða afstöðu ég mun taka. það liggur ekki fyrir í dag.

 

Vanstilling

Eins og í flestum pólitískum málum þá gætir mikillar vanstillingar í umræðunni um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Þar eru nú þegar tínd til öll rök sem finnanleg eru gegn aðild, ég ætla hér að nefna nokkur sem mér finnst allt að því fáránleg. Flestir vita að Grikkland er á barmi þjóðargjaldþrots. Sú furðulega rökleysa skýtur víða upp kollinum að ástandið í Grikklandi sé aðild landsins að ES að kenna! Langt þykir mér seilst þegar því er haldið fram að ef Grikkland væri utan ES væri ástandið þar í landi mun betra. Grikkland er land sem um langan aldur hefur lifað um efni fram og landlæg spilling hefur alltaf leikið fjárhag þess grátt. Eina skiptið sem þeir tóku sig nokkuð á var þegar þeir aðeins hreinsuðu flórinn til að verða tækir í Evrópusambandið. En síðan féll allt í gamla farið, eyðslu og spillingu. Þetta sýnir einnig að ríki innan sambandsins hafa sjálfstæði innan þess bæði til góðra og slæmra verka. Það hefur mikið verið bent á að atvinuleysi sé mikið innan ES og það er vissulega rétt. En á móti mætti spyrja; væri ástandið betra ef ekkert Evrópusamband væri til og hvert ríki berðist eitt fyrir tilveru sinni? Er atvinnuleysið minna utan ES hvað um stórveldið Bandaríki N-Ameríku?

Landhelgin og fiskurinn

Það eru miklar hrakspár í gangi um hvað verði um landhelgina sem við börðumst fyrir með kjafti og klóm. Hvað verður um fiskinn í íslenskri landhelgi, munum við sjá það eftir að við erum gengin í ES að fiskiflotar frá öðrum ES löndum komi inn í okkar fiskveiðilögsögu og hirði frá okkur aflann? 

Ég spyr; hvaðan ætti þeim að koma réttur til þess. Það er gjarnan bent á að þannig sé fiskveiðistefna Evrópusambandsins, ríki hafi sögulegan rétt til að fiska í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Þá spyr ég á móti; hvaða ríki eiga þann rétt í íslenskri fiskveiðilögsögu? Mér sýnist í fljótu bragði að þau séu ekki til nema þá með einni lítilli undantekningu og það væru Færeyjar sem hafa haft sérstak undanþágu til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Hvað um hvalveiðar? Ég er engan veginn tilbúinn til að gangast undir það Pempíurök að hvalir séu heilög dýr sem ekki megi drepa undir nokkrum kringumstæðum.

Eitt vil ég spyrja mér fróðari menn; hvernig stendur á því að það gilda ekki sömu reglur um gæði í hafsbotni og yfir hafsbotni hjá Evrópusambandinu. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að nágrannar Breta og Dana, svo dæmi sé tekið, geti vaðið inn á þeirra hafsvæði og borað eftir gasi eða olíu.

Hversvegna skyldi ekki það sama gilda um staðbundna fiskistofna sem synda í sjónum? Við verðum að semja um flökkustofna svo sem síld og makríl meira að segja við Evrópusambandið. Ég sé ekki að það muni breytast í framtíðinni, það er langt síðan við þurftum að beygja okkur fyrir því.


Landkrabbi svarar útgerðarmanni

Útgerðarmenn þessa lands hafa stimplað sig inn sem eitthvert rammasta afturhald sem uppi hefur verið á landi hér og er þá mikið sagt. Ármann Einarsson útgerðarmaður hér í Þorlákshöfn eys úr skálum reiði sinnar í Bæjarlífi. 2. tbl. þessa árs. Eins og sönnum útgerðarmanni sæmir telur hann núverandi Ríkisstjórn orsök alls hins illa. Þessi sanntrúaði Sjálfstæðismaður lokar augunum fyrir því að það var hans flokkur sem leiddi landstjórnina í 18 ár, það var sá flokkur sem gaf völdum fjárglæframönnum ríkisbankana sem keyrðu sig í þrot á haustdögum árið 2008, og það voru forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem innleiddu allt svínaríið og braskið með frjálsu framsali fiskveiðikvótans. Ármann telur sér sæma að kalla fjármálaráðherra “vitleysing”. Það er öruggt að ekki minnkar Steingrímur við þá nafngift og eins öruggt að ekki verður Ármann hærri í loftinu.

 

 

Fyrningarleiðin, leiðrétting á stuldi aldarinnar

Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð um fyrningarleiðina, að þjóðin innkalli sína eign, fiskveiðikvótann, úr klóm útgerðarmanna á 20 árum. Ekki eitt orð af viti hefur komið frá útgerðarmönnum um þetta mál. Stöðugar upphrópanir um að þetta setji alla útgerð og fiskvinnslu á hausinn, aldrei nein rök. Kvótakerfið var upphaflega sett til að við veiddum þann takmarkaða afla, sem við töldum óhætt að veiða, á sem hagkvæmastan hátt. Um það er hægt að hafa mörg orð en segjum að það hafi verið rétt og nauðsynlegt. Óumdeilt var þá að það var þjóðin sem átti fiskinn í sjónum, hlutur minn og hlutur Ármanns voru nákvæmlega jafnstórir.

Útgerðarmönnum var úthlutaður kvóti samkvæmt veiðireynslu, fyrir þessi réttindi þurftu útgerðarmenn ekkert að borga, þeir fengu þessi réttindi á silfurfati.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Sú ólukkuríkisstjórn, sem hafði Davíð Oddssson og Halldór Ásgrímsson sem foringja, lét undan gífurlegum þrýstingi útgerðarmanna og veitti þeim “eignarhald” á því sem þjóðin átti öll. Ef útgerðarmenn sjá kjarna málsins ættu þeir að skilja að þar var þeim réttur baneitraður bikar, en þeir voru svo grunnhyggnir að þeir héldu að þeir væru að detta í lukkupottinn með því að fá í sínar hendur annarra eign til að braska með, til að eiga, til að leigja, til að kaupa, til að selja.

En nú eru blikur á lofti, núverandi ríkisstjórn ætlar á tuttugu árum að afhenda réttum eigendun, þjóðinni, kvótann. En hvað heyrist þá úr hinum rammafturhaldsama kór útgerðarmanna sem ekki má heyra minnst á nokkrar breytingar; ríkisstjórnin er að gera öll útgerðarfyrirtæki á Íslandi gjaldþrota með því að fyrna kvótann á 20 árum.

Ég spyr sem landkrabbi; hvernig getur þessi litla breyting á afturkölluðum kvóta haft svo geigvænleg áhrif? Ekki hefur þetta minnstu áhrif á lausafjárstöðu fyrirtækjanna þetta hefur engin fjárútlát í för með sér. Mér finnst jafnvel koma til greina að vel rekin útgerðarfyrirtæki fái að nýta áfram þennan kvóta, fái hann til afnota frá réttum eigendum, mér finnst jafnvel koma til greina að þeir þurfi ekki að greiða afgjald fyrstu fimm árin.

 

 

Hvað er þá að gerast?

Ætli við ættum ekki að líta á efnahagsreikning útgerðarfyrirtækjanna? Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að bókfæra þessa almannaeign sem einkaeign fyrirtækisins. Það væri ekki úr vegi að líta í veðbækur. Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að veðsetja þessa almannaeign upp í topp. Ekki aðeins hér á landi heldur einnig hjá útlendum lánastofnunum, stofnunum sem samkvæmt íslenskum lögum mega ekki eignast fiskveiðikvóta í íslenskri landhelgi en taka hann samt sem góð og gild veð.

Er ég þarna farinn að nálgast tárakirtlana sem svo óspart eru knúðir hjá langflestum útgerðarmönnum?

Ég sagði hér að framan að með því að þiggja það lögbrot, sem þeir Davíð og Halldór réttu fram, hafi útgerðarmenn bergt á beiskum eiturbikar. Með því að samfélagið hefði áfram átt kvótann og úthlutað honum til vel rekinna fyrirtækja stæði íslenskur sjávarútvegur mun  betur en raunin er í dag. Þá hefði ekki orðið til hið gerspillta brask með kvóta til fiskveiða. Fyrir skömmu heyrði ég frá skilvirkum mönnum í útgerð að 90% af kvóta útgerðarfyrirtækja væri keyptur og hefði jafnvel skipt um hendur margoft. Má ég spyrja; hvar voru þeir peningar teknir sem fóru í kvótakaup? Voru þeir ekki teknir úr íslenskum sjávarútvegi? Ef laust fé var ekki til í fyrirtækjum voru þá ekki slegin lán og oft á tíðum kvótinnn settur sem trygging víðs vegar um heim? Hvað varð um allt þetta fé sem flæddi út úr íslenskum sjávarútvegi?

Því er fljótsvarað. Það fór til ýmissa spekúlanta sem þarna sáu sé leik á borði; hætta þessu amstri og fá fúlgur fjár fyrir gæði sem þeir áttu ekkert í. Hvað skyldu margir slíkir, sem búnir eru að mergsjúga íslenskan sjavarútveg á liðnum árum, sitja í glæsihöllum í London eða sleikja sólina í Karabíska hafinu? Hvernig fór með það gamla góða fyrirtæki Alla ríka á Eskifirði, Eskju. Eru ekki afæturnar einmitt að drekka út andviðri þess eða sólunda því í spilavítum? Samherji á Akureyri var stofnaður af þremur hörkuduglegum fjölskyldum. En svo vildi einn máttarstólpinn fara að lifa hinu ljúfa lífi, hætta í slorinu. Það virtist ekkert mál fyrir Samherja að snara út verðgildi eins þriðja af fyrirtækinu. Það hefði líklega kveðið við annan tón ef þetta hefði verið 5% af kvótanum sem þó hefði ekki kostað fyrirtækið krónu að láta af hendi og fá jafnvel að nýta áfram.

En þá hefði líklega komið ramakveinið, helvítis vinstrimennirnir eru að gera

okkur gjaldþrota!

 

Arðsamasta skipið í Vestmannaeyjum

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég vin minn ágætan í Vestmannaeyjum. Hann ók mér vítt og breytt um þessar fögru eyjar og auðvitað fórun við meðfram höfninni. Hann benti mér á skip eitt í höfninni, líklega togari af minni gerðinni og sagði:

“Þetta er arðsamasta skipið í okkar flota, en hefur þó ekki verið leyst frá bryggju í nokkur ár”.

Þessi gáta var of flókin fyrir mig en lausnin var einföld. Eigandinn hætti að gera út skipið og lifði nú kónga- og letilífi á leigunni af kvótanum!

Því segi ég enn og aftur. Þið útgerðarmenn hafið aldrei sopið af eitraðri bikar en þegar þið supuð á framsalseitrinu úr hendi ykkar ástsælu ráðherra forðum daga.Þið væruð mun betur settir nú ef þið hefðuð hafnað honum og aldrei komist í þá botnlausu spillingu sem kvótaframsalið hefur leitt af sér. Hundruðir milljarða króna hefðu ekki streymt út úr íslenskum sjávarútvegi, væru þar sem orkugjafi fyrirtækjana. Ykkur mundi einnig líða mun betur í dag, ég er ekki í nokkrum vafa um að þið hafið samvisku flestir.

Takið þátt í því að rekja ofan af þessu kvótasvínaríi, hættið að grenja eins og óstýrilátir krakkar og takið hraustlega á til að endureisa réttlætið, það er ykkur sjálfum fyrir bestu.

Að lokum; ef þú skyldir svara mér Ármann, sem ég býst tæplega við að þú leggir út í, þá ætlast ég til að þú talir af rökum og réttsýni, gefir tárakirtlunum frí.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 113922

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband