Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Guðlaugur Þór, þú ert búinn að missa allt traust sem þingmaður, segðu af þér þingmennsku strax

Það var dapurlegt að horfa á viðtal Helga Seljan við Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann í Kastljósi í kvöld. Ég held að aldrei hafi stjórnmálamenn sokkið í jafn djúpan spillingarpytt og með því að sníkja milljónir og milljónatugi til að koma sjálfum sér á framfæri og berja niður samherja sína. Það dapurlegasta er að það er deginum ljósara að ungir framagosar kaupa sé þingsæti með illa fengnu fé frá  spilltum fjárglæframönnum í fyrirtækjum og bönkum.

Ég tók þá í prófkjöri til sveitarstjórnar í Kópavogi 1970 og það datt ekki nokkrum manni í hug að auglýsa sjálfan sig sérstaklega og því síður að sníkja og betla peninga sjálfum sér til handa. En síðan hélt spillingin innreið sína og það er nokkuð öruggt að Guðlaugur Þór er hinn krýndi, hinn smurði merkisberi þeirrar spillingar. Þessi spilling hefur náð til einstaklinga í öllum flokkum, það er langt frá því að Guðlaugur Þór eigi að ganga einn út af Alþingi og ekki láta sjá sig þar framar. Ég hef áður skorað á flokkssystur mína Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að verða Guðlaugi Þór samferð og þið eruð fleiri á Alþingi sem eigið að fylla útgönguhópinn, ég ætla ekki að nafngreina fleiri í þessum pistli.

Þið sem hafi sokkið í spillingarfen prófkjöranna eða önnur fen sem þíð hafið velt ykkur upp úr; þið verðið að skilja þið hafið misst allt traust og það verður ekki hægt að endurreisa reisn Alþingis nema þið látið ykkur hverfa.

Það veldur manni ógleði þegar þið bæði tvö Guðlaugur Þór og Steinunn Valdís syngið þann ámátlega texta; 

Við verðum dæmd af störfum okkar!

Það er einmitt það sem ég er að gera þegar ég krefst afsagnar ykkar frá Alþingi og takið þó nokkuð stóran hóp með ykkur.

Svo langar mig að blogga síðar og leggja út af stórmerku viðtali við þann margreynda hagfræðing Jónas Haralz í Spegli Ríkisútvarsins í kvöld. Ég segi það enn og aftur að Spegillinn er einhver gagnmerkasta dagskrá Ríkisútvarpsins, mig minnir að sá ágæti fréttamaður Friðrik Páll Jónsson hafi þurft að berjast hart fyrir því að fá að skapa hann, raunar merkilegt að hnífurinn skuli aldrei hafa lent á Speglinum. 


Svívirðileg álagning olíufélaganna birtist grímulaust við Smiðjuveginn í Kópavogi

Lengst af störfuðu þrjú olíufélög á Íslandi og þótti mörgum nóg um, líklega kallaði þetta á hærri álagningu þar sem yfirstjórn þriggja dreifingarfélaga þyrfti sitt í kostnað og að gjalda hluthöfunum sæmilega digran álegan arð. En fyrir nokkrum árum bættist fjórði dreifingarfélagið í hópinn, þá héldu margir að kominn væri fram sölufélag bensíns og olíu sem mundi láta sé nægja minni álagningu og þar með lækka verðið.

En þetta nýjasta olíufélag hefur fyrirhafnarlaust runnið inn í samráðshópinn, það selja allir þessa vöru á sama verði. En við norðurenda Byko í Breiddinni gefur á að líta. Rétt hjá Bónus við Smiðjuveginn hefur verið sjálfsafgreiðslustöð frá Skeljungi, Orkan, og ef litið er yfir Nýbýlaveginn blasir mikil og vel hýst bensínsstöð frá N1. En þetta dugar ekki. Mitt á milli þessara tveggja bensínstöðva er Atlantic olíufélagið búið að reisa bensínsölu, fékk svolitla skák úr bílastæði Byko. Sem sagt; á örlitlum bletti eru komnar 3 bensínstöðvar, hvað segir þetta okkur sem erum að kikna undan bensínverði? Það segir okkur að bensínsölufélögin vaða í peningum til að leika sér með, byggja bensínstöðvar hver við annars hlið.

Er ekki hægt að finna smá blett fyrir Olís þarna, ekki eiga þeir að verða útundan. Þeir hljóta að eiga gnægð seðla eins og hin félögin til að leika sér með. 


Ætlum við ekkert að gera í að endurskipuleggja stjórnsýslu landsins?

Gallarnir í stjórnskipun landsins æpa á hvern mann. Strax eftir hrun var það almenn krafa að kallað yrði saman stjórnlagaþing en nú virðist sú krafa haf þagnað eða hún þögguð niður. Þær raddir hafa komið frá Alþingi að það sé ófært að fara að kalla saman Jóna og Gunnur til að setja landinu nýja stjórnaskrá, það sé skýlaust hlutverk Alþingis.

Það er þá ekki úr vegi að rifja upp afrekaskrá Alþingis í því mikla verkefni; að setja landinu nýja stjórnaskrá. Þetta hlutverk var því falið strax við lýðveldisstofnunina 1944 eða því sem næst og til að vera sanngjarn er sjálfsagt að rifja upp hvað þessi merka stofnun hefur gert. Alþingi hefur kjörið Stjórnarskrárnefndir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég held. En út úr því starfi hefur ekki komið nokkur skapaður hlutur, engar tillögur, engar hugmyndir.

Brotalöm

Mér finnst augljóst hvar brotalöm er fyrst og fremst í stjórnskipuninni. Í núverandi skipulagi hefur Alþingi látið kúga sig svo algerlega að það er ekki orðið annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn (framkvæmdavaldið) á hverjum tíma. Á því hefur engin breyting orðið eftir að núverandi Ríkisstjórn tók við. Þessu reyna alþingismenn að mæta með því að stunda malfundaæfingar af kappi, því meira sem sagt er því minna af viti. Fullyrt var í fréttum í dag að þingmannfrumvörp yrðu að fá blessum ráðherra til að fá umræðu og kannski afgreiðslu á þingi.

Efling Alþingis mikil nauðsyn

Ég ætla að leyfa mér að koma með þá tillögu að framkvæmdavaldið (Ríkisstjórn) og löggjafarvaldið (Alþingi) verði aðskilið þannig að Alþingi verði ekki framvegis afgreiðslustofnun fyrir Ríkisstjórn. Óneitanlega kemur upp í huga sú róttæka tillaga Vilmundar Gylfasonar að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu. Á þann hátt erum við að fjarlægjast þingbundnar Ríkisstjórnir, en þau tengsl þarf þó ekki að slíta að fullu. En eitt er höfuðnauðsyn; ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi, þeir eiga að sinna sínum störfum en mæta fyrir Alþingi og einstökum þingnefndum þegar þeir eru þangað kallaðir. Tveir þingmenn, Siv Friðleifsdóttir og Björgvin Sigurðsson, hafa  lagt fram tillögur að breyttri stjórnskipan. Hvorutveggja tillögurnar, Sivjar um að þingmen afsali sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar og tillaga Björgvins um að gera landið að einu kjördæmi, eru kák eitt ef ekki kemur meira til. Ef ráðherrar eiga að segja af sér en sitja a samt á þingi þá getur lítill flokkur, segjum Framsóknarflokkurinn, stóraukið fjölda sitjandi fulltrúa á Alþingi eigi hann aðild að Ríkisstjórn. Ef landið er gert að einu kjördæmi er flokksræðið algjört, ég vil heldur una við það að einhver hafi tvöfaldan atkvæðisþunga. En það má leiðrétta þó landið sé ekki eitt kjördæmi.

Skipun Ríkisstjórnar

Vel má vera að við höldum í þingræðið en gerum a því endurbætur. Með því eins og sagt er að framan að ráðherrar sitji alls ekki á þingi. Þannig er sá möguleiki opnaður að ráðherrar séu ekki síður valdir utan þings en innan. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur staðið stjórnlandsins fyrir þrifum að það sé nánast skylda að ráðherrar séu ætíð valdir úr hópi þingmanna. Hefur það sýnt sig á umliðnum árum að þar sitji endilega hæfasta fólki?

En þetta er aðeins brot af því sem þarf að endurbæta, það gerist ekki nema við hugsum málið og komum með hugmyndir, jafnvel djarfar hugmyndir. 


Rannsóknarskýrslan, stjórnsýslan og stjórnmálamenn

Rannsóknarskýrslan leiðir berlega í ljós að stjórnsýslan í okkar þjóðfélagi er með mikilli brotalöm. Við, þessi litla og fámenna þjóð, hefur byggt upp ótrúlaga margar stofnanir sem eiga að hafa margskonar verkefni. Þar brestur hvorutveggja, að fyrirmæli séu skýr og skorinorð auk þess sem margir lykilmenn brugðust, bæði vegna eigin hæfileikaskorts og ófullkominnar umgjörðar. Ég fagna því þeirri stefnumörkun Ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af stofnanakraðakinu. Það hefur verið lenska undanfarna áratugi að stofna sífellt nýjar og nýjar stofnanir, sumar með æði rýr verkefni. Það er tími til kominn að allir skilji það að hver nú stofnun krefst kostnaðar í aðstöðu og yfirstjórn. Ég er ekki frá því að stundum sé hægt að sameina 4 - 5 stofnanir og láta yfirkostnað einnar nægja fyrir allar.

 Stjórnmálamenn

Það er ekki fagur vitnisburður sem margir stjórnmálmenn fá um sukk og svínarí varðandi prófkjörin. Þau áttu í árdaga að verða lýðræðisleg aðferð við raða á framboðslista en þessi aðferð, prófkjör , hefur snúist upp í andhverfu sína og er orðin smánarblettur á lýðræðinu. Það er mikið rætt um fjárstyrki sterkra fyrirtækja til stjórnmálaflokkanna, þar hefur margt misjafnt komið í ljós. En mér finnst styrkjafarganið til einstaklinga í prófkjörum miklu alvarlegri hlutur. Það má segja að það sé lýðræðisleg nauðsyn að við höfum stjórnmálaflokka, eða þannig höfum við byggt upp okkar lýðræðishefð eins og flestar vestrænar  lýðræðisþjóðir, um það fyrirkomulag má vissulega deila.Fjárstyrkur til stjórnmálflokka er þó styrkur til afla í þjóðfélaginu sem hafa tilgang ætlum við. En fjárstyrkur til einstaklinga í prófkjöri er ekkert annað en viðbjóður sem hefur engan lýðræðislegan tilgang. Aðeins þann tilgang að einstaklingur geti troðið sér framar í goggunarröðina, að einstaklingur geti troðið samherjum sínum niður fyrir sig til að komast í bæjarstjórn eða á Alþingi. 

Er sá hinn sami þar að þjóna lýðræðinu?

Nei, langt frá því, Aðeins að hlaða undir eigin metnað, ekki til að vinna að hugsjónum eða stefnumálum þó það sé látið í veðri vaka. Á Alþingi sitja nú margir sem þangað eru komnir vegna fjár sem þeir hinir sömu hafa betlað út úr fyrirtækjum, þar eru jafnvel fjármunir sem illa eru fengnir og  enginn veit í raun hvaðan eru komnir.

Það er kannski ekki réttlátt að nefna nöfn einstaklinga en ég ætla samt að gera það. Guðlaugur Þór er einhver stórtækasti peningasukkari í prófkjöri, en það eru reyndar allir stuttbuxnadrengirnir í Sjálfstæðisflokknum. Sem Samfylkingarmaður get ég akki annað en fyllst dapurleika yfir því hve þessi flokkur, sem átti að verða ferskur gustur í íslenskum stjórnmálum, hefur fyrirhafnarlaust sogast inn í sukkið, bæði flokkslega og líka einstaklingar sem hafa skarað eld að sinni köku í prófkjörum. Ég lýsi hneykslun minni á því að rumpulýður setjist að heimilum fólks eins og gert var nú síðast við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. En ég lýsi ekki minni hneykslun á framferði hennar, og reyndar annarra Samfylkingarmanna, sem gleymdu öllum hugsjónum og hugsuðu um það eitt að olnboga sig fram fyrir samherjana. Ég segi við þig Steinunn Valdís og ykkur aðra flokksfélaga mína sem gleymduð öllu siðferði:

 Þið sem hafið sogast inn í peningaplokk í prófkjörum eigið að láta ykkur hverfa úr íslenskum stjórnmálum, þið hafið fallið á siðferðisprófinu.

Þrír alþingismenn hafa dregið sig í hlé frá þingstörfum, Björgvin G. Sigurðsson vegna þess sem fram kemur í Rannsóknarskýrslunni, Illugi Gunnarsson vegna stjórnarsetu í sukksjóði Glitnis og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vegna þess að hún hefur sogast inn í fjármálasukk manns síns þegar hann var starfsmaður Glitnis. Þó segja megi að alls sé óvíst um "sekt" þessar þremenninga vantar eitt sárlega í þeirra gjörðir.

Þau áttu að segja af sér sem þingmenn, ekki aðeins að draga sig í hlé og bíða í gættinni, það hefði verið þeirra sterkasti leikur!

En það er fleira "undir teppinu" hjá þingmönnum. Tryggvi Þór Herbertsson sem var forstjóri eins fallbankans og gaf íslensku fjármálkerfi heilbrigðisvottorð skömmu fyrir hrun ásamt bandarískum hagfræðingi, hvað um hann? Ekki vafi á að hann á að segja af sér þingmennsku. Eitt það hlálegast af öllu er þó að Sjálfstæðisflokkurinn dregur inn á þing, í stað Þorgerðar Katrínar, mann að nafni Óli Björn Kárason. Það er ekki aðeins að þar er mikill mannamunur, hann mun seint fylla sæti Þorgerðar Katrínar. En miklu alvarlegra er að þar fer einn af þeim sem gátu valsað inn í bankakerfið og sótt sér fé að vild, hvað var það mikið? Var það ekki um hálfur milljarður króna? Hlálegast er þó svar Óla Björns þegar hann er spurður um þessa skuld, hann segir:

"Þetta er ekki mín skuld. Þetta er lán sem fyrirtæki í minni eigu fékk". sem sagt, hann ber enga ábyrgð á þessari skuld. Hann segir eins og kallinn forðum sem reið eftir götu og hafði þunga bagga á herðum sér og svaraði aðspurður "klárinn ber ekki það sem ég ber".

En það eru margir á þingi sem hafa þegið hár fjárhæðir af bönkunum, skiptir ekki máli þó það hafi að forminu til verið lán, vafningar, eða einhver framvirk vitleysa.

Ég held að nú sé kominn tími til að hver alþingismaður líti í eigin barm af hreinskilni og kjarki. En kannski er það til of mikils mælst.

 


Húsasmiðjan er málsfarssóði eins og fjölmargar aðrar verslanir

Í dag, á sumardaginn fyrsta, er opnuauglýsing frá Húsasmiðjunni í Fréttablaðinu. Rétt hefði verið að skanna fyrirsögnina og birta hana þannig en ég ætla ekki að eyða tíma í það. En fyrirsögnin er þessi:

TAX FREE

sumardaginn fyrsta!

AF REIÐHJÓLUM OG LEIKFÖNGUM

Setningin er ruglingsleg, auk þess hef ég aldrei skilið hve útlendar slettur eru orðnar algengar í auglýsingum verslana að ég ekki tali um málfar fólks í viðtölum í ljósvakamiðlum. Þar sýnist mér að sletturnar versni eftir því sem menntunarstigið er hærra.

Hvað er svona heillandi við að auglýsa TAX FREE, hvers vegna ekki að auglýsa VASK FRÍTT, Það gæti gengið eftir íslenskum málvenjum, styttingin Vaskur af Virðisaukaskattur hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt. Af hverju er svona miklu fínna að auglýsa OUTLET, hvers vegna ekki að nota gamla góða íslenska orðið ÚTSALA.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að málfarssóðarnir eru ekki í verslununum. Þeir eru í auglýsingastofunum. Þar sitja menn og konur sem hafa orðið hjarðmennskunni að bráð, þegar ein beljan mígur verður öllum mál.

En þeir sem auglýsingarnar kosta eiga að vera á verði og gera kröfur um að auglýsingar þeirra séu á góðu og gildu íslensku máli.


Loksins nokkur orð um Rannsóknarskýrsluna

Ég býst við að fleirum hafi orðið svo bylt við Rannsóknarskýrsluna að hafa ekki haft sig í það að fjalla um hana. Það sem ég hef kynnt mér Skýrsluna er hér um mjög vandað tímamótaverk að ræða sem við öll verðum að læra af hvort sem okkur líkar betur eða verr. Vissulega vissum við margt af því sem gerst hafði en samt er Skýrslan meiri hrollvekja en nokkurn grunaði.

 

Bankmenn, fjármálamenn, braskarar

Ekki er nokkur vafi á því að þessir aðilar eru höfuðpaurar hrunsins sem grundvöllurinn var lagður að með sukkinu í kring um einkavæðingu bankanna? Dag eftir dag koma í ljós svo ótrúlegar upplýsingar um þá sem þarna hrærðu í fjármálapottinum. Eigendur bankanna, stjórnendur bankanna og stærstu lántakendur bankanna. Varla nokkurs staðar á jarðkringlunni hefur orðið til jafn hrikaleg spilling í fjármálaheiminum. Það vekur ekki litla athygli að þessir þrír bankar, Landsbanki, Glitnir og Kaupþing (+Straumur) voru allir jafn spilltir, allir stjórnendur og eigendur voru búnir að búa til einn allsherjar suðupott sem allir hrærðu í og jusu úr, ekki aðeins til sín eigendanna heldur einnig til ýmissa fjárglæframanna í útlöndum. Laun og bónusar voru yfirgengilegir. Satt að segja getur maður ekki annað sagt en þetta: Hvernig gat það verið að í öllum bönkunum misstu menn vitið á sömu stundu, það er ekkert anað hægt að segja en að þessir bankamenn hafi verið algjörlega vitskertir. Vissu  þeir ekki betur?

Umhverfið, eftirlit og almenningur

Því miður áttum við flest, íslenskur almenningur, nokkra sök, við studdum þessa menn, við höfðum mörg hver ofsatrú á þeirra hæfileikum við trúum því mörg eða flest að öll gagnrýni að utan væri "öfund" og "illgirni", Danir  væru enn spældir yfir að við sögðum skilið við þá, allt flæddi í peningum, allir gátu engið lán eins og þeir vildu. Enn sannaðist það sem ég hef áður sagt: Mannskepnan virðist flest geta þolað, drepsóttir, styrjaldir, hungurneyð, náttúruhamfarið. En eitt getur mannskepnan ekki þolað; það er góðæri, stöðugt batnandi góðæri. Þá fer fyrir mörgum eins og fjármála- og bankamönnunum okkar; öll skynsemi, öll varkárni, allt siðferði fer út í buskann. Við getum vissulega tekið undir það að eftirlit Fjármálaeftirlits og Seðlabanka var allt í skötulíki. En á síðari tímum hefur sú tilhneiging orðið æ meira áberandi að það séu eftirlitsaðilar sem beri ábyrgð á hegðun borgaranna. Ef umferðalys verður eru fjölmiðlar allir komnir í kór og þeir sem ábyrgðina bera eru yfirleitt ekki þeir sem tækjunum stýra, það er æpt á Lögregluna, það er æpt á Vegagerðina og svo koll af kolli. Þannig hafa fjölmiðlar magnað upp þá grýlu að ófarir hvort sem er í fjármálum, umferð að hverjum sem er sé einhverjum allt, allt öðrum að kenna en þeim sem raunverulega bera ábyrgðina. Áttum við ekki kröfu á því að þeir sem stjórnuðu bönkunum höguðu sér eins og viti bornir menn en ekki sem vitfirringar? Dæmi um þetta eru margendurtekin ummæli fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde. Hann hefur margsinnis lýst því yfir að ófarirnar í banka- og fjármálaheimi hérlendis sé lögum þeim sem við tókum upp við inngöngu á Evrópska efnahagssvæðið að kenna!

Hverjir ber ábyrgðina?

Það eru þeir sem ég hef að framan talið upp. Stjórnendur bankanna, eigendur þeirra sem létu greipar sópa um fjárhirslur bankanna. þetta er í fyrst sinn á Íslandi sem hvorki þurfti lambhúshettu, hníf eða byssu við bankarán. Bankaránið var framið þannig að það þurfi engum að ógna, það þurfti engar rúður að brjóta, engin göng að grafa. Peningarnir var einfaldlega stolið með tölvum, miklu einfaldari tæki til bankaráns en gamla draslið. En þeir sem einkavæddu bankana og "gáfu" þá einkavinum, brutu allar reglur sem um bankasöluna voru settar, þeir byrjuðu "ballið". Og vissulega brugðust Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, enda ekki við öðru að búast, Seðlabanki undir stjórn gamals stjórnmálrefs úr Sjálfstæðisflokknum og Fjármáleftirlitið undir stjórn dusilmennis sem hafði það eitt unnið sér til ágætir að vera Heimdellingur.

En hvað um stjórnvöld, hvað um ríkistjórnir og ráðherra? Bera þeir enga ábyrgð?

Jú, svo sannarlega, ræðum það í næsta pistli. 


Þetta skrifaði ég til konu sem heitir Guðrún Sæmundsdóttir hér á blogginu, vona hennar vegna að hún fjalli um menn og málefni á heiðarlegri hátt en hingað til

Sú endurvakning sem ég vonaði að Skýrslan mikla hefði í för með sér var að ekki aðeins sú að forystumenn þjóðarinnar, heldur hver og einn, temdi sér heiðarlegri starfshætti, sérstaklega margir bloggarar þyrftu á því að halda.

Guðrún, þú virðist ekki taka það til þín að heiðarleg umfjöllun um öll mál er nauðsyn, þú virðist ekki hafa neitt á móti því að fara með rangt mál ef þér finnst það henta þér, tilgangurinn helgar meðalið:

1. Skýrslan mikla segir ítarlega frá því hvernig Bresk yfirvöld reyndu nánast allt sumarið 2008 að fá Landsbankann til að færa Icesave innlánin inn í banka sinn í London úr útibúinu. Ef það hefði verið gert værum við á engan hátt í ábyrgð fyrir þessum innlánum þau hefðu orðið á ábyrgð breska fjármáleftirlitsins og þarlends tryggingarsjóðs innlána. Landsbankinn hafði góð orð um þetta í byrjun en þæfði það stöðugt og lét ekki undan þrýstingi Breta. Hversvegna? Landsbanka menn segja frá því í skýrslunni. Það var vegna þess að þá hefðu þeir ekki getað mergsogið útibúið í London, flutt þessi innlán til Íslands til að lána þetta fjármagn Björgólfunum og öðrum tortúlulubbum.

Ætlar þú að halda því fram að það sem sagt er í Skýrsluni um þetta sé rangt?

2. ESB reglum var ekki þröngvað upp á okkur, við samþykktum á Alþingi að taka þessar reglur upp. Bankahrunið er ekki þessum reglum að kenna heldur þeim sem brutu þær. Er það umferðarlögum að kenna að skelfileg umferðaslys verða á íslenskum þjóðvegum á hverju ári?  Þeir menn sem eyðilögðu bankana voru eigendur og stjórnendur allra íslensku bankanna sem hafa, skv. Skýrslunni brotið nær öll lög og  reglur um bankastarfsemi og sópuðu að lokum fjármagni úr gjaldþrota bönkum, lánuðu sjálfum sér og einnig erlendum fjárglæframönnum.

3. Við höfum ekki hugmynd um hvaða réttindi og skyldur fylgja því að ganga í ESB, það  fæst einungis með aðildarviðræðum. ESB er í miklum ógöngum með sína sjávarútvegsstefnu. Við munum ALDREI framselja yfirráð okkar yfir fiskveiðilögsögunni til ESB, ég er fylgjandi aðild, en þetta mundi ég aldrei samþykkja slíkt. Er einhver von til að við fáum það samþykkt? Á langri ævi hef ég upplifað þá tíma sem íslensk landhelgi var aðeins 3 mílur frá strönd. Þá áttum við framsýna og dugmikla stjórnmálamenn svo sem Ólaf Thors og Lúðvík Jósepsson sem hikuðu ekki við að hefja baráttu fyrir auknum réttindum okkar til að ráða okkar eigin auðlindum, hafinu í kringum Ísland. Fyrsta baráttan var 12 mílur frá grunlínupunktum, sigur í þeirri baráttu. Síðan barátta fyrir 50 mílum frá grunnpunktum, þá barátta fyrir200 mílum einnig sigur þar. Við segjum einfaldlega við Evrópusambandið: hvers vegna eiga Danir og Bretar rétt á olíu og gasi í sinni lögsögu, hvers vegna eigum við rétt á því sama á Drekasvæðinu. Hvers vegna gildir ekki það sama um staðbundna fiskistofna innan lögsögunnar? Það á enginn sögulegan rétt til fiskveiða innan lögsögu Íslands.

Getur þú fullyrt að við getum ekki náð fram þessum sjálfsögðu réttindum okkar?

Guðrún, eitt að lokum. Ef þú ætlar að halda áfram að blogga þá ég bið þig að bera það mikla virðingu fyrir sjálfri þér og þínum viðmælendum að hafa það sem sannara reynist en ekki gaspra um hluti sem þú greinilega hefur ekkifyrir að kynna þér.

Gefum Vilmundi og Vilhjálmi fleiri selbita

Mér finnst dapurlegt að Vilmundur Jósefsson, sem ég þekki að góðu einu sem fyrrum formann Samtaka iðnaðarins, skuli láta hafa sig í það skítverk að spenna sig fyrir sérhagsmunavagn Landsambands íslenskra útvegsmanna. Ekki þekki ég svokallað "skötuselsfrumvarp" niður í kjölinn enda skiptir það ekki öllu þegar rætt er um þetta einstaka upphlaup Samtaka atvinnulífsins út af frumvarpinu. Það er rétt að benda öllum almenningi á hvað það er sem gerir forystu SA svo froðufellandi. Það er fyrst og fremst það að þar hefur forysta atvinnurekenda gerst málpípa útgerðarauðvaldsins sem með kjafti og klóm ætlar að koma í veg fyrir að nokkrar endurbætur verði gerðar á kvótakerfinu. Ef menn vilja lesa frekar um mínar skoðanir á því máli bendi ég á pistilinn hér á blogginu "Landkrabbi svarar útgerðarmanni" sem var svar mitt við ruglingslegri grein eftir útgerðarmanninn Ármann Einarsson í Þorlákshöfn. Mér er sagt að nú sitji útgerðarmenn í Þorlákshöfn með sveittan skallann við að bræða saman svar við þessari grein minni, líklega birtist hún í næsta tbl. "Bæjarlífs", ekki ólíklegt að þar fari lítið fyrir rökum og raunsæi.

Og nú er iðnrekandinn Vilmundur Jósefsson orðinn dráttarklár útgerðarmanna. Andstaða útgerðarmanna við þetta lítilfjörlega skötuselsfrumvarp er ekki það að kvóti á skötusel sé aukinn heldur það ákvæði að ráðherra geti veitt auknar veiðiheimildir og þá kemur rúsínan í pylsuendanum:

Það á að taka gjald fyrir þær heimildir og allir sem skötusel geta veitt fá möguleika á að fá úthlutun. Það sem LÍÚ þolir ekki er að það skuli hróflað við forréttindum þeirra, það hefði ekki heyrst hósti né stuna frá þeim ef þessar auknu veiðiheimildir hefðu runnið til þeirra sem þegar hafa kvóta á skötusel og auðvitað; án nokkurs endurgjalds.

Ef þetta skötuselsmál opnar ekki augu landsmanna fyrir hvað snák við ölum við brjóstið þar sem LÍÚ er þá er ég illa svikinn.


Froðufellandi Sigmar gegn Árna Páli félagsmálaráðherra

Það var mjög eftirminnilegt viðtalið sem Sigmar í Kastljósi átti við Árna Pál félagsmálaráðherra um leiðréttingar á gengistryggðum bílalánum. Það hefur lengi verið gagnrýnt, og það með réttu að nokkru leyti, að meira sé gengið að og meiri ábyrgð sett á skuldara en lánveitendur, og það er talsvert til í því. Nú hefur Árni Páll skorið upp herör gegn þeim sem lánuðu villt og galið fé til bílakaupa og ég hef verið einn af þeim sem hefur fundist að það hafi verið krafan að öllum skuli bjargað hve óskynsamlega sem menn höguðu sér í lántökum fyrir hrunið og fjölmiðlar hafa tekið undir það að meiri ábyrgð ætti að leggja á lánveitendur. Það er einmitt það sem Árni Páll stefnir að með aðgerðum sínum að krefja lánveitendur um lækkun höfuðstóls bílalána jafnveð ganga svo langt að þessir einu og sönnu sem lánuðu til bílakaupa emja og veina og segjast sjá fram á gjaldþrot.

En í gærkvöldi gerðist nokkuð athyglisvert í Kastljósi. Það mátti segja að Sigmar fréttamaður missti algjörlega stjórn á sér og segja má að Árni Páll hafi tæpast fengið frið til að ljúka nokkurri setningu.  Sigmar varð þarna næstum því sér til skammar. Þeir lántakendur eru til vissulega sem höguðu sér eins og þeir ættu heiminn og slógu endalaust lán, margir hefðu farið á hausinn þó ekkert hrun hefði orðið. En ég held að fréttamann verði að halda sér ámottunni og koma fram af kurteisi en ekki froðufellandi bræði eins og Sigmar gerði í gærkvöldi.


Vil ég að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður eru framundan. Ég er mjög jákvæður fyrir inngöngu í Evrópusambandið en er þó engan veginn búinn að gera upp við mig hvernig ég muni kjósa ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur um inngöngu. Það er gert mikið úr því að mikill meirihluti landsmanna sé andvígur inngöngu en satt að segja get ég ekki skilið hvernig hægt er að ákveða það fyrirfram hvað afstöðu menn hafa til inngöngu þegar það liggur engan veginn fyrir hvaða það muni færa okkur jákvætt eða neikvætt. Ég veit að þeir eru nokkuð margir sem eru sannfærðir um að Ísland eigi aldrei að ganga í Evrópusambandið. Það eru þeir sem eru eindregnir í gamla tímanum og sjá í inngöngunni að við séum að afsala okkur sjálfstæði landsins eða næstum því.

Mér fannst það mikið fagnaðaefni þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðildina, undirstrika enn og aftur að það þýðir ekki það að við höfum samþykkt að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst mikil ástæða til að undirstrika það en aðildarumsóknin og sá samningur sem út úr því kemur sýnir mér ljóslega hvaða afstöðu ég mun taka. það liggur ekki fyrir í dag.

 

Vanstilling

Eins og í flestum pólitískum málum þá gætir mikillar vanstillingar í umræðunni um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Þar eru nú þegar tínd til öll rök sem finnanleg eru gegn aðild, ég ætla hér að nefna nokkur sem mér finnst allt að því fáránleg. Flestir vita að Grikkland er á barmi þjóðargjaldþrots. Sú furðulega rökleysa skýtur víða upp kollinum að ástandið í Grikklandi sé aðild landsins að ES að kenna! Langt þykir mér seilst þegar því er haldið fram að ef Grikkland væri utan ES væri ástandið þar í landi mun betra. Grikkland er land sem um langan aldur hefur lifað um efni fram og landlæg spilling hefur alltaf leikið fjárhag þess grátt. Eina skiptið sem þeir tóku sig nokkuð á var þegar þeir aðeins hreinsuðu flórinn til að verða tækir í Evrópusambandið. En síðan féll allt í gamla farið, eyðslu og spillingu. Þetta sýnir einnig að ríki innan sambandsins hafa sjálfstæði innan þess bæði til góðra og slæmra verka. Það hefur mikið verið bent á að atvinuleysi sé mikið innan ES og það er vissulega rétt. En á móti mætti spyrja; væri ástandið betra ef ekkert Evrópusamband væri til og hvert ríki berðist eitt fyrir tilveru sinni? Er atvinnuleysið minna utan ES hvað um stórveldið Bandaríki N-Ameríku?

Landhelgin og fiskurinn

Það eru miklar hrakspár í gangi um hvað verði um landhelgina sem við börðumst fyrir með kjafti og klóm. Hvað verður um fiskinn í íslenskri landhelgi, munum við sjá það eftir að við erum gengin í ES að fiskiflotar frá öðrum ES löndum komi inn í okkar fiskveiðilögsögu og hirði frá okkur aflann? 

Ég spyr; hvaðan ætti þeim að koma réttur til þess. Það er gjarnan bent á að þannig sé fiskveiðistefna Evrópusambandsins, ríki hafi sögulegan rétt til að fiska í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Þá spyr ég á móti; hvaða ríki eiga þann rétt í íslenskri fiskveiðilögsögu? Mér sýnist í fljótu bragði að þau séu ekki til nema þá með einni lítilli undantekningu og það væru Færeyjar sem hafa haft sérstak undanþágu til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Hvað um hvalveiðar? Ég er engan veginn tilbúinn til að gangast undir það Pempíurök að hvalir séu heilög dýr sem ekki megi drepa undir nokkrum kringumstæðum.

Eitt vil ég spyrja mér fróðari menn; hvernig stendur á því að það gilda ekki sömu reglur um gæði í hafsbotni og yfir hafsbotni hjá Evrópusambandinu. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að nágrannar Breta og Dana, svo dæmi sé tekið, geti vaðið inn á þeirra hafsvæði og borað eftir gasi eða olíu.

Hversvegna skyldi ekki það sama gilda um staðbundna fiskistofna sem synda í sjónum? Við verðum að semja um flökkustofna svo sem síld og makríl meira að segja við Evrópusambandið. Ég sé ekki að það muni breytast í framtíðinni, það er langt síðan við þurftum að beygja okkur fyrir því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband