Færsluflokkur: Lífstíll

Froðufellandi bloggarar ryðja úr sér hroða og bulli, Sigmundur Davíð endanlega fallinn á prófinu

Ég hef satt best að segja hikað við að blogga um kosningarnar og þá útkomu sem stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn fengu. Hef reyndar verið að velta því fyrir mér mér að hætta að blogga; þannig líst mér á marga þá sem þar eru á ferðinni, marga sem ekki hafa minnstu rök fram að færa en froðufella af innri sálarkreppu. Ég ætla að láta það vera að nefna nöfn að þessu sinni. En það er sláandi að þeir sem hæst láta og nota eingöngu illmælgi og aldrei rökum virðast vera í sérstöku uppáhaldi bloggstjóra, fá að trjóna hæst á toppi nánast hvenær sem þeir láta hroðann vella.

Það er ekki nokkur vafi á því að þessar kosningar eru hrikalegur áfellisdómur yfir öllum stjórnmálaflokkum og flestum stjórnmálamönnum. Það ætti að vera lýðum ljóst að stjórnmálamenn og stjórnmálflokkar þurfa að skoða sín innri mál og ekki síst að komast upp úr hjólförum skotgrafanna þar sem menn liggja og nota gamlar og úreltar aðferðir til að klekkja á andstæðingum, þar er enginn undanskilin. Í sjónvarpsumræðu foringja stjórnmálflokkanna í gær tókst þeim að halda sér á mottunni að einum undanskildum. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hinn ungi formaður Framsóknarflokksins. Enginn maður hefur fengið annað eins tækifæri og hann í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár til að efla sinn flokk og ná því að verða virtur og öflugur stjórnmálamaður. En hann missti af því tækifæri fyrir eigin tilverknað. Sigmundur Davíð var víðs fjarri þegar allt sukkið byrjaði, hann (að ég held) kom ekki nálægt stuldinum á ríkisbönkunum þremur, hann ber því (að ég held) enga ábyrgð á þeim gegndarlausu mistökum og afbrotum sem gerðu það að verkum að bankarnir fóru allir á hausinn og stjórnendur þeirra létu greipar sópa um fjárhirslurnar, þurftu ekki byssur, lambhúshettur eð skóflur til að grafa göng eða dýnamít til að sprengja upp peningahirslur. Þeir gengu um með hvíta flibba, í nýjum jakkafötum og notuðu tölvurnar, þær fluttu peninga á brott miklu hraðar og öruggar en einhverjir stolnir bílar á fölskum númerum.

Ef einhver maður fékk gullið tækifæri til að lyfta íslenskum stjórnmálum á hærra plan var það Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. Ég satt að segja trúði vart mínum eigin augum og eyrum fyrst þegar þessi ungi foringi lét í sér heyra. Í stað yfirvegaðrar umræðu og skarprar greiningar á ástandinu kom  þessi nýi foringi fram í gömlum lörfum gamallar rifrildispólitíkur sem fór langt fram (eða aftur) fyrir alla þá sem voru á hinu pólitíska sviði. Hann fékk fljótlega ströng skilaboð frá þreyttum íslenskum almenningi; svona vinnubrögðum erum við orðin dauðþreytt á. Framsóknarflokkurinn fór niður hvarvetna í öllum skoðanakönnunum og arfur Rannveigar Þorsteinsdóttur frá því fyrir rúmum 60 árum, konunnar sem vann það afrek að vinna sæti í Borgarstjórn Reykjavíkur í sjálfu hreiðri íhaldsins fyrir Framsóknarflokkinn, það afrek var nú þurrkað út og það geta Framsóknarmenn þakkað þeim sem þeir kusu sem sinn forystumann, hann heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Ég hef beðið eftir því að einhverjir innan Framsóknarflokksins segðu; hingað og ekki lengra. Og loksins gerðist það. Einhverstaðar fyrr í mínu bloggi spáði ég því að Guðmundur Steingrímsson mundi rísa upp og mótmæla lítilmótlegum vinnubrögðum og orðfæri þessa nýja formanns. Og nú er stundin runnin upp. Hver ætti frekar að gera það en hann, hver ætti frekar að taka upp merki föður síns Steingríms eða afa síns, Hermanns Jónasonar. 

Og auðvitað létu þeir sem glefsa ekki lengi bíða eftir sér. Einhver stuttbuxnadeild í Húnaþingi rís upp gegn Guðmundi og vill ekkert annað en staglið sem Sigmundur Davíð innleiddi, láta sem mest í sér heyra, láta rök og sanngirni lönd og leið.

Það var dapurlegt að einn flokksforinginn sem fór niður í "skotgrafirnar" í umræðunni í Sjónvarpinu í gær. Sigmundur Davíð lét svo ummælt að minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms hefði ekki gert eins og hún" átti aðgera", líklega ætlaði Sigmundur Davíða að fjarstýra henni því vissulega átti hann stóran þátt í því að sú stjórn var mynduð. Og klikkti út með það að núverandi Ríkisstjórn "hefði ekki gert neitt". Þá var Steingrími J. nóg boðið og bað Sigmund Davíð að koma upp á skurðbakkann.

Ég hef ekki trú á þangað komist hann nokkurn tíma, hanns kjörlendi er  að liggja í skotgröfunum.

  


Mun sjónvarsumræðan einhverju breyta?

Foringjar framboðanna í Reykjavík fengu mikinn tíma hjá Sjónvarpinu í gær til að láta ljós sitt skína. Ég verð að hrósa Sjónvarpinu fyrir það að láta alla foringja framboða í Reykjavík koma til umræðunnar. Þannig stóð Stö2 ekki að máli, hjá þeim fengu aðeins þeir, sem spáð er að ná fulltrúa í Borgarstjórn, að koma en hinir voru útilokaðir. Vægast sagt mjög ólýðræðisleg gjörð.

En má ætla að þessari umræða í gærkvöldi í Sjónvarpinu breyti einhverju um niðurstöður kosninganna? Líklega hefur ekki stór hópur horftekki á þennan umræðuþátt, sérstaklega held ég að það eigi við yngra fólk og það er eflaust hagstætt Jóni Gnarr og Besta flokknum.

Það er freistandi að gefa umsögn um hvernig foringjarnir stóðu sig í umræðunni. Hanna Birna er mjög frambærilegur stjórnmálamaður og ekki kæmi mér á óvart ef Sjálfstæðisflokknum tekst að endurheimta traust að hún verði innan fárra ára orðin foringi flokksins. Hjá Hönnu Birnu fer tvennt saman sem fáir stjórnmálmenn hafa til brunns að bera; hún er bæði mælsk og rökföst. Ef Sjálfstæðisflokknum tekst að halda  nokkru fylgi er það ekki vafi að það er borgarstjóranum núverandi að þakka, mér sýnist ekki að það lið sem hún hefur með sér geri mikla lukku.

Dagur B. Eggertsson komst vel frá umræðunni og honum tókst  að skýra stefnu Samfylkingarinnar í borginni, en flokkurinn leggur höfuðáherslu á atvinnumál. Það liggur í augum uppi að atvinna, að fólk hafi atvinnu, að til séu fyrirtæki með góðu starfsliði sem skapa verðmæti, er undirstaða alls þess sem gera skal og gera verður því þar liggur grunnurinn að tekjum borgarinnar og allra sveitarfélaga. Ég þurfti nokkurn tím til að átta mig á þessari stefnu; hvernig kjörnir fulltrúar í borgarstjórn geta haft afgerandi áhrif á aukningu atvinnu en Degi tókst ágætlega að skýra það.

Þessir tveir foringjar stóðu sig áberandi best í gær en auk þeirra við ég nefna Baldvin foringja Reykjavíkurlistans. Baldvin komst ekki  mikið að en hann benti rækilega á "sárið" í borginni, Reykjavíkurflugvöll. Það er sérstakt að það skuli jafnvel vera meirihluti fyrir því í Reykjavík að flugvöllurinn verði festur í sessi um ókomin ár. Baldvini tókst að benda á fjárhagslega þýðingu þess að flugvöllurinn fari sem fyrst, þar sé vissulega mikill og góður grundvöllur fyrir bættum fjárhag borgarinnar, jafnvel strax og ákvörðun er tekin um að flugvöllurinn fari.

Helga frá Frjálslyndum komst nokkuð vel frá umræðunni þó hún hefði sig ekki mikið í frammi.

En síðan fór að halla undan fæti. Vinstri grænir eru stöðugt að verða einkennilegra fyrirbrigði í íslenskri pólitík. Hins vegar þekki ég vel þennan óm sem kom fram hjá Sóleyju Tómásdóttur frá árum mínum í Alþýðubandlaginu. Löngum var ég þar litinn illu auga frá "vinstri deildinni" sem leit hornauga alla þá sem ekki voru opinberir starfsmenn eða háskólafólk. Þeir sem ráku eigin fyrirtæki voru álitnir kapítalistar af "últraliðinu" og þar gyllti umfram allt að vera nógu "harður" og berja á allt og öllu sem ekki samrýmdist þeirra últra skoðunum. Sóley féll rækilega í þann fúla pytt í gær. Tuggði stöðugt um umönnunarstéttir, svo mikilvægar sem þær eru, en gaf ekkert upp um baráttu fyrir aukinni atvinnu og útrýmingu atvinnuleysis. Ég endurtek enn að án þess að lagður sé grunnur verður ekkert hús byggt. Ég man vinstra liðið í Alþýðubandalaginu sem ætíð hafði allt að því fyrirlitningu á grunninum en vildi endilega byggja hátimbraðar hallir og byrja helst á efstu hæð og turninum! 

Og hvað með Gnarr og hans flokk, Besta flokkinn. Jóni tókst ekki einu sinni að vera skemmtilegur, margtuggði um hvítflibbafangelsi á í Arnarholti fyrir útlendinga, uppskar smá hlátur þegar hann sagði að "hann hefði aldrei flutt flugvöll". Ég býst við að Besti flokkurinn fái talsvert af atkvæðum en ef almennt hefur verið horft á umræðuna þá getur tæplega verið að fylgi flokksins hafi haldist uppi, þvílíkur fíflagangur.

Þá er sögu Framsóknarflokksins lokið að sinni í Borgarstjórn Reykjavíkur. Einar Skúlason var mjög lélegur í umræðunni og reyndi stöðugt að tyggja um hina miklu "endurnýjun" Framsóknarflokksins. Hvað á hann við. Sigmund Davíð formann? Ef hann er endurnýjunin þá byggist hún á því að fara aftur til fortíðar, ef tekið er mið af SD á Alþingi þá hefur þessi nýi foringi fært alla umræðu þar aftur til þeirra tíma fyrir áratugum sem orðhengilsháttur og þras þótti helsti aðall málafylgjumanna .

Og þá er aðeins eftir eitt furðulegasta fyrirbærið í borgarstjórnarpólitíkinni, Ólafur Magnússon. Mottóið í hans rökhyggju, bæði þegar hann fékk orðið eða gjammaði stöðugt fram í hjá þeim sem orðið höfðu, var "ég, um mig, frá mér, til mín". Satt best að segja fannst mér framganga Ólafs vera dapurleg og það er kominn tími til að hann fái endanlega lausn frá borgarmálum í Reykjavík. allavega lausn frá því að verakjörin fulltrúi. Það var ekki uppbyggjandi að sjá fyrir sér mann með Messíasar komplex á háu stigi. 


Steinunn Valdís segir af sér, lágkúrulegar skoðanir Þórunnar Sveinbjarnarddótur

Þá kom að því. Steinunn Valdís segir af sé þingmennsku fyrir að hafa þegið hátt í 13 milljónir í styrki frá bönkum og bröskurum til handa sjálfri sér til að pota sér fremst í prófkjöri síns flokks; sem sagt til að geta tranað sér fram fyrir samherja sína, til að geta troðið þeim aftur fyrir sig. Ég sé enga ástæðu til að mæra þessa ákvörðun Steinunnar Valdísar, hún átti fyrir löngu að vera búin að sjá að með gjörðum sínum í síðustu prófkjörum Samfylkingarinnar sýndi hún mikinn siðferðisbrest. Það er engin afsökun að peningasníkjur hafi verið viðtekin venja. Hún var líka stórtækust í sníkjunum innan síns flokks en vissulega eru þar innan dyra fleiri sem ættu að skoða sína framgöngu. Ég hef margsinnis sagt að ég er í Samfylkingunni og geri þess vegna meiri kröfur til þeirra sem eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og á Alþingi fyrir Samfylkinguna en annarra flokka manna.

Ég lýsi því einnig yfir að viðbrögð Þórunnar Sveinbjörnsdóttur við þessum tíðindum, að Steinunn Valdís segði af sér, voru lágkúruleg svo ekki sé meira sagt. Hún hrósaði Steinunni Valdísi og tók sérstaklega fram að afsögn hennar væri fyrst og fremst til að styrkjar flokkinn, Samfylkinguna. En hvað með Alþingi, Borgarstjórn Reykjavíkur, hvað með þjóðina? Þarna birtist nákvæmlega það sama og kom fram hjá Þorgerði Katrínu þegar hún dró sig í hlé frá þingmennsku. Gjörðin var fyrst og fremst til að styrkja flokkinn hennar, Sjálfstæðisflokkinn, annað virtist ekki skipta máli.

Flokksræðishugsun þeirra sem nú eru í valdastöðum í þjóðfélaginu er orðið mein sem þessir sömu eru nú að súpa seiðið af.

En hvað um aðra stórbetlara í öðrum flokkum, ætla þeir að sitja sem fastast? Hvað um Guðlaug Þór, ekki var Steinunn Valdís hálfdrættingur á við hann í styrkjum til að knésetja félaga sína. Hvað um alla hina?. Steinunn Valdís hefur sýnt fordæmi sem stillir mörgum öðrum stjórnmálamönnum upp við vegg.

Þeirra er valið, er þeirra innri spilling á svo háu stigi að þeir sjá ekkert athugavert við eigin gjörðir?

Svo kemur næsta vandamálið. Um leið og einhver segir af sér kemur varamaður inn. Ég held að  margir séu stöðugt með hroll eftir að Óli Björn Kárason, holdgervingur óheftrar frjálshyggju, maður sem skuldaði í bönkunum hálfan milljarð (ekki hann sjálfur, félag sem hann átti, kom honum ekki við, ekki ber klárinn það sem ég ber eins og karlinn sagði) tók sæti hennar á Alþingi. 

Varamaður Steinunnar Valdísar kemur inn, það er Mörður Árnason. Ekki veit ég neitt um hvort Mörður hefur þegið styrki eða farið í sníkjur, tel samt nauðsynlegt að hann geri hreint fyrir sínum dyrum.


Má ekki bjóða þér drullu úr dós?

Ekki veit ég hver fyrstur fann upp það þjóðráð að setja upp heitan pott, var það ekki Snorri Sturluson eða Guðrún Ósvífurdóttir? Heitir pottar urðu til í Kanada, Noregi og líklega í Sviss. Fyrstu heitu pottarnir í þessum löndum fylgdu vetraríþróttum og snjó. Sá galli fylgdi að þetta var dýr lúxus, vatnið varða að hita upp með rafmagni eða viði og þess vegna kom ekki til greina að kasta vatninu eftir hverja pottferð. En þá var hætta á hverskyns sýkingum og lausnin varð sú að setja í hvern pott  dælu sem dældi vatninu í gegnum hreinsibúnað eins og gert er í sundlaugum. Þetta var ekki nóg frekar en í sundlaugunum, það þurfti klór í vatnið ásamt ýmsu öðru gumsi svo það er ekki fjarri sem einn góður maður sagði "það kostar mikla peninga að  eiga og reka pott, það þarf að kaupa mikið af drullu í dósum". Þess vegna urðu heitir pottar í fyrrnefndum löndum og grannríkjum aldrei almenningseign, það voru aðeins þeir efnameiri sem eignuðust lúxusinn og þá helst þeir sem áttu fjallahús og stunduðu vetraríþróttir.

drulla_i_dosum_991993.jpgEn svo uppgötvuðu menn að til var land sem hvorki þurfti að borga fyrir rafmagn eða drullu í dósum eða dýran hreinsibúnað. Það var landið þar sem heitt vatn spratt upp úr jörðinni, nær allir hituðu hús sín með heitu jarðvatni, sendu síðan vatnið undir bílastæðið til að halda því snjó- og hálkulausu.

Þetta land er í miðju Norður-Atlantshafi og heitir ÍSLAND.

Í þessu landi varð heiti potturinn almenningseign,  stofnkostnaður lágur og reksturinn einnig, kostaði kannski 50 - 60  krónur hver áfylling, Síðan var vatnið látið renna sína leið og fyllt á aftur við næstu pottferð, enginn hreinsibúnaður, engin drulla úr dósum.

 Þetta er ófögnuðurinn sem fylgir rafhituðum pottum.

Tveir íslenskir framleiðendur bjuggu til heita potta, svokallaðar skeljar og eru þær mjög víða við íslensk hús. En þessir tveir framleiðendur voru ákaflega lélegir sölumenn og markaðsfræði var þeim lokuð bók, nokkuð sem hefur verið mjög algengt fyrirbæri hér á landi um langan aldur.

Og það var ekki að sökum að spyrja; innflytjendur og seljendur lagnaefnis í hita og neysluvatnskerfi gripu gæsina. Þeir byrjuðu allir að flytja inn rafhitaða heita potta sem nær engin þörf var fyrir hér á landi nema í undantekningartilfellum, aðeins á þeim fáu stöðum sem ekki er kostur á jarðhitavatni. Hver um annan þveran fylltu þeir verslanir sínar af innfluttum rafhituðum pottum sem voru rándýrir, en þetta var að vísu á þeim tímum sem Ísland sigldi inn í þá hátimbruðu höll að verða mesta fjármálveldi heimsins. Og lagnasalar græddu morð fjár á trúgirni og snobbi landans.

Nú var ekki nógu fínt að sitja í skeljum frá Trefjum eða X-Norm sem í var aðeins hreint íslenskt vatn úr iðrum jarðar. Nú vildu allir vera ekki vera minna en "upper middle class" og ekki missa af unaði klórvatnsins.

Já, það er dapurlegt hvernig íslenskir lagnasalar og fleiri lukkuriddarar hafa leikið þessa þjóð. Sannfært hana um að hún verði að sitja í vatni sem er blandað drullu úr dósum og ég spyr að lokum:

Ætlar landinn að halda áfram að láta óprúttnar lagnaverslanir og lukkuriddara hafa sig að fífli?


Grein mín nr. 2 um kvótamál sem birtist í "Bæjarlífi" í Þorlákshöfn 6. maí

 

 Nokkur orð til Ármanns Einarssonar útgerðarmanns í Auðbjörgu ehf. í Þorlákshöfn frá landkrabba

 

eftir Sigurð Grétar Guðmundsson

 

Ármann virðist taka það illa upp að ég bað hann, ef hann legði í að svara mér, að vera málefnalegur. Ég get ekki annað en birt málsgrein úr hugarheimi hans sem sýnir svolítið annað:

“Sigurður Grétar talar eins og sönnum vinstrimanni sæmir sem vill að ríkið sé með puttana í allt og öllu eins og gafst svo vel í ráðstjórnarríkjunum gömlu. Hann vill líka fara að fordæmi Mugabe í Zimbabwe og gera eignaréttinn að engu með tilheyrandi upplausn í samfélaginu”.

Ef Ármann veit það ekki þá er það skjalfest og þekkt um alla heimsbyggðina að stjórnarstefnan í Ráðstjórnarríkjunum  var alla tíð glötuð enda hrundi þetta alræðisríki nánast til grunna á einni nóttu og sá hlýtur að vera rakalítill sem þarft að líkja mér við geðsjúkan þjóðarleiðtoga í Afríku sem er búinn að rústa blómlegasta landbúnaðarlandi í þeirri álfu.

Þetta kemur ekki við mig á nokkurn hátt en mikið er hægt að lúta lágt til að koma ímynduðu höggi á viðmælandann.

 

Orð sem eru gulls ígildi

En þá ætla ég að vitna orðrétt í grein Ármanns þar sem hann staðfestir í örfáum orðum það sem ég gagnrýndi í minni fyrri grein þegar hann segir:

“Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni)”.

Ég þakka fyrir þessa hreinskilni sem er kannski óvart fram sett. Þarna er viðurkennt að þessi grein atvinnulífsins, sjávarútvegur, er ofurseld því að verða að kaupa menn út úr greininni og þá vil ég spyrja. Hve mikið er búið að blóðmjólka íslenskan sjávarútveg  til þeirra sem eru að selja ykkur réttindi sem þeir eiga ekkert í og þið hefðuð aldrei þurft að kaupa?

Nú skulum við hverfa aftur til þess tíma þegar kvóti í sjávarútvegi var settur á af illri nauðsyn. Útgerðarmenn fengu úthlutaðan kvóta eftir veiðireynslu og þeir voru ekki rukkaðir um eina einustu krónu fyrir það. Ég er þeirrar skoðunar að á þeim tíma hafi verið rétt að setja kvóta á veiðarnar, það hafði fljótlega þau áhrif að fiskiskipum fækkaði og ég veit ekki betur en að hið “illa ríkisvald” hafi stuðlað að því með því að leggja til fjármagn til að úrelda skip. Förum síðan allt til dagsins í dag. Setjum svo að þannig hefði kvótakerfið verið alla tíð, hið skelfilega framsal, sala, kaup og leiga hefði aldrei komið til. Ég er þess fullviss að útgerðarfyrirtæki svo sem Auðbjörg ehf. hefði ekki minni kvóta í dag en raunin er. Stóri munurinn er sá að það fyrirtæki hefði aldrei þurft að kaupa kvóta, ekki heldur aðrir útgerðarmenn. Þeir sem hefðu farið út úr greininni hefðu einfaldlega hætt eins og í öllum öðrum greinum atvinnulífsins, þeir hefðu engar greiðslur fengið frá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, menn gátu jafnvel selt sín skip eða fengið opinbera aðstoð við að úrelda þau.

Ekki veit ég hve háar fjárhæðir hafa verið dregnar út úr íslenskum sjávarútvegi síðan frjálsa framsalið var sett á.

Er það rétt að þar sé um hundruðir milljarða að ræða? Væri ekki greinin betur sett ef þessir fjármunir væru í vel reknum útgerðarfyrirtækjum eins og Auðbjörgu og fleirum, í stað þess að verða að afhenda þá til einstaklinga, sem sumir hverjir fjárfesta skynsamlega í alls óskyldum atvinnurekstri, en aðrir hafa sannarlega lifað í lúxus meðan þið sem eftir eruð í greininni berjist fyrir tilveru ykkar.

Engin svör komu í grein Ármanns við nokkrum sláandi dæmum sem ég kom með í fyrri grein. Hvað um Eskju á Eskifirði, hvað um erfingja Alla ríka sem nú velta sér í allsnægtum í útlöndum, hvað um Vestmannaeyinginn sem lifir góðu lífi á því að eiga skip bundið við bryggju og leigja kvótann? Ef kvótinn hefði alla tíð verið í sama formi og upphaflega var hugsað hefði þessi “útgerðarmaður” einfaldlega orðið að skila kvótanum og einhver sem rak sitt útgerðarfyrirtæki vel hefði fengið hann.

 

Fyrirtækin keyrð í þrot?

Það er mikið til í því að ég hef takmarkað vit á sjávarútvegi. En ég skil fullkomlega hversu eitraður bikar frjálsa framsalið, kaupin, salan og leigan er fyrir ykkur sem viljið stunda fiskveiðar og vinnslu og gera það vel. Ykkur var afhentur þessi réttur, framsalið, og mér er slétt sama hvar þeir menn voru í pólitík og flokkum sem það gerðu, söm var þeirra gerðin. Þið gleyptuð við þessu og síðan hófst braskið og blóðugast af öllu er það sem ég hef vitnað til í þinni grein, ég ætla að birta þá tilvitnun aftur:

“Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni)”.

Ég spurði í minni fyrri grein hvernig það gæti gert öll útgerðarfyrirtæki gjaldþrota ef kvótinn yrði innkallaður á tuttugu árum, svarið er einmitt í tilvitnuninni. Ég svaraði mér reyndar sjálfur. Útgerðarmenn eru búnir að slá eign sinni á kvótann. Þeir eru búnir að bókfæra sameiginlega eign allrar þjóðarinnar og það sem er alvarlegast af öllu; veðsetja hana hérlendis sem erlendis upp í topp.

Er þetta ekki rétt?

 

Kvótinn verður aftur sameign þjóðarinar

Það verður kvótinn á nákvæmlega sama hátt og fiskurinn í sjónum, útgerðarmenn eiga hann ekki fyrr en þeir hafa veitt hann og komið með hann að landi. Ég ætla að vona að þið losnið úr herkví íhaldshugsunarinnar og sjáið að það er búið að leiða íslenskan sjávarútveg í skelfilegar ógöngur. Þegar réttindi, sem öll þjóðin á, geta gert ykkur gjaldþrota með því einu að afturkalla 5% kvótans árlega þá er eitthvað rotið. Ykkur verður mjög líklega aftur afhentur þessi sami kvóti sem réttindi frá þjóðinni, það verður að veiða fiskinn, það höfum við gert alla tíð og sjávarútvegur verður enn um langan aldur ein af styrkustu stoðum þjóðarbúsins.

En þið eruð búnir að flækja ykkur í skelfilegt fjárhættuspil sem er kvótabraskið. Það verður að finna leið til að styrkja ykkur og aðstoða til að komast út úr því þegar kvótinn verður aftur gerður að þjóðareign.

Ármann er óánægður með að ég skuli kalla hann íhald. Í sjálfu sér er það ekkert skammaryrði í mínum huga, lýsir aðeins hugsunhætti ýmissa einstaklinga. Ég minni á að annar af forgönguflokkum Sjálfstæðisflokksins hét reyndar Íhaldsflokkur. Þeir sem fá nafnbótina íhald í dag eru einmitt þeir sem vilja engu breyta, sitja í sama stól, ganga sömu sporin og áður. Það viljð þið útgerðarmenn flestir gera, þó hef ég grun um að sumir hverjir í ykkar röðum séu farnir að efast um ágæti þvermóðskunnar og íhaldsstefnunnar í kvótasukkinu.

Væri ekki nær að koma að þessu máli með opinn huga og finna skynsamlegar lausnir. Er það ekki besta gjöfin sem þið getið gefið arftökum ykkar; að losa þá undan þeirri kvöð sem lýst er svo ágætlega í þinni grein, ég hef þá tilvitnun sem mín lokaorð:

“Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni)”.

 


Umsátur um heimili fólks er siðleysi

Ég gagnrýndi Guðlaug Þór og Steinunnu Valdísi í fyrradag fyrir siðleysi og krafðist afsagnar þeirra frá Alþingi og að fleiri ættu að fljóta með.

En í gær gerði gemsinn mér viðvart að ég væri að fé SMS skilaboð. Mér brá þegar ég sá skilaboðin. Þau voru áskorun um að koma að heimili Guðlaugs Þórs kl. 20:00 í gærkvöldi til að gera honum og fjölskyldu hans lífið leitt. Á þeim stað yrði síðan ákveðið hverjir aðrir yrðu heimsóttir sömu erinda.

Ekki veit ég hvaða aumingjar standa fyrir slíkri röskun á friðhelgi umdeildra einstaklinga. En eitt er víst; ef þessir einstaklingar sem að er sótt teljast hafa brotið siðferðislögmál þá eru þeir sem að þeim sækja  engu betri, ég hef andstyggð á þessum ræfilshætti að safnast saman og njóta nafnleyndar, enginn var skrifaður sem sendandi SMS skilaboðanna. Mér finnst full ástæða til að lögreglan komi í veg fyrir svona þjösnaskap. Það væri ekki úr vegi að minnsta kosti að mæta og taka myndir af þessum "hetjum".

Þessar "hetjur" eru, ekki síður en umdeildir einstaklingar sem að er sótt, siðleysingjar.


Margt er gott sem gamlir kveða

Í gær var stutt viðtal við þann aldna hagspeking Jónas Haralz í Speglinum, fréttasýringarþætti Ríkisútvarpsins. Þar rifjaði Jónas upp ummæli Ásgeirs Ásgeirssonar, sem síðar varð Forseti íslands, ummælin að ég held frá árinu 1929. Þar benti Ásgeir á að krónan, gjaldmiðill okkar, getur ekki staðið ein sér, þá hafði hún gullfótinn til að styðjast við. En gullfóturinn er löngu týndur og tröllum gefinn og Jónas sagði að þessi örmynt okkar, íslenska krónan, gæti aldrei staðið ein og óstudd. Krónan yrði að minnsta kosti að komast í myntbandalag með öðrum sterkari þjóðum og það lægi beinast við að það yrðu ríki á meginlandi Evrópu, m. ö. o. að við gengjum í Evrópusambandið og tækjum upp Evruna, þannig skyldi ég Jónas Haralz í viðtalinu í gær.

Annað mikilvægt atriði sem Jónas kom inn á var sú mikla breyting sem orðið hefur á bakgrunni þeirra sem sitja á Alþingi og ekki síður sú mikla breyting sem hefur orðið á bakgrunni embættismann ríkisins. Alþingismenn fyrr á árum voru langflestir sterkir og reyndir einstaklingar sem voru valdir til að fara með umboðsvald þjóðarinnar vegna þess að þeir höfðu sannað sig í atvinnulífinu. Þetta voru bændur, útgerðarmenn, iðnrekendur og auk þess var það nánast algilt að á Alþingi sátu forystumenn úr verkalýðsfélögum og sveitarstjórnum. Þeir sem voru það sem kalla má atvinnustjórnmálamenn voru í minnihluta. Nú er allt breytt. Risið hefur upp stétt "atvinnupólitíkusa" sem fara blautir á bak við eyrun frá skólagöngu (mjög líklega með lögfræðipróf) hafa hvergi tekið til hendi í atvinnulífinu. Þessir "atvinnupólitíkusar" eru til í öllum flokkum og eru svo heillum horfnir að þeir skilja það ekki að það sé nokkuð athugavert við það að skófla til sín milljónum og milljóntugum króna til að ryðjast fram fyrir samherja og flokksbræður og systur, nánast til að kaupa sér atkvæði. Því miður hafa almennir kjósendur gleypt þetta agn og fylgt sér á bak við þá sem skrapað hafa saman mestu fjármununum til að kaffæra félaga sína.

En það er sjálfsagt að láta alla njóta sannmælis. Það hafa komið fram einstaklingar alla tíð sem hafa á ungra aldri farið beint í stjórnmál frá prófborðinu en þeir eru í miklum minnihluta. Flestir sem létu að sér kveða á Alþingi áður fyrr komu frá hinum ýmsu afkimum þjóðfélagsins með mikla reynslu að baki.

En hvað um embættismennina? Áður fyrr var mikið lagt upp úr því að embættismenn væru valdir vegna óumdeilanlegra hæfileika sinna en á síðari árum hefur flokksskírteini verið mikilvægara en meðfæddir eða áunnir hæfileikar.


Guðlaugur Þór, þú ert búinn að missa allt traust sem þingmaður, segðu af þér þingmennsku strax

Það var dapurlegt að horfa á viðtal Helga Seljan við Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann í Kastljósi í kvöld. Ég held að aldrei hafi stjórnmálamenn sokkið í jafn djúpan spillingarpytt og með því að sníkja milljónir og milljónatugi til að koma sjálfum sér á framfæri og berja niður samherja sína. Það dapurlegasta er að það er deginum ljósara að ungir framagosar kaupa sé þingsæti með illa fengnu fé frá  spilltum fjárglæframönnum í fyrirtækjum og bönkum.

Ég tók þá í prófkjöri til sveitarstjórnar í Kópavogi 1970 og það datt ekki nokkrum manni í hug að auglýsa sjálfan sig sérstaklega og því síður að sníkja og betla peninga sjálfum sér til handa. En síðan hélt spillingin innreið sína og það er nokkuð öruggt að Guðlaugur Þór er hinn krýndi, hinn smurði merkisberi þeirrar spillingar. Þessi spilling hefur náð til einstaklinga í öllum flokkum, það er langt frá því að Guðlaugur Þór eigi að ganga einn út af Alþingi og ekki láta sjá sig þar framar. Ég hef áður skorað á flokkssystur mína Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að verða Guðlaugi Þór samferð og þið eruð fleiri á Alþingi sem eigið að fylla útgönguhópinn, ég ætla ekki að nafngreina fleiri í þessum pistli.

Þið sem hafi sokkið í spillingarfen prófkjöranna eða önnur fen sem þíð hafið velt ykkur upp úr; þið verðið að skilja þið hafið misst allt traust og það verður ekki hægt að endurreisa reisn Alþingis nema þið látið ykkur hverfa.

Það veldur manni ógleði þegar þið bæði tvö Guðlaugur Þór og Steinunn Valdís syngið þann ámátlega texta; 

Við verðum dæmd af störfum okkar!

Það er einmitt það sem ég er að gera þegar ég krefst afsagnar ykkar frá Alþingi og takið þó nokkuð stóran hóp með ykkur.

Svo langar mig að blogga síðar og leggja út af stórmerku viðtali við þann margreynda hagfræðing Jónas Haralz í Spegli Ríkisútvarsins í kvöld. Ég segi það enn og aftur að Spegillinn er einhver gagnmerkasta dagskrá Ríkisútvarpsins, mig minnir að sá ágæti fréttamaður Friðrik Páll Jónsson hafi þurft að berjast hart fyrir því að fá að skapa hann, raunar merkilegt að hnífurinn skuli aldrei hafa lent á Speglinum. 


Enn á ný er þessi forpokaða opinbera og þjóðnýtta stofnun, Þjóðkirkjan, að sýna að öllum landslýð hve mjög hún er úr takti við þjóðlífið

Það er ýmislegt sem við drögnumst með úr fortíðinni og líklega er ekkert eins lífseigt og Íslenska lútherska þjóðkirkjan. Við drögnumst enn með þetta norræna kirkjumunstur, að hver og einn sem fæðist hér á landi, og ekki er þegar tekið fram að eigi ekki að vera í Þjóðkirkjunni, er sjálfkrafa inn í hana skráður, þar er hann skírður ómálga þar sem einhver honum nákominn festir hann á tré Þjókirkjunnar, svo kemur fermingin og mjög líklega giftingin, hjónabandið. Þó er þó sú undantekning að hver sá sem hefur kynferðislegar hvatir til einstaklinga af eigin kyni er úthýst. Um þetta hefur verið deilt enn einu sinni og málið leist á þann aumingjalega hátt að vísa því til nefndar.

Nú gæti einhver sagt sem svo að hér tali enn einn kirkjuhatarinn en ég ber ekki nokkurn kala til trúaðra manna, ég er hins vegar ekki í Þjóðkirkjunni né nokkrum öðrum trúarsöfnuði og það er mér frjálst sem betur fer. Ég vil á sama hátt að hver og einn sé frjáls að því að trúa á hvern þann guð sem hann kýs, nóg er framboðið af guðum í heimi hér.

En það er mín krafa að öll trúarbrögð séu jafn rétthá og að Ríkisvaldið sé ekki að vasast í trúmálum. Það kann að vera að einhver ráðherra í ríkisstjórninni eigi að hafa trúmál almennt á sinni könnu en það á alfarið að útiloka að almennur íslenskur háskóli, ríkisrekinn, sé með trúarbragðakennslu og þá aðeins kennslu í einum trúarbrögðum, kristinni trú.

En hvað er prestastefna að væla um lagfrumvarp frá Alþingi um hjúskap? Ef þessi kirkjudeild væri frjáls og laus við að  vera tengd ríkisvaldinu þá einfaldlega tekur hún ákvarðanir á eigin forsendum, líklega þá sem virðist vera ætíð í meirihluta, að banna hjónavígslur tveggja einstaklinga af sama kyni. Ef þessi kirkjudeild væri sjálfstæð hefði hún fullan rétt til þess. Hvað afleiðingar það kynni að hafa fyrir frosnar trúargrillur er annað mál en þeir og þær um það.

Ég hef aðeins heyrt eina snjalla tillögu frá prestastefnunni sem nú situr á rökstólum. Það er tillaga Geirs Waage í Reykholti að vígslurétturinn, rétturinn til að gefa saman hjón, verði tekinn af prestum og þá auðvitað í öllum kirkjudeildum. Héðan í frá ættu það að vera embættismenn ríkisins sem skrásettu hjónabandssáttmálann. Ef trúaðir karlar og konur vilja fá blessun presta eftirá þá það, ekkert því til fyrirstöðu.

Trúarbrögð hafa fylgt mannkyni frá örófi alda og munu líklega gera svo lengi sem menn bjástra við að lifa á þessum hnetti. En trú og trúarbrögð eiga að vera algjörlega frjáls, hlutverk ríkisvaldsins er það eitt að gæta þess að svo sé. 


Rannsóknarskýrslan, stjórnsýslan og stjórnmálamenn

Rannsóknarskýrslan leiðir berlega í ljós að stjórnsýslan í okkar þjóðfélagi er með mikilli brotalöm. Við, þessi litla og fámenna þjóð, hefur byggt upp ótrúlaga margar stofnanir sem eiga að hafa margskonar verkefni. Þar brestur hvorutveggja, að fyrirmæli séu skýr og skorinorð auk þess sem margir lykilmenn brugðust, bæði vegna eigin hæfileikaskorts og ófullkominnar umgjörðar. Ég fagna því þeirri stefnumörkun Ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af stofnanakraðakinu. Það hefur verið lenska undanfarna áratugi að stofna sífellt nýjar og nýjar stofnanir, sumar með æði rýr verkefni. Það er tími til kominn að allir skilji það að hver nú stofnun krefst kostnaðar í aðstöðu og yfirstjórn. Ég er ekki frá því að stundum sé hægt að sameina 4 - 5 stofnanir og láta yfirkostnað einnar nægja fyrir allar.

 Stjórnmálamenn

Það er ekki fagur vitnisburður sem margir stjórnmálmenn fá um sukk og svínarí varðandi prófkjörin. Þau áttu í árdaga að verða lýðræðisleg aðferð við raða á framboðslista en þessi aðferð, prófkjör , hefur snúist upp í andhverfu sína og er orðin smánarblettur á lýðræðinu. Það er mikið rætt um fjárstyrki sterkra fyrirtækja til stjórnmálaflokkanna, þar hefur margt misjafnt komið í ljós. En mér finnst styrkjafarganið til einstaklinga í prófkjörum miklu alvarlegri hlutur. Það má segja að það sé lýðræðisleg nauðsyn að við höfum stjórnmálaflokka, eða þannig höfum við byggt upp okkar lýðræðishefð eins og flestar vestrænar  lýðræðisþjóðir, um það fyrirkomulag má vissulega deila.Fjárstyrkur til stjórnmálflokka er þó styrkur til afla í þjóðfélaginu sem hafa tilgang ætlum við. En fjárstyrkur til einstaklinga í prófkjöri er ekkert annað en viðbjóður sem hefur engan lýðræðislegan tilgang. Aðeins þann tilgang að einstaklingur geti troðið sér framar í goggunarröðina, að einstaklingur geti troðið samherjum sínum niður fyrir sig til að komast í bæjarstjórn eða á Alþingi. 

Er sá hinn sami þar að þjóna lýðræðinu?

Nei, langt frá því, Aðeins að hlaða undir eigin metnað, ekki til að vinna að hugsjónum eða stefnumálum þó það sé látið í veðri vaka. Á Alþingi sitja nú margir sem þangað eru komnir vegna fjár sem þeir hinir sömu hafa betlað út úr fyrirtækjum, þar eru jafnvel fjármunir sem illa eru fengnir og  enginn veit í raun hvaðan eru komnir.

Það er kannski ekki réttlátt að nefna nöfn einstaklinga en ég ætla samt að gera það. Guðlaugur Þór er einhver stórtækasti peningasukkari í prófkjöri, en það eru reyndar allir stuttbuxnadrengirnir í Sjálfstæðisflokknum. Sem Samfylkingarmaður get ég akki annað en fyllst dapurleika yfir því hve þessi flokkur, sem átti að verða ferskur gustur í íslenskum stjórnmálum, hefur fyrirhafnarlaust sogast inn í sukkið, bæði flokkslega og líka einstaklingar sem hafa skarað eld að sinni köku í prófkjörum. Ég lýsi hneykslun minni á því að rumpulýður setjist að heimilum fólks eins og gert var nú síðast við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. En ég lýsi ekki minni hneykslun á framferði hennar, og reyndar annarra Samfylkingarmanna, sem gleymdu öllum hugsjónum og hugsuðu um það eitt að olnboga sig fram fyrir samherjana. Ég segi við þig Steinunn Valdís og ykkur aðra flokksfélaga mína sem gleymduð öllu siðferði:

 Þið sem hafið sogast inn í peningaplokk í prófkjörum eigið að láta ykkur hverfa úr íslenskum stjórnmálum, þið hafið fallið á siðferðisprófinu.

Þrír alþingismenn hafa dregið sig í hlé frá þingstörfum, Björgvin G. Sigurðsson vegna þess sem fram kemur í Rannsóknarskýrslunni, Illugi Gunnarsson vegna stjórnarsetu í sukksjóði Glitnis og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vegna þess að hún hefur sogast inn í fjármálasukk manns síns þegar hann var starfsmaður Glitnis. Þó segja megi að alls sé óvíst um "sekt" þessar þremenninga vantar eitt sárlega í þeirra gjörðir.

Þau áttu að segja af sér sem þingmenn, ekki aðeins að draga sig í hlé og bíða í gættinni, það hefði verið þeirra sterkasti leikur!

En það er fleira "undir teppinu" hjá þingmönnum. Tryggvi Þór Herbertsson sem var forstjóri eins fallbankans og gaf íslensku fjármálkerfi heilbrigðisvottorð skömmu fyrir hrun ásamt bandarískum hagfræðingi, hvað um hann? Ekki vafi á að hann á að segja af sér þingmennsku. Eitt það hlálegast af öllu er þó að Sjálfstæðisflokkurinn dregur inn á þing, í stað Þorgerðar Katrínar, mann að nafni Óli Björn Kárason. Það er ekki aðeins að þar er mikill mannamunur, hann mun seint fylla sæti Þorgerðar Katrínar. En miklu alvarlegra er að þar fer einn af þeim sem gátu valsað inn í bankakerfið og sótt sér fé að vild, hvað var það mikið? Var það ekki um hálfur milljarður króna? Hlálegast er þó svar Óla Björns þegar hann er spurður um þessa skuld, hann segir:

"Þetta er ekki mín skuld. Þetta er lán sem fyrirtæki í minni eigu fékk". sem sagt, hann ber enga ábyrgð á þessari skuld. Hann segir eins og kallinn forðum sem reið eftir götu og hafði þunga bagga á herðum sér og svaraði aðspurður "klárinn ber ekki það sem ég ber".

En það eru margir á þingi sem hafa þegið hár fjárhæðir af bönkunum, skiptir ekki máli þó það hafi að forminu til verið lán, vafningar, eða einhver framvirk vitleysa.

Ég held að nú sé kominn tími til að hver alþingismaður líti í eigin barm af hreinskilni og kjarki. En kannski er það til of mikils mælst.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband