Færsluflokkur: Lífstíll
15.8.2010 | 11:07
Jón kemur ekki á óvart en Svandís svo sannarlega
Fjölmargir kalla núverandi Ríkisstjórn "vinstri stjórn" og eftir gömlum viðmiðunarreglum er þetta satt og rétt, eða hvað? Það er því lyginni líkast að einn ráðherra þessarar vinstri stjórnar er eitthvert rammasta afturhald sem sest hefur í ráðherrastól og er þó við marga að etja í þeirri samkeppni.
Maðurinn heitir að sjálfsögðu Jón Bjarnason, fyrrum skólastjóri Bændaskólans á Hólum og þótti standa sig vel í því starfi. En hugur Jóns stóð til frama í pólitík og hann valdi að starfa í Samfylkingunni. Ekki minna en þingsæti kom til greina í framapoti Jóns og hann hellti sér út í prófkjör en varð að lúta í lægra haldi fyrir öðrum núverandi ráðherra, Kristjáni Möller.
En Jón dó ekki ráðalaus, hann snaraði sér yfir landamæri flokka og dúkkaði upp í prófkjöri Vinstri grænna fyrir þá komandi Alþingiskosningar. Hvað fleyið hét sem Jón sigldi á skipti ekki máli, aðalatriðið var að ná landi við Austurvöll.
Og það tókst, síðan hefur Jón verið þingmaður Vinstri grænna og ekki nóg með það; sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í núverandi Ríkisstjórn. Ekki geri ég mér grein fyrir á hvað vegferð Jón er sem sjávarútvegsráðherra en sem landbúnaðarráðherra er hann líklega að slá met í íhaldssemi og varðhundastöðu. Hann lýsir yfir af tröppum stjórnarráðins að hann standi vörð um Bændasamtökin og alla þá innmúruðu íhaldssemi sem þar þrífst og hefur lifað á miklum styrkjum frá landsmönum öllum, telur alla gagnrýni á eigin íhaldsmennsku árás á íslenska bændastétt.
Íslenskur landbúnaður getur átt góða framtíð, ekki síður innan ESB en utan, og öll viljum við halda landinu sem mest í byggð. En til að svo geti orðið verður að losa bændastéttina við það helsi sem afturhald allra tíma hefur hengt á hana. Margskonar nýjungar hafa sprottið upp hjá sumum bændur í úrvinnslu eigin afurða, er það ekki leiðin ásamt mikilli fjölbreytni í ferðaþjónustu bænda?
En er ekki hinn íhaldssami ráðherra Jón Bjarnason svo upptekinn af verndum gamalla þröngra sjónarmiða að hann er jafnvel tilbúinn til að bregða fæti fyrir vaxtarsprotana?
Konur hafa prýtt sæti Umhverfisráðherra í síðustu Ríkisstjórnum. Allir muna framgöngu Þórunnar Sveinbjarnardóttur í ísbjarnamálunum og sem betur fer sat Kolbrún Halldórsdóttir ekki lengi á stóli. Þá kom til skjalanna hin skelegga Svandís Svavarsdóttir sem hafði staðið vel vaktina sem borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.
En nú nýverið bárust hrikalegar fréttir frá valdstofnunum sem undir Svandísi heyra svo sem Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins.
Sú óheyrilega gjörð að útrýma lúpínu í Þórsmörk með EITRI hefur tæplega verið gerð án samþykkis þess sem æðstur er í valdapíramídanum, Svandísar Svavarsdóttur ráðherra.
Í hvað veröld lifum við? Á hvaða landi lifum við? Er það ekki á Íslandi þar sem við þurfum lífnauðsynlega á öflugustu landgræðslujurt sem fyrirfinnst, lúpínunni, að halda?
Eitt er að hefta útbreiðslu þessarar þörfu jurtar en að fara út í íslenska náttúru og hefja eyðingu gróðurs með EITRI er ekkert annað en glæpsamlegt athæfi.
Þeir sem bera ábyrgð á slíku eiga að svara til saka að fullu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.8.2010 | 10:20
Íslensku þjóðinni er engin vorkunn, það er verið að hífa hana upp úr kviksyndinu sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sökktu henni í
Það styttist í það að ég haldi upp á mitt 76 ára afmæli. Sá sem hefur lifað svo langa ævi hefur séð margt, upplifað margt og reynt margt. Stundum voru lífskjör alþýðu manna ömurleg, lífsbaráttan hörð.
Í dag er emjað og veinað yfir lífskjörum á landi hér eftir hið skelfilega klúður sem hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kom þjóðinni í. Núverandi Ríkisstjórn, sem enn heldur saman þrátt fyrir Ögmund og últraliðið í Vinstri grænum, hefur lyft Grettistaki undir forystu Jóhönnu og Steingríms þrátt fyrir hælbítahjörðina sem um þau og Ríkisstjórnina situr:
Gott og vel hvernig er þá ástandið í dag?
Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið styrkara í lengri tíma.
- Verðbólgan ekki verið minni í tæp 3 ár - komin niður í 4,7%.
- Hagvöxtur hefur mælist tvo ársfjórðunga í röð.
- Kaupmáttur hefur aukist í fyrsta sinn á ársgrundvelli frá því eftir hrun.
- Atvinnuleysi er mun minna en spáð var og hefur atvinnulausum fækkað frá því á sama tíma í fyrra. 7.5% atvinnuleysi mældist í júlí en það var 8% í júlí 2009.
Getur hælbítahjörðin mótmælt þessu með rökum?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.8.2010 | 09:59
Hundarnir í Riga (og Reykjavík)
Henning Mankell sænski krimmahöfundurinn getur verið fjári góður stundum en á það til að verða nokkuð langorður. Ég var að enda við sögu hans "Hundarnir í Riga" þar sem sögusviðið er í Ystað á Skáni en ekki síður í Riga höfuðborg Lettlands þegar alræði kommúnistaríkjanna er að falla. Söguþráðurinn þegar kemur yfir til Riga er með ólíkindum en gæti hann ekki hafa verið það eins og mál voru þar að þróast?
En það er víðar en í Riga sem hælbítahjörðin fer af stað og ekki er furða að menn eins og Jón Valur, Jón Magnússon og Páll Vilhjálmsson fari þar fremstir ef þeir telja sig finna blóðbragð. Það eru starfshættir þessara hælbíta að velja sér einhverja opinbera persónu sem hafi farið inn á grátt svæði, sú persóna skal að velli lögð hvað sem það kostar.
Ekki er langt síðan úlfahjörðin fór vælandi af stað gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vegna einhverra óskilgreindra afskipta hennar af launamálum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Þar voru ekki aðeins á ferð lítilsigldir bloggarar heldur peð á Alþingi einnig. Þar fór fremstur í flokki baróninn í Sjálfstæðisflokknum, Sigurður Kári Kristjánsson. En hvar endaði gjammið? Það hjaðnaði all skyndilega og Jóhanna stóð jafn keik á eftir.
Nú er hjörð hælbítanna heldur betur búin að finna blóðbragð og sá "seki" er Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Honum er gefið að sök að hafa sagt Alþingi ósatt, sumir tala um lygi. Ég hef reynt að átta mig á þessu máli og get engan veginn séð að Gylfi hafi sagt ósatt. Hann taldi að lán í erlendri mynt væru þá lögleg og líklega eru þau það ennþá, en tók fram að um álitamálin að greiða af þeim eftir gengi krónunnar yrðu dómstólar að fjalla um sem síðan var gert og hefur Hæstiréttur nú kveðið upp endanlegan dóm. Ekki er ólöglegt að lána í erlendri mynt en ólöglegt að greiða af þeim í íslenskum krónum eftir gengi á hverjum tíma. Hæstiréttur fjallaði ekki um hvaða vexti skyldi greiða af þessum lánum eftir dóminn en þar hefur Héraðsdómur Reykjavíkur fellt dóm, ekki ólíklegt að það fari fyrir Hæstarétt.
Ég spái því að þessi "herferð" gegn Gylfa Magnússyni endi á svipaðan hátt og herferðin gegn Jóhönnu um laun Seðlabankstjóra, herferðin koðni niður og verði að engu.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég verði vændur um að verja allt sem núverandi Ríkisstjórn og ráðherrar hennar gera. Því ætla ég að svara fyrirfram og benda á að mér finnst sjálfsagt að gagnrýna einstaka ráðherra þegar sönn átæða er til að mati þess sem málefnalega gagnrýnini setur fram. Ég hef verið ómyrkur í máli um einstakar stjórnarathafnir tveggja flokksbræðra minna í Ríkisstjórn, þeirra Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra og Kristjáns Möller samgönguráðherra. Ekki þarf að fara langt niður eftir mínu bloggi til að lesa gagnrýni á þessa tvo ráðherra. Mér finnst efni standa til þeirrar gagnrýni, hún er ekki til komin af því að reyna að koma höggi á viðkomandi.
Ég ætla að geyma mér frekari gagnrýni á tvo ráðherra aðra í Ríkisstjórninni, en þeir hafa með starfsháttum sínum gengið fram af mér með fráleitum vinnubrögðum..
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2010 | 08:55
Dapurlega framganga Árna Páls félagsmálaráðherra þegar hann skipar Runólf Ágústson sem umboðsmann skuldara
Það var (og er vonandi enn) yfirlýst stefna núverandi Ríkisstjórnar að gera allar stjórnarathafnir gagnsæjar, ekki síst við skipanir í embætti. Því dapurlegra er að sjá Árna Pál félagsmálaráðherra skipa Runólf Ágústsson flokksbróður okkar beggja í embætti umboðsmanns skuldara. Runólfur á skrautlegan feril að baki, vann eflaust gott verk í byrjun sem skólameistari á Bifröst en hrökklaðist að lokum úr embætti vegna brests í siðferðilegum efnum sem og stjórnunarlegum. En Runólfur var ekki einn í heiminum, hann kom að þegar góss ameríska hersins á Keflavíkurflugvelli komst í hendur Íslendinga. En því miður stundaði hann fjármálbrask eins og hver annar útrásartortúlalubbi og skilur eftir sig skuldaslóð, skuldir sem aldrei verða greiddar.
Hverskonar dómgreindarleysi er það hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að skipa Runólf Ágústsson sem umboðsmann skuldara? Ætlar Árni Páll að láta þessa skipun í embættið standa, eða getur hann e. t. v. ekki breytt neinu?
Blaðið DV hefur ekki það orð á sér að vera áreiðanlegasti fjölmiðill landsins en oft ratast kjöftugum satt á munn. DV fjallar um ráðningu Runólfs og kemst að þeirri réttu niðurstöðu að hún sé fyrir neðan allar hellur.
Eru núverandi stjórnvöld að falla í hinn fúla pytt vinavæðingar, er það mikilvægara að vera flokksbróðir ráðherrans sem í stöðuna skipar heldur en að hafa flekklausan feril að baki?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.7.2010 | 17:27
Ruglið í loftslagsmálum heldur áfram
Fyrir nokkrum árum stofnuðu tveir ungir menn upplýsingasíðu, Loftslag.is. Þetta leist mér ljómandi á, þarna fóru menn sem virkilega lögðu sig eftir fræðunum að mér fannst. En Adam var ekki lengi í Paradís, þessir tveir ungu menn eru gjörsamlega heilaþvegnir af þessum áróðri frá ICPP, loftslagsnefnd Sameinuð þjóðanna og þeim hátt launuðu vísindamönnum sem starfa fyrir þá nefnd, aðallega við háskóla í hinum vestræna heimi. Þessi fræði ganga út á það að maðurinn með gjörðum sínum og kolefnisbruna sé að hækka hita jarðarinnar þannig að stór vá sé framundan.
Í bloggi þeirra núna stendur þetta:
Á komandi áratugum mun hitastig halda áfram að aukast, eins og flestir virðast vera búnir að átta sig á. En hverjar verða afleiðingarnar af hnattrænni hitastigshækkun upp á 4°C
Hver er þess umkomin að segja fyrir um slíkt?
Ekki nokkur einasti maður, við vitum tæpast hvað gerist á næsta ári og fjölmargir vísindamenn haf talið meiri hættu á því eftir tvo ártugi að hiti í heiminum fari fallandi, jafnvel að "lítil ísöld" sé þá í uppsiglingu, reikna þetta eftir háttum sólar. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir að það var hart í ári á síðustu litlu ísöld en hiti í heiminum hóf að falla eftir árið 1300 og á 17. og 18. öld voru mikil harðindi ekki síst á Íslandi.
Og takið nú eftir: Hnattræn hlýnun hefur engin orðið á þessum fyrsta áratug 21. aldar, eða frá árinu 2000. Síðustu 150 árin hefur hnattræn hlýnun aðeins verið 0,6°C.
Hver getur fullyrt um framtíðina? Eru þessir ungu menn á Loftslag.is reiðubúnir til að segja okkur hvenær Katla muni gjósa, eða Hekla eða hve langt er í að Eyjafjallajökull muni gjósa aftur. Þeir geta alveg eins sagt okkur fyrir um slíka atburði eins og að fullyrða að það muni hlýna hnattrænt um heilar 4°C á næstu áratugum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2010 | 11:57
Ef fara á í hernað gegn lúpínunni með eiturefnum þá nálgast það að vera glæpsamleg gjörð
Undanfarin ár hef ég fylgst með gróðrinum í kringum mín tiltölulegu nýju heimkynni, Þorlákshöfn. Það er vissulega melgresið magnaðasta vopnið til að hefta sandfokið og græða sandana. En lúpínan hefur einnig skilað okkur mun betra landi en áður var. Tvennu hef ég tekið eftir í sumar sem mér finnst athyglisvert. Innan um lúpínuna virðist kjarrgróður dafna mjög vel, bæði kjarrgróður sem sáir sér og einnig nokkuð af gróðursettum trjám. Ég fæ ekki annað séð en að með tíð og tíma muni kjarrið jafnvel taka völdin og þá muni lúpínan hörfa. Annað athyglisvert sá ég nýlega. Í gömlu grjótnámunni niður við strönd hefur lúpínan náð nokkurri fótfestu. En í sumar hefur önnur tegund, sem fjölmörgum er illa við, njólinn, tekið sér bólfestu í lúpínubreiðunum.
Flestir vita að njólinn sækir í áburðarríkan jarðveg, heima við bæi, í nánd við mykjuhauga til dæmis. Njólinn hefur fundið að þar sem lúpínan vex er jarðvegurinn áburðarmikill og dafnar þar vel. Þarna vinna tvær jurtategundir að því að bæta jarðvegin á stuttum tíma, þarna fer brátt að verða kjörlendi til að gróðursetja ýmsar trjátegundir.
Það er yfirgengileg heimska að fara með hernað á lúpínuna. Að yfirlýstir náttúruverndarsinnar skuli jafnvel vera að bræða með sér að nota í þeim hernaði eiturefni þá nálgast það að vera glæpsamlegt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2010 | 10:55
Enn seilist ég í athuagasemdir sendar Ómari Ragnarssyni
Ég er greinilega orðin vafasamur að áliti Ómars. Þessi athugasmd mín varð að fara í "síu" og birtist ekki fyrr en Ómar er búinn að meta hana. Þar sem alls óvíst er að hún birtist set ég hana á mitt eigið blogg.
Svar þitt er athyglisvert. Ekki vegna sem þú segir heldur vegna þess sem þú segir ekki. Vissulega hafa einhverjir verið að halda því fram að Nesjavallasvæðið væri ofnýtt og auðvitað ert þú mannlegur eins og við öll og villt frekar taka undir það sem fellur að þínum skoðunum þó ekki séu það staðreyndir. Að halda því fram að orkan á Hellisheiði (Hengli) sé ofnýtt vitum við báðir að stenst ekki. En það er rétt að hafa eitt í huga; jarðgufusvæðið á Nesjavöllum og Hellisheiði, eða á Hengilsvæðinu, hlýtur að vera samtengt. Það er viðurkennt að mikil jarðgufuorka er ónýtt á Hengilsvæðinu og þess vegna er þar ekki um neina ofnýtingu að ræða.
Á Reykjanesi eru allt aðrar aðstæður og ég get tekið undir það að vissulega þarf að fara þar fram af meiri varfærni en á öðrum jarðhitasvæðum. Það er ekki síst út af áhrifum sjávar inn í hraunið.
En það sem ég tek eftir að þú, ein þekktasti náttúruverndarsinni á landinu, segir ekki orð um mínar ábendingar um hrikalega sóun á náttúruauðlindum í Þingeyjarsýslum og á þar fyrst og fremst við Kröflu. En ekki síður við þau jarðgufuorkuver sem ætlunin er að reisa í þessum landhluta sem eiga einungis að framleiða rafmagn. Þetta eru fræði sem Jóhannes Zoega benti á í mikilli alvöru og ég tók einmitt undir í einum af pistlum mínum "Lagnafréttum" í Morgunblaðinu undir titlinum "Margt er gott sem gamlir kveða".
Ég tel sjálfsagt að við nýtum okkar orkuauðlindir en það er ekki sama hvernig það er gert. Þessi seinni tíma flokkun á landsmönnum í "virkjunarsinna" eða "virkjunarandstæðinga" er ekkert annað en heimskan einber. Ég hef að framan bent á að að virkjunarsvæðin í Hengli og Kröflusvæðinu annarsvegar og Reykjanesi hinsvegar eru eru mjög ólík og þau þarf að nýta samkvæmt því. Ég er fæddur á austurbakka Þjórsár og man enn vel hvað alla þar fyrir austan dreymdi um að áætlanir Titan félagsins og Einars Benedikssonarum um virkjanir, sérstaklega virkjun Urriðafoss, yrðu að veruleika. En allt er breytingum undirorpið og ýtrustu áætlanir Landvirkjunar um uppistöðulón í byggð finnst mér meira en lítið vafasamar. Ég er engan veginn andstæður uppistöðulóna vegna virkjana, það þekktasta er Elliðavatn austan Kópavogs sem varð til við stífluna í Elliðaánum við núverandi Höfðabrekkubrú. En uppistöðulónin í Þjórsá krefjast mikilla fórna í grænum grundum og jafnvel heilum jörðum. En kannski er hægt að fara þarna bil beggja og nýta orkuna í Þjórsá niður í byggð í viðbót við það sem þetta mesta vatnsfall landsins (lengsta) er stöðugt að skila landmönnum öllum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.6.2010 | 10:26
Þetta var skrifað sem athugasemd til Ómars Ragnarssonar í allri vinsemd
Ómar, mér finnst þú skeiða léttilega fram hjá ýmsu eins og kemur oft fram hjá ykkur sem farið stundum offari í umhverfismálum. Það hefur hvergi komið fram svo ég viti að verið sé að ofnýta Nesjavelli eða Hellisheiði. Reyndar er það viðurkennt að Hellisheiði, eða réttara sagt Hengillinn, býr yfir gífurlegu ónotaðri orku.
Okkur Jóhannesi Zoega var vel til vina og ég held að ég viti í hvað þú ert að vitna í þegar þú vitnar í Jóhannes. Hann varaði við því að nota jarðgufu einungis til raforkuframleiðslu því með því verður yfirgengileg sóun á þeirri orku sem við fáum í iðrum jarðar. Með því að nota gufuaflið einungis til raforkuframleiðslu nýtum við gufuaflið einungis um 15%, annað glatast. En með því að nota gufuaflið fyrst til raforkuframleiðslu og sína í öðrum lið til að framleiða heitt vatn er nýtingin komin upp í 85% og er vart hægt að ætlast til að hún verði betri en þó eru til leiðir til að hækka nýtinguna. Þetta er það sem gert er á Nesjavöllum og verður einnig gert í Hellisheiðarvirkjun. En það er til orkuver sem einungis notar gufuaflið til raforkuframleiðslu og það er Krafla, tæp 15% nýting, annað er glatað. Við Kröflu er ekkert þéttbýli sem gæti nýtt heitt vatn frá orkuverinu til upphitunar.
En er þá engin leið til að nýta þá orku sem glatast og hverfur endanlega? Mér verður oft hugsað til Kröfluvirkjunar og satt best að segja þá finnst mér þetta skelfilegt; að við séum að sóa orku á þennan hátt. Ef frekari gufuaflsvirkjanir verða reistar á þessu svæði til að afla orku til álvers eða annarrastóriðju þá finnst mér þessi skelfilega sóun á auðlindum okkar verða ennþá skelfilegri.
Hvað er til ráða?
Það er einfalt mál tiltölulega, eins og sannast á Nesjavöllum og á Hellisheiði, að hita upp vatn með gufu eftir að hún hefur verið notuð til raforkuframleiðslu.
En hvernig á að nýta það heita vatna?
Hve mikið gætum við framleitt af grænmeti og blómum með allri þeirri orku sem ef til vill verður til boða í Þingeyjarsýslum? Er þarna um stóriðju að ræða sem enginn hefur gefið gaum? Getum við byggt risastórt ylræktarver fyrir norðan og þá kemur spurningu hvort þetta ylræktarver þarf ekki einnig á raforkunni að halda. Ef ylræktarverið á að framleiða grænmeti og blóm allt árið þarf það mikla raforku til lýsingar nánast hálft árið. Þarna yrði um framleiðslu að ræða sem ekki til er innlendur markaður fyrir, þessar afurðir yrði að flytja út og þar munframleiðslukostnaður og markaðsfærsla ráða úrslitum.
Ég býst við að ýmiskonar fræðingar geti skotið þessar vangaveltur á kaf en er ekki einmitt tími núna sem krefst þess að við hugsum allt upp á nýtt? Er þá ekki rétt að láta gamminn geysa, verið getur að eitthvað komi nýtilegt út úr því.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.6.2010 | 11:57
Dapurlegt að sjá hvernig Háskóli Íslands sinnir um Herdísarvík
Eitt sinn var Selvogur einhver afskekktasta byggð á suðvesturlandi. Það mun breytast mikið þegar Suðurstrandarvegur verður endanlega opnaður fyrir umferð. Sl. sunnudag buðu vinir okkar hér í Þorlákshöfn okkur hjónum til kynningarferðar í Selvog þar sem leiðsögumaðurinn var borinn og barnfæddur í Selvogi. Þar eru fjölmargar minjar, rústir af sjóbúðum sem sumar hverjar hafa síðan verið nýttar sem gripahús. Við fórum alla leið til Herdísarvíkur þar sem þjóðskáldið Einar Benediktsson lifði sín síðustu ár við umhyggju og atlæti kjarnakonunnar Hlínar. Eftir dauða Einars bjó Hlín nokkurn tíma áfram í Herdísarvík en er ánafnaði Háskóla Íslands Herdísarvík, jörð og hús.
Það er dapurlegt að koma til Herdísarvíkur og sú spurning hlýtur að vakna hvort Háskóli Íslands hafi engan metnað til að heiðra minningu Einars þjóðskálds og ekki síður Hlínar, konunnar sem gerði síðustu ár þjóðskáldsins þolanleg. Ekkert er hirt um umhverfið, byrjað hefur verið á smíði palls við suðuhlið hússins en því ekki lokið og greinilegt að á viðinn hefur ekki verið borið í langan tíma. Augljóst er að langt er síðan að borið hefur verið á timburklæðningu hússins og ryð er komið í vatnsbretti. Ekki er vafi á því að margir vilja líta við í Herdísarvík framvegis þegar Suðurstrandarvegur verður nýr "gullinn hringur" þarna opnast ný sýn fyrir íslenska jafnt sem útlenda ferðamenn.
Nú er annaðhvort fyrir Háskóla Íslands að gera; hysja upp um sig brækurnar og bjarga staðnum áður en hann grotnar niður endanlega eða koma staðnum og húsinu i eigu og umsjá einhvers sem hefur þann metnað að taka þar til hendi og skapa staðnum nýjan tilgang.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2010 | 09:57
Samfylkingin í Hafnarfirði skýtur sig í fótinn
Það er engin furða þó andstæðingar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði noti klúður hennar í pólitískum tilgangi. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja að Samfylkingin og Vinstri grænir myndu meirihluta í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, samanlagt hafa þessir tveir flokkar afl til þess. Ég hef áður bent á að hvergi í stjórnskipunarlögum ríkis eða sveitarfélaga er orð um að meirihlutar skuli myndaðir, en upp á þessu mjög svo lýðræðislega fjandsamlega ferli fundu einhverjir pólitískir pótintátar, líklega fóru þar fremstir Sjálfstæðismenn í Reykjavík sem löngum réðu lögum og lofum þar í borg.
En þar með er ekki öll sagan sögð í Hafnarfirði. Sá mæti maður Lúðvík Geirsson hefur fallið í þann fúla pytt eins og margir aðrir (t. d. Gunnar Birgisson í Kópavogi) að þekkja ekki sinn vitjunartíma. Menn sem haf verið lengi í forystu, og ráðið þar öllu sem þeir vildu ráða, virðast skerðast illa á eigin dómgreind og ekki finna sjálfir hvenær þeir eiga að draga sig í hlé. Lúðvík tók þá djörfu ákvörðun að taka baráttusæti í framboði Samfylkingarinnar en fékk ekki stuðning og náði ekki kjöri. Það er dapurlegt að Lúðvík falli í þá gryfju að álita sjálfan sig ómissandi og að hann verði að vera bæjarstjóri áfram.
En Samfylkingin og Vinstri grænir í Hafnarfirði virðast vera nokkuð samstíga í dómgreindarleysinu og fara þá leið sem ekki er hægt að segja um annað en að sé rotin spilling. Þessir meirihlutaflokkar virðast fyrst og fremst hugsa um að forystumenn flokkanna fái vegtyllur og þá er farin sú ógeðfellda leið að þeir skuli báðir fá að verma sæti bæjarstjórans á kjörtímabilinu, Samfylkingin í tvö fyrstu árin og Vinstri grænir síðan í þau tvö seinni. Þarna er ekki verið að hugsa um hag bæjarfélagsins heldur um rassinn á forystumönnunum. Þetta er ekkert annað en spilling, þetta var gert á Akureyri á síðasta kjörtímabili og allir ættu að muna sirkusinn í Reykjavík og ég hef ekki orku til að rifja það upp. Selfoss og Grindavík urðu einnig fórnarlömb slíkrar þróunar og greinilegt er að almenningur kann ekki að meta slíkt; að pólitíkusar noti bæjarfélögin í loddaraleik.
Mér finnst líklegt að Samfylkingin og Vinstri grænir eigi eftir að súpa seiðið að ráðsmennski sinni í Hafnarfirði, sá tími á að vera liðinn að flokkar og forystumenn geti notað það sem þeim er trúað fyrir í pólitískum loddaraleik.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar