Færsluflokkur: Lífstíll
9.4.2010 | 14:45
Íslenskur djákni mælir kynferðisafbrotum kaþólskra prestperra bót
Þessi ótrúlegi, allt að því viðjóðslegi pistill, kom fyrir augu mín á netinu. Höfundurinn, kona, er að ég held guðfræðingur og djákni, líklega starfandi hjá Íslensku þjóðkirkjunni. Þó kaþólskir biskupar og jafnvel Páfinn hafi viðurkennt þúsundir kynferðisglæpa kaþólskra presta þá gerist þessi íslenski djákni kaþólskari en Páfinn, þegar hún telur að þetta sé uppspuni, ætlaður til að koma höggi á Kaþólsku kirkjuna.
Er það virkilega afsökun fyrir alla þá perra innan Kaþólsku kirkjunnar að þetta gerist víðar?
Á það að vera húmor að hengja broskalla aftan í þennan viðbjóðslega pistil!!!
Tölvupóstar geta ekki verið marktækir nema að athuguðu máli hvort rétt reynist; annars snýst málið upp í ofsóknir á kaþólsku kirkjuna en leysir engan vanda . Vitað er að kynferðisleg misnotkun barna á sér stað, ef til vill í meira en kemur upp á yfirborðið, er ekki eingöngu bundið við kaþólsku kirkjuna og engin ástæða til að nota svo alvarlegt mál til að koma höggi á kirkjuna meira en tilefni er til.
Þessi frétt gefur til kynna að misnotkun barna sé fremur ætluð, að snúast upp í ofsóknir á kaþólska kirkjuna; afar sorglegt að blaðamenn skuli leggjast svo lágt í fréttamennsku.
9.4.2010 | 14:05
Sammála Sigríði Ingibjörgu en ósammála Ingibjörgu Sólrúnu
Ber Samfylkingin einhverja ábyrgð á Hruninu mikla í október 2008? Ég er algjörlega sammála Sigríði Ingibjörgu alþingiskonu Samfylkingarinnar að við Samfylkingarfólk eigum tvímælalaust að bera höfuðið hátt og þola þá sjálfskoðun hvort við berum einhverja ábyrgð í þessu skelfilega Hruni. Það mun ekki sýkna þá sem hófu þá vegferð með því að nánast gefa vildarvinum sínum Landsbankann og Búnaðarbankann, en þar var sáð til Hrunsins auk þess sem skefjalaus frjálshyggjustefna þeirra Davíðs og Halldórs var stór og mikill áhrifavaldur.
En í hver gæti þá ábyrgð Samfylkingarinnar verið?
Ég held að allir hafi flotið sofandi að feigðarósi, það voru flestir sem hrifust með djarfri uppbyggingu tortúlugæjanna sem voru svo ofsaklárir að þeir stóðu, að eigin áliti og mikils meirihluta þjóðarinnar, framar öllum fjármálamönnum heimsins, hvergi kristallaðist það betur en í þeirri makalausu ályktun þeirrar makalausu frjálshyggjustofnunar, Verslunarráðs, að Norðurlöndin stæðu okkur langt að baki í stjórn þjóðfélaga og fjármála.
Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar um mitt ár 2007 undir stjórn Geirs Haarde. Það á eftir að koma í ljós hvort ráðherrar Samfylkingarinnar voru nógu vel á verði þá 16 mánuði sem hún var aðili að Ríkisstjórn, þar kann ýmislegt að koma í ljós. Ekki víst að okkar ráðherrar hafi gert sér það ljóst að þessari Ríkisstjórn var fjarstýrt að fyrrum pólitíkus, Davíð Oddssyni, sem sat í forsæti í bankastjórn Seðlabankans
En af hverju er ég ósammála Ingibjörgu Sólrúnu og um hvað?
Ég skil ekki hvað hún er að fara með því að koma upp með þá fráleitu hugmynd að við hættum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún rökstyður það með því að ef aðild væri nú borin undir þjóðina þá yrði hún felld. Ég er sammála því. En það eru fjölmargir sem betur fer sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn, ég er meðal þeirra. Það er útilokað að taka afstöðu til inngöngu nema fyrir liggi hverjir kostirnir eru og kvaðirnar sem fylgja. Mér finnst líklegt að við getum fengið góða kosti hjá Evrópusambandinu, þar með talið að við ráðum áfram yfir okkar staðbundnu fiskistofnum, ég held að íslenskur landbúnaður verði engan vegin verr setur eftir inngöngu, en þar þarf margt að breytast hvort sem við göngum inn eða ekki. Ísl. landbúnaður getur ekki legið endalaust uppi á landsmönnum með sinn betlistaf. Ég hef þá trú að með aðild að ES mundi hagur íslensk landbúnaðar vænkast, en þyrfti að breyta starfháttum sínu stórlega og standa á eigin fótum, það eiga allir atvinnuvegir landsins að gera.
Ef við drögum okkur til baka og hættum viðræðum um aðild að ES nú þá hefur það eitt gott í för með sér; við getum endanlega hætt að rífast um hvort okkur vegnar betur utan eða innan, aðildarviðræður sem svarað getur því hvað okkur býðst og hvaða kvaðir þurfum við að undirgangast verður aldrei svarað, það verða líklega engar aðildarviðræður teknar upp aftur næstu áratugi. Hverjir vilja ræða við þvílíka ruglukolla sem sækja um aðild en hlaupa frá þeim.
Ef Ingibjörg Sólrún hefur ekkert gáfulegra til umræðunnar leggja ætti hún að hugleiða hvort það sé ekki betra að sitja heima og segja ekkert.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2010 | 10:20
Vigdís Hauksdóttir, haltu þig við þorskhausana
Vigdís, það var ömurlegt að fylgjast með þér í Kastljósi í gærkvöldi þar sem þú þrefaðir við Ólínu Þorvarðardóttur og eins og venjulega ert þú föst í þessu gamla hörmulega hjólfari gamalla hefða í pólitík; að vera á móti öllu sem pólitískir andstæðingar, Ríkisstjórnin, gera. Ég vona að augu þín opnist og þú sjáir hvað hver sá sem er í stjórnmálum verður sterkari ef hann fer að ræða hvert mál með rökum en ekki gamaldags röfli og framíköllum.
Vigdís, haltu þig að því sem þú ert best í. Þar á meðal er sú gamla kúnst að rífa herta þorskhausa. Við erum bæði snjöll í því eins og þú veist.
10.3.2010 | 13:54
Á nú að fara að skríða fyrir prímadonnunni Ögmundi?
Það eru þokkalegar fréttir sem berast með fjölmiðlum. Ríkisstjórnin og hennar eindregnu stuðningsmenn telja að það sé haldreipið að taka Ögmund aftur inn í stjórnina. Á ég að trúa því að flokkssystkini mín í Samfylkingunni séu svo skyni skroppin að þau láti sér detta það í hug að það styrki Ríkisstjórnina að gera Ögmund aftur að ráðherra?
Mitt álit á Ögmundi Jónassyni þingmanni Vinstri græna er að þar fer egóisti sem fyrst og fremst hugsar um sjálfan sig en reynir að dylja það með hástemmdum orðum um að hann sé svo mikill hugsjónamaður að hann gefi aldrei eftir sín prinsip. Ögmundur hélt hástemmdar ræður á þinginu og sagði að Ríkisstjórnin þyrfti að "skerpa" sína stefnu og tök á vandamálum. Ég held að það þurfi túlk til að koma kjarnanum í máli Ögmundar til skila. Þetta þýðir á mannamáli að Ríkisstjórnin verður að beygja sig í einu og öllu að vilja Ögmundar Jónassonar hvort sem hann verður innan eða utan Ríkisstjórnar. Eitt að því sem hefur gefið Ríkisstjórninni styrk og trúverðugleika er að hafa í sínum röðum tvo ópólitíska ráðherra þau Rögnu dómsmálaráðherra og Gylfa viðskiptaráðherra. Auðvitað er best að taka hvíslinu á götunni með varúð en eittvað hlýtur þetta einhversstaðar hafa komið til álita og umræðu að láta þau víkja. Það væri mikill missir fyrir Ríkisstjórnina að missa þau Rögnu og Gylfa, slæm skipti að fá Ögmund í staðinn, manninn sem hér eftir sem hingað til mun halda öllum í gíslingu svo hrapalega að stjórnin verður nánast óstarfhæf.
Ég held að þessi skrípalega þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram sl. laugardag hafi ekkert að segja fyrir líf eða dauða Ríkisstjórnarinnar, þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur engin áhrif hvorki hérlendis eða erlendis. Það sem skilur á milli lífs og dauða allra Ríkistjórna er að hún sé samhent og með samhentan meirihluta bak við sig.
Því miður hefur núverandi Ríkisstjórn hvorugt!
Innan Ríkistjórnarinnar á klofningsdeild Vinstri grænna öflugan fulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur, og ekki treysti ég Jóni Bjarnasyni yfir þröskuldinn. Klofningsdeildin í Vinstri grænum er orðin óhæf til samstarfs. Það er mikill skaði því innan þess flokks er margt úrvalsfólk og fer þar Steingrímur J. Sigfússon fremstur meðal jafningja. En eggin í hreiðrinu þurfa öll að vera hrein og blómleg en því er ekki að heilsa innan Vinstri grænna, fúleggin eru of mörg.
Ég hef þá trú að við komumst ekki heil út úr þeirri kreppu sem við erum í núna nema undir forystu Samfylkingarinnar.
Verður ekki Samfylkingin að fara að finna sér stuðning hjá öðrum en Vinstri grænum, þeir eru óhæfir til samstarfs vegna fúleggjana, best að viðurkenna það strax og vinna samkvæmt því.
3.3.2010 | 10:24
Ragnhildur Steinunn, hversvegna auglýsa þennan viðbjóð?
Í Kastljósi nýlega fann Ragnhildur Steinunn enn einn sérkennilegan viðmælanda, unga stúlku sem hafði látið tattóvera sig mjög hressilega og ætlaði að halda því áfram, hafði fest ýmislegt glingur í húð sína, látum það gott heita, þetta er hennar mál.
En það var ekki þetta sem vakti óskipta hrifningu Ragnhildar Steinunnar heldur að stúlkan hafði gengið svo langt að láta skera í sundur á sér tunguna endilanga og sýndi mikla fimi í að reka sitt hvorn helminginn út um munnvikin. Það er aldeilis munur að gata rekið tunguna framan í tvo í einu.
Enn og aftur tek ég það fram að þetta er stúlkunnar einkamál, hún um það hvernig hún skrumskælir líkama sinn.
Tvennt veldur mér mikillar furðu.
Eru langskólagengnir læknar, háskólaborgarar sem eiga að vera þroskaðir og menntaðir í breiðum skilningi, að nota þekkingu sína og færni til að framkvæma slíka afskræmingu?
Hitt er spurning til Ragnhildar Steinunnar; finnst henni þetta vera til svo mikillar fyrirmyndar að þetta eigi erindi í Kastljós í Sjónvarpi allra landsmanna? Er þetta fyrirmynd sem hún vill kynna fyrir saklausum táningum sem þurfa á flestu öðru að halda, miklu fremur uppbyggilegum fréttum og fyrirmyndum?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.3.2010 | 09:45
Ekki bíða eftir köldu húsi eða ökklavatni á gólfum
Svo er sagt í gömlum sögnum að margir máttu þola það, einkum á efri árum, að þeir færu ekki einir um götur, þeir hefðu eignastfylgjur sem nánast fylgdu viðkomandi hvert fótmál og létu jafnvel finna til sín þegar til hvílu var gengið. Þessar fylgjur gátu verið æði mismunandi, illgjarnar sumar en aðrar góðar og hjálpsamar. Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá svo aldurs vegna ætti ég jafnvel að hafa eignast fylgju, en samkvæmt skynsemistrú nútímans byggðist trú á fylgjur á einfeldni og trúgirni, aðalega undirmálsfólks.
En ég verð þó að játa á mig að fylgju nokkra hef ég eignast og skal ég segja frá því á síðum Morgunblaðsins enda kviknaði hún þar, kveikjan að henni fæddist 1992. Fyrir einhverja tilviljun örlaganna hóf ég þá að skrifa pistla sem nefndust Lagnafréttir. Þetta áttu ekki að verða margir pistlar en oft taka mál aðra stefnu en ætlað er. Þessi skrif stóðu vikulega næstum í 16 ár og urðu pistlarnir nær 700 að tölu. En það bærðist fleira að baki pistlanna en á yfirborði sást. Þeir virtust nokkuð mikið lesnir og þar með varð ég ósjálfrátt ráðgjafi fjölmargra húseigenda og húsbyggjenda.
Og ég fer ekkert leynt með það að líklega hafa 75% sem til mín leituðu verið konur. Þetta sýndi mér og sannaði að konur láta sig meiru varða hvernig heimilið þróast og eru opnari og skilningsríkari á það hvað þarf að lagfæra innan stokks og utan. En allt tekur enda og ég hætti þessum skrifum að mig minnir haustið 2008 og segi gjarnan að það féll fleira þá haustmánuði en fjármálakerfi þjóðfélagsins.
En þá gerist það óvænta. Þó skrifum sé lokið hef ég nokkra samfylgd áfram, það gerist enn að ég fæ póst á netinu, einstaka upphringingu og einstaka bréf þeirra eldri sem ekki eiga tölvu. Nú er það síður en svo að ég sé að kvarta undan því að til mín sé leitað enn, finnst það meira að segja hlýlegt og nokkur sönnun þess að margt sé gott sem gamlir kveða.
Nýlega frétti ég af skemmtilegu framtaki. Dagana 5. og 6. mars nk. verður sýning og upplýsingastefna í Smáralind, kjölfesta þessa framtaks er Múrbúðin. Sýning þessi ber nafnið Viðhald 2010 og er ætlað að veita sem mestri og bestri þekkingu til allra þeirra fjölmörgu sem þurfa á leiðbeiningum og ráðleggingum að halda um viðhald heimila og húseigna. Nú er lag, 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnulið út þetta ár, aldrei fleiri góðir iðnaðarmenn á lausum kili sem klæjar í lófana eftir að fá verkefni og síðast en ekki síst; fjölmörg hús eru að grotna niður.
Þetta varð til þess að ég fékk hugmynd. Ef ég bý yfir einhverri reynslu og þekkingu sem komið getur að gagni þá ákvað ég að mæta á staðinn og rabba við gott fólk á sama hátt og þegar mínir gömlu og góðu góðu lesendur höfðu samband við mig, ég vona að ýmislegt af þeim ráðum hafi komið að gagni.
Ég ætla að vera til taks á sýningunni Viðhald 2010 í Smáralind 5.- 6. mars, kannski er ég undir áhrifum gamallar góðrar fylgju.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það líður vart nokkur fréttatími í sjónvarpi eða útvarpi að ekki komi fréttabútur sem ætíð hefst á þessari tuggu:
"Vísindamenn segja, bla, bla, bla................
Eftir 12 ár og margar hörmungar og dauðsföll var loksins flett ofan af lækni einum sem fékk birta eftir sig grein í hinu þekkra vísindatímariti Lanchet þar sem hann sagðist hafa sannað að bólusetning barna gegn rauðum hundum, mislingum og fleiri sjúkdómum gæti valdið einhverfu. Fjölmargir foreldrar trúðu þessu og harðneituðu að láta bólusetja börn sín. Mörg börn hafa dáið sem annars væru á lífi ef þessi froðusnakkur hefði ekki getað smeygt sér í gegnum vísindaheiminn og fengið sínar vísindagreinar "ritrýndar" sem kallað er. Það þýðir að einhver, sem einnig vill láta bera á sér eða er kunningi eða jafnvel ættingi þess sem "vísindaafrekið"fremur skrifar mjög lofsamlega um afrekið og þar með smellur allt saman, allt tekið gott og gilt oft með hörmulegum afleiðingum.
Hvers vegna er þetta svo?
Á umliðnum ártugum hefur starfsemi Háskóla sífellt orði meira og meira á rannsóknarsviði, háskólakennarar hafa rannsóknarskyldu. Frá þessum rannsóknum hefur komið margt nytsamt og merkilegt, á því er ekki nokkur vafi. En Háskólar hafa meir og meir á undanförnum áratugum látið mikið fé af hendi rakna til rannsókna.
En þá koma lýsnar, samviskulausir menn sem svífast einskis og verð sér úti um fúlgur fjár til að rannsaka alt milli himins og jarðar, fyrir nokkrum árum sannaði einn "vísindamaður" að móðurmjólk væri ungbörnum holl!
Þetta vissu allar konur austur í Þykkvabæ fyrir þúsund árum!!!
Og ef maður hefur fengið styrk þá verður að sanna einhvern skollann. Og ekki stendur á fjölmiðlamönnum að ausa spekinni yfir almenning án nokkurrar gagnrýni.
Hrikalegasta dæmið á síðustu árum er hve rækilega heilum her af loddurum hefur tekist að heilaþvo nánast alla pólitíkusa Vesturlanda og almenning með. Þeir hafa komið því svo rækilega inn í flestra höfuð að okkur stafi hætta af hlýnun í heiminum, sem er nú engin, og að sú hlýnun sé af manna völdum.
Ef farið er í gegnum sögu mannkyns óralangt aftur í tímann er hvergi finnanlegt tímabil þar sem okkur stafaði ógn af of miklum hita á jörðinni. Öðru máli gegnir um kuldann, hann hefur verið öllu dýra- og plöntulífi þungbær svo árþúsundum skiptir. "Litla ísöld" náði heljartökum á okkar litla landi frá 1400 til 1800. Það eru ekki nema 10.000 ár síðasta mikla ísöld hélt Evrópu og þar með Íslandi, í klakabrynju.
Yfir Íslandi var einn samfelldur jökull, svo var einnig um alla N.Evrópu allt suður til Frakklands. Við ættum að óttast kuldann miklu meir en hitann, svo kann að vera að ekki sé svo langt í enn eina "litla ísöld".
Nágranni minn einn ágætur læðir stundum að mér eldri eintökum af DV. Síðan ég sagði Morgunblaðinu upp hef ég háð baráttu fyrir því að við íbúar Þorlákshafnar fáum kost á Fréttblaðinu og hefur þar verið gerð mikil bragarbót en betur má ef duga skal.
Í DV var farið yfir hverjir væru helstu "Sturlungar" nútímans, þeir sem fram að þessu hafa verið nefndir "útrásarvíkingar". Ég verð að segja að þessir menn eiga engan rétt á að vera nefndir "víkingar" og þó. Víkingar miðalda fóru vissulega ránshendi um lönd í Vestur-Evrópu og hver sá sem stal mestu góssi, að ógleymdum glæslegum yngismeyjum, var fremstur meðal jafningja. En þessir víkingar rændu ekki í eigin landi, þeir rændu meðal annarra þjóða og komu heim með ránsfenginn hvort sem var eðalmálmar eða íturvaxnar meyjar sem að sjálfsögðu misstu þann titil um leið og þær voru komnar í klærnar á illa þefjandi og lúsugum ránsmönnum, þessum svokölluðu víkingum.
En arftakar þeirra í nútímanum, við skulum gefa þeim nýtt "sæmdarheiti" og nefna þá "tortólalubba". Flestir eru þeir flúnir land, út af fyrir sig er það ágætt og vonandi að þeir komi aldrei til baka. Vonandi tekst okkar ágæta Sérstaka saksóknara og hans fólki að endurheimta sem mest af því sem totólalubbarnir hafa stolið frá þessari fámennu þjóð og grafið í grenjum á Tortóla og víðar.
Ég var farinn að fagna því að totóalubbarnir kæmu aldrei til baka. En þar fagnaði ég of fljótt. Ég ætlaði ekki að trúa mínu augum og eyrum þegar það var kunngjört að Óafur nokkur Ólafsson kenndur við Samskip (sem hann ásamt fleiri fjarglæframönnum Framsóknarflokksins tókst að véla til sín út úr reitum Sambands íslenskra samvinnufélaga) væri kominn til landsins frá Sviss og hvað beið hans hér;
Arionbanki rétti honum á silfurfati þetta fyrirtæki, Samskip, aftur til eignar og ábúðar.
Ég spyr; eru engin takmörk fyrir því hvað á að reka ofan í kok landsmanna með illu eða góðu. Finnur bankastjóri Arionbanka kemur vígreifur á skjáinn og segir kokhraustur gegn betri vitund:
Við afskrifuðum ekki nett!!!
Almenningur stendur agndofa og algjörlega máttvana. Arionbanki hefur verið einkavæddur enda ekki um anað að ræða, kröfuhafarnir hirtu bankann.
En líklega sýnir þetta okkur hvað er í vændum. Eru fleiri tortúlulubbar en Ólafur Ólafsson á heimleið, þeir ætla líklega ekki að láta sér nægja það fé sem þeir eru búnir að grafa á ýmsum eyjum eins og gamlir sjóræningjar gerðu fyrr á öldum.
Það eru mikil verðmæti heima á gamla landinu sem þeir léku svo grátt, á gamla landinu þar sem þeir rændu og rupluðu. Siðgæði þeirra er á sama núlli og það var þegar þeir voru að moka fé í milljarðatugum í vildarvini út úr bönkunum á meðan þessir sömu bankar hrundu. Svo létu þeir sig hverfa út í hið alþjóðlega náttmyrkur eins og rónar sem leita skjóls meðan hellirignir en fara á stjá um leið og upp styttir.
Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn hjá mér þörf til að berja pottlok, stórt og mikið pottlok.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.11.2009 | 16:46
Það er "ástsælt" að fara "erlendis" og "versla" jólagjafir
Ég var að fá póst á netinu frá Olís þar sem ég er einn af lyklabörnunum. Þar er mér boðið að koma í Ellingsen á Granda á morgun og "versla jólagjafir" með 20% afslætti.
Nú er ég svo skrítin skepna að ég "versla" aldrei jólagjafir en það kemur fyrir að ég "kaupi" jólagjafir ef ég á einhverjar krónur í buddunni.
Það eru ekki ýkja mörg ár síðan rætt var um "að það væri vinsælt að fara til útlanda og kaupa jólagjafir".
Nú er ég ekki að reka áróður fyrir svoleiðis flakki. En ég mótmæli þeirri lágkúru sem er orðin svo áberandi hjá tveimur starfsstéttum; fjölmiðlamönnum og ekki síður textahöfundum á auglýsingastofum.
Það er með ólíkindum á hve skömmum tíma þessu fólki tekst að útrýma góðum og gildum orðum í íslensku máli og koma með í staðinn, oft á tíðum, algjör orðskrípi.
14.11.2009 | 14:55
Sóðalegasti sorakjaftur landsins orðinn framlenging á penna Davíðs Oddssonar
Morgunblaðinu var bjargað frá gjaldþroti og útrýmingu og flestir héldu að tækifærið yrði notað til að efla blaðið sem víðsýnan fréttamiðil þar sem allir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en svo varð aldeilis ekki. Það mátti sjá hvað klukkan sló þegar hinn afdankaði forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, var gerður að ritstjóra. Var furða þó sá grunur læddist að mörgum að þarna ætti "sá fyrrverandi" að fá tækifæri til að naga og stinga fyrrum andstæðinga, en ganga svo einnig vasklega fram í því að verja í líf og blóð mesta rán Íslandssögunnar, ránið á fiskinum í sjónum, gjöfinni til gæðinganna. Ekki síður að berjast hatrammlega gegn endanlegri könnun á því hvað biði okkar í Evrópusambandinu sem ekki er hægt að fá úr skorið nema með því að sækja um aðild og fara í alvöru aðildarumræður. Þetta mátti ekki gerast, koma kynni í ljós í þeim umræðum að hag okkar yrði tvímælalaust betur borgið innan ES en utan.
Það er staðreynd að fjölmargir mótmæltu strax og sögðu blaðinu upp. Ég var ekki einn af þeim, ég var pistlahöfundur Morgunblaðsins í 16 ár og fann ætíð gott viðmót þar meðan Styrmir Gunnarsson var ritstjóri. Ég vildi sjá hver þróunin yrði, Morgunblaðið og morgunkaffið hafa í mörg ár verið óaðskiljanleg, erfitt að skera á þau bönd. Kannski mundu hraklegustu spár ekki rætast.
En nú er svarið komi. Það mátti auðvitað vera sterk vísbending að hlutdrægasti fjölmiðlamaður landsins, Agnes Bragadóttir, fékk að að sitja áfram við sína Gróu á Leitis tölvu í ritstjórninni. En ég var enn með svolitla von; kannski mundi Eyjólfur hressast.
En endanlega svarið kom í morgun laugardaginn 14. nóv. árið 2009.
Á þeim degi birtist í Morgunblaðinu nýr pistlahöfundur, greinilegt að það var kominn nýr "Laugardagspistill" og höfundur hans er persóna sem nefnist Sverrir Stormsker. Ritstjóri sem velur sér til hjálpar sóðalegasta sorakjaft þessarar þjóðar hlýtur að hafa með því ákveðinn tilgang.
Sá tilgangur er augljós.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er lagður í krossferðina; að lemja niður þá sem hann telur að verði að jafna um, fólk sem hann stundum fann fyrir minnimáttarkennd gagnvart. Já vissulega ótrúlegt að ætla að Davíð Oddsson viti hvað minnimáttarkennd er, en sú kennd leynist víða og birtingarmynd hennar er oft andstæðan.
En Davíð Oddsson leggur ekki í það að koma framundir eigin nafni þegar sorinn skal vera sem mestur; hann fær sér leiguþý og sá fyrsti í þeim hópi er Sverrir Stormsker, vart hægt að fá hæfari mann til verksins. Engum kemur á óvart að fyrsti einstaklingurinn sem sorakjafturinn skal níða niður er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Níðgrein Sverris Stormskers (SS) um Ingibjörgu Sólrúnu er algjört einsdæmi í nútímanum, slíkt níð hefði jafnvel þótt fulllangt gengið á hinum margumtöluðu Hriflutímum sem svo eru nefndir og var þó Jónas frá Hriflu ekkert verri í skrifum sínum þá en margir aðrir sem voru á þeim dögum í pólitíkinni.
Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun. Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.
Þessi grein skiptir sköpum fyrir mig. Ég mun á eftir senda Morgunblaðinu uppsögn á áskrift til áratuga. Ég vona að sem flestir fari að dæmi mínu og segi blaðinu upp. Það þarf að fá þá ráðningu sem það á skilið. Það endar líklega sem sorppollur sem gamall uppgjafapólitíkus notar til að ná sér niður á þá sem áttu í fullu tré við hann.
Það munu verða endalok Morgunblaðsins.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar