Færsluflokkur: Lífstíll

Varnaðarorð um Landsspítalann í tíma töluð

Því miður setti ég það ekki á mig hvað konan hét sem kom í Silfur Egils í gær og varaði eindregið við því gönuhlaupi að ætla að byggja nýjan Landspítala á gömlu Hringbrautinni. Mér hefur lengi verið það ljóst að það er yfirgengileg vitleysa að byggja spítalann út frá gamla spítalanum.

Rökin eru margskonar en nefnum þau helstu:

Umferð til og frá spítalanum kollvarpar endanlega því gatnakerfi sem fyrir er. Það verður að grafa bílagöng undir Öskjuhlíð, önnur undir Þingholtin. Það leysir þó ekki vandann, allar leiðir til austurs teppast á morgnana og aftur eftir vinnudag.

Að ætla að endurbyggja gömlu húsin, hið formfasta  hús Guðjóns Samúelssonar og alla kofana sem hefur verið raðað þar í kring hver öðrum ljótari, er eitt af því sem er eins mikið óráð og nokkuð getur verið óráð.

Ný bygging á "frjálsum" stað í útkanti borgarinnar er tvímælalaust það sem er skynsamlegast.

Hvers vegna ekki í nánd við Vífilstaði?

Í nýjum spítala skipulögðum frá grunni þar sem ekkert gamalt og úr sér gengið er að þvælast fyrir gæti einnig orðið til þess að öll vinna innanhúss yrði skipulagðari, það er ekki nokkur vafi á að hluti af vanda spítalans er nú léleg afköst vegna slæms og óhentugs húsnæðis en það er fleira að.

Skipulag verka innan spítalans eru sumstaðar mjög slæmt þar sem gamlir kóngar og drottningar ráða ríkjum, tví- og þríverknaður er þar því miður allt of algengur.

En þetta er mein sem ekki má tala um!


Umburðarlyndi, trúartákn og tóbaksreykingar

Ég held því fram að ég sé nokkuð umburðarlyndur en veit vel að ýmsir sem mig þekkja eru ekki sammála þessu eigin áliti. Ég er það sem kallað er trúlaus, ekki heppilegt orð, en minn skilningur á því að þeir sem trúlausir eru trúa ekki á neina guði. En auðvitað er enginn trúlaus, ég vil trúa á mína samvisku og það góða sem við getum sýnt öðrum og ekki síst sjálfum sér, það eykur vissulega eigin vellíðan. Því miður er þjóðkirkjan sífellt að smeygja sér inn í skólana, hún ætti að sjá sóma sinn í að koma þar hvergi nærri. Ef hún fær leyfi til þess á Ásatrú, Íslam, Búddatrú og auðvitað öll trúarbrögð að sitja þar við sama borð. En hver yrði afleiðingin?

Skelfilega fyrir ung börn, áhrifagjörn eins og öll ung börn eru.

En hvað um trúartáknin?

Mér er nákvæmlega sama þó sá sem ég ræði við er með kross í festi um hálsinn, eða hvort ung stúlka er með fallega slæðu um höfuðið. Þannig voru allar íslenskar kaupakonur til sveita langt fram eftir síðustu öld, þá var ekki í tísku a sólbrenna sér til skaða. 

Ég við þess vegna ekki amast við trúartáknum, það á að vera ákvörðun hvers og eins hvort hann/hún ber þau eða ekki.

Ég var að halda því fram að ég væri umburðarlyndur. Ég hætti alfarið að reykja 1969, það var einhver besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég tók meira að segja uppáhaldspípuna mína og splundraði henni í skrúfstykki. Tóbaksreykur fer líka mjög mikið í taugarnar á mér, ég vil vera alfarið laus við hann. Samt sem áður tel ég að með lögum og reglugerðum sé gengið allt og langt á réttindi reykingamanna. Þeir eru að nota vöru sem er leyfð, já meira að segja seld í einkaleyfi útgefnu af ríkinu. 

Ég flaug heim frá Danmörku sl. sumar, flaug frá Billund en þangað hafði ég aldrei komið áður. Þar sá ég einstaklega vel út fært afdrep fyrir reykingamenn þar sem þeir gátu setið milli tveggja glerveggja, verið í sambandi við lífið í flugstöðinni og reykt sitt tóbak án þess að nokkur yrði var við það, sterkt útsog bar burt bæði reyk og lykt.

Verum umburðarlind gagnvart trúuðum, leyfum þeim að bera sín trúartákn, gerum reykingamönnum kleyft að soga sitt eitur, það er ekki brot á lögum, aðeins að þeir láti aðra ekki gjalda sinna afglapa.


Nokkur orð til Páls Vilhjálmssonar fjölmiðlamanns

Páll, ekki man ég betur en við höfum á árum áður verið flokksbræður. Þú varst mér alla tíð mikil ráðgáta og stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna þú værir í Samfylkingunni. Þú tilbaðs alla tíð Davíð Oddsson næstum því eins mikið og Hannes Hólmsteinn. Nú ertu kominn heim til föðurhúsanna en virðist samt vera haldinn mikilli vanlíðan. Þú bloggar og allt sem frá þér kemur er svartagallsraus og neikvæðni. Mér finnst það ekki einkennilegt að svo sé. Að geta lotið svo lágt að verja allt sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði, einkavæðingin og allur skandallinn í stjórn efnahagsmála var með slíkum endemum að það hlýtur að vera mikil blinda að sjá það ekki. Nú er reynt að hamra það inn i þjóðina að ICESAVE sé til komið vegna mistaka núverandi Ríkisstjórnar og stjórnarflokka. Það er kannski ekki að undra að maður eins og þú, haldinn pólitískri þráhyggju og tilbeiðslu á einum manni sem átti ekki lítinn þátt í að undirbyggja hrunið fabúlerir endalaust um það. Davíð Oddsson var ekki aðeins forsætisráðherra í hálfan annan ártug heldur síðar seðlabankastóri. En að þeir menn sem eru nýbúnir að taka við forystu í hrunaflokkunum tveimur, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki skuli voga sér að stunda lýðskrum og baktjaldamakk, það er yfirgengilegt. Mer sama hvoru megin hryggjar Sjálfstæðisflokkurinn liggur, en vona jafnvel að Framsóknarflokkurinn fái betri leiðtoga en Sigmund Davíð. Líklega er nú þegar ákveðin öfl farin að undirbúa að velta honum úr sessi. Ekki ólíklegt að það takist og þriðji ættliðurinn, Guðmundur Steingrímsson, endurreisi það orðspor sem eitt sinn fór að þeim flokki.

En ég vona að þú Páll Vilhjálmsson náir einhverjum bata, þér hlýtur að líða mjög illa með allt þitt neikvæða beinakvak.


Drullusokkar og dusilmenni

Brauðið er komið í vélina og hún er byrjuð að marra. Það er aðeins hlé þangað til mitt gamla félag, Breiðablik, hefur baráttuna um bikarinn í annað sinn. Man en snjókornin sem féllu á Meðalvellinum þegar Breiðablik barðist við Víking og varð að játa sig sigrað 1971. Og svo eru það stelpurnar á morgun.

En fyrirsögnin þessa pistils getur tæplega átt við þessar hugleiðingar um brauðbakstur og Breiðablik, nei aldeilis ekki.

Kveikjan að þessum orðum "drullusokkar og dusilmenni" kviknaði í mínum kolli við hlustun hádegisfrétta. Þar var enn sagt frá "drullusokkum og dusilmennum" sem læðast um í náttmyrkri og ausa málningu og þaðan af hættulegri efnum á saklaus hús sem kannski hýsa ekki saklausa einstaklinga. Það nýjasta er að ausa eitri yfir bíla til að eyðileggja á þeim lakkið. Þetta á víst að vera myndbirting þeirrar reiði sem eðlilega grasserar í þjóðfélaginu.

En er það svo?

Langt frá því. Hér eru á ferðinni hugsjónalaus dusilmenni og drullusokkar sem notfæra sér ástandið í þjóðfélaginu til að fá útrás fyrir sjúklegar hvatir. Það er ráðist á þá sem eru mest í umfjöllun fjölmiðla, svokallaða útrásarvíkinga. En þeir teygja sig lengra. Hjörleifur Kvaran forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Rannveig Rist forstjóri Álversins í Straumsvík stýra hvort fyrir sig þjóðþrifafyrirtækjum sem hafa á undanförnum árum skapað þjóðarbúinu miklar tekjur. En þau eru áberandi í umræðunni, þess vegna verða þau fyrir barðinu á dusilmennum og drullusokkum sem druslast um í náttmyrkri með sjúkan hug.

Auðvitað eru þessar árásir allar óþolandi en mér finnst jafnvel ennþá alvarlegri afstað fjöldans til þessara mála. Það er sama afstaðan og kom sterkt fram í "búsáhaldabyltingunni". Þar var lagt að jöfnu sterk ávörp á Austurvelli og árásir á lögregluna, skemmdarverk á húsum svo sem Alþingishúsinu og Stjórnarráðshúsinu. Jafnvel Alþingismenn mæltu þeim drullusokkum og dusilmennum bót sem réðust inn á Hótel Borg á gamlársdag, eyðilögðu útsendingarbúnað og börðu þannig niður málfrelsi og réttinn til að tjá sig.

Nú er kominn tími til að kosta nokkru til að hafa hendur í hári drullusokka og dusilmenna þeirra sem nú eru komnir á þá ystu brún að verða hættulegir lífi og limum alsaklauss fólks.

Því miður virðist það vera ríkt í íslenskri þjóðarsál að viðurkenna möglunarlaust ýmislegt sem er ekkert annað en ræfildómur og hræsni. Það er nóg að segjast vera kristinn, þá er það tekið gott og gilt hvaða endemisboðskapur sem fluttur er, allir sem mættu á Austurvöll voru teknir gagnrýnislaust í hópinn af pottlokafólki og fjölmiðlum, skipti ekki máli þó þeir gengu svo langt að skaða einstaklinga í lögreglunni sem voru á yfirvegaðan hátt að sinna skyldustörfum.

En þetta gengur ekki lengur, brauðinu líður vel en Breiðablik er að hefja baráttan um BIKARINN.

Nú verða þeir að vinna!!! 


Systkinin frá Bakka ætla að verða tengiliðir þings og þjóðar

Þetta er boðskapur Borgarahreyfingarinnar í Morgunblaðinu í dag. Minn skilningur nær víst æði skammt, ég sá bloggið hans Þór Saari og hélt að hann væri að fjalla um eigin flokk:

Picture 10

 

 

 

En svo djúpt fer ekki hans innri rýni, þremenningarnir hafa aðeins eitt skotmark; það er það sem þau kalla Fjórflokkinn. Borgarahreyfingin ætlaði að koma inn með nýja sýn, nýtt siðferði og ný vinnubrögð á Alþingi. En allir vita hver framvindan hefur orðið.

Hinsvegar kom fram nokkuð merkilegt fram í bloggi Birgittu Jónsdóttur. Í fyrsta lagi að Þór Saari sé ákaflega hláturmildur maður, sérstaklega geti hann hlegið endalaust að Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Í örðu lagi ennþá merkilegri frétt. Þór Saari ætlar ekki eingöngu að bjarga Íslandi frá bæði Fjórflokknum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum heldur fer hann eins og logi yfir akur um þriðjaheims löndin og sópar upp óstjórn og ráðleysi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skilið eftir sig eftir misheppnaða hjálp.

Þetta hlýtur að vera rétt, þetta segir Birgitta í sínu bloggi. Það er enginn smátækur kraftaverkamaður sem ekki aðeins ætlar að bjarga Íslandi eftir hrunið og frá Fjórflokknum heldur einnig flestum þeim frumstæðu þjóðfélögum sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur verið skaða á undanförnum árum.

Erum við að fá nýjar persónur inn í þjóðsögurnar, þessi sérkennilegu systkini frá Bakka?


Seinheppin sölumennska á landbúnaðarvörum

Seint skyldi ég flotinu neita og fátt fæ ég betra en vel matreitt íslenskt lambakjöt. Enda er ég sveitamaður í húð og hár, alinn upp við ljós frá steinolíulömpum, útikamar og eldun við kindaskán, Ég var ekki hér í loftinu þegar ég fékk embætti í sláturtíðinni þegar gamalám, sauðum og hrossum var slátrað á hlaðinu til að afla fjölskyldunni vetrarforða, reyndar ársforða. Mitt embætti var að hræra sem ákafast í blóðinu sem spýttist úr strjúpa kindanna og sauðanna eftir að þau höfðu verið skotin og skorin, þetta gerði ég með písk sem var gerður úr trénuðu ramfangi. Ef ekki var hrært í heitu blóðinu þá storknaði það og þá hefði enginn blóðmör verið gerður það haustið.

En fyrir þá sem ekki þegar hafa liðið út af undir þessari lýsingu ætlaði ég svolítið að agnúast út í markaðsfærslu landbúnaðarvara. Ástæðan er auglýsing frá Krónunni þar sem hún býður okkur heila lambskrokka af nýslátruðu á svona sæmilegu verði. 

En þá kemur að sjálfsögðu þessi eilífa forsjárhyggja. Annað lærið er sneitt niður og framparturinn einnig. Ef ég kaupi heilan lambaskrokk þá við ég fá bæði lærin heil, ég vil einnig fá frampartana tvo heila, ósagaða. Ég hef oft reynt að fá heila  bóga (framparta) en það virðist útilokað. Allir skulu sitja við sama borð, svona skaltu fá það kall minn, láttu okkur um að ákveða fyrir þig hvernið varan er tilreidd sem þú kaupir. Bógar eða frampartar eru nefnilega lystilega gott hráefni til að heilsteikja, en þeir er aldrei fáanlegir í verslunum.

Annað til að agnúast út í er þetta: oft er hægt að fá frosið súpukjöt í vænum pakkningum, ágætt til að elda góða kjötsúpu, muna samt eftir því að allt lambakjöt krefst nákvæmrar og vandaðrar afþýðingar. En þá kemur hugmyndaleysi sölustöðvanna. Það bregst varla að allar pakkningarnar eru næstum því jafn stórar og þungar. 

Hefur engum dottið í hug að einhver vilji 1 kg, annar 3 kg og sá þriðji jafnvel 5 kg?


Má bjóða þér drullu í dós?

Þrátt fyrir allar tímabundnar þrengingar þá búum við Íslendingar enn við, og vonandi um ókomna framtíð, að fá alla þá heilbrigðu fæðu sem við þurfum á að halda. Gamall maður eins og ég man að það var ekki hægt að fá ávexti nema örlítið fyrir jólin og grænmeti var af skornum skammti, helst voru það auðvitað kartöflur og margir reyndu að rækta svolítið af gulrófum. Nýmeti var sjaldgæft til sveita nema helst í sláturtíðinni á haustin en þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna fengu oftast nýja soðningu.

Éttu og drekktu "fæðubótaefni" er dagskipunin

Já, það er með ólíkindum að þá fyrst þegar við höfum fjölbreytt fæðuval lætur fólk, og aðallega unga fólkið, tæla sig til að kaupa alls kyns sull í flöskum og dósum sem "fæðubótaefni". Sú var tíðin að fyrir rúmri öld fóru ugluspeglar um sveitir og seldu fáfróðu fólki sull á flöskum sem bar nafnið "kínalífselixír. Þetta átti að vera allsherjarlyf sem læknaði allan krankleik hvernig sem hann birtist. Vísir menn sáu auðvitað í gegn um falsarana og voru þeir gerðir brottrækir úr öllum sveitum. Lengi á eftir var gert stólpagrín að þeim sem létu glepjast og keyptu og drukku sullið. En nú er öldin önnur. Nú eru fjölmargar verslanir með herskara sölumanna sem selur fáráðlingum alls kyns fæðubótaefni.Óþverri

Eyðileggur lifrina eins og alkóhól

Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var sagt frá uppgötvun Finna. Skorpulifur er ekki einungis afleiðing af drykkjuskap og ofneyslu áfengis. Jafn slæmt, ef ekki verra eru öll þessi drulla sem fávís ungdómur (og raunar þeir sem eldri eru einnig) lætur ginna sig til að kaupa og drekka sem "fæðubótaefni"..

Hér til hliðar er mynd af flösku með einni tegund af þessu eitursulli. Nú er nóg komið af vitleysunni.

 


Dómsdagur er í nánd segir World Wildlife Fund

Það er hrikaleg frétt í Fréttablaðinu í morgun. Það lítið hægt að segja við því að fjölmiðlar flytji slíkar fréttir. Hins vegar get ég sagt út frá þeirri þekkingu sem ég ef aflað mér að þessi"dómsdagsspá" er að nánast ekkert annað en enn ein skelfingarfréttin frá "alarmistum" sem ekki er byggð á vísindum heldur trúarhita, það skal ofan í lýðinn að maðurinn sé með sínum gjörðum að eyðileggja jörðina.

Sem betur fer er þetta litla peð, maðurinn, ekki með þá þekkingu og kraft til að vinna slíkt skemmdarverk. Því síður getur hann breytt neinu teljandi á jörðinni, allra síst að minnka magn koltvísýrings CO2 í andrúmslofti. Það er ekki hægt að neita því alfarið að maðurinn geti aukið magn CO2 en það er svo lítið að ekki skiptir máli. Nú er búið að reka flestar iðnvæddar þjóðir til að vinna gegn þessum meinta vágesti, CO2, með óheyrilegum kostnaði, skattlagningu og ekki síður að byggja heilu "skrímslin" til að vinna CO2 úr loftinu og festa niður í berglögum. Þó er vitað að það er sáralítið sem vinst í því að minnka magn CO2.

Hins vegar hefur þessi eindæma barátta gegn þessu lífsnauðsynlega gasi CO2 (það stendur undir öllum gróðri á jörðinni og sér okkur þar með fyrir súrefni) orðið til þess að athyglin beinist eingöngu þangað, allt annað virðist ekki skipta máli. Öll sú mengun sem er á jörðu niðri virðist gleymd, mengunin sem liggur í strætum borga, CO útblástu bíla (CO er ekki það sam og CO2) svifryk, allt það óhemjudrasl sem er hent í höfin, allt votelndið sem er eyðilagt,  svo mætti lengi telja.

Það er ekki í "tísku" að tala um annað en "loftslagsbreytingar af manna völdum".

Þær eru sáralitlar sem engar.


Getur verið að ég sé með áfallastreituröskun?

Hvað veit maður. Satt best að segja hef ég verið sáralítið sótthræddur á minni löngu ævi en kannski ætti maður að vera betur á verði. Ég hef látið mér í léttu rúmi liggja hvort svínainflúensan er komin til landsins og hvorki keypt mér grímu, spritt eða einhver töfralyf til að varna þessum veiruher að komast inn í skrokkinn á mér (Biðst afsökunar, ég á víst að segja "versla mér" en ekki "kaupa mér" skv. hinum einörðu tilskipunum fjölmiðlafólks).

En það er þetta með áfallastreituröskunina. Ég held að ég skilji íslensku nokkuð vel en verð að segja eins og er; orðið áfallastreituröskun veldur mér talsverðum heilabrotum, ég veit að þetta kemur eitthvað inn á heilbrigðið. En nú held ég að ég sé búinn að skilja þetta til fulls.Þetta á við ef maður verður fyrir áfalli, dettur niður stiga, verður fyrir bíl, stígur á nagla eða eitthvað annað. Þá er áfallið komið, ekki vafi. Af áfallinu fæ ég líklega streitu, það er víst eitthvað skylt við það sem í gamla daga var kallað taugveiklun eða móðursýki. En þá fer málið að vandast. Ef streitan er ekki  viðvarandi heldur að koma og fara þá er streitan sem sagt að raskast, hún slitnar sundur. Er það þá jákvætt að vera stöðugt með streitu, er það betra en að hún sé á stöðugut að raskast? En ef hún kemur og fer eins og sjávarföll þá er viðkomandi klárlega kominn með "áfalla-streitu-röskun"

Nei skrattakornið, ég held að ég sé ekki með "áfallstreituröskun".

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband