Færsluflokkur: Sjónvarp

Jón Gnarr fer með rangt mál

Ekki var hún björguleg fyrsta gangan hjá Jóni Gnarr eftir að ákveðið var að hann yrði borgarstjóri í Reykjavík. Hann fékk þar gullið tækifæri til að draga til baka fáránlega hugmynd sína um að koma ísbirni fyrir í Húsdýragarðinum í Laugardal. Gat einfaldlega sagt að hann hefði verið að "djóka" eins og honum er tamt. Jón hélt hinsvegar ísbjarnarblús sínum til streitu og það sem verra var fór með rangt mál til að rökstyðja mál sitt.

Hann fullyrti að ísbirnir væru í útrýmingarhættu!!!

Ekki veit ég hvort heldur er að Jón sé svona einfaldur og trúgjarn eða hann ætli sér framvegis að láta lönd og leið það sem sannara reynist. Fyrir hálfri öld voru ísbirnir veiddir grimmt af frumbyggjum á norðurhveli. Þá var stofninn 5.000 dýr. Þá var settur kvóti á veiðarnar og þær stórlega takmarkaðar, líklega um of. Núna hálfri öld síðar hefur stofninn nær fimmfaldast, er á milli 23.000 og 25.000 dýr. Ísbirnir eru einfarar og koma aðeins saman í hópi um fengitímann. Hver ísbjörn helgar sé mikið veiðisvæði og ekki er ólíklegt að fjöldinn sé orðinn og mikill, norðurhvelið beri ekki þennan fjölda. Ekki er ólíklegt að flækingarnir sem syntu til Íslands séu skepnur sem verða að leita út í kanta lífsvæðisins og þvældust því  til íslands þar sem þeir sem betur fer voru skotnir að Norðlendingum sem gerðu sér fulla grein fyrir hættunni sem af ísbjörnunum stafaði.

En ef Jón Gnarr vill engan veginn virða staðreyndir málsins þá getur hann fengið ágætan ráðgjafa sem er honum eflaust að fullu sammál í bullinu. Það er Þórunn Sveinbjarnardóttur fyrrverandi umhverfisráðherra.

Að lokum vil ég benda Jóni Gnarr á að það er misjafnt hvernig dýr þola vist í dýragörðum. Líklega er ekkert dýr sem þolir hana jafn illa og ísbirnir, þeirra kjörsvæði er pólarsvæðið þar sem frosthörkur verða miklar. Það er mikil misþyrming þessum dýrum að geyma þau í þröngum svæðum við plúshita og hann oft æði háan.


Jóhanna Sigurðardóttir lögð í einelti af Grámanni í Hádegismóum og stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins

Það hlaut að koma að því að Davíð Seðlabankastjóri fyrrverandi og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins færi af stað með undirferli og brigsl gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra opinberlega. Búið er til mál sem er ekkert mál og svo virðist sem flestir fjölmiðlar ætli að bíta á agnið og ganga erinda þess gamla í Hádegismóum. Hann beitir fyrir sig einum af stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins, Sigurði Kára, sem aldrei hefur reynst vandur að virðingu sinni og ég sá ekki betur en varformaður Framsóknarflokksins taki fullan þátt í leiknum. Meira að segja er Fréttastofa Ríkisútvarpsins orðinn þáttakandi. Ég dáðist að Jóhönnu að halda ró sinni í kvöld í Kastljósi þar sem leigupenninn Sigmar þóttist þjarma að henni. Það er ekki ónýtt fyrir Davíð Morgunblaðsritstjóra að eiga slíkan bandamann á Fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Þessi lágkúra Davíðs og stuttbuxnadeildarinnar er vel þekkt hjá óheiðarlegum pólitíkusum og ekki síður hjá útbrunnum pólitíkusum þegar sverfur að. Þá er búin til einhvera lokleysu um andstæðing, hún tuggin  aftur og aftur á Alþingi og  allir fjölmiðlar dregnir til að verða þátttakendur í ófrægingarherferðinni. Davíð hefur greinilega séð að eftir hinu algjöru lágkúru Bjarna Benedikssonar í Sjónvarpinu í gær þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ekkert um spillingu Guðlaugs Þór að segja, þetta kæmi honum, Bjarna B., ekkert við!!! Þá sá Davíð að hann yrði að beita ófrægingarvopninu og það er furðulegt hve langt honum hefur tekist að komast.

En ég er viss um að Jóhanna mun standa þessa lágkúru frá Hádegismóum af sér, sendiboði Davíðs á Alþingi, Sigurður Kári varamaður Illuga Gunnarssonar sem hrökklaðist af Alþingi, ætti að gera hreint fyrir sýnum dyrum. Legg til að þeir setjist niður saman lagsbræðurnir Sigurður Kári og Guðlaugur Þór og telji saman allt það sem þeir hafa fengið greitt fyrir samvisku sína fá tortúlalubbunum, sem margir gefa það "sæmdarheiti" að kallast "útrásarvíkingar".

Er virkilega ekki einn einasti maður í þingliði Sjálfstæðisflokksins sem þorir að mótmæla þessu einelti sem Davíð Oddsson hefur komið í í gang gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra?


Froðufellandi bloggarar ryðja úr sér hroða og bulli, Sigmundur Davíð endanlega fallinn á prófinu

Ég hef satt best að segja hikað við að blogga um kosningarnar og þá útkomu sem stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn fengu. Hef reyndar verið að velta því fyrir mér mér að hætta að blogga; þannig líst mér á marga þá sem þar eru á ferðinni, marga sem ekki hafa minnstu rök fram að færa en froðufella af innri sálarkreppu. Ég ætla að láta það vera að nefna nöfn að þessu sinni. En það er sláandi að þeir sem hæst láta og nota eingöngu illmælgi og aldrei rökum virðast vera í sérstöku uppáhaldi bloggstjóra, fá að trjóna hæst á toppi nánast hvenær sem þeir láta hroðann vella.

Það er ekki nokkur vafi á því að þessar kosningar eru hrikalegur áfellisdómur yfir öllum stjórnmálaflokkum og flestum stjórnmálamönnum. Það ætti að vera lýðum ljóst að stjórnmálamenn og stjórnmálflokkar þurfa að skoða sín innri mál og ekki síst að komast upp úr hjólförum skotgrafanna þar sem menn liggja og nota gamlar og úreltar aðferðir til að klekkja á andstæðingum, þar er enginn undanskilin. Í sjónvarpsumræðu foringja stjórnmálflokkanna í gær tókst þeim að halda sér á mottunni að einum undanskildum. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hinn ungi formaður Framsóknarflokksins. Enginn maður hefur fengið annað eins tækifæri og hann í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár til að efla sinn flokk og ná því að verða virtur og öflugur stjórnmálamaður. En hann missti af því tækifæri fyrir eigin tilverknað. Sigmundur Davíð var víðs fjarri þegar allt sukkið byrjaði, hann (að ég held) kom ekki nálægt stuldinum á ríkisbönkunum þremur, hann ber því (að ég held) enga ábyrgð á þeim gegndarlausu mistökum og afbrotum sem gerðu það að verkum að bankarnir fóru allir á hausinn og stjórnendur þeirra létu greipar sópa um fjárhirslurnar, þurftu ekki byssur, lambhúshettur eð skóflur til að grafa göng eða dýnamít til að sprengja upp peningahirslur. Þeir gengu um með hvíta flibba, í nýjum jakkafötum og notuðu tölvurnar, þær fluttu peninga á brott miklu hraðar og öruggar en einhverjir stolnir bílar á fölskum númerum.

Ef einhver maður fékk gullið tækifæri til að lyfta íslenskum stjórnmálum á hærra plan var það Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. Ég satt að segja trúði vart mínum eigin augum og eyrum fyrst þegar þessi ungi foringi lét í sér heyra. Í stað yfirvegaðrar umræðu og skarprar greiningar á ástandinu kom  þessi nýi foringi fram í gömlum lörfum gamallar rifrildispólitíkur sem fór langt fram (eða aftur) fyrir alla þá sem voru á hinu pólitíska sviði. Hann fékk fljótlega ströng skilaboð frá þreyttum íslenskum almenningi; svona vinnubrögðum erum við orðin dauðþreytt á. Framsóknarflokkurinn fór niður hvarvetna í öllum skoðanakönnunum og arfur Rannveigar Þorsteinsdóttur frá því fyrir rúmum 60 árum, konunnar sem vann það afrek að vinna sæti í Borgarstjórn Reykjavíkur í sjálfu hreiðri íhaldsins fyrir Framsóknarflokkinn, það afrek var nú þurrkað út og það geta Framsóknarmenn þakkað þeim sem þeir kusu sem sinn forystumann, hann heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Ég hef beðið eftir því að einhverjir innan Framsóknarflokksins segðu; hingað og ekki lengra. Og loksins gerðist það. Einhverstaðar fyrr í mínu bloggi spáði ég því að Guðmundur Steingrímsson mundi rísa upp og mótmæla lítilmótlegum vinnubrögðum og orðfæri þessa nýja formanns. Og nú er stundin runnin upp. Hver ætti frekar að gera það en hann, hver ætti frekar að taka upp merki föður síns Steingríms eða afa síns, Hermanns Jónasonar. 

Og auðvitað létu þeir sem glefsa ekki lengi bíða eftir sér. Einhver stuttbuxnadeild í Húnaþingi rís upp gegn Guðmundi og vill ekkert annað en staglið sem Sigmundur Davíð innleiddi, láta sem mest í sér heyra, láta rök og sanngirni lönd og leið.

Það var dapurlegt að einn flokksforinginn sem fór niður í "skotgrafirnar" í umræðunni í Sjónvarpinu í gær. Sigmundur Davíð lét svo ummælt að minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms hefði ekki gert eins og hún" átti aðgera", líklega ætlaði Sigmundur Davíða að fjarstýra henni því vissulega átti hann stóran þátt í því að sú stjórn var mynduð. Og klikkti út með það að núverandi Ríkisstjórn "hefði ekki gert neitt". Þá var Steingrími J. nóg boðið og bað Sigmund Davíð að koma upp á skurðbakkann.

Ég hef ekki trú á þangað komist hann nokkurn tíma, hanns kjörlendi er  að liggja í skotgröfunum.

  


Mun sjónvarsumræðan einhverju breyta?

Foringjar framboðanna í Reykjavík fengu mikinn tíma hjá Sjónvarpinu í gær til að láta ljós sitt skína. Ég verð að hrósa Sjónvarpinu fyrir það að láta alla foringja framboða í Reykjavík koma til umræðunnar. Þannig stóð Stö2 ekki að máli, hjá þeim fengu aðeins þeir, sem spáð er að ná fulltrúa í Borgarstjórn, að koma en hinir voru útilokaðir. Vægast sagt mjög ólýðræðisleg gjörð.

En má ætla að þessari umræða í gærkvöldi í Sjónvarpinu breyti einhverju um niðurstöður kosninganna? Líklega hefur ekki stór hópur horftekki á þennan umræðuþátt, sérstaklega held ég að það eigi við yngra fólk og það er eflaust hagstætt Jóni Gnarr og Besta flokknum.

Það er freistandi að gefa umsögn um hvernig foringjarnir stóðu sig í umræðunni. Hanna Birna er mjög frambærilegur stjórnmálamaður og ekki kæmi mér á óvart ef Sjálfstæðisflokknum tekst að endurheimta traust að hún verði innan fárra ára orðin foringi flokksins. Hjá Hönnu Birnu fer tvennt saman sem fáir stjórnmálmenn hafa til brunns að bera; hún er bæði mælsk og rökföst. Ef Sjálfstæðisflokknum tekst að halda  nokkru fylgi er það ekki vafi að það er borgarstjóranum núverandi að þakka, mér sýnist ekki að það lið sem hún hefur með sér geri mikla lukku.

Dagur B. Eggertsson komst vel frá umræðunni og honum tókst  að skýra stefnu Samfylkingarinnar í borginni, en flokkurinn leggur höfuðáherslu á atvinnumál. Það liggur í augum uppi að atvinna, að fólk hafi atvinnu, að til séu fyrirtæki með góðu starfsliði sem skapa verðmæti, er undirstaða alls þess sem gera skal og gera verður því þar liggur grunnurinn að tekjum borgarinnar og allra sveitarfélaga. Ég þurfti nokkurn tím til að átta mig á þessari stefnu; hvernig kjörnir fulltrúar í borgarstjórn geta haft afgerandi áhrif á aukningu atvinnu en Degi tókst ágætlega að skýra það.

Þessir tveir foringjar stóðu sig áberandi best í gær en auk þeirra við ég nefna Baldvin foringja Reykjavíkurlistans. Baldvin komst ekki  mikið að en hann benti rækilega á "sárið" í borginni, Reykjavíkurflugvöll. Það er sérstakt að það skuli jafnvel vera meirihluti fyrir því í Reykjavík að flugvöllurinn verði festur í sessi um ókomin ár. Baldvini tókst að benda á fjárhagslega þýðingu þess að flugvöllurinn fari sem fyrst, þar sé vissulega mikill og góður grundvöllur fyrir bættum fjárhag borgarinnar, jafnvel strax og ákvörðun er tekin um að flugvöllurinn fari.

Helga frá Frjálslyndum komst nokkuð vel frá umræðunni þó hún hefði sig ekki mikið í frammi.

En síðan fór að halla undan fæti. Vinstri grænir eru stöðugt að verða einkennilegra fyrirbrigði í íslenskri pólitík. Hins vegar þekki ég vel þennan óm sem kom fram hjá Sóleyju Tómásdóttur frá árum mínum í Alþýðubandlaginu. Löngum var ég þar litinn illu auga frá "vinstri deildinni" sem leit hornauga alla þá sem ekki voru opinberir starfsmenn eða háskólafólk. Þeir sem ráku eigin fyrirtæki voru álitnir kapítalistar af "últraliðinu" og þar gyllti umfram allt að vera nógu "harður" og berja á allt og öllu sem ekki samrýmdist þeirra últra skoðunum. Sóley féll rækilega í þann fúla pytt í gær. Tuggði stöðugt um umönnunarstéttir, svo mikilvægar sem þær eru, en gaf ekkert upp um baráttu fyrir aukinni atvinnu og útrýmingu atvinnuleysis. Ég endurtek enn að án þess að lagður sé grunnur verður ekkert hús byggt. Ég man vinstra liðið í Alþýðubandalaginu sem ætíð hafði allt að því fyrirlitningu á grunninum en vildi endilega byggja hátimbraðar hallir og byrja helst á efstu hæð og turninum! 

Og hvað með Gnarr og hans flokk, Besta flokkinn. Jóni tókst ekki einu sinni að vera skemmtilegur, margtuggði um hvítflibbafangelsi á í Arnarholti fyrir útlendinga, uppskar smá hlátur þegar hann sagði að "hann hefði aldrei flutt flugvöll". Ég býst við að Besti flokkurinn fái talsvert af atkvæðum en ef almennt hefur verið horft á umræðuna þá getur tæplega verið að fylgi flokksins hafi haldist uppi, þvílíkur fíflagangur.

Þá er sögu Framsóknarflokksins lokið að sinni í Borgarstjórn Reykjavíkur. Einar Skúlason var mjög lélegur í umræðunni og reyndi stöðugt að tyggja um hina miklu "endurnýjun" Framsóknarflokksins. Hvað á hann við. Sigmund Davíð formann? Ef hann er endurnýjunin þá byggist hún á því að fara aftur til fortíðar, ef tekið er mið af SD á Alþingi þá hefur þessi nýi foringi fært alla umræðu þar aftur til þeirra tíma fyrir áratugum sem orðhengilsháttur og þras þótti helsti aðall málafylgjumanna .

Og þá er aðeins eftir eitt furðulegasta fyrirbærið í borgarstjórnarpólitíkinni, Ólafur Magnússon. Mottóið í hans rökhyggju, bæði þegar hann fékk orðið eða gjammaði stöðugt fram í hjá þeim sem orðið höfðu, var "ég, um mig, frá mér, til mín". Satt best að segja fannst mér framganga Ólafs vera dapurleg og það er kominn tími til að hann fái endanlega lausn frá borgarmálum í Reykjavík. allavega lausn frá því að verakjörin fulltrúi. Það var ekki uppbyggjandi að sjá fyrir sér mann með Messíasar komplex á háu stigi. 


Svar til Björns Vals Gíslasonar alþingismanns sem hann fékk frá mér á netinu

Heill og sæll Björn Valur
Og þakka þér fyrir að svara mér svo fljótt og með skilmerkilegum hætti.
Ég hef lesið tillögu þína, greinargerðina og það sem þú birtir á heimasíðu þinni.
Eftir að hafa kynnt mér þinn málflutning þá er ég hundrað prósent viss um að ég er ekki að misskilja neitt.
Ég tel það dapurlegt að þingmaður, maður sem situr á hinu háa Alþingi, skuli vera tilbúinn til að mæla því bót að gerð sé innrás á Alþingi, störf Alþingis trufluð og starfsmenn þingsins slasaðir.
Á heimasíðu þinni dregurðu nokkuð í land og viðurkennir að ekki sé hægt að láta uppvöðslulýð slasa starfsmenn Alþingis, minna má það tæplega vera. En þú vilt fría uppvöðsluseggina við húsbroti og öðrum brotum, það finnst mér með ólíkindum.
Ég hef sagt á mínu bloggi að búsáhaldabyltingin átti fullan rétt á sér og er þér sammála um að það var engin furða þó almenningur yrði yfir sig reiður og sár vegna hrunsins sem er auðvitað fyrst og fremst fjármála- og bankaafbrotamönnum að kenna en einnig FME og Seðlabanka en grundvöllinn lögðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur. Ég ætla hins vegar engan veginn að sýkna minn eigin flokk, Samfylkinguna, þátttaka hennar í Ríkisstjórn Geirs Haarde (lélegasta forsætisráðherra sem Ísland hefur nokkurn tíma haft) var meira en dapurleg. En því miður; við tókum flest þátta í dansinum í kringum gullkálfinn og höfðum trú á tortúlalubbunum sem nú blessunarlega verða að svara til saka.
En eitt er víst. Þegar almenningur rís upp og mótmælir ranglæti stjórnvalda og stofnana með skipulögðum og yfirveguðum hætti þá safnast að alskyns lýður að sem veit ekkert um hvað málið snýst; nú er komið tækifæri til að fá alvöruhasar. Við sáum í Sjónvarpinu hvernig ýmsir lubbar réðust að lögreglunni, oftast grímuklæddir, ég man eftir einum sem reyndi með klaufhamri að brjóta glugga í Stjórnarráðinu, ég man eftir því þegar bullurnar réðust inn á Hótel Borg á gamlársdag. Ég man líka eftir því þegar yfirvegaðir mótmælendur slógu skjaldborg um lögregluna fyrir framan Stjórnarráðið.
Ég leyfi mér að spyrja þig Björn Valur; hefur þú ekki þá yfirsýn að geta greint á milli þeirra sem mótmæltu hruninu, þjófnaðinum mikla sem brann á hverjum og einum og ruslaralýð sem safnast að heiðarlegum mótmælendum sem tala kröftuglega og hafa hátt. Ertu virkilega tilbúinn að slá skjaldborg um hvað vitleysingahóp sem hafði sig í frammi með ofbeldi?
Þú rekur söguna, segir frá gömlum guðlastdómum og berð þetta saman við óeirðirnar við Austurvöll 30. mars 1949. Ég er nú svo miklu eldri en þú og man þess vegna glöggt eftir því sem gerðist 30. mars 1949. Þá réðst ekki nokkur maður inn á Alþingi. Ólafur Thors, Stefán Jóhann Stefánsson og Eysteinn Jónsson létu dreifa flugriti um allan bæ og skoruðu á fólk að koma á Austurvöll og sýna þar með að Alþingi ætti að hafa starfsfrið. Hins vegar var Alþingishúsið fullt að utanaðkomandi "hvítliðum" en Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri hafði kallað Heimdall, félag ungra Sjálfstæðismanna til starfa og þjálfað þá á laun til að berja á fólki. Þegar merki var gefið þustu þeir út og hófu barsmíðar á öllum sem á vegi þeirra varð og lögreglan byrjaði gasárás.
Þú lítilsvirðir allt það fólk sem þarna kom, og sumir hlutu síðar þunga dóma, með því að bera þá einstaklinga saman við bullurnar sem réðust inn á Alþingi með ofbeldi og sitja nú undir ákærum sem þú vilt að Alþingi skipti sér af, ráðist inn á vettvang dómsvaldsins.
Ég er handviss um að þessar bullur, sem þú vilt nú gerast verjandi fyrir með því að Alþingi fari að skipta sér að störfum dómsvaldsins, eiga ekkert skylt við þær þúsundir sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni, þessar bullur vissu ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað málið snérist, óreyndir unglingar sem vita ekkert hvað lífsbaráttan er, en voru komnir á vettvang til að fá "verulega skemmtilegan hasar"
Ég ætlast til að þingmenn hafi þann þroska til að skilja sauðina frá höfrunum og viðurkenni ekki hvaða framferði sem er af því það er undir formerkjum heiðarlegra mótmæla. Af því þú minnist á Þórberg Þórðarson í þinni greinargerð þá vil ég vísa til hans líka. Ég var að enda við að lesa  seinni bók Péturs Gunnarssonar um ÞÞ. Þar kemur þessi mannlegi breyskleiki svo greinilega fram að viðurkenna allt svo fremi það sé undir ákveðnum formerkjum. Þórbergur afsakaði allt sem gerðist í Sovétríkjunum, Gúlagið var áróður, réttahöldin miklu fyrir stríð og aftökurnar áttu fullan rétt á sér, innrásirnar í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu réttlætanlegar.
Á sama hátt er mörgum farið. Þeir viðurkenna rétt almennings til að mótmæla á kröftuglegan hátt óréttlætinu sem því er sýnt. En eins og Þórbergi er þér og fleirum ómögulegt að greina á milli hvað eru heiðaleg og réttsýn mótmæli, þið viðurkennið allt sem gert er undir merkjum þessarar hreyfingar, búsáhaldabyltingarinnar, og reynið ekki að greina atburðina.
Ég segi á mbl. blogginu að ef þú telur að þessi hópur, sem nú má sæta ákærum saksóknara, eigi skilið að fá að fara fram óáreittir þá ertu að segja að ef Nýnasistar eða Vítisenglar ráðast inn á Alþingi þá munir þú bregða fyrir þá skildi og vernda þá fyrir ásókn dómsvaldsins.
Eiga ekki allir að vera jafnir fyrir lögunum?



Vonandi hafa Davíð og Halldór horft á Kastljós í kvöld

Einhver viðurstyggilegast glæpur síðari ára er Íraksstríðið. Síðan drullusokkurinn Bush Bandaríkjaforseti fór í það stríð með Breska drullusokknum Tony Blair er búið að murka lífið úr 600.000 óbreyttum borgurum í Írak. Það var ógurlega gaman hjá þeim sem sátu við hríðskotabyssurnar í þyrlunum og ekki stóð á því að einhverjar stjórnendur, sem voru víðs fjarri, gæfu leyfi til að skjóta menn sem voru á gangi á götu. Út yfir tók þó þegar hjálpsamur vegfarandi ætlar að hjálpa lífshættulega særðum manni og þá er byrjað að skjóta aftur, maðurinn drepinn og börn hans tvö hættulega særð í bílnum. Bandaríski herinn, herinn þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, var ekki að hafa fyrir því að koma tveimur ungum börnum,  sem þeir voru búnir að særa, undir læknishendur. Heimamenn gátu séð um það. Síðan hefur verið unnið að því hörðum höndum af innrásarliði Bush, Blair, Davíðs og Halldórs að breiða yfir glæpina.

Og umheimurinn horfði upp á þennan viðbjóðslega glæp, innrásina í Írak, flestir ypptu öxlum, margir lofuðu Bush og kompaný. 

Hvað er orðið um samvisku fólks?


Vigdís Hauksdóttir, haltu þig við þorskhausana

Vigdís, það var ömurlegt að fylgjast með þér í Kastljósi í gærkvöldi þar sem þú þrefaðir við Ólínu Þorvarðardóttur og eins og venjulega ert þú föst í þessu gamla hörmulega hjólfari gamalla hefða í pólitík; að vera á móti öllu sem pólitískir andstæðingar, Ríkisstjórnin, gera. Ég vona að augu þín opnist og þú sjáir hvað hver sá sem er í stjórnmálum verður sterkari ef hann fer að ræða hvert mál með rökum en ekki gamaldags röfli og framíköllum.

Vigdís, haltu þig að því sem þú ert best í. Þar á meðal er sú gamla kúnst að rífa herta þorskhausa. Við erum bæði snjöll í því eins og þú veist.


Ragnhildur Steinunn, hversvegna auglýsa þennan viðbjóð?

Í Kastljósi nýlega fann Ragnhildur Steinunn enn einn sérkennilegan viðmælanda, unga stúlku sem hafði látið tattóvera sig mjög hressilega og ætlaði að halda því áfram, hafði fest ýmislegt glingur í húð sína,  látum það gott heita, þetta er hennar mál.

En það var ekki þetta sem vakti óskipta hrifningu Ragnhildar Steinunnar heldur að stúlkan hafði gengið svo langt að láta skera í sundur á sér tunguna endilanga og sýndi mikla fimi í að reka sitt hvorn helminginn út um munnvikin. Það er aldeilis munur að gata rekið tunguna framan í tvo í einu.

Enn og aftur tek ég það fram að þetta er stúlkunnar einkamál, hún um það hvernig hún skrumskælir líkama sinn. 

Tvennt veldur mér mikillar furðu.

Eru langskólagengnir læknar, háskólaborgarar sem eiga að vera þroskaðir og menntaðir í breiðum skilningi, að nota þekkingu sína og færni til að framkvæma slíka afskræmingu?

Hitt er spurning til Ragnhildar Steinunnar; finnst henni þetta vera til svo mikillar fyrirmyndar að þetta eigi erindi í Kastljós í Sjónvarpi allra landsmanna? Er þetta fyrirmynd sem hún vill kynna fyrir saklausum táningum sem þurfa á flestu öðru að halda, miklu fremur uppbyggilegum fréttum og fyrirmyndum?


Veit fólk ekki í hvaða landi það býr?

Enn og aftur fáum við fréttir af fólki sem æðir upp um fjöll og firnindi þó spáð sé bandvitlausu veðri og það á þeim árstíma sem búast má við hverju sem er veðurfarslega, ekki aðeins á hálendinu heldur einnig í byggð. Nýlegar hörmungarfréttir eru enn ofarlega í huga og ég minnist fólks sem björgunarsveitir náðu heilu á húfi til byggða á árum áður, fólk sem komið var til jökla með smá börn. Og undantekningarlaust var þessum angurgöpum tekið sem hetjum af fjölmiðlum, sérdeilis þó sjónvarpstöðvum.

Í gærkvöldi kom frétt um að fjölmargir væru strandaglópar í Borgarnesi, ófært með öllu undir Hafnarfjalli og engin leið að komast áfram til norðurs eða vesturs. Það sem  þó ótrúlegast var að þarna voru yfir 100 nemendur úr Víðstaðskóla í Hafnarfirði sem voru á leið til Akureyrar.

Ég spyr: Hvað er ámilli eyrnanna á forráðmönnum Víðistaðaskóla að samþykkja að hundrað nemendur skólans og rúmlega það fái að leggja í slíka ferð þó komið hafi fjölmargar veðurspár og viðvaranir um að fólk skyldi halda sig heima og ekki leggja í nein ferðalög. Þessum viðvörunum var sératklaga beint til íbúa á Vesturlandi, Suð-Vesturlandi og Suðurlandi.

Eru forráðmenn Víðistaðaskóla bæði sjón- og heyrnarlausir?


Ríkisútvarpið er í tilvistarkreppu, þessi ómetanlega menningarstofnun fyrri ára

Þegar ég fæddist var Ríkisútvapið 4 ár. Síðan höfum við, ég og Ríkisútvarpið,  átt samfellda samleið og það hefur verið mér óemetanlegt. Ég ólst upp á menningarheimili sem hafði tónlist í hávegum, faðir minn átti orgel sem hann var að mestu hættur að spila á en elsti bróðir minn, Þorgeir, hafði tekið við, hann lærði hjá Kjartani frá, að ég held,  Stóra-Núpi, lærði að lesa og spila eftir nótum. Það var oft tekið lagið þegar góða gesti bar að garði.

En á seinni árum hefur mér orðið æ ljósara hve gífurleg menningarstofnun Ríkisútvarpið var á fyrstu ártugum sinnar tilvistar, ég vil segja ótvírætt fyrstu þrjá ártugina. Foreldrar mínir keyptu útvarpstæki um leið og RÚV tók til starfa. Minnisvert tæki sem samanstóð af hátalara, lampatæki, sýrurafhlöðu og stóru þurrbatteríi, allt þetta varð að vera til svo hljóð heyrist, úti var loftnet sem strengt var í staur mikinn nokkuð frá húsinu. Þurrbatteríið var keypt hjá verslun Friðriks í Þykkvabæ, en sýrugeymarnir voru 2, annar alltaf í hleðslu á Urriðafossi yfir í Árnessýslu.

Það var þessi menningarstofnun sem leiddi mig og mína kynslóð inn í undraheim tómlistarinnar, þar var ekki aðeins leikið á eitt orgel, þar hljómuðu öll hljóðfæri í stórum hljómsveitum. Ég fékk að kynnast Motsart og öllum stóru meisturunum, Stefán Íslandi söng perlurnar með þeim afleiðingum að í bernsku ákvað ég að verða óperusöngvari, af því varð þó ekki af skiljanlegum ástæðum. Útvarpssögurnar voru ógleymanlegar og svo komu laugardagsleikritin, Lárus Pálsson og allir hinir stórkostlegu leikararnir urðu heimilisvinir. Svo barnatímar Þorsteins Ö á sunnudögum, það þurfti mikið að ganga á til að draga mann frá tækinu þá. Bjarni Björnsson lék jólasveininn um hver jól og ég minnist þeirrar sorgar þegar sagt var frá því að hann væri dáínn. Auðvitað átti maður sem barn ekki að vita annað en þarna færi ekta jólasveinn en stundum gerði maður þeim eldri það til geðs að vera eitthvað heimskari og einfaldari en raunin var.

En ekki sleppa sér aðveg í "nostalgíunni". 

Allar stofnanir þurfa að fylgjast með í straumi tímans, aðlaga sig að breyttum veruleika. Og þar hefur RÚV brugðst eða ölu heldur stjórnmálmennirnir sem ráðskast hafa með þessa merku stofnun. Fyrir líklega u. þ. b. 25 árum var útvarps- og sjónvarpsrekstur gefinn frjáls. Því miður voru ekki allir þeir sem réðu örlögum RÚV með það á hreinu hvað þeir vildu. Í stað þess að halda fast í hið upprunaleg menningargildi RÚV var ákveðið að elta "frjálsu" stöðvarnar, vera sem mest eins og þær og vinna í harðri samkeppni. Þess vegna var RÁS2 sofnuð og löngu áður var búið að stofna Sjónvarpið, sjónvarpsstöð sem varð í harðri samkeppni við "frjálsu" stöðvarnar og skrapar auglýsingamarkaðinn sem ákafast. Efni sjónvarpsins er keimlíkt hinum "frjálsu", ameríst drasl áberandi. Þó má segja Sjónvarpinu það til hróss að hjá þeim slæðist með efni frá Evrópulöndum, stundum sæmiegt, stundum skelfilega lélegt (þýskar og franskar myndir margar slæmar).

En nú er RÚV að verða nánast óþolandi vegna yfirgengilegra íþróttafrétta. Vetrarleikarnir taka sinn toll en í gær tók steininn úr þegar boðað var að framundan væri heil syrpa af umfjöllun um löndin sem taka þátt í Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu á sumri komandi. Meira að segja á besta útsendingartíma. Þá er ótalið að 10 - 20% af hvejum fréttatíma kl 19:00 fer í íþróttafréttir. Mér finnst sjálfsagt að flytja fréttir af öllu því kraftmikla unga íþróttafólki hérlendis sem er í öllum mögulegum íþróttgreinum.

En mér er spurn: Hefur það verið kannað hve stór hluti sjáenda og hlustenda RÚV er áfjáður í að sjá amerískan körfubolta, amerískan "fótbolta" og síðan fréttir frá nánast hverju golfmóti vestanhafs? Þurfum við að eltast við alla knattspyrnuleiki í Evrópu?

Og þá kemur  spurning: Hve mikill kostnaður fylgir því að stofna sérstaka íþróttarás. Þar geta hinir "forföllnu" horft og séð meðan við hin veljum okkur annað, þar gætu verið fréttir frá yfirstandandi Vetrarólympíuleikum. Hve margir sitja fram eftir nótti til að sjá hægvirka og langdregna keppni skíðaíþrótta, hefur það verið kannað?

En að kjarna málsins. Hvaða breytingar vil ég, sem þessar línur rita, sjá á Ríkisútvarpinu?

1. Leggja niður eða selja RÁS2. Allt sem þar kemur fram er lítill vandi að finna á öðrum stöðvum.

2. Efla RÁS1. Þó ekki þannig að lengja dagskrána. Hana mætti gera fjölbreytari og að hluta léttari, þó verðum við að vera nokkuð íhaldsöm þarna, gömlu gildin eiga að halda sér.

3. Efla landhlutastöðvarnar, efla og auka heimaunnið efni þeirra, hleypa þeim markvisst inn í RÁS1 svo hlustendur fylgist betur með hvað er að garast hjá samborgurum sem víðast.

4. Taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði,  landshlutastöðvum ættu þó að eiga möguleika á tilkynningum og auglýsingum sem tæplaga komast til viðkomandi frá "frjálsu" stöðvunum. Þetta gæfi öðrum stöðvum auknar tekjun og þær greiði RÚV ákveðinn hluta af þeim tekjum. Þarna er vandfundið meðalhófið en það er hægt að finna.

5. Nefskattur til RÚV afnuminn, stofnunin færi alfarið á fjárlög.

6. Sjónvarpinu yrði sett ný stefnuskrá og raunar RÚV í held. Sjónvarpið hafi ákveðnar skyldur til að efla innlenda dagskrárgerð og ekki síst styðja íslenska kvikmyndagerð. Sjónvarpið hafi skyldur til að kynna menningu sem víðast að t. d. með því að kynna hvað er að gerast í kvikmyndagerð í fjarlægum löndur. Þá á Sjónvarpið að efla margskonar kynnigar á mannlífi, náttúru og þróun í heiminum, reka öfluga og heiðarlega fréttastofu, flytja fréttaskýringar í hæsta gæðaflokki 

PS: Aldrei talsetja kvikmyndir fyrir  fullorðna. Það er hluti af því að kynnast örum menningarheimum að hlusta á framandi tungutak. Textun á að nægja 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband