Ætlum við ekkert að gera í að endurskipuleggja stjórnsýslu landsins?

Gallarnir í stjórnskipun landsins æpa á hvern mann. Strax eftir hrun var það almenn krafa að kallað yrði saman stjórnlagaþing en nú virðist sú krafa haf þagnað eða hún þögguð niður. Þær raddir hafa komið frá Alþingi að það sé ófært að fara að kalla saman Jóna og Gunnur til að setja landinu nýja stjórnaskrá, það sé skýlaust hlutverk Alþingis.

Það er þá ekki úr vegi að rifja upp afrekaskrá Alþingis í því mikla verkefni; að setja landinu nýja stjórnaskrá. Þetta hlutverk var því falið strax við lýðveldisstofnunina 1944 eða því sem næst og til að vera sanngjarn er sjálfsagt að rifja upp hvað þessi merka stofnun hefur gert. Alþingi hefur kjörið Stjórnarskrárnefndir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég held. En út úr því starfi hefur ekki komið nokkur skapaður hlutur, engar tillögur, engar hugmyndir.

Brotalöm

Mér finnst augljóst hvar brotalöm er fyrst og fremst í stjórnskipuninni. Í núverandi skipulagi hefur Alþingi látið kúga sig svo algerlega að það er ekki orðið annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn (framkvæmdavaldið) á hverjum tíma. Á því hefur engin breyting orðið eftir að núverandi Ríkisstjórn tók við. Þessu reyna alþingismenn að mæta með því að stunda malfundaæfingar af kappi, því meira sem sagt er því minna af viti. Fullyrt var í fréttum í dag að þingmannfrumvörp yrðu að fá blessum ráðherra til að fá umræðu og kannski afgreiðslu á þingi.

Efling Alþingis mikil nauðsyn

Ég ætla að leyfa mér að koma með þá tillögu að framkvæmdavaldið (Ríkisstjórn) og löggjafarvaldið (Alþingi) verði aðskilið þannig að Alþingi verði ekki framvegis afgreiðslustofnun fyrir Ríkisstjórn. Óneitanlega kemur upp í huga sú róttæka tillaga Vilmundar Gylfasonar að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu. Á þann hátt erum við að fjarlægjast þingbundnar Ríkisstjórnir, en þau tengsl þarf þó ekki að slíta að fullu. En eitt er höfuðnauðsyn; ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi, þeir eiga að sinna sínum störfum en mæta fyrir Alþingi og einstökum þingnefndum þegar þeir eru þangað kallaðir. Tveir þingmenn, Siv Friðleifsdóttir og Björgvin Sigurðsson, hafa  lagt fram tillögur að breyttri stjórnskipan. Hvorutveggja tillögurnar, Sivjar um að þingmen afsali sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar og tillaga Björgvins um að gera landið að einu kjördæmi, eru kák eitt ef ekki kemur meira til. Ef ráðherrar eiga að segja af sér en sitja a samt á þingi þá getur lítill flokkur, segjum Framsóknarflokkurinn, stóraukið fjölda sitjandi fulltrúa á Alþingi eigi hann aðild að Ríkisstjórn. Ef landið er gert að einu kjördæmi er flokksræðið algjört, ég vil heldur una við það að einhver hafi tvöfaldan atkvæðisþunga. En það má leiðrétta þó landið sé ekki eitt kjördæmi.

Skipun Ríkisstjórnar

Vel má vera að við höldum í þingræðið en gerum a því endurbætur. Með því eins og sagt er að framan að ráðherrar sitji alls ekki á þingi. Þannig er sá möguleiki opnaður að ráðherrar séu ekki síður valdir utan þings en innan. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur staðið stjórnlandsins fyrir þrifum að það sé nánast skylda að ráðherrar séu ætíð valdir úr hópi þingmanna. Hefur það sýnt sig á umliðnum árum að þar sitji endilega hæfasta fólki?

En þetta er aðeins brot af því sem þarf að endurbæta, það gerist ekki nema við hugsum málið og komum með hugmyndir, jafnvel djarfar hugmyndir. 


Rannsóknarskýrslan, stjórnsýslan og stjórnmálamenn

Rannsóknarskýrslan leiðir berlega í ljós að stjórnsýslan í okkar þjóðfélagi er með mikilli brotalöm. Við, þessi litla og fámenna þjóð, hefur byggt upp ótrúlaga margar stofnanir sem eiga að hafa margskonar verkefni. Þar brestur hvorutveggja, að fyrirmæli séu skýr og skorinorð auk þess sem margir lykilmenn brugðust, bæði vegna eigin hæfileikaskorts og ófullkominnar umgjörðar. Ég fagna því þeirri stefnumörkun Ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af stofnanakraðakinu. Það hefur verið lenska undanfarna áratugi að stofna sífellt nýjar og nýjar stofnanir, sumar með æði rýr verkefni. Það er tími til kominn að allir skilji það að hver nú stofnun krefst kostnaðar í aðstöðu og yfirstjórn. Ég er ekki frá því að stundum sé hægt að sameina 4 - 5 stofnanir og láta yfirkostnað einnar nægja fyrir allar.

 Stjórnmálamenn

Það er ekki fagur vitnisburður sem margir stjórnmálmenn fá um sukk og svínarí varðandi prófkjörin. Þau áttu í árdaga að verða lýðræðisleg aðferð við raða á framboðslista en þessi aðferð, prófkjör , hefur snúist upp í andhverfu sína og er orðin smánarblettur á lýðræðinu. Það er mikið rætt um fjárstyrki sterkra fyrirtækja til stjórnmálaflokkanna, þar hefur margt misjafnt komið í ljós. En mér finnst styrkjafarganið til einstaklinga í prófkjörum miklu alvarlegri hlutur. Það má segja að það sé lýðræðisleg nauðsyn að við höfum stjórnmálaflokka, eða þannig höfum við byggt upp okkar lýðræðishefð eins og flestar vestrænar  lýðræðisþjóðir, um það fyrirkomulag má vissulega deila.Fjárstyrkur til stjórnmálflokka er þó styrkur til afla í þjóðfélaginu sem hafa tilgang ætlum við. En fjárstyrkur til einstaklinga í prófkjöri er ekkert annað en viðbjóður sem hefur engan lýðræðislegan tilgang. Aðeins þann tilgang að einstaklingur geti troðið sér framar í goggunarröðina, að einstaklingur geti troðið samherjum sínum niður fyrir sig til að komast í bæjarstjórn eða á Alþingi. 

Er sá hinn sami þar að þjóna lýðræðinu?

Nei, langt frá því, Aðeins að hlaða undir eigin metnað, ekki til að vinna að hugsjónum eða stefnumálum þó það sé látið í veðri vaka. Á Alþingi sitja nú margir sem þangað eru komnir vegna fjár sem þeir hinir sömu hafa betlað út úr fyrirtækjum, þar eru jafnvel fjármunir sem illa eru fengnir og  enginn veit í raun hvaðan eru komnir.

Það er kannski ekki réttlátt að nefna nöfn einstaklinga en ég ætla samt að gera það. Guðlaugur Þór er einhver stórtækasti peningasukkari í prófkjöri, en það eru reyndar allir stuttbuxnadrengirnir í Sjálfstæðisflokknum. Sem Samfylkingarmaður get ég akki annað en fyllst dapurleika yfir því hve þessi flokkur, sem átti að verða ferskur gustur í íslenskum stjórnmálum, hefur fyrirhafnarlaust sogast inn í sukkið, bæði flokkslega og líka einstaklingar sem hafa skarað eld að sinni köku í prófkjörum. Ég lýsi hneykslun minni á því að rumpulýður setjist að heimilum fólks eins og gert var nú síðast við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. En ég lýsi ekki minni hneykslun á framferði hennar, og reyndar annarra Samfylkingarmanna, sem gleymdu öllum hugsjónum og hugsuðu um það eitt að olnboga sig fram fyrir samherjana. Ég segi við þig Steinunn Valdís og ykkur aðra flokksfélaga mína sem gleymduð öllu siðferði:

 Þið sem hafið sogast inn í peningaplokk í prófkjörum eigið að láta ykkur hverfa úr íslenskum stjórnmálum, þið hafið fallið á siðferðisprófinu.

Þrír alþingismenn hafa dregið sig í hlé frá þingstörfum, Björgvin G. Sigurðsson vegna þess sem fram kemur í Rannsóknarskýrslunni, Illugi Gunnarsson vegna stjórnarsetu í sukksjóði Glitnis og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vegna þess að hún hefur sogast inn í fjármálasukk manns síns þegar hann var starfsmaður Glitnis. Þó segja megi að alls sé óvíst um "sekt" þessar þremenninga vantar eitt sárlega í þeirra gjörðir.

Þau áttu að segja af sér sem þingmenn, ekki aðeins að draga sig í hlé og bíða í gættinni, það hefði verið þeirra sterkasti leikur!

En það er fleira "undir teppinu" hjá þingmönnum. Tryggvi Þór Herbertsson sem var forstjóri eins fallbankans og gaf íslensku fjármálkerfi heilbrigðisvottorð skömmu fyrir hrun ásamt bandarískum hagfræðingi, hvað um hann? Ekki vafi á að hann á að segja af sér þingmennsku. Eitt það hlálegast af öllu er þó að Sjálfstæðisflokkurinn dregur inn á þing, í stað Þorgerðar Katrínar, mann að nafni Óli Björn Kárason. Það er ekki aðeins að þar er mikill mannamunur, hann mun seint fylla sæti Þorgerðar Katrínar. En miklu alvarlegra er að þar fer einn af þeim sem gátu valsað inn í bankakerfið og sótt sér fé að vild, hvað var það mikið? Var það ekki um hálfur milljarður króna? Hlálegast er þó svar Óla Björns þegar hann er spurður um þessa skuld, hann segir:

"Þetta er ekki mín skuld. Þetta er lán sem fyrirtæki í minni eigu fékk". sem sagt, hann ber enga ábyrgð á þessari skuld. Hann segir eins og kallinn forðum sem reið eftir götu og hafði þunga bagga á herðum sér og svaraði aðspurður "klárinn ber ekki það sem ég ber".

En það eru margir á þingi sem hafa þegið hár fjárhæðir af bönkunum, skiptir ekki máli þó það hafi að forminu til verið lán, vafningar, eða einhver framvirk vitleysa.

Ég held að nú sé kominn tími til að hver alþingismaður líti í eigin barm af hreinskilni og kjarki. En kannski er það til of mikils mælst.

 


Húsasmiðjan er málsfarssóði eins og fjölmargar aðrar verslanir

Í dag, á sumardaginn fyrsta, er opnuauglýsing frá Húsasmiðjunni í Fréttablaðinu. Rétt hefði verið að skanna fyrirsögnina og birta hana þannig en ég ætla ekki að eyða tíma í það. En fyrirsögnin er þessi:

TAX FREE

sumardaginn fyrsta!

AF REIÐHJÓLUM OG LEIKFÖNGUM

Setningin er ruglingsleg, auk þess hef ég aldrei skilið hve útlendar slettur eru orðnar algengar í auglýsingum verslana að ég ekki tali um málfar fólks í viðtölum í ljósvakamiðlum. Þar sýnist mér að sletturnar versni eftir því sem menntunarstigið er hærra.

Hvað er svona heillandi við að auglýsa TAX FREE, hvers vegna ekki að auglýsa VASK FRÍTT, Það gæti gengið eftir íslenskum málvenjum, styttingin Vaskur af Virðisaukaskattur hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt. Af hverju er svona miklu fínna að auglýsa OUTLET, hvers vegna ekki að nota gamla góða íslenska orðið ÚTSALA.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að málfarssóðarnir eru ekki í verslununum. Þeir eru í auglýsingastofunum. Þar sitja menn og konur sem hafa orðið hjarðmennskunni að bráð, þegar ein beljan mígur verður öllum mál.

En þeir sem auglýsingarnar kosta eiga að vera á verði og gera kröfur um að auglýsingar þeirra séu á góðu og gildu íslensku máli.


Bloggfærslur 22. apríl 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband