6.6.2010 | 13:33
Úr einum öfgum í aðra
Þetta var fyrst skrifað sem athugasemd við bloggTryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara, sem flestir ættu að lesa það sem hann skrifar um þetta efni.
Í grundvallaratriðum er ég sammála þér um flest sem þú segir hér að framan. Við Íslendingar erum gjarnir á að fara öfganna á milli, nú eru stjórnmálflokkar réttdræpir og mér finnst miður að flokksforingi minn, Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, kvað upp dauðadóm yfir flokkakerfinu. Ég tel hins vegar að allir flokkar hafi villst af leið sem kemur greinilegast fram í hinu gjörspillta kerfi prófkjöranna. Þegar ég tók fyrst þátt í prófkjöri fyrir bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi 1970 fyrir 40 árum síðan, þá var ég mikill talsmaður fyrir prófkjör, taldi að þau mundu efla lýðræði innan og utan flokka. Við í Kópavogi héldum prófkjör allra flokka sameiginlega fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1970, þá voru okkar áhyggjur að flokkar færu að læða sér inn í prófkjör annarra eða allra flokka, við höfðum engar áhyggjur af fjármálum í sambandi við prófkjörin enda datt okkur ekki í hug að nota fjármuni til að pota okkur áfram. Sumir munu eflaust þá þegar hafa notað símann óspart, ég var þá svo bláeygur að mér datt ekki slíkt athæfi í hug.
En því miður hafa prófkjör fyrir kosningar, hvort sem er til Alþingis eða sveitarstjórna, orðið eitt versta spillingarbæli sem stjórnmálamenn hafa fallið í.
Það er nokkuð einfeldningslegt að halda að fyrir utan Alþingi og sveitarstjórnir séu flokkur manna sem sé með öllu óspilltur og geti kippt öllu í liðinn. Það séu aðeins þeir kjörnu sem hafi verið kosnir til trúnaðarstarfa sem séu gjörspilltir. Við höfum dæmið fyrir okkur; Borgaraflokkurinn sprakk um leið og hann hafði fengið fulltrúa á Alþingi, ég sé ekki að í Hreyfingunni sé mikill akkur til endurnýjunar.
Við munum áfram hafa þörf fyrir stjórnmálaflokka, en þeir þurfa nýjan grundvöll sem aðeins verður lagður með nýrri stjórnarskrá sem unnin verði á Stjórnlagaþingi þar sem fulltrúar verða kjörnir beinni kosningu af öllum þeim sem kosningarétt hafa. Það er greinilegt að það er andstaða innan Alþingis og stjórnmálaflokka við Stjórnlagaþing. Þar verður almenningur að vera fastur fyrir og láta ekki þá sem, sumir hverjir a. m. k., hafa orðið berir að spillingu, aðallega í prófkjörum
31.5.2010 | 15:41
Ég get ekki þagað
Óvopnaðir friðarsinnar á skipi með farm af nauðsynlegust hjálpargögnum nálgast Gasatrönd og ætlar að láta reyna á það hvort mögulegt verði að koma nauðsynlegust matvælum og lyfjum í land.
Ísraelar sega ekki nei, þeir segja ekkert. Þeir senda hersveit af stað í þyrlum sem ryðjast niður á þilfar hjálparskipsins.
Þar eru 19 friðarsinnar myrtir með köldu blóði, aðrir á þriðja tug særðir og skipið hertekið.
Hafi nokkurn tíma verið til ríki á síðari árum sem tekið hefur upp viðbjóðslega starfshætti nasismans, sem drap fjölmarga Gyðinga auk fjölda annarra af öðrum kynþáttum, svo sem sígauna og slava, þá er það Ísraelsríki.
Hve lengi ætla þjóðveldi heims að láta þetta ofbeldisríki komast upp með sínar illgjörðir.
Munu Bandaríkjamenn og Vestræn ríki endalaust skríða fyrir þessum ofbeldismönnum og barnamorðingjum?
31.5.2010 | 15:22
Froðufellandi bloggarar ryðja úr sér hroða og bulli, Sigmundur Davíð endanlega fallinn á prófinu
Ég hef satt best að segja hikað við að blogga um kosningarnar og þá útkomu sem stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn fengu. Hef reyndar verið að velta því fyrir mér mér að hætta að blogga; þannig líst mér á marga þá sem þar eru á ferðinni, marga sem ekki hafa minnstu rök fram að færa en froðufella af innri sálarkreppu. Ég ætla að láta það vera að nefna nöfn að þessu sinni. En það er sláandi að þeir sem hæst láta og nota eingöngu illmælgi og aldrei rökum virðast vera í sérstöku uppáhaldi bloggstjóra, fá að trjóna hæst á toppi nánast hvenær sem þeir láta hroðann vella.
Það er ekki nokkur vafi á því að þessar kosningar eru hrikalegur áfellisdómur yfir öllum stjórnmálaflokkum og flestum stjórnmálamönnum. Það ætti að vera lýðum ljóst að stjórnmálamenn og stjórnmálflokkar þurfa að skoða sín innri mál og ekki síst að komast upp úr hjólförum skotgrafanna þar sem menn liggja og nota gamlar og úreltar aðferðir til að klekkja á andstæðingum, þar er enginn undanskilin. Í sjónvarpsumræðu foringja stjórnmálflokkanna í gær tókst þeim að halda sér á mottunni að einum undanskildum. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hinn ungi formaður Framsóknarflokksins. Enginn maður hefur fengið annað eins tækifæri og hann í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár til að efla sinn flokk og ná því að verða virtur og öflugur stjórnmálamaður. En hann missti af því tækifæri fyrir eigin tilverknað. Sigmundur Davíð var víðs fjarri þegar allt sukkið byrjaði, hann (að ég held) kom ekki nálægt stuldinum á ríkisbönkunum þremur, hann ber því (að ég held) enga ábyrgð á þeim gegndarlausu mistökum og afbrotum sem gerðu það að verkum að bankarnir fóru allir á hausinn og stjórnendur þeirra létu greipar sópa um fjárhirslurnar, þurftu ekki byssur, lambhúshettur eð skóflur til að grafa göng eða dýnamít til að sprengja upp peningahirslur. Þeir gengu um með hvíta flibba, í nýjum jakkafötum og notuðu tölvurnar, þær fluttu peninga á brott miklu hraðar og öruggar en einhverjir stolnir bílar á fölskum númerum.
Ef einhver maður fékk gullið tækifæri til að lyfta íslenskum stjórnmálum á hærra plan var það Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. Ég satt að segja trúði vart mínum eigin augum og eyrum fyrst þegar þessi ungi foringi lét í sér heyra. Í stað yfirvegaðrar umræðu og skarprar greiningar á ástandinu kom þessi nýi foringi fram í gömlum lörfum gamallar rifrildispólitíkur sem fór langt fram (eða aftur) fyrir alla þá sem voru á hinu pólitíska sviði. Hann fékk fljótlega ströng skilaboð frá þreyttum íslenskum almenningi; svona vinnubrögðum erum við orðin dauðþreytt á. Framsóknarflokkurinn fór niður hvarvetna í öllum skoðanakönnunum og arfur Rannveigar Þorsteinsdóttur frá því fyrir rúmum 60 árum, konunnar sem vann það afrek að vinna sæti í Borgarstjórn Reykjavíkur í sjálfu hreiðri íhaldsins fyrir Framsóknarflokkinn, það afrek var nú þurrkað út og það geta Framsóknarmenn þakkað þeim sem þeir kusu sem sinn forystumann, hann heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Ég hef beðið eftir því að einhverjir innan Framsóknarflokksins segðu; hingað og ekki lengra. Og loksins gerðist það. Einhverstaðar fyrr í mínu bloggi spáði ég því að Guðmundur Steingrímsson mundi rísa upp og mótmæla lítilmótlegum vinnubrögðum og orðfæri þessa nýja formanns. Og nú er stundin runnin upp. Hver ætti frekar að gera það en hann, hver ætti frekar að taka upp merki föður síns Steingríms eða afa síns, Hermanns Jónasonar.
Og auðvitað létu þeir sem glefsa ekki lengi bíða eftir sér. Einhver stuttbuxnadeild í Húnaþingi rís upp gegn Guðmundi og vill ekkert annað en staglið sem Sigmundur Davíð innleiddi, láta sem mest í sér heyra, láta rök og sanngirni lönd og leið.
Það var dapurlegt að einn flokksforinginn sem fór niður í "skotgrafirnar" í umræðunni í Sjónvarpinu í gær. Sigmundur Davíð lét svo ummælt að minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms hefði ekki gert eins og hún" átti aðgera", líklega ætlaði Sigmundur Davíða að fjarstýra henni því vissulega átti hann stóran þátt í því að sú stjórn var mynduð. Og klikkti út með það að núverandi Ríkisstjórn "hefði ekki gert neitt". Þá var Steingrími J. nóg boðið og bað Sigmund Davíð að koma upp á skurðbakkann.
Ég hef ekki trú á þangað komist hann nokkurn tíma, hanns kjörlendi er að liggja í skotgröfunum.
29.5.2010 | 10:26
Mun sjónvarsumræðan einhverju breyta?
Foringjar framboðanna í Reykjavík fengu mikinn tíma hjá Sjónvarpinu í gær til að láta ljós sitt skína. Ég verð að hrósa Sjónvarpinu fyrir það að láta alla foringja framboða í Reykjavík koma til umræðunnar. Þannig stóð Stö2 ekki að máli, hjá þeim fengu aðeins þeir, sem spáð er að ná fulltrúa í Borgarstjórn, að koma en hinir voru útilokaðir. Vægast sagt mjög ólýðræðisleg gjörð.
En má ætla að þessari umræða í gærkvöldi í Sjónvarpinu breyti einhverju um niðurstöður kosninganna? Líklega hefur ekki stór hópur horftekki á þennan umræðuþátt, sérstaklega held ég að það eigi við yngra fólk og það er eflaust hagstætt Jóni Gnarr og Besta flokknum.
Það er freistandi að gefa umsögn um hvernig foringjarnir stóðu sig í umræðunni. Hanna Birna er mjög frambærilegur stjórnmálamaður og ekki kæmi mér á óvart ef Sjálfstæðisflokknum tekst að endurheimta traust að hún verði innan fárra ára orðin foringi flokksins. Hjá Hönnu Birnu fer tvennt saman sem fáir stjórnmálmenn hafa til brunns að bera; hún er bæði mælsk og rökföst. Ef Sjálfstæðisflokknum tekst að halda nokkru fylgi er það ekki vafi að það er borgarstjóranum núverandi að þakka, mér sýnist ekki að það lið sem hún hefur með sér geri mikla lukku.
Dagur B. Eggertsson komst vel frá umræðunni og honum tókst að skýra stefnu Samfylkingarinnar í borginni, en flokkurinn leggur höfuðáherslu á atvinnumál. Það liggur í augum uppi að atvinna, að fólk hafi atvinnu, að til séu fyrirtæki með góðu starfsliði sem skapa verðmæti, er undirstaða alls þess sem gera skal og gera verður því þar liggur grunnurinn að tekjum borgarinnar og allra sveitarfélaga. Ég þurfti nokkurn tím til að átta mig á þessari stefnu; hvernig kjörnir fulltrúar í borgarstjórn geta haft afgerandi áhrif á aukningu atvinnu en Degi tókst ágætlega að skýra það.
Þessir tveir foringjar stóðu sig áberandi best í gær en auk þeirra við ég nefna Baldvin foringja Reykjavíkurlistans. Baldvin komst ekki mikið að en hann benti rækilega á "sárið" í borginni, Reykjavíkurflugvöll. Það er sérstakt að það skuli jafnvel vera meirihluti fyrir því í Reykjavík að flugvöllurinn verði festur í sessi um ókomin ár. Baldvini tókst að benda á fjárhagslega þýðingu þess að flugvöllurinn fari sem fyrst, þar sé vissulega mikill og góður grundvöllur fyrir bættum fjárhag borgarinnar, jafnvel strax og ákvörðun er tekin um að flugvöllurinn fari.
Helga frá Frjálslyndum komst nokkuð vel frá umræðunni þó hún hefði sig ekki mikið í frammi.
En síðan fór að halla undan fæti. Vinstri grænir eru stöðugt að verða einkennilegra fyrirbrigði í íslenskri pólitík. Hins vegar þekki ég vel þennan óm sem kom fram hjá Sóleyju Tómásdóttur frá árum mínum í Alþýðubandlaginu. Löngum var ég þar litinn illu auga frá "vinstri deildinni" sem leit hornauga alla þá sem ekki voru opinberir starfsmenn eða háskólafólk. Þeir sem ráku eigin fyrirtæki voru álitnir kapítalistar af "últraliðinu" og þar gyllti umfram allt að vera nógu "harður" og berja á allt og öllu sem ekki samrýmdist þeirra últra skoðunum. Sóley féll rækilega í þann fúla pytt í gær. Tuggði stöðugt um umönnunarstéttir, svo mikilvægar sem þær eru, en gaf ekkert upp um baráttu fyrir aukinni atvinnu og útrýmingu atvinnuleysis. Ég endurtek enn að án þess að lagður sé grunnur verður ekkert hús byggt. Ég man vinstra liðið í Alþýðubandalaginu sem ætíð hafði allt að því fyrirlitningu á grunninum en vildi endilega byggja hátimbraðar hallir og byrja helst á efstu hæð og turninum!
Og hvað með Gnarr og hans flokk, Besta flokkinn. Jóni tókst ekki einu sinni að vera skemmtilegur, margtuggði um hvítflibbafangelsi á í Arnarholti fyrir útlendinga, uppskar smá hlátur þegar hann sagði að "hann hefði aldrei flutt flugvöll". Ég býst við að Besti flokkurinn fái talsvert af atkvæðum en ef almennt hefur verið horft á umræðuna þá getur tæplega verið að fylgi flokksins hafi haldist uppi, þvílíkur fíflagangur.
Þá er sögu Framsóknarflokksins lokið að sinni í Borgarstjórn Reykjavíkur. Einar Skúlason var mjög lélegur í umræðunni og reyndi stöðugt að tyggja um hina miklu "endurnýjun" Framsóknarflokksins. Hvað á hann við. Sigmund Davíð formann? Ef hann er endurnýjunin þá byggist hún á því að fara aftur til fortíðar, ef tekið er mið af SD á Alþingi þá hefur þessi nýi foringi fært alla umræðu þar aftur til þeirra tíma fyrir áratugum sem orðhengilsháttur og þras þótti helsti aðall málafylgjumanna .
Og þá er aðeins eftir eitt furðulegasta fyrirbærið í borgarstjórnarpólitíkinni, Ólafur Magnússon. Mottóið í hans rökhyggju, bæði þegar hann fékk orðið eða gjammaði stöðugt fram í hjá þeim sem orðið höfðu, var "ég, um mig, frá mér, til mín". Satt best að segja fannst mér framganga Ólafs vera dapurleg og það er kominn tími til að hann fái endanlega lausn frá borgarmálum í Reykjavík. allavega lausn frá því að verakjörin fulltrúi. Það var ekki uppbyggjandi að sjá fyrir sér mann með Messíasar komplex á háu stigi.
Þá kom að því. Steinunn Valdís segir af sé þingmennsku fyrir að hafa þegið hátt í 13 milljónir í styrki frá bönkum og bröskurum til handa sjálfri sér til að pota sér fremst í prófkjöri síns flokks; sem sagt til að geta tranað sér fram fyrir samherja sína, til að geta troðið þeim aftur fyrir sig. Ég sé enga ástæðu til að mæra þessa ákvörðun Steinunnar Valdísar, hún átti fyrir löngu að vera búin að sjá að með gjörðum sínum í síðustu prófkjörum Samfylkingarinnar sýndi hún mikinn siðferðisbrest. Það er engin afsökun að peningasníkjur hafi verið viðtekin venja. Hún var líka stórtækust í sníkjunum innan síns flokks en vissulega eru þar innan dyra fleiri sem ættu að skoða sína framgöngu. Ég hef margsinnis sagt að ég er í Samfylkingunni og geri þess vegna meiri kröfur til þeirra sem eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og á Alþingi fyrir Samfylkinguna en annarra flokka manna.
Ég lýsi því einnig yfir að viðbrögð Þórunnar Sveinbjörnsdóttur við þessum tíðindum, að Steinunn Valdís segði af sér, voru lágkúruleg svo ekki sé meira sagt. Hún hrósaði Steinunni Valdísi og tók sérstaklega fram að afsögn hennar væri fyrst og fremst til að styrkjar flokkinn, Samfylkinguna. En hvað með Alþingi, Borgarstjórn Reykjavíkur, hvað með þjóðina? Þarna birtist nákvæmlega það sama og kom fram hjá Þorgerði Katrínu þegar hún dró sig í hlé frá þingmennsku. Gjörðin var fyrst og fremst til að styrkja flokkinn hennar, Sjálfstæðisflokkinn, annað virtist ekki skipta máli.
Flokksræðishugsun þeirra sem nú eru í valdastöðum í þjóðfélaginu er orðið mein sem þessir sömu eru nú að súpa seiðið af.
En hvað um aðra stórbetlara í öðrum flokkum, ætla þeir að sitja sem fastast? Hvað um Guðlaug Þór, ekki var Steinunn Valdís hálfdrættingur á við hann í styrkjum til að knésetja félaga sína. Hvað um alla hina?. Steinunn Valdís hefur sýnt fordæmi sem stillir mörgum öðrum stjórnmálamönnum upp við vegg.
Þeirra er valið, er þeirra innri spilling á svo háu stigi að þeir sjá ekkert athugavert við eigin gjörðir?
Svo kemur næsta vandamálið. Um leið og einhver segir af sér kemur varamaður inn. Ég held að margir séu stöðugt með hroll eftir að Óli Björn Kárason, holdgervingur óheftrar frjálshyggju, maður sem skuldaði í bönkunum hálfan milljarð (ekki hann sjálfur, félag sem hann átti, kom honum ekki við, ekki ber klárinn það sem ég ber eins og karlinn sagði) tók sæti hennar á Alþingi.
Varamaður Steinunnar Valdísar kemur inn, það er Mörður Árnason. Ekki veit ég neitt um hvort Mörður hefur þegið styrki eða farið í sníkjur, tel samt nauðsynlegt að hann geri hreint fyrir sínum dyrum.
23.5.2010 | 13:39
Þjóðremba nær nýjum hæðum hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur náði hæstu hæðum í þjóðrembu með sinni fáránlegu tillögu um að skora á Ríkisstjórnina að hún komi í veg fyrir að Evrópusambandið taki umsókn Íslands til umræðu og líklega afgreiðslu á 17. júní af því að þessi dagur er þjóðhátíðardagur Íslendinga!!!
Aðeins Oddný Sturludóttir sá hversu fáránleg þessi ályktun var og gerði sérstaka bókun gegn því að ÍTR færi að skipta sér af utanríkismálum. En sex ráðsmenn voru einhuga um þessa endemisþvælu. Það virðist svo að ýmsir umhverfist algjörlega ef minnst er á umsóknaraðild Íslands að ESB. Umsóknin er þó einganveginn ákvörðun um inngöngu, við vitum ekki hvað kemur í ljós, en það sem út úr þeim viðræðum kemur ætti að vísa öllum veginn hvort sem er gegn inngöngu eða með inngöngu.
Ég beini því til sexmenninganna hvort þeir ættu ekki að snúa sér frekar að því að starfa innan sértrúarhópa þar sem bókstafurinn blífur. Vottar jehóva væri þeim ábyggilega góður staður eða þá Krossinn. Þar vantar sárlega nýja stríðsmenn sem láta sig ekki aðeins sig varða trúna einu og sönnu. Landsmálin munu jafnvel skyggja á hin háleitari markmið, sanna trú, þar sem Gunnar í Krossinum mun jafnvel fara í framboð í næstu forsetakosningum.
23.5.2010 | 12:13
Veldur olídæling úr iðrum jarðar jarðskjálftum?
Mikið hefur verið deilt á olíuleit og olíuvinnslu úr iðrum jarðar og þá aðallega vegna tveggja raka á móti slíku. Hættan af olíuslysum eins og nú er alvarlegt mál á Mexíkóflóa og að þar væri verið að vinna kolefni sem mundu auka koltvísýring CO2 í lofthjúpi jarðar. Olíuslysin eru staðreynd og eiga mjög líklega eftir að verða enn hrikalegri í framtíðinni. Hin mótrökin eru að með brennslu olíu muni CO2 magnið aukast og þar með muni hnattrænn hiti hækka. Ég hef oft og áður sett fram mín sjónarmið sem eru þessi:
CO2 er ein mikilvægasta gastegund heimsins og án hennar yrði hér enginn jarðagróði og súrefni takmarkað. Kenningin um að CO2 magn hækki hita hnattrænt hefur aldrei verið sönnuð. Hækkun hita er eitt, aukning CO2 annað. Persónulega óttast ég meira að hnattrænt fari hiti lækkandi en hækkandi, það er öllum aðgengilegt að kynna sér hvaða afleiðingar litla ísöld hafði á norðurhveli jarðar. Á árunum 1400 fram til 1800 var hnattrænn hiti skelfilega lágur eftir að hafa verið mun hærra en hann er í dag á landnámsöld, árin 900 fram til 1400.
En nú hefur The University of Texas Institut for Geophysics (UTIG) sett fram ógnvænlega kenningu sem vert er að hugsa um. Stanslaus olíuvinnsla úr iðrum jarðar tæmir stóra geyma í jarðskorpunni, þar með hverfur sá mikli þrýstingur sem olía og gas myndaði. Öll sú spenna sem sem sá þrýstingur orsakaði hverfur og hvað þá? Er ekki líklegt að spennan í jarðskopunni færist til, er það svo ólíklegt að það geti orsakað jarðskjálfta?
Það væri fróðlegt ef jarðvísindamen okkar létu frá sér heyra um þessa kenningu.
Örfá atriði í þetta skipti.
Það eru allir að berjast fyrir "að fjölga atvinnutækifærum". Í mínu ungdæmi gerðu menn sitt besta til "að auka atvinnu". Þetta sýnir í hnotskurn hvernig hugtök eru sett fram á nýjan hátt með fjölgun atkvæða. Í fyrra tilfellinu eru atkvæðin 10 en í því seinna 6. Þetta sýnir okkar málþróun. Þar fyrir utan er áferð setninganna þeirri fyrri í óhag finnst mér, en eru það kannski elliglöp?
Enn bendi ég þeim sem skrifa texta á, hvort sem það er á blogginu eða í öðrum fjölmiðlum, hve orðið "staðsett" er ofnotað og það spillir næstum alltaf textanum. Reynið næst að lesa yfir textann ykkar og athugið hvort orðið "staðsettur" kemur þar fyrir. Fellið "staðsettur" brott. Ég er ekki í nokkrum vafa að allir munu sjá að það er nær alltaf til bóta.
Ekki má gleyma garminum honum Katli. Íþróttafréttamenn segja gjarnan að "báðir" hafi skorað fimm mörk. Eftir mínum skilningi þá hefur hvor leikmaður skorað tvö og hálft mark, ekki satt.? Eða eiga bögubósarnir við að "hvor"leikmaður hafi skorað 5 mörk?
19.5.2010 | 14:43
Mikið umstang út af engu
Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Það er allt í lagi og enginn tístir einu sinni þó útlendingar eignist öll hlutabréf í Marel eða Össuri. En að útlendingar eignist HS-orku er ekki það sama og útlendingar eignist auðlindir Íslands, þær eru efir sem áður í eigu þjóðarinnar. Ég stórefa að það sé hagkvæmara fyrir neytendur að Árni Sigfússon stýri HS-orku frekar en Kanadamaðurinn. Það er lítill vandi fyrir útlendinga sem eignast nær öll hlutabréf í Marel eða Össuri að segja einn daginn "við viljum ekki hafa okkar fyrirtæki á Íslandi, við förum með það til Bangladess". Engin getur sagt neitt.
En hvað með HS-orku?
Það fer enginn með það fyrirtæki burtu af Íslandi. Það vinnur úr íslenskum auðlindum og fari það burt er enga auðlindaorku að hafa. Kaupendur orkunnar eru rótfastir á Íslandi, Suðurnesjamen, Álver sem verða ekki svo auðveldlega flutt burtu á einni nóttu.
Það er dálítið broslegt þetta upphlaup Vinstri grænna vegna kaupa Kanadamannsins á HS-orku. Þetta er búið að liggja fyrir lengi að það mundi gerast og HS-orka var þegar að miklu leyti í útlendri eigu. Ég held að upphlaup Vinstri grænna komi þessari sölu sáralítið við.Þarna eru pólitísk átök til heimabrúks, innan flokksins og gagnvart samstarfsflokknum.
Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að Ríkissjóður, sem á nánast eingöngu skuldir, fari að reiða fram 16 milljarða króna aðeins til að koma í veg fyrir að í stað þess komi 16 milljarðar í útlendum gjaldeyri inn í landið?
Ég mun sofa vært þó HS-orka sé í eigu Kanadamangsins, ekki ólíklegt að það væri æskilegt að fleiri íslensk fyrirtæki fengju slíkar útlendar vítamínsprautur.
En hvað um Vinstri græna? Það heyrist ekki hósti né stuna frá þeim um kvótamálið? Er allt í lagi þó þjóðin hafi verið rænd auðlind sinni, er það í lagi ef þeir sem rændu eru íslenskir og það langt fram í ættir og þar að auki rammasta afturhald semfyrirfinnst á landi hér?
Thor Jensen ætti varla nokkurra kosta völ að fá að nýta íslenska auðlind í dag. Var hann ekki danskur að uppruna, báðir foreldrarnir danskir og Thor fæddur í Danmörku?
18.5.2010 | 17:34
Má ekki bjóða þér drullu úr dós?
Ekki veit ég hver fyrstur fann upp það þjóðráð að setja upp heitan pott, var það ekki Snorri Sturluson eða Guðrún Ósvífurdóttir? Heitir pottar urðu til í Kanada, Noregi og líklega í Sviss. Fyrstu heitu pottarnir í þessum löndum fylgdu vetraríþróttum og snjó. Sá galli fylgdi að þetta var dýr lúxus, vatnið varða að hita upp með rafmagni eða viði og þess vegna kom ekki til greina að kasta vatninu eftir hverja pottferð. En þá var hætta á hverskyns sýkingum og lausnin varð sú að setja í hvern pott dælu sem dældi vatninu í gegnum hreinsibúnað eins og gert er í sundlaugum. Þetta var ekki nóg frekar en í sundlaugunum, það þurfti klór í vatnið ásamt ýmsu öðru gumsi svo það er ekki fjarri sem einn góður maður sagði "það kostar mikla peninga að eiga og reka pott, það þarf að kaupa mikið af drullu í dósum". Þess vegna urðu heitir pottar í fyrrnefndum löndum og grannríkjum aldrei almenningseign, það voru aðeins þeir efnameiri sem eignuðust lúxusinn og þá helst þeir sem áttu fjallahús og stunduðu vetraríþróttir.
En svo uppgötvuðu menn að til var land sem hvorki þurfti að borga fyrir rafmagn eða drullu í dósum eða dýran hreinsibúnað. Það var landið þar sem heitt vatn spratt upp úr jörðinni, nær allir hituðu hús sín með heitu jarðvatni, sendu síðan vatnið undir bílastæðið til að halda því snjó- og hálkulausu.
Þetta land er í miðju Norður-Atlantshafi og heitir ÍSLAND.
Í þessu landi varð heiti potturinn almenningseign, stofnkostnaður lágur og reksturinn einnig, kostaði kannski 50 - 60 krónur hver áfylling, Síðan var vatnið látið renna sína leið og fyllt á aftur við næstu pottferð, enginn hreinsibúnaður, engin drulla úr dósum.
Þetta er ófögnuðurinn sem fylgir rafhituðum pottum.
Tveir íslenskir framleiðendur bjuggu til heita potta, svokallaðar skeljar og eru þær mjög víða við íslensk hús. En þessir tveir framleiðendur voru ákaflega lélegir sölumenn og markaðsfræði var þeim lokuð bók, nokkuð sem hefur verið mjög algengt fyrirbæri hér á landi um langan aldur.
Og það var ekki að sökum að spyrja; innflytjendur og seljendur lagnaefnis í hita og neysluvatnskerfi gripu gæsina. Þeir byrjuðu allir að flytja inn rafhitaða heita potta sem nær engin þörf var fyrir hér á landi nema í undantekningartilfellum, aðeins á þeim fáu stöðum sem ekki er kostur á jarðhitavatni. Hver um annan þveran fylltu þeir verslanir sínar af innfluttum rafhituðum pottum sem voru rándýrir, en þetta var að vísu á þeim tímum sem Ísland sigldi inn í þá hátimbruðu höll að verða mesta fjármálveldi heimsins. Og lagnasalar græddu morð fjár á trúgirni og snobbi landans.
Nú var ekki nógu fínt að sitja í skeljum frá Trefjum eða X-Norm sem í var aðeins hreint íslenskt vatn úr iðrum jarðar. Nú vildu allir vera ekki vera minna en "upper middle class" og ekki missa af unaði klórvatnsins.
Já, það er dapurlegt hvernig íslenskir lagnasalar og fleiri lukkuriddarar hafa leikið þessa þjóð. Sannfært hana um að hún verði að sitja í vatni sem er blandað drullu úr dósum og ég spyr að lokum:
Ætlar landinn að halda áfram að láta óprúttnar lagnaverslanir og lukkuriddara hafa sig að fífli?
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar