29.6.2010 | 11:26
Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar?
Landsfundi Sjálfstæðisflokksins er lokið. Á fundinum bar hæst sú fáránlega tillaga, sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að sagt er, að Ísland dragi umsókn sína um inngöngu í Evrópusambandið til baka.
Satt best að segja hafði ég það mikið álit á Sjálfstæðisflokknum að mér datt ekki í hug að svo heimskuleg tillaga yrði samþykkt á landsfundi flokksins. En það er líklega enn einu sinni að sannast það sem Hannes Hólmstein sagði "sjálfstæðismenn eru ekkert að hugsa um pólitík, þeir vinna á daginn og grilla á kvöldin".
Ömurlegast er þetta fyrir formann flokksins Bjarna Benediktsson sem var gerður afturreka með hófsamari tillögu "að leggja aðildarumsóknina á hilluna í bili". Þetta afhjúpar tvennt rækilega. Mikill meirihluti landsfundarfulltrúa setur sig ekki á nokkurn hátt inn í mál sem fyrir fundinum liggja, núverandi formaður Bjarni Benediktsson hefur mjög takmörkuð áhrif og völd. Í sjónvarpsfréttum frá landsfundinum brá fyrir gamalkunnu andliti Davíðs Oddssonar sem gekk glaðbeittur milli borða og heilsaði fólki kampakátur.
Þarna fór sá maður sem öllu ræður í Sjálfstæðisflokknum í dag, hann leggur allar línur og það er eins gott fyrir Bjarna Benediktsson og hans meðstjórnendur að lúta vilja þess sterka, annars munu þeir hafa verra af. Svo virðist eins og megnið af landfundarfulltrúum hafi ekki skilið um hvað var kosið, flestir héldu að það væri verið að kjósa um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki.
Því fór víðs fjarri. Aðildarviðræður eru til þess að við fáum allir landsmen þau svör sem við verðum að fá til að hægt sé að ljúka þessu máli. Aðildarviðræðurnar leiða í ljós hvaða kosti það hefur fyrir Ísland að ganga í ESB og ekki síður; hvaða fórnir við verðum að færa séu þær einhverjar. Þá fyrst getur þjóðin svarða þeirri spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við göngum í ESB eða ekki. Ég er hlynntur inngöngu en get engan vegin sagt til um það nú hvort ég munu greiða atkvæði með inngöngu eða hafna. Það get ég ekki fyrr en svörin liggja á borðinu.
Hvers vegna vilja ýmis sterk öfl í þjóðfélaginu allt til vinna til að koma í veg fyrir áframhaldandi aðildarviðræður?
Sterkustu öflin eru Bændasamtökin og Landsamband íslenskra útvegsmanna að ógleymdum ritstjóra Morgunblaðsins Davíð Oddssyni, og þar með því málgagninu sem hann stýrir, Morgunblaðinu. Það er ekki óeðlilegt að ritstjóri ráði mestu um stefnu þess blaðs sem hann stýrir en það háskalega er að enn þann dag í dag ræður Davíð Oddsson ekki aðeins Morgunblaðinu, hann ræður einnig öllu í einum stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokknum. Kjörnir stjórnarmenn flokksins, ekki síst formaðurinn Bjarni Benediktsson formaður eru ekki annað en strengjabrúður í höndum Davíðs Oddssonar og það er enginn í augsýn sem ógnar hans veldi. Sjálfstæðismenn svo sem Þorsteinn Pálsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Benedikt Jóhannesson og margir fleiri skoðanabræður þeirra fengu viðvörun á landsfundinum. Gegn þeim er spjótinu beint þegar formaður flokksins var gerður afturreka með sína tillögu um aðildarviðræðurnar að skipan úr Hádegismóum, þannig samþykkt að aðildarviðræður skyldu stöðvaðar skilyrðislaust.
En ég hef ekki svarað því enn hvers vegna þessu sterku afturhaldsöfl sem ég að framan nefndi leggja höfuðáherslu á að stöðva aðildarviðræður?
Það er augljóst mál hver ástæðan er. Það er óttinn við hvaða árangri við náum í aðildarviðræðum það er óttinn við það að þar muni komi í ljós að kostirnir séu yfirgnæfandi af inngöngu, ókostirnir sáralitlir. Það kann að koma í ljós að okkur standi til boða að ráða áfram alfarið yfir fiskinum í sjónum og landhelginni og að sjálfsögðu; óskert yfirráð yfir öllum auðlindum til lands og sjávarbotns eins og öll aðildarríki ESB hafa haldið við inngöngu.
Þessi svör mega ekki sjá dagsins ljós að áliti fyrrnefndra afturhaldafla; reyndar gleymdi ég þar að nefna afturhaldið í Vinstri grænum undir forystu Ögmundar Jónassonar og Ásmundar Daða.
27.6.2010 | 10:55
Enn seilist ég í athuagasemdir sendar Ómari Ragnarssyni
Ég er greinilega orðin vafasamur að áliti Ómars. Þessi athugasmd mín varð að fara í "síu" og birtist ekki fyrr en Ómar er búinn að meta hana. Þar sem alls óvíst er að hún birtist set ég hana á mitt eigið blogg.
Svar þitt er athyglisvert. Ekki vegna sem þú segir heldur vegna þess sem þú segir ekki. Vissulega hafa einhverjir verið að halda því fram að Nesjavallasvæðið væri ofnýtt og auðvitað ert þú mannlegur eins og við öll og villt frekar taka undir það sem fellur að þínum skoðunum þó ekki séu það staðreyndir. Að halda því fram að orkan á Hellisheiði (Hengli) sé ofnýtt vitum við báðir að stenst ekki. En það er rétt að hafa eitt í huga; jarðgufusvæðið á Nesjavöllum og Hellisheiði, eða á Hengilsvæðinu, hlýtur að vera samtengt. Það er viðurkennt að mikil jarðgufuorka er ónýtt á Hengilsvæðinu og þess vegna er þar ekki um neina ofnýtingu að ræða.
Á Reykjanesi eru allt aðrar aðstæður og ég get tekið undir það að vissulega þarf að fara þar fram af meiri varfærni en á öðrum jarðhitasvæðum. Það er ekki síst út af áhrifum sjávar inn í hraunið.
En það sem ég tek eftir að þú, ein þekktasti náttúruverndarsinni á landinu, segir ekki orð um mínar ábendingar um hrikalega sóun á náttúruauðlindum í Þingeyjarsýslum og á þar fyrst og fremst við Kröflu. En ekki síður við þau jarðgufuorkuver sem ætlunin er að reisa í þessum landhluta sem eiga einungis að framleiða rafmagn. Þetta eru fræði sem Jóhannes Zoega benti á í mikilli alvöru og ég tók einmitt undir í einum af pistlum mínum "Lagnafréttum" í Morgunblaðinu undir titlinum "Margt er gott sem gamlir kveða".
Ég tel sjálfsagt að við nýtum okkar orkuauðlindir en það er ekki sama hvernig það er gert. Þessi seinni tíma flokkun á landsmönnum í "virkjunarsinna" eða "virkjunarandstæðinga" er ekkert annað en heimskan einber. Ég hef að framan bent á að að virkjunarsvæðin í Hengli og Kröflusvæðinu annarsvegar og Reykjanesi hinsvegar eru eru mjög ólík og þau þarf að nýta samkvæmt því. Ég er fæddur á austurbakka Þjórsár og man enn vel hvað alla þar fyrir austan dreymdi um að áætlanir Titan félagsins og Einars Benedikssonarum um virkjanir, sérstaklega virkjun Urriðafoss, yrðu að veruleika. En allt er breytingum undirorpið og ýtrustu áætlanir Landvirkjunar um uppistöðulón í byggð finnst mér meira en lítið vafasamar. Ég er engan veginn andstæður uppistöðulóna vegna virkjana, það þekktasta er Elliðavatn austan Kópavogs sem varð til við stífluna í Elliðaánum við núverandi Höfðabrekkubrú. En uppistöðulónin í Þjórsá krefjast mikilla fórna í grænum grundum og jafnvel heilum jörðum. En kannski er hægt að fara þarna bil beggja og nýta orkuna í Þjórsá niður í byggð í viðbót við það sem þetta mesta vatnsfall landsins (lengsta) er stöðugt að skila landmönnum öllum.
26.6.2010 | 10:26
Þetta var skrifað sem athugasemd til Ómars Ragnarssonar í allri vinsemd
Ómar, mér finnst þú skeiða léttilega fram hjá ýmsu eins og kemur oft fram hjá ykkur sem farið stundum offari í umhverfismálum. Það hefur hvergi komið fram svo ég viti að verið sé að ofnýta Nesjavelli eða Hellisheiði. Reyndar er það viðurkennt að Hellisheiði, eða réttara sagt Hengillinn, býr yfir gífurlegu ónotaðri orku.
Okkur Jóhannesi Zoega var vel til vina og ég held að ég viti í hvað þú ert að vitna í þegar þú vitnar í Jóhannes. Hann varaði við því að nota jarðgufu einungis til raforkuframleiðslu því með því verður yfirgengileg sóun á þeirri orku sem við fáum í iðrum jarðar. Með því að nota gufuaflið einungis til raforkuframleiðslu nýtum við gufuaflið einungis um 15%, annað glatast. En með því að nota gufuaflið fyrst til raforkuframleiðslu og sína í öðrum lið til að framleiða heitt vatn er nýtingin komin upp í 85% og er vart hægt að ætlast til að hún verði betri en þó eru til leiðir til að hækka nýtinguna. Þetta er það sem gert er á Nesjavöllum og verður einnig gert í Hellisheiðarvirkjun. En það er til orkuver sem einungis notar gufuaflið til raforkuframleiðslu og það er Krafla, tæp 15% nýting, annað er glatað. Við Kröflu er ekkert þéttbýli sem gæti nýtt heitt vatn frá orkuverinu til upphitunar.
En er þá engin leið til að nýta þá orku sem glatast og hverfur endanlega? Mér verður oft hugsað til Kröfluvirkjunar og satt best að segja þá finnst mér þetta skelfilegt; að við séum að sóa orku á þennan hátt. Ef frekari gufuaflsvirkjanir verða reistar á þessu svæði til að afla orku til álvers eða annarrastóriðju þá finnst mér þessi skelfilega sóun á auðlindum okkar verða ennþá skelfilegri.
Hvað er til ráða?
Það er einfalt mál tiltölulega, eins og sannast á Nesjavöllum og á Hellisheiði, að hita upp vatn með gufu eftir að hún hefur verið notuð til raforkuframleiðslu.
En hvernig á að nýta það heita vatna?
Hve mikið gætum við framleitt af grænmeti og blómum með allri þeirri orku sem ef til vill verður til boða í Þingeyjarsýslum? Er þarna um stóriðju að ræða sem enginn hefur gefið gaum? Getum við byggt risastórt ylræktarver fyrir norðan og þá kemur spurningu hvort þetta ylræktarver þarf ekki einnig á raforkunni að halda. Ef ylræktarverið á að framleiða grænmeti og blóm allt árið þarf það mikla raforku til lýsingar nánast hálft árið. Þarna yrði um framleiðslu að ræða sem ekki til er innlendur markaður fyrir, þessar afurðir yrði að flytja út og þar munframleiðslukostnaður og markaðsfærsla ráða úrslitum.
Ég býst við að ýmiskonar fræðingar geti skotið þessar vangaveltur á kaf en er ekki einmitt tími núna sem krefst þess að við hugsum allt upp á nýtt? Er þá ekki rétt að láta gamminn geysa, verið getur að eitthvað komi nýtilegt út úr því.
22.6.2010 | 11:57
Dapurlegt að sjá hvernig Háskóli Íslands sinnir um Herdísarvík
Eitt sinn var Selvogur einhver afskekktasta byggð á suðvesturlandi. Það mun breytast mikið þegar Suðurstrandarvegur verður endanlega opnaður fyrir umferð. Sl. sunnudag buðu vinir okkar hér í Þorlákshöfn okkur hjónum til kynningarferðar í Selvog þar sem leiðsögumaðurinn var borinn og barnfæddur í Selvogi. Þar eru fjölmargar minjar, rústir af sjóbúðum sem sumar hverjar hafa síðan verið nýttar sem gripahús. Við fórum alla leið til Herdísarvíkur þar sem þjóðskáldið Einar Benediktsson lifði sín síðustu ár við umhyggju og atlæti kjarnakonunnar Hlínar. Eftir dauða Einars bjó Hlín nokkurn tíma áfram í Herdísarvík en er ánafnaði Háskóla Íslands Herdísarvík, jörð og hús.
Það er dapurlegt að koma til Herdísarvíkur og sú spurning hlýtur að vakna hvort Háskóli Íslands hafi engan metnað til að heiðra minningu Einars þjóðskálds og ekki síður Hlínar, konunnar sem gerði síðustu ár þjóðskáldsins þolanleg. Ekkert er hirt um umhverfið, byrjað hefur verið á smíði palls við suðuhlið hússins en því ekki lokið og greinilegt að á viðinn hefur ekki verið borið í langan tíma. Augljóst er að langt er síðan að borið hefur verið á timburklæðningu hússins og ryð er komið í vatnsbretti. Ekki er vafi á því að margir vilja líta við í Herdísarvík framvegis þegar Suðurstrandarvegur verður nýr "gullinn hringur" þarna opnast ný sýn fyrir íslenska jafnt sem útlenda ferðamenn.
Nú er annaðhvort fyrir Háskóla Íslands að gera; hysja upp um sig brækurnar og bjarga staðnum áður en hann grotnar niður endanlega eða koma staðnum og húsinu i eigu og umsjá einhvers sem hefur þann metnað að taka þar til hendi og skapa staðnum nýjan tilgang.
18.6.2010 | 11:56
Loka Reykjavíkurflugvelli, hraðlest milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar
Það komu fram mörg loforð og stefnumið hjá nýjum meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur, meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Eitt af því merkasta er að Reykjavíkurflugvelli verði lokað og landið nýtt til bygginga í framtíðinni og hraðlest lögð til Keflavíkurflugvallar. Það eru mörg ár síðan ég komst á þá skoðun að þetta væri besta lausnin. Ef menn hafa hafa verið samþykkir því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður hefur lausn innanlandsflugsins ætíð verið sú að byggja nýjan flugvöll frá grunni ýmist á Hólmsheiði eða í saltbaðinu á Lönguskerjum. Þó eigum við flugvöll, Keflavíkurflugvöll, í aðeins um 50 km frá miðborg Reykjavíkur. Vissulega hafa ýmsir bent eindregið á hraðlest til Keflavíkurflugvallar en það hefur ætíð verið barið niður þar sem kostnaðurinn væri svo mikill.
En hve mikill væri kostnaðurinn af því að byggja nýjan flugvöll?
Vonandi verður þetta stefna sem verður að raunveruleika. Ég minni á gamla grein eftir mig þar sem ég taldi tímabært að huga að neðanjarðarlest á höfuðborgarsvæðinu. Þar gæti verið um krossbraut að ræða a) frá Hafnarfirði til Grafarvogs b) frá Breiðholti út á Granda. Engir peningar til verður eflaust sagt en sem langtímamarkmið getur þetta orðið að veruleika. Við þessa krossbraut neðanjarðar verða síðan tengt strætisvagnakerfi, hvað mundi það draga úr notkun einkabíla á götunum?
En nú verður Kristján Möller samgönguráðherra að vakna og ekki síður Jón Gnarr, Dagur og Hanna Birna og allir hinir sem taka ákvarðanir. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður af þá er sú umferðamiðstöð sem á að fara að byggja á kolröngum stað. Ég ætla að vera svo ósvífinn að ætla Siglfirðingnum Kristjáni Möller það að með því að byggja umferðarmiðstöð norðan við Hótel Loftleiðir sé hann leynt eða ljóst verið að vinna að því að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi. Umferðarmiðstöðin á bæði að þjóna innanlandsflugi og rútuumferð úr borg og í. Ef flugumferð þarna verður lögð niður er það deginum ljósara að umferðamiðstöð er þarna á kolröngum stað og kallar á mun meiri um umferð á þeim götum sem nú þegar eru fullsetnar. Allar rútur verða að fara inn um þröngsetnar götur inn og út, allir sem koma á eigin bílum eða leigubílum lenda í sömu umferðhnútum.
Umferðamiðstöð fyrir rútur, hvort sem eru á áætlunarleiðum eða í hópferðum, á að sjálfsögðu að vera sem næst helstu umferðaæðum út frá höfuðborgarsvæðinu. Þar kom eindregið til greina a) Mjóddin b) Nágrenni Rauðavatns.
16.6.2010 | 09:43
Svar til Jóns Péturs Líndal og skoðanabræðra um Evrópusambandið og aðildarumsókn Íslands
Eftirfarandi skrifaði ég sem athugasemd við blogg Jóns Péturs Líndal um ESB umsóknina, finnst rétt að hún komi hér fram
Mér ofbýður málflutningur ykkar hér að framan þar sem ekki er gerður greinarmunur á réttu eða röngu. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, ICESAVE verðum við að borga, það liggur fyrir að öðruvísi getur það ekki verið. Það hefur hvergi komið fram að við verðum að opna landhelgina fyrir veiðum annarra þjóða, fiskveiðistefna ESB er í endurskoðun og þar munu viðræður okkar koma að góðu gagni. Hvergi hefur nokkuð land , sem gengið hefur i ESB þurft að leggja niður sinn landbúnað. Íslenskur landbúnaður er sem betur fer í mikilli þróun þar sembúskapur er að breytast mikið. Var í ferðalagi með eldri borgurum í Þorlákshöfn og gistum nokkrar nætur á Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit, en þar hafa ábúendum breytt búskaparháttum í takt við tímann. Fengum okkur kvöldmat síðasta kvöldið á Hótel Dyrhólaey á Brekkum í Mýrdal, þar hafa bændur brugðist eins við. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, íslenskur landbúnaður verður að þróast í takt við tímann með þjónustu við ferðamenn og að selja beint frá býli. Þessi þróun mun ekki eiga síðri möguleika með Íslandi í ESB en utan. Það hlýtur að koma að því, og meira að segja hið rammasta afturhald Alþjóðahvalveiðiráðið er að komast á þá skoðun, að hvalveiðar eigi að leyfa að vissu marki. ESB verður að gera sér ljóst að það er hluti af fiskveiðistefnu að halda jafnvægi innan stofna í hafinu, annað er ekki hægt. Ekki nokkrum manni dettur í hug að afhenda orkulindir eða aðrar auðlindir þjóðarinnar. Hafa Danir eða Skotar þurft að afhenda olíu- og gaslindir sínar til ESB? Síður en svo, þessar auðlindir eru enn í fullri eigu þjóðríkjanna á sama hátt og járngrýti Svía í Kiruna eða kolin í þýskri jörðu eða olían í Rúmeníu.
Að það skuli koma fram tillaga á Alþingi um að draga aðildarumsóknina til baka lýsir ótrúlegri skammsýni og ofstæki. Aðildarviðræður verða að halda áfram, aðeins á þann hátt getum við fengið svörin sem okkur vantar:
Eigum við erindi inn í ESB, hvaða ávinning fáum við og þurfum við einhverju að fórna. Þá fyrst getum við tekið afstöðu með eða móti með þjóðaratkvæði. Eftir það þurfum við ekki að bulla og rífast um þetta mál, þið hér að ofan þurfið þá að finna ykkur annað málefni til að skrumskæla og þvæla um.
15.6.2010 | 09:57
Samfylkingin í Hafnarfirði skýtur sig í fótinn
Það er engin furða þó andstæðingar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði noti klúður hennar í pólitískum tilgangi. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja að Samfylkingin og Vinstri grænir myndu meirihluta í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, samanlagt hafa þessir tveir flokkar afl til þess. Ég hef áður bent á að hvergi í stjórnskipunarlögum ríkis eða sveitarfélaga er orð um að meirihlutar skuli myndaðir, en upp á þessu mjög svo lýðræðislega fjandsamlega ferli fundu einhverjir pólitískir pótintátar, líklega fóru þar fremstir Sjálfstæðismenn í Reykjavík sem löngum réðu lögum og lofum þar í borg.
En þar með er ekki öll sagan sögð í Hafnarfirði. Sá mæti maður Lúðvík Geirsson hefur fallið í þann fúla pytt eins og margir aðrir (t. d. Gunnar Birgisson í Kópavogi) að þekkja ekki sinn vitjunartíma. Menn sem haf verið lengi í forystu, og ráðið þar öllu sem þeir vildu ráða, virðast skerðast illa á eigin dómgreind og ekki finna sjálfir hvenær þeir eiga að draga sig í hlé. Lúðvík tók þá djörfu ákvörðun að taka baráttusæti í framboði Samfylkingarinnar en fékk ekki stuðning og náði ekki kjöri. Það er dapurlegt að Lúðvík falli í þá gryfju að álita sjálfan sig ómissandi og að hann verði að vera bæjarstjóri áfram.
En Samfylkingin og Vinstri grænir í Hafnarfirði virðast vera nokkuð samstíga í dómgreindarleysinu og fara þá leið sem ekki er hægt að segja um annað en að sé rotin spilling. Þessir meirihlutaflokkar virðast fyrst og fremst hugsa um að forystumenn flokkanna fái vegtyllur og þá er farin sú ógeðfellda leið að þeir skuli báðir fá að verma sæti bæjarstjórans á kjörtímabilinu, Samfylkingin í tvö fyrstu árin og Vinstri grænir síðan í þau tvö seinni. Þarna er ekki verið að hugsa um hag bæjarfélagsins heldur um rassinn á forystumönnunum. Þetta er ekkert annað en spilling, þetta var gert á Akureyri á síðasta kjörtímabili og allir ættu að muna sirkusinn í Reykjavík og ég hef ekki orku til að rifja það upp. Selfoss og Grindavík urðu einnig fórnarlömb slíkrar þróunar og greinilegt er að almenningur kann ekki að meta slíkt; að pólitíkusar noti bæjarfélögin í loddaraleik.
Mér finnst líklegt að Samfylkingin og Vinstri grænir eigi eftir að súpa seiðið að ráðsmennski sinni í Hafnarfirði, sá tími á að vera liðinn að flokkar og forystumenn geti notað það sem þeim er trúað fyrir í pólitískum loddaraleik.
9.6.2010 | 09:31
Veggjöld eða ekki veggjöld?
Eru veggjöld ætíð af hinu illa? Svo mætti ætla ef tekið er mið af vanstilltum bloggurum eða samskonar greinarhöfundum í öðrum fjölmiðlum. Það virðist vera nokkuð sama hvaða róttækar tilögur koma fram; þá hefst mikið ramakvein hjá þeim sem alltaf eru fúlir á móti. Þar má benda á hugmyndir Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra um að frysta laun opinberra stafsmanna næstu þrjú árin. Líklega er engin leið betri til að tryggja opinberum stafsmönnum störf áfram, en opinberir starfsmönnum fjölgaði gífurlega í bólutíðinni og er víst að fjölga ennþá. Tillögur Jóns Steinssonar um að hafa eina virðisaukaskattsprósentu á alla selda vöru og þjónustu fékk sömu móttökur hjá öskuröpunum, bakgrunnurinn ekkert skoðaður. Það er sérstakt að þeir sem hæst hafa látið og öskra stöðugt um að Ríkisstjórnin geri ekki neitt og heimta aðgerðir, umhverfast algjörlega ef fram koma róttækar tillögur sem vert er að skoða.
Ég hef hér að framan nefnt þrjár róttækar tillögur sem berja á niður strax í fæðingu án nokkurrar skoðunar. Það sem ég nefndi fyrst eru vegtollar, aðferð sem gæti hleypt miklu lífi í opinberar framkvæmdir, fjármögnun þeirra og mundi draga talsvert úr viðvarandi atvinnuleysi. Við skulum ekki gleyma því að slíkar framkvæmdir hafa mikil jákvæð áhrif, vegaframkvæmdir sem byggjast á að kostnaður verði endurgreiddur með vegatollum mun örva atvinnulífið umtalsvert vegna afleiddra starfa einnig.
Kristján Möller samgönguráðherra lýsti því nýlega í viðtali að það er hægt að innheimta vegagjöld rafrænt það er óþarfi að menn sitji í búrum og heimti peninga af öllum sem framhjá búrunum fara. Þannig mundu vega tollar á engan hátt hamla umferð, en þær framkvæmdir sem kalla á vegtolla skapa betri umferðaræðar, gera umferðina öruggari og draga úr umferðarslysum, greiða götu allra sem um vegina fara.
Ég minnist þess að hafa komið til höfuðborgar eins vestræns ríkis fyrir nokkrum árum þar sem til var mikið net þar sem vegatollar voru innheimtir. Þannig hafði þessi borg getað lagt mikið af jarðgöngum sem gjörsamlega endurnýjaði umferðarnetið. Þetta var í höfuðborg ríkasta lands heims, Noregs, þetta var í Oslo. Meira að segja ríkasta land í heimi notaði vegatolla til að standa undir vega- og gangagerð.
Ég hef hér að framan nefnt þrjár athyglisverðar tillögur, róttækar tillögur; a) veggjöld sem leggur grundvöll að umtalsverðum vegaframkvæmdum b) tillögur Árna Páls Árnasonar um að frysta laun opinberra starfsmann í 3 ár, sem mun ekki síst koma opinberum starfsmönnum til góða c) hugmynd Jóns Steinssonar um eina % virðisaukaskatts, sem mun einfalda alla slíka skattheimtu og ekki síst; tryggja að ábatinn af skattheimtunni skili sér til ríkisins og okkar allra, flestum ætti að vera í fersku minni að þegar % á matvæli var lækkuð hvarf ábatinn að mestu í fjárhirslur verslunar og þjónustu.
8.6.2010 | 08:52
Jón Gnarr fer með rangt mál
Ekki var hún björguleg fyrsta gangan hjá Jóni Gnarr eftir að ákveðið var að hann yrði borgarstjóri í Reykjavík. Hann fékk þar gullið tækifæri til að draga til baka fáránlega hugmynd sína um að koma ísbirni fyrir í Húsdýragarðinum í Laugardal. Gat einfaldlega sagt að hann hefði verið að "djóka" eins og honum er tamt. Jón hélt hinsvegar ísbjarnarblús sínum til streitu og það sem verra var fór með rangt mál til að rökstyðja mál sitt.
Hann fullyrti að ísbirnir væru í útrýmingarhættu!!!
Ekki veit ég hvort heldur er að Jón sé svona einfaldur og trúgjarn eða hann ætli sér framvegis að láta lönd og leið það sem sannara reynist. Fyrir hálfri öld voru ísbirnir veiddir grimmt af frumbyggjum á norðurhveli. Þá var stofninn 5.000 dýr. Þá var settur kvóti á veiðarnar og þær stórlega takmarkaðar, líklega um of. Núna hálfri öld síðar hefur stofninn nær fimmfaldast, er á milli 23.000 og 25.000 dýr. Ísbirnir eru einfarar og koma aðeins saman í hópi um fengitímann. Hver ísbjörn helgar sé mikið veiðisvæði og ekki er ólíklegt að fjöldinn sé orðinn og mikill, norðurhvelið beri ekki þennan fjölda. Ekki er ólíklegt að flækingarnir sem syntu til Íslands séu skepnur sem verða að leita út í kanta lífsvæðisins og þvældust því til íslands þar sem þeir sem betur fer voru skotnir að Norðlendingum sem gerðu sér fulla grein fyrir hættunni sem af ísbjörnunum stafaði.
En ef Jón Gnarr vill engan veginn virða staðreyndir málsins þá getur hann fengið ágætan ráðgjafa sem er honum eflaust að fullu sammál í bullinu. Það er Þórunn Sveinbjarnardóttur fyrrverandi umhverfisráðherra.
Að lokum vil ég benda Jóni Gnarr á að það er misjafnt hvernig dýr þola vist í dýragörðum. Líklega er ekkert dýr sem þolir hana jafn illa og ísbirnir, þeirra kjörsvæði er pólarsvæðið þar sem frosthörkur verða miklar. Það er mikil misþyrming þessum dýrum að geyma þau í þröngum svæðum við plúshita og hann oft æði háan.
7.6.2010 | 23:48
Jóhanna Sigurðardóttir lögð í einelti af Grámanni í Hádegismóum og stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins
Það hlaut að koma að því að Davíð Seðlabankastjóri fyrrverandi og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins færi af stað með undirferli og brigsl gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra opinberlega. Búið er til mál sem er ekkert mál og svo virðist sem flestir fjölmiðlar ætli að bíta á agnið og ganga erinda þess gamla í Hádegismóum. Hann beitir fyrir sig einum af stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins, Sigurði Kára, sem aldrei hefur reynst vandur að virðingu sinni og ég sá ekki betur en varformaður Framsóknarflokksins taki fullan þátt í leiknum. Meira að segja er Fréttastofa Ríkisútvarpsins orðinn þáttakandi. Ég dáðist að Jóhönnu að halda ró sinni í kvöld í Kastljósi þar sem leigupenninn Sigmar þóttist þjarma að henni. Það er ekki ónýtt fyrir Davíð Morgunblaðsritstjóra að eiga slíkan bandamann á Fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Þessi lágkúra Davíðs og stuttbuxnadeildarinnar er vel þekkt hjá óheiðarlegum pólitíkusum og ekki síður hjá útbrunnum pólitíkusum þegar sverfur að. Þá er búin til einhvera lokleysu um andstæðing, hún tuggin aftur og aftur á Alþingi og allir fjölmiðlar dregnir til að verða þátttakendur í ófrægingarherferðinni. Davíð hefur greinilega séð að eftir hinu algjöru lágkúru Bjarna Benedikssonar í Sjónvarpinu í gær þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ekkert um spillingu Guðlaugs Þór að segja, þetta kæmi honum, Bjarna B., ekkert við!!! Þá sá Davíð að hann yrði að beita ófrægingarvopninu og það er furðulegt hve langt honum hefur tekist að komast.
En ég er viss um að Jóhanna mun standa þessa lágkúru frá Hádegismóum af sér, sendiboði Davíðs á Alþingi, Sigurður Kári varamaður Illuga Gunnarssonar sem hrökklaðist af Alþingi, ætti að gera hreint fyrir sýnum dyrum. Legg til að þeir setjist niður saman lagsbræðurnir Sigurður Kári og Guðlaugur Þór og telji saman allt það sem þeir hafa fengið greitt fyrir samvisku sína fá tortúlalubbunum, sem margir gefa það "sæmdarheiti" að kallast "útrásarvíkingar".
Er virkilega ekki einn einasti maður í þingliði Sjálfstæðisflokksins sem þorir að mótmæla þessu einelti sem Davíð Oddsson hefur komið í í gang gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra?
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar