Svar til Björns Vals Gíslasonar alþingismanns sem hann fékk frá mér á netinu

Heill og sæll Björn Valur
Og þakka þér fyrir að svara mér svo fljótt og með skilmerkilegum hætti.
Ég hef lesið tillögu þína, greinargerðina og það sem þú birtir á heimasíðu þinni.
Eftir að hafa kynnt mér þinn málflutning þá er ég hundrað prósent viss um að ég er ekki að misskilja neitt.
Ég tel það dapurlegt að þingmaður, maður sem situr á hinu háa Alþingi, skuli vera tilbúinn til að mæla því bót að gerð sé innrás á Alþingi, störf Alþingis trufluð og starfsmenn þingsins slasaðir.
Á heimasíðu þinni dregurðu nokkuð í land og viðurkennir að ekki sé hægt að láta uppvöðslulýð slasa starfsmenn Alþingis, minna má það tæplega vera. En þú vilt fría uppvöðsluseggina við húsbroti og öðrum brotum, það finnst mér með ólíkindum.
Ég hef sagt á mínu bloggi að búsáhaldabyltingin átti fullan rétt á sér og er þér sammála um að það var engin furða þó almenningur yrði yfir sig reiður og sár vegna hrunsins sem er auðvitað fyrst og fremst fjármála- og bankaafbrotamönnum að kenna en einnig FME og Seðlabanka en grundvöllinn lögðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur. Ég ætla hins vegar engan veginn að sýkna minn eigin flokk, Samfylkinguna, þátttaka hennar í Ríkisstjórn Geirs Haarde (lélegasta forsætisráðherra sem Ísland hefur nokkurn tíma haft) var meira en dapurleg. En því miður; við tókum flest þátta í dansinum í kringum gullkálfinn og höfðum trú á tortúlalubbunum sem nú blessunarlega verða að svara til saka.
En eitt er víst. Þegar almenningur rís upp og mótmælir ranglæti stjórnvalda og stofnana með skipulögðum og yfirveguðum hætti þá safnast að alskyns lýður að sem veit ekkert um hvað málið snýst; nú er komið tækifæri til að fá alvöruhasar. Við sáum í Sjónvarpinu hvernig ýmsir lubbar réðust að lögreglunni, oftast grímuklæddir, ég man eftir einum sem reyndi með klaufhamri að brjóta glugga í Stjórnarráðinu, ég man eftir því þegar bullurnar réðust inn á Hótel Borg á gamlársdag. Ég man líka eftir því þegar yfirvegaðir mótmælendur slógu skjaldborg um lögregluna fyrir framan Stjórnarráðið.
Ég leyfi mér að spyrja þig Björn Valur; hefur þú ekki þá yfirsýn að geta greint á milli þeirra sem mótmæltu hruninu, þjófnaðinum mikla sem brann á hverjum og einum og ruslaralýð sem safnast að heiðarlegum mótmælendum sem tala kröftuglega og hafa hátt. Ertu virkilega tilbúinn að slá skjaldborg um hvað vitleysingahóp sem hafði sig í frammi með ofbeldi?
Þú rekur söguna, segir frá gömlum guðlastdómum og berð þetta saman við óeirðirnar við Austurvöll 30. mars 1949. Ég er nú svo miklu eldri en þú og man þess vegna glöggt eftir því sem gerðist 30. mars 1949. Þá réðst ekki nokkur maður inn á Alþingi. Ólafur Thors, Stefán Jóhann Stefánsson og Eysteinn Jónsson létu dreifa flugriti um allan bæ og skoruðu á fólk að koma á Austurvöll og sýna þar með að Alþingi ætti að hafa starfsfrið. Hins vegar var Alþingishúsið fullt að utanaðkomandi "hvítliðum" en Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri hafði kallað Heimdall, félag ungra Sjálfstæðismanna til starfa og þjálfað þá á laun til að berja á fólki. Þegar merki var gefið þustu þeir út og hófu barsmíðar á öllum sem á vegi þeirra varð og lögreglan byrjaði gasárás.
Þú lítilsvirðir allt það fólk sem þarna kom, og sumir hlutu síðar þunga dóma, með því að bera þá einstaklinga saman við bullurnar sem réðust inn á Alþingi með ofbeldi og sitja nú undir ákærum sem þú vilt að Alþingi skipti sér af, ráðist inn á vettvang dómsvaldsins.
Ég er handviss um að þessar bullur, sem þú vilt nú gerast verjandi fyrir með því að Alþingi fari að skipta sér að störfum dómsvaldsins, eiga ekkert skylt við þær þúsundir sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni, þessar bullur vissu ekki nokkurn skapaðan hlut um hvað málið snérist, óreyndir unglingar sem vita ekkert hvað lífsbaráttan er, en voru komnir á vettvang til að fá "verulega skemmtilegan hasar"
Ég ætlast til að þingmenn hafi þann þroska til að skilja sauðina frá höfrunum og viðurkenni ekki hvaða framferði sem er af því það er undir formerkjum heiðarlegra mótmæla. Af því þú minnist á Þórberg Þórðarson í þinni greinargerð þá vil ég vísa til hans líka. Ég var að enda við að lesa  seinni bók Péturs Gunnarssonar um ÞÞ. Þar kemur þessi mannlegi breyskleiki svo greinilega fram að viðurkenna allt svo fremi það sé undir ákveðnum formerkjum. Þórbergur afsakaði allt sem gerðist í Sovétríkjunum, Gúlagið var áróður, réttahöldin miklu fyrir stríð og aftökurnar áttu fullan rétt á sér, innrásirnar í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu réttlætanlegar.
Á sama hátt er mörgum farið. Þeir viðurkenna rétt almennings til að mótmæla á kröftuglegan hátt óréttlætinu sem því er sýnt. En eins og Þórbergi er þér og fleirum ómögulegt að greina á milli hvað eru heiðaleg og réttsýn mótmæli, þið viðurkennið allt sem gert er undir merkjum þessarar hreyfingar, búsáhaldabyltingarinnar, og reynið ekki að greina atburðina.
Ég segi á mbl. blogginu að ef þú telur að þessi hópur, sem nú má sæta ákærum saksóknara, eigi skilið að fá að fara fram óáreittir þá ertu að segja að ef Nýnasistar eða Vítisenglar ráðast inn á Alþingi þá munir þú bregða fyrir þá skildi og vernda þá fyrir ásókn dómsvaldsins.
Eiga ekki allir að vera jafnir fyrir lögunum?



Mættu nýnasistar haga sé á sama hátt á þingpöllum og í dómssal?

Lára Hanna Einarsdóttir er einn öflugasti bloggari hér á þessum síðum. Oft æði skörp en nú hefur hún tekið að sér að safna um sig hópi álitsgjafa sem eru henni hjartanlega sammála um "píslarvætti" óeirðaseggjanna sem ruddust inn á svalir á Alþingi, efndu þar til slagsmála og slösuðu starfsmenn þingsins.

Ég læddi þessari athugasemd inn hjá henni en ætla að láta hana koma hér fram í mínu eigin bloggi.

Þið ágætu álitsgjafar að framan. Snúum dæminu við og segjum sem svo að Alþingi hafi verið að fjalla um réttindi þeldökkra aðfluttra borgara með jákvæðum hætti, auka réttindi þeirra. Þá ræðst hópur nýnasista inn á svalir þingsalarins með háreisti og á endanum kemur til átaka milli starfsmanna Alþingis og nýnasistanna sem endar með að því nýnasistarnir slasa starfsmenn.

Væruð þið flest hér að framan tilbúin til að verja framgang nýnasistanna og þá einnig framgöngu þeirra í dómssal þegar mál þeirra yrði tekið fyrir þar?
Það hlýtur að vera, ef þið teljið ofbeldi og yfirgang við Alþingi, dómstóla og lögreglu réttlætanlegt þá hljóta allir að hafa sama rétt til slíkra aðgerða án tillits til skoðana, sama hver málstaðurinn er.


Grein mín nr. 2 um kvótamál sem birtist í "Bæjarlífi" í Þorlákshöfn 6. maí

 

 Nokkur orð til Ármanns Einarssonar útgerðarmanns í Auðbjörgu ehf. í Þorlákshöfn frá landkrabba

 

eftir Sigurð Grétar Guðmundsson

 

Ármann virðist taka það illa upp að ég bað hann, ef hann legði í að svara mér, að vera málefnalegur. Ég get ekki annað en birt málsgrein úr hugarheimi hans sem sýnir svolítið annað:

“Sigurður Grétar talar eins og sönnum vinstrimanni sæmir sem vill að ríkið sé með puttana í allt og öllu eins og gafst svo vel í ráðstjórnarríkjunum gömlu. Hann vill líka fara að fordæmi Mugabe í Zimbabwe og gera eignaréttinn að engu með tilheyrandi upplausn í samfélaginu”.

Ef Ármann veit það ekki þá er það skjalfest og þekkt um alla heimsbyggðina að stjórnarstefnan í Ráðstjórnarríkjunum  var alla tíð glötuð enda hrundi þetta alræðisríki nánast til grunna á einni nóttu og sá hlýtur að vera rakalítill sem þarft að líkja mér við geðsjúkan þjóðarleiðtoga í Afríku sem er búinn að rústa blómlegasta landbúnaðarlandi í þeirri álfu.

Þetta kemur ekki við mig á nokkurn hátt en mikið er hægt að lúta lágt til að koma ímynduðu höggi á viðmælandann.

 

Orð sem eru gulls ígildi

En þá ætla ég að vitna orðrétt í grein Ármanns þar sem hann staðfestir í örfáum orðum það sem ég gagnrýndi í minni fyrri grein þegar hann segir:

“Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni)”.

Ég þakka fyrir þessa hreinskilni sem er kannski óvart fram sett. Þarna er viðurkennt að þessi grein atvinnulífsins, sjávarútvegur, er ofurseld því að verða að kaupa menn út úr greininni og þá vil ég spyrja. Hve mikið er búið að blóðmjólka íslenskan sjávarútveg  til þeirra sem eru að selja ykkur réttindi sem þeir eiga ekkert í og þið hefðuð aldrei þurft að kaupa?

Nú skulum við hverfa aftur til þess tíma þegar kvóti í sjávarútvegi var settur á af illri nauðsyn. Útgerðarmenn fengu úthlutaðan kvóta eftir veiðireynslu og þeir voru ekki rukkaðir um eina einustu krónu fyrir það. Ég er þeirrar skoðunar að á þeim tíma hafi verið rétt að setja kvóta á veiðarnar, það hafði fljótlega þau áhrif að fiskiskipum fækkaði og ég veit ekki betur en að hið “illa ríkisvald” hafi stuðlað að því með því að leggja til fjármagn til að úrelda skip. Förum síðan allt til dagsins í dag. Setjum svo að þannig hefði kvótakerfið verið alla tíð, hið skelfilega framsal, sala, kaup og leiga hefði aldrei komið til. Ég er þess fullviss að útgerðarfyrirtæki svo sem Auðbjörg ehf. hefði ekki minni kvóta í dag en raunin er. Stóri munurinn er sá að það fyrirtæki hefði aldrei þurft að kaupa kvóta, ekki heldur aðrir útgerðarmenn. Þeir sem hefðu farið út úr greininni hefðu einfaldlega hætt eins og í öllum öðrum greinum atvinnulífsins, þeir hefðu engar greiðslur fengið frá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, menn gátu jafnvel selt sín skip eða fengið opinbera aðstoð við að úrelda þau.

Ekki veit ég hve háar fjárhæðir hafa verið dregnar út úr íslenskum sjávarútvegi síðan frjálsa framsalið var sett á.

Er það rétt að þar sé um hundruðir milljarða að ræða? Væri ekki greinin betur sett ef þessir fjármunir væru í vel reknum útgerðarfyrirtækjum eins og Auðbjörgu og fleirum, í stað þess að verða að afhenda þá til einstaklinga, sem sumir hverjir fjárfesta skynsamlega í alls óskyldum atvinnurekstri, en aðrir hafa sannarlega lifað í lúxus meðan þið sem eftir eruð í greininni berjist fyrir tilveru ykkar.

Engin svör komu í grein Ármanns við nokkrum sláandi dæmum sem ég kom með í fyrri grein. Hvað um Eskju á Eskifirði, hvað um erfingja Alla ríka sem nú velta sér í allsnægtum í útlöndum, hvað um Vestmannaeyinginn sem lifir góðu lífi á því að eiga skip bundið við bryggju og leigja kvótann? Ef kvótinn hefði alla tíð verið í sama formi og upphaflega var hugsað hefði þessi “útgerðarmaður” einfaldlega orðið að skila kvótanum og einhver sem rak sitt útgerðarfyrirtæki vel hefði fengið hann.

 

Fyrirtækin keyrð í þrot?

Það er mikið til í því að ég hef takmarkað vit á sjávarútvegi. En ég skil fullkomlega hversu eitraður bikar frjálsa framsalið, kaupin, salan og leigan er fyrir ykkur sem viljið stunda fiskveiðar og vinnslu og gera það vel. Ykkur var afhentur þessi réttur, framsalið, og mér er slétt sama hvar þeir menn voru í pólitík og flokkum sem það gerðu, söm var þeirra gerðin. Þið gleyptuð við þessu og síðan hófst braskið og blóðugast af öllu er það sem ég hef vitnað til í þinni grein, ég ætla að birta þá tilvitnun aftur:

“Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni)”.

Ég spurði í minni fyrri grein hvernig það gæti gert öll útgerðarfyrirtæki gjaldþrota ef kvótinn yrði innkallaður á tuttugu árum, svarið er einmitt í tilvitnuninni. Ég svaraði mér reyndar sjálfur. Útgerðarmenn eru búnir að slá eign sinni á kvótann. Þeir eru búnir að bókfæra sameiginlega eign allrar þjóðarinnar og það sem er alvarlegast af öllu; veðsetja hana hérlendis sem erlendis upp í topp.

Er þetta ekki rétt?

 

Kvótinn verður aftur sameign þjóðarinar

Það verður kvótinn á nákvæmlega sama hátt og fiskurinn í sjónum, útgerðarmenn eiga hann ekki fyrr en þeir hafa veitt hann og komið með hann að landi. Ég ætla að vona að þið losnið úr herkví íhaldshugsunarinnar og sjáið að það er búið að leiða íslenskan sjávarútveg í skelfilegar ógöngur. Þegar réttindi, sem öll þjóðin á, geta gert ykkur gjaldþrota með því einu að afturkalla 5% kvótans árlega þá er eitthvað rotið. Ykkur verður mjög líklega aftur afhentur þessi sami kvóti sem réttindi frá þjóðinni, það verður að veiða fiskinn, það höfum við gert alla tíð og sjávarútvegur verður enn um langan aldur ein af styrkustu stoðum þjóðarbúsins.

En þið eruð búnir að flækja ykkur í skelfilegt fjárhættuspil sem er kvótabraskið. Það verður að finna leið til að styrkja ykkur og aðstoða til að komast út úr því þegar kvótinn verður aftur gerður að þjóðareign.

Ármann er óánægður með að ég skuli kalla hann íhald. Í sjálfu sér er það ekkert skammaryrði í mínum huga, lýsir aðeins hugsunhætti ýmissa einstaklinga. Ég minni á að annar af forgönguflokkum Sjálfstæðisflokksins hét reyndar Íhaldsflokkur. Þeir sem fá nafnbótina íhald í dag eru einmitt þeir sem vilja engu breyta, sitja í sama stól, ganga sömu sporin og áður. Það viljð þið útgerðarmenn flestir gera, þó hef ég grun um að sumir hverjir í ykkar röðum séu farnir að efast um ágæti þvermóðskunnar og íhaldsstefnunnar í kvótasukkinu.

Væri ekki nær að koma að þessu máli með opinn huga og finna skynsamlegar lausnir. Er það ekki besta gjöfin sem þið getið gefið arftökum ykkar; að losa þá undan þeirri kvöð sem lýst er svo ágætlega í þinni grein, ég hef þá tilvitnun sem mín lokaorð:

“Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni)”.

 


Umsátur um heimili fólks er siðleysi

Ég gagnrýndi Guðlaug Þór og Steinunnu Valdísi í fyrradag fyrir siðleysi og krafðist afsagnar þeirra frá Alþingi og að fleiri ættu að fljóta með.

En í gær gerði gemsinn mér viðvart að ég væri að fé SMS skilaboð. Mér brá þegar ég sá skilaboðin. Þau voru áskorun um að koma að heimili Guðlaugs Þórs kl. 20:00 í gærkvöldi til að gera honum og fjölskyldu hans lífið leitt. Á þeim stað yrði síðan ákveðið hverjir aðrir yrðu heimsóttir sömu erinda.

Ekki veit ég hvaða aumingjar standa fyrir slíkri röskun á friðhelgi umdeildra einstaklinga. En eitt er víst; ef þessir einstaklingar sem að er sótt teljast hafa brotið siðferðislögmál þá eru þeir sem að þeim sækja  engu betri, ég hef andstyggð á þessum ræfilshætti að safnast saman og njóta nafnleyndar, enginn var skrifaður sem sendandi SMS skilaboðanna. Mér finnst full ástæða til að lögreglan komi í veg fyrir svona þjösnaskap. Það væri ekki úr vegi að minnsta kosti að mæta og taka myndir af þessum "hetjum".

Þessar "hetjur" eru, ekki síður en umdeildir einstaklingar sem að er sótt, siðleysingjar.


Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er á hörmulega lágu stigi

Ég var í þeim hópi sem vonaði að umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði til þess að umræðan um hugsanlega kosti og galla aðildar yrðu yrði yfirvegaðri en áður þar, væntanlega fáum við staðreyndir og svör um aðild sem við getum byggt á.

En því er ekki aldeilis að heilsa. Þeir sem fara mikinn hér á blogginu og hafa í frammi "svartagallsraus" um hvað bíði okkar ef við göngum þar inn hafa færst í aukana en þeir sem vilja upplýsta umræðu hafa nánast þagnað.

Ég get vel endurtekið hver mín afstaða til aðildar er, það hef ég reyndar gert áður hér á blogginu. Ég get engan vegið gert það upp við mig með jái eða neii, ég verð fyrst að fá mörg svör við áleitnum spurningum. Því miður eru margar fullyrðingar i gangi um allar þær skelfingar sem bíði okkar ef við förum inn en í rauninni veit enginn neitt  hvað er handan hornsins. Þeir neikvæðu benda til dæmis oft á hina meingölluðu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, það liggur í augum uppi að hana munum við aldrei samþykkja, við eigum og munum eiga óskoraða lögsögu yfir okkar landhelgi og þeim staðbundnu fiskistofnum sem þar eru. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af ísl. landbúnaði. Í honum býr það mikil sköpunargleði (ef hann fær að starfa óáreittur af stóra bróður) að hann mun spjara sig.

Ég hef fylgst með ýmsum svartagallsbloggurum hér sem tína allt til sem er skelfilegt við aðild að Evrópusambandinu. Ein fáránlegasta röksemdin er sú að ofboðslegir erfiðleikar Grikkja séu Evrópusambandinu og evrunni að kenna. Þarna er staðreyndum algjörlega snúið á haus, ef það er eitthvað sem getur bjargað Grikkjum út úr fjármálöngþveiti þeirra er það einmitt aðildin að ESB og upptaka evrunnar.

Það er full ástæða til að rifja það upp af hverju fjármálöngþveiti Grikkja stafar. Það er algjörlega heimatilbúinn vandi. Grikkland hefur alla tíð verið spillt land sem hefur eytt langt um efni fram. Embættismenn og pólitíkusar hafa rænt og ruplað úr fjárhirslum ríkisins undanfarna ártugi auk þess að stjórnvöld hafa falsað opinberar tölur úr ríkisbúskapnum, reynt með því að leyna vandanum og fegra ástandið. Það þarf því engan að undra þó almenningur í Grikklandi rísi upp svo að við borgarastyrjöld liggur. Allur almenningur veit og hefur alltaf vitað hvað yfirstéttin, stjórnmálamennirnir, embættismennirnir og fjármálbraskararnir eru eru gjörspilltir mútuþegar og ekki nóg með það. Þar hafa menn stolið , rænt og ruplað og nú á almenningur að borga brúsann með versnandi hag, lægri launum og hærri sköttum. Munurinn á Grikklandi og Íslandi er sá að þar hefur glæpalýðurinn haft miklu meiri tíma til að stela og blekkja, hérlendis voru þeir stöðvaðir það fljótt en voru þó búnir a tæma bankana og hirða alla þá fjármuni sem þeir komust yfir.

Ég hef ekkert á móti því að fá ábendingar um það sem slæmt er við aðild Íslands að ESB, en farið ekki með bull og rangar staðhæfingar. En ég efa ekki að þeir svæsnustu munu halda áfram að berja höfðinu við steininn og kenna ESB um spillinguna og þjófnaðinn á þjóðarauði í Grikklandi.

 


Margt er gott sem gamlir kveða

Í gær var stutt viðtal við þann aldna hagspeking Jónas Haralz í Speglinum, fréttasýringarþætti Ríkisútvarpsins. Þar rifjaði Jónas upp ummæli Ásgeirs Ásgeirssonar, sem síðar varð Forseti íslands, ummælin að ég held frá árinu 1929. Þar benti Ásgeir á að krónan, gjaldmiðill okkar, getur ekki staðið ein sér, þá hafði hún gullfótinn til að styðjast við. En gullfóturinn er löngu týndur og tröllum gefinn og Jónas sagði að þessi örmynt okkar, íslenska krónan, gæti aldrei staðið ein og óstudd. Krónan yrði að minnsta kosti að komast í myntbandalag með öðrum sterkari þjóðum og það lægi beinast við að það yrðu ríki á meginlandi Evrópu, m. ö. o. að við gengjum í Evrópusambandið og tækjum upp Evruna, þannig skyldi ég Jónas Haralz í viðtalinu í gær.

Annað mikilvægt atriði sem Jónas kom inn á var sú mikla breyting sem orðið hefur á bakgrunni þeirra sem sitja á Alþingi og ekki síður sú mikla breyting sem hefur orðið á bakgrunni embættismann ríkisins. Alþingismenn fyrr á árum voru langflestir sterkir og reyndir einstaklingar sem voru valdir til að fara með umboðsvald þjóðarinnar vegna þess að þeir höfðu sannað sig í atvinnulífinu. Þetta voru bændur, útgerðarmenn, iðnrekendur og auk þess var það nánast algilt að á Alþingi sátu forystumenn úr verkalýðsfélögum og sveitarstjórnum. Þeir sem voru það sem kalla má atvinnustjórnmálamenn voru í minnihluta. Nú er allt breytt. Risið hefur upp stétt "atvinnupólitíkusa" sem fara blautir á bak við eyrun frá skólagöngu (mjög líklega með lögfræðipróf) hafa hvergi tekið til hendi í atvinnulífinu. Þessir "atvinnupólitíkusar" eru til í öllum flokkum og eru svo heillum horfnir að þeir skilja það ekki að það sé nokkuð athugavert við það að skófla til sín milljónum og milljóntugum króna til að ryðjast fram fyrir samherja og flokksbræður og systur, nánast til að kaupa sér atkvæði. Því miður hafa almennir kjósendur gleypt þetta agn og fylgt sér á bak við þá sem skrapað hafa saman mestu fjármununum til að kaffæra félaga sína.

En það er sjálfsagt að láta alla njóta sannmælis. Það hafa komið fram einstaklingar alla tíð sem hafa á ungra aldri farið beint í stjórnmál frá prófborðinu en þeir eru í miklum minnihluta. Flestir sem létu að sér kveða á Alþingi áður fyrr komu frá hinum ýmsu afkimum þjóðfélagsins með mikla reynslu að baki.

En hvað um embættismennina? Áður fyrr var mikið lagt upp úr því að embættismenn væru valdir vegna óumdeilanlegra hæfileika sinna en á síðari árum hefur flokksskírteini verið mikilvægara en meðfæddir eða áunnir hæfileikar.


Guðlaugur Þór, þú ert búinn að missa allt traust sem þingmaður, segðu af þér þingmennsku strax

Það var dapurlegt að horfa á viðtal Helga Seljan við Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann í Kastljósi í kvöld. Ég held að aldrei hafi stjórnmálamenn sokkið í jafn djúpan spillingarpytt og með því að sníkja milljónir og milljónatugi til að koma sjálfum sér á framfæri og berja niður samherja sína. Það dapurlegasta er að það er deginum ljósara að ungir framagosar kaupa sé þingsæti með illa fengnu fé frá  spilltum fjárglæframönnum í fyrirtækjum og bönkum.

Ég tók þá í prófkjöri til sveitarstjórnar í Kópavogi 1970 og það datt ekki nokkrum manni í hug að auglýsa sjálfan sig sérstaklega og því síður að sníkja og betla peninga sjálfum sér til handa. En síðan hélt spillingin innreið sína og það er nokkuð öruggt að Guðlaugur Þór er hinn krýndi, hinn smurði merkisberi þeirrar spillingar. Þessi spilling hefur náð til einstaklinga í öllum flokkum, það er langt frá því að Guðlaugur Þór eigi að ganga einn út af Alþingi og ekki láta sjá sig þar framar. Ég hef áður skorað á flokkssystur mína Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að verða Guðlaugi Þór samferð og þið eruð fleiri á Alþingi sem eigið að fylla útgönguhópinn, ég ætla ekki að nafngreina fleiri í þessum pistli.

Þið sem hafi sokkið í spillingarfen prófkjöranna eða önnur fen sem þíð hafið velt ykkur upp úr; þið verðið að skilja þið hafið misst allt traust og það verður ekki hægt að endurreisa reisn Alþingis nema þið látið ykkur hverfa.

Það veldur manni ógleði þegar þið bæði tvö Guðlaugur Þór og Steinunn Valdís syngið þann ámátlega texta; 

Við verðum dæmd af störfum okkar!

Það er einmitt það sem ég er að gera þegar ég krefst afsagnar ykkar frá Alþingi og takið þó nokkuð stóran hóp með ykkur.

Svo langar mig að blogga síðar og leggja út af stórmerku viðtali við þann margreynda hagfræðing Jónas Haralz í Spegli Ríkisútvarsins í kvöld. Ég segi það enn og aftur að Spegillinn er einhver gagnmerkasta dagskrá Ríkisútvarpsins, mig minnir að sá ágæti fréttamaður Friðrik Páll Jónsson hafi þurft að berjast hart fyrir því að fá að skapa hann, raunar merkilegt að hnífurinn skuli aldrei hafa lent á Speglinum. 


Svívirðileg álagning olíufélaganna birtist grímulaust við Smiðjuveginn í Kópavogi

Lengst af störfuðu þrjú olíufélög á Íslandi og þótti mörgum nóg um, líklega kallaði þetta á hærri álagningu þar sem yfirstjórn þriggja dreifingarfélaga þyrfti sitt í kostnað og að gjalda hluthöfunum sæmilega digran álegan arð. En fyrir nokkrum árum bættist fjórði dreifingarfélagið í hópinn, þá héldu margir að kominn væri fram sölufélag bensíns og olíu sem mundi láta sé nægja minni álagningu og þar með lækka verðið.

En þetta nýjasta olíufélag hefur fyrirhafnarlaust runnið inn í samráðshópinn, það selja allir þessa vöru á sama verði. En við norðurenda Byko í Breiddinni gefur á að líta. Rétt hjá Bónus við Smiðjuveginn hefur verið sjálfsafgreiðslustöð frá Skeljungi, Orkan, og ef litið er yfir Nýbýlaveginn blasir mikil og vel hýst bensínsstöð frá N1. En þetta dugar ekki. Mitt á milli þessara tveggja bensínstöðva er Atlantic olíufélagið búið að reisa bensínsölu, fékk svolitla skák úr bílastæði Byko. Sem sagt; á örlitlum bletti eru komnar 3 bensínstöðvar, hvað segir þetta okkur sem erum að kikna undan bensínverði? Það segir okkur að bensínsölufélögin vaða í peningum til að leika sér með, byggja bensínstöðvar hver við annars hlið.

Er ekki hægt að finna smá blett fyrir Olís þarna, ekki eiga þeir að verða útundan. Þeir hljóta að eiga gnægð seðla eins og hin félögin til að leika sér með. 


Hvergi í stjórnskipunarlögum er gert ráð fyrir meirihluta og minnihluta, hvorki í sveitarstjórnum né á Alþingi

Hanna Birna borgarstjóri í Reykjavík hefur sett fram þá hugmynd að eftir sveitarstjórnarkosningarnar í lok maí setjist menn niður og komi sér saman um stjórn Reykjavíkurborgar án þess að mynda meirihluta og þar af leiðandi engan minnihluta. Það hefur lengi verið talið að myndun meirihluta í sveitarstjórnum sé sjálfsagður hlutur en þannig var það ekki í árdaga þegar sveitarstjórnir voru að þróast. Heldri bændur, sem skipuðu hreppsnefndina, komu saman eftir mjaltir og tóku ákvarðanir, Auðvitað þróaðist það þannig að sumir höfðu meiri áhrif en aðrir í krafti síns persónuleika en allir höfðu áhrif. Meirihlutamyndun í sveitarstjórn er ákaflega ólýðræðislegt fyrirbæri. Í sjö manna sveitarstjórn kom fjórir sér saman um að þeir skuli ráða ölu, þrír skuli engin áhrif hafa. Ég held að menn ættu í alvöru að fara að skoða þetta ólýðræðislega stjórnskipulag, sem ekki byggir á neinum lögum, gagnrýnum augum. Það alvarlegasta er þó þegar einhverjir taka upp á því að "slíta" meirihlutasamstarfi, reka bæjarstjórann (borgarstjórann) með tilheyrandi kostnaði fyrir sveitarsjóð (borgarsjóð). Slíkir atburðir gerðust í Árborg og Grindavík á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið. En það er fagnaðarefni, og sýnir hve Hanna Birna er sterkur stjórnmálamaður, að hún skuli leggja í að nefna þetta vandamál með meirihluta og minnihluta í sveitarstjórnum. Það ætti þó ekki að koma á óvart; sirkusinn í Borgarstjórn Reykjavíkur á þessu nánast liðna kjörtímabili var með slíkum ólíkindum að égskil vel að  Hanna Birna sé með með óbragð í munni eftir alla þá gerninga, slíkt rugl og vitleysa sem þar var í gangi.

Enn á ný er þessi forpokaða opinbera og þjóðnýtta stofnun, Þjóðkirkjan, að sýna að öllum landslýð hve mjög hún er úr takti við þjóðlífið

Það er ýmislegt sem við drögnumst með úr fortíðinni og líklega er ekkert eins lífseigt og Íslenska lútherska þjóðkirkjan. Við drögnumst enn með þetta norræna kirkjumunstur, að hver og einn sem fæðist hér á landi, og ekki er þegar tekið fram að eigi ekki að vera í Þjóðkirkjunni, er sjálfkrafa inn í hana skráður, þar er hann skírður ómálga þar sem einhver honum nákominn festir hann á tré Þjókirkjunnar, svo kemur fermingin og mjög líklega giftingin, hjónabandið. Þó er þó sú undantekning að hver sá sem hefur kynferðislegar hvatir til einstaklinga af eigin kyni er úthýst. Um þetta hefur verið deilt enn einu sinni og málið leist á þann aumingjalega hátt að vísa því til nefndar.

Nú gæti einhver sagt sem svo að hér tali enn einn kirkjuhatarinn en ég ber ekki nokkurn kala til trúaðra manna, ég er hins vegar ekki í Þjóðkirkjunni né nokkrum öðrum trúarsöfnuði og það er mér frjálst sem betur fer. Ég vil á sama hátt að hver og einn sé frjáls að því að trúa á hvern þann guð sem hann kýs, nóg er framboðið af guðum í heimi hér.

En það er mín krafa að öll trúarbrögð séu jafn rétthá og að Ríkisvaldið sé ekki að vasast í trúmálum. Það kann að vera að einhver ráðherra í ríkisstjórninni eigi að hafa trúmál almennt á sinni könnu en það á alfarið að útiloka að almennur íslenskur háskóli, ríkisrekinn, sé með trúarbragðakennslu og þá aðeins kennslu í einum trúarbrögðum, kristinni trú.

En hvað er prestastefna að væla um lagfrumvarp frá Alþingi um hjúskap? Ef þessi kirkjudeild væri frjáls og laus við að  vera tengd ríkisvaldinu þá einfaldlega tekur hún ákvarðanir á eigin forsendum, líklega þá sem virðist vera ætíð í meirihluta, að banna hjónavígslur tveggja einstaklinga af sama kyni. Ef þessi kirkjudeild væri sjálfstæð hefði hún fullan rétt til þess. Hvað afleiðingar það kynni að hafa fyrir frosnar trúargrillur er annað mál en þeir og þær um það.

Ég hef aðeins heyrt eina snjalla tillögu frá prestastefnunni sem nú situr á rökstólum. Það er tillaga Geirs Waage í Reykholti að vígslurétturinn, rétturinn til að gefa saman hjón, verði tekinn af prestum og þá auðvitað í öllum kirkjudeildum. Héðan í frá ættu það að vera embættismenn ríkisins sem skrásettu hjónabandssáttmálann. Ef trúaðir karlar og konur vilja fá blessun presta eftirá þá það, ekkert því til fyrirstöðu.

Trúarbrögð hafa fylgt mannkyni frá örófi alda og munu líklega gera svo lengi sem menn bjástra við að lifa á þessum hnetti. En trú og trúarbrögð eiga að vera algjörlega frjáls, hlutverk ríkisvaldsins er það eitt að gæta þess að svo sé. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband