Smákóngaárátta er undirrótin að baráttunni gegn Iðnaðarmálagjaldinu

Maður er nefndur Vörður og er húsasmíðameistari. Hann hafði sigur gegn Iðnaðarmálagjaldinu fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Ætla mætti að þar færi maður mikilla hugsjóna en sagan er reyndar allt önnur. Samtök iðnaðarins, sem hafa tekið við þessu gjaldi og ráðstafað því til góðra verka, eru samtök flestra þeirra sem reka iðnfyrirtæki þar á meðal flestra meistarafélaga í iðnaði, flestra félaga í byggingariðnaði. Gjaldinu hefur verið varið til uppbyggingar menntunar í iðnaði. Ég er hér fyrir framan mig 6 binda flokk kennslubóka fyrir pípulagnanema sem sækja sína bóklegu menntun í Fjölbrautar- og iðnskóla. Þetta er flokkur kennslubóka, sem ég hafði forgöngu um að var saminn og gefinn út á þeim árum sem ég var starfandi með Samtökum iðnaðarins. Þessi bókaflokkur var að mestu kostaður af þeim fjármunum sem fékkst með Iðnaðarmálagjaldinu, auk þessa fjölmörg önnur framfaramál iðnaðarins í landinu.

En það eru til smákóngar sem ekki vilja styðja heildina og þar eru fremstir forystumenn Meistarafélags húsasmiða, Meistarafélags dúklagningamann og Félag pípulagningameistara. Þeir vilja ekki skipa sér í megin afl sem Samtök iðnaðarins enda augljóst að þar kæmust þeir ekki til fremstu mannaforráða vegna eigin verðleika, þess vegna er betra að hokra í kotinu heldur en eiga heimilisfesti á höfuðbólinu.

En þessir hokrarar sáu ofsjónum yfir Iðnaðarmálagjaldinu sem þeir eins og aðrir iðnrekendur þurftu að borga. Þeir hófu baráttu, ekki að leggja gjaldið niður heldur að þeir fengju hluta af kökunni. Sú barátta stóð lengi en löggjafinn taldi að gjaldið kæmi flestum að bestum notum ef einn, í þessu tilfelli Samtök iðnaðarins, sæju um vörslu þess og ráðstöfun.

Þá gáfust kotbændur upp en hófu nýja baráttu. Fyrst þeir fengju ekkert í sinn vasa skyldi enginn fá neitt. Þannig var stefnunni kúvent og nú hófst mikill málarekstur fyrir Héraðsdómi fyrst og síðan Hæstarétti. Á báðum dómstigum töpuðu kotbændur. Þá var stefnt fyrir Mannréttindadómstólinn þar sem þeir höfði sigur. Ekki að skatturinn væri ólöglegur heldur að eitt hagsmunafélag, Samtök iðnaðarins, fengi hann til umráða og ráðstafaði honum. Ef þessum skatti sem var ráðstafað til  eflingar iðnaði í landinu, fyrst og fremst til menntunar og í önnur mikilvæg málefni iðnaðar, og það hefði verið óháður aðili sem hefði stýrt því hefði gjaldið ekki verið dæmt stangast á við mannréttindi.

Það er skaði fyrir allan iðnað á Íslandi að þessi skattstofn og tekjustofn fyrir menntun og þróun iðnaðar skuli þar með verða afnuminn. Mér finnst rétt að sagan komi fram eins og hún er rétt, þeir sem þarna unnu að málum eru ekki réttlætismenn sem höfðu sigur heldur litlir kallar sem af öfundsýki og lítilmennsku börðust fyrir því að skaða íslenskan iðnað og höfðu sigur, því miður.

En það eru fjölmörg önnur samtök á Íslandi sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Bændasamtökin og Félag smábátaeigenda. Þess vegna er ég undrandi á því sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir (sé það rétt eftir haft) að þó Iðnaðarmálagjaldið verði afnumið verði ekki hreyft við annarri skattheimtu á ýmsar atvinnugreinar þar sem skattheimtan rennur til hagsmunasamtaka.

Nú er um tvennt að velja fyrir stjórnvöld:

1. Afnema iðnaðarmálagjaldið og öll önnur hliðstæð gjöld sem í gildi eru hérlendis.

2. Láta öll þessi gjöld standa en færa þau til óháðra aðila sem ráðstafi þeim til eflingar viðkomandi  atvinnugrein. Óháðu aðilarnir gætu einfaldlega verið stjórnir sjóða sem myndast af gjaldinu,  þessar stjórnir gætu verið skipaðar af ráðherra þó með tilnefningum að hluta frá helstu hagsmunaaðilum. Þetta yrði ekki ólíkt og stjórnir lífeyrissjóða sem vissulega eru ekki góðar fyrirmyndir.

Eitt er víst; við getum ekki hundsað dóm Mannréttindadómstólsins. En við getum samt með breytingum látið þessa gjaldtöku standa. Það er þörf fyrir hana og þetta gjald hefur á undanförnum árum staðið undir kostnaði við mörg framfaramál iðnaðarins. En það eru samtök hér á landi sem beinlínis líta á þetta gjald sem félagsgjald sinna samtaka og það getur ekki staðist. Ég fullyrði að svo er ekki raunin með Iðnaðarmálagjaldið en íslenskur iðnaður má ekki missa þann slagkraft góðra verka sem þetta gjald stendur undir.

Ég vona að "kotbændurnir" hjá húsasmíðameisturum, dúkagningameisturum og pípulagningameisturum verðir ekki hafnir til skýjanna með geislabaug réttlætis um höfuðið. Þeirra gjörð var í upphafi að skara eld að sinni köku en þegar það tókst ekki var kúvent; fyrst þeir fengju ekkert skyldi enginn fá neitt.

 


Nú er nóg komið, er Sjónvarpið að breytast í eina alsherjar íþróttarás?

Náttúrulífsþættir David Att. er það eina sem ég vil aldrei missa af í Sjónvarpinu. Í gærkvöldi var þætti hans hent út fyrir handboltaleik milli Vals og Akureyringa, þetta var ekki einu sinni úrslitaleikur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist. Í hverjum fréttatíma í Sjónvarpinu er ætíð 10 - 15% fréttatímans varið í íþróttafréttir. Ég get vel skilið að við gerum íslenskum íþróttum skil í sjónvarpsfréttu en er nauðsynlegt að fara vestur um haf til að elta öll golfmót, að ég ekki tali um körfuboltann þar vestra. Hefur verið kannað hve mikið sjónvarpsáhorfendur vilja fá af íþróttafréttum hvarvetna að úr heiminum og ég gleymdi áðan að minnast á Formúluna, hve stór er sá hópur sem vill horfa á vælandi kappakstur sem alltaf sömu menn verma efstu sætin. Ég get ekki stillt mig um að senda íþróttafréttamönnum tóninn þó það sé örugglega til lítils, ég hef áður gagnrýnt þá og fengið skítkast í staðinn. En stundum er smellt inn stuttum lýsingum ó fótboltanum eða handboltanum og liðin að sjálfsögðu nafngreind. En ekki líður á löngu þar til liðin eru orðin fjögur því allt í einu ryðjast tvö önnur lið inn á völlinn og þau lið virðast fara vítt og breytt um heiminn en það eru eflaust einhver frægustu lið heimsins og heita Gestir og Heimamenn. Þegar fjögur lið eru komin á völlinn skilur maður hvorki upp né niður og lækkar í spekingnum sem lýsir eða hreinlega slekkur á tækinu.

Viðvörun: Ef elíta fréttamanna ætlar að mótmæla því sem ég hef sagt skuluð þeir ekki reyna að snúa út úr eins og áður hefur verið gert og segja "þú ert bara gamall fúll kall sem ert á móti íþróttum".


Lokun Keflavíkurflugvallar er móðursýki á hæsta stigi

Ég er dolfallinn yfir gagnrýnislausum fréttaflutningi fjölmiðla vegna móðursýki flugmálayfirvalda varðandi lokun Keflavíkurflugvallar. Ég bý í Þorlákshöfn og hef átt erindi austur í Flóa í morgun. Eyjafjallajökull og gosstrókurinn var og er vel sýnilegur. Hann leggur nú til norðurs eða norð-vesturs svo það er Þórsmörkin og Tindfjöllin sem fá öskuna ef einhver er. Sú byggð sem hugsanlega fær ösku er Landsveitin og Hrepparnir. Eftir þessu er jafnvel meiri hætta á háloftaösku á Aureyrarflugvelli en á Keflavíkurflugvelli.
Ég sá gosið vel í fyrradag, þá var svartur strókur til suðurs en í dag er enginn svartur strókur frá gosinu.
Hversvegna spyrjið þið fjölmiðlamenn ekki um ástæður þess að Keflavíkurflugvöllur er lokaður? Kokgleypið þið hvaða vitleysu sem er án þess að spyrja?
Helst væri hægt að hugsa sér að ísl. flugmálayfirvöld vilji komast í "hasarinn" og heimsfréttirnar.
Lokun Keflavíkurflugvallar í morgun er ekkert annað en bull og vitleysa, það er ykkar fréttamiðla að fletta ofan af endemisvitleysu sem veldur einstaklingum miklum útgjöldum og erfiðleikum algjörlega að ástæðulausu.


Ætlum við ekkert að gera í að endurskipuleggja stjórnsýslu landsins?

Gallarnir í stjórnskipun landsins æpa á hvern mann. Strax eftir hrun var það almenn krafa að kallað yrði saman stjórnlagaþing en nú virðist sú krafa haf þagnað eða hún þögguð niður. Þær raddir hafa komið frá Alþingi að það sé ófært að fara að kalla saman Jóna og Gunnur til að setja landinu nýja stjórnaskrá, það sé skýlaust hlutverk Alþingis.

Það er þá ekki úr vegi að rifja upp afrekaskrá Alþingis í því mikla verkefni; að setja landinu nýja stjórnaskrá. Þetta hlutverk var því falið strax við lýðveldisstofnunina 1944 eða því sem næst og til að vera sanngjarn er sjálfsagt að rifja upp hvað þessi merka stofnun hefur gert. Alþingi hefur kjörið Stjórnarskrárnefndir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég held. En út úr því starfi hefur ekki komið nokkur skapaður hlutur, engar tillögur, engar hugmyndir.

Brotalöm

Mér finnst augljóst hvar brotalöm er fyrst og fremst í stjórnskipuninni. Í núverandi skipulagi hefur Alþingi látið kúga sig svo algerlega að það er ekki orðið annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn (framkvæmdavaldið) á hverjum tíma. Á því hefur engin breyting orðið eftir að núverandi Ríkisstjórn tók við. Þessu reyna alþingismenn að mæta með því að stunda malfundaæfingar af kappi, því meira sem sagt er því minna af viti. Fullyrt var í fréttum í dag að þingmannfrumvörp yrðu að fá blessum ráðherra til að fá umræðu og kannski afgreiðslu á þingi.

Efling Alþingis mikil nauðsyn

Ég ætla að leyfa mér að koma með þá tillögu að framkvæmdavaldið (Ríkisstjórn) og löggjafarvaldið (Alþingi) verði aðskilið þannig að Alþingi verði ekki framvegis afgreiðslustofnun fyrir Ríkisstjórn. Óneitanlega kemur upp í huga sú róttæka tillaga Vilmundar Gylfasonar að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu. Á þann hátt erum við að fjarlægjast þingbundnar Ríkisstjórnir, en þau tengsl þarf þó ekki að slíta að fullu. En eitt er höfuðnauðsyn; ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi, þeir eiga að sinna sínum störfum en mæta fyrir Alþingi og einstökum þingnefndum þegar þeir eru þangað kallaðir. Tveir þingmenn, Siv Friðleifsdóttir og Björgvin Sigurðsson, hafa  lagt fram tillögur að breyttri stjórnskipan. Hvorutveggja tillögurnar, Sivjar um að þingmen afsali sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar og tillaga Björgvins um að gera landið að einu kjördæmi, eru kák eitt ef ekki kemur meira til. Ef ráðherrar eiga að segja af sér en sitja a samt á þingi þá getur lítill flokkur, segjum Framsóknarflokkurinn, stóraukið fjölda sitjandi fulltrúa á Alþingi eigi hann aðild að Ríkisstjórn. Ef landið er gert að einu kjördæmi er flokksræðið algjört, ég vil heldur una við það að einhver hafi tvöfaldan atkvæðisþunga. En það má leiðrétta þó landið sé ekki eitt kjördæmi.

Skipun Ríkisstjórnar

Vel má vera að við höldum í þingræðið en gerum a því endurbætur. Með því eins og sagt er að framan að ráðherrar sitji alls ekki á þingi. Þannig er sá möguleiki opnaður að ráðherrar séu ekki síður valdir utan þings en innan. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur staðið stjórnlandsins fyrir þrifum að það sé nánast skylda að ráðherrar séu ætíð valdir úr hópi þingmanna. Hefur það sýnt sig á umliðnum árum að þar sitji endilega hæfasta fólki?

En þetta er aðeins brot af því sem þarf að endurbæta, það gerist ekki nema við hugsum málið og komum með hugmyndir, jafnvel djarfar hugmyndir. 


Rannsóknarskýrslan, stjórnsýslan og stjórnmálamenn

Rannsóknarskýrslan leiðir berlega í ljós að stjórnsýslan í okkar þjóðfélagi er með mikilli brotalöm. Við, þessi litla og fámenna þjóð, hefur byggt upp ótrúlaga margar stofnanir sem eiga að hafa margskonar verkefni. Þar brestur hvorutveggja, að fyrirmæli séu skýr og skorinorð auk þess sem margir lykilmenn brugðust, bæði vegna eigin hæfileikaskorts og ófullkominnar umgjörðar. Ég fagna því þeirri stefnumörkun Ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af stofnanakraðakinu. Það hefur verið lenska undanfarna áratugi að stofna sífellt nýjar og nýjar stofnanir, sumar með æði rýr verkefni. Það er tími til kominn að allir skilji það að hver nú stofnun krefst kostnaðar í aðstöðu og yfirstjórn. Ég er ekki frá því að stundum sé hægt að sameina 4 - 5 stofnanir og láta yfirkostnað einnar nægja fyrir allar.

 Stjórnmálamenn

Það er ekki fagur vitnisburður sem margir stjórnmálmenn fá um sukk og svínarí varðandi prófkjörin. Þau áttu í árdaga að verða lýðræðisleg aðferð við raða á framboðslista en þessi aðferð, prófkjör , hefur snúist upp í andhverfu sína og er orðin smánarblettur á lýðræðinu. Það er mikið rætt um fjárstyrki sterkra fyrirtækja til stjórnmálaflokkanna, þar hefur margt misjafnt komið í ljós. En mér finnst styrkjafarganið til einstaklinga í prófkjörum miklu alvarlegri hlutur. Það má segja að það sé lýðræðisleg nauðsyn að við höfum stjórnmálaflokka, eða þannig höfum við byggt upp okkar lýðræðishefð eins og flestar vestrænar  lýðræðisþjóðir, um það fyrirkomulag má vissulega deila.Fjárstyrkur til stjórnmálflokka er þó styrkur til afla í þjóðfélaginu sem hafa tilgang ætlum við. En fjárstyrkur til einstaklinga í prófkjöri er ekkert annað en viðbjóður sem hefur engan lýðræðislegan tilgang. Aðeins þann tilgang að einstaklingur geti troðið sér framar í goggunarröðina, að einstaklingur geti troðið samherjum sínum niður fyrir sig til að komast í bæjarstjórn eða á Alþingi. 

Er sá hinn sami þar að þjóna lýðræðinu?

Nei, langt frá því, Aðeins að hlaða undir eigin metnað, ekki til að vinna að hugsjónum eða stefnumálum þó það sé látið í veðri vaka. Á Alþingi sitja nú margir sem þangað eru komnir vegna fjár sem þeir hinir sömu hafa betlað út úr fyrirtækjum, þar eru jafnvel fjármunir sem illa eru fengnir og  enginn veit í raun hvaðan eru komnir.

Það er kannski ekki réttlátt að nefna nöfn einstaklinga en ég ætla samt að gera það. Guðlaugur Þór er einhver stórtækasti peningasukkari í prófkjöri, en það eru reyndar allir stuttbuxnadrengirnir í Sjálfstæðisflokknum. Sem Samfylkingarmaður get ég akki annað en fyllst dapurleika yfir því hve þessi flokkur, sem átti að verða ferskur gustur í íslenskum stjórnmálum, hefur fyrirhafnarlaust sogast inn í sukkið, bæði flokkslega og líka einstaklingar sem hafa skarað eld að sinni köku í prófkjörum. Ég lýsi hneykslun minni á því að rumpulýður setjist að heimilum fólks eins og gert var nú síðast við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. En ég lýsi ekki minni hneykslun á framferði hennar, og reyndar annarra Samfylkingarmanna, sem gleymdu öllum hugsjónum og hugsuðu um það eitt að olnboga sig fram fyrir samherjana. Ég segi við þig Steinunn Valdís og ykkur aðra flokksfélaga mína sem gleymduð öllu siðferði:

 Þið sem hafið sogast inn í peningaplokk í prófkjörum eigið að láta ykkur hverfa úr íslenskum stjórnmálum, þið hafið fallið á siðferðisprófinu.

Þrír alþingismenn hafa dregið sig í hlé frá þingstörfum, Björgvin G. Sigurðsson vegna þess sem fram kemur í Rannsóknarskýrslunni, Illugi Gunnarsson vegna stjórnarsetu í sukksjóði Glitnis og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vegna þess að hún hefur sogast inn í fjármálasukk manns síns þegar hann var starfsmaður Glitnis. Þó segja megi að alls sé óvíst um "sekt" þessar þremenninga vantar eitt sárlega í þeirra gjörðir.

Þau áttu að segja af sér sem þingmenn, ekki aðeins að draga sig í hlé og bíða í gættinni, það hefði verið þeirra sterkasti leikur!

En það er fleira "undir teppinu" hjá þingmönnum. Tryggvi Þór Herbertsson sem var forstjóri eins fallbankans og gaf íslensku fjármálkerfi heilbrigðisvottorð skömmu fyrir hrun ásamt bandarískum hagfræðingi, hvað um hann? Ekki vafi á að hann á að segja af sér þingmennsku. Eitt það hlálegast af öllu er þó að Sjálfstæðisflokkurinn dregur inn á þing, í stað Þorgerðar Katrínar, mann að nafni Óli Björn Kárason. Það er ekki aðeins að þar er mikill mannamunur, hann mun seint fylla sæti Þorgerðar Katrínar. En miklu alvarlegra er að þar fer einn af þeim sem gátu valsað inn í bankakerfið og sótt sér fé að vild, hvað var það mikið? Var það ekki um hálfur milljarður króna? Hlálegast er þó svar Óla Björns þegar hann er spurður um þessa skuld, hann segir:

"Þetta er ekki mín skuld. Þetta er lán sem fyrirtæki í minni eigu fékk". sem sagt, hann ber enga ábyrgð á þessari skuld. Hann segir eins og kallinn forðum sem reið eftir götu og hafði þunga bagga á herðum sér og svaraði aðspurður "klárinn ber ekki það sem ég ber".

En það eru margir á þingi sem hafa þegið hár fjárhæðir af bönkunum, skiptir ekki máli þó það hafi að forminu til verið lán, vafningar, eða einhver framvirk vitleysa.

Ég held að nú sé kominn tími til að hver alþingismaður líti í eigin barm af hreinskilni og kjarki. En kannski er það til of mikils mælst.

 


Húsasmiðjan er málsfarssóði eins og fjölmargar aðrar verslanir

Í dag, á sumardaginn fyrsta, er opnuauglýsing frá Húsasmiðjunni í Fréttablaðinu. Rétt hefði verið að skanna fyrirsögnina og birta hana þannig en ég ætla ekki að eyða tíma í það. En fyrirsögnin er þessi:

TAX FREE

sumardaginn fyrsta!

AF REIÐHJÓLUM OG LEIKFÖNGUM

Setningin er ruglingsleg, auk þess hef ég aldrei skilið hve útlendar slettur eru orðnar algengar í auglýsingum verslana að ég ekki tali um málfar fólks í viðtölum í ljósvakamiðlum. Þar sýnist mér að sletturnar versni eftir því sem menntunarstigið er hærra.

Hvað er svona heillandi við að auglýsa TAX FREE, hvers vegna ekki að auglýsa VASK FRÍTT, Það gæti gengið eftir íslenskum málvenjum, styttingin Vaskur af Virðisaukaskattur hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt. Af hverju er svona miklu fínna að auglýsa OUTLET, hvers vegna ekki að nota gamla góða íslenska orðið ÚTSALA.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að málfarssóðarnir eru ekki í verslununum. Þeir eru í auglýsingastofunum. Þar sitja menn og konur sem hafa orðið hjarðmennskunni að bráð, þegar ein beljan mígur verður öllum mál.

En þeir sem auglýsingarnar kosta eiga að vera á verði og gera kröfur um að auglýsingar þeirra séu á góðu og gildu íslensku máli.


Loksins nokkur orð um Rannsóknarskýrsluna

Ég býst við að fleirum hafi orðið svo bylt við Rannsóknarskýrsluna að hafa ekki haft sig í það að fjalla um hana. Það sem ég hef kynnt mér Skýrsluna er hér um mjög vandað tímamótaverk að ræða sem við öll verðum að læra af hvort sem okkur líkar betur eða verr. Vissulega vissum við margt af því sem gerst hafði en samt er Skýrslan meiri hrollvekja en nokkurn grunaði.

 

Bankmenn, fjármálamenn, braskarar

Ekki er nokkur vafi á því að þessir aðilar eru höfuðpaurar hrunsins sem grundvöllurinn var lagður að með sukkinu í kring um einkavæðingu bankanna? Dag eftir dag koma í ljós svo ótrúlegar upplýsingar um þá sem þarna hrærðu í fjármálapottinum. Eigendur bankanna, stjórnendur bankanna og stærstu lántakendur bankanna. Varla nokkurs staðar á jarðkringlunni hefur orðið til jafn hrikaleg spilling í fjármálaheiminum. Það vekur ekki litla athygli að þessir þrír bankar, Landsbanki, Glitnir og Kaupþing (+Straumur) voru allir jafn spilltir, allir stjórnendur og eigendur voru búnir að búa til einn allsherjar suðupott sem allir hrærðu í og jusu úr, ekki aðeins til sín eigendanna heldur einnig til ýmissa fjárglæframanna í útlöndum. Laun og bónusar voru yfirgengilegir. Satt að segja getur maður ekki annað sagt en þetta: Hvernig gat það verið að í öllum bönkunum misstu menn vitið á sömu stundu, það er ekkert anað hægt að segja en að þessir bankamenn hafi verið algjörlega vitskertir. Vissu  þeir ekki betur?

Umhverfið, eftirlit og almenningur

Því miður áttum við flest, íslenskur almenningur, nokkra sök, við studdum þessa menn, við höfðum mörg hver ofsatrú á þeirra hæfileikum við trúum því mörg eða flest að öll gagnrýni að utan væri "öfund" og "illgirni", Danir  væru enn spældir yfir að við sögðum skilið við þá, allt flæddi í peningum, allir gátu engið lán eins og þeir vildu. Enn sannaðist það sem ég hef áður sagt: Mannskepnan virðist flest geta þolað, drepsóttir, styrjaldir, hungurneyð, náttúruhamfarið. En eitt getur mannskepnan ekki þolað; það er góðæri, stöðugt batnandi góðæri. Þá fer fyrir mörgum eins og fjármála- og bankamönnunum okkar; öll skynsemi, öll varkárni, allt siðferði fer út í buskann. Við getum vissulega tekið undir það að eftirlit Fjármálaeftirlits og Seðlabanka var allt í skötulíki. En á síðari tímum hefur sú tilhneiging orðið æ meira áberandi að það séu eftirlitsaðilar sem beri ábyrgð á hegðun borgaranna. Ef umferðalys verður eru fjölmiðlar allir komnir í kór og þeir sem ábyrgðina bera eru yfirleitt ekki þeir sem tækjunum stýra, það er æpt á Lögregluna, það er æpt á Vegagerðina og svo koll af kolli. Þannig hafa fjölmiðlar magnað upp þá grýlu að ófarir hvort sem er í fjármálum, umferð að hverjum sem er sé einhverjum allt, allt öðrum að kenna en þeim sem raunverulega bera ábyrgðina. Áttum við ekki kröfu á því að þeir sem stjórnuðu bönkunum höguðu sér eins og viti bornir menn en ekki sem vitfirringar? Dæmi um þetta eru margendurtekin ummæli fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde. Hann hefur margsinnis lýst því yfir að ófarirnar í banka- og fjármálaheimi hérlendis sé lögum þeim sem við tókum upp við inngöngu á Evrópska efnahagssvæðið að kenna!

Hverjir ber ábyrgðina?

Það eru þeir sem ég hef að framan talið upp. Stjórnendur bankanna, eigendur þeirra sem létu greipar sópa um fjárhirslur bankanna. þetta er í fyrst sinn á Íslandi sem hvorki þurfti lambhúshettu, hníf eða byssu við bankarán. Bankaránið var framið þannig að það þurfi engum að ógna, það þurfti engar rúður að brjóta, engin göng að grafa. Peningarnir var einfaldlega stolið með tölvum, miklu einfaldari tæki til bankaráns en gamla draslið. En þeir sem einkavæddu bankana og "gáfu" þá einkavinum, brutu allar reglur sem um bankasöluna voru settar, þeir byrjuðu "ballið". Og vissulega brugðust Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, enda ekki við öðru að búast, Seðlabanki undir stjórn gamals stjórnmálrefs úr Sjálfstæðisflokknum og Fjármáleftirlitið undir stjórn dusilmennis sem hafði það eitt unnið sér til ágætir að vera Heimdellingur.

En hvað um stjórnvöld, hvað um ríkistjórnir og ráðherra? Bera þeir enga ábyrgð?

Jú, svo sannarlega, ræðum það í næsta pistli. 


Þetta skrifaði ég til konu sem heitir Guðrún Sæmundsdóttir hér á blogginu, vona hennar vegna að hún fjalli um menn og málefni á heiðarlegri hátt en hingað til

Sú endurvakning sem ég vonaði að Skýrslan mikla hefði í för með sér var að ekki aðeins sú að forystumenn þjóðarinnar, heldur hver og einn, temdi sér heiðarlegri starfshætti, sérstaklega margir bloggarar þyrftu á því að halda.

Guðrún, þú virðist ekki taka það til þín að heiðarleg umfjöllun um öll mál er nauðsyn, þú virðist ekki hafa neitt á móti því að fara með rangt mál ef þér finnst það henta þér, tilgangurinn helgar meðalið:

1. Skýrslan mikla segir ítarlega frá því hvernig Bresk yfirvöld reyndu nánast allt sumarið 2008 að fá Landsbankann til að færa Icesave innlánin inn í banka sinn í London úr útibúinu. Ef það hefði verið gert værum við á engan hátt í ábyrgð fyrir þessum innlánum þau hefðu orðið á ábyrgð breska fjármáleftirlitsins og þarlends tryggingarsjóðs innlána. Landsbankinn hafði góð orð um þetta í byrjun en þæfði það stöðugt og lét ekki undan þrýstingi Breta. Hversvegna? Landsbanka menn segja frá því í skýrslunni. Það var vegna þess að þá hefðu þeir ekki getað mergsogið útibúið í London, flutt þessi innlán til Íslands til að lána þetta fjármagn Björgólfunum og öðrum tortúlulubbum.

Ætlar þú að halda því fram að það sem sagt er í Skýrsluni um þetta sé rangt?

2. ESB reglum var ekki þröngvað upp á okkur, við samþykktum á Alþingi að taka þessar reglur upp. Bankahrunið er ekki þessum reglum að kenna heldur þeim sem brutu þær. Er það umferðarlögum að kenna að skelfileg umferðaslys verða á íslenskum þjóðvegum á hverju ári?  Þeir menn sem eyðilögðu bankana voru eigendur og stjórnendur allra íslensku bankanna sem hafa, skv. Skýrslunni brotið nær öll lög og  reglur um bankastarfsemi og sópuðu að lokum fjármagni úr gjaldþrota bönkum, lánuðu sjálfum sér og einnig erlendum fjárglæframönnum.

3. Við höfum ekki hugmynd um hvaða réttindi og skyldur fylgja því að ganga í ESB, það  fæst einungis með aðildarviðræðum. ESB er í miklum ógöngum með sína sjávarútvegsstefnu. Við munum ALDREI framselja yfirráð okkar yfir fiskveiðilögsögunni til ESB, ég er fylgjandi aðild, en þetta mundi ég aldrei samþykkja slíkt. Er einhver von til að við fáum það samþykkt? Á langri ævi hef ég upplifað þá tíma sem íslensk landhelgi var aðeins 3 mílur frá strönd. Þá áttum við framsýna og dugmikla stjórnmálamenn svo sem Ólaf Thors og Lúðvík Jósepsson sem hikuðu ekki við að hefja baráttu fyrir auknum réttindum okkar til að ráða okkar eigin auðlindum, hafinu í kringum Ísland. Fyrsta baráttan var 12 mílur frá grunlínupunktum, sigur í þeirri baráttu. Síðan barátta fyrir 50 mílum frá grunnpunktum, þá barátta fyrir200 mílum einnig sigur þar. Við segjum einfaldlega við Evrópusambandið: hvers vegna eiga Danir og Bretar rétt á olíu og gasi í sinni lögsögu, hvers vegna eigum við rétt á því sama á Drekasvæðinu. Hvers vegna gildir ekki það sama um staðbundna fiskistofna innan lögsögunnar? Það á enginn sögulegan rétt til fiskveiða innan lögsögu Íslands.

Getur þú fullyrt að við getum ekki náð fram þessum sjálfsögðu réttindum okkar?

Guðrún, eitt að lokum. Ef þú ætlar að halda áfram að blogga þá ég bið þig að bera það mikla virðingu fyrir sjálfri þér og þínum viðmælendum að hafa það sem sannara reynist en ekki gaspra um hluti sem þú greinilega hefur ekkifyrir að kynna þér.

Íslenskur djákni mælir kynferðisafbrotum kaþólskra prestperra bót

Þessi ótrúlegi, allt að því viðjóðslegi pistill, kom fyrir augu mín á netinu. Höfundurinn, kona,  er að ég held guðfræðingur og djákni, líklega starfandi hjá Íslensku þjóðkirkjunni. Þó kaþólskir biskupar og jafnvel Páfinn hafi viðurkennt þúsundir kynferðisglæpa kaþólskra presta þá gerist þessi íslenski djákni kaþólskari en Páfinn, þegar hún telur að þetta sé uppspuni, ætlaður til að koma höggi á Kaþólsku kirkjuna.

Er það virkilega afsökun fyrir alla þá perra innan Kaþólsku kirkjunnar að þetta gerist víðar?

Á það að vera húmor að hengja broskalla aftan í þennan viðbjóðslega pistil!!!

Tölvupóstar geta ekki verið marktækir nema að athuguðu máli hvort  rétt reynist; annars snýst málið upp í ofsóknir á kaþólsku kirkjuna en leysir engan vanda . Vitað er að kynferðisleg misnotkun barna á sér stað, ef til vill í meira en kemur upp á yfirborðið, er ekki eingöngu bundið við kaþólsku kirkjuna og engin ástæða til að nota svo alvarlegt mál til að koma höggi á kirkjuna meira en tilefni er til.

Þessi frétt gefur til kynna að misnotkun barna sé fremur ætluð,  að snúast upp í ofsóknir á kaþólska kirkjuna; afar sorglegt að blaðamenn skuli leggjast  svo lágt í fréttamennsku.FrownHalo


Sammála Sigríði Ingibjörgu en ósammála Ingibjörgu Sólrúnu

Ber Samfylkingin einhverja ábyrgð á Hruninu mikla í október 2008? Ég er algjörlega sammála Sigríði Ingibjörgu alþingiskonu Samfylkingarinnar að við Samfylkingarfólk eigum tvímælalaust að bera höfuðið hátt og þola þá sjálfskoðun hvort við berum einhverja ábyrgð í þessu skelfilega Hruni. Það mun ekki sýkna þá sem hófu þá vegferð með því að nánast gefa vildarvinum sínum Landsbankann og Búnaðarbankann, en þar var sáð til Hrunsins auk þess sem skefjalaus frjálshyggjustefna þeirra Davíðs og Halldórs var stór og mikill áhrifavaldur.

En í hver gæti þá ábyrgð Samfylkingarinnar verið?

Ég held að allir hafi flotið sofandi að feigðarósi, það voru flestir sem hrifust með djarfri uppbyggingu tortúlugæjanna sem voru svo ofsaklárir að þeir stóðu, að eigin áliti og mikils meirihluta þjóðarinnar, framar öllum fjármálamönnum heimsins, hvergi kristallaðist það betur en í þeirri makalausu ályktun þeirrar makalausu frjálshyggjustofnunar, Verslunarráðs, að Norðurlöndin stæðu okkur langt að baki í stjórn þjóðfélaga og fjármála.

Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar um mitt ár 2007 undir stjórn Geirs Haarde. Það á eftir að koma í ljós hvort ráðherrar Samfylkingarinnar voru nógu vel á verði þá 16 mánuði sem hún var aðili að Ríkisstjórn, þar kann ýmislegt að koma í ljós. Ekki víst að okkar ráðherrar hafi gert sér það ljóst að þessari Ríkisstjórn var fjarstýrt að fyrrum pólitíkus, Davíð Oddssyni, sem sat í forsæti í bankastjórn Seðlabankans

En af hverju er ég ósammála Ingibjörgu Sólrúnu og um hvað?

Ég skil ekki hvað hún er að fara með því að koma upp með þá fráleitu hugmynd að við hættum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún rökstyður það með því að ef aðild væri nú borin undir þjóðina þá yrði hún felld. Ég er sammála því. En það eru fjölmargir sem betur fer sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn, ég er meðal þeirra. Það er útilokað að taka afstöðu til inngöngu nema fyrir liggi hverjir kostirnir eru og  kvaðirnar sem fylgja. Mér finnst líklegt að við getum fengið góða kosti hjá Evrópusambandinu, þar með talið að við ráðum áfram yfir okkar staðbundnu fiskistofnum, ég held að íslenskur landbúnaður verði engan vegin verr setur eftir inngöngu, en þar þarf margt að breytast hvort sem við göngum inn eða ekki. Ísl. landbúnaður getur ekki legið endalaust uppi á landsmönnum með sinn betlistaf. Ég hef þá trú að með aðild að ES mundi hagur íslensk landbúnaðar vænkast, en þyrfti að breyta starfháttum sínu stórlega og standa á eigin fótum, það eiga allir atvinnuvegir landsins að gera.

Ef við drögum okkur til baka og hættum viðræðum um aðild að ES nú þá hefur það eitt gott í för með sér; við getum endanlega hætt að rífast um hvort okkur vegnar betur utan eða innan, aðildarviðræður sem svarað getur því hvað okkur býðst og hvaða kvaðir þurfum við að undirgangast verður aldrei svarað, það verða líklega engar aðildarviðræður teknar upp aftur næstu áratugi. Hverjir vilja ræða við þvílíka ruglukolla sem sækja um aðild en hlaupa frá þeim.

Ef Ingibjörg Sólrún hefur ekkert gáfulegra til umræðunnar leggja ætti hún að hugleiða hvort það sé ekki betra að sitja heima og segja ekkert.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband