Climategate, hvernig komst upp um svindl vísindamanna IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna?

Öll þau býsn af tölvupósti frá CRU, Climate Research Unit sem er í University of East Anglia hafa hangið eins og óveðursský yfir sirkusnum í Kaupmannahöfn. Í þeim pósti sést það svart á hvítu að "vísindamennirnir" hafa haft víðtækt samráð um að hagræða staðreyndum svo þær féllu betur að þeirri niðurstöðu sem ætlunin var að fram yrði sett. Enda stendur það í stofnskrá IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna að sýnt skuli fram á hækkandi hita á jörðinni!

Það var aldrei ætlunin að sýna fram á staðreyndir eða það sem sannast reynist!

picture_1_942149.pngÞessi tölvuleki hefur þó haft það í för með sér að Phil Jones, forstjóri CRU, hefur vikið úr stöðu sinni og opinberar rannsóknir eru hafnar austan hafs og vestan á vinnubrögðum "vísindamannanna".

En hvar birtust öll þessi gögn, allir þessir tölvupóstur?

Auðvitað á ólíklegasta stað, í borginni Tomsk austur í Úralfjöllum Rússlands. Þar með var því slegið föstu að þarna hefði verið rússneskur "hakkari " á ferð. Rússar segjast hafa kannað málið og þetta hafi einfaldlega ruðst í tölvuverið í Tomsk. Sumir hafa verið með þá kenningu á lofti að þarna hafi "whistleblower" verið að verki, innanbúðarmaður hjá CRU. En nú er komin fram ný kenning. Fjölmargir ekta vísindamenn hafa undanfarin ár  krafið Phil Jones um að fá að sjá þau gögn sem hlaðist hafa upp hjá CRU og eru undirstaða "heimsendaspánna". Phil Jones hefur ætíð neitað því að efasemdarmenn fái nokkuð að sjá af grundvallargögnum. Þrýstingurinn á hann hefur þó verið að aukast og hafa menn jafnvel farið af stað með því að snúa sér til dómstóla. Svo mikill var þrýstingurinn að Phil Jones hafi verið orðinn lafhræddur um að hann yrði dæmdur til að hleypa "úlfunum" inn. Þess vegna hafi hann tekið á ákvörðun að eyða öllum gögnum og kenna um tölvuhruni. Allur póstur var pressaður" svo hægt væri að senda hann á felustað undir nafninu tom.cru.

En þá urðu honum á mistök, punkturinn lenti á röngum stað og heimilisfangið verður tomc.ru, sem sagt tölvuverið í Tomsk í Úralfjöllum Rúslands.  

Og þangað ruddist öll runan og eitt mesta hneyksli í vísindaheiminum var komið fyrir allra augu!


Sirkusinn í Kaupmannahöfn á enda runninn

Þá er víst lokið hinum stóra sirkus í Kaupmannahöfn sem haldinn var til að reyna að komast að einhverri þvæluniðurstöðu um loftslagsmál. Ekki veit ég hvort komist var að einhverri niðurstöðu en eins og alþjóð veit gengur starf IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna út á það að hræða fólk um heimsbyggð alla með því hiti fari hækkandi á jörðinni, að hemja verði undirstöðu lífsins á jörðinni, koltvísýring CO2, með ofursköttum og áróróðri, og vinna gegn öðrum lífgjafa jarðarbúa, gróðurhúsalofttegundum sem gera það að verkum að meðalhiti á jörðinni er +14.5°C en án hans væri hann -18°C og jörðin óbyggileg.

Það er með ólíkindum að það skuli hafa tekist að trylla svo alla stjórnmálamenn heimsins, eða flesta, að þeir trúi þessu bulli sem herskari að svokölluðum vísindamönnum hafa kokkað ofan i þá með beinum blekkingum og fölsunum. Svo reyna þeir að slá hvern annan út í yfirboðum sem þeir halda að gangi í augu eigin kjósenda og sýni þá í einhveri ofurbirtu í augum starfsbræðra. Nýjasta útspilið kom frá Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur; að minnka losun á CO2 um 80% að ég held fyrir 2050, kann að vera að það ætti að gerast á styttri tíma. Rasmussen hefur verið bent á að þá yrði amnnkynið að draga stórlega úr því að draga andann, honum var ráðlagt að fara nú að æfa sig og vera búinn að fækka þeim skiptum sem hann fyllir lungun með súrefni um 80% fyrir tilsettan tíma.

picture_11_942121.png Sumum Dönum þótti einum landa sinna ekki nógur sómi sýndur, það hefði átt að minnast Hans Cristian Andersen og hefja hvern fund með því að lesa upp eitt af hans snjöllu ævintýrum "Nýju fötin keisarans" það hefði svo sannarlega átt við sem einkennistexti sirkussins. 

En nú er víst ballið búið. það boðvar látið út ganga um allan hinn kristna heim að kirkjuklukkum skyldi hringt 350 sinnum og átti samhljómurinn að hefjast kl. 15:00 í dag. Hér í Þorlákshöfn hefur ekki heyrst múkk frá kirkjuklukkum, en kannski verður hefðbundin klukknahringing kl. 18:00 eitthvað kröftugri en venjulega.

En nú geta ráðstefnugestir haldið heima á sínum 140 einkaþotum, límósínurnar 1200 frá Danmörku, Þýskalandi og Svíþjóð hafa lítið að gera og svo mun einnig verða hjá elstu starfsstétt mannkynsins. 


Viðbjóður á Vestfjörðum

Það er lítið sem hundstungan finnur ekki. Þetta gamla spakmæli datt mér í hug þegar ég horfði á Sjónvarpsfréttir í kvöld. Fréttastofa, sem er staðin að hlutdrægni og óheiðarleika, lætur hafa sig í það að sjónvarpa langri frétt um viðbjóð á Vestfjörðum. Það er greinilega ekki kreppa hjá öllum þar vestra. Hópur manna kemur saman og keppir í því sem þeim finnst eflaust göfugust íþrótta; að keppa í ofáti!!!

Þar voru menn látnir keppa í því að éta á ákveðnum tíma 1 kg af steik, líklega lambasteik en það skiptir svo sem ekki máli. 

Þennan viðbjóð telur Fréttastofa Sjónvarps nauðsynlegt að koma á framfæri við alla landsmenn á sama tíma og hún grjótheldur kjafti yfir fréttum um vísindahneyksli sem "elítan" rembist við að þagga niður, hneykslinu sem hefur fengið heitið "Climategate". En auðvitað fáum við stöðugar fréttir frá Kaupmannahöfn um ráðstefnuna miklu þar sem bjarga á heiminum frá agnarsmárri einingu í gufuhvolfi jarðar, koltvísýringi CO2, sem er hvorki meira né minna en 0,0387% af gufuhvolfinu eða 1% af gróðurhúsahjálminum þegar dregin hafa verið frá öll þau efni sem ekki tilheyra honum.

Um miðja síðustu öld var opnað veitingahús í Reykjavík við Vesturgötu sem hlaut nafnið Naust. Þetta veitingahús var um árabil eitt vinsælasta veitingahús í höfuðborgini. Eitt af því sem það endurvakti var íslenskur þjóðlegur matur, súrmatur, sem síðar hefur gengið undir nafninu "þorramatur". Það varð ákaflega vinsælt að fara í Naustið og éta súrmat úr trogum á gamlan máta. En því miður tóku veitingamennirnir upp á skelfilegum ósið. Þeir auglýstu að hver sem gæti torgað öllu úr troginu þyrfti ekki að borga góðmetið súrsaða. Þetta varð of mikil freisting fyrir suma þó margir snæddu sinn mat af yfirvegur og fágun. Sumir sem reyndu við áskorunina tókst að lokum að komast á salernin í kjallaranum þar sem spýjan stóð upp úr þeim, aðrir höfðu ekki svo mikið þrek svo magainnhaldið lenti á borðum eða gagnvegum.

Sem betur fer sáu veitingamenn að sér og drógu þetta eindæma "tilboð" til baka og seinna vildu þeir aldrei ræða það, þetta varð þeirra feimnismál.

En nú segir Sjónvarpið okkur að komnir séu fram víkingar á Vestfjörðum sem ætli að endurvekja siðinn.

Kannski við fáum framvegis að  sjá í Sjónvarpsfréttum spúandi Vestfirðinga, ætli þau Óðinn, Elín og aðrir fréttavíkingar Sjónvarpsins fari ekki vestur og kanni hvar spýjuþolmörk þeirra eru? 


Nú er mælirinn fullur, Fréttastofa RÚV verður sér til stórskammar

Þorvaldur Friðriksson fréttamaður á Fréttastofu RÚV flutti óforskammaðan heimsendapistil í hádegisútvarpinu í dag 1. des. Blákalt hélt hann því fram að yfirborð íss á Suðurskauti og Grænlandsjökull bráðni tvöfalt hraðar en áður hefði verið ætlað, yfirborð sjávar muni hækka um 1,5 m á þessari öld, síðan kom upptalning á eyjum sem fara munu á kaf og svo kom rúsínan í pylsuendanum; upptalning á stórborgum sem hverfa munu undir yfirborð sjávar þar á meðal London og New York!

Fyrir skömmu las ég blogg Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Þar minntist hann á yfirgengilegan pistil Þorvaldar Friðrikssonar um loftslagsmál í morgunútvarinu sem hann nánast gat ekki annað en hlegið að.

Á meðan allar fréttastofur og fréttamiðlar heimsins fjalla um "ClimateGate" falsanir vísindamanna sem vinna undirstöður kenninga IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, minnist Fréttastofa RÚV ekki á hneykslið en heldur áfram að ryðja frá sér fráleitustu heimsendaspám sem frá einhverjum svokölluðum "vísindamönnum " hafa komið.

Nú er nóg komið, Óðinn fréttastofustjóri og Páll útvarpsstjóri verða að grípa í taumana. 


"ClimateGate" skandallinn, svo virðist sem Fréttastofa Ríkisútvarpsins sé svo hlutdræg að hún stingi öllum fréttum af svindlinu undir stól

Ég ætlaði vart að trúa mínum skilningarvitum þegar ég horfði á "Fréttaskýringaþáttinn" í Sjónvarpinu í kvöld. Þar var fjallað um loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem verður sett í Kaupmannahöfn eftir viku eða svo. Þangað hefur tekist að smalað öllum helstu stjórnmálamönnum heimsins til að gera nýja Kyoto samþykkt um hvernig skuli berjast gegn einni gastegund, koltvísýringi CO2, og skattleggja alla heimsbyggðina eftir fremsta megni.

Ekki eitt einasta orð hefur komið frá Fréttastofu Ríkisútvarpsins um einhvern mesta vísindaskandal heimssögunnar sem var nýlega afhjúpaður. Falsanir sem eru svo umfangsmiklar að þessi gjörð gengur undir nafninu "ClimateGate" Þeir vísindamenn fjölmargir, sem standa á bak við kenninguna um að koltvísýringur CO2, ein mikilvægasta undirstaða alls lífs á jörðinni, ráði mestu um loftslag heimsins og sé stöðugt að orsaka hlýnun þess, hafa verið afhjúpaðir. Þeir hafa hagrætt og svindlað á gögnum til að sanna kenninguna um CO2 sem orsakavald.

Samt leyfir Fréttastofa Ríkisútvarsins sér að koma með Fréttaskýringaþátt sem að hluta er unnin úr áróðri Al Gore. Saklaust fólk er dregið fram og látið vitna um eyjar sem séu að sökkva, hvítabirnir sýndir og sagðir í útrýmingarhættu og svo var auðvitað viðtal við Árna Finnsson!!!

Fréttastofa Ríkisútvarpsins er sek um fáheyrða hlutdrægni.

Fram að þessu hefur aðeins DV og visir.is sagt frá "ClimateGate" hneykslinu en í dag rak einn fjölmiðill, Morgunblaðið, hressilega af sér slyðruorðið. Í sunnudagsblaðinu er mjög góð grein um þetta svindl og í gær var í blaðinu ágæt grein um svindlið eftir Friðrik Daníelsson verkfræðing.


Það er "ástsælt" að fara "erlendis" og "versla" jólagjafir

Ég var að fá póst á netinu frá Olís þar sem ég er einn af lyklabörnunum. Þar er mér boðið að koma í Ellingsen á Granda á morgun og "versla jólagjafir" með 20% afslætti.

Nú er ég svo skrítin skepna að ég "versla" aldrei jólagjafir en það kemur fyrir að ég "kaupi" jólagjafir ef ég á einhverjar krónur í buddunni.

Það eru ekki ýkja mörg ár síðan rætt var um "að það væri vinsælt að fara til útlanda og kaupa jólagjafir".

Nú er ég ekki að reka áróður fyrir svoleiðis flakki. En ég mótmæli þeirri lágkúru sem er orðin svo áberandi hjá tveimur starfsstéttum; fjölmiðlamönnum og ekki síður textahöfundum á auglýsingastofum.

Það er með ólíkindum á hve skömmum tíma þessu fólki tekst að útrýma góðum og gildum orðum í íslensku máli og koma með í staðinn, oft á tíðum,  algjör orðskrípi.


Kenningin um að koltvísýringur CO2 sé að hækka hita í heiminum hefur aldrei verið sönnuð

Kenningin er ekki sannanleg, enda kenning.

Þakka þér Höski Búi fyrir þessa yfirlýsingu. Þarna er einmitt kjarni málsins; óljós kenning er að leiða okkur á hrikalegar villigötur, það er búið að trylla  flesta stjórnmálamenn til að eyða milljörðum í baráttu til að halda niðri hnattrænum hita, (sem ekki er hægt og það er heldur ekki að hlýna á jörðinni) og skattleggja fram úr hófi atvinnulíf sem mun síðan leiða til  lélegri lífskjara og meiri hörmunga fyrir hinar"gleymdu" þjóðir sem eru að eru án vatns, án heilbrigðisþjónustu og matar.

Þú segir að ég endurtaki alltaf það sama og því neita ég ekki, ég krefst svara, þetta er einmitt það sem þíð á Loftslag.is gerið; endurtakið alltaf það sama. 

Þú segir að þið fjallið um loftslagsbreytingar ekki veðrið. Síðan segið þið að aukning á CO2 og hlýnun jarðar hafi veðurfarslegar afleiðingar.

Hvernig er hægt að komast svona í mótsögn við sjálfan sig?

Nú er rætt um að nautpeningur á Indlandi sé stórhættulegur vegna þess metans sem hann gefur frá sér, ég hef séð "sanntrúaða" predika að það eigi jafnvel allir að hætta að leggja sér kjöt til munns vegna þessa. En á hverju á þá mannfólkið að lifa? Á grænmeti segja sömu spekingar. Er það mögulegt að auka stórlega ræktun grænmetis og djöflast um leið gegn aukningu CO2 sem er undirstaða alls gróður í heiminum?

Að rækta grænmeti eru einmitt þau ráð sem Grænfriðungar gáfu Grænlendingum og Inúítum í Norður-Kanada, þá gætu þeir hætta að veita hvali, seli og annað sjávarfang. Ráð af sama toga og franska drottningin gaf almenningi; ef ekki er til brauð því borðar fólkið þá ekki kökur!

Þið segið að aukning CO2 komi als ekki úr hafinu, það verður seint sannað. Þið ættuð að vita það að hver manneskja gefur frá sér umtalsvert CO2 við öndun.

Hefur ekki mannfjöldi í heiminum tvöfaldast á síðustu öld eða réttara sagt seinni hluta seinustu aldar?

Ætlið þið svo að halda áfram að stinga höfðinu í sandinn varðandi hið stóra "ClimateGate" láta eins og það hneyksli hafi aldrei gerst, að "vísindamen" hafi hagrætt staðreyndum til að sanna kenningar sínar. Er Michael Mann enn einn af ykkar "páfum" í vísindum loftslagsins? Ertu að vísa til hans þegar þú segir "en mælingar á náttúrunni urðu til þess að menn gátu reynt á hana með almennilegum mæligögnum".

Ég veit að ykkur "sanntrúuðum "  er ekki verra við neitt en rökræður, það kemur alltaf betur og betur í ljós.

Pistillinn að ofan var athugasemd við það sem kom fram á loftslag.is. Set það einnig hér fram á mínu bloggi. Til skýringar: Michael Mann prófessor við háskóla í Virginíu vestra er sannur að hrikalegum fölsunum um veðurfar frá árinu 1000 til nútímans. Hann reyndi að sýna fram á að hiti á miðöldum (víkingatímanum) sem sannarlega var að m.k. 2°C hærri en nú, hafi aldrei verið staðreynd. Hann reyndi einnig að sýna fram á að "Litla ísöld" á 17. og 18. öld hafi aldrei verið til, íslenskir annálar segja okkur nákvæmlega um veðurfar á þeim tíma. Eitt árið gengu 30 hvítabirnir á land á Íslandi, meira að segja 2 í Skaftafellssýslum.

Og engin Þórunn til að taka á móti þeim!

Hafís náði 15 sjómílur suður af landinu það árið!


Aukum veiðar á þorski

Það er engin spurning; við eigum að auka veiðar á þorski, við höfum ekki efni á því að láta þorskinn verða ellidauðann í sjónum í stórum stíl eða láta hann synda til okkar nágranna sem ekki fúlsa við slíkri gjafmildi.

Ég er dæmigerður landkrabbi en hver fylgist ekki með sjávarútvegi og fiskveiðum. Hef ætíð haft meira álit á ráðgjöf Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og Kristins Péturssonar fiskverkanda á Bakkfirði en á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun finnur ekki þorskseiðin en einn ágætur Grímseyingur sagðist í hádegisfréttum geta upplýst Hafró um hvar þau eru.

Jóhann Sigurjónsson, hættu að leita og hringdu norður til Grímseyjar, það er miklu ódýrari leið til að finna seiðin en skrapa alla firði.

Eftir yfirgengilegt stjórnleysi og vitleysu undanfarin sukkár virðist sem svo að komin sé upp ákveðin stirðleiki í kerfinu; nú þora menn vart að taka ákvarðanir, tæplega að ræða róttækar aðgerðir til að koma okkur úr vandanum sem fyrst.

Við eigum að taka djarfar ákvarðanir og fylgja þeim eftir:

Auka fiskveiðar og skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, ekki aðeins séreignasparnað heldur allar inngreiðslur.


Starfsmaður óskast á ferðaskrifstofu, maður sem hefur unnið á innanlandssviði (incoming).

Það er ekki hægt að ætlast til þess að fáfróðir Íslendingar skilji hvað það er að vinna á innanlandsviði, auðvitað verður að fylgja þýðing á stórveldamál, þetta þýðir sem sagt á alheimsmáli "incoming".

Þetta er úr auglýsingu sem birtist í fjölmiðli í morgun, laugard. 21. nóv. 2009.


Algjörlega sammála Pétri Blöndal

Hversvegna er hugmynd Sjálfstæðismann um skattlagningu á inngreiðslur lífeyrissjóða ekki tekin til gagngerrar skoðunar?

Ég blogga um þetta mál hér að neðan en eftir að hafa hlustað á Pétur Blöndal alþingismann og fulltrúa lífeyrissjóðanna (hvers nafn ég greip ekki því miður) í gær í Kastljósi  þá er ég enn sannfærðari um að þetta er leið sem við eigum að fara. Það er langt síðan ég hef heyrt frá "ábyrgum" manni jafn miklar rökleysur og komu fram hjá lífeyrisjóðafulltrúanum.

Lítum aðeins á rökleysur hans:

1. Hann hélt því fram að lífeyrissjóðirnir þyrftu, ef þetta yrði tekið upp, að losa og selja eignir. Hvers vegna, lífeyrissjóðirnir eru ekki að greiða neitt út, þeir fá hins vegar minna í kassann og geta ekki legið með skattpeninga ríkisins í áratugi og vaxtað þá vel eða illa eftir atvikum.

2. Hann sagði þetta verð ákaflega flókið mál. Þessi breyting er í mínum huga sambærileg og þegar við tókum upp staðgreiðslukerfi skatta, enginn vill hverfa frá því kerfi.

3. Hann sagði að við værum að taka frá börnum og barnabörnum, þau mundu fá sítt úr lífeyriskerfinu en hvað um samneysluna? Að sjálfsögðu fær hún sitt, á hverju ári koma inn skatttekjur til ríkisins á nákvæmlega sama hátt og frá staðgreiðslu skatta, skatttekjur sem skila sér betur en ef þær eru teknar af útgreiðslum.

4. Skatttekjur skila sér nær 100% við skattlagningu á inngreiðslum, en við eftirágreiðslu skatta glatar ríkið alltaf einhverju vegna þess að fjöldi lífeyrisþega fær aldrei greitt út að fullu það sem hann hefur greitt inn. Hvað gerist ef lífeyrisþegi fellur frá rétt áður en hann kemst á aldur til að taka lífeyri? Erfingjar fá eitthvað en hvað um þá sem enga nákomna ættingja eiga?

Ég átel núverandi Ríkisstjórn fyrir að hafa ekki tekið þetta mál föstum tökum og notað þetta mikla peningaflæði til að loka fjárlagagatinu frekar en að fara út í þessa skattheimtu sem alltaf verður sársaukafull þó reynt sé að gæta fyllsta réttlætis. Ég átel Sjálfstæðismenn fyrir að hafa ekki fylgt þessu máli eftir með hörku og ákveðni í stað þeirrar hálfvelgju sem þeir hafa sýnt.

Ég krefst þess að Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega fjármálaráðherra, skýri fyrir mér og þjóðinni allri hvaða meinbugir séu á  þessari leið. Einhverjir meinbugir kunna að vera á málinu, en ég sé þá ekki.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband