Athyglisvert viðtal Þórhalls við Björk í Návígi í gærkvöldi

Ég játa strax; viðtalið kom mér mjög á óvart, jákvætt á óvart. Björk sýndi og sannaði að hún er ekki í hópi glamrara, hún hefur greinilega kynnt sér mál auðlindanna og orkugeirans á Íslandi mjög vel.

Það er vissulega hægt að þrasa endalaust um kaup Magma Energy á hluta af HS-Orku á Suðurnesjum. En þær deilur sem þar hafa risið koma ekki síst af því að við höfum ekki markað okkur stefnu í auðlinda- og orkumálum, það er kjarni málsins. Ég held raunar að við ættum að hætta að þrefa um Magma málið og láta það ná fram að ganga, allt annað er rugl. En sé okkur það ekki að skapi eigum við umfram allt að marka stefnuna til framtíðar það vel að við í framtíðinni verðum að finna okkur annað til að þrasa um. En stefnumörkunin er lífsnauðsyn og þá ákalla ég Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um að ganga hratt til verks, ég trúi henni og treysti til forystu.

Þrennt gladdi mig sérstaklega sem Björk sagði í gær:

Hún benti á það sem og ég hef bent á áður en fengið litla athygli; nýting jarðgufu til orkuframleiðslu er allt annað mál en nýting vatnsafls. Á mínu bloggi er þessi pistill:

Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind

Mér til nokkurrar furðu hef ég lítil viðbrögð fengið. En Björg kom réttilega inn á að við gætur ekki borað að vild og sótt endalaust gufu, jarðhitasvæðin eru viðkvæm en nóg um það; þeir sem ekki hafa lesið þennan pistil minn geta blaðað aftur til 8. okt. og þar er hann.

Í annan stað nefndi hún fiskinn í sjónum sem mér finnst fá allt of litla athygli sem auðlind. Auðlindaumræðan hefur eingöngu snúist um auðlindir á og í  landi, þess vegna verður þessi mikli hvellur út af Magma Energy, allt virðist ætla af göflunum að ganga vegna eignarhalds einkaaðila, ekki á auðlindinni heldur á nýtingu hennar. En þeir sem hæst láta þar virðast eingöngu taka við sér ef útlendingar koma með eignaraðild, en láta sér í léttu rúmi liggja þó íslenskir ríkisborgarar sölsi undir sig auðlindir okkar með dyggum stuðningi stjórnmálaafla. Mér liggur við að bera þetta saman við það að við kipptum okkur ekki upp við það að menn færu um rænandi og ruplandi einungis ef þar færu Íslendingar en legðum allt kapp á að góma slíka kóna ef þeir væru útlendingar.

Í þriðja lagi vil ég nefna þá róttæku hugmynd sem Björk setti fram; að breyta stálgrindaskálunum tveimur, sem búið er að reisa fyrir álver, í ylræktarver. Þarna mætist það sem ég hef lagt áherslu á; að ef við öflum gufu til orkuframleiðslu getum við ekki nýtt hana af viti og framsýni nema láta hana fyrst framleiða rafmagn og þar á eftir heitt vatn eða áframhaldandi sem gufu líkt og gert er á Nesjavöllum, Svartsengi og gert verður í Hellisheiðarvirkjun.

Ég benti á Kröfluvirkjun; hversvegna ekki ylræktarver þar?

 

 


Eru engin takmörg fyrir því hvað djúpt er hægt að sökkva sér í skotgrafirnar á Alþingi?

Ekki man ég eftir kvöldi í langan tíma þar sem svo margar jákvæðar fréttir hafa komið í fjölmiðlum. Þar á ég ekki síst við þau tímamót sem urðu á Suðurnesjum að frumkvæði Ríkisstjórnarinnar, fundi hennar með forystumönnum allra sveitarfélaga á svæðinu. Þetta er vissulega gleðileg tíðindi, þarna taka höndum saman um að efla atvinnu á svæðinu og uppbyggingu Ríkisstjórn, sem talin er vinstri stjórn, og sveitarstjórnir á Suðurnesjum sem að ég held allar teljist til hægri í pólitík.

Ætla mætti að þessu væri tekið fagnandi í stjórnsýslunni, á Alþingi ekki síst.

En það var öðru nær. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson ruku í pontu og rökkuðu allt niður sem fram kom í í þessi samkomulagi  og hæddust að öllu þó flokksbræður þeirra á Suðurnesjum gangi fagnandi til verks. 

Líklegt þykir mér að þarna hafi lágkúran á Alþingi komist neðst í leðjuna.

En hvaða samkomulag var gert á Suðurnesjum í dag, er ekki fróðlegt að líta á það?

Hér á eftir fer listi yfir þau verkefni sem ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í morgun að ráðast í nú þegar:

Forsætisráðherra

1. Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum

Að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra:

1. Flutningur Landhelgisgæslu

Að skoðaðir verði vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti.

Fjármálaráðherra:

1. Gagnaver

Að lagt verði fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt

Að til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingu á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir verði 250 m.kr. veitt aukalega til þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

3. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu (Kadeco og Fjárfestingarsvið Íslandsstofu)

Að hrundið verði af stað kynningar- og markaðsátaki á fasteignum á varnarsvæðinu en Þróunarfélag Keflavíkur á fjölmargar eignir á gamla varnarsvæðinu sem er nauðsynlegt að komist í notkun.

4. Hersetusafn á Suðurnesjum

Að Þróunarfélagi Keflavíkur verði falið að setja á stofn Hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið myndi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimstyrjöld.

Iðnaðarráðherra:

1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum

Að unnið verði með starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum sem iðnaðarráðherra hefur skipað og ný verkefni verði lögð fyrir starfshópinn sem rýnir þau og metur. Jafnframt muni starfshópurinn vinna nýjar tillögur í samstarfi við heimamenn og leggja fyrir ráðherra og stofnanir.

2. Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku

Að stutt verði við verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur verið falið að hefja undirbúning að um klasasamstarf á sviði líforku sem tengist jarðvarmaverum á Reykjanesi.

Félags- og tryggingamálaráðherra

1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta lengt í 4 ár

Að hámarkstímabil greiðslu bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði verði lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur ár.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum – ráðning verkefnisstjóra.

Ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráðinn verði starfsmaður/verkefnisstjóri sem haldi utan formlegt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga á sviði velferðarmála sveitarfélaganna á svæðinu. Verkefnisstjórn skipuð lykilfólki frá sveitarfélögunum og fulltrúum Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Umboðsmanns skuldara myndar samráðshóp sem vinnur með verkefnisstjóranum. Velferðarvaktin verði verkefnisstjórn og verkefnisstjóra til ráðgjafar og haldi utan um verkefnið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar/félags- og tryggingamálaráðherra. Verkefnið er hugsað sem fyrirmyndarverkefni sem önnur svæði gætu síðar ýtt úr vör.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum.

Umboðsmaður skuldara fái aðstöðu á Suðurnesjum og taki þar á móti fólki sem þarf á þjónustu embættisins að halda. Til að byrja með þarf að setja tvo starfsmenn í verkið þar sem nauðungasölur eru hlutfallslega mjög margar á Suðurnesjum m.a. tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra


1. Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

2. Fiskitækniskóli Íslands.

Fisktækniskóla Íslands verði tryggt eitt stöðugildi.

Þetta er það sem þeir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins þeir Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson töldu sig hafa stöðu til að rakka niður og hæðast að. Mér segir svo hugur um að ýmsir flokksfélagar þeirra á Alþingi kunni þeim litlar þakkir fyrir.


Ríkissjóður á hundruðir milljarða króna hjá Lífeyrissjóðum landsins, fé sem þeir geta braskað með að vild

Einn ágætur bloggari, líklega einn af þeim gleggri á tölur og peningagildi, velti upp mörgum hliðum þess að lina skuldabyrði almennings sem er ekki einfalt mál. M. a. kom framhjá honum að niðurfærsla fasteignalána gæti orðið Lífeyrissjóðum landsins þung byrði, svo þung að Ríkissjóður yrði jafnvel að hlaupa undir bagga og veita fé í Lífeyrissjóðina. Hann benti jafnframt á að Ríkissjóður ætti að fá teygjuband á þessi fjárframlög, greiða þau á allt að tíu árum.

En er ekki eitt að gleymast? Í allri skattheimtu er það regla að skatt skal greiða um leið og skattstofn verður til, þannig er það bæði um tekjuskatt og fjármagnsskatt og að ég held um alla aðra skatta. 

Nei, það er ein undantekning. Lífeyrisgreiðslur í Lífeyrissjóði eiga að bera skatt en sá skattur er ekki tekin af stofninum um leið og hann verður til. Sá sem fær greiðsluna til varðveislu og ávöxtunar fær einnig að halda skattgreiðslunum árum saman sér til ábata, líklega geta þessir skattpeningar verið í umferð Lífeyrisjóðanna í ártugi, eru fimmtán tugir ára ekki mögulegir?

Ef svo fer að Lífeyrissjóðirnir standa ekki undir þeim afföllum sem skuldaniðurfelling hefur í för með sér þá þarf Ríkissjóður ekki að leggja þeim til  fjármagn beint. Það gæti hins vegar verið í formi þess að Ríkissjóður gæfi eitthvað eftir af hinni miklu skattaskuld Lífeyrissjóðanna, sá sem á stórfé hjá öðrum aðilum getur tæpast þurft að leggja þeim til fé þó tímabundnir erfiðleikar steðji að.


KJördæmaskipun landsins hefur alltaf verið vandræðabarn

Sá sem er í framboði til Stjórnlagaþings er að sjálfsögðu orðinn æði upptekinn að velta fyrir sé málefninu sem bíður; að setja Íslandi nýja Stjórnarskrá.

Eitt af því sem þar bíður að fást við er vægi atkvæða sem oft hefur verið æði misjafnt. Aldrei mun það þó hafa verið jafn slæmt og vægið ójafnara en á 4. ártug síðustu aldar. Svo langt gekk það að Framsóknarflokkurinn bar ægihjálm yfir aðra flokka og atkvæðafylgið  ekki í neinu samræmi við þingmannafjölda flokksins. Margar tilraunir hafa verið gerðar til jöfnunar á vægi atkvæða með breytingum á kjördæmum en oftast riðlast það jafnvægi fljótlega vegna búferlaflutninga.

Það virðist vera nokkuð almenn skoðun landsmanna að eina ráðið til jöfnunar sé að gera Ísland að einu kjördæmi. Það er vissulega rétt að þá hefur náðst algjör jöfnuður.

En hefur Ísland eitt kjördæmi  engar neikvæðar hliðar?

Ég hef alla tíð verið nokkuð gagnrýninn á landið sem eitt kjördæmi og óttast það neikvæða sem fylgir. Það sem ég óttast mest er að með því eflist flokksræðið og finnst víst mörgum að það sé nægilegt fyrir. Við þetta fyrirkomulag, landið eitt kjördæmi, býður hver flokkur fram aðeins einn lista hvort sem það eru gömlu flokkarnir, fjórflokkurinn margumtalaði, eða ef til vill mergð nýrra flokka sem bjóða fram;  framboðslistar yrðu settir saman í höfuðstöðvum flokkanna í Reykjavík.

Yrði þetta ekki lyftistöng fyrir flokksræðið?

Þrátt fyrir Ísland eitt kjördæmi er ekki loku skotið fyrir það að til verði sérframboð og þá einkum á landbyggðinni. Þeir listar gilda að sjálfsögðu sem listar bornir fram á landinu í heild. En á þetta má minnast, Ísland eitt kjördæmi er ekki trygging fyrir að ekki verði landshluta togstreita.

En hvernig er hægt að tryggja að kjósandinn geti jafnvel kosið einstaklinga? Verða þeir þá að vara frambjóðendur á flokkslistum?

Er það gerlegt að einstaklingar geti einnig boðið sig fram til Alþingis í þessu stóra kjördæmi. Íslandi öllu?


Hafa tölur jákvæð eða neikvæð gildi?

Þar sem ég er frambjóðandi til Stjórnlagaþings, 1 af 523, þá hef ég fengið mitt númer sem væntanlegir kjósendur mínir skrá á kjörseðilinn í komandi kosningum.

Mitt númer er 4976

Einn ágætur vinur minn hér í Þorlákshöfn kom að máli við  mig ábúðarmikill í gær og spurði mig þeirrar sérstæðu spurningar hvort ég ætti mér einhverjar happatölur. Ég kvað nei við þó oftar en einu sinni hefði ég fengið ábendingar í einhverju spjalldálkum að ég ætti mér eina slíka, en látum það liggja milli hluta, ég hef ekki tekið mark á slíkum boðskap.

Spyrjandinn varð nú ábúðarmeiri og spurði af mikilli alvöru hvort ég forðaðist ákveðnar tölur eða hvort ég óttaðist að þær boðuðu ógæfu. Mér varð víst nokkur hlátur í hug og svaraði að því síður óttaðist ég neikvæð áhrif nokkurra talna, hvorki einfaldra né samsettra. Vini mínum var greinilega létt og skýrði fyrir mér hver væri grunnurinn að þessari könnum.

Hann hafði skyndilega gert sér grein fyrir því að ef lagðir væru saman tveir fyrstu stafirnir í kjörnúmeri mínu til Stjórnlagaþings kæmi út talan 13 og ekki nóg með það; ef lagðir eru saman tveir seinni tölustafirnir kemur einnig út talan 13.

Ég sagði sem var að aldrei hefði ég haft beyg af tölunni 13 á því yrði engin breyting nú.

Kannski verður talan 13 einmitt mín happatala í komandi kosningum?


Dapurlegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu

Ég átti góða samleið með Morgunblaðinu í 16 ár, árin sem ég skrifaði pistlana Lagnafréttir. Lengst að var Magnús Sigurðsson umsjónarmaður Fasteignablaðsins sem Lagnafréttir birtust í, við áttum alla tíð hið besta samstarf. Það kom fyrir að Styrmir Gunnarson legði mér lið en þetta var á þeim árum sem hann og Matthías Johannessen voru búnir að endurreisa Morgunblaðið og gera það að víðsýnum fjölmiðli þó ekki kæmist það alfarið hjá því að leggja Sjálfstæðisflokknum lið.

En nú er öldin önnur. Einhverntíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að í Morgunblaðinu birtist annar ein leiðari og þar sást í gær. Hann var uppfullur af rætni, hæðni en ekki síst af minnimáttarkennd og öfund. Efni leiðarans var þjóðfundurinn um helgina sem eflaust gefur þeim 25 sem kjörnir verða á Stjórnlagaþingið góðar ábendingar.

Tryggvi Gíslason, sá gagnmerki skólamaður,  hefur svarað þessum leiðara á yfirvegaðan hátt með festu og fengið stuðning minn og fleiri með athugasemdum við sinn pistil.

Að lokum vona ég að Morgunblaðið nái aftur þeirri reisn sem það bar undir stjórn Styrmis og Matthíasar, sökkvi  ekki á kaf í að verða sorapyttur og útrás fyrir geðillsku þess sem finnur að hann er búinn að tapa fyrri tiltrú, grefur þar með sína eigin gröf.


Stór hluti þjóðarinnar er í algjörri afneitun

Sérstakt þjóðfélagsástand kemur upp hjá hverri þjóð sem lendir í fjárhagslegu hruni, þar á ég við þær þjóðir sem við nefnum þróaðar þjóðir. Þeir sem aldrei hafa haft nema naumlega til hnífs og skeiðar þekkja þetta ekki, hjá þeim er baráttan áfram að reyna að haf í sig og á, verða að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. En  hjá hinum þróuðu þjóðum virðist viðbrögð margra við erfiðleikum vera afneitun. Það er ekki annað að sjá á yfirborðinu en mikill hluti þjóðarinnar hafi úr talverðu að spila, veitingahúsin blómstra, glæsilegasta kvikmyndahús Norðurlanda er opnað í Egilshöll, tónleikar og leiksýningar á hverju strái, verslanir sprengfullar af munaðarvöru, bókaútgáfa blómstrar, þúsundir lítra af bjór renna um kverkar á öllum krám hvarvetna um land og óhemju magn að jólarusli hefur verið flutt inn og er að hrúgast upp í búðunum, ekki búist við öðru en það muni renna út sem heitar lummur.

Er þá ekki allt í lagi, blómstrar ekki þjóðlífið?

Að vissu marki gerir það svo og auðvitað er það jákvætt að einhver eyðsla eigi sér stað, öll viðskipti efla Ríkissjóð og ekki veitir af.

En það hefur fyrr verið líf og fjör í borgum heimsins þó grunnurinn sé örþunnur ís sem kann að bresta hvenær sem er. Það kann að virðast  ósvífni að hverfa frá Reykjavík  til Berlínar eftir heimskreppuna miklu, til tímans milli heimsstyrjaldanna tveggja. Hið ljúfa líf var í hámarki, það var hvort sem er allt á vonarvöl. Þannig höfðu sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar búið um hnútana með þeim afarkostum sem þeir settu Þjóðverjum, þjóðinni sem mesta ábyrgð bar á  þessari skelfilegu styrjöld t og töpuðu henni gersamlega. Með  Versalasamningnum var skapaður jarðvegur fyrir skaðræðishreyfingu nasismans, þá sögu þekkja flestir, allir ættu að þekkja hana.

En sem betur fer erum við í Reykjavík og Íslandi árið 2010, svo erfitt sem það kann að reynast, en ekki á millistríðsárunum í Berlín og ég vona að þeir sem lesa þennan pistil minn taki þessa samlíkingu ekki of bókstaflega, en viðbrögðin við fjárhagslegum erfiðleikum er oft að sama toga.

En það eru fleiri í afneitun en þeir sem enn eiga eitthvað í handraðanum og geta þess vegna veitt sér þó nokkrar lystisemdir.

Tunnusláttarfólkið er ekki síður í afneitum. Ótrúlega margir sjá tunnuberjarana með glýju í augum, finnst jafnvel að þarna séu einhverjir "vormenn" að verki. Fréttamenn færa okkur nákvæmar fréttir af þessum hópi og ræða oft við einhverja sjálfskipaða talsmenn sem lýsa hvaða hugsjónir búa að baki. Eitt er þar sameiginlegt öllum sem láta í sér heyra um leið og þeir leggja frá sér lurkinn til að seilast í vasann eftir eggjum til að henda í Alþingishúsið. Það eina sem kemst að er að allt sé ómögulegt, Ríkisstjórnir fari út í hafsauga, Alþingismenn hundskist heim til sín, hvergi örlar á nokkru uppbyggilegri hugsun enda mjög skiljanlegt því þessi hópur hefur ekki skoðað bakgrunn þess sem hér gerðist eða hvað öfl komu okkur á þennan kalda klaka.

Dæmigert fyrr þennan "baráttuhóp" var uppákoman í Þingholtunum þar sem lítil deild úr tunnuhernum sló skjaldborg um hús eitt, en sá orðrómur komst á kreik að Landsbankinn ætlaði að láta bera íbúann á efstu hæð út. Þess þurfti raunar ekki því íbúinn var flúinn af vettvangi, hafði reyndar tapað íbúðinni til Landsbankans  20 mánuðum áður en fengið að búa þar áfram. Hann hafði ætlað að verða ríkur á augabragði með byggingarbraski og fékk fullt af peningum hjá Landsbankanum til þeirra framkvæmda því enga peninga átti hann sjálfur. En eins og svo margir braskarar sem ekkert áttu og skuldsettu sig upp fyrir haus fór hann rakleitt í gjaldþrot. Íbúðin góða við Laufásveg var veðsett upp í rjáfur og vel það. En áður en hetjan lagði á flótta hafði hann staðið í ýmsum framkvæmdum með þeim afleiðingum að íbúðareigendur á hæðinni fyrir neðan urðu að flýja þar sem vatnsleki niður alla veggi gerði íbúðina ónothæfa. En síðasta hálmstrá hetjunnar var að reyna að bjarga sér með því að tengja fram hjá hitaveitumæli Orkuveitu Reykjavikur, líklega hugsandi sem svo að komandi hækkun heita vatnsins væri óbærileg, þess vegna væri réttlætanlegt að fá heita vatnið ókeypis.

Ég er ekki í vafa um að með þessum orðum er ég að safna glóðum elds að höfði mér. Þúsundir hafa komið á Austurvöll við ýmis tækifæri að undanförnu til að þrýsta á stjórnvöld til að taka fastar á vandamálunum með nærveru sinni en án ofbeldis og upphlaupa. Þetta fólk á skilið virðingu fyrir nærveru sína og prúða framkomu. En uppvöðsluseggir sem með ólátum, tunnubarsmíðum og drullukasti hafa verið nánast friðhelgir, engin virðist þora að blaka við þessum ruglukollum sem hafa ekkert jákvætt fram að færa heldur þvert á móti; skemmdarverk sem hefur kostað milljónir að lagfæra.

Og meira að segja í þessum skrílslátum hefur Alþingiskona Hreyfingarinnar tekið þátt. Tæplega getur fulltrúi á Alþingi lýst betur yfir hugmyndafátækt sinni og getuleysi til að starfa jákvætt í þingsölum. 


Palli er ekki einn í heiminum, það ættu stjórnvöld að reyna að skilja

Það hefur vissulega vakið athygli að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram viðamiklar tillögur í efnahags- og skattamálum. Um þessar tillögur tókust þeir á Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Björn Valur Gíslason varaformaður Fjárlaganefndar Alþingis í Kastljósi í gærkvöldi. Mér heyrðist að inntak tillagna Sjálfstæðismanna væri að afturkalla margskonar hækkanir á sköttum, sem Ríkisstjórnin hefur innleitt, draga stórlega úr niðurskurði fjárveitinga. Þetta mundi skapa ný störf, hækka þar með skatttekjur og efla hagvöxt. Gallinn við þetta sýnist mér vera sá að aukning skatttekna vegna fjölgunar starfa gerist ekki samstundis það tæki nokkur ár að skila sér.

En ég komst yfir eintak af Fréttablaðinu í morgun (sem er ekki auðvelt í Þorlákshöfn) og þar með fylgdi sérblað Markaðarins. Ég hef gagnrýnt fjölmiðla hér að framan og raunar haft um ástand íslenskra fjölmiðla orðið að það sé skelfilegt, þar vanti nær alfarið fréttaskýringar sem upplýsi alþýðu á heiðarlegan hátt um gang þjóðmála. En í Markaði Fréttablaðsins er opna þar sem skattabreytingar Ríkistjórnarinnar eru teknar til gegnumlýsingar og sú mynd sem þar er dregin upp er ekki svo jákvæð sem óskandi væri. 

Það er vitað að Ríkissjóður þarf auknar tekjur, um það þarf ekki að deila. Það virðist vera auðvelt að setjast yfir skattalög og segja einfaldlega "þessir geta borgað meira, og þessir og þessir". En þá kemur bakhliðin í ljós og ég rengi ekki vitnisburð manna sem gjörþekkja atvinnurekstur og skattakerfið. Það er grunnhyggni að hækka skatta en gera sér ekki grein fyrir jafnframt hvort þessir skattar skili sér í Ríkiskassann. Þarna er ekki átt við skattaundanskot heldur það sem ætti að liggja í augum uppi; Ísland er ekki eyland í efnahagsmálum og ef við ætlum að reisa landið úr rústunum, sem misvitrir banka- og stjórnmálamenn komu okkur í, þá verðum við að laða að okkur fjármagn, fyrirtæki og hugmyndir. Okkur getur greint á um hvort það skuli vera í formi lána eða fjárfestinga en látum það liggja á milli hluta að sinni.

Eftir þessa ágætu könnun Markaðar Fréttablaðsins get ég ekki betur séð en að Ríkisstjórnin sé á margan hátt á skaðlegum villigötum í skattlagningu, skattar eru lagðir á ýmis milliríkjaviðskipti en það verður til þess að það flæði fjármagns, sem reiknað er með inn í landið, skilar sér ekki. Í stað þess að greiða götu fjárfestinga inn í landið eru reistar gamaldags skorður sem skaða. Það virðist því vera ýmislegt í gagnrýni Sjálfstæðismanna á þessu sviði sem ekki er hægt að skella skollaeyrum við.

Ég vona að Ríkisstjórnin falli ekki í gryfju þvermóðskunnar, geti ekki brotið odd af oflæti sínu, það er oft erfitt að viðurkenna mistök sín en það er enginn maður að minni þó hann geri það. Og ef eitthvað er að marka það að Ríkisstjórnin vilji hafa samráð við stjórnarandstöðuna þá verður hún að hlusta á hana þegar koma tillögur sem kunna að vera gagnlegar.


Ánægjuleg og fróðleg heimsókn í Háskólann í Reykjavík

Það fyrsta sem mætir manni við komuna í ný húsakynni Háskólans í Reykjavík er gott skipulag bygginganna, ég tala um þau í fleirtölu því þannig er skólinn uppbyggður, sjálfstæðar álmur út frá sterkri miðju, Sólinni.

Ég fór í heimsókn í HR laugard. 31. okt sl. með því gamla fornfræga félagi, Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík. Þar tók á móti okkur Gunnar Guðni Tómasson sem ég held að ég megi titla sem deildarstjóra tækni- og raungreina ásamt meðkennara sínum. Það kom ýmislegt á óvart. Háskólinn Í Reykjavík er í rauninni afsprengi Verslunarskólans og þar mætti einnig nefna Viðskiptaráð sem er kannski ekki í dag uppáhald allra. Ég hef alltaf litið á HR fyrst og fremst sem háskóla sem sinnir viðskiptalífinu, ég hélt áður en ég kom í þessa heimsókn að þar væru einkum menntaðir viðskiptafræðingar, endurskoðendur og hagfræðingar. En þarna kom annað í ljós og kannski hefði ég átt að muna eftir því að ein af undurstöðunum, sem skólinn byggði strax á við stofnun, var þáverandi Tækniskóli. 

En hvað kom mest á óvart?

Að öflugasta deild skólans er tækni- og raungreinadeild og þar er boðið nám sem aldraður maður kynnti sér opinmynntur, aldraður maður sem reyndi að finna sér frekara nám fyrir meira en hálfri öld eftir sveinspróf í pípulögnum en það var ekkert slíkt nám í boði á Íslandi þá.

Ég sannfærðist um það að enginn háskóli á Íslandi leggur jafn ríka áherslu á tækni- og raungreinar og Háskólinn í Reykjavík. Ég nefni fyrst Iðnfræðimenntun og að sjálfsögðu varð aldinn pípulagningamaður með 52 áragamalt sveinspróf stoltur og glaður þegar í ljós kom að HR gefur engan afslátt frá því að þeir sem hefja iðnfræðinám séu með sveinspróf í fögum sem eru undirstöður þeirrar menntunar. Þó varð ég fyrst undrandi þegar Gunnar Guðni kynnti okkur of sýndi tæknibúnað skólans, vinnustofur þar sem nemendur geta sannreynt það sem hugir þeirra hafa skapað og er tilbúið á skjánum. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt því það þekkja flestir að góð hugmynd eða hönnun fær ekki eldskírn sína fyrr en hún er fullsköpuð og vinnsluhæf.

En svo kom gamla íslenska áráttan í ljós þegar okkur var kynntur þessi alltumlykjandi niðurskurður sem er afleiðingin af gersamlega  brjáluðu ástandi sem kollvelti fjármálum þjóðarinnar á haustdögum 2008. Það verða víst fáar stofnanir eða skólar sem ekki verða að taka á sig skerðingu. En Háskólanum í Reykjavík er skammtaður niðurskurðurinn, hann kemur ekki í einni og sömu skál heldur er rækilega búið að skammta í askana af stjórnvöldum.

Og úr hvaða aski skyldi mest vera tekið, svo mikið að það glittir í botn?

Gamla áráttan að taka mest af tækni- og raungreinum, þessum myndarlegasta vaxtasprota Háskólans í Reykjavík.

Ég er hér með þessum pistli mínum að halda áfram umfjöllun minni um auðlindir Íslands. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ein helsta auðlindin er hugarorkan, hana verðum við að rækta. Við höfum orðið fyrir miklu áfalli af völdum þeirra sem menntuðu sig og tóku sæti við, að þeir héldu, við allsnægtaborð fjármagnsins, fjármagnið skyldi öllu bjarga. Er það ekki þversögn að hlífa þeim greinum sem framleiddu því miður flesta af mestu óþurftarmönnum sem uppi hafa verið á Íslandi frá Sturlungaöld? Hvers vegna í ósköpunum koma stjórnvöld ekki auga á að vaxtarsproti okkar í framtíðinni er ekki síst í tækni- og raungreinum.

Í gærkvöldi var viðtal í Sjónvarpinu við framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Marorka.

Hver eru helstu vandamál Marorki?

Skortur á starfsmönnum, rímar það við að engir vilji fjölga starfsmönnum, allt sé í doða?

Nei. engan veginn. En eru stjórnvöld ekki að raða vitlaust í askana, eru það ekki einmitt starfskraftar þeirra sem afla sér menntunar í raungreinum sem sjáanlega er skortur á í dag?

Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að við höfum mikla þörf fyrir hugverkahópinn og vissulega var það litill minnihluti úr þeim hópi sem reyndist rotin epli. En við höfum menntað mikinn fjölda t. d. viðskiptafræðinga sem eru að vinna mörg nytsamleg verk. En vorum við ekki farin að mennta of marga í hugverkagreinum? Er ekki kominn tími til að við skiljum þörfina fyrir tækni- og raungreinafólkið. er ekki í þeim falin ein af okkar auðlindum?

Ég ætla að vona að við lokafrágang Fjárlaga nái sá skilningur inn hjá Alþingi og stjórnvöldum að í tækni- og raungreinamenntun liggur einn okkar öflugasti sproti í baráttunni við að komast upp úr dýinu sem við mörrum í eftir Hrunið mikla.

 

 


Þrjár stofnair eða samtök grafa sína eigin gröf


Ég við Þjóðkirkjuna, Landsamband íslenskra útvegsmanna og Bændasamtök Íslands. Ég hef hér að framan lýst þeirri skoðun minni að það eigi að aðskilja Þjóðkirkjuna og Ríkið alfarið. Þetta er af neinum fjandskap við hina evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjuna. En ég undrast viðbrögð biskupa, presta og preláta við hófsömum tillögum Menningarráðs Reykjavíkur um að ekki skuli stunda trúboð í skólum. Enginn dregur í efa að meirihluti Íslendinga eru í hinni evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunni, en á fleira ber að líta.

Þarna komum við að mikilvægu atriði sem varðar störf þeirra sem á Stjórnagaþing setjast. Meirihlutinn verður ætíð að taka  tillit til þeirra sem eru í minnihluta. Mér blöskrar hvað forystumenn hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar, eru blindir á þessi sjálfsögðu mannréttindi. Þeir berjast gegn öllum breytingum á eigin forréttindum í skólum landsins. Þeir ættu nú að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig; erum við ekki að skaða okkar eigin kirkju og boðskap hennar með þessu framferði, er það kirkju okkar til framdráttar að búa til vaxandi óvild í garð hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar?

Landsamtök íslenskra útvegsmann eru hagsmunasamtök þeirra sem gera út fiskiskip, allavega stærri fiskiskip. Þeir sem þann atvinnuveg stunda fengu fyrir um tuttugu árum eignarhald á auðlindinni, fiskinum í sjónum. Á meðan tilfinningar blossa vegna auðlinda á landi virðast flestir láta sér þetta í léttu rúmi liggja.

En ég held áfram að klifa á því að með þessu ólöglega eignarhaldi (þeir sem það framseldu höfðu engan rétt til þess) hafi útvegsmönnum verið réttur eitraður bikar sem nú er að leggja heilbrigði þeirra í rúst. Þetta er það sem hefur sogað gífurlega fjármuni út úr greininni. 

En útvegsmenn umhverfast í hvert sinn sem aðeins er kvakað um  endurheimtur á réttlætinu, að þjóðin fái til baka sína eign, auðlindir hafsins. Íslenskur sjávarútvegur ætti að taka slíku fagnandi, fagna því að þeir væru frelsaðir frá því að dæla fármagni í kaup á kvóta eða leigu, borga þeim fúlgur fjár sem hætta og leggjast í ljúfa lífið í útlendur stórborgum og flatmaga á sólarströndum, þess í stað að greiða samfélaginu sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni.

En útvegsmenn eru sjálfum sér verstir, þeir halda að þeir muni missa spón úr aski, engu má breyta.

Bændasamtök Ísland hafa viðurkennt að þau standi að hluta undir rekstrarkostnaði Heimssýnar, samtaka sem ekki aðeins berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur vinna að því öllum árum að aðildarviðræðum verði hætt. Ég get engan veginn sagt á þessari stundu hvort ég muni greiða atkvæði með inngöngu Íslands í Evrópusambandið, til þess skortir mig þær upplýsingar sem aðildarviðræðurnar skila. Reyndar tel ég að frekar ólíklegt að við fáum viðunandi samning, en umfram allt; látum reyna á það. En nú er spurningin þessi: Hafa  Bændasamtök Íslands rétt til að láta mikla fjármuni af hendi rakana til samtaka sem berjast fyrir því að við fáum aldrei svör við því hvort við náum fram þeim samningum við Evrópusambandið að það verði þess virði að skoða hann og meta og taka afstöðu til hans í þjóðaratkvæðagreiðslu? Eru Bændasamtök Íslands með umboð allra bænda til að verja fjármunum í það að bændur fái aldrei að vita hvað í boði er og hvaða kvaðir fylgja? Er það ekki með öllu siðlaust að samtök og atvinnugrein, sem þiggur geysilegt fé úr okkar sameiginlegu sjóðum, verji fé til einhliða áróður fyrir að berja niður öflun upplýsinga sem bændur landsins hafa sannarlega rétt til að fá?

Enn ein samtökin sem augljóslega vinna gegn eigin hagsmunum og hika ekki við siðleysi og jafnvel lögbrot í þeim tilgangi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband