Það verður að endurheimta eignarétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, ætlum við að gefast upp fyrir afturhaldsaflinu LÍÚ?

Mér er minnisstæð heimsókn til góðs vinar í Vestmannaeyjum. Hann ók mér um alla Heimaey, upp á nýja hraunið og að lokum umhverfis höfnina. Þar lágu reisuleg fiskiskip við festar. Hann benti mér á nýlegan togara af minni gerðinni og sagði "Þarna er arðsamasta skip flotans hér í Eyjum, það hefur þó ekki farið úr höfn síðustu árin". Ég varð eitt spurningamerki og skildi ekki neitt. "Einfalt mál, eigandinn nennti ekki að standa í þessu útgerðarströggli, fór í land og leigði kvótann. Hann lifir nú góðu lífi á þessum ágætu tekjum".

Ef eitthvað sýnir í hnotskurn það skelfilega sukk og spillingu sem íslenskur sjávarútvegur er sokkinn í þá er þessi litla saga efst í mínum huga.

Sú var tíðin að allir gátu róið til fiskjar og fiskað eins og hver vildi. Einkennilegt finnst mér samt að það var á þeim árum sem útlendingar, einkum Bretar, gátu fiskað eins og þeir vildu á íslenskum miðum. En með órofa samstöðu (slíkri sem okkur sárvantar nú í þjóðmálum í heild) var ekki látið staðar numið fyrr en við höfðum fengið lögsögu yfir 200 mílna belti umhverfis landið frá grunnlínupunktum. Þvílík breyting frá því að lögsaga okkar var einungis 3 mílur frá strandlengju.

En svo einkennilega bregður við að eftir að við leiðum vísindi inn í fiskveiðarnar og rekum alla útlendinga frá okkar fiskmiðum þá dregst afli saman. Þá er kvótakerfið innleitt, ekki hægt að komast hjá því segja menn. En eins og alltaf verður þegar gæði eru takmörkuð þá heldur spillingin innreið sína. Útgerðarmann sóttu fast á að fá kvótann eignfærðan og misvitrir stjórnmálamenn létu undan þrýstingnum enda áttu sumir þeirra beinna hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Fyrir tuttugu árum var kvótinn í rauninni gefinn útgerðarmönnum, hann gerður að braskvöru, keyptur, seldur og leigður.

Kvótinn er orðinn eign útgerðarmanna á ólöglegan hátt eins og dómar hafa staðfest. Þar með eru útgerðarmenn komnir með dýrmæta eign sem ekki aðeins má kaupa, selja eða leigja. Þess eign má ekki síður veðsetja og fá peninga í kassann, þá drukku útgerðarmenn eiturbikarinn í botn.

Ég átti í nokkrum skoðanaskiptum við útgerðarmann hér í Þorlákshöfn ekki fyrir löngu og hann viðurkenndi tvennt alveg óvænt. Í fyrsta lagi að íslenskur sjávarútvegur væri búinn að veðsetja sig upp í rjáfur, ekki aðeins í íslenskum lánastofnunum heldur einn í útlendum bönkum og í öðru lagi að skuldsetningin kæmi fyrst og fremst af þeim skelfilegu peningaútlátum greinarinnar til að kaupa þá, sem hættu útgerð, út úr greininni. Þannig hafa þeir sem hætt hafa mergsogið greinina, horfið á braut með mikið fjármagn sem þeir hafa ýmist braskað með í öðrum greinum eða notað til að lifa hinu ljúfa lífi í heimsborgum eða flatmaga á sólarströndum.

Það hefur aldrei staðið til að rústa íslenskri útgerð með því að vinda ofan af þessu skelfilega kerfi. Það er undarlegt að útgerðarmann sjálfir sjái ekki að það er verið að rétta þeim hjálparhönd til að draga þá upp ur því kviksyndi sem þeir eru sokknir í. Sú samningaleið sem þeir eru að þvinga fram er ekkert annað en framlenging á sukkinu og spillingunni, þessu verður að linna.

Ég fer inn á Stjórnlagaþing með opinn huga tilbúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og tillögur sem þar koma fram. En ef ekki verður tekið á auðlind hafsins og hún færð aftur í þjóðareign þá sé ég ekki að til mikil sé barist.

Þarna verður að skera upp, þarna verður að grípa til róttækra aðgerða.

Þessu 


Eiga allar auðlindir, sem tilheyra Íslandi, að vera þjóðareign?

Fáir málaflokkar sem auðlindamálin eru af mörgum drifin áfram af tilfinningum frekar en skynsemi. Fyrir það fyrsta vil ég benda á að þegar rætt er um auðlindir á Íslandi er nær eingöngu rætt um auðlindir á landi og í landi.
Get ég ekki skilyrðislaust skrifað upp á að allar auðlindir á og í landi séu þjóðareign?

Nei, það get ég ekki.

Og hvers vegna spyrja eflaust margir undrandi?
Vegna þess að auðlindir á landi og í landi er mjög flókið mál, miklu flóknara mál en þeir sem drifnir eru áfram af tilfinningum einum átta sig á.
Það eru margvíslegar auðlindir á og í landi sem eru í einkaeign og ekki tel ég að við því eigi að hrófla.
Förum austur í Skaftafellssýslur. Þar hafa margir bændur virkjað bæjarlækinn og svo er reyndar víðar. Á Snæfellsnesi hafa verið byggðar einkarafstöðvar, vatnsaflsstöðvar, sem framleiða mun meira rafmagn en eigandinn hefur þörf fyrir. Þar er umframrafmagnið einfaldlega selt inn á landsdreifikerfið, viljum við þjóðnýta litlu virkjanirnar í bæjarlækjunum eða þessar litlu en þó stærri vatnsaflsvirkjanir?
Ekki er ég tilbúinn að vinna að því.
Ein mikil l auðlind eru fallvötn Íslands með eru í raun gjöful fiskimið. Þar hefur verið staðið vel að þróun mála og þess vandlega gætt að ekki sé gengið á stofnana og ekki nóg með það; mikil ræktun á sér stað víðast hvar þar sem þörf er á.
Vil ég þjóðnýta allar veiðiár landsins til að færa þær í þjóðareign?
Mitt svar er afgerandi nei.
Öll orkuver landsins, bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?
Ég er eindregið fylgjandi því að öll stærstu orkuver okkar séu í opinberri eigu svo sem er í dag, ég mæli sterkt á móti því að þau verði einkavædd þó ekkert mæli á móti því að þar geti einkaaðilar komið að fjármögnun, eins og ég mæli gegn algjörri þjóðnýtingu auðlinda hversu smár sem þær eru.
Ég ætla að lokum að biðja alla að ræða þessi mál af yfirvegum, án upphrópana byggðum á tilfinningum eingöngu, sem er ágætt að hafa með í bland. En rökhyggja og skynsemi þarf þar einnig að koma að.
Þá vil ég ekki síður biðja alla að gera greinarmun á auðlindum og nýtingu auðlinda. Þessu hefur því miður verið ruglað saman endalaust í opinberri umræðu, þar skulum við gera skil á málum, auðlind er eitt, nýting hennar annað.
Hér hef ég eingöngu rætt um auðlindir í og á landi.
Ég ætla að ræða um auðlindir hafsins í annarri grein.


Fulltrúalýðræði, með rétti til að skjóta málum í þjóðaratkvæði, er sá rammi sem ég sé sem ríkjandi stjórnarform á landi hér

Lýðveldið í Aþenu til forna og íslenska þjóðveldið á miðöldum eru líklega þau þjóðfélög sem hafa komist næst beinu lýðræði. Svo virðist sem ýmsir virðist sjá beint lýðræði í hillingum eða hvernig ber að skilja kröfuna um "valdið til fólksins". Þessi tvö fyrrnefndu þjóðríki liðu undir lok, þar kom ýmislegt til, ekki síst að skortur á einhverju valdi til að koma málum í framkvæmd sem fjöldinn hafði ákveðið. Þá kom til sögunnar fulltrúalýðræði, að vísu ekki hérlendis því tvö öfl náðu öllum völdum á Íslandi, Noregskonungur og Kaþólska kirkjan.

En lýðræðið með sínu fulltrúaveldi hefur reynst skásta stjórnarformið sem mannkynið hefur notað þrátt fyrir alla sína galla.
En hérlendis hefur því miður margt í grundvallareglum lýðveldisins verið fótum troðið á þessari og síðustu öld. Tveir valdamenn höfðu ekkert vald til að skipa Íslandi í flokk þjóða sem ýmist réðust á glæpsamlegan hátt inn Írak eða studdu innrásina, en gerðu það samt. Komin er út ævisaga hins merka stjórnmálamanns Gunnars Thoroddsen sem lýsir vel þeirri spillingu sem ríkti nær alla síðustu öld og ekki batnaði ástandið eftir að við komum fram á þessa öldina.
Ég er mjög hlynntur því að við sköpum öryggisventla fyrir að Stjórnarskrá sé haldin og stjórnsýslan og framkvæmdavaldið taki sér ekki meiri völd en það á að hafa samkvæmt okkar leikreglum.
Það munum við gera með ströngu eftirliti og ekki síður málskotsrétti til almenning, með réttinum að skjóta málum í þjóðaratkvæði.
En þar þurfum viða að vanda okkur, þjóðaratkvæði á að vera réttur sem umgangast á með virðingu. Það verða að vera ákveðnar, allt af því strangar reglur um hverjir hafa rétt til að skjóta málum í þjóðaratkvæði eða krefjast þjóðaratkvæðis.
Þá kemur tæknin til sögunnar. Með nútímatölvutækni þarf þjóðaratkvæðagreiðsla ekki að vera svo kostnaðarsöm. Við getum einfaldlega virkjað okkar heimabanka til þess að hver og einn geti kosið heima hjá sér, það er lítið mál að sjá til þess að aðeins sé kosið einu sinni á hverja kennitölu. Enn er einhver þjóðfélagshópur sem ekki hefur tileinkað sér möguleika tölvunar. Þeim verður að gera kleyft að fá aðstoð við atkvæðagreiðslur á þennan hátt.
Og um leið og atkvæðagreiðslu lýkur liggja úrslitin fyrir.


Látum ekki umræðuna um aðskilnað ríkis og kirkju yfirgnæfa önnur og mikilvægari mál í aðdraganda kosninga til Stjórnlagaþings

Ég legg til einfalda málsmeðferð á Stjórnlagaþingi. Fellum 62. grein, sem segir að hin evangelíska lúterska kirkja sé þjóðkirkja og ríkinu beri að styðja hana,  brott úr Stjórnarskránni. Hins vegar verði áréttað að algert trúfrelsi ríki á Íslandi.
Þetta mundi í sjálfu sér engu breyta um þjóðkirkjuna, samningar milli ríkis og kirkju mundu gilda áfram.
En eftir að ný Stjórnarskrá hefur verið samþykkt og hefur tekið gildi er það þjóðarinnar að ákveða stöðu evangelísku lútersku kirkjunnar hér á landi, það verði einfaldlega ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvernig á að stöðva heimskulegar ákvarðanir frankvæmdavaldsins sem hafa í för með sér stórskaða og fjárjagslegt tap?

Hefur þetta eitthvað með nýja og endurskoðaða Stjórnarskrá að gera? Vissulega kann svo að vera að einhver verði að vera til í þjóðfélaginu, einhverskonar sía sem stöðvað getur yfirgengilegar heimskulegar fjárveitingar til vonlausra framkvæmda.
Það er ekki ólíklegt að nú segi einhver: Nefndu dæmi máli þínu til stuðnings.
Dæmið er Landeyjahöfn, vonlausustu framkvæmd síðari tíma. Það sem fær mig til að vekja máls á öllum þeim fjármunum sem þar munu sökkva í sandinn er glapræði Ögmundar Jónassonar og dómgreindarleysi að láta þá misvitru verkfræðinga sem hönnuðu þetta vonlausa mannvirki til að fleygja nú 180 milljónum til viðbótar í sandinn, í tóma vitleysu. Þar á að búa til varnargarð úr sandi til að færa árósa Markarfljót 2 km til austur!!!. Þetta er fyrsta vers. Í öðru lagi á að gera samning við dýpkunarfyrirtæki um stöðugan sandmokstur í vetur. Þetta er annað vers. Í þriðja lagi á að smíða sandplóg sem lóðsbáturinn í Vestmanna eyjum á að nota til að drag sand út úr höfninni. Þetta er þriðja vers, allt er þegar þrennt er.
Allt verður þetta unnið fyrir gíg. Það er ekki framburður Markarfljóts sem orsakar sandfyllingu Landeyjahafnar, það er hinn gífurlegi sandburður sem er á stöðugri hreyfingu út af og við ströndina. Skammt fyrir vestan Landeyjahöfn strandaði togarinn Surprise fyrir 40 - 50 árum. Skipið sat þar fast í sandinum og náðist aldrei af strandstað. Í dag sést hvorki tangur né tetur eftir af togaranum, sjórinn er búinn að grafa hann fyrir löngu í sandinn.
Sjórinn mun mjög líklega grafa undan hafnargörðum Landeyjahafnar og færa þá að lokum endanlega í kaf.
Það eina sem nú á að gera af viti er að hafna allri frekari peningasóun í þetta fyrirtæki, ákveða að ekki verði reynt að nota höfnina í vetur og Herjólfur fari sína gömlu leið til Þorlákshafnar. Vistmannaeyingum er ekki bjóðandi upp á þessa hringavitleysu að vita aldrei hvort siglt verður til lands í dag eða ekki.
Það eina rétta hefði verið að kaupa nýjan Herjólf, hraðskreiðari ferju sem hefði siglt á milli Þorlákshafnar og Eyja á innan við 2 klst.
Það er mikil þörf á því að inn í stjórnsýsluna verði settur öryggisventill sem getur komið í veg fyrir að anað sé út í vonlausar framkvæmdir og gífurlegt fjárhagstap.
Ekki ólíklegt að í nýja Stjórnarskrá verði að koma ákvæði um slíka málsmeðferð.

Það getur ekki verið hagkvæmt að reka allan þennan fjölda af lífeyrirsjóðum hér á landi

Ragnar Ingólfsson stjórnarmaður í VR var gestur í Silfri Egils sl. sunnudag. Þar gagnrýndi hann hinn mikla rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna. Ég hef löngum undrast hvaða þörf er fyir allan þennan fjölda. Sumir lífeyrisþegar lífeyrissjóðanna hafa fengið þunga skelli í töpuðum lífeyri vegna rýrnunar hjá nokkrum minni lífeyrissjóðunum, ýmist af röngum fjárfestinga stjórnendanna, en það hefur einnig komið fyrir að þeir sem þá áttu að annast þá hafa látið greipar sópa í sjóðunum og sumir jafnvel síðan hlaupist af landi brott.

En stjórnendur lífeyrissjóðanna eru í algjörri afneitun. Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Sambands lífeyrissjóða, Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ljúka upp einum rómi um að hjá lífeyrisjóðunum sé allt í blóma, hagkvæmni mikil og lágur rekstrarkostnaður. Ég held að það verði ekki hjá því komist að gerð verði úttekt á sjóðunum, þessir forystumenn falla í sama afturhaldpyttinn og LÍÚ, Þjóðkirkjan og Bændasamtökin, það má engu breyta, allt er eins og það á að vera.

En er það svo? Íslenskur hagfræðingur í framhaldsnámi í útlöndum sagði framtíðarhorfur lífeyrissjóðanna mjög dökkar og ekki langt í að þeir getir ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ætla forystumenn lífeyrissjóðanna að hundsa með ölu þessa gagnrýni? Hvað mælir gegn því að á Íslandi starfi einn hagkvæmur lífeyrissjóður og þannig verði sparaðar hundruðir milljarða í rekstrarkostnað?                                                                        


Zapatero áminnti Benedikt páfa

Benedikt páfi var í heimsókn í því rammkaþólska landi Spáni. Páfi hafði margt að athuga við ýmislegt sem þarlend stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd svo sem að auka réttindi samkynhneigðra, leyfa getnaðarvarnir og jafnvel fóstureyðingar. En eins og allir vita er þetta allt eitur í beinum kaþólskra ráðamanna með páfann í broddi fylkingar. Þegar þeir kvöddust Zapatero forsætisráðherra og Benedikt páfi gaf Zapatero páfanum áminningu, minnti hann á að Spánn væri veraldlegt ríki þar sem engin trúarstofnun væri beinlínis rekin af ríkinu og trúfrelsi væri ríkjandi á Spáni. Undanfarið hafa allmiklar deilur spunnist um það hvað áhrif Þjóðkirkjan á að hafa í skólum landsins. Svolítið kómísk deila því þar eru margir sem vilja umfram allt halda þeim áhrifum sem Þjóðkirkjan hefur en hafa áður látið vel í sér heyra með hneykslun á múslímum sem víða haf sótt fast á að gera stjórnsýslu ríkja og trúarreglur múslíma eitt og það sama.

En svo vil ég nota þetta tækifæri á að undirstrika að önnur mál eru mikilvægari á Stjórnlagaþingi að mínu áliti en aðskilnaður Ríkis og Þjóðkirkju.


Biskupsstofa kannar afstöðu frambjóðenda til Stjórnlagaþings til sambands Ríkis og Þjóðkirkju

Ég, eins og allir frambjóðendur Stjórnlagaþings, hef fengið póst frá Biskupsstofu með tilvitnun í núverandi Stjórnarskrá svohljóðandi:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.
Síðan koma tvær spurningar svohljóðandi:

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Ég tel eðlilegt að sem flestir kanni skoðanir frambjóðenda til einstakra mála eins og Biskupsstofa gerir hér. Ég hef ekki svarað Biskupsstofa beint en vísað til þess sem ég hef skrifað um samband Ríkis og Þjóðkirkju hér fyrr á blogginu. Ef Biskupsstofa óskar frekar eftir beinum svörum mínum er sjálfsagt að að verða við því.

En ég get ekki látið hjá líða að koma inn á það sem mér finnst furðulegur misskilningur hjá kristnum einstaklingum, en tek fram að þar á ég ekki við þessa könnun Biskupsstofu, frekar einstaklinga sem ég hef heyrt í.  Ég hef lýst þeirri skoðun minni að Ríki og Þjóðkirkju eigi aða aðskilja algjörlega. En þá bregður svo við að sumir virðast taka þessa skoðun um aðskilnað Ríkis og Þjóðkirkju sem andúð og baráttu gegn kristinni trú. Í mínum huga er fyrirkomulag stofnana trúfélaga eitt, trúin annað. Það er enginn fjandskapur við núverandi Þjóðkirkju þó ég telji það réttlæti að Ríkið sé ekki að reka stofnanir ákveðinna trúarbragða. Ég hef einnig leitt að því rök að aðskilnaðurinn mundi frekar styrkja núverandi Þjóðkirkju en veikja hana.  

Eru ekki einhverjir öflugustu söfnuðir kristninnar hérlendis Fríkirkjusöfnuðirnir í Reykjavík og Hafnarfirði?


Hvernig er innivistin á þínu heimili?

Íslendingar búa flestir í góðum húsum, með góðum hitakerfum og flestir á svæðum þar sem hitaorkan er frekar ódýr. Það má fullyrða það jafnvel eftir síðustu hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur og svo virðist sem Hitaveitur víðar ætli að sigla í kjölfarið. Einhversstaðar sá ég að Hitaveita Árborgar ætli að hækka heita vatnið hressilega.

En þetta er nógu langur inngangur því það tók sig upp gömul árátta, sú að koma með svolítinn pistil um góðar hitavenjur sem Íslendingar á hitaveitusvæðum hafa ekki vanið sig á vegna þess hve heita vatnið hefur verið ódýrt.

Tvennt er nauðsynlegt að hafa í huga til að manni líði vel innandyra og það er ekki vanþörf á að fara nokkrum orðum um það þegar kuldaboli er farin að sýna klærnar. 

a) Það er jafn slæmt að búa við og of mikinn hita eins og of lítinn. Æskilegur  innihiti er 20 -21°C, það finnst líklega flestum of lágt, en er ekki betra að halda lægra hitastigi og fara þá bara í peysu? Algengt hitastig á hitaveitusvæðum er 23 - 25°C. Við slíkan stöðugan hita líður engum vel og eftir að heita vatnið hækkaði í verði er rétt að benda húseigendum á að hann lækkar hitareikninginn um 5% fyrir hverja hitagráðu (°C) honum tekst að lækka hitann stöðugt.

b) Rakastig innanhúss er nokkuð sem nánast enginn hirðir um eða gerir sér ekki grein fyrir að sé eitthvað sem er mikilægt. Núna þegar frost er farið að sýna sig má búast við að rakastigið falli innanhúss. Rakastigið á ekki að vera lægra en 40%, mætti vera 50%, en víða er það um 30% og þaðan af lægra.

Tvennt ætti að vera til á hverju heimili 1) hitamælir 2) rakamælir. Ef þessi mælar sýna þér að hitinn er 25°C og rakstigið 28% þá má ætla að þér líði ekki nógu vel. Ef hitinn er 21°C og rakastigið 40% þá er öruggt að þér líður mun betur.

En hvernig á að halda stöðugu hitastigi og æskilega miklum raka?

Hitastillar á hitakerfinu (ofnakerfi/gólfhiti) eiga að sjá um rétt hitastig en þá verða hitakerfin að sjálfsögðu að vera rétt stillt. Það er ekki nóg að stilla hita á hitastilli (termóstati), það þarf einnig að stilla rennslið um kerfið.

Sértu með ofnakerfi og villt auka rakan á einfaldan hátt þá er gamla húsráðið að setja ílát með vatni á heita ofnana, það er einnig hægt sérstaklega í opnum eldhúsum, að sjóða vatn í potti. En öruggast er auðvitað að kaupa rakatæki, þau geta haldið rakanum hæfilegum og jöfnum.


Leiðir út úr skuldavanda fasteignaeigenda sem hafa verið reiknaðar út

Sérfræðinganefndin, sem Ríkisstjórnin skipaði, hefur lokið störfum. Nú þegar eru ýmsir farnir að agnúast út í störf sérfræðinganefndarinnar, en væri ekki rétt að skoða fyrst hvað kom út úr hennar starfi.

Í skýrslunni kemur fram að engin ein leið dugi ein og sér til að fækka heimilum sem eru í greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Leiðirnar eru miskostnaðarsamar og misáhrifaríkar til að hjálpa þeim heimilum sem eru í vanda stödd.



Staða heimilanna

·    Um fjórðungur heimila landsins er ekki með skuldir vegna húsnæðis.

·    Vanskil tekjuhæstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru þrefalt minni í dag en árið 2004. Þetta bendir til þess að þeir sem helst bættu stöðu sína síðastliðin ár standi enn vel og ráði vel við greiðslubyrði lána sinna.

·    Tekjulægstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru færri í vanskilum nú en árið 2004.

·    3.651 manns, eða um 5% lántakenda, eru í þeirri stöðu að þeir eiga ekki fyrir grunnneyslu. Sérfræðingahópurinn telur að þessum hópi verður ekki bjargað með skuldaaðgerðum. Þá reynir á að fjármálastofnanir, ríki og sveitarfélög bjóði upp á húsnæðisúrræði.

·    Þá standa eftir 7.097 heimili sem eru í greiðsluvanda, (sé miðað við neysluviðmið Umboðsmanns skuldara + 50%) eða 10.666 heimili (sé miðað við tvöfalt neysluviðmið UMS).

·    Rúmlega 80% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda keypti fasteign á árunum 2004-2008.

·    Gengisbundin húsnæðislán eru í kringum 117 milljarðar og nema 8,4% af heildar fasteignaskuldum heimila 1. október. Þessi lán munu lækka verði frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengislán að lögum.

Misdýrar og misáhrifaríkar leiðir

·    Hækkun vaxtabóta er sú leið sem skilar mestum árangri miðað við kostnað, sé markmiðið að fækka heimilum sem eru í vanda. Við aðgerðina komast 1.450 heimili úr vanda, eða 20,5% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 1,3 milljón á ári.

·    Dýrustu leiðirnar eru flöt 15,5% niðurfelling skulda og niðurfærsla skulda miðað við upphaflega lánsfjárhæð, ef fækka á heimilum í vanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 12,4 milljónir, ef fara á aðra hvora þessara leiða.

·    Ljóst er að engin ein leið hjálpar öllum. Þær dýrari þýða mikið högg fyrir ríkissjóð og lífeyrissjóðina, sem þarf að fjármagna með hærri sköttum, niðurskurði eða skerðingu lífeyrisbóta. Þær ódýrari gagnast frekar þeim sem minnst hafa milli handanna en skila litlu til þeirra sem hafa séð lán sín hækka, en eru þó ekki í greiðsluvanda.



Athyglisverðar niðurstöður

·    Færri eru í vanskilum við Íbúðalánasjóð nú en voru árið 1997.

·    Heildarskuldbindingar heimila hjá Íbúðalánasjóði eru 579 milljarðar en heildarútlán banka og sparisjóða til fasteignakaupa einstaklinga nema hins vegar 630 milljörðum skv. skýrslu sérfræðingahópsins. Lán lífeyrissjóða beint til fasteignakaupa nema 183 milljörðum.

·    Sérfræðingahópurinn taldi mjög erfitt, ef ekki útilokað, að meta þrjár þeirra leiða sem honum var falið að athuga. Þetta eru svokölluð tveggja þrepa nálgun, „LÍN-leiðin“ og eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi. LÍN-leiðin er talin gagnast tiltölulega fáum og koma lítt til móts við þá sem lakast standa. Sú leið felst í að afborganir verði tekjutengdar.



Sem fyrr segir þá voru 11 mismunandi leiðir til að bregðast við vandanum skoðaðar sérstaklega af hópnum. Þessar leiðir eru;

Sértæk skuldaaðlögun
Flöt lækkun skulda um 15,5%
Niðurfærsla skulda m.v. upphaflega lánsfjárhæð
Lækkun skulda að 110% verðm.eigna
Lækkun skulda að 100% verðm.eigna
Stiglækkandi niðurfærsla skulda að 90% af verðm.eigna
Hækkun vaxtabóta
Lækkun vaxta í 3%
Tveggja þrepa nálgun (sölu-/kaupréttur)
LÍN leiðin
Eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi.
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband