Færsluflokkur: Vefurinn
7.11.2012 | 17:23
Hún verslaði sér nærbrækur
Fyrir nokkru hlustaði ég á unga konu, að ég held á Rás 2, sem þar var kynnt sem pistlahöfundur sem mundi flytja reglulega pistla í útvarpið.
Vissulega var konan lífleg og flutti sinn pistil vel, en þar lagði hún út af eigin nærbrókum eða öllu heldur; skorti á þeim nauðsynlegu flíkum.
Pistilinn endaði hún á því að segja að þessum skorti yrði hún að útrýma.
Og hvað gerði hún?
Hún fór í búð og verslaði sér nærbrækur.
Er nokkuð við þetta að athuga, verður ekki hver að bjarga sér? Að sjálfsögðu, en þessi eflaust ágæti pistlahöfundur er greinilega sýktur af þeim sem ráða málþróun hér á landi því fyrir aðeins nokkrum árum hefði hún eflaust sagt að hún hefði keypt sér nærbrækur.
Sama heyrðist frá bóndanum sem kynnti nýtt greiðslukort, sem mig minnir að heiti fjárkort eða eitthvað álíka. Kostirnir við þetta nýja kort voru margir t. d. auðveldar það handhöfum þess að versla sér hótel þegar farið er í ferðalag að sögn bóndans.
Ætlar maðurinn virkilega að fá sér heilt hótel til að dvelja í nokkrar nætur?
Örugglega ekki; hann ætlaði að kaupa sér gistingu, nema hvað.
Á örstuttum tíma er búið að útrýma öllu vinsælu fólki hér á landi en það er ekki hægt að þverfóta fyrir ástsælu fólki. Nú má heyra bílainnflytjendur auglýsa ástsæla bíla svo til að verða ástsæll þarf ekki að vera persóna með sláandi hjarta og sjálfstæða hugsun í kolli.
Ég man vel eftir því þegar ég fór í það mikla ævintýri að fara til útlanda í fyrsta sinni.
En nú fer enginn til útlanda þó það sé miklu auðveldara og ódýrara en fyrir meira en hálfri öld.
Eru þá allir hættir að ferðast?
Ekki aldeilis. En nú fer fólk í stórum hópum erlendis, það dvelur erlendis og flestir koma aftur erlendis frá.
Eitt orð virðist ómissandi í alla texta. Það er þetta hvimleiða orð staðsett.
Ég ætla að biðja lesendur sem rekast á þetta innskotsorð næst í texta að strika yfir það og lesa textann án þess. Er það ekki til bóta?
Hverjir ráða þróun íslensks máls nú?
Fjölmiðlafólk og textasmiðir auglýsinga, þarna eru þeir sem ráða ferðinni. Kemur þeim aldrei til hugar að nota sjálfstæða hugsun eða finnst þeim þægilegra að fljóta með straumnum?
Höfundur er vatnsvirkjameistari & orkuráðgjafi, búsettur í Þorlákshöfn
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2011 | 13:15
Herfileg misnotkun á póstlista frambjóðenda til Stjórnlagaþings
Fyrir kosningarnar til stjórnlagaþings varð til póstlisti hvar á voru póstföng nær allra frambjóðenda. Þetta var þarft framtak þá, frambjóðendur áttu að sjálfsögðu marga sameiginlega hagsmuni þó í samkeppni væru um hilli kjósenda. Nú eru kosningar að baki og meira að segja úrskurðaðar ógildar af hlutdrægum Hæstarétti, en ekki meira um það að sinni.
En nú brennur svo við að einhverjir óprúttnir náungar úr hópi frambjóðenda hafa tekið póstlistann traustataki til að berjast gegn samþykkt Icesave III á Alþingi og að samningurinn verði lagður undir þjóðaratkvæði.
Ég er ekki einn um það að mótmæla slíkri misnotkun á póstlistanum, inn til mín hafa streymt margir póstar þar sem einstaklingar mótmæla þessari misnotkun og krefjast þess að verða strikaðir út af listanum.
Ég er ekki nógu tölvufróður til að vita hvernig koma á í veg fyrir þessa misnotkun, ég sé að fjölmargir frambjóðendur vilja láta eyða póstlistanum, en er það hægt? Geta óprúttnir einstaklingar látið dynja yfir okkur áróður um alla framtíð?
Spyr sá sem ekki veit.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2011 | 00:35
Hvað skal gera eftir hinn fráleita úrskurð Hæstaréttar?
Það er mikil ólga víða í þjóðfélaginu eftir úrskurð Hæstaréttar; að ógilda kosningarnar til Stjórnlagaþings og það ríkir mikil Þórðargleði í sumum slotum. Mörum finnst það harður dómur hjá mér að segja fullum fetum að úrskurður Hæstaréttar sé pólitískur. En á er mér spurn, hvers vegna kætast svo geysilega frammámenn og fylgjendur eins stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins, öðrum fremur?
En hvað er til ráða, kosningarnar ógildar, það stendur. Aðallega er rætt um þrjár leiðir eftir úrskurðinn: a) hætta við Stjórnlagaþing, þá situr stjórnarskrármálið í sömu hjólförunum og sl. 56 ár b) endurtaka kosningarnar c) Alþingi samþykki að áður kjörnir fulltrúar á Stjórnlagaþing fái umboð til að starfa á Stjórnlagaþingi og semja uppkast að nýrri stjórnarskrá og ég leyfi mér að bæta við; uppkastið verði lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu ÁÐUR en Alþingi fær það til endanlegrar lagalegra afgreiðslu. Það á við jafnt þó að kjörnir yrðu nýir (eða gamlir) fulltrúar á Stjórnlagaþing.
Og hvað finnst mér sjálfum skynsamlegast að gera?
Það kemur ekki til greina að gefast upp og hætta við allt saman. Þá fer allt í gömlu hjólförin, málið komið til Alþingis án þess að nokkrir fulltrúar þjóðarinnar fái að fjalla um það beint. Þá hef ég afgreitt lið a).
Efna til nýrra kosninga? Það mun kosta vænan skilding en er þó réttlætanlegt ef almennt er talið að um þær kosningar verði sæmilegur friður. En því miður, um þær kosningar verður enginn friður, þau sterku öfl sem eyðilögðu kosningarnar sem Hæstiréttur úrskurðaði ógildar munu fara hamförum til að eyðileggja kosningarnar. Það þarf ekki annað en vitna í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Silfri Egils í dag þar sem hún áréttaði með þunga andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þessa málsmeðferð; að kjósa fulltrúa og halda Stjórnlagaþing. Það má búast við að margir af þeim sem kusu í góðri trú telji sig svikna og mæti ekki aftur á kjörstað. Margir af frambjóðendum munu jafnvel neita að taka þátt aftur og þá óttast ég að það verði ýmsir sem fengur er að sem frambjóðendum, frekar að þeir sem minna erindi áttu sitji sem fastast. Hættan er sú að nýjar kosningar til Sjórnlagaþings verði dæmdar til að mistakast, kosningaþáttaka hrapi og þeir sem þar verða kjörnir sitji með mjög vafasamt umboð.
Alþingi veiti þegar kjörnum fulltrúum fullt umboð til að sitja á Stjórnlagþingi sem til þess kjörnir af Alþingi. Þetta er eina færa leiðin, verður vissulega mjög umdeild en er þó miklu vænlegri til árangurs en að efna til nýrra kosninga.
Það sem þarf að gerast á Alþingi er að þetta þarf að fá meira fylgi en fylgi stjórnarflokkanna (sem að sumu leyti er vafasamt). Í Silfri Egils í dag áréttaði Eygló Harðardóttir þingmaður Framsónarflokksins þá afstöðu síns flokks að hann hefði í rauninni átt upphafið að hugmyndinni að Stjórnlagaþingi. Ég tek mark á því sem Eygló segir, því mér finnst hun vera vaxandi þingmaður sem ræðir oftast málefnalega.
Ef það tækist að meirihlutaflokkarnir með tilstyrk Framsóknarflokksins og jafnvel Hreyfingarinnar stæðu að því að veita kjörnum fulltrúum á Stjórnlagaþings lögformlegt umboð til starfa á Stjórnlagaþingi yrði það mikill sigur fyrir lýðræðið í landinu.
Einu skulum við ekki gleyma, einu sem mér finnst að hafi alveg gleymst í umræðunni eftir hinn fráleyta úrskurð Hæstaréttar.
Það er réttur þeirra sem kjörnir voru á Stjórnlagaþing. Þeir hafa eflasut allir búið sig rækilega undir störf á þiginu, þeir eiga skilið að Alþingi sýni þeim þann trúnað og virðingu að þeir fái að taka að sér þá ábyrgð og störf sem þeir voru réttilega kjörnir til.
Þannig getur Alþingi leiðrétt þann óréttláta úrskurð sem Hæstiréttur kvað upp og verður honum til ævarandi minnkunar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.1.2011 | 11:25
Þar kom að því, Siv lætur í sér heyra
Ég endurtek það einu sinni enn; enginn maður fékk jafn gullið tækifæri á að hefja sig yfir lágkúrulega pólitíkina og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar hann varð formaður Framsóknarflokksins. Hann fékk það tækifæri einnig að hefja flokk sinn upp úr pyttinum sem hann var grafinn í á formannstíð Halldórs Ásgrímssonar.
En hvorugt gerði Sigmundur Davíð, hann sökkti sér á bólakaf í innihaldslaust argaþras pólitísku umræðunnar, fór þar meira að segja oft fremstur í flokki og á nú aðeins einn jafningja í Framsóknarflokknum á þingi; Vigdísi Hauksdóttur.
Þögn Sivjar Friðleifsdóttur er fyrir löngu orðið þannig að eftir var tekið, sama má segja um Guðmund Steingrímsson og fleiri mætti nefna í hópi þingmanna Framsóknarflokksins.
En nú hefur Siv látið í sér heyra. Hún styður ekki Sigmund Davíð, formann flokksins, í hans helstu stefnumálum. Hún styður hvorki myndun þjóðastjórnar né að efnt verði bráðlega til kosninga. Sagði réttilega að kosningar væri það sem þjóðin þyrfti síst á að halda núna.
Nokkur umræða hefur verið undanfarið um að Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms væri að bera víurnar í Framsókn um að koma til liðs við Ríkisstjórnina. Ekki finnst mér það ólíklegt að einhverjar þreifingar eigi sér stað. Það hljóta alir að sjá, ekki síst Steingrímur J. Sigfússon, að þingflokkur Vinstri grænna er ekki lengur með þann styrk að geta veitt Ríkisstjórninni nauðsynlegar stuðning. Að stjórnin hafi aðeins eins atkvæðis meirihluta á Alþingi gengur ekki.
Ég held að Siv komi fram af þessum mikla þunga nú vegna þess að hún skynjar pólitíska ástandið á Alþingi hárrétt. Ríkisstjórnin getur ekki reitt sig framvegis á stuðning þeirra Lilju, Ásmundar Einars og Atla. Það er ekki endalaust hægt að standa í "kattasmölun", leyfum "köttunum" að fara sín einstigi, þeirra tími er liðinn sem jákvætt afl á Alþingi.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.10.2010 | 10:13
Hvimleið ónákvæmni í fjölmiðlum og ekki síður dapurleg málþróun
Til hamingju með afmælið á morgun þríburar á Brjánslæk. Ég var að lesa um ykkur í Fréttablaðinu í morgun og þá kom enn einu sinni í ljós léleg landafæðikunnátta fréttamanns, eða var það bara flumbrugangur? Þríburarnir voru sagðir eiga heima á Brjánslæk, reyndar á Brjánslæk við Patreksfjörð. Ég fór að kanna í eigin huga hvort einhver bær með því nafni sé við Patreksfjörð en þegar ég sá að þríburarnir sækja skóla að Birkimel þá fór ekki á milli mála að þeir eiga heima á Brjánslæk á Barðaströnd við Breiðafjörð.
Hvernig væri nú fjölmiðlamenn góðir að vanda sig svolítið betur?
Þó ég væri ekki að leggja náið við hlustir þá heyrði ég að í útvarpinu á Rás 1 var einhver umræða um Snæfellsnes. Þar var sagt að á nesinu væru þrír þéttbýliskjarnar (5 atkvæði). Hvers á hið gamla stutta og snjalla orð ÞORP (1 atkvæði) að gjalda? Ég á heima í Sveitarfélaginu Ölfusi og til nánari skýringar í þorpinu Þorlákshöfn.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2010 | 14:39
Vilborg G.Hanssen leyfir ekki að gerðar séu athugasemdir við blogg hennar (nema vera útvalinn) og hikar þess vegna ekki við að fara með rangt mál
Þó ég hafi gagnrýnt Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra þá læt ég ekki óhlutvanda bloggara komast upp með að vega að neinum ap ósekju, hvorki Árna Páli né öðrum. Kona sem nefnir sig Vilborg G. Hanssen vegur úr lokuðu búri sínu þegar hún fjallar um stjórn Íbúðalánasjóð og félagsmálaráðherra.
1. Hún segir að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi verið búin að ráða Ástu Bragadóttur sem forstjóra Íbúðalánasjóðs. Það er rangt, stjórnin fól henni að gegna stöðunni þar til forstjóri yrði valinn úr hópi umsækjenda. Ásta var einn af umsækjendum.
2. Stjórn ÍBLS reyndi að ráða samhljóða einn af fjórum umsækjendum sem töldust hæfastir, það tókst ekki.
3 Árni Páll Árnason félagsmálráðherra skipaði þá valnefnd til að meta umsækjendur, það er góð stjórnsýsla. Í valnefndinni eiga sæti Jón Sigurðsson (fv. formaður Framsóknar), Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og dr. Tinna Laufey í HÍ. Þessi valnefnd ætti að vera yfir allan vafa um pólitíska fyrirgreiðslu ríkisstjórnarinnar eða annarra afla. Ásta Bragadóttir virðist hafa talið sig svo sjálfsagða í embættið, þar sem hún var beðin að gegna því tímabundið, að hún dró umsókn sína til baka.
Ef óhlutvandir bloggarar telja sig óhulta fyrir gagnrýni eða leiðréttingum með því að loka á athugasemdir þá eru til leiðir, eins og hér sést, til að ná til þeirra.
Mitt blogg er öllum opið fyrir athugasemdum.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.7.2010 | 17:27
Ruglið í loftslagsmálum heldur áfram
Fyrir nokkrum árum stofnuðu tveir ungir menn upplýsingasíðu, Loftslag.is. Þetta leist mér ljómandi á, þarna fóru menn sem virkilega lögðu sig eftir fræðunum að mér fannst. En Adam var ekki lengi í Paradís, þessir tveir ungu menn eru gjörsamlega heilaþvegnir af þessum áróðri frá ICPP, loftslagsnefnd Sameinuð þjóðanna og þeim hátt launuðu vísindamönnum sem starfa fyrir þá nefnd, aðallega við háskóla í hinum vestræna heimi. Þessi fræði ganga út á það að maðurinn með gjörðum sínum og kolefnisbruna sé að hækka hita jarðarinnar þannig að stór vá sé framundan.
Í bloggi þeirra núna stendur þetta:
Á komandi áratugum mun hitastig halda áfram að aukast, eins og flestir virðast vera búnir að átta sig á. En hverjar verða afleiðingarnar af hnattrænni hitastigshækkun upp á 4°C
Hver er þess umkomin að segja fyrir um slíkt?
Ekki nokkur einasti maður, við vitum tæpast hvað gerist á næsta ári og fjölmargir vísindamenn haf talið meiri hættu á því eftir tvo ártugi að hiti í heiminum fari fallandi, jafnvel að "lítil ísöld" sé þá í uppsiglingu, reikna þetta eftir háttum sólar. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir að það var hart í ári á síðustu litlu ísöld en hiti í heiminum hóf að falla eftir árið 1300 og á 17. og 18. öld voru mikil harðindi ekki síst á Íslandi.
Og takið nú eftir: Hnattræn hlýnun hefur engin orðið á þessum fyrsta áratug 21. aldar, eða frá árinu 2000. Síðustu 150 árin hefur hnattræn hlýnun aðeins verið 0,6°C.
Hver getur fullyrt um framtíðina? Eru þessir ungu menn á Loftslag.is reiðubúnir til að segja okkur hvenær Katla muni gjósa, eða Hekla eða hve langt er í að Eyjafjallajökull muni gjósa aftur. Þeir geta alveg eins sagt okkur fyrir um slíka atburði eins og að fullyrða að það muni hlýna hnattrænt um heilar 4°C á næstu áratugum.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.6.2010 | 13:33
Úr einum öfgum í aðra
Þetta var fyrst skrifað sem athugasemd við bloggTryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara, sem flestir ættu að lesa það sem hann skrifar um þetta efni.
Í grundvallaratriðum er ég sammála þér um flest sem þú segir hér að framan. Við Íslendingar erum gjarnir á að fara öfganna á milli, nú eru stjórnmálflokkar réttdræpir og mér finnst miður að flokksforingi minn, Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, kvað upp dauðadóm yfir flokkakerfinu. Ég tel hins vegar að allir flokkar hafi villst af leið sem kemur greinilegast fram í hinu gjörspillta kerfi prófkjöranna. Þegar ég tók fyrst þátt í prófkjöri fyrir bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi 1970 fyrir 40 árum síðan, þá var ég mikill talsmaður fyrir prófkjör, taldi að þau mundu efla lýðræði innan og utan flokka. Við í Kópavogi héldum prófkjör allra flokka sameiginlega fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1970, þá voru okkar áhyggjur að flokkar færu að læða sér inn í prófkjör annarra eða allra flokka, við höfðum engar áhyggjur af fjármálum í sambandi við prófkjörin enda datt okkur ekki í hug að nota fjármuni til að pota okkur áfram. Sumir munu eflaust þá þegar hafa notað símann óspart, ég var þá svo bláeygur að mér datt ekki slíkt athæfi í hug.
En því miður hafa prófkjör fyrir kosningar, hvort sem er til Alþingis eða sveitarstjórna, orðið eitt versta spillingarbæli sem stjórnmálamenn hafa fallið í.
Það er nokkuð einfeldningslegt að halda að fyrir utan Alþingi og sveitarstjórnir séu flokkur manna sem sé með öllu óspilltur og geti kippt öllu í liðinn. Það séu aðeins þeir kjörnu sem hafi verið kosnir til trúnaðarstarfa sem séu gjörspilltir. Við höfum dæmið fyrir okkur; Borgaraflokkurinn sprakk um leið og hann hafði fengið fulltrúa á Alþingi, ég sé ekki að í Hreyfingunni sé mikill akkur til endurnýjunar.
Við munum áfram hafa þörf fyrir stjórnmálaflokka, en þeir þurfa nýjan grundvöll sem aðeins verður lagður með nýrri stjórnarskrá sem unnin verði á Stjórnlagaþingi þar sem fulltrúar verða kjörnir beinni kosningu af öllum þeim sem kosningarétt hafa. Það er greinilegt að það er andstaða innan Alþingis og stjórnmálaflokka við Stjórnlagaþing. Þar verður almenningur að vera fastur fyrir og láta ekki þá sem, sumir hverjir a. m. k., hafa orðið berir að spillingu, aðallega í prófkjörum
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2010 | 10:20
Vigdís Hauksdóttir, haltu þig við þorskhausana
Vigdís, það var ömurlegt að fylgjast með þér í Kastljósi í gærkvöldi þar sem þú þrefaðir við Ólínu Þorvarðardóttur og eins og venjulega ert þú föst í þessu gamla hörmulega hjólfari gamalla hefða í pólitík; að vera á móti öllu sem pólitískir andstæðingar, Ríkisstjórnin, gera. Ég vona að augu þín opnist og þú sjáir hvað hver sá sem er í stjórnmálum verður sterkari ef hann fer að ræða hvert mál með rökum en ekki gamaldags röfli og framíköllum.
Vigdís, haltu þig að því sem þú ert best í. Þar á meðal er sú gamla kúnst að rífa herta þorskhausa. Við erum bæði snjöll í því eins og þú veist.
28.12.2009 | 13:12
Fimm ár frá hinum skelfilegu jarðskjálftum á Indlandshafi sem leiddu til dauða 225.000 manna
Þessir hrikalegu atburðir gerðust 26. desember árið 2004. Úti á Indlandshafi reis hafsbotninn upp, lyfti sjónum á stóru svæði svo víða sogaðist sjórinn frá þeim löndum sem að Indlandshafi lágu. Yfirborð sjávar lækkaði skyndilega, þetta sáu frumbyggjar víða og þeir vissu hvað var að gerast, forðuðu sér frá ströndum, En hinn upplýsti vestræni nútímamaður, sem flatmagaði á sólarströndum í jólafríi, sá ekki neitt. Síðan kom sjórinn æðandi og skall á landi, byggðum og borgum, olli gífurlegri eyðileggingu.
Þessi flóðbylgja, sem aðallega lenti á ströndum Indónesíu, kostaði 225.000 manslíf. Auk þess slösuðust fjölmargir og voru eftir hamfarirnar í reiðileysi. Mörgum vestrænum þjóðum gekk treglega að átta sig á alvarleika málsins, margar ríkisstjórnir brugðust seint við til að skunda á vettvang og hjálpa sínum landsmönnum og öðrum sem áttu um sárt að binda eftir hamfarirnar. En það má segja stjórnvöldum á Íslandi það til lofs að þau sendu hjálparsveit og hjúkrunarlið austur á hamfararsvæðið, aðallega til að hjálpa hvítum Skandínövum og koma þeim heima.
Af hverju stöfuðu þessar hamfarir?
Þetta er auðvitað það sem alltaf má búast við á þessum hvika hnetti sem við lifum á. Nú eru jafnvel uppi raddir um að innar stutts tíma geti álíka viðburðir orðið á Kyrrahafi, jafnvel jarðskjálftar yfir 9 stig með gífurlegum flóðöldum allt frá San Fransiskó norður til Kanada.
Enn hefur engum dottið í hug að halda öðru fram en að hér eru flekahreyfingar jarðskorpunnar orsökin, það er vissulega merkilega staðreynd. Eftir sirkusinn í Kaupmannahöfn kæmi mér ekki á óvart þó einhverjir "árnar" færu að leiða rök að því að hér væri hinn öflugi maður að verki, hann er orðinn svo kröftugur að hann getur ráðið veðri og vindum, því þá ekki jarðskjálftum, flóðbylgjum og eldgosum?
Sömmu fyir jól skrifaði ung söngkona greinarkorn í Fréttablaðið undir yfirskriftinni "Hugleiðingar um loftslagsráðstefnuna". Þar á hún auðvitað um sirkusinn í Bella Center í Kaupmannahöfn, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Ég ætla að leyfa mér að birta hér upphafið að þessari grein, varla hefur höfundur neitt á móti því.
"Það þarf ekki vísindaleg sannindi til að sjá eyðileggingarmátt mannkyns. Sannleikurinn uppljóstrast með flóðum, stækkun eyðimarka, aukinni tíðni hvirfilbylja og storma, hækkandi sjávarmáli, súrnun hafsins, eyðileggingu skóglenda, bráðnun jökla vítt og breitt um heiminn í dag - einnig þeirra sem stóðu háreistir í minni æsku í norðrinu".
Já, svo mörg eru þau orð. Vissulega er margskonar mengun í heiminum í dag. En ákveðnum öflum hefur tekist að leiða umræðuna frá réttum grundvallaratriðum og hefur tekist það svo "vel" að það er búið að trylla fólk um allan heim til að trúa því að allt sé að kenna hlýnun andrúmsloftsins, sem þó var ekki meiri en 0,74°C á síðustu öld með hámarki 1998. Síðan hefur hiti annaðhvort staðið í stað eða lækkað á þessum fyrsta ártug 21. aldar. Sömu öflum hefur einnig tekist að sannfæra nánast alla stjórnmálamenn heimsins um að allt sé þetta að kenna einni mikilvægustu undirstöðu lífsins á jörðinni, koltvísýringi CO2, sem er þó aðeins 0,0387% af öllum þeim efnum og gastegundum sem eru í gufuhvolfinu.
Þessi pistill söngkonunnar ungu er dæmigerður um hvernig tekist hefur að afvegaleiða fólk. Í fyrstu var aðeins haldið fram að hækkun CO2 í andrúmslofti væri orsök hækkandi hita, sem reyndar óverulegur en þó nokkur á síðustu öld. En nú er nánast allt sem aflaga fer í heiminum, eins og sjá má í framangreindri tilvitnun, allt þessum "lífsanda CO2" að kenna.
Hvað næst?
Spyr sá sem ekki veit, en áróðurinn þyngist stöðugt ekki síst eftir að þeir sem undirbyggt hafa þessar heimsendaspár hafa orðið uppvísir því að hagræða vísindagrundvellinum til að beygja hann að þeirri niðurstöðu sem þeir vilja fá og þeim var reyndar fyrirskipað að finna af IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna; að koltvísýringur CO2 væri orsök að hlýnun andrúmsloftsins.
Þetta gerist á sama tíma og mannkyn allt ætti að hafa meiri áhyggjur af LÆKKANDI hita frekar en HÆKKANDI hita í andrúmslofti.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar