Færsluflokkur: Kjaramál
29.7.2010 | 08:55
Dapurlega framganga Árna Páls félagsmálaráðherra þegar hann skipar Runólf Ágústson sem umboðsmann skuldara
Það var (og er vonandi enn) yfirlýst stefna núverandi Ríkisstjórnar að gera allar stjórnarathafnir gagnsæjar, ekki síst við skipanir í embætti. Því dapurlegra er að sjá Árna Pál félagsmálaráðherra skipa Runólf Ágústsson flokksbróður okkar beggja í embætti umboðsmanns skuldara. Runólfur á skrautlegan feril að baki, vann eflaust gott verk í byrjun sem skólameistari á Bifröst en hrökklaðist að lokum úr embætti vegna brests í siðferðilegum efnum sem og stjórnunarlegum. En Runólfur var ekki einn í heiminum, hann kom að þegar góss ameríska hersins á Keflavíkurflugvelli komst í hendur Íslendinga. En því miður stundaði hann fjármálbrask eins og hver annar útrásartortúlalubbi og skilur eftir sig skuldaslóð, skuldir sem aldrei verða greiddar.
Hverskonar dómgreindarleysi er það hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að skipa Runólf Ágústsson sem umboðsmann skuldara? Ætlar Árni Páll að láta þessa skipun í embættið standa, eða getur hann e. t. v. ekki breytt neinu?
Blaðið DV hefur ekki það orð á sér að vera áreiðanlegasti fjölmiðill landsins en oft ratast kjöftugum satt á munn. DV fjallar um ráðningu Runólfs og kemst að þeirri réttu niðurstöðu að hún sé fyrir neðan allar hellur.
Eru núverandi stjórnvöld að falla í hinn fúla pytt vinavæðingar, er það mikilvægara að vera flokksbróðir ráðherrans sem í stöðuna skipar heldur en að hafa flekklausan feril að baki?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.7.2010 | 11:07
Ríkisstjórnin lyppast niður fyrir öfgaöflunum í Vinstri grænum
Það er ekki hægt að kaupa friðinn á hvað verði sem er. Allt sem kom frá blaðamannfundi Jóhönnu og Steingríms staðfesti hrollvekjandi staðreyndir. Það á að vinna að því öllum árum að ógilda kaupin síðustu á Magma Energy, jafnvel að steypa Ríkissjóði í enn meiri skuldir til að eyðileggja þessa mjög svo vel þegnu útlendu fjárfestingu. Ég hef bent rækilega á það að arður af fyrirtækjum á Íslandi í eigu útlendinga fer að sjálfsögðu að einhverjum hluta til eigendanna. En ég hef líka bent á það að fyrirtæki í orkugeiranum að fullu í eigu Íslendinga borga ekki minni arð til útlendinga í formi vaxta að lánum sem tekin hafa verið í útlöndum til að reisa virkjanir hvort sem er vatnsaflsvirkjanir eða jarðgufuvirkjanir.
Ég hef ætíð haft mikið álit á Steingrími J. Sigfússyni en hann kaupir formannssætið í Vinstri grænum og stól fjármálaráðherra því verði að láta öfgafullar skoðanir Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur verða ráðandi stefnu í málefnum Magma Energy. Hins vergar hefði ég haldið að Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin létu ekki undan í þessu máli. Þetta mál er grafalvarlegt, ekki út af eignarhaldinu í Magma Energy heldur út af framtíðinni. En öfgahópurinn í Vinstri grænum ná fram sínum villtustu og heimskulegustu áætlunum er búið að vinna slíkt skemmdarverk á endurreisn íslenskara atviknunnuvega, gegn því að nokkrir útlendur fjárfestir vilji leggja fjármuni í íslenskt atvinnulíf, fjármagn sem okkur sárvantar. Ég endurtek; það er okkur mun hagkvæmara að fá áhættufjármagn frá útlöndum sem er á ábyrgð fjármagnseigenda en að taka yfirþyrmandi lán með vöxtum sem verður að greiða og einnig að endurgreiða lánin að fullu, undan því verður ekki vikist.
Ég hlýt að endurskoða stuðning minn við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eftir þessa atburði. Það hefur verið að koma æ betur í ljós að Vinstri grænir eru ekki samstarfshæfir. Hélt lengi að Steingrímur formaður flokksins gæti ráðið þar ferðinni en því miður hefur hann verið kúgaður til hlýðni af öfgaöflum flokksins.
Og það sem er ennþá verra; Samfylkingin hefur einnig lyppast niður og keypt áframhaldandi líf Ríkisstjórnarinnar með því að láta undan öfgaöflunum í VG.
Er þetta það sem koma skal, á að kaupa líf Ríkisstjórnarinnar hvaða verði sem er? Það er búið að rétta öfgaöflunum litla puttann, það verður ekki langt þar til þau taka höndina alla.
Það er skynsamlegra að draga að sér höndina og láta öfgaöfl Vinstri grænna sigla sin sjó.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.7.2010 | 09:21
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um vexti afmyntkörfulánum er Salómonsdómur og réttsýnn gagnnvart lántakendum
Dómurinn sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur um vexti af myntkörfulánum, sem dæmd hafa verið ógild, er mjög réttsýnn gagnvart lántakendum. Ef höfuðstóll lánanna er færður niður um tugi prósenta hvernig í ósköpunum er hægt að fara fram á að vaxtaprósentan sé áfram sú sama? Líklega yrðu þá komin fram hagstæðustu lán sem nokkru sinni hafa verið til á Íslandi frá því verðtrygging var tekin upp, lán sem bera neikvæða vexti og eru ekki í samræmi við nein önnur lánaform hérlendis.
Ég sé ekki annað en að Hæstiréttur muni mjög bráðlega staðfesta dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, óbreyttir vextir af þessum lánum koma ekki til greina en þarna er farin mjög væg leið gagnvart skuldurum.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.7.2010 | 18:25
Er ekki ógerningur að standa áfram í kattasmölun?
Verkefni núverandi Ríkisstjórnar eru hrikaleg, þessari stjórn er ætlað að reisa landið úr þeim rústum sem Framsóknarflokkur og ekki síður Sjálfstæðisflokkur komu komu landi og þjóð í. Til að það sé mögulegt þarf sterka og samstillta Ríkisstjórn sem hefur afl til að standa að hörðum og jafnvel sársaukafullum aðgerðum. Forystumen Ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafa verið brimbrjótar stjórnarinnar.
En nú eru veður öll válynd á stjórnarheimilinu, þeim veðrum ræður órólega deildin í Vinstri grænum. Ég er í Samfylkingunni og hef ætíð stutt Ríkisstjórnina. En nú er svo komið að ég sé ekki að stjórnin geti setið mikið lengur. Stjórn sem á líf sitt undir Guðríði Lilju Grétarsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Ásmundi Daða Einarssyni og Ögmundi Jónassyni getur tæplega verið starfhæf til lengri tíma. Þessi hópur svífst einskis til að koma höggi á stjórnina og nú virðist vera að sverfa til stáls í Magma Energy málinu. Ríkisstjórn sem hefur jafn sundurleitan flokk á bak við sig og Vinstri græna ræður ekki við þau gífurlega mikilvægu mál sem stjórnin verður að glíma við. Þessi ríkisstjórn má ekki falla í sömu gryfju og stjórn Gunnars Thoroddsen, að sitja sem fastast en hafa þó ekkert afl til að koma fram nauðsynlegum og aðkallandi málum áfram.
En hvað tekur þá við?
Svo einkennilega vill til að flokkarnir sem hruninu ollu, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, hafa ekki sýnt neinar tilhneigingar í þá átt að vilja taka við stjórnartaumunum, frekar að vera óábyrg stjórnarandstaða. Þessir tveir flokkar hafa reyndar ekki afl til að mynda meirihlutastjórn og yrðu því að finna víðari samstarfsvettvang.
Aðeins eitt er víst; ef óábyrga hávaðfólkið í Vinstri grænum tekst að fella Ríkisstjórnina og fella Samfylkinguna frá því að vera í forystu, þá mun Samfylkingin ekki taka þátt í myndun nýrrar Ríkisstjórnar
Þá hljóta þeir sem stjórnina fella og þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu að mynda nýja Ríkisstjórn, þá yrði mynduð samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins. Hvoru megin hryggjar Hreyfingin liggur skiptir engu máli. Þá yrðu þessir gömlu hrunflokkar S+F að beygja sig undir þá meginkröfu að ógilda kaupsamninginn á Magma Energy með illu eða góðu, löglega eða ólöglega. Annað ættu þessir flokkar auðvelt með að sporðrenna. Aðildarumsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði dregin til baka, slegin skjaldborg um íslensku krónuna með öllum ráðum og margskonar höftum, gjaldeyrishöftin verða föst næsu árin. Vinstri grænir munu eflaust feta í fótspor Ungverja og krefjast þess að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verið slitið, því yrði sporðrent af hinum flokkunum, algjörlega neitað að greiða ICESAVE, framundan þar illvíg og langvinn málferli með gífurlegum fjárútlátum Íslands.
Um þetta ættu Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir að eiga auðvelt með að ná saman, þar mun andi ritstjóra Morgublaðsins svífa yfir vötnum. Þar með hefur íhaldsdeildin í Vinstri grænum náð því sem hún stefnir að, ómeðvitað ef til vill, að ná saman við íhalds- og þjóðernisstefnuna frá Hádegismóum í Sjálfstæðisflokknum.
Eina sem kynni að vera óljóst er hvernig mun Framsóknarflokkurinn taka á málun við myndun þessarar Ríkisstjórnar?
Það er svo furðulegt sem það er að í dag veit enginn hver í rauninni stefna Framsóknarflokksins er, það verður því að byggja á því sem formaður Framsóknarflokksins sagði áður en hann missti málið. Miðað við það ættu þessir þrír flokkar að ná saman og stofna Rikisstjórn á þeim málefnagrundvelli sem að framan var rakinn.
Rennur engum kalt vatn milli skins og hörunds?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.7.2010 | 12:22
Auglýsingar Símans eru fyrirtækinu til skammar
Einhverjar ógeðfelldustu auglýsingar sem dynja framan í okkur í Sjónvarpinu eru frá Símanum, fyrirtæki sem á að vera eitt af símafyrirtækjum á samkeppnismarkaði en hefur greinilega slíka velvild stjórnvalda að geta haldið landsmönnum í gíslingu. En aftur að auglýsingum Símans. Þar birtast mest aular sem eru gerðir sem ógeðslegastir, ýmist slefandi eða gubbandi og svo er ekki hikað við að klæmast á íslensku máli og ekki virðist málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafa neitt við þetta að athuga.
Sem sauðþrár stuðningsmaður Ríkisútvarsins (ég segi sauðþrár því stundum vildi maður helst geta lokað endanlega fyrir það sem frá Ríkisútvarpinu kemur) þá geri ég þá kröfu að tekið sé til hendi til lagfæringar á auglýsingastofu stofnunarinnar til þess að ýmiskonar viðbjóður, eins og auglýsingar Símans, þurfi ekki að dynja á þeim sem ennþá horfa á dagskrá Sjónvarpsins.
Ég sagði að framan að greinilega nýtur Síminn sérstakrar vildar stjórnvalda og Samkeppniseftirlits. Allt byrjaði þetta með einkavæðingunni. Þá vildu margir fara þá leið að skilja grunnnetið frá sölunni, grunnnetinu sem öll síma- og fjarskiptafyrirtæki þurfa að hafa aðgang að. En það vildu stjórnvöld ekki hlusta á enda var þetta á Davíðs/Halldórs tímanum.
Ég ákvað eftir að fjarskipti voru gefin frjáls að færa mig frá Símanum eftir ótrúlega framkomu fyrirtækisins. Nýr sími keyptur hjá n fékk ekki samband þegar hann var settur í hleðslu, Fór með hann á verkstæði Símans í Ármúla og eftir viku og mörg símtöl var mér sagt að nú mætti ég sækja gripinn. Ég skundaði á staðinn og síminn var lagður á borði, þakkaði fyrir og ætlaði að halda á brott. En ekki aldeilis, síminn gripinn og fyrir mig lagður reikningur sem ég skyldi borga! En síminn er nýr, hann er í ábyrgð? Nei hún gildir ekki, þú hlýtur að hafa set snúruna þjösnalega í samband, lóðning hafði gefið sig. Ég neitaði að borga. Þá var mér tilkynnt að þar með yrði síminn tekin í gíslingu og ekki afhentur fyrr en ég borgaði viðgerðina.
Hverra kosta átti ég völ? Ég borgaði og ákvað á stundinni að hætta öllum viðskiptum við Símann, það væru fleiri kostir til og flutti mig yfir til Vódafón.
En þar fór ég villur vegar, það losnar enginn við Símann og öll árin síðan fæ ég að sjálfsögðu reikninga frá Vódafón en mér til mikillar furðu einnig frá Símanum. Því fyrirtæki þarf ég að borga nær 2.000 kr mánaðarlega fyrir eitthvað sem Síminn kallar "Þjónustu vegna heimasíma" og þegar ég fékk mér síma með númerabirtingu hélt ég að ég gæti fengið það skráð hjá Vódafon. Nei, þar var mér sagt að ég yrði að leita til Símans, þetta væri hans einkasvið.
Og allar götur síðan borga ég Símanum mánaðargreiðslu kr. 99 fyrir númerabirtingu. Stundum læðist inn kostnaður á reikningum Símans "símtöl innanlands", "símtöl í upplýsingaveitur" og"símtöl í þjónustunúmer". Svo skulum við ekki gleyma Símaskránni sem gefin er út árlega af Símanum með kostnaði fyrir alla sem símanúmer hafa á Íslandi, burtséð við hvað fjarskiptatfyrirtæki þeir skipta við.
Er þetta hin frjálsa samkeppni í því landi Íslandi á 21. öld?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2010 | 09:21
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Ég er vissulega einn af þeim sem hef verið gáttaður á því að slökkviliðsmenn hafi verið án samnings í heilt ár og hef talið að þarna væri á ferðinni einhver óbilgirni samninganefndar sveitarfélaga, við slökkviliðsmenn hefði átt að vera búið að semja fyrir löngu.
En nú er ég farinn að efast um að þarna valdi einungis óbilgirni samninganefndarinnar og sveitarfélaganna.
Ástæðan er sú að samninganefnd slökkviliðsmanna, eða talsmaður þeirra, hefur alltaf farið undan á flæmingi þegar spurt hefur verið þeirrar sjálfsögðu spurningar:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmana?
Það hefur lítið heyrst frá samninganefnd sveitarfélaganna fyrr en í gærkvöldi. Þá kom formaður nefndarinnar í viðtal í Sjónvarpsfréttum og fullyrti að kröfur slökkviliðsmann væri upp á tugi prósenta launahækkun. Talsmaður slökkviliðsmanna var spurður um þessar fullyrðingar formannsins. Þar fullyrti hann að þetta væri fjarri sanni en þá fékk hann að sjálfsögðu þá spurningu sem hann hefur margoft fengið:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Hvert var svar hans? Aðeins óljóst tafs um að þær væru innan skynsamlegra marka en enn á ný standa allir frammi fyrir því að hafa ekki hugmynd um hverjar kröfurnar eru.
Slökkviliðsmenn hafa notið mikils trausts og velvilja en nú er svo komið að við sem greiðum þeim laun eigum heimtingu á því að vita:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Óneitanlega fer sá grunur að vakna að þetta ástand sem skapast hefur, samningsleysi í eitt ár og áskollið verkfall, sé ef til vill vegna kröfugerðar slökkviliðsmanna sem engin leið sé til að ganga að.
Slökkviliðsmenn, það hlýtur að vera krafa okkar allra að þið leggið spilin á borðið:
Hverjar eru kröfur slökkviliðsmanna?
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Björk Guðmundsdóttir hefur stofnað til átaks til að berja í gegn að kaup Kanadamannsins á Magma Energi á Suðurnesjum verið ógilt og þá líklega á þann hátt að Ríkið yfirtaki kaupin, eða er ekki svo?. Ekki veit ég hvaðan okkar févana ríkissjóður á að fá peninga til að snara út fyrir Magma Energi eða er einhver ástæða til að ógilda þessi kaup? Ég held að Björk og hennar meðreiðarsinnar ættu í fyrsta lagi að lesa það sem dr. Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Marorku segir í Fréttablaðinu í gær og það sem Magnús Orri Schram alþingismaður segir í Fréttablaðinu í dag. Báðir benda á dökkar hliðar þess að rifta samningum við Magma Energi þar sem það hefði hrikalegar afleiðingar og mundu svipta okkur trausti á erlendum vettvangi, trausti sem við þurfum svo sárlega á að halda nú.
Ég held að það sé engin stórhætta á ferðum þó Kanadamaðurinn hafi eignast Magma Energi, tel jafnvel að það tryggi góðan rekstur fyrirtækisins og örugga afbendinu orku á ekki verri kjörum en hingað til fyrir Suðurnesjamenn. Þarna er um að ræða lítinn hluta af orkuframleiðslu þjóðarinnar og sú bábilja virðist hafa komist inn í mörg höfuð að þarna séum við að fórna auðlind en því fer víðs fjarri. Þarna fær fyrirtæki einkarétt á að framleiða orku í 65 ár og það er nákvæmlega það sama og Landvirkjun fær rétt til: að nýta okkar sameiginlegu orkuauðlindir í fallvötnunum, Orkuveita Reykjavíkur fær sama rétt á Hengilsvæðinu.
Gægist ekki þarna fram þessi gamla óvild og ótti við útlendinga?
Björk hefur ekkert sagt um hrikalegasta ránið á auðlindum okkar þjóðar, það virðist ekki hafa haldið vöku fyrir henni að fiskimiðin og fiskurinn í sjónum er ekki lengur í eigu þjóðarinnar heldur í eigu klíku sem nefnist Landsamband íslenskra útvegsmanna. Aldrei hefur annað eins skemmdarverk verið unnið á eigum þjóðarinnar eins og þegar örfáum mönnum, eða fjölskyldum, var afhent þessi auðlind endurgjaldslaust.
Björk, ertu efins um að ég fari með rétt mál?
Er það ekki rétt að allur fiskur úr sjó er veiddur af þeim sem eiga hann, þeir eru búnir að bókfæra þessi réttindi sem sína eign, þeir selja hann hver öðrum, leigja hver öðrum og kaupa hverjir af öðrum.
Og hvað koma útlendingar að þessu? Eru þetta ekki allt Íslendingar, það er nú eitthvað annað ef okkar eigin þjóðbræður hirða af okkur auðlindirnar. En það er ekki svo vel. Íslenskur sjávarútvegur er skuldum hlaðinn vegna þess að þegar einhver hættir í greininni selur hann öðrum sem eiga skip og gera út "réttinn" fyrir fúlgur fjár og festa það fé i allt öðrum greinum eða eyða þessum peningum í lúxuslíf í með öðrum landeyðum á sólarströndum.
Já, en hvað með útlendinga, er þetta ekki alt í lagi meðan aðeins Íslendingar hirða af þjóðinni auðlindir hafsins? En svo er aldeilis ekki. Flestir útgerðarmenn eru búnir að veðsetja þessa sameign þjóðarinnar upp í topp, ekki aðeins hérlendis heldur einnig í útlendum bönkum og lánastofnunum. Hvað gerist ef illa fer í rekstrinum, fara þá ekki auðlindir hafsins beint til útlendinga, til útlendra banka?
Björk, þú ætlar að bjarga okkur frá Kanadamanninum sem kom með vel þegna fjármuni inn í íslenskt efnahagslíf og ætlar að framleiða orku á Suðurnesjum í 65 ár landi þjóðinni til hagsældar. Hann eignast enga íslenska auðlind með því, ekki tekur hann hana með sér að nýtingartíma liðnum. Þú hugsar ekkert um það hvað skaða það mundi hafa í för með sér að rifta samningunum um Magma Energi. Og þú hefur líklega aldrei leitt hugann að því botnlausa sukki sem átt hefur sér stað með auðlindir hafsins.
Hvað var að gerast í Sjávarútvegsráðuneytinu í gær?
Þar mætti öll útgerðarmafía , allt forystulið Landsambands íslenskra útvegsmanna og vel það.
Hver var ástæðan?
Að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra gaf veiðar á úthafsrækju frjálsar. Það var verið að taka spón úr aski þeirrar klíku sem í dag telja sig eiga allan fisk í íslenskri landhelgi og utan eins og sjá má. Þetta gæti kostað það að einhverjir utan klíkunnar færu að veiða úthafsrækju.
Og það verður að koma í veg fyrir það með öllum ráðum, þetta minnir svolítið á vissa athafnamann sem áttu ákveðin hverfi í stórborgum Bandaríkjanna og Ítalíu, einkarétt þar að eigin áliti til "athafna".
Björg, ég hef alltaf haldið upp á þig allar götur frá því þú varst að sniglast með mömmu þinni barn að aldri hjá Leikfélagi Kópavogs forðum daga. En umfram allt; hugsaðu og kynntu þér mál áður en þú talar og grípur til aðgerða.
Mér er spurn; getur ráðherra setið áfram í sínu embætti eftir að á hann hefur verið lýst vantrausti af flokksstjórn síns stjórnmálaflokks?
Ég mun ná þeim háa aldri að verða 76 ára á þessu ári. Það er sárt að verða vitni að því að sá maður sem Samfylkingin, minn flokkur, hefur sýnt það traust að gegna starfi félagsmálaráðherra í Ríkisstjórn Íslands skuli ítrekað ráðast á kjör okkar eldri borgara, þú veist það full vel Árni Páll að þetta eru ekki staðlausir stafir. Þessi ríkistjórn hefur að vísu verið nokkuð samstillt í því að taka réttindi og möguleika af eldri borgurum til að sjá sér farborða. Ég fagnaði því mjög þegar afnumið var það niðurlægjandi ákvæði, sem minnti á framfærsluskyldu fyrri ára, að tekjur maka hefðu áhrif á lífeyri hins í hjónabandi og vissulega bjó ég nokkur ár við það óréttlæti og ekki kenni ég Árna Páli um það, hann hefur nóg að bera samt. Ég fagnaði því eindregið þegar frítekjumark lífeyrisþega var hækkað hressilega upp í 1.300.200 kr. á ári
Ég er einn af þeim sem starfaði lengst af ævi minnar sem sjálfstætt starfandi pípulagningameistari og því miður höfum við margir sem þannig er ástatt um sárlitlar tekjur úr lífeyrissjóðum. En þrátt fyrir aldur og veikindaáföll sá ég nokkurn möguleika á að reyna að afla mér tekna sem ráðgjafi í mínu fagi, margt er gott sem gamlir kveða. En núverandi Ríkisstjórn, sem ég hef stutt með ráðum og dáð, lét það verða eitt að sínum fyrstu verkum að lækka frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.
Hvernig í ósköpunum sá nokkur ráðherra eða fræðingur að það mundi auka tekjur Ríkissjóðs eða spara útgjöld hans? Ég vildi gjarnan sjá þann rökstuðning sé hann til á blaði, eða var þetta einungis geðþóttaákvörðun?
En nú ert þú Árni Páll orðinn eins og naut í glervörubúð þar sem þú virðist sjá það sem þitt aðalhlutverk að vega að smásálarlegum lífeyri eldri borgara þessa lands. Það vill oft fara svo að þeir sem hafa vel til hnífs og skeiðar hafa ekki minnsta skilning á kjörum þeirra sem lægst eru settir hvað tekjur varðar. Þitt síðasta verk var að berjast fyrir því að lífeyri okkar gamlingjanna væri frystur svo tryggt yrði að við fengjum engan ábata af því litla launaskriði sem mögulega verður hér á landi á komandi tímum.
Ég skoraði á Steinunni Valdísi flokkssystur okkar að segja af sér þingmennsku vegna fjármálbralls í prófkjörum. Steinunn Valdís mat sína stöðu rétt og sagði af sér. Ráherra sem hefur ekki traust síns flokks og flokksfélaga á að segja af sér.
Það átt þú að gera Árni Páll!
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.6.2010 | 10:26
Þetta var skrifað sem athugasemd til Ómars Ragnarssonar í allri vinsemd
Ómar, mér finnst þú skeiða léttilega fram hjá ýmsu eins og kemur oft fram hjá ykkur sem farið stundum offari í umhverfismálum. Það hefur hvergi komið fram svo ég viti að verið sé að ofnýta Nesjavelli eða Hellisheiði. Reyndar er það viðurkennt að Hellisheiði, eða réttara sagt Hengillinn, býr yfir gífurlegu ónotaðri orku.
Okkur Jóhannesi Zoega var vel til vina og ég held að ég viti í hvað þú ert að vitna í þegar þú vitnar í Jóhannes. Hann varaði við því að nota jarðgufu einungis til raforkuframleiðslu því með því verður yfirgengileg sóun á þeirri orku sem við fáum í iðrum jarðar. Með því að nota gufuaflið einungis til raforkuframleiðslu nýtum við gufuaflið einungis um 15%, annað glatast. En með því að nota gufuaflið fyrst til raforkuframleiðslu og sína í öðrum lið til að framleiða heitt vatn er nýtingin komin upp í 85% og er vart hægt að ætlast til að hún verði betri en þó eru til leiðir til að hækka nýtinguna. Þetta er það sem gert er á Nesjavöllum og verður einnig gert í Hellisheiðarvirkjun. En það er til orkuver sem einungis notar gufuaflið til raforkuframleiðslu og það er Krafla, tæp 15% nýting, annað er glatað. Við Kröflu er ekkert þéttbýli sem gæti nýtt heitt vatn frá orkuverinu til upphitunar.
En er þá engin leið til að nýta þá orku sem glatast og hverfur endanlega? Mér verður oft hugsað til Kröfluvirkjunar og satt best að segja þá finnst mér þetta skelfilegt; að við séum að sóa orku á þennan hátt. Ef frekari gufuaflsvirkjanir verða reistar á þessu svæði til að afla orku til álvers eða annarrastóriðju þá finnst mér þessi skelfilega sóun á auðlindum okkar verða ennþá skelfilegri.
Hvað er til ráða?
Það er einfalt mál tiltölulega, eins og sannast á Nesjavöllum og á Hellisheiði, að hita upp vatn með gufu eftir að hún hefur verið notuð til raforkuframleiðslu.
En hvernig á að nýta það heita vatna?
Hve mikið gætum við framleitt af grænmeti og blómum með allri þeirri orku sem ef til vill verður til boða í Þingeyjarsýslum? Er þarna um stóriðju að ræða sem enginn hefur gefið gaum? Getum við byggt risastórt ylræktarver fyrir norðan og þá kemur spurningu hvort þetta ylræktarver þarf ekki einnig á raforkunni að halda. Ef ylræktarverið á að framleiða grænmeti og blóm allt árið þarf það mikla raforku til lýsingar nánast hálft árið. Þarna yrði um framleiðslu að ræða sem ekki til er innlendur markaður fyrir, þessar afurðir yrði að flytja út og þar munframleiðslukostnaður og markaðsfærsla ráða úrslitum.
Ég býst við að ýmiskonar fræðingar geti skotið þessar vangaveltur á kaf en er ekki einmitt tími núna sem krefst þess að við hugsum allt upp á nýtt? Er þá ekki rétt að láta gamminn geysa, verið getur að eitthvað komi nýtilegt út úr því.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.6.2010 | 09:43
Svar til Jóns Péturs Líndal og skoðanabræðra um Evrópusambandið og aðildarumsókn Íslands
Eftirfarandi skrifaði ég sem athugasemd við blogg Jóns Péturs Líndal um ESB umsóknina, finnst rétt að hún komi hér fram
Mér ofbýður málflutningur ykkar hér að framan þar sem ekki er gerður greinarmunur á réttu eða röngu. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, ICESAVE verðum við að borga, það liggur fyrir að öðruvísi getur það ekki verið. Það hefur hvergi komið fram að við verðum að opna landhelgina fyrir veiðum annarra þjóða, fiskveiðistefna ESB er í endurskoðun og þar munu viðræður okkar koma að góðu gagni. Hvergi hefur nokkuð land , sem gengið hefur i ESB þurft að leggja niður sinn landbúnað. Íslenskur landbúnaður er sem betur fer í mikilli þróun þar sembúskapur er að breytast mikið. Var í ferðalagi með eldri borgurum í Þorlákshöfn og gistum nokkrar nætur á Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit, en þar hafa ábúendum breytt búskaparháttum í takt við tímann. Fengum okkur kvöldmat síðasta kvöldið á Hótel Dyrhólaey á Brekkum í Mýrdal, þar hafa bændur brugðist eins við. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, íslenskur landbúnaður verður að þróast í takt við tímann með þjónustu við ferðamenn og að selja beint frá býli. Þessi þróun mun ekki eiga síðri möguleika með Íslandi í ESB en utan. Það hlýtur að koma að því, og meira að segja hið rammasta afturhald Alþjóðahvalveiðiráðið er að komast á þá skoðun, að hvalveiðar eigi að leyfa að vissu marki. ESB verður að gera sér ljóst að það er hluti af fiskveiðistefnu að halda jafnvægi innan stofna í hafinu, annað er ekki hægt. Ekki nokkrum manni dettur í hug að afhenda orkulindir eða aðrar auðlindir þjóðarinnar. Hafa Danir eða Skotar þurft að afhenda olíu- og gaslindir sínar til ESB? Síður en svo, þessar auðlindir eru enn í fullri eigu þjóðríkjanna á sama hátt og járngrýti Svía í Kiruna eða kolin í þýskri jörðu eða olían í Rúmeníu.
Að það skuli koma fram tillaga á Alþingi um að draga aðildarumsóknina til baka lýsir ótrúlegri skammsýni og ofstæki. Aðildarviðræður verða að halda áfram, aðeins á þann hátt getum við fengið svörin sem okkur vantar:
Eigum við erindi inn í ESB, hvaða ávinning fáum við og þurfum við einhverju að fórna. Þá fyrst getum við tekið afstöðu með eða móti með þjóðaratkvæði. Eftir það þurfum við ekki að bulla og rífast um þetta mál, þið hér að ofan þurfið þá að finna ykkur annað málefni til að skrumskæla og þvæla um.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 114267
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar