Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
10.3.2010 | 13:54
Á nú að fara að skríða fyrir prímadonnunni Ögmundi?
Það eru þokkalegar fréttir sem berast með fjölmiðlum. Ríkisstjórnin og hennar eindregnu stuðningsmenn telja að það sé haldreipið að taka Ögmund aftur inn í stjórnina. Á ég að trúa því að flokkssystkini mín í Samfylkingunni séu svo skyni skroppin að þau láti sér detta það í hug að það styrki Ríkisstjórnina að gera Ögmund aftur að ráðherra?
Mitt álit á Ögmundi Jónassyni þingmanni Vinstri græna er að þar fer egóisti sem fyrst og fremst hugsar um sjálfan sig en reynir að dylja það með hástemmdum orðum um að hann sé svo mikill hugsjónamaður að hann gefi aldrei eftir sín prinsip. Ögmundur hélt hástemmdar ræður á þinginu og sagði að Ríkisstjórnin þyrfti að "skerpa" sína stefnu og tök á vandamálum. Ég held að það þurfi túlk til að koma kjarnanum í máli Ögmundar til skila. Þetta þýðir á mannamáli að Ríkisstjórnin verður að beygja sig í einu og öllu að vilja Ögmundar Jónassonar hvort sem hann verður innan eða utan Ríkisstjórnar. Eitt að því sem hefur gefið Ríkisstjórninni styrk og trúverðugleika er að hafa í sínum röðum tvo ópólitíska ráðherra þau Rögnu dómsmálaráðherra og Gylfa viðskiptaráðherra. Auðvitað er best að taka hvíslinu á götunni með varúð en eittvað hlýtur þetta einhversstaðar hafa komið til álita og umræðu að láta þau víkja. Það væri mikill missir fyrir Ríkisstjórnina að missa þau Rögnu og Gylfa, slæm skipti að fá Ögmund í staðinn, manninn sem hér eftir sem hingað til mun halda öllum í gíslingu svo hrapalega að stjórnin verður nánast óstarfhæf.
Ég held að þessi skrípalega þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram sl. laugardag hafi ekkert að segja fyrir líf eða dauða Ríkisstjórnarinnar, þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur engin áhrif hvorki hérlendis eða erlendis. Það sem skilur á milli lífs og dauða allra Ríkistjórna er að hún sé samhent og með samhentan meirihluta bak við sig.
Því miður hefur núverandi Ríkisstjórn hvorugt!
Innan Ríkistjórnarinnar á klofningsdeild Vinstri grænna öflugan fulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur, og ekki treysti ég Jóni Bjarnasyni yfir þröskuldinn. Klofningsdeildin í Vinstri grænum er orðin óhæf til samstarfs. Það er mikill skaði því innan þess flokks er margt úrvalsfólk og fer þar Steingrímur J. Sigfússon fremstur meðal jafningja. En eggin í hreiðrinu þurfa öll að vera hrein og blómleg en því er ekki að heilsa innan Vinstri grænna, fúleggin eru of mörg.
Ég hef þá trú að við komumst ekki heil út úr þeirri kreppu sem við erum í núna nema undir forystu Samfylkingarinnar.
Verður ekki Samfylkingin að fara að finna sér stuðning hjá öðrum en Vinstri grænum, þeir eru óhæfir til samstarfs vegna fúleggjana, best að viðurkenna það strax og vinna samkvæmt því.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.3.2010 | 10:21
Vil ég að Ísland gangi í Evrópusambandið?
Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður eru framundan. Ég er mjög jákvæður fyrir inngöngu í Evrópusambandið en er þó engan veginn búinn að gera upp við mig hvernig ég muni kjósa ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur um inngöngu. Það er gert mikið úr því að mikill meirihluti landsmanna sé andvígur inngöngu en satt að segja get ég ekki skilið hvernig hægt er að ákveða það fyrirfram hvað afstöðu menn hafa til inngöngu þegar það liggur engan veginn fyrir hvaða það muni færa okkur jákvætt eða neikvætt. Ég veit að þeir eru nokkuð margir sem eru sannfærðir um að Ísland eigi aldrei að ganga í Evrópusambandið. Það eru þeir sem eru eindregnir í gamla tímanum og sjá í inngöngunni að við séum að afsala okkur sjálfstæði landsins eða næstum því.
Mér fannst það mikið fagnaðaefni þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðildina, undirstrika enn og aftur að það þýðir ekki það að við höfum samþykkt að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst mikil ástæða til að undirstrika það en aðildarumsóknin og sá samningur sem út úr því kemur sýnir mér ljóslega hvaða afstöðu ég mun taka. það liggur ekki fyrir í dag.
Vanstilling
Eins og í flestum pólitískum málum þá gætir mikillar vanstillingar í umræðunni um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Þar eru nú þegar tínd til öll rök sem finnanleg eru gegn aðild, ég ætla hér að nefna nokkur sem mér finnst allt að því fáránleg. Flestir vita að Grikkland er á barmi þjóðargjaldþrots. Sú furðulega rökleysa skýtur víða upp kollinum að ástandið í Grikklandi sé aðild landsins að ES að kenna! Langt þykir mér seilst þegar því er haldið fram að ef Grikkland væri utan ES væri ástandið þar í landi mun betra. Grikkland er land sem um langan aldur hefur lifað um efni fram og landlæg spilling hefur alltaf leikið fjárhag þess grátt. Eina skiptið sem þeir tóku sig nokkuð á var þegar þeir aðeins hreinsuðu flórinn til að verða tækir í Evrópusambandið. En síðan féll allt í gamla farið, eyðslu og spillingu. Þetta sýnir einnig að ríki innan sambandsins hafa sjálfstæði innan þess bæði til góðra og slæmra verka. Það hefur mikið verið bent á að atvinuleysi sé mikið innan ES og það er vissulega rétt. En á móti mætti spyrja; væri ástandið betra ef ekkert Evrópusamband væri til og hvert ríki berðist eitt fyrir tilveru sinni? Er atvinnuleysið minna utan ES hvað um stórveldið Bandaríki N-Ameríku?
Landhelgin og fiskurinn
Það eru miklar hrakspár í gangi um hvað verði um landhelgina sem við börðumst fyrir með kjafti og klóm. Hvað verður um fiskinn í íslenskri landhelgi, munum við sjá það eftir að við erum gengin í ES að fiskiflotar frá öðrum ES löndum komi inn í okkar fiskveiðilögsögu og hirði frá okkur aflann?
Ég spyr; hvaðan ætti þeim að koma réttur til þess. Það er gjarnan bent á að þannig sé fiskveiðistefna Evrópusambandsins, ríki hafi sögulegan rétt til að fiska í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Þá spyr ég á móti; hvaða ríki eiga þann rétt í íslenskri fiskveiðilögsögu? Mér sýnist í fljótu bragði að þau séu ekki til nema þá með einni lítilli undantekningu og það væru Færeyjar sem hafa haft sérstak undanþágu til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Hvað um hvalveiðar? Ég er engan veginn tilbúinn til að gangast undir það Pempíurök að hvalir séu heilög dýr sem ekki megi drepa undir nokkrum kringumstæðum.
Eitt vil ég spyrja mér fróðari menn; hvernig stendur á því að það gilda ekki sömu reglur um gæði í hafsbotni og yfir hafsbotni hjá Evrópusambandinu. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að nágrannar Breta og Dana, svo dæmi sé tekið, geti vaðið inn á þeirra hafsvæði og borað eftir gasi eða olíu.
Hversvegna skyldi ekki það sama gilda um staðbundna fiskistofna sem synda í sjónum? Við verðum að semja um flökkustofna svo sem síld og makríl meira að segja við Evrópusambandið. Ég sé ekki að það muni breytast í framtíðinni, það er langt síðan við þurftum að beygja okkur fyrir því.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2010 | 11:05
Sigmundur Davíð hafði sitt fram og eyðilagði síðustu von okkar að losna úr ICESAVE martröðinni
Það náðist 100% samstaða allra íslenskra stjórnmálaflokka í ICESAVE málinu eins og Hollendingar og Bretar sögðu forsendu þess að unnt væri að leiða þetta mál til lykta. En sú samstaða er ekki um lausn ICESAVE heldur þvert á móti; lokatilboðinu að utan var hafnað og þarf ekki að fara í grafgötur um hver þar réði ferð. Að sjálfsögðu var það formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, einhver hættulegasti maðkur sem komist hefur til áhrifa í landsmálum hérlendis. Ekki þarf að efast um að þar hefur Sigmundur Davíð átt góðan bandamann í Birgittu Jónsdóttur frá þeim rústum sem eftir eru af Borgarahreyfingunni sem öllu ætlaði að bjarga. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei sýnt neina reisn í þessu máli, kom fram fyrir sjónvarsvélar og lýsti yfir fylgisspekt og hollustu við Sigmund Davíð. Þannig tókst stjórnarandstöðunni að svínbeygja þau Steingrím og Jóhönnu; þau áttu engra kosta völ en að fylgja þeim sem ósveigjanlegastur var, Sigmundi Davíð. Það gera þau tilneydd, ef þau hefðu ekki gert það hefði engin samstaða verið milli stjórnmálaafla á Íslandi eins og var grundvallarkrafa Hollendinga og Breta. Svo vissum við reyndar ekki upp á hverju ólíkindatólið á Bessastöðum tæki.
Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þetta tilboð að utan var lokatilboð. Í báðum löndunum er pólitísk upplausn, Hollenska stjórnin fallin, þar er nánast stjórnlaust land, kosningar framundan í Bretlandi og þar af leiðandi verður ekkert við okkur talað á næstu mánuðum. Nú hlakkar í Sigmundi Davíð sem lýsti því glottandi í sjónvarpi að líklega yrði ekkert rætt frekar um lausn málsins fyrr en í fyrsta lagi næsta haust.
Á meðan blæðir Íslandi, allt situr fast í okkar mikilvægustu málum; að koma atvinnulífinu á skrið, að fá það fjármagn sem okkur hefur verið lofað, að ráðast i virkjanir, orku verðum við að fá, að laða að útlenda fjárfesta sem munu sneiða hjá Íslandi meðan ICESAVE ófreskjan hangir yfir okkur.
Ég endurtek þá eindregnu skoðun mína: Það voru hrapaleg mistök að taka ekki því tilboði sem okkur barst frá Hollendingum og Bretum. Það hljóta allir að sjá að hér var um lokatilboð að ræða, þessar tvær þjóðir hafa enga burði né áhuga á að ræða við okkur um þessi mál frekar, allt bendir til langvarandi málaferla sem getur stórskaðað enn frekar íslenska hagsmuni.
Það verður okkur dýrkeypt að hafa lent í klóm gersamlega samviskulauss manns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarlokksins. Ég sé ekki nema eina lausn framundan til að frelsa land og þjóð frá þessum manni, að vísu daufa von: Að enn finnist svo heiðarleg og atkvæðamikil öfl innan Framsóknarflokksins að þau losi land og þjóð ( og flokks sinn) við þennan samvikulausa karakter Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það er augljóst að hann á trygga samherja, "ungstirnin" Vigdísi og Eygló alþingiskonur og fram til þessa Höskuld Þórhallsson en það er athyglisvert að frá honum hefur ekkert heyrst að undanförnu.
En ég kalla eftir tveimur einstaklingum, þingmönnum Framsónarflokksins: Hvar eru þau Guðmundur Steingrímsson og Siv Freiðleifsdóttir? Ætla þau að láta Sigmund Davíð, ekki aðeins eyðileggja Framsóknarflokkinn, heldur einnig rústa þá björgun sem stendur yfir í þjóðfélaginu?
Ég óska Össuri utanríkisráðherra góðrar ferðar á fund utanríkisráðherra Bandaríkjanna Hilary Clinton. En ég get alveg sagt honum það strax að þá ferð getur hann alvega sparað sér. Hilary Clinton hefur ekki nokkurn áhuga á þessari litlu eyju í Norðu-Atlantshafi sem heitir Ísland. Hún mun ekki hafa nokkurn áhuga á hvernig okkur farnast hérlendis. Hún hefur fangið fullt af hrikalegum vandamálum; klúðrinu í Afganistan og manndrápunum þar, ruglukollana í Íran, gjöreyðilagt þjóðlíf í Írak og opinberar morðingjasveitir í Ísrael.
Svo skulum við ekki gleyma áhrifunum frá Hádegismóum. Þar situr gamall bitur maður sem hugsar um það eitt að ná sér niðri á gömlum andstæðingum og jafnvel fyrri samherjum. Það væri betur ef menn gerðu sér grein fyrir hvar maðkarnir leynast í moðinu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.2.2010 | 14:27
Gúlag í Austri og Vestri, nær aldrei minnst á Gúlag Bandaríkjanna í Nið- og Suðurameríku
Skandinavíukratar eru það vitlausasta sem gengur á tveimur fótum, svei mér þá.
Þetta segir maður að nafni Jón Ásgeir Bjarnason hér á blogginu og segist tala af reynslu vegna þess að hann hefur leitað í skjól hjá þessum sömu krötum og þarf að þakka fyrir sig.
É held að það hljóti að vera til eitt eintak sem er enn vitlausara en Skandinavíukratar og það ert þú Jón Ásgeir.
Það segir hins vegar ekki að þú getir ekki skilað góðu verki. Skandinavíukratar hafa byggt upp réttlátustu og búsældarlegustu ríki á hnettinum. Þetta tókst þeim á sama tíma og kommúnistum í Austri og kapítalistum í Vestri mistókst hrapalega að byggja upp réttlát ríki. Kommúnistar byggðu upp hið skelfilega Gúlag, þrælabúðir þar sem saklaust fólk þrælaði þar til það féll niður hálfdautt eða dautt. Bandaríkjamenn gerðu það sama í Mið-Ameríku og fjölmörgum löndum Suður-Ameríku, þessi lönd voru í raun þrælabúðir Bandaríkjanna.
Þessar þrælabúðir í Austri og Vestri voru mikilvægir hlekkir í hagkerfum Sovétríkjanna og Bandaríkjanna.
Heimspressan hefur sem betur fer haldið rækilega á lofti skelfingum Gúlagsins í Austri en mér kæmi ekki á óvart þó ég verðu úthrópaður fyrir róg um okkar "besta" vin, Bandaríkin, með því að benda á að framferði þeirra, aðallega í Mið-Ameríku, sem var engu betra en framferði Stalín og og hans meðreiðarsveina Síberíu.
Jón Ásgeir, þú þarft ekki að taka það sem illa mælt að þú sért jafnvel "vitlausari" en Skandínavískir kratar. Þeir hafa byggt upp þjóðfélög sem eru fjölmörgum öðrum löndum fyrirmynd. Þó að þú sért eitthvað örlítið vitlausari en Skandínavískir kratar geturðu jafnvel verið góðum gáfum gæddur og hæfur til góðra verka.Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2010 | 13:30
Við höfum ekki gleymt því hverjir stofnuðu Icesave reikningana, þar í hópi var Kjartan Gunnarsson þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins
Þennan pistil sendi ég manni að nafni Axel Jóhann, hann er greinilega einn af þessum forstokkuðu Sjafstæðismönnum sem heldur að hægt sé að sefja almenning til að gleyma því hvaða stjórnmálflokkar stóðu fyrir hinni svokölluðu "einkavæðingu" bankanna og hverjir stofnuðu hina skelfilegu ICESAVE reikninga
Þér væri nær Axel Jóhann að beina geiri þínum að þeim pólitíkusum sem létu fjárglæframenn úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum stela ríkisbönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka. Voru þessir pólitíkusar ekki einmitt úr þessum tveimur fyrrnefndum flokkum? Voru það ekki fjárglæframenn úr Sjálfstæðisflokknum sem stofnuðu ICESAVE reikningana í Hollandi og Bretlandi, þeir sem þóttust ætla að kaupa Landsbankann en fengu lán til þess hjá Framsóknarglæframönnunum í Búnaðarbankanum og borguðu aldrei lánið. Var ekki framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins Kjartan Gunnarsson í bankaráði Landbankans þegar þessir glæpsamlegu ICESAVE reikningar voru stofnaðir til að sjúga fé út úr sparifjáreigendum í Hollandi og Bretlandi.
Hvert var þeim peningum komið, eru þeir grafnir á Tortóla eyjum? Þú og aðrir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins haldið að það sé hægt að fá íslenskan almenning til að gleyma öllu þessu glæpsamlega athæfi með því að ráðast að þeim sem eru að vinna hörðum höndum að því að endurreisa Ísland en ykkur verður ekki kápan úr því klæði!!!
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
Nágranni minn einn ágætur læðir stundum að mér eldri eintökum af DV. Síðan ég sagði Morgunblaðinu upp hef ég háð baráttu fyrir því að við íbúar Þorlákshafnar fáum kost á Fréttblaðinu og hefur þar verið gerð mikil bragarbót en betur má ef duga skal.
Í DV var farið yfir hverjir væru helstu "Sturlungar" nútímans, þeir sem fram að þessu hafa verið nefndir "útrásarvíkingar". Ég verð að segja að þessir menn eiga engan rétt á að vera nefndir "víkingar" og þó. Víkingar miðalda fóru vissulega ránshendi um lönd í Vestur-Evrópu og hver sá sem stal mestu góssi, að ógleymdum glæslegum yngismeyjum, var fremstur meðal jafningja. En þessir víkingar rændu ekki í eigin landi, þeir rændu meðal annarra þjóða og komu heim með ránsfenginn hvort sem var eðalmálmar eða íturvaxnar meyjar sem að sjálfsögðu misstu þann titil um leið og þær voru komnar í klærnar á illa þefjandi og lúsugum ránsmönnum, þessum svokölluðu víkingum.
En arftakar þeirra í nútímanum, við skulum gefa þeim nýtt "sæmdarheiti" og nefna þá "tortólalubba". Flestir eru þeir flúnir land, út af fyrir sig er það ágætt og vonandi að þeir komi aldrei til baka. Vonandi tekst okkar ágæta Sérstaka saksóknara og hans fólki að endurheimta sem mest af því sem totólalubbarnir hafa stolið frá þessari fámennu þjóð og grafið í grenjum á Tortóla og víðar.
Ég var farinn að fagna því að totóalubbarnir kæmu aldrei til baka. En þar fagnaði ég of fljótt. Ég ætlaði ekki að trúa mínu augum og eyrum þegar það var kunngjört að Óafur nokkur Ólafsson kenndur við Samskip (sem hann ásamt fleiri fjarglæframönnum Framsóknarflokksins tókst að véla til sín út úr reitum Sambands íslenskra samvinnufélaga) væri kominn til landsins frá Sviss og hvað beið hans hér;
Arionbanki rétti honum á silfurfati þetta fyrirtæki, Samskip, aftur til eignar og ábúðar.
Ég spyr; eru engin takmörk fyrir því hvað á að reka ofan í kok landsmanna með illu eða góðu. Finnur bankastjóri Arionbanka kemur vígreifur á skjáinn og segir kokhraustur gegn betri vitund:
Við afskrifuðum ekki nett!!!
Almenningur stendur agndofa og algjörlega máttvana. Arionbanki hefur verið einkavæddur enda ekki um anað að ræða, kröfuhafarnir hirtu bankann.
En líklega sýnir þetta okkur hvað er í vændum. Eru fleiri tortúlulubbar en Ólafur Ólafsson á heimleið, þeir ætla líklega ekki að láta sér nægja það fé sem þeir eru búnir að grafa á ýmsum eyjum eins og gamlir sjóræningjar gerðu fyrr á öldum.
Það eru mikil verðmæti heima á gamla landinu sem þeir léku svo grátt, á gamla landinu þar sem þeir rændu og rupluðu. Siðgæði þeirra er á sama núlli og það var þegar þeir voru að moka fé í milljarðatugum í vildarvini út úr bönkunum á meðan þessir sömu bankar hrundu. Svo létu þeir sig hverfa út í hið alþjóðlega náttmyrkur eins og rónar sem leita skjóls meðan hellirignir en fara á stjá um leið og upp styttir.
Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn hjá mér þörf til að berja pottlok, stórt og mikið pottlok.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2010 | 18:41
Er umfjöllun um ICESAVE endanlega lokið?
Að sjálfsögðu ekki, samþykkt Alþingis er komin í hendur Forseta Íslands til samþykktar eða synjunar. Ég hef heyrt þær raddir sem telja það vísbendingu um hvað hann ætlist fyrir að hann afgreiddi ekki lögin á Ríkisráðsfundi á gamlársdag. Aldrei hvarflaði að mér að það mundi Ólafur Ragnar gera. Ef hann hefði hann gert það hefði hann orðið fyrir hafsjó að gagnrýni þeirra sem enn lifa í voninni um að hann muni synja um samþykki, þ. e. a. s. ef hann hefði samþykkt lagafrumvarpið hálfum sólarhring eftir að Alþingi afgreiddi málið. Sú hraða afgreiðsla hefði vissulega verið gagnrýni verð burtséð frá því hver afgreiðslan hefði orðið.
Ólafur Ragnar flutti nýársávarp sitt í dag nýársdag, skv. venju. Mér fannst margt vel sagt í ávarpinu sérstaklega hvað hann var afgerandi og gagnrýninn á flokkshollustu og pólitískar ráðningar embættismanna, þar sem flokksskírteinið var þýðingarmeira oft á tíðum en menntun og hæfileikar. Margir hafa greinilega hlustað grannt eftir því hvort Ólafur Ragnar gæfi vísbendingu um á hvern veg hann ætlar að afgreiða ICESAVE lögin. Honum tókst að nálgast það á þann hátt að þeir sem vilja að hann synji telja sig finna sterkar vísbendingar fyrir að svo fari þegar hann ræddi um þjóðarvilja og þýðingu þess að þjóðin komi meir að stórum ákvörðunum.
Einn sem ég hef átt orðaskipti við hérna á blogginu heldur því statt og stöðugt fram að ICESAVE ábyrgðin hafi verið felld en ekki samþykkt á Alþingi 30. des. sl. Hann rökstyður það með því að ákveðnir þingmann Vinstri granna hafi kosið gegn eigin sannfæringu, verið þvingaðir til að greiða atkvæði með frumvarpinu, verið beittir flokksaga. Ég hef enga trú á því að nokkur þingmaður láti kúga sig þannig. En á móti má þá segja og spyrja: Voru allir þingmenn minnihlutans á Alþingi (að Þráni undanskildum) að fylgja sinni innstu sannfæringu og greiða atkv. gegn frumvarpinu? Voru einhverjir í þeirra hópi þvingaðir til að greiða atkvæði á annan hátt en samviska þeirra og skoðun sagði þeim að gera, voru þeir einhverjir kengbeygðir undir flokksaga? Ég held ekki. Ég hef það mikla tiltrú á Alþingismönnum að þeir láti ekki kúga sig hvort sem eru stjórnarsinnar eða í stjórnarandstöðu.
Nú munu undirskriftir undir áskorun til Forseta Íslands um að samþykkja ekki lögin frá Alþingi vera orðnar nær 55.000. Er þetta ekki nokkuð stór hópur þjóðarinnar? Vissulega en við vitum ekkert um hve mikill hluti þjóðarinnar vill að Forseti staðfesti lögin. Ég ætla hér og nú að lýsa þeirri skoðun minni að undirskriftalistar hafa harla lítið gildi í mínum huga, en einhver óáreiðanlegasta birtingarmynd lýðræðis og ekki sé hægt að treysta því að þar komi fram vilji þeirra sem þar setja nöfn sín. Það hefur oft verið sýnt fram á að það virðist vera hægt að fá mikinn fjölda til að setja nöfn sín á lista sem eru að mótmæla einhverju. Nýlega kom í ljós að einhver hópur ýtti af stað undirskriftasöfnun (ekki hérlendis) til að krefjast þess að unnið sé af alefli fyrir útrýmingu H2O. Þetta voru að sjálfsögðu einhverjir loftslagshópar sem nú fara mikinn víða um lönd. Og það er ekki að orðlengja það að þessi undirskriftasöfnun gekk mjög vel.
Mikill fjöldi manna og kvenna skráði nafn sitt á lista og krafðist þess að unnið yrði af afefli að því að útrýma VATNI.
En hvað tekur við ef Forseti Íslands samþykkir ekki lögin um ICESAVE ábyrgðina frá Alþingi?
Ég hef fengið fá svör frá þeim sem berjast fyrir ógildingu og þjóðaratkvæði hvað þá taki við. Kristinn Pétursson kenndur við Bakkfjörð er sá fyrsti sem hafði fyrir því að svara mér. Hann segir að ef Forseti synji og lögin verði felld í þjóðaratkvæði gildi lögin sem samþykkt voru sl. sumar.
Þetta tel ég nánast útilokað að þar sé nokkur lausn. Skuldheimtumenn höfnuðu þeim lögum, þess vegna varð að semja upp á nýtt. Nú við ég minna á gagnorða grein eftir fyrrverandi Alþingismann Kristin Gunnarsson. Hann varaði eindregið við því að halda þannig á málum að skuldheimtumenn fái ástæðu til að fara með málið fyrir dómstóla, það gæti skapað okkur miklu meiri fjárútlát heldur en þeir samningar sem náðst hafa.
Þetta er það sem ég óttast ef Forseti synjar og þjóðin fellir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lög Alþingis um ICESAVE frá sl. sumri eru gagnslaus með öllu, skuldheimtumenn hafa hafnað þeim. Þá blasir við málrekstur sem standa mun nokkur ár og enda með miklu meiri fjárútlátum en núverandi lög vísa til. Mjög vafasamt er að núverandi Ríkisstjórn geti setið áfram, nánast útilokað. Yfir því munu margir gleðjast, en hvað tekur þá við?
Ég sé ekki annað en langvarandi stjórnarkreppu sem líklega yrði að leysa með kosningum.
Öll endurreisn fellur í dvala, það verða tekin mörg skref afturábak.
Ég krefst svara:
Hver er framtíðarsýn ykkar sem viljið að Forseti Íslands synji lögunum frá 30. des. 2009 og að þjóðin felli lögin endanlega í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2009 | 12:19
Svandís, það er langt frá því að allir séu sammála um skaðlega hlýnun jarðar
Velkomin heim Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra frá þessari ótrúlegu samkomu í Kaupmannahöfn. Ég var að enda við að svara öðrum hér á blogginu þar sem ég sagði að vonandi renni upp þeir tímar að forystumenn þjóða og allur almenningur átti sig á þeirri staðreynd að það er með öllu útilokað að mannskepnan geti haft nokkur teljandi, eða jafnvel engin, áhrif á loftslag jarðar eða ráði veðri og vindum. Það verður sólin og ýmsir aðrir þættir sem þar munu ráða eins og undarfarin milljónir ára.
Hlýnun jarðar var nokkur á síðustu öld eða um 0,74°C. Þetta mun ekki breyta gæðum jarðlífs nema til hins betra, gæðum sem eru eins og ég veit að þú gerir þér ljóst, æði misskipt. Því miður hafa ákveðin öfl í heiminum, ólíklegustu öfl hafa þar náð saman mannkyninu til stórtjóns, að beina allri athyglinni að einni af grundvallar undirstöðum lífs á jörðinni, koltvísýringi CO2, og gera þessa undirstöðu lífsins að blóraböggli fyrir hlýnun jarðar sem er engan veginn sú mikla vá sem af er látið.
Ég ætla ekki að skrifa langt mál að sinni en læt fylgja með línurit yfir þróun hita á jörðinni á 20. öld. Þetta línurit gerir örugglega ekki minna úr hækkun hita en efni standa til því línuritið er komið frá HadleyCRU sem er reyndar staðið að því að "lagfæra" staðreyndir til að fá "betri" niðurstöðu. Því hefur verið haldið fram að hækkun hita hafi verið samfelld alla öldina en eins og sjá má hefur þróunin verið upp og niður. Þarna sést einnig tvennt athyglisvert; hækkun og lækkun hita fylgir hinum sterka Kyrrahafstraumi PDO, hvort hann er jákvæður eða neikvæður, og virkni sólar var mikil og vaxandi seinni hluta aldarinnar en er nú að breytast enda hefur hiti ekki farið hækkandi á þessari öld, þeirri 21. En ég veit Svandís að um slíka smámuni hafið þið á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn ekki skeytt. Ráðstefnan var líkari uppboðsmarkaði, eftir því sem ég hef séð í fréttaflutningi, þar sem hver þjóðarleiðtoginn reyndi að yfirbjóða hina með innihaldslausum yfirlýsingum, einnig sameiginlegt að enginn vissi neitt um loftslagsmál.
Það er svo ótalmargt sem hægt er að segja um þessa makalausu vitleysu sem þið nær allir stjórnmálamenn heimsins hafið látið leiða ykkur út í og ég er ákveðinn í að láta heyra meira í mér.
Þú segir að allir séu orðnir sammála í loftslagsmálum og þá miklu vá sem framundan er. Líklega áttu þá við ráðamenn, ekki almenning og það er langur vegur f´r því að allir vísindamenn séu þessarar skoðunar. Þeir sem andmæla fá ekkert birt eftir sig í vísindritum né fréttamiðlum samanber Fréttastofu RÚV.
Ég skora á þig og þitt ráðuneyti til að láta fara fram skoðanakönnun hérlendis um hvort almenningur trúi því að hlýnun jarðar sé vá og hvort sú vá (ef vá er) sé"lífsandanum" koltvísýringi CO2 að kenna.
Persónulega óttast ég meira að fram undan sé lækkandi hiti á jörðinni svo líklega þarf hvorki þú né aðrir stjórnmálamenn að fara í felur vegna heimskulegustu ályktunar sem gerð hefur verið á alþjóðlegri ráðstefnu:
Að hiti skuli ekki hækka meira en 2°C á þessari öld!!!
Já mikill er máttur mannsins!!!
Aðeins ein lítil spá. Þessi vetur verður harður, miklar frosthörkur á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku. Stundum sleppum við betur eftir því hvernig lægðir haga sér en við skulum einnig búast við frostköldum vetri.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2009 | 11:04
Ungir þingmenn Framsóknarflokksins skeyta hvorki um skömm né heiður, tyggja endalaust skelfingaráróður og blekkingar
Þetta sagði Eygló Harðardóttir alþingismaður Framsóknarflokksins í bloggi sínu. Það sem að neðan stendur er athugasemd mín við bloggi hennar, ætla að birta það hér því Eygló virðist hafa þagnað með öllu.
Þú heldur líklega Eygló að þú verðir stærri og merkilegri með svona orðbragði, þú um það. Ég hef átt marga góða vini í Framsóknarflokknum og finnst verulega dapurlegt að fylgjast með framgöngu þeirra Sigmundar Davíðs og Höskuldar sem sífellt ala á ótta með þjóðinni, hafa ekkert fyrir því að fara með rangt mál, fara jafnvel í skrípaferðir til annarra landa (Noregsferðin fræga) til að reyna að sýnast meiri menn en þeir eru. Þú og Vigdís Hauksdóttir hafa fylgt þeim vel eftir í óttaáróðri, ég hafði nokkra trú á ykkur þessu unga fólki sem kom á þing fyrir Framsóknarflokkinn, en mikið skelfingar ósköp er framganga ykkar dapurleg og vesöl, því miður. Núverandi Ríkisstjórn er að hreinsa upp þann "fjóshaug" af spillingu og mistökum sem þínir flokksmenn sköpuðu og fóru þar fremst í flokki Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir, auðvitað í órofa samstöðu með Sjálfstæðisflokknum, þar má ekki gleyma þeim sem lengst var forsætisráðherra Davíð Oddsson og fjármálaráðherra Árni Matt.
Icesave er skilgetið afkvæmi af einkavæðingu bankanna þar sem klíkur þessara tveggja flokka fengu bankana nánast gefins.
Allt eftirlit brást og ábyrgð Íslensku þjóðarinnar á Isesave er því miður hafin yfir allan vafa. En þú og þínir nánustu samverkamenn spilið algjörlega án nokkurrar ábyrgðar. Icesave var ekki búið til að núverandi stjórnarflokkum, þetta skrímsli var og er fyrst og fremst á ábyrgð Framsóknarflokksins.
Þú ert auðvitað hreykin af því sem Ríkisendurskoðun er að upplýsa og nánast ákæra fyrir hvernig Davíð Oddsson hagaði sér í Seðlabankanum. Það er dapurlegast að þið virðist oft á tíðum komst upp með að rangtúlka og blekkja, hverjir séu raunverulegu ábyrgir fyrir Isesave, óráðsíunni í Seðlabankanum og Fjármáleftirlitinu. Þú og þið fjórmenningarnir í Framsóknarflokknum skeytið hvorki um skömm né heiður heldur tyggið endalaust ykkar skelfingaáróður og blekkingar.Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.12.2009 | 10:43
"Út vil ek" sagði Snorri og fór heim til Íslands
Ég er ekki búin að lesa alla grein Þorvarðar Gylfasonar hagfræðings í Fréttablaðinu í dag en hann byrjar grein sína á því að Íslendingar hafi löngum leitað út í heim, farið óhikað til annarra landa og nefnir þar Egil á Borg sem fór æði víða og heimsótti háa sem lága. En hann hrasar svolítið á frægri tilvitnun og er engan veginn sá fyrsti sem gerir það. Hann vitnar í hina frægu setningu sem lögð er Snorra Sturlusyni í munn "út vil ek" og ef hún væri sögð í dag mundi meining hennar eflaust vera sú að sá sem þetta segði vildi til annarra landa.
En þetta sagði Snorri þegar hann sat fastur í Noregi í gíslingu Noregskonungs en sá pótentáti notaði það óspart að taka Íslendinga í gíslingu í baráttu sinni fyrir því að ná völdum á Íslandi.
Þessi setning "út vil ek" á við það að sigla frá Noregi til Íslands, ekki öfugt.
Snorri afréð að hafa farbann Noregskonungs að engu, sagði "út vil ek" og sigldi til Íslands.
Þar með voru örlög Snorra ráðin, þarna undirritaði hann sinn eigin dauðadóm.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar