Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Svar til Jóns Péturs Líndal og skoðanabræðra um Evrópusambandið og aðildarumsókn Íslands

Eftirfarandi skrifaði ég sem athugasemd við blogg Jóns Péturs Líndal um ESB umsóknina, finnst rétt að hún komi hér fram

Mér ofbýður málflutningur ykkar hér að framan þar sem ekki er gerður greinarmunur á réttu eða röngu. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, ICESAVE verðum við að borga, það liggur fyrir að öðruvísi getur það ekki verið. Það hefur hvergi komið fram að við verðum að opna landhelgina fyrir veiðum annarra þjóða, fiskveiðistefna ESB er í endurskoðun og þar munu viðræður okkar koma að góðu gagni. Hvergi hefur nokkuð land , sem gengið hefur i ESB þurft að leggja niður sinn landbúnað. Íslenskur landbúnaður er sem betur fer í mikilli þróun þar sembúskapur er að breytast mikið. Var í ferðalagi með eldri borgurum í Þorlákshöfn og gistum nokkrar nætur á Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit, en þar hafa ábúendum breytt búskaparháttum í takt við tímann. Fengum okkur kvöldmat síðasta kvöldið á Hótel Dyrhólaey á Brekkum í Mýrdal, þar hafa bændur brugðist eins við. Það er sama hvort við göngum í ESB eða ekki, íslenskur landbúnaður verður að þróast í takt við tímann með þjónustu við ferðamenn og að selja beint frá býli. Þessi þróun mun ekki eiga síðri möguleika með Íslandi í ESB en utan. Það hlýtur að koma að því, og meira að segja hið rammasta afturhald Alþjóðahvalveiðiráðið er að komast á þá skoðun, að hvalveiðar eigi að leyfa að vissu marki. ESB verður að gera sér ljóst að það er hluti af fiskveiðistefnu að halda jafnvægi innan stofna í hafinu, annað er ekki hægt. Ekki nokkrum manni dettur í hug að afhenda orkulindir eða aðrar auðlindir þjóðarinnar. Hafa Danir eða Skotar þurft að afhenda olíu- og gaslindir sínar til ESB? Síður en svo, þessar auðlindir eru enn í fullri eigu þjóðríkjanna á sama hátt og járngrýti Svía í Kiruna eða kolin í þýskri jörðu eða olían í Rúmeníu.

Að það skuli koma fram tillaga á Alþingi um að draga aðildarumsóknina til baka lýsir ótrúlegri skammsýni og ofstæki. Aðildarviðræður verða að halda áfram, aðeins á þann hátt getum við fengið svörin sem okkur vantar:

Eigum við erindi inn í ESB, hvaða ávinning fáum við og þurfum við einhverju að fórna. Þá fyrst getum við tekið afstöðu með eða móti með þjóðaratkvæði. Eftir það þurfum við ekki að bulla og rífast um þetta mál, þið hér að ofan  þurfið þá að finna ykkur annað málefni til að skrumskæla og þvæla um. 


Jóhanna Sigurðardóttir lögð í einelti af Grámanni í Hádegismóum og stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins

Það hlaut að koma að því að Davíð Seðlabankastjóri fyrrverandi og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins færi af stað með undirferli og brigsl gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra opinberlega. Búið er til mál sem er ekkert mál og svo virðist sem flestir fjölmiðlar ætli að bíta á agnið og ganga erinda þess gamla í Hádegismóum. Hann beitir fyrir sig einum af stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins, Sigurði Kára, sem aldrei hefur reynst vandur að virðingu sinni og ég sá ekki betur en varformaður Framsóknarflokksins taki fullan þátt í leiknum. Meira að segja er Fréttastofa Ríkisútvarpsins orðinn þáttakandi. Ég dáðist að Jóhönnu að halda ró sinni í kvöld í Kastljósi þar sem leigupenninn Sigmar þóttist þjarma að henni. Það er ekki ónýtt fyrir Davíð Morgunblaðsritstjóra að eiga slíkan bandamann á Fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Þessi lágkúra Davíðs og stuttbuxnadeildarinnar er vel þekkt hjá óheiðarlegum pólitíkusum og ekki síður hjá útbrunnum pólitíkusum þegar sverfur að. Þá er búin til einhvera lokleysu um andstæðing, hún tuggin  aftur og aftur á Alþingi og  allir fjölmiðlar dregnir til að verða þátttakendur í ófrægingarherferðinni. Davíð hefur greinilega séð að eftir hinu algjöru lágkúru Bjarna Benedikssonar í Sjónvarpinu í gær þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ekkert um spillingu Guðlaugs Þór að segja, þetta kæmi honum, Bjarna B., ekkert við!!! Þá sá Davíð að hann yrði að beita ófrægingarvopninu og það er furðulegt hve langt honum hefur tekist að komast.

En ég er viss um að Jóhanna mun standa þessa lágkúru frá Hádegismóum af sér, sendiboði Davíðs á Alþingi, Sigurður Kári varamaður Illuga Gunnarssonar sem hrökklaðist af Alþingi, ætti að gera hreint fyrir sýnum dyrum. Legg til að þeir setjist niður saman lagsbræðurnir Sigurður Kári og Guðlaugur Þór og telji saman allt það sem þeir hafa fengið greitt fyrir samvisku sína fá tortúlalubbunum, sem margir gefa það "sæmdarheiti" að kallast "útrásarvíkingar".

Er virkilega ekki einn einasti maður í þingliði Sjálfstæðisflokksins sem þorir að mótmæla þessu einelti sem Davíð Oddsson hefur komið í í gang gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra?


Ég get ekki þagað

Óvopnaðir friðarsinnar á skipi með farm af nauðsynlegust hjálpargögnum nálgast Gasatrönd og ætlar að láta reyna á það hvort mögulegt verði að koma nauðsynlegust matvælum og lyfjum í land.

Ísraelar sega ekki nei, þeir segja ekkert. Þeir senda hersveit af stað í þyrlum sem ryðjast niður á þilfar hjálparskipsins. 

Þar eru 19 friðarsinnar myrtir með köldu blóði, aðrir á þriðja tug særðir og skipið hertekið.

Hafi nokkurn tíma verið til ríki á síðari árum sem tekið hefur upp viðbjóðslega starfshætti nasismans, sem drap fjölmarga Gyðinga auk fjölda annarra af öðrum kynþáttum, svo sem sígauna og slava, þá er það Ísraelsríki.

Hve lengi ætla þjóðveldi heims að láta þetta ofbeldisríki komast upp með sínar illgjörðir.

Munu Bandaríkjamenn og Vestræn ríki endalaust skríða fyrir þessum ofbeldismönnum og barnamorðingjum? 


Mikið umstang út af engu

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Það er allt í lagi og enginn tístir einu sinni þó útlendingar eignist öll hlutabréf í Marel eða Össuri. En að útlendingar eignist HS-orku er ekki það sama og útlendingar eignist auðlindir Íslands, þær eru efir sem áður í eigu þjóðarinnar. Ég stórefa að það sé hagkvæmara fyrir neytendur að Árni Sigfússon stýri HS-orku frekar en Kanadamaðurinn. Það er lítill vandi fyrir útlendinga sem eignast nær öll hlutabréf í Marel eða Össuri að segja einn daginn "við viljum ekki hafa okkar fyrirtæki á Íslandi, við förum með það til Bangladess". Engin getur sagt neitt.

En hvað með HS-orku?

Það fer enginn með það fyrirtæki burtu af Íslandi. Það vinnur úr íslenskum auðlindum og fari það burt er enga auðlindaorku að hafa. Kaupendur orkunnar eru rótfastir á Íslandi, Suðurnesjamen, Álver sem verða ekki svo auðveldlega flutt burtu á einni nóttu.

Það er dálítið broslegt þetta upphlaup Vinstri grænna vegna kaupa Kanadamannsins á HS-orku. Þetta er búið að liggja fyrir lengi að það mundi gerast og HS-orka var þegar að miklu leyti í útlendri eigu. Ég held að upphlaup Vinstri grænna komi þessari sölu sáralítið við.Þarna eru pólitísk átök til heimabrúks, innan flokksins og gagnvart samstarfsflokknum.

Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að Ríkissjóður, sem á nánast eingöngu skuldir, fari að reiða fram 16 milljarða króna aðeins til að koma í veg fyrir að í stað þess komi 16 milljarðar í útlendum gjaldeyri inn í landið?

Ég mun sofa vært þó HS-orka sé í eigu Kanadamangsins, ekki ólíklegt að það væri æskilegt að fleiri íslensk fyrirtæki fengju slíkar útlendar vítamínsprautur.

En hvað um Vinstri græna? Það heyrist ekki hósti né stuna frá þeim um kvótamálið? Er allt í lagi þó þjóðin hafi verið rænd auðlind sinni, er það í lagi ef þeir sem rændu eru íslenskir og það langt fram í ættir og þar að auki rammasta afturhald semfyrirfinnst á landi hér?

Thor Jensen ætti varla nokkurra kosta völ  að fá að nýta íslenska auðlind í dag. Var hann ekki danskur að uppruna, báðir foreldrarnir danskir og Thor fæddur í Danmörku?

 


Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er á hörmulega lágu stigi

Ég var í þeim hópi sem vonaði að umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði til þess að umræðan um hugsanlega kosti og galla aðildar yrðu yrði yfirvegaðri en áður þar, væntanlega fáum við staðreyndir og svör um aðild sem við getum byggt á.

En því er ekki aldeilis að heilsa. Þeir sem fara mikinn hér á blogginu og hafa í frammi "svartagallsraus" um hvað bíði okkar ef við göngum þar inn hafa færst í aukana en þeir sem vilja upplýsta umræðu hafa nánast þagnað.

Ég get vel endurtekið hver mín afstaða til aðildar er, það hef ég reyndar gert áður hér á blogginu. Ég get engan vegið gert það upp við mig með jái eða neii, ég verð fyrst að fá mörg svör við áleitnum spurningum. Því miður eru margar fullyrðingar i gangi um allar þær skelfingar sem bíði okkar ef við förum inn en í rauninni veit enginn neitt  hvað er handan hornsins. Þeir neikvæðu benda til dæmis oft á hina meingölluðu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, það liggur í augum uppi að hana munum við aldrei samþykkja, við eigum og munum eiga óskoraða lögsögu yfir okkar landhelgi og þeim staðbundnu fiskistofnum sem þar eru. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af ísl. landbúnaði. Í honum býr það mikil sköpunargleði (ef hann fær að starfa óáreittur af stóra bróður) að hann mun spjara sig.

Ég hef fylgst með ýmsum svartagallsbloggurum hér sem tína allt til sem er skelfilegt við aðild að Evrópusambandinu. Ein fáránlegasta röksemdin er sú að ofboðslegir erfiðleikar Grikkja séu Evrópusambandinu og evrunni að kenna. Þarna er staðreyndum algjörlega snúið á haus, ef það er eitthvað sem getur bjargað Grikkjum út úr fjármálöngþveiti þeirra er það einmitt aðildin að ESB og upptaka evrunnar.

Það er full ástæða til að rifja það upp af hverju fjármálöngþveiti Grikkja stafar. Það er algjörlega heimatilbúinn vandi. Grikkland hefur alla tíð verið spillt land sem hefur eytt langt um efni fram. Embættismenn og pólitíkusar hafa rænt og ruplað úr fjárhirslum ríkisins undanfarna ártugi auk þess að stjórnvöld hafa falsað opinberar tölur úr ríkisbúskapnum, reynt með því að leyna vandanum og fegra ástandið. Það þarf því engan að undra þó almenningur í Grikklandi rísi upp svo að við borgarastyrjöld liggur. Allur almenningur veit og hefur alltaf vitað hvað yfirstéttin, stjórnmálamennirnir, embættismennirnir og fjármálbraskararnir eru eru gjörspilltir mútuþegar og ekki nóg með það. Þar hafa menn stolið , rænt og ruplað og nú á almenningur að borga brúsann með versnandi hag, lægri launum og hærri sköttum. Munurinn á Grikklandi og Íslandi er sá að þar hefur glæpalýðurinn haft miklu meiri tíma til að stela og blekkja, hérlendis voru þeir stöðvaðir það fljótt en voru þó búnir a tæma bankana og hirða alla þá fjármuni sem þeir komust yfir.

Ég hef ekkert á móti því að fá ábendingar um það sem slæmt er við aðild Íslands að ESB, en farið ekki með bull og rangar staðhæfingar. En ég efa ekki að þeir svæsnustu munu halda áfram að berja höfðinu við steininn og kenna ESB um spillinguna og þjófnaðinn á þjóðarauði í Grikklandi.

 


Þetta skrifaði ég til konu sem heitir Guðrún Sæmundsdóttir hér á blogginu, vona hennar vegna að hún fjalli um menn og málefni á heiðarlegri hátt en hingað til

Sú endurvakning sem ég vonaði að Skýrslan mikla hefði í för með sér var að ekki aðeins sú að forystumenn þjóðarinnar, heldur hver og einn, temdi sér heiðarlegri starfshætti, sérstaklega margir bloggarar þyrftu á því að halda.

Guðrún, þú virðist ekki taka það til þín að heiðarleg umfjöllun um öll mál er nauðsyn, þú virðist ekki hafa neitt á móti því að fara með rangt mál ef þér finnst það henta þér, tilgangurinn helgar meðalið:

1. Skýrslan mikla segir ítarlega frá því hvernig Bresk yfirvöld reyndu nánast allt sumarið 2008 að fá Landsbankann til að færa Icesave innlánin inn í banka sinn í London úr útibúinu. Ef það hefði verið gert værum við á engan hátt í ábyrgð fyrir þessum innlánum þau hefðu orðið á ábyrgð breska fjármáleftirlitsins og þarlends tryggingarsjóðs innlána. Landsbankinn hafði góð orð um þetta í byrjun en þæfði það stöðugt og lét ekki undan þrýstingi Breta. Hversvegna? Landsbanka menn segja frá því í skýrslunni. Það var vegna þess að þá hefðu þeir ekki getað mergsogið útibúið í London, flutt þessi innlán til Íslands til að lána þetta fjármagn Björgólfunum og öðrum tortúlulubbum.

Ætlar þú að halda því fram að það sem sagt er í Skýrsluni um þetta sé rangt?

2. ESB reglum var ekki þröngvað upp á okkur, við samþykktum á Alþingi að taka þessar reglur upp. Bankahrunið er ekki þessum reglum að kenna heldur þeim sem brutu þær. Er það umferðarlögum að kenna að skelfileg umferðaslys verða á íslenskum þjóðvegum á hverju ári?  Þeir menn sem eyðilögðu bankana voru eigendur og stjórnendur allra íslensku bankanna sem hafa, skv. Skýrslunni brotið nær öll lög og  reglur um bankastarfsemi og sópuðu að lokum fjármagni úr gjaldþrota bönkum, lánuðu sjálfum sér og einnig erlendum fjárglæframönnum.

3. Við höfum ekki hugmynd um hvaða réttindi og skyldur fylgja því að ganga í ESB, það  fæst einungis með aðildarviðræðum. ESB er í miklum ógöngum með sína sjávarútvegsstefnu. Við munum ALDREI framselja yfirráð okkar yfir fiskveiðilögsögunni til ESB, ég er fylgjandi aðild, en þetta mundi ég aldrei samþykkja slíkt. Er einhver von til að við fáum það samþykkt? Á langri ævi hef ég upplifað þá tíma sem íslensk landhelgi var aðeins 3 mílur frá strönd. Þá áttum við framsýna og dugmikla stjórnmálamenn svo sem Ólaf Thors og Lúðvík Jósepsson sem hikuðu ekki við að hefja baráttu fyrir auknum réttindum okkar til að ráða okkar eigin auðlindum, hafinu í kringum Ísland. Fyrsta baráttan var 12 mílur frá grunlínupunktum, sigur í þeirri baráttu. Síðan barátta fyrir 50 mílum frá grunnpunktum, þá barátta fyrir200 mílum einnig sigur þar. Við segjum einfaldlega við Evrópusambandið: hvers vegna eiga Danir og Bretar rétt á olíu og gasi í sinni lögsögu, hvers vegna eigum við rétt á því sama á Drekasvæðinu. Hvers vegna gildir ekki það sama um staðbundna fiskistofna innan lögsögunnar? Það á enginn sögulegan rétt til fiskveiða innan lögsögu Íslands.

Getur þú fullyrt að við getum ekki náð fram þessum sjálfsögðu réttindum okkar?

Guðrún, eitt að lokum. Ef þú ætlar að halda áfram að blogga þá ég bið þig að bera það mikla virðingu fyrir sjálfri þér og þínum viðmælendum að hafa það sem sannara reynist en ekki gaspra um hluti sem þú greinilega hefur ekkifyrir að kynna þér.

Sammála Sigríði Ingibjörgu en ósammála Ingibjörgu Sólrúnu

Ber Samfylkingin einhverja ábyrgð á Hruninu mikla í október 2008? Ég er algjörlega sammála Sigríði Ingibjörgu alþingiskonu Samfylkingarinnar að við Samfylkingarfólk eigum tvímælalaust að bera höfuðið hátt og þola þá sjálfskoðun hvort við berum einhverja ábyrgð í þessu skelfilega Hruni. Það mun ekki sýkna þá sem hófu þá vegferð með því að nánast gefa vildarvinum sínum Landsbankann og Búnaðarbankann, en þar var sáð til Hrunsins auk þess sem skefjalaus frjálshyggjustefna þeirra Davíðs og Halldórs var stór og mikill áhrifavaldur.

En í hver gæti þá ábyrgð Samfylkingarinnar verið?

Ég held að allir hafi flotið sofandi að feigðarósi, það voru flestir sem hrifust með djarfri uppbyggingu tortúlugæjanna sem voru svo ofsaklárir að þeir stóðu, að eigin áliti og mikils meirihluta þjóðarinnar, framar öllum fjármálamönnum heimsins, hvergi kristallaðist það betur en í þeirri makalausu ályktun þeirrar makalausu frjálshyggjustofnunar, Verslunarráðs, að Norðurlöndin stæðu okkur langt að baki í stjórn þjóðfélaga og fjármála.

Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar um mitt ár 2007 undir stjórn Geirs Haarde. Það á eftir að koma í ljós hvort ráðherrar Samfylkingarinnar voru nógu vel á verði þá 16 mánuði sem hún var aðili að Ríkisstjórn, þar kann ýmislegt að koma í ljós. Ekki víst að okkar ráðherrar hafi gert sér það ljóst að þessari Ríkisstjórn var fjarstýrt að fyrrum pólitíkus, Davíð Oddssyni, sem sat í forsæti í bankastjórn Seðlabankans

En af hverju er ég ósammála Ingibjörgu Sólrúnu og um hvað?

Ég skil ekki hvað hún er að fara með því að koma upp með þá fráleitu hugmynd að við hættum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún rökstyður það með því að ef aðild væri nú borin undir þjóðina þá yrði hún felld. Ég er sammála því. En það eru fjölmargir sem betur fer sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn, ég er meðal þeirra. Það er útilokað að taka afstöðu til inngöngu nema fyrir liggi hverjir kostirnir eru og  kvaðirnar sem fylgja. Mér finnst líklegt að við getum fengið góða kosti hjá Evrópusambandinu, þar með talið að við ráðum áfram yfir okkar staðbundnu fiskistofnum, ég held að íslenskur landbúnaður verði engan vegin verr setur eftir inngöngu, en þar þarf margt að breytast hvort sem við göngum inn eða ekki. Ísl. landbúnaður getur ekki legið endalaust uppi á landsmönnum með sinn betlistaf. Ég hef þá trú að með aðild að ES mundi hagur íslensk landbúnaðar vænkast, en þyrfti að breyta starfháttum sínu stórlega og standa á eigin fótum, það eiga allir atvinnuvegir landsins að gera.

Ef við drögum okkur til baka og hættum viðræðum um aðild að ES nú þá hefur það eitt gott í för með sér; við getum endanlega hætt að rífast um hvort okkur vegnar betur utan eða innan, aðildarviðræður sem svarað getur því hvað okkur býðst og hvaða kvaðir þurfum við að undirgangast verður aldrei svarað, það verða líklega engar aðildarviðræður teknar upp aftur næstu áratugi. Hverjir vilja ræða við þvílíka ruglukolla sem sækja um aðild en hlaupa frá þeim.

Ef Ingibjörg Sólrún hefur ekkert gáfulegra til umræðunnar leggja ætti hún að hugleiða hvort það sé ekki betra að sitja heima og segja ekkert.


Vonandi hafa Davíð og Halldór horft á Kastljós í kvöld

Einhver viðurstyggilegast glæpur síðari ára er Íraksstríðið. Síðan drullusokkurinn Bush Bandaríkjaforseti fór í það stríð með Breska drullusokknum Tony Blair er búið að murka lífið úr 600.000 óbreyttum borgurum í Írak. Það var ógurlega gaman hjá þeim sem sátu við hríðskotabyssurnar í þyrlunum og ekki stóð á því að einhverjar stjórnendur, sem voru víðs fjarri, gæfu leyfi til að skjóta menn sem voru á gangi á götu. Út yfir tók þó þegar hjálpsamur vegfarandi ætlar að hjálpa lífshættulega særðum manni og þá er byrjað að skjóta aftur, maðurinn drepinn og börn hans tvö hættulega særð í bílnum. Bandaríski herinn, herinn þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, var ekki að hafa fyrir því að koma tveimur ungum börnum,  sem þeir voru búnir að særa, undir læknishendur. Heimamenn gátu séð um það. Síðan hefur verið unnið að því hörðum höndum af innrásarliði Bush, Blair, Davíðs og Halldórs að breiða yfir glæpina.

Og umheimurinn horfði upp á þennan viðbjóðslega glæp, innrásina í Írak, flestir ypptu öxlum, margir lofuðu Bush og kompaný. 

Hvað er orðið um samvisku fólks?


Batnandi manni er best að lifa

Framsóknarmenn hafa sett fram nýja stefnu, ekki hef ég fengið plaggið til yfirlestrar en inntakið er "samvinna" og einhverntíma hefði það ekki þótt saga til næsta bæjar að það væri höfuðinntak í stefnu Framsóknarflokksins. Ég ætla nú ekki að vera svo sjálfhverfur að halda því fram að Sigmundur Davíð hafi lesið pistilinn minn hérna á blogginu sem bar þá þungu fyrirsögn "Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun" ef ég man rétt. Ég benti Sigmundi Davíð á það að hann hefði haft gullið tækifæri til að hefja sig og Framsóknarflokkinn upp úr skotgröfunum og starfa og tala af víðsýn,i en það hefur þessi maður aldeilis ekki gert, en sé svo að pistillinn minn hafi haft þessi áhrif á hann til betri manns þá er það vel

Ég við benda Sigmundi Davíð og öllum sem áhrif hafa í stjórnkerfinu á grein Magnúsar Orra Schram í Fréttablaðinu í dag. Málefni dagsins í dag er einmitt það sem hann bendir á; við verðum að komast að samkomulagi við Breta og Hollendinga um ICESAVE og það strax. Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og halda í einhveri óskhyggju að við komumst að betri kjörum en okkur stóðu til boða efir áramótin? Ætlum við að halda áfram að berja höfðinu við steininn og bíða í algjörri óvissu eftir kosningum í báðum löndunum sem eru okkar viðsemjendur?

Það sem við eigum að gera núna er að ná sambandi að nýju við Breta og Hollendinga á æðsta stjórnstigi (ráðherrastigi) og segja eignfaldlega "við göngum að ykkar tilboði sem þið settuð fram eftir áramótin og undirritum samkomulag um áframhaldið", þannig sleppum við eins vel og hægt er úr því sem komið er. Það hefur alltaf verið kristalstært að ICESAVE skuldina yrðum við að greiða á einhvern hátt.

Öll bið á lausn málsins er okkur miklu, miklu dýrari en að semja á grundvelli síðasta tilboðs Breta og Hollendinga. Ég tel það fullvíst þrátt fyrir stjórnmálaástandið í þessum löndum (starfsstjórn og kosningar framundan) að sitjandi stjórnir geta sem best gengið frá málinu eins og þær lögðu það upp eftir áramótin.

Ég hef ásakað Sigmund Davíð fyrir að hafa verið sá sem kom í veg fyrir samninga. Ég er ekki í nokkrum vafa að ég hef rétt fyrir mér. En nú hefur Sigmundur Davíð það gullna tækifæri að rísa upp fyrir argaþrasið, koma upp úr skotgröfunum og starfa af víðsýni út frá þjóðarheill, en ekki lágkúrulegum atkvæðaveiðum.

Hann ætti að sjá það manna best að þau veiðarfæri sem hann hefur notað hafa ekki fangað eina einustu bröndu.


Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokka og Ríkisstjórnar er merkilegt um margt. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir tapa fylgi frá síðustu skoðanakönnun og tæplega er hægt að búast við öðru eins og ástandið var um það leyti sem skoðanakönnunin var tekin. Ég er ekki í nokkrum vafa að þar eru þrjú mál helstu orsakavaldar.

1. ICESAVE. Almenningur er orðinn yfir sig þreyttur á þessu máli og það alvarlegasta er að mikill fjöldi fólks skilur hvorki upp né niður í því, það er engin furða. Minnið er stutt og fjölmargir eru búnir að gleyma því hvernig þetta mál varð til. Fjölmargir eru búnir að gleyma því að orsökin er einkavæðing (les gjöf) forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til helstu fjárglæframanna og gæðinga sinna flokka ásamt því hömlulausa frelsi sem þessum einkabönkum var gefið.

2. Sú skelfilega bóla sem þandist út í kjölfar hrunsins í skuldstöðu allra sem skulduðu á Íslandi og oftast hefur verið kallað "Skuldastaða heimilanna"er mikil orsök,  en rétt er að muna að þetta ástand hefur einnig hitt fyrir stóran hluta íslenskra fyrirtækja Þetta orsakast aðallega af tvennu; a) lánum sem miðast við erlenda mynt b) vísitölutrygging skulda. Risstjórninni hefur verið ásökuð fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við þessum gífurlega vanda hins venjulega Íslendings og það má taka undir það. Hún gat brugðist miklu hraðar við og sýnt meiri stjórnun. Vissulega er búið að gera ráðstafanir til að bjarga mörgum, það þekki ég persónulega. En síðustu ráðstafanir sem Ríkisstjórnin hefur boðað eru mikil réttarbót fyrir hinn venjulega mann. Ég við enn og aftur undirstrika, eins og ég hef gert áður, að það verður aldrei hægt að bjarga öllum, sumir munu missa allt sem þeir eiga og hefði líklega misst allt þó ekkert hrun hefði orðið. En þeir eiga einnig sinn rétt til að lifa í framtíðinni við þolanleg kjör. Það á ekki að gefa skuldheimtumönnum og fjármálastofnunum rétt til að halda þessu fólki í fátækragildru ár eða áratugi fram í tímann. Með þeim ráðstöfunum sem Ríkisstjórnin er nú að gera á að vera girt fyrir það. Að standa uppi eignalaus er skelfilegt, það þekki ég einnig persónulega. En að vera hundeltur árum saman er ennþá verra, það þekki ég einnig. Ég bjó við það að banki og Skattheimta ríkisins voru með mig í sínum greipum í meira en ártug eftir að ég hafði misst allt. Ég vona að enginn þurfi að lifa slíku lífi og ég held að nú séu að renna upp mannúðlegri tímar.

3. Órólega deildin hjá Vinstri grænum hefur valdið miklum skaða. Ögmundur springur á limminu og er hylltur sem hetja að öfgafólki til hægri og vinstri. Ég þarf ekki að lýsa því nánar, hér áundan er sérstakur pistill um það efni. Sú hugmynd að dekstra Ögmund aftur í ráðherrastól hefur kannski ekki kostað Vinstri græna svo mikið í þessari skoðanakönnun. En ég er ekki í nokkrum vafa að margir góðir og gegnir jafnaðarmenn eru að refsa Samfylkingunni, þetta spil í kringum prímadonnuna Ögmund var of beiskur biti til að margt Samfylkingarfólk, og þar á meðal ég, geti kyngt honum.

Skoðum meira í þessari mjög svo merkilegu skoðanakönnun. Hún sýnir mikla sókn Sjálfstæðisflokksins og það ætti ekki að koma svo mjög á óvart. Þarna er Sjálfstæðisflokkurinn að fá fylgi sem byggist engan veginn á verðleikum Bjarna Benediktssonar eða annarra forystumanna flokksins. Þarna birtist að fjölmargir fylgjendur Samfylkingarinnar og reyndar "skynsama" hluta Vinstri grænna eru að refsa sínum flokkum, ekki síst fyrir samstöðuleysið sem orsakast af órólegu deildinni í VG og "kóngalátum" Ögmundar. Ég endurtek enn og aftur; þá var mér nóg boðið. 

En skoðum þá eitt. Ef þetta er rétt greining hvers vegna kemur þetta ekki fram í aukningu hjá Framsóknarflokknum?

Þetta er það athyglisverðasta við þessa skoðanakönnun. Þessi niðurstaða sýnir hve mjög nýbakaður formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð, er rúinn öllu trausti. Þetta sýnir að almenningur í þessu landi lætur ekki hvað gapuxa sem er vaða uppi með stóryrði og bakferli, lætur ekki bjóða sér endalaust lýðskrum eins og Sigmundur Davíð hefur haft í frammi frá þeim fyrsta degi sem hann hefur starfað sem formaður Framsóknarflokksins. Enginn ungur maður, sem komið hefur inn í íslenska pólitík frá hruninu, hefur fengið annað eins tækifæri til ná tökum á sínu hlutverki, koma fram sem víðsýnn framtíðarleiðtogi, leiðtogi sem hóf sig upp fyrir það skelfilega argaþras sem mörgum, og það með réttu, finnst íslensk stjórnmál veru sokkin í.

En Sigmundur Davíð hélt að með því að stunda pólitískan smásmugulegan skotgrafahernað gæti hann orðið stór kall í íslenskri pólitík og fékk fullkominn frið til að stunda þann leik. Hann hafði fullan og óskoraðan stuðning þeirra Höskuldar, Vigdísar og Eyglóar þingmanna til að verða hælbítur en ekki leiðtogi. En rödd Höskuldar virðist þögnuð, lítið heyrist í Vigdísi. En Eygló kom mér á óvart þegar hún kom fram í Kastljósi til að ræða  nýjustu ráðstafanir Ríkisstjórnarinnar í skuldamálum almennings, skyndilega var komin þingkona sem talaði af yfirvegun og málefnalega. Við skulum vona að þarna sé Eygló örlítið að opna augu fyrir því að moldvörpustefna Sigmundar Davíðs  er dauðadæmd.

Þessi skoðanakönnun er rasskelling fyrir Sigmund Davíð og Framsóknarflokkinn. Það koma Alþingiskosningar fyrr eða síðar. Eina von Framsóknarmanna er sú, ef þeir vilja ná einhverjum árangri þar, er að losa sig við þann mann sem ég hef leyft mér að nefna versta "maðk" sem komið hefur inn í íslenska pólitík á síðustu árum.

Sá maður heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Það var hann sem réði því að við tókum ekki tilboði Breta og Hollendinga eftir áramótin um mikla lækkun á vaxtabyrði á ICESAVE. Ég hef að framan skrifað pistil um þetta moldvörpustarf Sigmundar Davíðs. Ef við hefðum samið á þessum nótum værum við laus úr ICESAVE spennitreyjunni. Við komumst ekki hjá því að greiða þessa skuld, en núna hangir þetta mál ófrágengið yfir okkur.

Getu Sigmundur Davíð skýrt fyrir okkur hvað það mun kosta okkur?

Sjálfstæðismenn ættu að stíga varlega til jarðar. Sú háa súla sem þeir sjá bláa á síðum Fréttablaðsins er ekki vegna þess að þeir njóti svo mikils álits og traust. Fylgi í skoðanakönnun, sem byggist á tímabundinni óánægju með aðra flokka, tollir illa í húsi. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband