Færsluflokkur: Dægurmál

Þar kom að því, Siv lætur í sér heyra

Ég endurtek það einu sinni enn; enginn maður fékk jafn gullið tækifæri á að hefja sig yfir lágkúrulega pólitíkina og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar hann varð formaður Framsóknarflokksins. Hann fékk það tækifæri einnig að hefja flokk sinn upp úr pyttinum sem hann var grafinn í á formannstíð Halldórs Ásgrímssonar.

En hvorugt gerði Sigmundur Davíð, hann sökkti sér á bólakaf í innihaldslaust argaþras pólitísku umræðunnar, fór þar meira að segja oft fremstur í flokki og á nú aðeins einn jafningja í Framsóknarflokknum á þingi; Vigdísi Hauksdóttur.

Þögn Sivjar Friðleifsdóttur er fyrir löngu orðið þannig að eftir var tekið, sama má segja um Guðmund Steingrímsson og fleiri mætti nefna í hópi þingmanna Framsóknarflokksins.

En nú hefur Siv látið í sér heyra. Hún styður ekki Sigmund Davíð, formann flokksins, í hans helstu stefnumálum. Hún styður hvorki myndun þjóðastjórnar né að efnt verði bráðlega til kosninga. Sagði réttilega að kosningar væri það sem þjóðin þyrfti síst á að halda núna.

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um að Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms væri að bera víurnar í Framsókn  um að koma til liðs við Ríkisstjórnina. Ekki finnst mér það ólíklegt að einhverjar þreifingar eigi sér stað. Það hljóta alir að sjá, ekki síst Steingrímur J. Sigfússon, að þingflokkur Vinstri grænna er ekki lengur með þann styrk að geta veitt Ríkisstjórninni nauðsynlegar stuðning. Að stjórnin hafi aðeins eins atkvæðis meirihluta á Alþingi gengur ekki.

Ég held að Siv komi fram af þessum mikla þunga nú vegna þess að hún skynjar pólitíska ástandið á Alþingi hárrétt.  Ríkisstjórnin getur ekki reitt sig framvegis á stuðning þeirra Lilju, Ásmundar Einars og Atla. Það er ekki endalaust hægt að standa í "kattasmölun", leyfum "köttunum" að fara sín einstigi, þeirra tími er liðinn sem jákvætt afl á Alþingi.

 


Dapurleg framganga Róberts Marshall í verkfræðiklúðrinu mikla, Landeyjahöfn

Róbert Marshall þingmaður í Suðurkjördæmi og Vestmanneyingur er einn af þeim sem þunga ábyrgð bera á því að sandhöfnin Landeyjahöfn var byggð. Verkfræðimenntaðir menn hjá Siglingastofnun og víðar lét starfsheiður sinn lönd og leið, létu undan pólitískum þrýstingi og "hönnuðu" þessa höfn sem allir staðkunnugir vissu að gæti aldrei orðið nothæft samgöngumannvirki.

Ástæða þess að ég beini orðum mínum að Róbert Marshall, sem vissulega er á mína ábyrgð sem Alþingismaður, hefur látið þann boðskap frá sérfara að það sem nú vanti til að Landeyjahöfn sé brúkleg sé enn frekari pólitísk afskipti að þessu klúðri öllu, einmitt það sem hefur leitt til 4 milljarða taps ofan í sandinn. Í gömlum fjársjóðaævintýrum var leitað að földum fjársjóðum,  ekki síst á sandströndum. Þessum ævintýrum hafa Íslendingar snúið algjörlega við með því að grafa fjármuni í sand á ströndu sem er á stöðugri hreyfingu og víst er að sá fjársjóður mun hverfa og tapast með öllu. 

Róbert Marshall gekk algjörlega fram af mér þegar hann lét Sjónvarpið hafa viðtal við sig í þessu algjöra hneykslismáli. Hann krafðist þess að pólitíkusar tækju að sér ákvarðanir  í stað embættismanna og þar með að sanddæluskip yrði í stöðugri vinnu við að dæla sandi úr Landeyjahöfn. Einhversstaðar sá ég að ætla mætti að kostnaður við sanddæluskip yrði 360 milljónir á ári, eftir 10 ár yrði búið að henda í þetta vonlausa verkefni ekki lægri upphæð en fleygt var í stofnkostnaðinn við byggingu hafnarinnar.

Við höfum mikið rætt um það undanfarið að skapa þurfi skarpari skil milli löggjafarvalds annarsvegar og framkvæmdavalds hinsvegar. En um hvað er Róbert Marskall að biðja? Hann er að krefjast þess að Alþingismenn taki ákvarðanir um framkvæmdir og rekstur mannvirkis sem Alþingismen eiga ekki að skipta sér af á nokkurn hátt.Róbert Marshall má reyndar vera ánægður með að koma  hvergi nærri  þeirri vonlausu baráttu við að halda því í nothæfu ástandi, hans ábyrgð er þegar orðin næg, ábyrgð sem hann rís tæplega undir.

Hvað hefði nýr Herjólfur kostað? Nýr Herjólfur sem hefði farið milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar á innan við 2 klst? Flestir eru Vestmannaeyingar á leið til Reykjavíkur. Með nýjum Herjólfi til Þorlákshafnar hefði tekið þá um 2 tíma og 40 mín, að fara gömlu leiðina eða álíka og það tekur að fara um Landeyjahöfn þá sjaldan að færi gefst til þess.

Ætlar Róbert Marshall virkilega að gera þá kröfu að sanddæluskip verði að störfum árið um kring í Landeyjahöfn? 


Þjóðin fékk gullið tækifæri en brást lýðræðisskyldu sinni að miklu leyti

Þá liggja úrslit kosninganna til Stjórnlagaþings fyrir og nú vitum við hvaða 25 einstaklingar voru valdir. Þar fóru kjósendur eftir frægð manna að mestu leyti og það er ekki út í hött að segja að Egill Helgason geti vel við unað; meirihluti þeirra sem náðu kjöri hafa verið tíðir gestir í Silfri Egils. Ég er einn af þeim 497 sem ekki náðum kjöri og ekki annað að gera en sætta sig við það, bjóst reyndar ekki við að að ég yrði fulltrúi á Stjórnlagþingi, til Þess væri ég ekki nægilega þekktur og hef reyndar aldrei komið í Silfur Egils.

Undirbúningur og úrslit hafa verið nokkuð umdeild eins og við mátti búast. Sumir telja að undirbúningstími hafi verið of stuttur, því er ég algjörlega ósammála, hvers vegna þurfti lengri tíma? Það skýtur nokkuð skökku við hvað margir buðu sig fram og svo þessi dræma þátttaka í kosningunum. Landsbyggðarmenn (ég tilheyri þeim) emja um að aðeins 3 fulltrúar séu af landsbyggðinni og hver ber ábyrgð á því? Landsbyggðarmenn sjálfir og engir aðrir sem notuðu atkvæðisrétt sinn mun verr en íbúar á höfuðborgarsvæðisins. Alverst var þátttakan á mínu heimasvæði, Suðurkjördæmi, þar sem hún náði  aðeins 29,2% enda náði enginn frambjóðandi af svæðinu, og þeir voru ekki margir, kjöri.

En hér að framan skrifaði ég grein um fjórða valdið, fjölmiðlana og komst að þeirri niðurstöðu að þar sé ástandið SKELFILEGT. Ég fékk svo sannarlega sönnun á þessu sterka orði; SKELFILEGT, í aðdraganda Stjórnlagaþings. Morgunblaðið sannaði endanlega að ritstjórnarstefna þess er lituð af annarlegri pólitík, þar situr við stjórnvölinn gamall, uppgefinn og vonsvikinn maður sem hefur þó slíkt hreðjatak á sínum gamla flokki, Sjálfstæðisflokknum, að undrum sætir. Lengi vel var skrifað um kosningarnar til Stjórnlagaþings með háði og spotti, allt að því illgirni, en þegar nær dró fóru fleiri og fleiri Sjálfstæðismenn að vinna gegn kosningaþátttöku. Svo eru þeir grjóthissa á því að, eftir þeirra eigin áliti, eingöngu vinstrimenn hafi náð kjöri sem reyndar er tóm vitleysa og sýnir að þeir eru sárir og reiðir yfir að hafa en einu sinni hlýtt fyrirmælunum frá Hádegismóum.

Það mætti halda að Sjónvarpið væri gengið í Sjálfstæðisflokkinn ef miðað er við framlag þess til kosninganna til Stjórnlagaþings. Svo virðist sem þar sé einnig unnið eftir línunni frá Hádegismóum. Engin kynning á kosningunum eða frambjóðendum og þótt þungt væri lagst á Sigmar stjórnanda Kastljóss að helga síðasta Kastljósinu fyrir kosningar Stjórnlagaþinginu haggaðist hann hvergi; sá Kastljósþáttur fjallaði eingöngu um meint kvennamál Gunnars í krossinum.

Sá prentmiðill sem stóð sig best var tvímælalaust DV. Frammistaða prentmiðla vekur enn og aftur upp þá nöturlegu staðreynd að þessi tvö dagblöð sem gefin eru út á Íslandi eru í höndum og eigu harðsoðinna sérhagsmunaklíkna. Eina ljósið framundan er að báðir eru þessi blöð, Fréttablaðið og Morgunblaðið, á fjárhagslegri heljarþröm og því fyrr sem þau fara fram af brúninni, því meiri möguleiki er að hér verði til heilbrigð dagblöð en ekki dagblöð sem eru leppar eigenda sinna.

"Þjóðin hefur talðað" æptu menn gjarnan á Austurvelli og börðu tunnur af öllum mætti "Viðheimtum kosningar og beint lýðræði" var einnig æpt um leið og eggjunum var kastað.

Þjóðin fékk kosningar og beint lýðræði. 

En þá nennti meirihluti kjósenda ekki á kjörstað, nennti ekki að taka þátt í lýðræðinu.

Ætla menn svo áfram að æpa og öskra "valdið til fólksins"!!!


Lokaorð vegna Stjórnlagaþings

Aðeins tveir dagar til kjördags þegar við öll fáum það einstaka tækifæri til að kjósa beint 25 fulltrúa sem fá það hlutverk að rita nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Öruggt að við þessi eldri fáum ekki slíkt tækifæri aftur, jafnvel ekki sú kynslóð sem hefur kosningarétt í dag.

Fyrir það fyrsta þá bendi ég þeim sem vilja enn kynna sér svolítinn boðskap og hvatningu frá okkur frambjóðendum að fara á:

kjostu.org

Þar eru góðar leiðbeiningar fyrir þá sem enn eru ekki alfarið búnir að  átta sig á því hvernig á að kjósa og hvatning frá okkur frambjóðendum til ykkar kjósenda til að koma á kjörstað og taka þátt í þessu einstaka tækifæri.

Til ykkar ágætu meðframbjóðendur

Hvatningarhópur frambjóðenda er okkar sameiginlega átak til að upplýsa kjósendur og hvetja þá til að kjósa, það er okkar hagur sem erum í framboði og landsmanna allra.

En við vissum alltaf það þyrfti að kosta einhverju til og því var búist við að hver og einn frambjóðandi legði fram nokkra upphæð, segjum 5.000 kr. inn á þessa bankaslóð; 

526 - 14 - 402711 - kt. 440902-2270

Ef framlög verða umfram kostnað rennur mismunurinn til góðgerðarmála.

Að svo mæltu þakka ég fyrir skemmtilega kosningabaráttu ,

Sigurður Grétar Guðmundsson 4976

 


Kjördæmaskipun og fjöldi þingmanna

Ég geri mér ljóst að eflaust er ég búinn að fjalla áður um það sem ég skrifa hér, þetta eru upprifjanir og áherslur

Kjördæmaskipun

Ég held að það sé óhætt að fullyrða að meiri hluti frambjóðenda til Stjórnlagaþings vill vinna að því að gera Ísland að einu kjördæmi, þar er einblínt á einn þátt eingöngu; jöfnun atkvæða.

Ég er efins um að gera Ísland að einu kjördæmi þó það tryggi jafnt vægi atkvæða, lengra verður tæplega komist í því. En ég óttast önnur áhrif, sérstaklega hættuna á auknu flokksræði. Eftir að Ísland hefur verið gert að einu kjördæmi verða allir framboðslistar matreiddir í Reykjavík á flokksskrifstofunum. Ég óttast að þar með verði áhrif hinna dreifðari og afskekktari byggða borinn fyrir borð. Möguleiki væri að jafnframt framboði lista verði einstaklingum heimilt að bjóða sig fram með ákveðnum fjölda meðmælanda. Einhver slík réttarbót yrði að fylgja verði Ísland gert að einu kjördæmi. 

Fjöldi þingmanna

Annað sem er oft slegið fram af frambjóðendum til Stjórnlagaþings er að fækka skuli þingmönnum, líklega eru flestir þar að horfa til sparnaðar.

Ég held að flestir sem slíku varpa fram þekki lítið til starfa Alþingis. Það er dapurlegt ef það er almennt álit að þingfundir, sem hægt er að horfa á í Sjónvarpinu, sýni í hnotskurn það mikla starf sem fram fer á Alþingi. Aðalstarfið fer fram í þeim mörgu nefndum sem kosnar eru á Alþingi, nefndir sem hafa mismunandi verkefni, sumar fjalla um iðnað og atvinnumál aðrar um menntamál og ekki má gleyma þeirri sem ekki hefur mesta ábyrgð, fjárlaganefnd.Til að manna allar nefndir þingsins þarf ákveðinn fjölda, það væri miður ef hver þingmaður getur ekki einbeitt sér að einum málflokki í nefnd. Þess vegna er það mikill misskilningur að fjöldi á löggjafarsamkundu eins lands sé eitthvert hlutfall af fjölda borgaranna, það er ekki nema eðlilegt að fjöldi á löggjafarsamkundu fámenns lands sé hlutfallslega meiri en meðal stærri þjóða. Eitt atriði í viðbót; með sama fjölda þingmanna og nú er eru meiri líkur á að þar sitji þverskurður þjóðarinnar. Það mætti gjarnan setja hámarkstíma á hve lengi hver og einn má sitja á Alþingi. Þannig minnka líkurnar á að til verði stétt atvinnustjórnmálamanna sem aldir eru upp í flokkunum, rétt klára lögfræðiprófið og koma blautir á bak við eyrun til setu á Alþingi án þess að hafa komið nálægt atvinnuvegum eða brauðstriti þjóðarinnar.

Ef það tekst að gera þau skörpu skil sem nauðsynleg eru milli Alþingis og Ríkisstjórnar þá verða störf Alþingis mun skilvirkari, þá mun Alþingi hafa mun meira frumkvæði að lagasetningum. Það hefur lengi verið dapurlegt að fylgjast með því að Alþingi er á stundum óstarfhæft vegna þess að það bíður eftir frumkvæði Ríkisstjórnar, hún hefur nær alfari hrifsað til sín allt frumkvæði að lagasetningu eða hvað verður oft um þingmannafrumvörp, hve oft daga þau uppi?


Það verður að endurheimta eignarétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, ætlum við að gefast upp fyrir afturhaldsaflinu LÍÚ?

Mér er minnisstæð heimsókn til góðs vinar í Vestmannaeyjum. Hann ók mér um alla Heimaey, upp á nýja hraunið og að lokum umhverfis höfnina. Þar lágu reisuleg fiskiskip við festar. Hann benti mér á nýlegan togara af minni gerðinni og sagði "Þarna er arðsamasta skip flotans hér í Eyjum, það hefur þó ekki farið úr höfn síðustu árin". Ég varð eitt spurningamerki og skildi ekki neitt. "Einfalt mál, eigandinn nennti ekki að standa í þessu útgerðarströggli, fór í land og leigði kvótann. Hann lifir nú góðu lífi á þessum ágætu tekjum".

Ef eitthvað sýnir í hnotskurn það skelfilega sukk og spillingu sem íslenskur sjávarútvegur er sokkinn í þá er þessi litla saga efst í mínum huga.

Sú var tíðin að allir gátu róið til fiskjar og fiskað eins og hver vildi. Einkennilegt finnst mér samt að það var á þeim árum sem útlendingar, einkum Bretar, gátu fiskað eins og þeir vildu á íslenskum miðum. En með órofa samstöðu (slíkri sem okkur sárvantar nú í þjóðmálum í heild) var ekki látið staðar numið fyrr en við höfðum fengið lögsögu yfir 200 mílna belti umhverfis landið frá grunnlínupunktum. Þvílík breyting frá því að lögsaga okkar var einungis 3 mílur frá strandlengju.

En svo einkennilega bregður við að eftir að við leiðum vísindi inn í fiskveiðarnar og rekum alla útlendinga frá okkar fiskmiðum þá dregst afli saman. Þá er kvótakerfið innleitt, ekki hægt að komast hjá því segja menn. En eins og alltaf verður þegar gæði eru takmörkuð þá heldur spillingin innreið sína. Útgerðarmann sóttu fast á að fá kvótann eignfærðan og misvitrir stjórnmálamenn létu undan þrýstingnum enda áttu sumir þeirra beinna hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Fyrir tuttugu árum var kvótinn í rauninni gefinn útgerðarmönnum, hann gerður að braskvöru, keyptur, seldur og leigður.

Kvótinn er orðinn eign útgerðarmanna á ólöglegan hátt eins og dómar hafa staðfest. Þar með eru útgerðarmenn komnir með dýrmæta eign sem ekki aðeins má kaupa, selja eða leigja. Þess eign má ekki síður veðsetja og fá peninga í kassann, þá drukku útgerðarmenn eiturbikarinn í botn.

Ég átti í nokkrum skoðanaskiptum við útgerðarmann hér í Þorlákshöfn ekki fyrir löngu og hann viðurkenndi tvennt alveg óvænt. Í fyrsta lagi að íslenskur sjávarútvegur væri búinn að veðsetja sig upp í rjáfur, ekki aðeins í íslenskum lánastofnunum heldur einn í útlendum bönkum og í öðru lagi að skuldsetningin kæmi fyrst og fremst af þeim skelfilegu peningaútlátum greinarinnar til að kaupa þá, sem hættu útgerð, út úr greininni. Þannig hafa þeir sem hætt hafa mergsogið greinina, horfið á braut með mikið fjármagn sem þeir hafa ýmist braskað með í öðrum greinum eða notað til að lifa hinu ljúfa lífi í heimsborgum eða flatmaga á sólarströndum.

Það hefur aldrei staðið til að rústa íslenskri útgerð með því að vinda ofan af þessu skelfilega kerfi. Það er undarlegt að útgerðarmann sjálfir sjái ekki að það er verið að rétta þeim hjálparhönd til að draga þá upp ur því kviksyndi sem þeir eru sokknir í. Sú samningaleið sem þeir eru að þvinga fram er ekkert annað en framlenging á sukkinu og spillingunni, þessu verður að linna.

Ég fer inn á Stjórnlagaþing með opinn huga tilbúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og tillögur sem þar koma fram. En ef ekki verður tekið á auðlind hafsins og hún færð aftur í þjóðareign þá sé ég ekki að til mikil sé barist.

Þarna verður að skera upp, þarna verður að grípa til róttækra aðgerða.

Þessu 


Hvernig á að stöðva heimskulegar ákvarðanir frankvæmdavaldsins sem hafa í för með sér stórskaða og fjárjagslegt tap?

Hefur þetta eitthvað með nýja og endurskoðaða Stjórnarskrá að gera? Vissulega kann svo að vera að einhver verði að vera til í þjóðfélaginu, einhverskonar sía sem stöðvað getur yfirgengilegar heimskulegar fjárveitingar til vonlausra framkvæmda.
Það er ekki ólíklegt að nú segi einhver: Nefndu dæmi máli þínu til stuðnings.
Dæmið er Landeyjahöfn, vonlausustu framkvæmd síðari tíma. Það sem fær mig til að vekja máls á öllum þeim fjármunum sem þar munu sökkva í sandinn er glapræði Ögmundar Jónassonar og dómgreindarleysi að láta þá misvitru verkfræðinga sem hönnuðu þetta vonlausa mannvirki til að fleygja nú 180 milljónum til viðbótar í sandinn, í tóma vitleysu. Þar á að búa til varnargarð úr sandi til að færa árósa Markarfljót 2 km til austur!!!. Þetta er fyrsta vers. Í öðru lagi á að gera samning við dýpkunarfyrirtæki um stöðugan sandmokstur í vetur. Þetta er annað vers. Í þriðja lagi á að smíða sandplóg sem lóðsbáturinn í Vestmanna eyjum á að nota til að drag sand út úr höfninni. Þetta er þriðja vers, allt er þegar þrennt er.
Allt verður þetta unnið fyrir gíg. Það er ekki framburður Markarfljóts sem orsakar sandfyllingu Landeyjahafnar, það er hinn gífurlegi sandburður sem er á stöðugri hreyfingu út af og við ströndina. Skammt fyrir vestan Landeyjahöfn strandaði togarinn Surprise fyrir 40 - 50 árum. Skipið sat þar fast í sandinum og náðist aldrei af strandstað. Í dag sést hvorki tangur né tetur eftir af togaranum, sjórinn er búinn að grafa hann fyrir löngu í sandinn.
Sjórinn mun mjög líklega grafa undan hafnargörðum Landeyjahafnar og færa þá að lokum endanlega í kaf.
Það eina sem nú á að gera af viti er að hafna allri frekari peningasóun í þetta fyrirtæki, ákveða að ekki verði reynt að nota höfnina í vetur og Herjólfur fari sína gömlu leið til Þorlákshafnar. Vistmannaeyingum er ekki bjóðandi upp á þessa hringavitleysu að vita aldrei hvort siglt verður til lands í dag eða ekki.
Það eina rétta hefði verið að kaupa nýjan Herjólf, hraðskreiðari ferju sem hefði siglt á milli Þorlákshafnar og Eyja á innan við 2 klst.
Það er mikil þörf á því að inn í stjórnsýsluna verði settur öryggisventill sem getur komið í veg fyrir að anað sé út í vonlausar framkvæmdir og gífurlegt fjárhagstap.
Ekki ólíklegt að í nýja Stjórnarskrá verði að koma ákvæði um slíka málsmeðferð.

Zapatero áminnti Benedikt páfa

Benedikt páfi var í heimsókn í því rammkaþólska landi Spáni. Páfi hafði margt að athuga við ýmislegt sem þarlend stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd svo sem að auka réttindi samkynhneigðra, leyfa getnaðarvarnir og jafnvel fóstureyðingar. En eins og allir vita er þetta allt eitur í beinum kaþólskra ráðamanna með páfann í broddi fylkingar. Þegar þeir kvöddust Zapatero forsætisráðherra og Benedikt páfi gaf Zapatero páfanum áminningu, minnti hann á að Spánn væri veraldlegt ríki þar sem engin trúarstofnun væri beinlínis rekin af ríkinu og trúfrelsi væri ríkjandi á Spáni. Undanfarið hafa allmiklar deilur spunnist um það hvað áhrif Þjóðkirkjan á að hafa í skólum landsins. Svolítið kómísk deila því þar eru margir sem vilja umfram allt halda þeim áhrifum sem Þjóðkirkjan hefur en hafa áður látið vel í sér heyra með hneykslun á múslímum sem víða haf sótt fast á að gera stjórnsýslu ríkja og trúarreglur múslíma eitt og það sama.

En svo vil ég nota þetta tækifæri á að undirstrika að önnur mál eru mikilvægari á Stjórnlagaþingi að mínu áliti en aðskilnaður Ríkis og Þjóðkirkju.


Hvernig er innivistin á þínu heimili?

Íslendingar búa flestir í góðum húsum, með góðum hitakerfum og flestir á svæðum þar sem hitaorkan er frekar ódýr. Það má fullyrða það jafnvel eftir síðustu hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur og svo virðist sem Hitaveitur víðar ætli að sigla í kjölfarið. Einhversstaðar sá ég að Hitaveita Árborgar ætli að hækka heita vatnið hressilega.

En þetta er nógu langur inngangur því það tók sig upp gömul árátta, sú að koma með svolítinn pistil um góðar hitavenjur sem Íslendingar á hitaveitusvæðum hafa ekki vanið sig á vegna þess hve heita vatnið hefur verið ódýrt.

Tvennt er nauðsynlegt að hafa í huga til að manni líði vel innandyra og það er ekki vanþörf á að fara nokkrum orðum um það þegar kuldaboli er farin að sýna klærnar. 

a) Það er jafn slæmt að búa við og of mikinn hita eins og of lítinn. Æskilegur  innihiti er 20 -21°C, það finnst líklega flestum of lágt, en er ekki betra að halda lægra hitastigi og fara þá bara í peysu? Algengt hitastig á hitaveitusvæðum er 23 - 25°C. Við slíkan stöðugan hita líður engum vel og eftir að heita vatnið hækkaði í verði er rétt að benda húseigendum á að hann lækkar hitareikninginn um 5% fyrir hverja hitagráðu (°C) honum tekst að lækka hitann stöðugt.

b) Rakastig innanhúss er nokkuð sem nánast enginn hirðir um eða gerir sér ekki grein fyrir að sé eitthvað sem er mikilægt. Núna þegar frost er farið að sýna sig má búast við að rakastigið falli innanhúss. Rakastigið á ekki að vera lægra en 40%, mætti vera 50%, en víða er það um 30% og þaðan af lægra.

Tvennt ætti að vera til á hverju heimili 1) hitamælir 2) rakamælir. Ef þessi mælar sýna þér að hitinn er 25°C og rakstigið 28% þá má ætla að þér líði ekki nógu vel. Ef hitinn er 21°C og rakastigið 40% þá er öruggt að þér líður mun betur.

En hvernig á að halda stöðugu hitastigi og æskilega miklum raka?

Hitastillar á hitakerfinu (ofnakerfi/gólfhiti) eiga að sjá um rétt hitastig en þá verða hitakerfin að sjálfsögðu að vera rétt stillt. Það er ekki nóg að stilla hita á hitastilli (termóstati), það þarf einnig að stilla rennslið um kerfið.

Sértu með ofnakerfi og villt auka rakan á einfaldan hátt þá er gamla húsráðið að setja ílát með vatni á heita ofnana, það er einnig hægt sérstaklega í opnum eldhúsum, að sjóða vatn í potti. En öruggast er auðvitað að kaupa rakatæki, þau geta haldið rakanum hæfilegum og jöfnum.


Hafa tölur jákvæð eða neikvæð gildi?

Þar sem ég er frambjóðandi til Stjórnlagaþings, 1 af 523, þá hef ég fengið mitt númer sem væntanlegir kjósendur mínir skrá á kjörseðilinn í komandi kosningum.

Mitt númer er 4976

Einn ágætur vinur minn hér í Þorlákshöfn kom að máli við  mig ábúðarmikill í gær og spurði mig þeirrar sérstæðu spurningar hvort ég ætti mér einhverjar happatölur. Ég kvað nei við þó oftar en einu sinni hefði ég fengið ábendingar í einhverju spjalldálkum að ég ætti mér eina slíka, en látum það liggja milli hluta, ég hef ekki tekið mark á slíkum boðskap.

Spyrjandinn varð nú ábúðarmeiri og spurði af mikilli alvöru hvort ég forðaðist ákveðnar tölur eða hvort ég óttaðist að þær boðuðu ógæfu. Mér varð víst nokkur hlátur í hug og svaraði að því síður óttaðist ég neikvæð áhrif nokkurra talna, hvorki einfaldra né samsettra. Vini mínum var greinilega létt og skýrði fyrir mér hver væri grunnurinn að þessari könnum.

Hann hafði skyndilega gert sér grein fyrir því að ef lagðir væru saman tveir fyrstu stafirnir í kjörnúmeri mínu til Stjórnlagaþings kæmi út talan 13 og ekki nóg með það; ef lagðir eru saman tveir seinni tölustafirnir kemur einnig út talan 13.

Ég sagði sem var að aldrei hefði ég haft beyg af tölunni 13 á því yrði engin breyting nú.

Kannski verður talan 13 einmitt mín happatala í komandi kosningum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband