Færsluflokkur: Dægurmál

Dapurlegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu

Ég átti góða samleið með Morgunblaðinu í 16 ár, árin sem ég skrifaði pistlana Lagnafréttir. Lengst að var Magnús Sigurðsson umsjónarmaður Fasteignablaðsins sem Lagnafréttir birtust í, við áttum alla tíð hið besta samstarf. Það kom fyrir að Styrmir Gunnarson legði mér lið en þetta var á þeim árum sem hann og Matthías Johannessen voru búnir að endurreisa Morgunblaðið og gera það að víðsýnum fjölmiðli þó ekki kæmist það alfarið hjá því að leggja Sjálfstæðisflokknum lið.

En nú er öldin önnur. Einhverntíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að í Morgunblaðinu birtist annar ein leiðari og þar sást í gær. Hann var uppfullur af rætni, hæðni en ekki síst af minnimáttarkennd og öfund. Efni leiðarans var þjóðfundurinn um helgina sem eflaust gefur þeim 25 sem kjörnir verða á Stjórnlagaþingið góðar ábendingar.

Tryggvi Gíslason, sá gagnmerki skólamaður,  hefur svarað þessum leiðara á yfirvegaðan hátt með festu og fengið stuðning minn og fleiri með athugasemdum við sinn pistil.

Að lokum vona ég að Morgunblaðið nái aftur þeirri reisn sem það bar undir stjórn Styrmis og Matthíasar, sökkvi  ekki á kaf í að verða sorapyttur og útrás fyrir geðillsku þess sem finnur að hann er búinn að tapa fyrri tiltrú, grefur þar með sína eigin gröf.


Stór hluti þjóðarinnar er í algjörri afneitun

Sérstakt þjóðfélagsástand kemur upp hjá hverri þjóð sem lendir í fjárhagslegu hruni, þar á ég við þær þjóðir sem við nefnum þróaðar þjóðir. Þeir sem aldrei hafa haft nema naumlega til hnífs og skeiðar þekkja þetta ekki, hjá þeim er baráttan áfram að reyna að haf í sig og á, verða að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. En  hjá hinum þróuðu þjóðum virðist viðbrögð margra við erfiðleikum vera afneitun. Það er ekki annað að sjá á yfirborðinu en mikill hluti þjóðarinnar hafi úr talverðu að spila, veitingahúsin blómstra, glæsilegasta kvikmyndahús Norðurlanda er opnað í Egilshöll, tónleikar og leiksýningar á hverju strái, verslanir sprengfullar af munaðarvöru, bókaútgáfa blómstrar, þúsundir lítra af bjór renna um kverkar á öllum krám hvarvetna um land og óhemju magn að jólarusli hefur verið flutt inn og er að hrúgast upp í búðunum, ekki búist við öðru en það muni renna út sem heitar lummur.

Er þá ekki allt í lagi, blómstrar ekki þjóðlífið?

Að vissu marki gerir það svo og auðvitað er það jákvætt að einhver eyðsla eigi sér stað, öll viðskipti efla Ríkissjóð og ekki veitir af.

En það hefur fyrr verið líf og fjör í borgum heimsins þó grunnurinn sé örþunnur ís sem kann að bresta hvenær sem er. Það kann að virðast  ósvífni að hverfa frá Reykjavík  til Berlínar eftir heimskreppuna miklu, til tímans milli heimsstyrjaldanna tveggja. Hið ljúfa líf var í hámarki, það var hvort sem er allt á vonarvöl. Þannig höfðu sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar búið um hnútana með þeim afarkostum sem þeir settu Þjóðverjum, þjóðinni sem mesta ábyrgð bar á  þessari skelfilegu styrjöld t og töpuðu henni gersamlega. Með  Versalasamningnum var skapaður jarðvegur fyrir skaðræðishreyfingu nasismans, þá sögu þekkja flestir, allir ættu að þekkja hana.

En sem betur fer erum við í Reykjavík og Íslandi árið 2010, svo erfitt sem það kann að reynast, en ekki á millistríðsárunum í Berlín og ég vona að þeir sem lesa þennan pistil minn taki þessa samlíkingu ekki of bókstaflega, en viðbrögðin við fjárhagslegum erfiðleikum er oft að sama toga.

En það eru fleiri í afneitun en þeir sem enn eiga eitthvað í handraðanum og geta þess vegna veitt sér þó nokkrar lystisemdir.

Tunnusláttarfólkið er ekki síður í afneitum. Ótrúlega margir sjá tunnuberjarana með glýju í augum, finnst jafnvel að þarna séu einhverjir "vormenn" að verki. Fréttamenn færa okkur nákvæmar fréttir af þessum hópi og ræða oft við einhverja sjálfskipaða talsmenn sem lýsa hvaða hugsjónir búa að baki. Eitt er þar sameiginlegt öllum sem láta í sér heyra um leið og þeir leggja frá sér lurkinn til að seilast í vasann eftir eggjum til að henda í Alþingishúsið. Það eina sem kemst að er að allt sé ómögulegt, Ríkisstjórnir fari út í hafsauga, Alþingismenn hundskist heim til sín, hvergi örlar á nokkru uppbyggilegri hugsun enda mjög skiljanlegt því þessi hópur hefur ekki skoðað bakgrunn þess sem hér gerðist eða hvað öfl komu okkur á þennan kalda klaka.

Dæmigert fyrr þennan "baráttuhóp" var uppákoman í Þingholtunum þar sem lítil deild úr tunnuhernum sló skjaldborg um hús eitt, en sá orðrómur komst á kreik að Landsbankinn ætlaði að láta bera íbúann á efstu hæð út. Þess þurfti raunar ekki því íbúinn var flúinn af vettvangi, hafði reyndar tapað íbúðinni til Landsbankans  20 mánuðum áður en fengið að búa þar áfram. Hann hafði ætlað að verða ríkur á augabragði með byggingarbraski og fékk fullt af peningum hjá Landsbankanum til þeirra framkvæmda því enga peninga átti hann sjálfur. En eins og svo margir braskarar sem ekkert áttu og skuldsettu sig upp fyrir haus fór hann rakleitt í gjaldþrot. Íbúðin góða við Laufásveg var veðsett upp í rjáfur og vel það. En áður en hetjan lagði á flótta hafði hann staðið í ýmsum framkvæmdum með þeim afleiðingum að íbúðareigendur á hæðinni fyrir neðan urðu að flýja þar sem vatnsleki niður alla veggi gerði íbúðina ónothæfa. En síðasta hálmstrá hetjunnar var að reyna að bjarga sér með því að tengja fram hjá hitaveitumæli Orkuveitu Reykjavikur, líklega hugsandi sem svo að komandi hækkun heita vatnsins væri óbærileg, þess vegna væri réttlætanlegt að fá heita vatnið ókeypis.

Ég er ekki í vafa um að með þessum orðum er ég að safna glóðum elds að höfði mér. Þúsundir hafa komið á Austurvöll við ýmis tækifæri að undanförnu til að þrýsta á stjórnvöld til að taka fastar á vandamálunum með nærveru sinni en án ofbeldis og upphlaupa. Þetta fólk á skilið virðingu fyrir nærveru sína og prúða framkomu. En uppvöðsluseggir sem með ólátum, tunnubarsmíðum og drullukasti hafa verið nánast friðhelgir, engin virðist þora að blaka við þessum ruglukollum sem hafa ekkert jákvætt fram að færa heldur þvert á móti; skemmdarverk sem hefur kostað milljónir að lagfæra.

Og meira að segja í þessum skrílslátum hefur Alþingiskona Hreyfingarinnar tekið þátt. Tæplega getur fulltrúi á Alþingi lýst betur yfir hugmyndafátækt sinni og getuleysi til að starfa jákvætt í þingsölum. 


Hverjar eru auðlindir Íslands, hver á að eiga þær, hverjir eiga að nýta þær?

Sá sem hefur boðið sig fram til Stjórnlagaþings verður að svara þeim spurningum sem koma fram í fyrirsögn pistilsins.

Fyrst vil ég gera stutta grein fyrir hverjar eru auðlindir Íslands. Að undanförnu hefur verið einblínt á orkugjafann, vatnsorku og jarðvarmaorku. Að sjálfsögðu hárrétt, þarna er hluti af auðlindum landsins en aðeins hluti. Það fer ekki á milli mála að nú stendur yfir landsfundur Landsambands íslenskra útvegsmanna, boðskapurinn sem þaðan kom er þessi; þið skuluð ekki voga ykkur að hrófla við núverandi kvótakerfi, þetta er okkar eign, við höfum keypt réttinn til að veiða fiskinn í sjónum dýru verði og það er vissulega rétt, margir haf gert það. En sú furðulega staða að tilfinningar og pólitík tröllríður umræðunni um auðlindir á landi, einkum orkugjafana, þá virðist auðlindin í hafinu, lífríkið í hafinu lítið hreyfa við þeim sem hæst hafa um vatnsaflsvirkjanir eð jarðvarmavirkjanir.

Við gerðum þau reginmistök fyrir um það bil 20 árum að rétta útgerðarmönnum eignarétt á fiskinum í sjónum, þeir fengi ekki aðeins eignarréttinn heldur rétt til að selja og leigja þessa mikilvægu "eign". Aldrei frá upphafi Íslandsbyggðar hefur einum hagsmunahópi verið afhent endurgjaldslaust önnur eins verðmæti, auðlindina miklu í hafinu sem örðum fremur hefur á undanförnum öldum haldið lífinu í Íslendingum og staðið undir velferð okkar.

En ég hef átt í nokkrum orðaskiptum við útgerðamann hér í Þorlákshöfn í litlu þorpsblaði. Þar viðurkenndi hann að íslenskur sjávarútvegur, sjávarútvegsfyrirtæki, eru skuldum vafin og kvótinn veðsettur innanlands og utan. Ekki nóg með það, hann viðurkenndi einnig hvernig þessar himinháu skuldir höfðu hrannast upp þrátt fyrir að þessi hagsmunahópur, útgerðarmenn, fengu auðlindina án nokkurs endurgjalds. Hann staðfesti að skuldirnar eru að mestu tilkomnar vegna kaupa á kvóta þeirra sem eru að hætta útgerð.

Hérlendis sem erlendis sitja fjölmargir fyrrverandi útgerðarmenn og lifa kóngalífi á þeim fjármunum sem þeir fengu fyrir sölu á kvóta til  þeirra sem áfram basla. 

Gera menn sér grein fyrir hve gífurlegir fjármunir hafa sogast út úr þessari atvinnugrein, fiskveiðum og útgerð, á þennan hátt? Gera útgerðarmenn sér ekki grein fyrir hve eitraður bikar það var sem að þeim var réttur með því að gefa þeim kvótann, með frjálsa framsalinu, með leigunni á kvótanum, með því að verða að kaupa út úr greininni með geysilegum fjármunum þá sem hætta ?

Það var sett á laggirnar nefnd til að endurskoða kvótakerfið og ég gerði mér miklar vonir um að sú endurskoðun mundi skila okkur, almenningi og þjóðinni allri, eignaréttinn og nýtingarréttinn yfir auðlindum hafsins, yfir nýtingu þeirra fiskistofna sem eru innan okkar 200 mílna lögsögu. Út úr starfi endurskoðunarnefndarinnar kom ekkert sem hönd er á festandi, loðmulla sem LÍÚ samdi og kallast samningaleið; sem sagt óbreytt ástand.

LÍÚ hefur með hræðsluáróðri tekist að halda í þennan "eignarétt" sinna fyrirtækja. Slíku verður að breyta og ný Stjórnarskrá verður að taka af skarið:

Auðlindir hafsins eru eign þjóðarinnar, engan afslátt frá því!


Stjórnarskráin á að tryggja trúfrelsi á Íslandi

Eitt af "heitustu" málum dagsins í dag er hvernig skilja beri "trúfrelsi" og það kann að vera skiljanlegt eins og trú er fjölmörgum mikilvæg og  ekki er vafi á að kristin trú er það sem flestir aðhyllast á landi hér. En eftir að "trúfrelsi" var tekið í lög hérlendis hafa fjölmörg önnur trúarbrögð en kristin trú náð hér fótfestu. Þá kemur þversögnin; kristnir menn, eða eigum við að segja hin lúterska Þjóðkirkja, er ekki tilbúin að viðurkenna jafnrétti allra trúarbragða.

Þess vegna kemur ekki annað til greina en að í nýrri Stjórnarskrá verði gerður alger skilnaður milli ríkis og Þjóðkirkju. Margir kirkjunnar menn halda því þó fram að sá aðskilnaður sé þegar orðinn en það er alrangt, við erum enn með okkar Ríkiskirkju sem vill  ekki sleppa þeim áhrifum sem hún hefur náð inn í menntakerfi þjóðarinnar.

Í núverandi Stjórnarskrá , SJÖUNDA KAFLA, 62. grein, stendur:

Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Stjórnarskráin núverandi er oft heldur loðin en hér fer ekkert á milli mála, við höfum Ríkistrúarbrögð. Það þýðir lítið fyrir forystumenn Þjóðkirkjunnar að halda öðru fram þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á undanförnum árum á tengslum Ríkis og Þjókirkju.

Hér á landi ríkir miklir fordómar gagnvart öðrum trúarbrögðum en kristinni trú. Ekki hvað síst er það íslamstrú sem fordómarnir beinast að og er þá bent á árásirnar á Tvíburaturnana í New York og ýmis önnur hermdarverk sem íslamistar hafa gert sig seka um. Þessi verk minnihluta íslamista eru síðan heimfært upp á trúarbrögðin í heild sem er auðvitað hrein firra.

Kristnir menn eru engan veginn með hreinan skjöld frekar en íslamistar en það væri hrein firra að það sé heimfært upp a trúarbrögðin í heild. Ég ætla að nefna aðeins eitt dæmi. Árið 1982 voru framin í Líbanon, í flóttamannabúðunum Shabra og Shatila einhver hryllilegust fjöldamorð á síðari tímum og þar voru að verki kristnir falangistar, Líbanar. Ekki voru þeir einir að verki því Ísraelski herinn sat um búðirnar til að enginn slyppi burt. Þegar þetta gerðist voru nær allir karlmenn í búðunum flúnir til Túnis svo fórnarlömbin voru konur, börn og gamalmenni. Þarna gengu kristnir men fram af ótrúlegri grimmd, fyrst með nauðgunum og síðan allsherjar slátrun.

Eigum við að fordæma kristna trú vegna þessara og annarra álíka voðaverka sem kristnir menn hafa á samviskunni?

Að sjálfsögðu ekki.

Nú er mikið deilt um áhrif kristinnar kirkju og presta hennar í skólum landsins allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla. Þessi þungu áhrif prestanna koma mér talsvert á óvart því þetta þekktist ekki í mínu ungdæmi, en það er æði langt síðan ég var ungur. Þessi áhrif hafa greinilega verið að aukast jafnt og þétt á liðnum árum.

Mín afstaða er afdráttarlaus:

Við eigum að aðskilja Ríkið og Þjóðkirkjuna algerlega.

Engin kirkjudeild á að hafa aðgang að óbörnuðum börnum og ungmennum innar skólaveggja.

Við eigum, sem hluta af sögukennslu, að fræða um trúarbrögð og þá öll trúarbrögð.

Hver trúarbrögð og sá söfnuður sem þau reka, á að starfa innan sinna kirkna og safnaða, þeir sem þangað vilja sækja styrk og trú á að vera það að öllu frjálst.

Ríkisvaldið á að styðja trúarsöfnuði hvaða trú sem þeir boða. Það er greinilegt að mikill meirihluti þjóðarinnar er trúaður á einhvern hátt.

Þarna á að vera fullkominn jöfnuður og það eru alls engin rök að einhver trúarbrögð hafi meira fylgi en önnur, algjört jafnræði skal ríkja.

En aftur að Þjóðkirkjunni. Ég er undrandi á hvað þeir sem mæla fyrir munn hennar eru harðir á því að þessi kirkjudeild verði að vera undir sérstakri vernd ríkisins, að prestar hennar megi þröngva sér inn í skóla landsins  til að þeir, þó ekki sé nema með nærveru sinni, klæðnaði og atferli, geti haft áhrif á óharðnaðar  sálir sem eiga tvímælalaust rétt til að verði ekki fyrir slíkri innrætingu. Þarna finnst mér birtast ótrúleg minnimáttatkennd og vantrú á boðskap og stafi núverandi Þjóðkirkju. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ekkert mundi efla meir hina evangelísku lútersku kirkju en að losa hana úr hinu langa faðmlagi við ríkið og að hún hætti því að efna til ófriðar við svo marga þegna þessa lands.

Er ekki friðarboðskapur (ef við sleppum Gamla testamentinu) kjarninn í boðskap  kristinnar trúar?


Athyglisvert viðtal við Pál Skúlason í Sjónvarpinu í gær

Þórhallur Gunnarsson er að sækja sig með sinn nýja vikulega viðtalsþátt í Sjónvarpinu og í gærkvöldi kom margt merkilegt fram. Greining Páls Skúlasonar fyrrum Háskólarektors á ástandi stjórnmálumræðunnar á Íslandi var gagnmerk. Það er dapurlegt að flest af því sem hann sagði þar um er rétt ályktað; stjórnmálmenn og stjórnmálumræða á Íslandi er í skotgröfum þar sem hver reynir að komast lengra í "málfundaumræðunni".

Það hefði mátt ætla að Hrunið hefði þjappað stjórnmálamönnum saman um að ræða málefnin með rökum og yfirvegun en það er öðru nær; aldrei hefur Alþingi verið eins lágt metið og nú samkvæmt skoðanakönnunum. Ég ætla ekki að hika við að nefna ákveðna einstaklinga til að sýna fram á hve djúpt er hægt að sökkva. Framsóknarflokkurinn hefur velskt í brimskafli stjórnmálanna frá því að Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson skyldu við flokkinn í rúst eftir fjármálsukkið við einkavæðingu bankanna. Nýr formaður fannst, ungur maður að nafni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ekki nokkur maður í stjórnmálflórunni hefur átt önnur eins tækifæri til að lyfta sér og sínum flokki upp úr skotgröfunum.

En það fór á annan veg. Sigmundur Davíð sökk í pytt skotgrafanna á stundinni dyggilega studdur að ungum angurgöpum í flokknum. Þó virðist hann ekki hafa algjöran stuðning. Guðmundur Steingrímsson sýnir að hann vill ekki í pyttinn fara og ekki heyrist mikið frá Siv Friðleifsdóttur. Enginn af nýju þingmönnum Framsóknarflokksins hefur þó valdið eins miklum vonbrigðum og Vigdís Hauksdóttir sem á svipstundu tókst að tileinka sér hernað skotgrafanna eftir að hún komst á þing. Nýjasta ævintýri hennar er að leggja fram tillögu, ásamt ýmsum skoðanasystkinum úr öðrum flokkum, um að þjóðin greiði um það atkvæði þegar kosið verður til Stjórnlagaþings hvort draga skuli umsókn Íslands um inngöngu í ESB til baka. Flumbrugangur hennar og meðflutningsmanna er slíkur að þau voru öll búin að gleyma nýsettum lögum, sem þau tóku þátt í að afgreiða, um að líða skuli minnst 3 mánuðir frá því Alþingi samþykkir þjóðaratkvæði þar til atkvæðagreiðslan fer fram! "Sorry" segir Vigdís, ég flyt bara tillögu um breyta nýsettum lögum um þjóðaratkvæði! Telur Vigdís Hauksdóttir að Alþingi sé sjálfsafgreiðsla þar sem hún og hennar líkar geti valsað um og fengið flýtimeðferð til að þóknast sýniþörf viðkomandi?

Hávær krafa kom fram í búsáhaldabyltingunni um að hreinsa alla sem þá sátu á Alþingi út, burt með þá og reyndar að stjórnmálflokkarnir fykju  líka. Mikil endurnýjun varð hjá flokkunum og nýtt afl kom einn á þing, hét þá Borgarahreyfingin, en hinir nýju þingmenn þessarar hreyfingar voru vart sestir á þing þegar Borgarahreyfingin klofnaði, þrír sátu eftir í nýjum flokki Hreyfingunni og einn, Þráinn, labbaði yfir til Vinstri grænna og hefur síðan staðið sig best að fjórmenningunum, hefur ekki sagt orð. En þrímenningarnir Birgitta, Margrét og Þór haf ekki setið auðum höndum en sokkið djúpt í svað skotgrafanna.

Sjálfstæðisflokkurinn er því miður að mestu á valdi síns gamla foringja Davíðs Oddssonar en stóð þó vel að málum við atkvæðagreiðsluna um Landsdóm, voru sjálfum sér samkvæmir. Ekki verður það sama sagt um þó nokkra af þingmönnum Samfylkingarinnar sem sýndu einhverskonar klæki við atkvæðagreiðsluna, voru ýmist með eða á móti. Sem betur fer var meirihluti þingmanna flokksins staðfastur og greiddi atkvæði á móti Landsdómi.

Hvers vegna tel ég að þeir sem greiddu atkvæði gegn því að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm hafi staðið réttar að málum? Því hef ég lýst áður í pistli hér á blogginu og vísa til þess en skal þó endurtaka tvennt. Í fyrsta lagi næst þar engan veginn til þeirra stjórnmálamanna sem mesta ábyrgð bera á Hruninu í okt. 2008, þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, í öðru lagi er Landdómur eins og gamalt skrímsli sem er ónothæft með öllu.

En aftur að vitalinu við Pál Skúlason. Hann benti eindregið á þörf fyrir upplýsingu um flest mál sem hið opinbera fjallar um og þar væri Sjónvarpið kjörinn vettvangur sem svo annarlega væri vannýttur til þeirra hluta. Hann lagði til að gerðir yrðu stuttir hnitmiðaðir fræðsluþættir um margvísleg efni, svo sem Stjórnarskrána og komandi Stjórnlagaþing. Ég hef lengi saknað slíkra þátta, vandaðra fréttaskýringa t. d. Í dag eru aðeins tveir þættir sem standa undir nafni þar. Það er "Spegillinn" í Ríkisútvarpinu og "Silfur Egils" í Ríkissjónvarpinu.

Vona að ráðmenn hafi heyrt þessi sjónarmið Páls Skúlasonar og taki þau alvarlega.


Að einstaklingur eyði 2 milljónum króna i kosningabaráttu fyrir sjálfan sig fyrir Stjórnlagaþingið nær ekki nokkurri átt

Ég lauk við í gær að senda þau gögn sem ég átti að senda rafrænt til Landskjörstjórnar vegna framboðs míns til Stjórnlagaþings svo ég tel á þar með sé ég orðinn fullgildur frambjóðandi. Ég ætla á næstunni að setja fram skoðanir mínar um helstu atriði sem ég legg á herslu á á Stjórnlagaþinginu. Ég er þegar búinn að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að gera landið að einu kjördæmi sé lýðræðinu ekki til framdráttar og er andvígur því.

En því miður eru þeir sem sett hafa saman reglur fyrir frambjóðendur til Stjórnlagaþings undir áhrifum síðustu bólutíma í fjármálum. Í reglum fyrir frambjóðendur stendur skýrum stöfum að hverjum og einum frambjóðanda sé heimilt að verja 2 milljónum króna til að kynna sjálfan sig.

Fékk enginn í undirbúningsnefnd Stjórnlagaþings bakþanka þegar þetta var ákveðið? Eru menn enn svo samdauna því siðlausa peningasukki sem viðgengist hefur hjá mörgum stjórnmálamönnum sem hafa verið í framboði til Alþingis? Framboð til Stjórnlagþings er algjörlega persónulegt, eða það vona ég að minnsta kosti. Að leyfa þetta peningasukk í undirbúningi kosninga til Stjórnlagaþings er andlýðræðislegt og skekkir stórlega aðstöðu frambjóðenda. Ég persónulega á engar 2 milljónir til að leggja í framboðssukk og þó svo væri mundi ég aldrei fara að eyða peningum í framboð mitt. 

Ég ætla stoltur að lýsa því yfir að ég muni ekki eyða 1 krónu í að koma mér á framfæri og skora á undirbúningsnefnd  Stjórnlagaþings  að afturkalla þetta sukkákvæði úr reglum um kosningar til Stjórnlagaþings. Ef það verður ekki gert tel ég að ég og margir fleiri drögum framboð okkar til baka eða sumir hætti við framboð.


Er skynsamlegt að gera landið að einu kjördæmi?

Þessi krafa, að Ísland verði eitt kjördæmi, er ekki ný af nálinni. Það sem fyrir þeim vakir, sem aðhyllast þessa stefnu, er að sjálfsögðu múmer  1, 2 og 3 að þannig verði endanlega náð fram algjörlega jöfnu vægi atkvæða sem lengi hefur verið stefnt að. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á kjördæmaskipan hníga allar í þá átt. En fólksflutningar innanlanda skekkja fljótlega þann jöfnuð sem í sjálfu sér var ætíð nokkuð langt frá því að nást.

Vissulega er það lýðræðislega rétt að vægi atkvæða sé sem jafnast, helst algjört.

En í þessu máli, sem svo mörgum öðrum, fylgir  böggull skammrifi. Með því að gera Ísland að einu kjördæmi koma fylgifiskarnir:

Efling flokksræðis er sá hættulegasti. Er ekki hættan sú að með þeirri gjörð verði allt vald og ákvarðanir um framboð flutt til höfuðstöðva flokkanna sem allar eru í Reykjavík? Hvað mundi Gunna á Raufarhöfn eða Jón á Rauðasandi hafa um þetta að segja? Hætt er við að áhrif þeirra, og annarra á landbyggðinni sem oft á tíðum eru sáralítil í dag, hverfi næstum því með öllu.

En ein spurning vekur aðra. Er hægt með því að stórauka persónukjör og gefa kjósendum meira val í kjörklefanum að vinna gegn nefndu flokksræði. Er mögulegt að frambjóðendur séu á listum flokka og einnig einstaklingar sem bjóða sig fram á eigin vegum eða á vegum ákveðinna hópa? 


Hvimleið ónákvæmni í fjölmiðlum og ekki síður dapurleg málþróun

Til hamingju með afmælið á morgun þríburar á Brjánslæk. Ég var að lesa um ykkur í Fréttablaðinu í morgun og þá kom enn einu sinni í ljós léleg landafæðikunnátta fréttamanns, eða var það bara flumbrugangur? Þríburarnir voru sagðir eiga heima á Brjánslæk, reyndar á Brjánslæk við Patreksfjörð. Ég fór að kanna í eigin huga hvort einhver bær með því nafni sé við Patreksfjörð en þegar ég sá að þríburarnir sækja skóla að Birkimel þá fór ekki á milli mála að þeir eiga heima á Brjánslæk á Barðaströnd við Breiðafjörð.

Hvernig væri nú fjölmiðlamenn góðir að vanda sig svolítið betur?

Þó ég væri ekki að leggja náið við hlustir þá heyrði ég að í útvarpinu á Rás 1 var einhver umræða  um Snæfellsnes. Þar var sagt að á nesinu væru þrír þéttbýliskjarnar (5 atkvæði). Hvers á hið gamla stutta og snjalla orð ÞORP (1 atkvæði) að gjalda? Ég á heima í Sveitarfélaginu Ölfusi og til nánari skýringar í þorpinu Þorlákshöfn.


Landselur var það, ekki útselur

Ekki er nokkur vafi að skemmtilegasta sjónvarpsefni, sem nú er í boði, er Útsvar. Þau eru aldeilis prýðilegir stjórnendur þau Þóra og Sigmar. Mismunandi er hvernig keppendur ýta undir húmor og skemmtilegheit, i gær var stórgaman af liðum Reykjaness og Álftaness.

Í gær varð að koma fram leiðrétting vegna fjölda sveitarfélaga og þar var annað liðið í þarsíðustu keppni hækkað um 15 stig sem þó hafði ekki áhrif á úrslitin.

Í gærkvöldi kom svar í flokkaspurningum frá Álftnesingum hvaða selur sæist a mynd. Álftnesingar svöruðu að þar væri liggjandi útselur og fengu stig fyrir rétt svar. Ég er alinn upp á Þjórsárbökkum en þar á eyrunum kæpti landselurinn og frá blautu barnsbeini man ég ekki eftir nokkru vori að ekki væru veiddir 20 - 30 landselskópar. Það er öruggt að svarið útselur var rangt, myndin var af landsel. Útselurinn er miklu stærri og þessa seli er auðvelt að að þekkja í sundur á höfuðlaginu, útselurinn er miklu stórskornari.


Hörmuleg afgreiðsla Alþingis á ákærum til Landsdóms

Ég hef sagt það áður hér á blogginu; það átti enginn af fyrrverandi ráðherrum að fara fyrir Landsdóm. Í fyrsta lagi vegna þess að málefnagrundvöllur er ekki fyrir hendi svo nær það ekki nokkurri átt að Alþingi sé með ákæruvald sem það getur beitt. Það er rétt sem kom fram hjá mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að andi laganna og réttlætisins er sá að ekki eigi að ákæra nema líkurnar á sekt séu meiri en líkurnar á sýknu. Vinstri grænir voru einhuga á eftir formanni þingmannanefndarinnar, Atla Gíslason; refsigleðin var í stafni. Þó mátti sjá að Steingrími var brugðið eftir að úrslitin lágu fyrir. Ég er ánægður með að minn flokksformaður, Jóhanna, kemur keik út frá málinu, var ætíð samkvæm sjálfri sér. Sama verður ekki sagt um þá Samfylkingarþingmenn sem svo greinilega létu pólitíkina ráða og kusu eftir flokkslínum í þessu alvarlega máli. (Vona að næst þegar Mörður vafrar um þingsalinn, og veit ekkert hvað hann á að gera, vafri hann út úr Alþingishúsinu og komi aldrei til baka).

Samfylkingin greiddi sjálfri sér þungt högg í þessari atkvæðagreiðslu, hún verður lengi að jafna sig eftir það. Það mátti sjá hvað Ólína var ráðvillt í Sjónvarpinu í kvöld, hún er þó vön að vera glaðbeitt og koma fyrir sig orði, nú var yfirbragðið annað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 113897

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband