Færsluflokkur: Umhverfismál
18.6.2010 | 11:56
Loka Reykjavíkurflugvelli, hraðlest milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar
Það komu fram mörg loforð og stefnumið hjá nýjum meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur, meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Eitt af því merkasta er að Reykjavíkurflugvelli verði lokað og landið nýtt til bygginga í framtíðinni og hraðlest lögð til Keflavíkurflugvallar. Það eru mörg ár síðan ég komst á þá skoðun að þetta væri besta lausnin. Ef menn hafa hafa verið samþykkir því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður hefur lausn innanlandsflugsins ætíð verið sú að byggja nýjan flugvöll frá grunni ýmist á Hólmsheiði eða í saltbaðinu á Lönguskerjum. Þó eigum við flugvöll, Keflavíkurflugvöll, í aðeins um 50 km frá miðborg Reykjavíkur. Vissulega hafa ýmsir bent eindregið á hraðlest til Keflavíkurflugvallar en það hefur ætíð verið barið niður þar sem kostnaðurinn væri svo mikill.
En hve mikill væri kostnaðurinn af því að byggja nýjan flugvöll?
Vonandi verður þetta stefna sem verður að raunveruleika. Ég minni á gamla grein eftir mig þar sem ég taldi tímabært að huga að neðanjarðarlest á höfuðborgarsvæðinu. Þar gæti verið um krossbraut að ræða a) frá Hafnarfirði til Grafarvogs b) frá Breiðholti út á Granda. Engir peningar til verður eflaust sagt en sem langtímamarkmið getur þetta orðið að veruleika. Við þessa krossbraut neðanjarðar verða síðan tengt strætisvagnakerfi, hvað mundi það draga úr notkun einkabíla á götunum?
En nú verður Kristján Möller samgönguráðherra að vakna og ekki síður Jón Gnarr, Dagur og Hanna Birna og allir hinir sem taka ákvarðanir. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður af þá er sú umferðamiðstöð sem á að fara að byggja á kolröngum stað. Ég ætla að vera svo ósvífinn að ætla Siglfirðingnum Kristjáni Möller það að með því að byggja umferðarmiðstöð norðan við Hótel Loftleiðir sé hann leynt eða ljóst verið að vinna að því að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi. Umferðarmiðstöðin á bæði að þjóna innanlandsflugi og rútuumferð úr borg og í. Ef flugumferð þarna verður lögð niður er það deginum ljósara að umferðamiðstöð er þarna á kolröngum stað og kallar á mun meiri um umferð á þeim götum sem nú þegar eru fullsetnar. Allar rútur verða að fara inn um þröngsetnar götur inn og út, allir sem koma á eigin bílum eða leigubílum lenda í sömu umferðhnútum.
Umferðamiðstöð fyrir rútur, hvort sem eru á áætlunarleiðum eða í hópferðum, á að sjálfsögðu að vera sem næst helstu umferðaæðum út frá höfuðborgarsvæðinu. Þar kom eindregið til greina a) Mjóddin b) Nágrenni Rauðavatns.
8.6.2010 | 08:52
Jón Gnarr fer með rangt mál
Ekki var hún björguleg fyrsta gangan hjá Jóni Gnarr eftir að ákveðið var að hann yrði borgarstjóri í Reykjavík. Hann fékk þar gullið tækifæri til að draga til baka fáránlega hugmynd sína um að koma ísbirni fyrir í Húsdýragarðinum í Laugardal. Gat einfaldlega sagt að hann hefði verið að "djóka" eins og honum er tamt. Jón hélt hinsvegar ísbjarnarblús sínum til streitu og það sem verra var fór með rangt mál til að rökstyðja mál sitt.
Hann fullyrti að ísbirnir væru í útrýmingarhættu!!!
Ekki veit ég hvort heldur er að Jón sé svona einfaldur og trúgjarn eða hann ætli sér framvegis að láta lönd og leið það sem sannara reynist. Fyrir hálfri öld voru ísbirnir veiddir grimmt af frumbyggjum á norðurhveli. Þá var stofninn 5.000 dýr. Þá var settur kvóti á veiðarnar og þær stórlega takmarkaðar, líklega um of. Núna hálfri öld síðar hefur stofninn nær fimmfaldast, er á milli 23.000 og 25.000 dýr. Ísbirnir eru einfarar og koma aðeins saman í hópi um fengitímann. Hver ísbjörn helgar sé mikið veiðisvæði og ekki er ólíklegt að fjöldinn sé orðinn og mikill, norðurhvelið beri ekki þennan fjölda. Ekki er ólíklegt að flækingarnir sem syntu til Íslands séu skepnur sem verða að leita út í kanta lífsvæðisins og þvældust því til íslands þar sem þeir sem betur fer voru skotnir að Norðlendingum sem gerðu sér fulla grein fyrir hættunni sem af ísbjörnunum stafaði.
En ef Jón Gnarr vill engan veginn virða staðreyndir málsins þá getur hann fengið ágætan ráðgjafa sem er honum eflaust að fullu sammál í bullinu. Það er Þórunn Sveinbjarnardóttur fyrrverandi umhverfisráðherra.
Að lokum vil ég benda Jóni Gnarr á að það er misjafnt hvernig dýr þola vist í dýragörðum. Líklega er ekkert dýr sem þolir hana jafn illa og ísbirnir, þeirra kjörsvæði er pólarsvæðið þar sem frosthörkur verða miklar. Það er mikil misþyrming þessum dýrum að geyma þau í þröngum svæðum við plúshita og hann oft æði háan.
23.5.2010 | 12:13
Veldur olídæling úr iðrum jarðar jarðskjálftum?
Mikið hefur verið deilt á olíuleit og olíuvinnslu úr iðrum jarðar og þá aðallega vegna tveggja raka á móti slíku. Hættan af olíuslysum eins og nú er alvarlegt mál á Mexíkóflóa og að þar væri verið að vinna kolefni sem mundu auka koltvísýring CO2 í lofthjúpi jarðar. Olíuslysin eru staðreynd og eiga mjög líklega eftir að verða enn hrikalegri í framtíðinni. Hin mótrökin eru að með brennslu olíu muni CO2 magnið aukast og þar með muni hnattrænn hiti hækka. Ég hef oft og áður sett fram mín sjónarmið sem eru þessi:
CO2 er ein mikilvægasta gastegund heimsins og án hennar yrði hér enginn jarðagróði og súrefni takmarkað. Kenningin um að CO2 magn hækki hita hnattrænt hefur aldrei verið sönnuð. Hækkun hita er eitt, aukning CO2 annað. Persónulega óttast ég meira að hnattrænt fari hiti lækkandi en hækkandi, það er öllum aðgengilegt að kynna sér hvaða afleiðingar litla ísöld hafði á norðurhveli jarðar. Á árunum 1400 fram til 1800 var hnattrænn hiti skelfilega lágur eftir að hafa verið mun hærra en hann er í dag á landnámsöld, árin 900 fram til 1400.
En nú hefur The University of Texas Institut for Geophysics (UTIG) sett fram ógnvænlega kenningu sem vert er að hugsa um. Stanslaus olíuvinnsla úr iðrum jarðar tæmir stóra geyma í jarðskorpunni, þar með hverfur sá mikli þrýstingur sem olía og gas myndaði. Öll sú spenna sem sem sá þrýstingur orsakaði hverfur og hvað þá? Er ekki líklegt að spennan í jarðskopunni færist til, er það svo ólíklegt að það geti orsakað jarðskjálfta?
Það væri fróðlegt ef jarðvísindamen okkar létu frá sér heyra um þessa kenningu.
23.4.2010 | 13:06
Lokun Keflavíkurflugvallar er móðursýki á hæsta stigi
Ég sá gosið vel í fyrradag, þá var svartur strókur til suðurs en í dag er enginn svartur strókur frá gosinu.
Hversvegna spyrjið þið fjölmiðlamenn ekki um ástæður þess að Keflavíkurflugvöllur er lokaður? Kokgleypið þið hvaða vitleysu sem er án þess að spyrja?
Helst væri hægt að hugsa sér að ísl. flugmálayfirvöld vilji komast í "hasarinn" og heimsfréttirnar.
Lokun Keflavíkurflugvallar í morgun er ekkert annað en bull og vitleysa, það er ykkar fréttamiðla að fletta ofan af endemisvitleysu sem veldur einstaklingum miklum útgjöldum og erfiðleikum algjörlega að ástæðulausu.
29.3.2010 | 10:37
Með mínum minnisstæðustu dögum
Ég glaðvaknaði en vissi ekki af hverju. Klukkan sýndi að hún var ekki orðin sjö að morgni. Ég var í góðu yfirlæti hjá þeim Agli og Böggu í Skarði í Þykkvabæ. Það var svo langt að sækja skóla frá Sandhólaferju til Þykkvabæjar að okkur systkinunum frá "Ferju" var komið fyrir á bæjum í Þykkvabænum, sóttum skóla 2 vikur í senn og vorum heima næstu 2 vikur. Mér leið ákaflega vel hjá þeim sæmdarhjónum Agli og Böggu í Skarði, einnig í skólanum hjá Guðmundi Vernharðssyni.
En þetta var 29. mars 1947 og einhverra hluta vegna var ég skyndilega glaðvakandi og fékk verkefni til að leysa, verkefni í eðlisfræði. Þar sem ég svaf í Skarði hékk mikill olíulampi úr lofti. En það var nokkuð að gerast sem mér kom spánskt fyrir sjónir; lampinn rólaði fram og til baka og ég fór í mikil heilabrot. Ef ég hefði rekið mig í lampann þegar ég fór í rúmið þá hefði hann átt að stöðvast fyrir löngu. Þá rak Magga vinnukona inn nefið og sagði "Sggi, varðstu var við nokkuð? Ég neitaði því upptekinn í erfiðu eðlisfræðiverefni; af hverju rólaði lampinn til og frá. Ég fór á fætur, heimilisfólk var komið á fætur og stóð úti í blíðviðrinu.
Á austurhimni var mikið sjónarspil. Þar reis kolsvartur mökkur langt upp í loftið, lóðréttur norðan til eins og hamraveggur, en samfelldur mökkur til suðurs. Ekki hugsaði ég út í það þá að þessi kolsvarti mökkur mundi breiða svo úr sér og ná til Evrópu, Bretlands og Frakklands.
En gosið í Heklu var staðreynd, þessi fjalladrottning hafði verið stillt og prúð í meira en 100 ár en nú fannst henni tími til kominn að ræskja sig og það með það sterkum jarðskjálfta að hann hreyfði hressilega við olíulampanum í Skarði, eðlisfræðiþrautin var leyst. Ég fór í skólann og Guðmundur kennari og skólastjóri staðfesti að Hekla væri að gjósa. Veður var gott, stillt og bjart. En það breyttist skyndilega. Um kl. 9:00 sást ekki á milli húsa í Þykkvabæ.
28.12.2009 | 13:12
Fimm ár frá hinum skelfilegu jarðskjálftum á Indlandshafi sem leiddu til dauða 225.000 manna
Þessir hrikalegu atburðir gerðust 26. desember árið 2004. Úti á Indlandshafi reis hafsbotninn upp, lyfti sjónum á stóru svæði svo víða sogaðist sjórinn frá þeim löndum sem að Indlandshafi lágu. Yfirborð sjávar lækkaði skyndilega, þetta sáu frumbyggjar víða og þeir vissu hvað var að gerast, forðuðu sér frá ströndum, En hinn upplýsti vestræni nútímamaður, sem flatmagaði á sólarströndum í jólafríi, sá ekki neitt. Síðan kom sjórinn æðandi og skall á landi, byggðum og borgum, olli gífurlegri eyðileggingu.
Þessi flóðbylgja, sem aðallega lenti á ströndum Indónesíu, kostaði 225.000 manslíf. Auk þess slösuðust fjölmargir og voru eftir hamfarirnar í reiðileysi. Mörgum vestrænum þjóðum gekk treglega að átta sig á alvarleika málsins, margar ríkisstjórnir brugðust seint við til að skunda á vettvang og hjálpa sínum landsmönnum og öðrum sem áttu um sárt að binda eftir hamfarirnar. En það má segja stjórnvöldum á Íslandi það til lofs að þau sendu hjálparsveit og hjúkrunarlið austur á hamfararsvæðið, aðallega til að hjálpa hvítum Skandínövum og koma þeim heima.
Af hverju stöfuðu þessar hamfarir?
Þetta er auðvitað það sem alltaf má búast við á þessum hvika hnetti sem við lifum á. Nú eru jafnvel uppi raddir um að innar stutts tíma geti álíka viðburðir orðið á Kyrrahafi, jafnvel jarðskjálftar yfir 9 stig með gífurlegum flóðöldum allt frá San Fransiskó norður til Kanada.
Enn hefur engum dottið í hug að halda öðru fram en að hér eru flekahreyfingar jarðskorpunnar orsökin, það er vissulega merkilega staðreynd. Eftir sirkusinn í Kaupmannahöfn kæmi mér ekki á óvart þó einhverjir "árnar" færu að leiða rök að því að hér væri hinn öflugi maður að verki, hann er orðinn svo kröftugur að hann getur ráðið veðri og vindum, því þá ekki jarðskjálftum, flóðbylgjum og eldgosum?
Sömmu fyir jól skrifaði ung söngkona greinarkorn í Fréttablaðið undir yfirskriftinni "Hugleiðingar um loftslagsráðstefnuna". Þar á hún auðvitað um sirkusinn í Bella Center í Kaupmannahöfn, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Ég ætla að leyfa mér að birta hér upphafið að þessari grein, varla hefur höfundur neitt á móti því.
"Það þarf ekki vísindaleg sannindi til að sjá eyðileggingarmátt mannkyns. Sannleikurinn uppljóstrast með flóðum, stækkun eyðimarka, aukinni tíðni hvirfilbylja og storma, hækkandi sjávarmáli, súrnun hafsins, eyðileggingu skóglenda, bráðnun jökla vítt og breitt um heiminn í dag - einnig þeirra sem stóðu háreistir í minni æsku í norðrinu".
Já, svo mörg eru þau orð. Vissulega er margskonar mengun í heiminum í dag. En ákveðnum öflum hefur tekist að leiða umræðuna frá réttum grundvallaratriðum og hefur tekist það svo "vel" að það er búið að trylla fólk um allan heim til að trúa því að allt sé að kenna hlýnun andrúmsloftsins, sem þó var ekki meiri en 0,74°C á síðustu öld með hámarki 1998. Síðan hefur hiti annaðhvort staðið í stað eða lækkað á þessum fyrsta ártug 21. aldar. Sömu öflum hefur einnig tekist að sannfæra nánast alla stjórnmálamenn heimsins um að allt sé þetta að kenna einni mikilvægustu undirstöðu lífsins á jörðinni, koltvísýringi CO2, sem er þó aðeins 0,0387% af öllum þeim efnum og gastegundum sem eru í gufuhvolfinu.
Þessi pistill söngkonunnar ungu er dæmigerður um hvernig tekist hefur að afvegaleiða fólk. Í fyrstu var aðeins haldið fram að hækkun CO2 í andrúmslofti væri orsök hækkandi hita, sem reyndar óverulegur en þó nokkur á síðustu öld. En nú er nánast allt sem aflaga fer í heiminum, eins og sjá má í framangreindri tilvitnun, allt þessum "lífsanda CO2" að kenna.
Hvað næst?
Spyr sá sem ekki veit, en áróðurinn þyngist stöðugt ekki síst eftir að þeir sem undirbyggt hafa þessar heimsendaspár hafa orðið uppvísir því að hagræða vísindagrundvellinum til að beygja hann að þeirri niðurstöðu sem þeir vilja fá og þeim var reyndar fyrirskipað að finna af IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna; að koltvísýringur CO2 væri orsök að hlýnun andrúmsloftsins.
Þetta gerist á sama tíma og mannkyn allt ætti að hafa meiri áhyggjur af LÆKKANDI hita frekar en HÆKKANDI hita í andrúmslofti.
19.12.2009 | 12:19
Svandís, það er langt frá því að allir séu sammála um skaðlega hlýnun jarðar
Velkomin heim Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra frá þessari ótrúlegu samkomu í Kaupmannahöfn. Ég var að enda við að svara öðrum hér á blogginu þar sem ég sagði að vonandi renni upp þeir tímar að forystumenn þjóða og allur almenningur átti sig á þeirri staðreynd að það er með öllu útilokað að mannskepnan geti haft nokkur teljandi, eða jafnvel engin, áhrif á loftslag jarðar eða ráði veðri og vindum. Það verður sólin og ýmsir aðrir þættir sem þar munu ráða eins og undarfarin milljónir ára.
Hlýnun jarðar var nokkur á síðustu öld eða um 0,74°C. Þetta mun ekki breyta gæðum jarðlífs nema til hins betra, gæðum sem eru eins og ég veit að þú gerir þér ljóst, æði misskipt. Því miður hafa ákveðin öfl í heiminum, ólíklegustu öfl hafa þar náð saman mannkyninu til stórtjóns, að beina allri athyglinni að einni af grundvallar undirstöðum lífs á jörðinni, koltvísýringi CO2, og gera þessa undirstöðu lífsins að blóraböggli fyrir hlýnun jarðar sem er engan veginn sú mikla vá sem af er látið.
Ég ætla ekki að skrifa langt mál að sinni en læt fylgja með línurit yfir þróun hita á jörðinni á 20. öld. Þetta línurit gerir örugglega ekki minna úr hækkun hita en efni standa til því línuritið er komið frá HadleyCRU sem er reyndar staðið að því að "lagfæra" staðreyndir til að fá "betri" niðurstöðu. Því hefur verið haldið fram að hækkun hita hafi verið samfelld alla öldina en eins og sjá má hefur þróunin verið upp og niður. Þarna sést einnig tvennt athyglisvert; hækkun og lækkun hita fylgir hinum sterka Kyrrahafstraumi PDO, hvort hann er jákvæður eða neikvæður, og virkni sólar var mikil og vaxandi seinni hluta aldarinnar en er nú að breytast enda hefur hiti ekki farið hækkandi á þessari öld, þeirri 21. En ég veit Svandís að um slíka smámuni hafið þið á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn ekki skeytt. Ráðstefnan var líkari uppboðsmarkaði, eftir því sem ég hef séð í fréttaflutningi, þar sem hver þjóðarleiðtoginn reyndi að yfirbjóða hina með innihaldslausum yfirlýsingum, einnig sameiginlegt að enginn vissi neitt um loftslagsmál.
Það er svo ótalmargt sem hægt er að segja um þessa makalausu vitleysu sem þið nær allir stjórnmálamenn heimsins hafið látið leiða ykkur út í og ég er ákveðinn í að láta heyra meira í mér.
Þú segir að allir séu orðnir sammála í loftslagsmálum og þá miklu vá sem framundan er. Líklega áttu þá við ráðamenn, ekki almenning og það er langur vegur f´r því að allir vísindamenn séu þessarar skoðunar. Þeir sem andmæla fá ekkert birt eftir sig í vísindritum né fréttamiðlum samanber Fréttastofu RÚV.
Ég skora á þig og þitt ráðuneyti til að láta fara fram skoðanakönnun hérlendis um hvort almenningur trúi því að hlýnun jarðar sé vá og hvort sú vá (ef vá er) sé"lífsandanum" koltvísýringi CO2 að kenna.
Persónulega óttast ég meira að fram undan sé lækkandi hiti á jörðinni svo líklega þarf hvorki þú né aðrir stjórnmálamenn að fara í felur vegna heimskulegustu ályktunar sem gerð hefur verið á alþjóðlegri ráðstefnu:
Að hiti skuli ekki hækka meira en 2°C á þessari öld!!!
Já mikill er máttur mannsins!!!
Aðeins ein lítil spá. Þessi vetur verður harður, miklar frosthörkur á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku. Stundum sleppum við betur eftir því hvernig lægðir haga sér en við skulum einnig búast við frostköldum vetri.
15.12.2009 | 11:51
Jón Björgvinsson bjargar Fréttastofu RÚV (ef það er hægt)
Það var magnaður og stórskemmtilegur pistill sem Jón Björgvinsson fréttamaður RÚV í Sviss flutti í Speglinum í gærkvöldi um sirkusinn í Kaupmannahöfn, Loftslagráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þar dró hann alla vitleysuna sundur og saman í háði enda nægt tilefni til. Til að vera alveg heiðarlegur þá var það Friðrik Páll Jónsson, upphafsmaður þessa ágæta og fágæta fréttaskýringarþáttar, Spegilsins, sem braut þögnina miklu í Efstaleiti um að það hefði ýmislegt misjafnt verið að koma í ljós í störfum þeirra "vísindamanna" sem eru á mála hjá IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Ég tek það fram að ég nota vísvitandi orðið "á mála" því það merkir einfaldlega að menn taka að sér verk, þekktast er það úr hernaði, og skeyta hvorki um skömm né heiður, né hvað er rétt eða rangt.
Það er dapurleg staðreynd að þær ágætu konur, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, eru á leiðinni eða þegar farnar til að ná í sporðinn á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn.
Skyldu þær vera sannfærðar, ég trúi því ekki.
Hins vegar er ég ekki hissa á að þau Árni Finnsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra séu komin til Kaupmannahafnar með öll skilningarvit opin eins og frelsaðir einstaklingar hlustandi á boðskap Gunnars í Krossinum. Þar held ég að sé þó nokkur mismunur á þeirra skilningi; Árni kaldrifjaður tækifærissinni sem fyrir löngu fann sína fjöl til lífsviðurværis en Þórunn bláeyg og einföld, sanntrúuð.
13.12.2009 | 18:26
Climategate, hvernig komst upp um svindl vísindamanna IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna?
Öll þau býsn af tölvupósti frá CRU, Climate Research Unit sem er í University of East Anglia hafa hangið eins og óveðursský yfir sirkusnum í Kaupmannahöfn. Í þeim pósti sést það svart á hvítu að "vísindamennirnir" hafa haft víðtækt samráð um að hagræða staðreyndum svo þær féllu betur að þeirri niðurstöðu sem ætlunin var að fram yrði sett. Enda stendur það í stofnskrá IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna að sýnt skuli fram á hækkandi hita á jörðinni!
Það var aldrei ætlunin að sýna fram á staðreyndir eða það sem sannast reynist!
Þessi tölvuleki hefur þó haft það í för með sér að Phil Jones, forstjóri CRU, hefur vikið úr stöðu sinni og opinberar rannsóknir eru hafnar austan hafs og vestan á vinnubrögðum "vísindamannanna".
En hvar birtust öll þessi gögn, allir þessir tölvupóstur?
Auðvitað á ólíklegasta stað, í borginni Tomsk austur í Úralfjöllum Rússlands. Þar með var því slegið föstu að þarna hefði verið rússneskur "hakkari " á ferð. Rússar segjast hafa kannað málið og þetta hafi einfaldlega ruðst í tölvuverið í Tomsk. Sumir hafa verið með þá kenningu á lofti að þarna hafi "whistleblower" verið að verki, innanbúðarmaður hjá CRU. En nú er komin fram ný kenning. Fjölmargir ekta vísindamenn hafa undanfarin ár krafið Phil Jones um að fá að sjá þau gögn sem hlaðist hafa upp hjá CRU og eru undirstaða "heimsendaspánna". Phil Jones hefur ætíð neitað því að efasemdarmenn fái nokkuð að sjá af grundvallargögnum. Þrýstingurinn á hann hefur þó verið að aukast og hafa menn jafnvel farið af stað með því að snúa sér til dómstóla. Svo mikill var þrýstingurinn að Phil Jones hafi verið orðinn lafhræddur um að hann yrði dæmdur til að hleypa "úlfunum" inn. Þess vegna hafi hann tekið á ákvörðun að eyða öllum gögnum og kenna um tölvuhruni. Allur póstur var pressaður" svo hægt væri að senda hann á felustað undir nafninu tom.cru.
En þá urðu honum á mistök, punkturinn lenti á röngum stað og heimilisfangið verður tomc.ru, sem sagt tölvuverið í Tomsk í Úralfjöllum Rúslands.
Og þangað ruddist öll runan og eitt mesta hneyksli í vísindaheiminum var komið fyrir allra augu!
13.12.2009 | 17:51
Sirkusinn í Kaupmannahöfn á enda runninn
Þá er víst lokið hinum stóra sirkus í Kaupmannahöfn sem haldinn var til að reyna að komast að einhverri þvæluniðurstöðu um loftslagsmál. Ekki veit ég hvort komist var að einhverri niðurstöðu en eins og alþjóð veit gengur starf IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna út á það að hræða fólk um heimsbyggð alla með því hiti fari hækkandi á jörðinni, að hemja verði undirstöðu lífsins á jörðinni, koltvísýring CO2, með ofursköttum og áróróðri, og vinna gegn öðrum lífgjafa jarðarbúa, gróðurhúsalofttegundum sem gera það að verkum að meðalhiti á jörðinni er +14.5°C en án hans væri hann -18°C og jörðin óbyggileg.
Það er með ólíkindum að það skuli hafa tekist að trylla svo alla stjórnmálamenn heimsins, eða flesta, að þeir trúi þessu bulli sem herskari að svokölluðum vísindamönnum hafa kokkað ofan i þá með beinum blekkingum og fölsunum. Svo reyna þeir að slá hvern annan út í yfirboðum sem þeir halda að gangi í augu eigin kjósenda og sýni þá í einhveri ofurbirtu í augum starfsbræðra. Nýjasta útspilið kom frá Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur; að minnka losun á CO2 um 80% að ég held fyrir 2050, kann að vera að það ætti að gerast á styttri tíma. Rasmussen hefur verið bent á að þá yrði amnnkynið að draga stórlega úr því að draga andann, honum var ráðlagt að fara nú að æfa sig og vera búinn að fækka þeim skiptum sem hann fyllir lungun með súrefni um 80% fyrir tilsettan tíma.
Sumum Dönum þótti einum landa sinna ekki nógur sómi sýndur, það hefði átt að minnast Hans Cristian Andersen og hefja hvern fund með því að lesa upp eitt af hans snjöllu ævintýrum "Nýju fötin keisarans" það hefði svo sannarlega átt við sem einkennistexti sirkussins.
En nú er víst ballið búið. það boðvar látið út ganga um allan hinn kristna heim að kirkjuklukkum skyldi hringt 350 sinnum og átti samhljómurinn að hefjast kl. 15:00 í dag. Hér í Þorlákshöfn hefur ekki heyrst múkk frá kirkjuklukkum, en kannski verður hefðbundin klukknahringing kl. 18:00 eitthvað kröftugri en venjulega.
En nú geta ráðstefnugestir haldið heima á sínum 140 einkaþotum, límósínurnar 1200 frá Danmörku, Þýskalandi og Svíþjóð hafa lítið að gera og svo mun einnig verða hjá elstu starfsstétt mannkynsins.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar