Færsluflokkur: Umhverfismál
11.8.2010 | 22:06
Guðlaugur Þór vaknar eftir dúk og disk á miðjum Suðurlandsvegi
Guðlaugur Þór alþingismaður virðist eiga greiðan aðgang að Ríkisútvarpinu. Viðtal við hann um Suðurlandsveginn í hádegisfréttum Útvarpsins í dag og síðan viðtal um sama efni í Sjónvarpinu um kvöldið. Það sem hann sagði um þetta verkefni var vissulega rétt svo langt sem það náði. Hann spurði réttilega af hverju Suðurlandvegurinn væri byggður 2+2 en ekki 2+1 sem er mun ódýrara, skapar ekki minna umferðaröryggi.
En hvar hefur Guðlaugur Þór verið undanfarin tvö ár?
Átökin um val á gerð Suðurlandsvegar fór fram á öndverðu ári 2008. Þá var mikil móðursýki í pólitíkusum og fleirum austan Hellisheiðar og þá var barið í gegn að Suðurlandvegurinn skyldi verða 2+2. Ég beitti mér nokkuð fyrir því að vegurinn yrði 2+1 þar sem þar var um góða lausn að ræða, 2+2 yrði þrefalt dýrari en 2+1.
Í byrjun febrúar árið 2008 hélt Lýðheilsustöð fund um Suðurlandsveginn á Grand Hótel í Reykjavík. Við sem komum frá Selfossi og Þorlákshöfn urðum nokkuð sein á fundinn vegna ófærðar en ef mig minnir rétt þá var það þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, sem setti fundinn en hvarf síðan strax af vettvangi.
Haraldur Sigþórsson verkfræðingur á Línuhönnun flutti ítarlegt erindi um þessar tvær vegagerðir, 2+2 og 2+1. Í máli hans kom fram að reikna mætti með að 2+2 væri þrefalt dýrari framkvæmd en 2+1 sem væri fyllilega jafn öruggur vegur samt. Gerð 2+1 vegar eykst víðast hvar á kostnað 2+2, sérstaklega væru Svíar þar í farabroddi og Bandríkjamenn væru farnir að kynna sér ítarlega rök Svíanna og taka upp þeirra stefnu í vegamálum.
Ég var fyrstur upp á eftir frummælendum og hélt fram rökunum fyrir 2+1, það sama gerðu Brynjólfur Mogensen slysavarnarlæknir og Sigurður Guðmundsson landlæknir. En ýmsar háværar raddir frá Suðurlandi heimtuðu 2+2, ekki kæmi annað til greina.
Og það varð ofaná, stefnan var tekin á 2+2 veg milli Reykjavíkur of Selfoss þrátt fyrir að Vegagerðin vildi taka stefnuna á 2+1, fá öruggan veg á 1/3 kostnaðar.
En takið eftir: Þessi umræða fór fram árla árs 2008 áður en hrunið mikla skall á.
Núna er verið að ganga til samninga við verktaka um fyrsta kaflann, frá Lögbergi að Litlu kaffistofunni, vegurinn skal vera 2+2.
Hefur ekkert breyst eftir hrunið? Datt engum í hug að ef til vill væri rétt í fjárhagslegri stöðu þjóðfélagsins að horfa svolítið í kostnaðinn? Klingdu engar bjöllur hjá ráðamönnum? Hvernig stendur á því að þingmaður kemur nú af fjöllum eins og jólasveinn í desember og veit greinilega ekkert hvað hefur verið að gerast síðustu 2 árin? Af hverju hljóp hann burtu af fundinum forðum og gleymdi málinu síðan gersamlega þar til hann virðist vakna nú þegar verið er að undirskrifa verksamning um fyrsta áfangann. Hann er tæknilega 2+2 svo þeir sem tóku ávörðun um að láta þá sóun standa virðast ekki vera í tengslum við ástandið í þjóðfélaginu.
Sá sem ber mesta og þyngsta ábyrgð á því að vegagerðinni var ekki breytt í 2+1 og 1/3 hluti kostnaðar er Kristján Möller samgönguráðherra. Hann tók snemma þá ákvörðun að fylgja flottræfilshætti ákveðinna Sunnlendinga sem með því reyndu að slá sig til riddara í pólitískum tilgangi. Það er vart hægt að segja annað en það eru embættisafglöp Kristjáns Möllers að hafa ekki tekið í taumana og stöðvað þessa óheyrilegu sóun sem lögn 2+2 vegar milli Reykjavíkur og Selfoss er.
Guðlaugur Þór, ætti bara að sofna aftur og umfram allt: láta sig hverfa fyrir fullt og allt af Alþingi.
29.7.2010 | 09:37
Það er samstaða um að auðlindir Íslands skuli vera í eigu þjóðarinar
Svo hefur ekki alltaf verið en baráttan um Gullfoss opnaði augu manna fyrir því að ekki væri alltaf hægt að meta náttúruperlur einungis með peningalegum sjónarmiðum. Ýmsir gerðust talsmenn þessara sjónarmiða, m. a. sá umdeildi en sterki stjórnmálamaður Jónas frá Hriflu. Ekki má gleyma Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir fyrir verndun Gullfoss sem var í túnfæti hennar.
Þetta ættum við að hafa í huga í fárinu sem nú stendur um kaup Magma Energiy á meirihluta á HS-orku.
Það sem við verðum að gera er að muna að AUÐLIND er eitt en NÝTING hennar annað. Margir stjórnmálmenn gera sig seka um hreinar falsanir, rugla vísvitandi saman þessu tvennu. Verra er þó að fölmiðlar eru engu betri. Það er dapurlegt að fylgjast með Fréttastofu Ríkisútvarpsins taka þátt í þessum hráskinnaleik. Þessi fjölmiðill átti löngum mitt traust en ímynd hans hefur laskast illilega. Eina ljósið þeim bæ var oft á tíðum gagnmerkar fréttaskýringar í "SPEGLINUM" sem var á dagskrá eftir kvöldfréttir, en til þessa þáttar hefur ekki heyrst í langan tíma.
En ég segi enn og aftur: Þeir sem hæst láta um eign Magma Energi í ORKUFYRIRTÆKINU HS-orku hafa ekki sagt orð um að örfáar fjölskyldur skuli hafa sölsað undir sig eina helstu AUÐLIND Íslands, fiskinn í sjónum og réttinn til að veiða hann.
Er í lagi að allt velti á því að þeir sem sölsa undir sig AUÐLINDIR séu Íslendingar, en að allt verði vitlaust ef útlendingar leggja fram fjármagn í ORKUFYRIRTÆKI?
26.7.2010 | 18:06
Skora á alla, meira að segja Vinstri græna, að ræða Magma málið og og fyrirkomulag orkuvinnslu á Íslandi af skynsemi
askja.blog.is
þar sem Ketill Sigurjónsson bloggar undir fyrirsögninni "Um eignarhald og arðsemi". Mér finnst Ketill komast þar vel að kjarna málsins og sýna fram á hvað innihaldslausar upphrópanir hafa verið í gangi í Magma málinu.
Eitt ætla ég að koma inn á og það er röksemd Vinstri grænna, Bjarkar og fleiri að fyrirtækið Magma Energy verði að vara í Íslenskri eigu til að við töpum ekki af þeim ágóða sem af rekstri fyrirtækisins verður vonandi.
Það er vissulega góðra gjalda vert að vilja halda arðinum í landinu en er það tryggt með því að hið opinbera eigi fyrirtækin?
Hve mikill hluti af arðinum af rekstri Landsvirkjunar hefur orðið eftir í landinu, 100% eða hvað? Nei aldeilis ekki, stór hluti af arði Landvirkjunar hefur runnið úr landi sem vextir af þeim gífurlegu lánum sem Landsvirkjun hefur orðið að taka hjá útlendum bönkum til að byggja sínar virkjanir.
Hafa Vinstri grænir aldrei leitt hugann að þessari staðreynd?
Útlent fjármagn sem fjárfesting eða útlent fjármagn sem lánsfé; hvoru tveggja mun taka til sín fjármuni sem fara úr landi, annarsvegar sem arður til fjármagnseigenda, hinsvegar sem vextir til banka og fjármálafyritækja.
26.7.2010 | 17:27
Ruglið í loftslagsmálum heldur áfram
Fyrir nokkrum árum stofnuðu tveir ungir menn upplýsingasíðu, Loftslag.is. Þetta leist mér ljómandi á, þarna fóru menn sem virkilega lögðu sig eftir fræðunum að mér fannst. En Adam var ekki lengi í Paradís, þessir tveir ungu menn eru gjörsamlega heilaþvegnir af þessum áróðri frá ICPP, loftslagsnefnd Sameinuð þjóðanna og þeim hátt launuðu vísindamönnum sem starfa fyrir þá nefnd, aðallega við háskóla í hinum vestræna heimi. Þessi fræði ganga út á það að maðurinn með gjörðum sínum og kolefnisbruna sé að hækka hita jarðarinnar þannig að stór vá sé framundan.
Í bloggi þeirra núna stendur þetta:
Á komandi áratugum mun hitastig halda áfram að aukast, eins og flestir virðast vera búnir að átta sig á. En hverjar verða afleiðingarnar af hnattrænni hitastigshækkun upp á 4°C
Hver er þess umkomin að segja fyrir um slíkt?
Ekki nokkur einasti maður, við vitum tæpast hvað gerist á næsta ári og fjölmargir vísindamenn haf talið meiri hættu á því eftir tvo ártugi að hiti í heiminum fari fallandi, jafnvel að "lítil ísöld" sé þá í uppsiglingu, reikna þetta eftir háttum sólar. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir að það var hart í ári á síðustu litlu ísöld en hiti í heiminum hóf að falla eftir árið 1300 og á 17. og 18. öld voru mikil harðindi ekki síst á Íslandi.
Og takið nú eftir: Hnattræn hlýnun hefur engin orðið á þessum fyrsta áratug 21. aldar, eða frá árinu 2000. Síðustu 150 árin hefur hnattræn hlýnun aðeins verið 0,6°C.
Hver getur fullyrt um framtíðina? Eru þessir ungu menn á Loftslag.is reiðubúnir til að segja okkur hvenær Katla muni gjósa, eða Hekla eða hve langt er í að Eyjafjallajökull muni gjósa aftur. Þeir geta alveg eins sagt okkur fyrir um slíka atburði eins og að fullyrða að það muni hlýna hnattrænt um heilar 4°C á næstu áratugum.
23.7.2010 | 17:24
Hælbíturinn Grétar Mar ræðst á Ingibjörgu Sólrúnu
Aldrei hef ég haft mikið álit á Grétari Mar fyrrum alþingismanni, skipstjóra og fyrrum formanni Farmanna- og fiskimannasambandsins ef ég man rétt. En í dag gengur bókstaflega fram af mér hvernig hann reynir að stinga Ingibjörgu Sólrúnu í bakið a ósvífinn og rætinn hátt. Það hefur oft komið í ljós að Grétar Mar er karlremba sem þolir ekki sterkar og ákveðnar konu. Satt best að segja hélt ég að Ingibjörg Sólrún fengi að vera í frið eftir að hún hætti þingmennsku og dró sig í hlé, m. a. vegna veikinda.
En í Fréttablaðinu í dag upplýsir nefndur Grétar Mar að hann hafi sent Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem hann mótmælir því að Ingibjörg Sólrún verði valin til að stýra rannsókn á meintum mannréttindabrotum Ísraela í morðæði þeirra og eyðileggingu á Gasa. Hann tilgreinir í þessu óþokka bréfi sínu til Mannréttindanefndarinnar að Ingibjörg Sólrún hafi ekki brugðist við mannréttindabrotum í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu meðan hún var formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra!
Stundum verður manni orða vant, í hvaða ástandi var Grétar Mar þegar hann skrifaði bréfið til Mannréttindanefndarinnar?
Fiskveiðistjórnunarkerfinu, þar sem hið frjálsa framsal varð að veruleika með kaupum, sölu og leigu og öllu braskinu var komið á áður en Ingibjörg Sólrún hóf þátttöku í stjórnmálum. Hvernig átti henni einni að vera megnugt að endurheimta þessa sameign þjóðarinnar sem misvitrir stjórnmálamenn "gáfu" örfáum mönnum eða fjölskyldum? Er það ekki staðreynd að Samfylkingin var fyrst og jafnan eini stjórnmálflokkurinn sem tók upp baráttuna fyrir því að þjóðin endurheimti þessa auðlind, fiskinn í sjónum, úr höndum sægreifanna í LÍÚ? Var það ekki Samfylkingin sem fyrst kom fram með hugmyndina um fyrningarleiðina, var ekki Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar?
Og hvar varst þú Grétar Mar þegar öll þessi ósköp gengu yfir, LÍÚ klíkunni gefinn kvótinn, varst þú út undir vegg að pissa?
Grétar Mar, ég gef þér það ráð að þú látir renna af þér, sendir annað bréf til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og biðjir auðmjúklegast um að fyrra bréfinu sé þegar stungið í ruslakörfuna.
Svo ættirðu auðvitað að biðjast afsökunar á röfli þínu en það verður tæplega; þú ert ekki bógur til þess!!!
23.7.2010 | 11:57
Ef fara á í hernað gegn lúpínunni með eiturefnum þá nálgast það að vera glæpsamleg gjörð
Undanfarin ár hef ég fylgst með gróðrinum í kringum mín tiltölulegu nýju heimkynni, Þorlákshöfn. Það er vissulega melgresið magnaðasta vopnið til að hefta sandfokið og græða sandana. En lúpínan hefur einnig skilað okkur mun betra landi en áður var. Tvennu hef ég tekið eftir í sumar sem mér finnst athyglisvert. Innan um lúpínuna virðist kjarrgróður dafna mjög vel, bæði kjarrgróður sem sáir sér og einnig nokkuð af gróðursettum trjám. Ég fæ ekki annað séð en að með tíð og tíma muni kjarrið jafnvel taka völdin og þá muni lúpínan hörfa. Annað athyglisvert sá ég nýlega. Í gömlu grjótnámunni niður við strönd hefur lúpínan náð nokkurri fótfestu. En í sumar hefur önnur tegund, sem fjölmörgum er illa við, njólinn, tekið sér bólfestu í lúpínubreiðunum.
Flestir vita að njólinn sækir í áburðarríkan jarðveg, heima við bæi, í nánd við mykjuhauga til dæmis. Njólinn hefur fundið að þar sem lúpínan vex er jarðvegurinn áburðarmikill og dafnar þar vel. Þarna vinna tvær jurtategundir að því að bæta jarðvegin á stuttum tíma, þarna fer brátt að verða kjörlendi til að gróðursetja ýmsar trjátegundir.
Það er yfirgengileg heimska að fara með hernað á lúpínuna. Að yfirlýstir náttúruverndarsinnar skuli jafnvel vera að bræða með sér að nota í þeim hernaði eiturefni þá nálgast það að vera glæpsamlegt.
Björk Guðmundsdóttir hefur stofnað til átaks til að berja í gegn að kaup Kanadamannsins á Magma Energi á Suðurnesjum verið ógilt og þá líklega á þann hátt að Ríkið yfirtaki kaupin, eða er ekki svo?. Ekki veit ég hvaðan okkar févana ríkissjóður á að fá peninga til að snara út fyrir Magma Energi eða er einhver ástæða til að ógilda þessi kaup? Ég held að Björk og hennar meðreiðarsinnar ættu í fyrsta lagi að lesa það sem dr. Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Marorku segir í Fréttablaðinu í gær og það sem Magnús Orri Schram alþingismaður segir í Fréttablaðinu í dag. Báðir benda á dökkar hliðar þess að rifta samningum við Magma Energi þar sem það hefði hrikalegar afleiðingar og mundu svipta okkur trausti á erlendum vettvangi, trausti sem við þurfum svo sárlega á að halda nú.
Ég held að það sé engin stórhætta á ferðum þó Kanadamaðurinn hafi eignast Magma Energi, tel jafnvel að það tryggi góðan rekstur fyrirtækisins og örugga afbendinu orku á ekki verri kjörum en hingað til fyrir Suðurnesjamenn. Þarna er um að ræða lítinn hluta af orkuframleiðslu þjóðarinnar og sú bábilja virðist hafa komist inn í mörg höfuð að þarna séum við að fórna auðlind en því fer víðs fjarri. Þarna fær fyrirtæki einkarétt á að framleiða orku í 65 ár og það er nákvæmlega það sama og Landvirkjun fær rétt til: að nýta okkar sameiginlegu orkuauðlindir í fallvötnunum, Orkuveita Reykjavíkur fær sama rétt á Hengilsvæðinu.
Gægist ekki þarna fram þessi gamla óvild og ótti við útlendinga?
Björk hefur ekkert sagt um hrikalegasta ránið á auðlindum okkar þjóðar, það virðist ekki hafa haldið vöku fyrir henni að fiskimiðin og fiskurinn í sjónum er ekki lengur í eigu þjóðarinnar heldur í eigu klíku sem nefnist Landsamband íslenskra útvegsmanna. Aldrei hefur annað eins skemmdarverk verið unnið á eigum þjóðarinnar eins og þegar örfáum mönnum, eða fjölskyldum, var afhent þessi auðlind endurgjaldslaust.
Björk, ertu efins um að ég fari með rétt mál?
Er það ekki rétt að allur fiskur úr sjó er veiddur af þeim sem eiga hann, þeir eru búnir að bókfæra þessi réttindi sem sína eign, þeir selja hann hver öðrum, leigja hver öðrum og kaupa hverjir af öðrum.
Og hvað koma útlendingar að þessu? Eru þetta ekki allt Íslendingar, það er nú eitthvað annað ef okkar eigin þjóðbræður hirða af okkur auðlindirnar. En það er ekki svo vel. Íslenskur sjávarútvegur er skuldum hlaðinn vegna þess að þegar einhver hættir í greininni selur hann öðrum sem eiga skip og gera út "réttinn" fyrir fúlgur fjár og festa það fé i allt öðrum greinum eða eyða þessum peningum í lúxuslíf í með öðrum landeyðum á sólarströndum.
Já, en hvað með útlendinga, er þetta ekki alt í lagi meðan aðeins Íslendingar hirða af þjóðinni auðlindir hafsins? En svo er aldeilis ekki. Flestir útgerðarmenn eru búnir að veðsetja þessa sameign þjóðarinnar upp í topp, ekki aðeins hérlendis heldur einnig í útlendum bönkum og lánastofnunum. Hvað gerist ef illa fer í rekstrinum, fara þá ekki auðlindir hafsins beint til útlendinga, til útlendra banka?
Björk, þú ætlar að bjarga okkur frá Kanadamanninum sem kom með vel þegna fjármuni inn í íslenskt efnahagslíf og ætlar að framleiða orku á Suðurnesjum í 65 ár landi þjóðinni til hagsældar. Hann eignast enga íslenska auðlind með því, ekki tekur hann hana með sér að nýtingartíma liðnum. Þú hugsar ekkert um það hvað skaða það mundi hafa í för með sér að rifta samningunum um Magma Energi. Og þú hefur líklega aldrei leitt hugann að því botnlausa sukki sem átt hefur sér stað með auðlindir hafsins.
Hvað var að gerast í Sjávarútvegsráðuneytinu í gær?
Þar mætti öll útgerðarmafía , allt forystulið Landsambands íslenskra útvegsmanna og vel það.
Hver var ástæðan?
Að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra gaf veiðar á úthafsrækju frjálsar. Það var verið að taka spón úr aski þeirrar klíku sem í dag telja sig eiga allan fisk í íslenskri landhelgi og utan eins og sjá má. Þetta gæti kostað það að einhverjir utan klíkunnar færu að veiða úthafsrækju.
Og það verður að koma í veg fyrir það með öllum ráðum, þetta minnir svolítið á vissa athafnamann sem áttu ákveðin hverfi í stórborgum Bandaríkjanna og Ítalíu, einkarétt þar að eigin áliti til "athafna".
Björg, ég hef alltaf haldið upp á þig allar götur frá því þú varst að sniglast með mömmu þinni barn að aldri hjá Leikfélagi Kópavogs forðum daga. En umfram allt; hugsaðu og kynntu þér mál áður en þú talar og grípur til aðgerða.
2.7.2010 | 09:28
Stríðið gegn lúpínunni verður að stöðva
Líklega í fyrsta skipti get ég tekið undir það sem Halldór Jónsson verkfræðingur í Kópavogi segir á bloggi sínu og setti inn hjá honum þessa athugasemd:
Halldór, það er æði sjaldan að ég er sammála þér en nú er ég það svo sannarlega. Ég veit ekki undir hvað á að flokka eyðileggingu harðgerðustu og duglegustu landgræðslujurt Íslands sem ásamt melgresinu hefur grætt upp land með undraverðum árangri, þarna er á ferðinni heimska ásamt fordómum. Þessi vitleysa er líklega runnin undan rifjum Hjörleifs Guttormssonar en það skiptir ekki höfuðmáli hvaðan vitleysan kemur; það verður að stöðva þess bévítis heimsku sem er álíka vitlaus og hvalveiðibannið sem harðjaxlinn Kristján Loftsson hefur nú brotið á bak aftur.
En þessi áróður gegn lúpínunni er því miður búinn að ná tökum á ótrúlega mörgum landsmönnum og þó nokkur sveitarfélög, í svipinn man ég eftir Ísafirði, eru farin í stríð gegn þessari duglegu landgræðslujurt. Ekki veit ég hvers vegna þessir tveir embættismen, Sveinn og Jón, láta draga sig inn í þessa vitleysu. Ég hef spurnir af því að skógræktarmen hafi fordæmt þessa heimsku og vonandi getum við sett traust okkar á Jón Loftsson skógræktarstjóra, þessa vitleysu, stríðið gegn lúpínunni, verður að stöðva.
Tek undir með þér Halldór að sem flestir ættu að kíkja inn til Ágústar H. Bjarnasonar, í hans kolli virðist skynsemin jafnan ráða ríkjum, farið inn á www.agbjarn.blog.is.
27.6.2010 | 10:55
Enn seilist ég í athuagasemdir sendar Ómari Ragnarssyni
Ég er greinilega orðin vafasamur að áliti Ómars. Þessi athugasmd mín varð að fara í "síu" og birtist ekki fyrr en Ómar er búinn að meta hana. Þar sem alls óvíst er að hún birtist set ég hana á mitt eigið blogg.
Svar þitt er athyglisvert. Ekki vegna sem þú segir heldur vegna þess sem þú segir ekki. Vissulega hafa einhverjir verið að halda því fram að Nesjavallasvæðið væri ofnýtt og auðvitað ert þú mannlegur eins og við öll og villt frekar taka undir það sem fellur að þínum skoðunum þó ekki séu það staðreyndir. Að halda því fram að orkan á Hellisheiði (Hengli) sé ofnýtt vitum við báðir að stenst ekki. En það er rétt að hafa eitt í huga; jarðgufusvæðið á Nesjavöllum og Hellisheiði, eða á Hengilsvæðinu, hlýtur að vera samtengt. Það er viðurkennt að mikil jarðgufuorka er ónýtt á Hengilsvæðinu og þess vegna er þar ekki um neina ofnýtingu að ræða.
Á Reykjanesi eru allt aðrar aðstæður og ég get tekið undir það að vissulega þarf að fara þar fram af meiri varfærni en á öðrum jarðhitasvæðum. Það er ekki síst út af áhrifum sjávar inn í hraunið.
En það sem ég tek eftir að þú, ein þekktasti náttúruverndarsinni á landinu, segir ekki orð um mínar ábendingar um hrikalega sóun á náttúruauðlindum í Þingeyjarsýslum og á þar fyrst og fremst við Kröflu. En ekki síður við þau jarðgufuorkuver sem ætlunin er að reisa í þessum landhluta sem eiga einungis að framleiða rafmagn. Þetta eru fræði sem Jóhannes Zoega benti á í mikilli alvöru og ég tók einmitt undir í einum af pistlum mínum "Lagnafréttum" í Morgunblaðinu undir titlinum "Margt er gott sem gamlir kveða".
Ég tel sjálfsagt að við nýtum okkar orkuauðlindir en það er ekki sama hvernig það er gert. Þessi seinni tíma flokkun á landsmönnum í "virkjunarsinna" eða "virkjunarandstæðinga" er ekkert annað en heimskan einber. Ég hef að framan bent á að að virkjunarsvæðin í Hengli og Kröflusvæðinu annarsvegar og Reykjanesi hinsvegar eru eru mjög ólík og þau þarf að nýta samkvæmt því. Ég er fæddur á austurbakka Þjórsár og man enn vel hvað alla þar fyrir austan dreymdi um að áætlanir Titan félagsins og Einars Benedikssonarum um virkjanir, sérstaklega virkjun Urriðafoss, yrðu að veruleika. En allt er breytingum undirorpið og ýtrustu áætlanir Landvirkjunar um uppistöðulón í byggð finnst mér meira en lítið vafasamar. Ég er engan veginn andstæður uppistöðulóna vegna virkjana, það þekktasta er Elliðavatn austan Kópavogs sem varð til við stífluna í Elliðaánum við núverandi Höfðabrekkubrú. En uppistöðulónin í Þjórsá krefjast mikilla fórna í grænum grundum og jafnvel heilum jörðum. En kannski er hægt að fara þarna bil beggja og nýta orkuna í Þjórsá niður í byggð í viðbót við það sem þetta mesta vatnsfall landsins (lengsta) er stöðugt að skila landmönnum öllum.
26.6.2010 | 10:26
Þetta var skrifað sem athugasemd til Ómars Ragnarssonar í allri vinsemd
Ómar, mér finnst þú skeiða léttilega fram hjá ýmsu eins og kemur oft fram hjá ykkur sem farið stundum offari í umhverfismálum. Það hefur hvergi komið fram svo ég viti að verið sé að ofnýta Nesjavelli eða Hellisheiði. Reyndar er það viðurkennt að Hellisheiði, eða réttara sagt Hengillinn, býr yfir gífurlegu ónotaðri orku.
Okkur Jóhannesi Zoega var vel til vina og ég held að ég viti í hvað þú ert að vitna í þegar þú vitnar í Jóhannes. Hann varaði við því að nota jarðgufu einungis til raforkuframleiðslu því með því verður yfirgengileg sóun á þeirri orku sem við fáum í iðrum jarðar. Með því að nota gufuaflið einungis til raforkuframleiðslu nýtum við gufuaflið einungis um 15%, annað glatast. En með því að nota gufuaflið fyrst til raforkuframleiðslu og sína í öðrum lið til að framleiða heitt vatn er nýtingin komin upp í 85% og er vart hægt að ætlast til að hún verði betri en þó eru til leiðir til að hækka nýtinguna. Þetta er það sem gert er á Nesjavöllum og verður einnig gert í Hellisheiðarvirkjun. En það er til orkuver sem einungis notar gufuaflið til raforkuframleiðslu og það er Krafla, tæp 15% nýting, annað er glatað. Við Kröflu er ekkert þéttbýli sem gæti nýtt heitt vatn frá orkuverinu til upphitunar.
En er þá engin leið til að nýta þá orku sem glatast og hverfur endanlega? Mér verður oft hugsað til Kröfluvirkjunar og satt best að segja þá finnst mér þetta skelfilegt; að við séum að sóa orku á þennan hátt. Ef frekari gufuaflsvirkjanir verða reistar á þessu svæði til að afla orku til álvers eða annarrastóriðju þá finnst mér þessi skelfilega sóun á auðlindum okkar verða ennþá skelfilegri.
Hvað er til ráða?
Það er einfalt mál tiltölulega, eins og sannast á Nesjavöllum og á Hellisheiði, að hita upp vatn með gufu eftir að hún hefur verið notuð til raforkuframleiðslu.
En hvernig á að nýta það heita vatna?
Hve mikið gætum við framleitt af grænmeti og blómum með allri þeirri orku sem ef til vill verður til boða í Þingeyjarsýslum? Er þarna um stóriðju að ræða sem enginn hefur gefið gaum? Getum við byggt risastórt ylræktarver fyrir norðan og þá kemur spurningu hvort þetta ylræktarver þarf ekki einnig á raforkunni að halda. Ef ylræktarverið á að framleiða grænmeti og blóm allt árið þarf það mikla raforku til lýsingar nánast hálft árið. Þarna yrði um framleiðslu að ræða sem ekki til er innlendur markaður fyrir, þessar afurðir yrði að flytja út og þar munframleiðslukostnaður og markaðsfærsla ráða úrslitum.
Ég býst við að ýmiskonar fræðingar geti skotið þessar vangaveltur á kaf en er ekki einmitt tími núna sem krefst þess að við hugsum allt upp á nýtt? Er þá ekki rétt að láta gamminn geysa, verið getur að eitthvað komi nýtilegt út úr því.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar