Færsluflokkur: Lífstíll

Við verðum að skapa skörp skil á milli Alþingis (löggjafarvaldsins) og Ríkistjórnar (framkvæmdavaldsins)

Nú þegar nær dregur kosningum til Stjórnlagaþings er ekki úr vegi að vekja athygli í stuttum pistlum á hver eru þau meginmál sem ég vil leggja áherslu á:

Viljum við halda í þingræði sem ríkjandi stjórnarform? Þá er ekki úr vegi að rifja upp örstutt hvað er átt við með þingræði.

Við kjóum fulltrúa á Alþingi, alþingismenn. Oftast skipa þeir sér í stjórnmálaflokka og eftir kosningar hefjast samningar milli flokka til að mynda Ríkisstjórn. Sú reglu hefur verið nær alsráðandi að einungis alþingismenn verða ráðherrar en þeir sitja samt sem áður áfram sem þingmenn.

Þetta er þingræði en þá kemur spurningin: Er þetta það eina sem kemur til greina sem stjórnskipun Íslands, erum við að skaða lýðræðið með því að hrófla við þessu?

Nei þetta er ekkert "heilagt" fyrirkomulag og það þarf síður en svo að skaða lýðræðið þó við þingræðinu sé hróflað.

Þetta er mín skoðun í stuttu máli:

Ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi. Það á ekki að vera lögmál að það verði umfram allt þingmenn sem verða ráðherrar. Þingmenn sem þó verða ráðherrar segi af sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á Alþingi en hafa rétt til að koma á þingfundi til að mæla fyrir lagafrumvörpum en hafa ekki atkvæðisrétt. Einstakar þingnefndir hafa rétt til að kalla ráðherra á nefndarfundi til að nokkurs konar yfirheyrslu. Þarna er skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Með þessu er endir bundinn á innihaldslaust þras á milli ráðherra og þingmanna svo sem með fyrirspurnum einkum frá þingmönnum í stjórnarandstöðu. Þegar ráðherrar fá fyrirspurnir á borð við "hvernig var brugðist við heillaóskum Hilary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna sl. 17. júní" eða "hvernig eru minkaveiðar skipulagar nú" þá hljóta allir að sjá að það verður að binda enda á þetta rugl sem framar öðru hefur stórskemmt orðstír Alþingis.

Er hægt að auka áhrif  kjósenda á hvað Ríkisstjórn þjóðin fær efir kosningar? Er hægt að búa við þetta kerfi að einhver ríkisstjórn taki við völdum eftir kosningarog þá sambræðsla flokka sem eru búnir að bræða sín stefnumál, sem fólkið kaus, í einhvern allt annan bræðing en fram var settur fyrir kosningar?

Fram hafa komið hugmyndir, fyrst settar fram af Vilmundi Gylfasyni, um að forsætisráðherra yrði kosinn beinni kosningu og hann veldi síðan og skipaði ráðherra. Auðvitað yrði hver og einn sem býður sig fram til forsætisráðherra að setja fram skýra stefnu fyrir framkvæmdavaldið og það yrðu að vera fleiri umferðir kosninga þar til forsætisráðherra yrði kjörinn af meirihluta kjósenda.

Ætti slík ríkisstjórn að vera bundin af því að fá meirihluta stuðning á Alþingi?

Þetta kann allt að virka sem útópía á marga. Ég held samt að þarna sé verið að reifa eitt mikilvægasta mál sem Stjórnlagaþing mun fjalla um:

Aðskilnaður Alþingis (löggjafans) og Ríkisstjórnar (framkvæmdavaldsins) er algjör nauðsyn. Sú stjórnskipan sem nú er við lýði hefur gengið sér til húðar og haft í för með sér ýmiskonar subbuskap, jafnvel spillingu.

Þegar þessi mál hafa verið til lykta leidd er tímabært að ræða stöðu Forsetaembættisins.

Ætlum við að hala í það embætti og hvert á þá að vera hlutverk þess?


Fulltrúalýðræði, með rétti til að skjóta málum í þjóðaratkvæði, er sá rammi sem ég sé sem ríkjandi stjórnarform á landi hér

Lýðveldið í Aþenu til forna og íslenska þjóðveldið á miðöldum eru líklega þau þjóðfélög sem hafa komist næst beinu lýðræði. Svo virðist sem ýmsir virðist sjá beint lýðræði í hillingum eða hvernig ber að skilja kröfuna um "valdið til fólksins". Þessi tvö fyrrnefndu þjóðríki liðu undir lok, þar kom ýmislegt til, ekki síst að skortur á einhverju valdi til að koma málum í framkvæmd sem fjöldinn hafði ákveðið. Þá kom til sögunnar fulltrúalýðræði, að vísu ekki hérlendis því tvö öfl náðu öllum völdum á Íslandi, Noregskonungur og Kaþólska kirkjan.

En lýðræðið með sínu fulltrúaveldi hefur reynst skásta stjórnarformið sem mannkynið hefur notað þrátt fyrir alla sína galla.
En hérlendis hefur því miður margt í grundvallareglum lýðveldisins verið fótum troðið á þessari og síðustu öld. Tveir valdamenn höfðu ekkert vald til að skipa Íslandi í flokk þjóða sem ýmist réðust á glæpsamlegan hátt inn Írak eða studdu innrásina, en gerðu það samt. Komin er út ævisaga hins merka stjórnmálamanns Gunnars Thoroddsen sem lýsir vel þeirri spillingu sem ríkti nær alla síðustu öld og ekki batnaði ástandið eftir að við komum fram á þessa öldina.
Ég er mjög hlynntur því að við sköpum öryggisventla fyrir að Stjórnarskrá sé haldin og stjórnsýslan og framkvæmdavaldið taki sér ekki meiri völd en það á að hafa samkvæmt okkar leikreglum.
Það munum við gera með ströngu eftirliti og ekki síður málskotsrétti til almenning, með réttinum að skjóta málum í þjóðaratkvæði.
En þar þurfum viða að vanda okkur, þjóðaratkvæði á að vera réttur sem umgangast á með virðingu. Það verða að vera ákveðnar, allt af því strangar reglur um hverjir hafa rétt til að skjóta málum í þjóðaratkvæði eða krefjast þjóðaratkvæðis.
Þá kemur tæknin til sögunnar. Með nútímatölvutækni þarf þjóðaratkvæðagreiðsla ekki að vera svo kostnaðarsöm. Við getum einfaldlega virkjað okkar heimabanka til þess að hver og einn geti kosið heima hjá sér, það er lítið mál að sjá til þess að aðeins sé kosið einu sinni á hverja kennitölu. Enn er einhver þjóðfélagshópur sem ekki hefur tileinkað sér möguleika tölvunar. Þeim verður að gera kleyft að fá aðstoð við atkvæðagreiðslur á þennan hátt.
Og um leið og atkvæðagreiðslu lýkur liggja úrslitin fyrir.


Stór hluti þjóðarinnar er í algjörri afneitun

Sérstakt þjóðfélagsástand kemur upp hjá hverri þjóð sem lendir í fjárhagslegu hruni, þar á ég við þær þjóðir sem við nefnum þróaðar þjóðir. Þeir sem aldrei hafa haft nema naumlega til hnífs og skeiðar þekkja þetta ekki, hjá þeim er baráttan áfram að reyna að haf í sig og á, verða að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. En  hjá hinum þróuðu þjóðum virðist viðbrögð margra við erfiðleikum vera afneitun. Það er ekki annað að sjá á yfirborðinu en mikill hluti þjóðarinnar hafi úr talverðu að spila, veitingahúsin blómstra, glæsilegasta kvikmyndahús Norðurlanda er opnað í Egilshöll, tónleikar og leiksýningar á hverju strái, verslanir sprengfullar af munaðarvöru, bókaútgáfa blómstrar, þúsundir lítra af bjór renna um kverkar á öllum krám hvarvetna um land og óhemju magn að jólarusli hefur verið flutt inn og er að hrúgast upp í búðunum, ekki búist við öðru en það muni renna út sem heitar lummur.

Er þá ekki allt í lagi, blómstrar ekki þjóðlífið?

Að vissu marki gerir það svo og auðvitað er það jákvætt að einhver eyðsla eigi sér stað, öll viðskipti efla Ríkissjóð og ekki veitir af.

En það hefur fyrr verið líf og fjör í borgum heimsins þó grunnurinn sé örþunnur ís sem kann að bresta hvenær sem er. Það kann að virðast  ósvífni að hverfa frá Reykjavík  til Berlínar eftir heimskreppuna miklu, til tímans milli heimsstyrjaldanna tveggja. Hið ljúfa líf var í hámarki, það var hvort sem er allt á vonarvöl. Þannig höfðu sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar búið um hnútana með þeim afarkostum sem þeir settu Þjóðverjum, þjóðinni sem mesta ábyrgð bar á  þessari skelfilegu styrjöld t og töpuðu henni gersamlega. Með  Versalasamningnum var skapaður jarðvegur fyrir skaðræðishreyfingu nasismans, þá sögu þekkja flestir, allir ættu að þekkja hana.

En sem betur fer erum við í Reykjavík og Íslandi árið 2010, svo erfitt sem það kann að reynast, en ekki á millistríðsárunum í Berlín og ég vona að þeir sem lesa þennan pistil minn taki þessa samlíkingu ekki of bókstaflega, en viðbrögðin við fjárhagslegum erfiðleikum er oft að sama toga.

En það eru fleiri í afneitun en þeir sem enn eiga eitthvað í handraðanum og geta þess vegna veitt sér þó nokkrar lystisemdir.

Tunnusláttarfólkið er ekki síður í afneitum. Ótrúlega margir sjá tunnuberjarana með glýju í augum, finnst jafnvel að þarna séu einhverjir "vormenn" að verki. Fréttamenn færa okkur nákvæmar fréttir af þessum hópi og ræða oft við einhverja sjálfskipaða talsmenn sem lýsa hvaða hugsjónir búa að baki. Eitt er þar sameiginlegt öllum sem láta í sér heyra um leið og þeir leggja frá sér lurkinn til að seilast í vasann eftir eggjum til að henda í Alþingishúsið. Það eina sem kemst að er að allt sé ómögulegt, Ríkisstjórnir fari út í hafsauga, Alþingismenn hundskist heim til sín, hvergi örlar á nokkru uppbyggilegri hugsun enda mjög skiljanlegt því þessi hópur hefur ekki skoðað bakgrunn þess sem hér gerðist eða hvað öfl komu okkur á þennan kalda klaka.

Dæmigert fyrr þennan "baráttuhóp" var uppákoman í Þingholtunum þar sem lítil deild úr tunnuhernum sló skjaldborg um hús eitt, en sá orðrómur komst á kreik að Landsbankinn ætlaði að láta bera íbúann á efstu hæð út. Þess þurfti raunar ekki því íbúinn var flúinn af vettvangi, hafði reyndar tapað íbúðinni til Landsbankans  20 mánuðum áður en fengið að búa þar áfram. Hann hafði ætlað að verða ríkur á augabragði með byggingarbraski og fékk fullt af peningum hjá Landsbankanum til þeirra framkvæmda því enga peninga átti hann sjálfur. En eins og svo margir braskarar sem ekkert áttu og skuldsettu sig upp fyrir haus fór hann rakleitt í gjaldþrot. Íbúðin góða við Laufásveg var veðsett upp í rjáfur og vel það. En áður en hetjan lagði á flótta hafði hann staðið í ýmsum framkvæmdum með þeim afleiðingum að íbúðareigendur á hæðinni fyrir neðan urðu að flýja þar sem vatnsleki niður alla veggi gerði íbúðina ónothæfa. En síðasta hálmstrá hetjunnar var að reyna að bjarga sér með því að tengja fram hjá hitaveitumæli Orkuveitu Reykjavikur, líklega hugsandi sem svo að komandi hækkun heita vatnsins væri óbærileg, þess vegna væri réttlætanlegt að fá heita vatnið ókeypis.

Ég er ekki í vafa um að með þessum orðum er ég að safna glóðum elds að höfði mér. Þúsundir hafa komið á Austurvöll við ýmis tækifæri að undanförnu til að þrýsta á stjórnvöld til að taka fastar á vandamálunum með nærveru sinni en án ofbeldis og upphlaupa. Þetta fólk á skilið virðingu fyrir nærveru sína og prúða framkomu. En uppvöðsluseggir sem með ólátum, tunnubarsmíðum og drullukasti hafa verið nánast friðhelgir, engin virðist þora að blaka við þessum ruglukollum sem hafa ekkert jákvætt fram að færa heldur þvert á móti; skemmdarverk sem hefur kostað milljónir að lagfæra.

Og meira að segja í þessum skrílslátum hefur Alþingiskona Hreyfingarinnar tekið þátt. Tæplega getur fulltrúi á Alþingi lýst betur yfir hugmyndafátækt sinni og getuleysi til að starfa jákvætt í þingsölum. 


Hversvegna hefur verið einblínt svona á orkugjafa sem hina einu sönnu auðlind Íslands?

Mér fannst síðasti pistill minn um auðlindir landsins orðinn langhundur svo skynsamlegra væri að skrifa fleiri og styttri. Það eru miklar tilfinningar í gangi þegar umræða hefst um orkuauðlindir Íslands og mér finnst stundum að þar fari sumir út um víðan völl.

Orkuauðlindir Íslands eru aðallega af tvennum toga þegar skoðaðar eru þær virkjanir sem framleiða fyrir okkur orku. Það eru vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir. Sú furðulega flokkun hefur orðið til hér á landi að skilja menn í tvo flokka; virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Ég held að þessi flokkun eigi ekki nokkurn rétt á sér, það er eðlilegt að sitt sýnist hverjum hvar og hvað eigi að virkja. Líklega, miðað við hvað ég hef látið frá mér fara í rituðu máli,  er ég l flokkaður virkjunarsinni sem á þó engan rétt á sér. Þekktur umhverfissinni, nafni minn,  sendi frá sér blogg nýlega þar sem hann lýsti sig andsnúinn vatnsaflsvirkjunum, frekar ætti að snúa sér að jarðgufuvirkjunum, það hefði Einar Benediksson gert ef sú tækni í beislun jarðgufu hefði verið komin fram á hans dögum. Ég gerði athugasemd við þessa skoðun, veit ekki hvort nafni minn hefur svarað, hef ekki fundið það.

Ég hef sett fram harða gagnrýni á þá stefnu að virkja meira og meira af gufuafli til raforkuframleiðslu eingöngu og ekki hikað við að segja að þar erum við að fara í hrikalega rányrkju á auðlind okkar. Hvað vit er í því að bora og bora eftir gufu sem síðan knýr aðeins túrbínur sem framleiða rafmagn. Þar nýtum við aðeins um 14% af því afli sem í gufunni býr. Gufuforði í iðrum Íslands er ekki óþrjótandi og ferillinn frá því vatn fer niður í hin heitu jarðlög og er síðan tekið upp aftur sem gufuafl er mjög langur.

Er vit í því að stunda rányrkju á auðlind til að framleiða rafmagn sem síðan er selt til orkufrekasta iðnaðar sem fyrirfinnst, málmbræðslu í okkar tilfelli álbræðslu?

Á Nesjavöllum er framleitt rafmagn með gufuafli sem síðan er notað til að hita kalt vatn upp í hátt í 90°C. Þar með nýtum við gufuaflið 85%, komumst tæplega hærra. Með þessu vatni eru öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi hituð upp

En það er eftir að ræða um eignarhaldið á þessari auðlind, orkuauðlindunum, vatnsföllum og gufuafli.

Þar gagnrýni ég hvað umræðan um þessar auðlindir hefur orðið ómarkviss og ruglingsleg. Ég vil sterklega undirstrika að eignarhald á auðlind er eitt, beislun og nýting annað. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar, segi það beint út; þær eiga að vera þjóðnýttar, sem er alls ekki svo í dag. Hvort sem við reisum Kröfluvirkjun eða minni virkjanir veður að semja um land g nýtingu við fjölmarga aðila. Nýting er allt annar handleggur. Við erum vön því að fá og öflug íslensk fyrirtæki hafa aðallega nýtt orkuauðlindir. Þar er Landsvirkjun langstærst en fleiri koma þar við sögu svo sem Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða, Hitaveita Akureyrar og margar fleiri hitaveitur.

Ég hef verið spurður að því hvaða afstöðu ég taki til einkarafstöðva, einkahitaveitna frá einni borholu til lítilla byggða svo eitthvað sé nefnt. Ekki dettur mér í hug að farið verði að þjóðnýta litlar heimilisstöðvar í bæjarlækjum þar sem þær finnast. Framtaksamir menn hafa borað eftir heitu vatni í sinni jörð og fundið þó nokkuð af heitu vatni. Er það vatn þeirra einkaeign? Við höfum fram að þessu litið svo á þó þar sé allt annað að gerast en virkjun bæjarlækjarins. Vatn sem kemur upp í borholu á einni jörð kann að koma úr miklu stærra forðabúri og sprunguneti en því sem aðeins er undir jörð viðkomandi. Þess vegna gæti það gerst ef nágrannarnir bora líka að þá  minnki rennslið hjá þeim sem fyrstur fann heita vantið.

Þarna geta vaknað margar gagnrýnar spurningar


Stefnumið vegna Stjórnlagaþings

 @font-face { font-family: "Times New Roman"; }@font-face { font-family: "Courier New"; }p.MsoNormal, li.MsoNormal, div.MsoNormal { margin: 0cm 0cm 0.0001pt; font-size: 12pt; font-family: "Times New Roman"; }table.MsoNormalTable { font-size: 10pt; font-family: "Times New Roman"; }div.Section1 { page: Section1; }ol { margin-bottom: 0cm; }ul { margin-bottom: 0cm

Þar sem ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings tel ég rétt að setja fram mín sjónarmið, hvernig ég tel rétt að starfa ef ég næði kjöri og hver eru mín helstu stefnumið:

  • Ég vil taka sæti á Stjórnlagaþingi með opnum huga, þó ég sé búinn að setja mér markmið fer ég á þingið tilbúinn til að hlusta á aðra þingfulltrúa. Þeir sem þar taka sæti mega engan veginn falla í sömu gryfju og Alþingi er í; á Stjórnlagaþingi verður að ræða mál af yfirvegun, með rökum og virðingu fyrir öðrum fulltrúum og sjónarmiðum þeirra.
  • Ég hef áður lýst því að ég hef miklar efasemdir um að gera landið að einu kjördæmi. Ekki verður nær komist algjöru jafnræði í vægi atkvæða, það viðurkenni ég. En með þeirri gjörð óttast ég að flokksræðið aukist, framboðslistar verði ákveðnir í höfuðstöðvum flokka í Reykjavík, þetta gæti minnkað vægi byggða utan höfuðborgarsvæðisins til áhrifa og almennings almennt..
  • Núverandi kjördæmaskipan hefur sýnt nokkuð hvað væri í vændum með landinu sem einu kjördæmi. Þessi stóru kjördæmi hafa dregið fram galla vegna stærðar sinnar.
  • Vissulega mundi það draga úr kjördæmapoti, þingmenn falla oft í freistingu atkvæðapots og vinsældaleitar eins og sjá má um dæmi þegar rætt hefur verið um hinn mikla niðurskurð í heilbrigðisgeiranum á landsbyggðinni.
  • Einmenningskjördæmi eru eflaust þau óréttlátustu sem finnast, en þar er einn kostur; hver frambjóðandi verður að standa undir sjálfum sér, hefur ekki lista til að fljóta með eða meðframbjóðendur til að skýla sér.
  • Mikil krafa hefur verið uppi um meiri áhrif hvers kjósanda á hverjir veljast til framboðs og forystu. Ein hugmynd um slíkt ef landið verur gert að einu kjördæmi: Frambjóðendur mega skipa sér á lista þar sem kjósendur geta raðað í sæti á listanum upp á nýtt en jafnframt geta einstaklingar boðið sig fram á eigin spýtur jafnframt því að lýsa yfir stuðningi við flokka eða verið alfarið óháðir en með skýr markmið.
  • Skýra þarf verk- og valdsvið hinna þriggja stoða lýðveldisins, löggjafarvalds (Alþingi) framkvæmdavald (Ríkisstjórn) og dómsvalds (Dómstólar). Ég tel mikla þörf á að fá fram betri aðskilnað sérstaklega á löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi.
  • Við höfum alla tíð frá því að við fengum íslenskan ráðherra búsettan á Íslandi búið við þingræðisstjórn. Hefur það gefist vel eða er það sjálfgefið að það sé það sem við viljum í framtíðinni? Hvernig hefur þetta skipulag gefist? Eitt af því neikvæðasta við þingbundna ríkisstjórn er að kjósandinn veitt ekkert hvaða Ríkisstjórn hann er að kjósa í Alþingiskosningum, hann hefur ekkert að segja um það hvaða Ríkisstjórn verður við völd að loknum kosningum. Er þetta lýðræðislegt?
  • Í núverandi stjórnarskrá er mikil umfjöllun um Forsetaembættið, það er að mörgu leyti dapurlega lesning. Forsetanum eru veitt mikil völd í öðru orðinu en tekin frá honum í því næsta, þannig er Forseti lýðveldisins Íslands nær algerlega valdalaus. Aðeins að einu leyti hefur hann raunveruleg völd; hann  getur neitað að undirrita lög frá Alþingi og vísað þeim til þjóðaratkvæðis.
  • Ég tel að tveir möguleikar séu til að ákvarða framtíð Forsetaembættisins; a) leggja það niður, b) breyta því og efla. Óbreytt Forsetaembætti á enga framtíð.
  • Þarna kemur möguleikinn til að aðskilja frekar löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið. Gefum okkur dæmi: Forsetinn er kjörinn í þjóðaratkvæði. Hann skipar forsætisráðherra sem síðan velur menn til að gegna ráherraembættum. Þeir sem veljast til ráðherraembætta ættu síst að vera alþingismenn, ef svo er afsala þeir sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á þingi en einstakar þingnefndir geta kallað þá fyrir út af einstökum málum. Á ríkistjórnin að þurfa að fá meirihlutastuðning Alþingis? Á Alþingi að geta lýst vantrausti á Ríkisstjórn? Hve mikill skal meirihlutinn að vera til að vantraust hljóti gildi? Er einfaldur meirihluti alltaf það rétta, gæti ekki þurft 2/3 meðatkvæði til að vantraust verði samþykkt?
  • Alþingi verður eftir þessa breytingu sannarlega Löggjafarþing sem ekki situr og stendur eins og framkvæmdavaldinu þóknast. Vissulega verður Ríkisstjórn hverju sinni að leggja fram lagafrumvörp vegna ýmissa mála, Fjárlagfrumvarp að sjálfsögðu svo nokkuð sé nefnt.
  • Með þessu yrði lagt niður einskisvert karp milli ráðherra og þingmanna sem ekki hvað minnst hefur eyðilagt virðingu Alþingis og er algjör tímasóun.
  • Tel að ekki eigi að fækka þingmönum sem er oft hávær krafa. Til að unnt sé að manna allar starfsnefndir Alþingis eru takmörk fyrir því hve fámennt Alþingi má vera. Krafan um fækkun Alþingismanna virðist oftast koma fram sem krafa um sparnað, ekki tekið tillit til annarra þátta. Á Alþingi ekki að hafa áfram rétt til að rannsaka ýmis álitamál? Það tel ég einsýnt.
  • Er líklegt að ef hið margumrædda karp milli Ráðherra og Alþingismanna lýkur að unnt verði að stytta starfstíma Alþingis? Er möguleiki að hverfa aftur til þess tíma þegar seta á Alþingi var ekki fullt starf? Væri ekki þannig hægt að búast við að Alþingi verði þverskurður þjóðarinnar og loku yrði skotið fyrir að menn verði atvinnustjórnmálmenn sem óttast má að slitni úr sambandi við lífið í landinu?

Læt hér staðar numið að sinni, umsagnir um þessar hugmyndir væru vel þegnar. Vonandi stutt í næsta pistil um Stjórnarskrána.


Málfrelsi er ein af undirstöðum lýðræðis, dapurlegt að sjá hvernig það er misnotað

Ég var að enda við umfjöllun um það sem fram kom hjá Páli Skúlasyni í Sjónvarpinu á gær; um hvernig stjórnmálaumræðan hérlendis er sokkin djúpt í skotgrafir.

En það verður að gera kröfu til fleiri en stjórnmálmanna. Í lýðræðisríki hafa allir þegnar málfrelsi en því miður, nokkur hluti þeirra telur að málfrelsi sé frelsi til að ausa skít yfir náungann, að halda endalaust fram sömu rökleysunum, að tyggja aftur of aftur sömu innihaldslausu frasana. Ég hef stundum verið komin á fremsta hlunn með að hætta hér á blogginu, of margir á því eru ekki viðræðuhæfir og því miður virðist ýmsum ofstækismönnum vera hossað hátt og eru stöðugt í sérstöku úrvali. Þó gagnrýna megi stjórnmálamenn fyrir margt eru takmörk fyrir því þar sem annarsstaðar hve lágt má leggjast í orðbragði og lúalegri framkomu. Líklega hefur enginn fengið jafn margar svívirðingar hér á blogginu og Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra, þar virðist einnig blandast inn í karlremba sumra lítilsigldra karla, sem  aldrei geta falið og vilja líklega ekki fela, kvenfyrirlitningu sína.

Ég er satt að segja ekki enn  búinn að ná mér eftir að hafa rekist einhverstaðar á myndband með Ingva Hrafni Jónssyni fyrrum fréttastjóra Sjónvarpsins og núverandi sjónvarpsstjóra á eigin Sjónvarpsstöð. Það var ekki nóg með að aumingja maðurinn væri augljóslega kófdrukkinn, heldur jós hann úr sér svívirðingum aðallega um tvær persónur, Evu Joly og Ólaf Hauksson sérstakan saksóknara. Reyndar voru allir "undir" sem starfa við embætti Sérstaks saksóknara, þetta var að áliti hins kófdrukkna allt undirmálsfólk. Nákvæmnin í málflutningi aumingja mannsins var reyndar engin eins og oft vill verða þegar drukknir menn fara að láta ljós sitt skína. M. a. sagði hann að Eva Joly hefði fengið hundruður þúsunda dollara" í laun og ferðakostnað frá Íslenska ríkinu. Einhverstaðar sá ég að heildarkostnaður viðstörf Evu Joly hérlendis væru um 27 milljónir króna.

En það dapurlegasta er að þó nokkur fjöldi venjulegs fólks virðist njóta illmælginnar sem út úr Ingva Hrafni veltur drukknum sem ódrukknum.


Að einstaklingur eyði 2 milljónum króna i kosningabaráttu fyrir sjálfan sig fyrir Stjórnlagaþingið nær ekki nokkurri átt

Ég lauk við í gær að senda þau gögn sem ég átti að senda rafrænt til Landskjörstjórnar vegna framboðs míns til Stjórnlagaþings svo ég tel á þar með sé ég orðinn fullgildur frambjóðandi. Ég ætla á næstunni að setja fram skoðanir mínar um helstu atriði sem ég legg á herslu á á Stjórnlagaþinginu. Ég er þegar búinn að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að gera landið að einu kjördæmi sé lýðræðinu ekki til framdráttar og er andvígur því.

En því miður eru þeir sem sett hafa saman reglur fyrir frambjóðendur til Stjórnlagaþings undir áhrifum síðustu bólutíma í fjármálum. Í reglum fyrir frambjóðendur stendur skýrum stöfum að hverjum og einum frambjóðanda sé heimilt að verja 2 milljónum króna til að kynna sjálfan sig.

Fékk enginn í undirbúningsnefnd Stjórnlagaþings bakþanka þegar þetta var ákveðið? Eru menn enn svo samdauna því siðlausa peningasukki sem viðgengist hefur hjá mörgum stjórnmálamönnum sem hafa verið í framboði til Alþingis? Framboð til Stjórnlagþings er algjörlega persónulegt, eða það vona ég að minnsta kosti. Að leyfa þetta peningasukk í undirbúningi kosninga til Stjórnlagaþings er andlýðræðislegt og skekkir stórlega aðstöðu frambjóðenda. Ég persónulega á engar 2 milljónir til að leggja í framboðssukk og þó svo væri mundi ég aldrei fara að eyða peningum í framboð mitt. 

Ég ætla stoltur að lýsa því yfir að ég muni ekki eyða 1 krónu í að koma mér á framfæri og skora á undirbúningsnefnd  Stjórnlagaþings  að afturkalla þetta sukkákvæði úr reglum um kosningar til Stjórnlagaþings. Ef það verður ekki gert tel ég að ég og margir fleiri drögum framboð okkar til baka eða sumir hætti við framboð.


Hvað vakir fyir þingmönnum, sem fljótlega eftir að Stjórnlagaþing var ákveðið, fóru að koma fram með tillögur sem varða stjórnarskrána?

Mér finnst þetta nokkuð sláandi. Alþingi, sem hefur ekki getað endurskoðað Stjórnarskrána i heild frá lýðveldisstofnun er nú farið að vasast í breytingum á stjórnarskrártengdum málum. Það er vitað að aðgreining þriggja þátta stjórnkerfisins verður eitt mikilvægasta verkefni Stjórnlagaþings. Samt eru þingmenn að koma fram með tillögur um að þingmenn segi af sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar, landið verði gert að einu kjördæmi og núna síðast að setja einhverskonar reglur um persónukjör. 

Ættu ekki Alþingismenn að sýna verðandi Stjórnlagaþingi þá virðingu og það traust að slík mál verði þar tekin föstum tökum og verði í þeirri heildarendurskoðun Stjórnarskrárinnar sem að er stefnt?


Ásbjörn Óttarsson þingmaður hefur reist sér minnisvarða sem lengi mun standa

"Listamenn geta fengið sér venjulega vinnu" segir Ásbjörn og vill afnema  öll listamannalaun. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkar kröfur koma fram á Alþingi, en listamannalaun eru miklu eldri en núverandi lög um launin. Vissulega gerðist ýmislegt rammpólitískt fyrrum svo sem þegar Halldór Laxnes var sviptur þeim launum, sem Alþingi hafði samþykkt honum til handa, fyrir hið eftirminnilega ljóð "Unglingurinn i skóginum".

En nefndur Ásbjörn Óttarsson á sér nokkuð eftirminnilega sögu eftir að hann kom á þing. Hann er útgerðarmaður af Snæfellsnesi og eflaust einn af þeim sem vilja standa fast á þeim "stuldi" á auðlind sem er fiskurinn í sjónum. Að vísu var sá "stuldur" studdur lögum frá Alþingi svo það má víst heimfæra hin fleygu ummæli Vilmundar Gylfasonar um þann verknað að hann sé" löglegur en siðlaus". En eins og flestir útgerðarmenn vill Ásbjörn gera tvennt í einu; skuldsetja útgerðina upp í rjáfur en fá samt góð laun auk ríkulegs arðs út úr sömu útgerð. Eitt árið gekk ekki vel svo hann, auk launa, tók aðeins um 20 milljónir í arð og er þó hans útgerð ekki nema einn bátur. En þar skriplaði hann á skötunni, þetta ár var bókhaldslegt tap á útgerð hans og skattmann þurfti endilega að skipta sér af. Fyrirtæki sem er rekið með bókhaldslegu tapi má ekki greiða eiganda sínum arð!

Þar fór í verra, Ásbjörn einfaldlega endurgreiddi 20 milljónirnar og sagðist ekkert hafa vitað um að hann mætti ekki taka að vild peninga úr sinni eigin útgerð. En næsta árið var reksturinn með bókhaldlegan hagnað og að sjálfsögðu fór Ásbjörn í sjóði félagsins og greiddi sér arð auk launa.

Þá bætti hann sér ríflega upp 20 milljónirnar sem hann varð að skila og tók sér 60 milljónir í arð fyrir eitt ár! 

Er nokkur furða að slíkur landstólpi sjái ofsjónum yfir launum til bókabéusa, einhverra gaulara og pensilstrokumanna svo nokkrir hópar séu nefndir sem fá einhverja hungurlús frá því opinbera. Svo hefur nefndur Ásbjörn allt á hornum sér vegna Hörpunnar, tónlistarhússins  sem er að rísa við höfnina. Peningarnir, sem til þeirrar byggingar renna, væru eflaust betur komnir í umferðamiðstöð við flugvöll sem er að hverfa,  austur á peningum í 2+2 Suðurlandsveg þegar hægt er að fá jafnvel betri veg sem er 1+2 og að minnsta kosti helmingi ódýrari, eða þá að gera aðra tilraun við að byggja "nothæfa" höfn í sandi Suðurstrandar.

En hafa listamenn ekki alltaf verið til óþurftar? Það er ekki eins og listamen séu einhver nútíma uppfinning. Þessi þjóð var ekki búin að vera lengi á Íslandi þegar menn fóru að paufast við að skrifa á kálfskinn í klaustrum og kotbýlum. Hvað mörgum kálfslífum fórnaði Snorri Sturluson til að geta párað á skinnin, þá var að vísu enginn Ásbjörn uppi til að koma í veg fyrir alla kálfaslátrunina. Ef Íslendingar hefðu alla tíð verið harðir gegn allri sóun til manna og kvenna sem telja sig listamenn en ættu í staðinn að vinna ærlega vinni væri öðru vísu umhorfs. Af hverju gátu Einar Jónsson, Ásmundur og Sigurjón ekki unnið sem múrarar í staðinn fyrir að vera að búa til fígúrur sem  sem svo er dreift út um borg og bí? Og hvaða vit er í að vera að gera eitt einbýlishús í Mosfellsdalnum að safni til minningar um mann sem páraði nokkrar bækur og sigldi til Svíþjóðar til að ná sér í verðlaun sem sprengjusérfræðingurinn Nóbel stofnaði?

En til að öllu réttlæti sé fullnægt er rétt að geta þess að nefndur Ásbörn hefur beðist afsökunar á orðum sínum um listamannalaun. Ástæðan til að þau hrukku út úr honum eru alls ekki á hans ábyrgð, þau eru á ábyrgð konunnar sem í það skipti sat í forsetstóli á Alþingi. Hún hélt fast við einhver tímamörk þegar Ásbjörn lét gullkornin falla í ræðustóli og lá á því lúalagi að fara að lemja bjöllu. Hvernig átti arðþeginn af Snæfellsnesi að geta hugsað skýrt við slíkar aðstæður og truflanir?

Það er sannað að til eru menn sem geta ekki gengið eftir gangstétt og tuggið tyggigúmmí jafnframt, ráða við annaðhvort; standa kyrrir og tyggja eða ganga og tyggja ekki. Slíkir menn verða að velja sér verk sem þeir ráða við og starfsvettvang eftir hæfileikum.  

 


Svandís á að segja af sér, lögbrjótur á ekki að sitja í ráðherrastóli

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmd fyrir lögbrot. Hún neitaði að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps, ástæðan sú að Landsvirkjun hafði kostað skipulagsvinnuna að hluta. Þarna hljóp Svandís illilega á sig og það af pólitískum ástæðum. Þó hún sé á móti virkjunum í neðri Þjórsá mátti hún ekki að brjóta lög til að koma í veg fyrir það. Úrskurður hennar um aðalskipulag Flóahrepps hefur verið felldur úr gildi enda var hann lögbrot.

Svandís á að sjá sóma sinn í að biðjast lausnar sem Umhverfisráðherra

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband