Borða geitur með hníf og gaffli?

Það var ágætt viðtal við fróða konu um geitur í Ríkisútvarpinu í morgun. En því miður féll konan í þan fúla málfarspytt að tala um að skepnur borði.

Orðið að "éta" var lengi ráðandi í íslensku máli en svo fannst einhverjum það ekki nógu virðulegt orð og þá varð til orðið að "borða". Hún er dregin af borðinu sem setið er við þegar menn éta. Hins vegar lifir þetta góða gamla orð góðu lífi í norrænum málum, enn tala Svíar um að "eta" mat og skammast sín ekki fyrir.

Ég get engan veginn fellt mig við að nota orðið að "borða" um þann verknað þegar dýr éta. Pempíuhátturinn sækir á, afar sjaldan er umræða um æti fiska eða fugla, það er auðvitað miklu virðulegra að tala um að fæðu dýra.


Það er samstaða um að auðlindir Íslands skuli vera í eigu þjóðarinar

Svo hefur ekki alltaf verið en baráttan um Gullfoss opnaði augu manna fyrir því  að ekki væri alltaf hægt að meta náttúruperlur einungis með peningalegum sjónarmiðum. Ýmsir gerðust talsmenn þessara sjónarmiða, m. a. sá umdeildi en sterki stjórnmálamaður Jónas frá Hriflu. Ekki má gleyma Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir fyrir verndun Gullfoss sem var í túnfæti hennar.

Þetta ættum við að hafa í huga í fárinu sem nú stendur um kaup Magma Energiy á meirihluta á HS-orku.

Það sem við verðum að gera er að muna að AUÐLIND er eitt en NÝTING hennar annað. Margir stjórnmálmenn gera sig seka um hreinar falsanir, rugla vísvitandi saman þessu tvennu. Verra er þó að fölmiðlar eru engu betri. Það er dapurlegt að fylgjast með Fréttastofu Ríkisútvarpsins taka þátt í þessum hráskinnaleik. Þessi fjölmiðill  átti löngum mitt traust en ímynd hans hefur laskast illilega. Eina ljósið þeim bæ var oft á tíðum gagnmerkar fréttaskýringar í "SPEGLINUM" sem var á dagskrá eftir kvöldfréttir, en til þessa þáttar hefur ekki heyrst í langan tíma.

En ég segi enn og aftur: Þeir sem hæst láta um eign Magma Energi í ORKUFYRIRTÆKINU HS-orku hafa ekki sagt orð um að örfáar fjölskyldur skuli hafa sölsað undir sig eina helstu AUÐLIND Íslands, fiskinn í sjónum og réttinn til að veiða hann.

Er í lagi að allt velti á því að þeir sem sölsa undir sig AUÐLINDIR séu Íslendingar, en að allt verði vitlaust ef útlendingar leggja fram fjármagn í ORKUFYRIRTÆKI?


Dapurlega framganga Árna Páls félagsmálaráðherra þegar hann skipar Runólf Ágústson sem umboðsmann skuldara

Það var (og er vonandi enn) yfirlýst stefna núverandi Ríkisstjórnar að gera allar stjórnarathafnir gagnsæjar, ekki síst við skipanir í embætti. Því dapurlegra er að sjá Árna Pál félagsmálaráðherra skipa Runólf Ágústsson flokksbróður okkar beggja í embætti umboðsmanns skuldara. Runólfur á skrautlegan feril að baki, vann eflaust  gott verk í byrjun sem skólameistari á Bifröst en hrökklaðist að lokum úr embætti vegna brests í siðferðilegum efnum sem og stjórnunarlegum. En Runólfur var ekki einn í heiminum, hann kom að þegar góss ameríska hersins á Keflavíkurflugvelli komst í hendur Íslendinga. En því miður stundaði hann fjármálbrask eins og hver annar útrásartortúlalubbi og skilur eftir sig skuldaslóð, skuldir sem aldrei verða greiddar.

Hverskonar dómgreindarleysi er það hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að skipa Runólf Ágústsson sem umboðsmann skuldara? Ætlar Árni Páll að láta þessa skipun í embættið standa, eða getur hann e. t. v. ekki breytt neinu?

Blaðið DV hefur ekki það orð á sér að vera áreiðanlegasti fjölmiðill landsins en oft ratast kjöftugum satt á munn. DV fjallar um ráðningu Runólfs og kemst að þeirri réttu niðurstöðu að hún sé fyrir neðan allar hellur. 

Eru núverandi stjórnvöld að falla í hinn fúla pytt vinavæðingar, er það mikilvægara að vera flokksbróðir ráðherrans sem í stöðuna skipar heldur en að hafa flekklausan feril að baki?


Fréttastofa Sjónvarpsins verður sér til skammar

Fréttastofa Sjónvarpsins boðaði í yfirliti frétta að rætt yrði við Ögmund Jónasson þar sem hann krefðist þess að auðlindir landsins yrðu í þjóðareign í viðræðum um Magma málið. Ég sló því auðvitað föstu að Ögmundur ætlaði að verða það óheiðarlegur, eins og margir fleiri, að halda því fram að Magma Energy væri að kaupa auðlind með kaupum sínum á HS-orku.

En svo kom viðtalið og þá blöskraði mér óheiðarleiki fréttamanns Fréttastofu Sjónvarpsins. Ögmundur ræddi vissulega um Magma Energy en hann minntist ekki einu orði á að það fyrirtæki hefði með kaupunum eignast hlut í auðlind. Hann talaði um orkufyrirtæki og gerði þá kröfu um að slík fyrirtæki væru í íslenskri eigu, í eigu hins opinbera, að þau væru rekin sem þjóðnýtt fyrirtæki.

Ég er ákaflega ósammála Ögmundi í hans einstrengingslegu afstöðu, hann er einstrengingur í öllum málum. En það er til skammar að fréttamaður Fréttastofu Sjónvarpsins leggi mönnum orð í munn eins og það að Ögmundur hafi rætt um auðlindir þegar hann ræddi um orkufyrirtæki.


Ríkisstjórnin lyppast niður fyrir öfgaöflunum í Vinstri grænum

Það er ekki hægt að kaupa friðinn á hvað verði sem er. Allt sem kom frá blaðamannfundi Jóhönnu og Steingríms staðfesti hrollvekjandi staðreyndir. Það á að vinna að því öllum árum að ógilda kaupin síðustu á Magma Energy, jafnvel að steypa Ríkissjóði í enn meiri skuldir til að eyðileggja þessa mjög svo vel þegnu útlendu fjárfestingu. Ég hef bent rækilega á það að arður af fyrirtækjum á Íslandi í eigu útlendinga fer að sjálfsögðu að einhverjum hluta til eigendanna. En ég hef líka bent á það að fyrirtæki í orkugeiranum að fullu í eigu Íslendinga borga ekki minni arð til útlendinga í formi vaxta að lánum sem tekin hafa verið í útlöndum til að reisa virkjanir hvort sem er vatnsaflsvirkjanir eða jarðgufuvirkjanir.

Ég hef ætíð haft mikið álit á Steingrími J. Sigfússyni en hann kaupir formannssætið í Vinstri grænum og stól fjármálaráðherra því verði að láta öfgafullar skoðanir Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur verða ráðandi stefnu í málefnum Magma Energy. Hins vergar hefði ég haldið að Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin létu ekki undan í þessu máli. Þetta mál er grafalvarlegt, ekki út af eignarhaldinu í Magma Energy heldur út af framtíðinni. En öfgahópurinn í Vinstri grænum ná fram sínum villtustu og heimskulegustu áætlunum er búið að vinna slíkt skemmdarverk á endurreisn íslenskara atviknunnuvega, gegn því að nokkrir útlendur fjárfestir vilji leggja fjármuni í íslenskt atvinnulíf, fjármagn sem okkur sárvantar. Ég endurtek; það er okkur mun hagkvæmara að fá áhættufjármagn frá útlöndum sem er á ábyrgð fjármagnseigenda en að taka yfirþyrmandi lán með vöxtum sem verður að greiða og einnig að endurgreiða lánin að fullu, undan því verður ekki vikist.

Ég hlýt að endurskoða stuðning minn við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eftir þessa atburði. Það hefur verið að koma æ betur í ljós að Vinstri grænir eru ekki samstarfshæfir. Hélt lengi að Steingrímur formaður flokksins gæti ráðið þar ferðinni en því miður hefur hann verið kúgaður til hlýðni af öfgaöflum flokksins.

Og það sem er ennþá verra; Samfylkingin hefur einnig lyppast niður og keypt áframhaldandi líf Ríkisstjórnarinnar með því að láta undan öfgaöflunum í VG. 

Er þetta það sem koma skal, á að kaupa líf Ríkisstjórnarinnar hvaða verði sem er? Það er búið að rétta öfgaöflunum litla puttann, það verður ekki langt þar til þau taka höndina alla.

Það er skynsamlegra að draga að sér höndina og láta öfgaöfl Vinstri grænna sigla sin  sjó.


Skora á alla, meira að segja Vinstri græna, að ræða Magma málið og og fyrirkomulag orkuvinnslu á Íslandi af skynsemi

Ég held að það væri hollt fyrir alla að fara inn á

askja.blog.is

þar sem Ketill Sigurjónsson bloggar undir fyrirsögninni "Um eignarhald og arðsemi". Mér finnst Ketill komast þar vel að kjarna málsins og sýna fram á hvað innihaldslausar upphrópanir hafa verið í gangi í Magma málinu.

Eitt ætla ég að koma inn á og það er röksemd Vinstri grænna, Bjarkar og fleiri að fyrirtækið Magma Energy verði að vara í Íslenskri eigu til að við töpum ekki af þeim ágóða sem af rekstri fyrirtækisins verður vonandi.

Það er vissulega góðra gjalda vert að vilja halda arðinum í landinu en er það tryggt með því að hið opinbera eigi fyrirtækin?

Hve mikill hluti af arðinum af rekstri Landsvirkjunar hefur orðið eftir í landinu, 100% eða hvað? Nei aldeilis ekki, stór hluti af arði Landvirkjunar hefur runnið úr landi sem vextir af þeim gífurlegu lánum sem Landsvirkjun hefur orðið að taka hjá útlendum bönkum til að byggja sínar virkjanir.

Hafa Vinstri grænir aldrei leitt hugann að þessari staðreynd?

Útlent fjármagn sem fjárfesting eða útlent fjármagn sem lánsfé; hvoru tveggja mun taka til sín fjármuni sem fara úr landi, annarsvegar sem arður til fjármagnseigenda, hinsvegar sem vextir til banka og fjármálafyritækja. 


Ruglið í loftslagsmálum heldur áfram

Fyrir nokkrum árum stofnuðu tveir ungir menn upplýsingasíðu, Loftslag.is. Þetta leist mér ljómandi á, þarna fóru menn sem virkilega lögðu sig eftir fræðunum að mér fannst. En Adam var ekki lengi í Paradís, þessir tveir ungu menn eru gjörsamlega heilaþvegnir af þessum áróðri frá ICPP, loftslagsnefnd Sameinuð þjóðanna og þeim hátt launuðu vísindamönnum sem starfa fyrir þá nefnd, aðallega við háskóla í hinum vestræna heimi. Þessi fræði ganga út á það að maðurinn með gjörðum sínum og kolefnisbruna sé að hækka hita jarðarinnar þannig að stór vá sé framundan.

Í bloggi þeirra núna stendur þetta:

Á komandi áratugum mun hitastig halda áfram að aukast, eins og flestir virðast vera búnir að átta sig á. En hverjar verða afleiðingarnar af hnattrænni hitastigshækkun upp á 4°C

Hver er þess umkomin að segja fyrir um slíkt?

Ekki nokkur einasti maður, við vitum tæpast hvað gerist á næsta ári og fjölmargir vísindamenn haf talið meiri hættu á því eftir tvo ártugi að hiti í heiminum fari fallandi, jafnvel að "lítil ísöld" sé þá í uppsiglingu, reikna þetta eftir háttum sólar. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir að það var hart í ári á síðustu litlu ísöld en hiti í heiminum hóf að falla eftir árið 1300 og á 17. og 18. öld voru mikil harðindi ekki síst á Íslandi.

Og takið nú eftir: Hnattræn hlýnun hefur engin orðið á þessum fyrsta áratug 21. aldar, eða frá árinu 2000.  Síðustu 150 árin hefur hnattræn hlýnun aðeins verið 0,6°C.

Hver getur fullyrt um framtíðina? Eru þessir ungu menn á Loftslag.is reiðubúnir til að segja okkur  hvenær Katla muni gjósa, eða Hekla eða hve langt er í að Eyjafjallajökull muni gjósa aftur. Þeir geta alveg eins sagt okkur fyrir um slíka atburði eins og að fullyrða að það muni hlýna hnattrænt um heilar 4°C á  næstu áratugum.


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um vexti afmyntkörfulánum er Salómonsdómur og réttsýnn gagnnvart lántakendum

Dómurinn sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur um vexti af myntkörfulánum, sem dæmd hafa verið ógild, er mjög réttsýnn  gagnvart lántakendum. Ef höfuðstóll lánanna er færður niður um tugi prósenta hvernig í ósköpunum er hægt að fara fram á að vaxtaprósentan sé áfram sú sama? Líklega yrðu þá komin fram hagstæðustu lán sem nokkru sinni hafa verið til á Íslandi frá því verðtrygging var tekin upp, lán sem bera neikvæða vexti og eru ekki í samræmi við nein önnur lánaform hérlendis.

Ég sé ekki annað en að Hæstiréttur muni mjög bráðlega staðfesta dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, óbreyttir vextir af þessum lánum koma ekki til greina en þarna er farin mjög væg leið gagnvart skuldurum.


Er ekki ógerningur að standa áfram í kattasmölun?

Verkefni núverandi Ríkisstjórnar eru hrikaleg, þessari stjórn er ætlað að reisa landið úr þeim rústum sem Framsóknarflokkur og ekki síður Sjálfstæðisflokkur komu komu landi og þjóð í. Til að það sé mögulegt þarf sterka og samstillta Ríkisstjórn sem hefur afl til að standa að hörðum og jafnvel sársaukafullum aðgerðum. Forystumen Ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafa verið brimbrjótar stjórnarinnar.

En nú eru veður öll válynd á stjórnarheimilinu, þeim veðrum ræður órólega deildin í Vinstri grænum. Ég er í Samfylkingunni og hef ætíð stutt Ríkisstjórnina. En nú er svo komið að ég sé ekki að stjórnin geti setið mikið lengur. Stjórn sem á líf sitt undir Guðríði Lilju Grétarsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Ásmundi Daða Einarssyni og Ögmundi Jónassyni getur tæplega verið starfhæf til lengri tíma. Þessi hópur svífst einskis til að koma höggi á stjórnina og nú virðist vera að sverfa til stáls í Magma Energy málinu. Ríkisstjórn sem hefur jafn sundurleitan flokk á bak við sig og Vinstri græna ræður ekki við þau gífurlega mikilvægu mál sem stjórnin verður að glíma við. Þessi ríkisstjórn má ekki falla í sömu gryfju og stjórn Gunnars Thoroddsen, að sitja sem fastast en hafa þó ekkert afl til að koma fram nauðsynlegum og aðkallandi málum áfram.

En hvað tekur þá við?

Svo einkennilega vill til að flokkarnir sem hruninu ollu, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, hafa ekki sýnt neinar tilhneigingar í þá átt að vilja taka við stjórnartaumunum, frekar að vera óábyrg stjórnarandstaða. Þessir tveir flokkar hafa reyndar ekki afl til að mynda meirihlutastjórn og yrðu því að finna víðari samstarfsvettvang.

Aðeins eitt er víst; ef óábyrga hávaðfólkið í Vinstri grænum tekst að fella Ríkisstjórnina og fella Samfylkinguna frá því að vera í forystu,  þá mun Samfylkingin  ekki taka þátt í  myndun nýrrar Ríkisstjórnar

Þá hljóta þeir sem stjórnina fella og þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu að mynda nýja Ríkisstjórn, þá yrði mynduð samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins. Hvoru megin hryggjar Hreyfingin liggur skiptir engu máli. Þá yrðu þessir gömlu hrunflokkar S+F að beygja sig undir þá meginkröfu að ógilda kaupsamninginn á Magma Energy með illu eða góðu, löglega eða ólöglega. Annað ættu þessir flokkar auðvelt með að sporðrenna. Aðildarumsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði dregin til baka, slegin skjaldborg um íslensku krónuna með öllum ráðum og margskonar höftum, gjaldeyrishöftin verða föst næsu árin. Vinstri grænir munu eflaust feta í fótspor Ungverja og krefjast þess að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verið slitið, því yrði sporðrent af hinum flokkunum, algjörlega neitað að greiða ICESAVE, framundan þar illvíg og langvinn málferli með gífurlegum fjárútlátum Íslands.

Um þetta ættu Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir að eiga auðvelt með að ná saman, þar mun andi ritstjóra Morgublaðsins svífa yfir vötnum. Þar með hefur íhaldsdeildin í Vinstri grænum náð því sem hún stefnir að, ómeðvitað ef til vill, að ná saman við íhalds- og þjóðernisstefnuna frá Hádegismóum í Sjálfstæðisflokknum.

Eina sem kynni að vera óljóst er hvernig mun Framsóknarflokkurinn taka á málun við myndun þessarar Ríkisstjórnar?

Það er svo furðulegt sem það er að í dag veit enginn hver í rauninni stefna Framsóknarflokksins er, það verður því að byggja á því sem formaður Framsóknarflokksins sagði áður en hann missti málið. Miðað við það ættu þessir þrír flokkar að ná saman og stofna Rikisstjórn á þeim málefnagrundvelli sem að framan var rakinn.

Rennur engum kalt vatn milli skins og hörunds?


Auglýsingar Símans eru fyrirtækinu til skammar

Einhverjar ógeðfelldustu auglýsingar sem dynja framan í okkur í Sjónvarpinu eru frá Símanum, fyrirtæki sem á að vera eitt af símafyrirtækjum á samkeppnismarkaði en hefur greinilega slíka velvild stjórnvalda að geta haldið landsmönnum í gíslingu. En aftur að auglýsingum Símans. Þar birtast mest aular sem eru gerðir sem ógeðslegastir, ýmist slefandi eða gubbandi og svo er ekki hikað við að klæmast á íslensku máli og ekki virðist  málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafa neitt við þetta að athuga.

Sem sauðþrár stuðningsmaður Ríkisútvarsins (ég segi sauðþrár því stundum vildi maður helst geta lokað endanlega fyrir það sem frá Ríkisútvarpinu kemur) þá geri ég þá kröfu að tekið sé til hendi til lagfæringar á auglýsingastofu stofnunarinnar til þess að ýmiskonar viðbjóður, eins og auglýsingar Símans, þurfi ekki að dynja á þeim sem ennþá horfa á dagskrá Sjónvarpsins.

Ég sagði að framan að greinilega nýtur Síminn sérstakrar vildar stjórnvalda og Samkeppniseftirlits. Allt byrjaði þetta með einkavæðingunni. Þá vildu margir fara þá leið að skilja grunnnetið frá sölunni, grunnnetinu sem öll síma- og fjarskiptafyrirtæki þurfa að hafa aðgang að. En það vildu stjórnvöld ekki hlusta á enda var þetta á Davíðs/Halldórs tímanum.

Ég ákvað eftir að fjarskipti voru gefin frjáls að færa mig frá Símanum eftir ótrúlega framkomu fyrirtækisins. Nýr sími keyptur hjá n fékk ekki samband þegar hann var settur í hleðslu, Fór með hann á verkstæði Símans í Ármúla og eftir viku og mörg símtöl var mér sagt að nú mætti ég sækja gripinn. Ég skundaði á staðinn og síminn var lagður á borði, þakkaði fyrir og ætlaði að halda á brott. En ekki aldeilis, síminn gripinn og fyrir mig lagður reikningur sem ég skyldi borga! En síminn er nýr, hann er í ábyrgð? Nei hún gildir ekki, þú hlýtur að hafa set snúruna þjösnalega í samband, lóðning hafði gefið sig. Ég neitaði að borga. Þá var mér tilkynnt að þar með yrði síminn tekin í gíslingu og ekki afhentur fyrr en ég borgaði viðgerðina.

Hverra kosta átti ég völ? Ég borgaði og ákvað á stundinni að hætta öllum viðskiptum við Símann, það væru fleiri kostir til og flutti mig yfir til Vódafón.

En þar fór ég villur vegar, það losnar enginn við Símann og öll árin síðan fæ ég að sjálfsögðu reikninga frá Vódafón en mér til mikillar furðu einnig frá Símanum. Því fyrirtæki þarf ég að borga nær 2.000 kr mánaðarlega fyrir eitthvað sem Síminn kallar "Þjónustu vegna heimasíma" og þegar ég fékk mér síma með númerabirtingu hélt ég að ég gæti fengið það skráð hjá Vódafon. Nei, þar var mér sagt að ég yrði að leita til Símans, þetta væri hans einkasvið.

Og allar götur síðan borga ég Símanum mánaðargreiðslu kr. 99 fyrir númerabirtingu. Stundum læðist inn kostnaður á reikningum Símans  "símtöl innanlands", "símtöl í upplýsingaveitur" og"símtöl í þjónustunúmer". Svo skulum við ekki gleyma Símaskránni sem gefin er út árlega af Símanum með kostnaði fyrir alla sem símanúmer hafa á Íslandi, burtséð við hvað fjarskiptatfyrirtæki þeir skipta við.

Er þetta hin frjálsa samkeppni í því landi Íslandi á 21. öld?


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Júlí 2010
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband