Aðeins um tvennt að velja í ICESAVE málinu skelflega

Hverjir eru þessir tveir kostir?

1. Samþykkja fyrirliggjandi samning.

2. Samþykkja ekki fyrirliggjandi samning og vísa þar með málinu inn á dómstólaleiðina.

Margir lögfróðir menn halda því stíft fram að Íslendingum beri ekki að greiða nokkurn skapaðan hlut vegna ICESAVE. Ekki er ég nægilega lögfróður til að gata gert mér grein fyrir ábyrgð okkar á greiðslu eða ekki. En eitt er víst, það ólánsfyrirtæki gamli Landsbankinn fór með ryksugu um Holland og Bretland til að hafa sparifé út úr auðtrúa sálum. Nú eru allar líkur á að þær eignir sem til eru í þrotabúi gamla Landsbankans fari langleiðina til að greiða skuldina. Ekki getur nokkur maður efast um að þar er um réttláta kröfu að ræða, ICESAVE skuldin mun greiðast að mestu leyti með eignum gamla Landsbankans, þar er um forgangskröfu að ræða.

En eitthvað stendur út af og þar kemur til kasta Ríkissjóðs að standa skil á því, líklega nær 50 milljörðum króna sem að sjálfsögðu verður að greiðast í evrum og pundum. Þar í liggur nokkur gengisáhætta, tæplega mun gengi íslensku krónunnar styrkjast næstu árin, hættan á falli er meiri.

Hvað gæti gerst ef samningum um ICESAVE verður hafnað (annaðhvort af þingi eða þjóð)?

Það er möguleiki á að gjaldskylda íslenska ríkisins verði dæmd okkur í vil, Ríkissjóði beri ekki að greiða umfram það litla sem er í Tryggingarsjóði fjármálafyrirtækja.

En hættan leynist bak við hornið. Íslenska ríkið ábyrgðist sparifé í íslenskum bönkum en aðeins á Íslandi, ekki í útlöndum. Þar er ekki um þjóðernislega mismunun að ræða heldur landfræðilega. Útlendingar sem kunna að hafa átt sparifé í íslenskum bönkum á Íslandi njóta tryggingar, en Íslendingar  sem eiga sparifé í íslenskum bönkum í útlöndum njóta ekki tryggingar.

Það er mikil hætta á að þessi mismunun verði dæmd ólögleg og þá er ekki aðeins um lágmarkstryggingu á sparifé að ræða heldur 100% ábyrgð. En slíkur dómur skellur á íslenska ríkinu eru dökkir dagar framundan í íslenskum fjármálaheimi, mundum við standa undir slíkum dómi?

Það er ákaflega léttvægt að hrópa borgum ekki, borgum ekki. Hver og einn Íslendingur verður að skoða ICESAVE málið vandlega, allir verða að gera sér grein fyrir hvað það getur kostað að samþykkja fyrirliggjandi samning til lausnar deilunni, en ekki síður hver áhættan er að hafna honum.

Ég hef komist að niðurstöðu; ég tel að Alþingi eigi að samþykkja samninginn. Þar skora ég á stjórnarandstöðuna að vinna af heilindum og ábyrgð, það er full ástæða til að hafa grun um að hún (eða hluti hennar) ætli að nota þetta grafalvarlega mál í pólitískum hráskinnaleik.

Ef málið fer í þjóðaratkvæði mun ég greiða atkvæði með samþykkt þess samnings sem nú liggur fyrir til lausnar ICESAVE deilunni. Að láta það fara dómstólaleiðina er yfirþyrmandi áhætta, það gæti endað með ósköpum. 

 

 


Söm er þeirra gjörðin stórveldanna tveggja, Kína g Bandaríkjanna

Friðarverðlaun Nóbels voru að venju afhent í Osló 10. des. Að vísu ætti að vera búiðað nefna þessi verðlaun nýju nafni, þau eru miklu fremur frelsisverðlaun en friðarverðlaun. Í ár var reisn yfir norsku Nóbelsverðlaunanefndinni undir forystu Thorbjörn Jagland, meiri reisn en árið 2009 þegar nefndin sleikti sig upp við Obama bandaríkjaforseta öllum til undrunar, ekki síst Obama sjálfum.

Nú var það kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo sem verðlaunin hlaut, maður sem nú situr í fangelsi einhversstaðar í Kína fyrir að hafa barist fyrir pólitísku frelsi í sínu stóra heimalandi. Kínversk stjórnvöld eru æf yfir verðlaunaveitingunni og höfðu í hótunum gegn öllum þeim ríkjum sem voguðu sér að senda fulltrúa á verðlaunaafhendinguna, sem betur fer hundsuðu flestar ríkisstjórnir þessar hótanir, það gerðum við hérlendis einnig.

Einhvern tíma mun sú stund renna upp vonandi að Liu Xiaobo fái uppreisn æru og auði stóllin með verðlaunaskjalinu verði Kínverjum til ævarandi skammar. Sú stund rennur upp vonandi sem fyrst að Liu Xiaobo fái að sýna sömu reisn í sínu ættlandi og Selson Mandela í Suður-Afríku. Það tókst að knésetja það alræðisríki og frelsa Nelson Mandela úr 29 ára prísund. En nú upplifum við að það er verið að kyrkja þjóð, þjóð Palestínumanna. Sú þjóð er eins og fugl sem óargadýrið Ísrael heldur kverkataki á og er hægt og bítandi að kvelja úr líftóruna. Ekki er annað að sjá en fasistaríkinu muni takast sitt ætlunarverk.

En það eru ekki aðeins meintir íslamskir hryðjuverkamenn sem Bandaríska leyniþjónustan lætur leita uppi til að myrða. Bandríkjamenn hafa fengið nýjan óvin, vefinn Wikileaks og þó sérdeilis aðalhöfund síðunnar og stjórnanda, Julian Assange. Flestir eru sammála um það, sem skoða mál af sanngirni, að á Wikileaks hafi aðeins birst sérdeilis krassandi upplýsingar, aðallega frá stjórnsýslu Bandríkjanna, ekki síst frá sendiráðum stórveldisins. Enginn sakar Wikileaks fyrir að hafa brotist inn og stolið gögnum, einhverjir innanbúðarmenn í stjórnsýslu stórveldisins ofbýður margt sem þar gerist og vilja koma því fyrir sjónir almennings. Stjórnendur Wikileaks, hvort sem þeir heita Júlían eða Hrafn hafa engin lög brotið. Samt hefur málmetandi fólk (ef þannig má til orða taka) krafist þess að hryðjuverkamorðingjar verði sendir út af örkinni og linni ekki ferðinni fyrr en Julian AssAssange hefur af lífi verið tekinn. Þar fer fremst í flokki fyrrum frambjóðandi til varaforsetaembættis Bandaríkjanna, repubikaninn Sara Palin og marga fleiri má þar nefna.

Hjá þessum stórveldum er krafan sú sama og aðferðirnar þær sömu. Einstaklingar sem lýsa sannfæringu sinni eða koma óþægilegum upplýsingum á framfæri til almenning, svo sem myndbandi af því þegar þyrluhermenn bandarískir strádrepa saklausa borgara í Bagdad, skulu réttdræpir. Þó eru Kínverjar ögn skárri, þeir láta fangelsin nægja sem er þó nógu  viðbjóðslegt til að hefta skoðanafrelsið en Bandríkjamenn vilja gera út leigumorðingja sína til að drepa þá sem setja óþægilegar upplýsingar á netið.

Söm er þeirra gjörðin stórveldanna tveggja, Kína g Bandaríkjanna!


Þjóðin ætti að taka sér Reyni Pétur sem fyrirmynd og líta bjartari augum á framtíðina

Það var einstök mynd sem við fengum að sjá í Sjónvarpinu þar sem bjartsýnismaðurinn  Reynir Pétur á Sólheimum birtist. Óneitanlega hvarflaði hugurinn að andstæðunni, sumum bloggurum sem aldrei sjá annað en dauðann og djöfulinn í hverju skoti og velta sér endalaust upp úr svartsýni og hlutdrægni

Reynir Pétur varð þjóðþekktur þegar hann gekk hringveginn fyrir 25 árum, það var svo sannarlega ástæða til að rifja það afrek upp því nú er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem var ófædd eða nýfædd þegar gangan mikla var farin. Reynir Pétur á að varða veginn fyrir þjóðina og kenna henni að leggja bölmóðinn alfarið niður og eigna sér bjartari framtíðarsýn.

Ég finn að nú byrja svartagallsrausararnir að segja "það er allt að fara norður og niður, það gerist ekkert jákvætt".

Er það svo?

Lítum á nokkur jákvæð atriði:


Stýrivextir lækkaðir um eitt prósentustig - eru nú 4.5%, það er ekki langt síðan þeir voru 18%?

Laun hækkuðu um 2,0% frá fyrri ársfjórðungi

New York Times: Iceland Emerged From Recession in 3rd Quarter

1,2% hagvöxtur á milli ársfjórðunga

Einkaneysla jókst um 3,8% á þriðja ársfjórðungi

Vöruskiptin hagstæð um 10,4 milljarða í nóvember

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins ekki betri í áratugi

Ríkistjórnin bætir við sig um 6%  skv. þjóðarpúlsi Capacent, 36% styðja rikisstjórnina

Atvinnuleitendur fá desemberuppbót

Landinn orðinn léttari í lundu - væntingavísitala hækkar um helming

Vöruskiptajöfnuður hagstæðari í ár en í fyrra 

Aflaverðmæti jókst um 14 milljarða 


Ráðstafir Ríkisstjórnar og fjármálfyrirtækja vegna skulda heimilanna fara fyrir brjóstið á öfgasinnuðum bloggurum og ákveðnum öflum í þjóðfélaginu

Það samkomulag sem gert var ætti að sýna öllum að það var ekki létt verk að ná saman þeim sem þar þurftu að koma að. Vissulega er búið að gera margt í bönkunum til að koma til móts við þá sem eru illa komnir vegna Hrunsins og afleiðingunum af falli krónunnar. En sá punktur sem settur var í gær var bráðnauðsynlegur  vegna þess að það hefur verið mikil tregða hjá þeim sem illa eru staddir til að leita sér aðstoðar; þar kemur til hávær yfirboð ákveðinna afla í þjóðfélaginu sem Guðmundur Guðmundsson formaður Rafiðnaðarsambandsins lýsti vel í Kastljósinu þegar Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar hélt enn eina ruglingsræðu um hvernig ætti að bjarga öllum, því miður verður það aldrei hægt. En þeir sem barist hafa við skuldabaggann hafa látið glepjast af þessum fagurgala og þess vegna haldið að sér höndum í von um eitthvað miklu, miklu betra sem aldrei var nema tálsýn.

En það er fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum ýmissa einstaklinga svo sem bloggaranna sem alltaf eru "fúlir á móti". En ég nenni ekki að eltast við þá enda eru þar þó nokkur hópur sem ekki er hægt að eiga orðastað við.

En viðbrögð stjórnarandstöðunnar voru því athyglisverðari og þar vil ég fyrst nefna Bjarna Benediktsson og flokk hans, Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ekki ólíklegt að Bjarna hafi brugðið illilega þegar hann sá að stjórnarandstaðan hafði í skoðanakönum 16% traust þjóðarinnar og þar í hlýtur hlutur stærsta stjórnarandstöðufokksins, Sjálfstæðisflokksins, að vega þungt. Oftast hefur stjórnarandstaðan talað einni röddu, verið á móti öllu og rakkað allt niður sem frá Ríkisstjórninni hefur komið. Það skyldi þó ekki vera að augu Bjarna hafi opnast og hann séð það skýrt að þessi ómálefnalega og einskisnýta þjösnabarátta stjórnarandstöðunnar gengur ekki lengur. Bjarni stökk frá borði stjórnarandstöðunnar í gær og virtist vera að sjá að málefnaleg umræða um mál, hvaðan sem þau koma, er það sem almenningur vill sjá og heyra. Bjarni hefur sem sagt skyndilega skilið að fólk er ekki fífl sem láta bjóða sér hvað sem er. Ekki ólíklegt að þetta verði örlítill plús eftirleiðis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

En Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins er samur við sig, þó mátti sjá að öryggi hrópandans fúll á móti var ekki það sama óg áður Þegar hann kom fram í Kastljósi. Auðvitað þurfti hann að tæta gerðir Ríkistjórnarinnar í sig en gat þó ekki annað en verið örlítið jákvæður.

En svo komum við að ósköpunum sem kallast Hreyfingin og átti að vera hin mikla endurnýjun, komin fram eftir ákalli fólksins eins og þeir segja. Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar leyfir sér í Fréttablaðinu í dag að segja að þær ráðstafanir sem kynntar voru í gær væru "Ölmusupólitík og aumingjavæðing". Er Margrét með þessu að segja að öll þau heimili sem fá hjálp, líklega 60.000 heimili og þeir sem þar búa, séu ölmusufólk og aumingjar, liggur það ekki í hennar orðum? Það er litlu við að bæta eftir þá hirtingu sem Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar fékk hjá Guðmundi Gunnarssyni í Kastljósi. Þór hefur aldrei svo ég hafi orðið var við annað gert en vera á móti öllu og rakkað allt niður sem fá Ríkisstjórninni kemur, hann er fyrir löngu búinn að gera sig að slíkum ómerkingi að á hann verður ekki hlustað meir. Það dapurlegast er samt að grasrótarhreyfing eins og Hagsmunasamtök heimilanna, sem hefur alla tíð predikað þá vitlausu leið flatan niðurskurð, hefur alla tíð njörvað sig við Hreyfinguna eins og þar fari deild í þeim ólukkuflokki. 

Mér varð það á í síðasta pistli að fara rangt með föðurnafn Halldórs Ásgrímssonar, sagði hann Ingólfsson. En einhverjir kunna að hafa tekið þetta sem styttingu og samsetningu nafnanna Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson. Það finnst mér hið besta mál, samhentari menn voru tæpast til þegar hinum feysknu stoðum Hrunsins var hróflað upp, þar unnu þeir sem ein persóna. 


Kvikmynd Gunnars Sigurðssonar um Hrunið var geysilega góð og hlýtur að hafa hrisst upp í mörgum.

Sjónvarpið sýndi mynd Gunnars sunnudagskvöldið síðasta, daginn eftir kosningarnar til Stjórnlagaþings. Ég hefði gjarnan viljað fá þessa mynd á Skjáinn svo sem viku fyrir kosningar. Ég er ekki frá því að það hefði orðið til þess að adrenalínið hefði aukist hjá mörgum, það hefði jafnvel geta orðið til þess að fleiri hefðu komið á kjörstað og kosið til Stjórnlagaþings. Gunnar rekur í mynd sinni vel aðdragandann að Hruninu, þennan aðdraganda sem á einhvern furðulegan hátt hefur tekist að svæfa. Skammtímaminni manna virðist vera með eindæmum lélegt. Grein eftir grein, blogg eftir blogg kemur þetta minnisleysi mjög sterkt fram. Hrunið er skráð á þær Ríkisstjórnir sem sátu við völd þegar Hrunið varð og þær sem hafa barist við afleiðingar þess. Hvergi er minnst á gerendurna.

Miðað við framlag Sjónvarpsins fyrir kosningarnar til Stjórnlagaþings kæmi mér ekki á óvart þó það hafi verið yfirveguð ákvörðun stjórnenda RÚV að sýna ekki mynd Gunnars fyrr en EFTIR kosningarnar. Svo rækilega tók Sjónvarpið sér stöðu við hlið Morgunblaðsins að hundsa kosningarnar og kynna þær í engu.

En aftur að skammtímaminni okkar borgara þessa lands. Það hefur tekist að festa nafnið "Hrunstjórn" við Ríkisstjórn Geir Haarde, Þingvallastjórnina sem tók við stjórnartaumunum á miðju ári 2007. Þetta er stórmerkilegt hvernig tekist hefur að kenna þeim sem voru með stjórnartaumana eftir að skaðinn var skeður en enginn svo mikið sem nefnir þá sem byggðu upp Hrunið. Man enginn lengur eftir spillingunni og sukkinu við sölu ríkisbankanna? Man enginn eftir því að Björgólfsfeðgar fengu Landsbankann á spottprís og með öllu því listasafni sem þar var innanstokks, það "gleymdist" víst að minnast á þau verðmæti! Það "gleymdist" víst einnig að aflétta ríkisábyrgð af fjárskuldbindingum sem fóru frá ríkisbanka til einkabanka. Hefur fólk ekki tekið eftir því að nú er Ríkisjóður að blæða tvöfaldri þeirri upphæð sem feðgarnir borguðu fyrir bankann , tæplega 12 milljarðar, nú skal Ríkissjóður standa skil á 24 milljörðum vegna ábyrgða.

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Búnaðarbankinn fór til alikálfa Framsóknarflokksins Finns Ingólfssonar, Ólafs i Samskipum og fleiri. Og með hverju borguðu þeir bankann? Með fjármunum sem þeir höfðu komist yfir frá Samvinnutryggingum sem reyndar áttu að renna til  viðskiptavina  félagsins í hlutfalli við fyrri viðskipti. 

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Hvers vegna vildi ég að Sjónvarpið hefði sýnt mynd Gunnars viku fyrir en ekki daginn eftir kosninga?

Vegna þess að þá hefðu eflaust margir risið upp úr hægindi sínu og sagt: Ég kýs til Stjórnlagaþings því þar byrjum við að leggja grundvöllinn að nýju Íslandi, við getum ekki leyft að spilltir stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson og Halldór Ingólfsson, arkitektar Hrunsins mikla, fái aftur að leika lausum hala og eyðileggja okkar þjóðfélag. Okkur ber skylda til þess að vernda börnin okkar fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem ekki aðeins eyðilögðu þjóðfélagið, innleiddu siðleysi á hæsta stigi heldur skuldbundu þeir Ísland til að fylgja ofstækisfullum og yfirrugluðum forseta Bandaríkjanna í verst glæp síðari ára, Íraksstríðið.

Mér hefur að framan orðið tíðrætt um sölu bankanna og þá spillingu sem þar ríkti. Sala bankanna er hluti af því sem Hruninu olli, þar kom vissuleg margt fleira til en bankasalan var þar mikill áhrifavaldur.


Þjóðin fékk gullið tækifæri en brást lýðræðisskyldu sinni að miklu leyti

Þá liggja úrslit kosninganna til Stjórnlagaþings fyrir og nú vitum við hvaða 25 einstaklingar voru valdir. Þar fóru kjósendur eftir frægð manna að mestu leyti og það er ekki út í hött að segja að Egill Helgason geti vel við unað; meirihluti þeirra sem náðu kjöri hafa verið tíðir gestir í Silfri Egils. Ég er einn af þeim 497 sem ekki náðum kjöri og ekki annað að gera en sætta sig við það, bjóst reyndar ekki við að að ég yrði fulltrúi á Stjórnlagþingi, til Þess væri ég ekki nægilega þekktur og hef reyndar aldrei komið í Silfur Egils.

Undirbúningur og úrslit hafa verið nokkuð umdeild eins og við mátti búast. Sumir telja að undirbúningstími hafi verið of stuttur, því er ég algjörlega ósammála, hvers vegna þurfti lengri tíma? Það skýtur nokkuð skökku við hvað margir buðu sig fram og svo þessi dræma þátttaka í kosningunum. Landsbyggðarmenn (ég tilheyri þeim) emja um að aðeins 3 fulltrúar séu af landsbyggðinni og hver ber ábyrgð á því? Landsbyggðarmenn sjálfir og engir aðrir sem notuðu atkvæðisrétt sinn mun verr en íbúar á höfuðborgarsvæðisins. Alverst var þátttakan á mínu heimasvæði, Suðurkjördæmi, þar sem hún náði  aðeins 29,2% enda náði enginn frambjóðandi af svæðinu, og þeir voru ekki margir, kjöri.

En hér að framan skrifaði ég grein um fjórða valdið, fjölmiðlana og komst að þeirri niðurstöðu að þar sé ástandið SKELFILEGT. Ég fékk svo sannarlega sönnun á þessu sterka orði; SKELFILEGT, í aðdraganda Stjórnlagaþings. Morgunblaðið sannaði endanlega að ritstjórnarstefna þess er lituð af annarlegri pólitík, þar situr við stjórnvölinn gamall, uppgefinn og vonsvikinn maður sem hefur þó slíkt hreðjatak á sínum gamla flokki, Sjálfstæðisflokknum, að undrum sætir. Lengi vel var skrifað um kosningarnar til Stjórnlagaþings með háði og spotti, allt að því illgirni, en þegar nær dró fóru fleiri og fleiri Sjálfstæðismenn að vinna gegn kosningaþátttöku. Svo eru þeir grjóthissa á því að, eftir þeirra eigin áliti, eingöngu vinstrimenn hafi náð kjöri sem reyndar er tóm vitleysa og sýnir að þeir eru sárir og reiðir yfir að hafa en einu sinni hlýtt fyrirmælunum frá Hádegismóum.

Það mætti halda að Sjónvarpið væri gengið í Sjálfstæðisflokkinn ef miðað er við framlag þess til kosninganna til Stjórnlagaþings. Svo virðist sem þar sé einnig unnið eftir línunni frá Hádegismóum. Engin kynning á kosningunum eða frambjóðendum og þótt þungt væri lagst á Sigmar stjórnanda Kastljóss að helga síðasta Kastljósinu fyrir kosningar Stjórnlagaþinginu haggaðist hann hvergi; sá Kastljósþáttur fjallaði eingöngu um meint kvennamál Gunnars í krossinum.

Sá prentmiðill sem stóð sig best var tvímælalaust DV. Frammistaða prentmiðla vekur enn og aftur upp þá nöturlegu staðreynd að þessi tvö dagblöð sem gefin eru út á Íslandi eru í höndum og eigu harðsoðinna sérhagsmunaklíkna. Eina ljósið framundan er að báðir eru þessi blöð, Fréttablaðið og Morgunblaðið, á fjárhagslegri heljarþröm og því fyrr sem þau fara fram af brúninni, því meiri möguleiki er að hér verði til heilbrigð dagblöð en ekki dagblöð sem eru leppar eigenda sinna.

"Þjóðin hefur talðað" æptu menn gjarnan á Austurvelli og börðu tunnur af öllum mætti "Viðheimtum kosningar og beint lýðræði" var einnig æpt um leið og eggjunum var kastað.

Þjóðin fékk kosningar og beint lýðræði. 

En þá nennti meirihluti kjósenda ekki á kjörstað, nennti ekki að taka þátt í lýðræðinu.

Ætla menn svo áfram að æpa og öskra "valdið til fólksins"!!!


Lokaorð vegna Stjórnlagaþings

Aðeins tveir dagar til kjördags þegar við öll fáum það einstaka tækifæri til að kjósa beint 25 fulltrúa sem fá það hlutverk að rita nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Öruggt að við þessi eldri fáum ekki slíkt tækifæri aftur, jafnvel ekki sú kynslóð sem hefur kosningarétt í dag.

Fyrir það fyrsta þá bendi ég þeim sem vilja enn kynna sér svolítinn boðskap og hvatningu frá okkur frambjóðendum að fara á:

kjostu.org

Þar eru góðar leiðbeiningar fyrir þá sem enn eru ekki alfarið búnir að  átta sig á því hvernig á að kjósa og hvatning frá okkur frambjóðendum til ykkar kjósenda til að koma á kjörstað og taka þátt í þessu einstaka tækifæri.

Til ykkar ágætu meðframbjóðendur

Hvatningarhópur frambjóðenda er okkar sameiginlega átak til að upplýsa kjósendur og hvetja þá til að kjósa, það er okkar hagur sem erum í framboði og landsmanna allra.

En við vissum alltaf það þyrfti að kosta einhverju til og því var búist við að hver og einn frambjóðandi legði fram nokkra upphæð, segjum 5.000 kr. inn á þessa bankaslóð; 

526 - 14 - 402711 - kt. 440902-2270

Ef framlög verða umfram kostnað rennur mismunurinn til góðgerðarmála.

Að svo mæltu þakka ég fyrir skemmtilega kosningabaráttu ,

Sigurður Grétar Guðmundsson 4976

 


Hvað með málskotsréttinn?

Yfirleitt eru flestir að ræða um Forsetann þegar málskotsrétt ber á góma, þar er jafanan rætt um þann rétt hans, sem enginn hefur beitt nema núverandi Forseti, að skjóta málum til úrskurðar þjóarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En ég er enn svilítið óákveðinn í hvort við ætlum að hafa Foreta eða ekki, en ef hann verður einn af hornsteinum stjórnskipunar landsins þá tel ég að hann eigi að hafa málskotsrétt.
En það eiga fleiri að hafa, bæði einhver hluti alþingismanna og einnig almenningur þá einhver ákveðim prósenta atkvæðisbærra manna.
En þjóðaratkvæðagreiðslur, um hvaða mál þær eiga að fjalla og hvernig er hægt að krefjast þeirra. Mér finnst að skilyrðin eigi að vera þröng, það gengur ekki að lítill minnihlutahópur geti krafist þjoðaratkvæðis um lítilsverð mál
Svolítið um framkvæmd þjóðaratkvaðagreiðslna. Þær þurfa alls ekki að vera svo dýrar í framkvæmd eins og Alþingiskosningar. Þó ég sé ekki einn af þessum mörgu tölvusnillingum þá sýnist mér að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið rafrænar. Þá geti hver og einn kosið í sínum heimabanka. ég veit að það eru ekki allir með heimabanka, margt eldra fólk er það ekki. Þá er tvennt til í spilunum; fara til nágrannans og kjósa þar eða að einhver miðstöð verði fyir þann fámenna hóp sem ekki á möguleika heima hjá sér eða hjá nágrannanum. Það yrði ekki hægt að kjósa nema einu sinni á hveri kennitölu og hugbúnaðurinn, sem tekur á móti atkvæðunum, hefur úrslitin klár þegar kjörtími er útrunninn.
Ég set þetta hér inn, ekki til að þetta fari í Stjórnarskrá, heldur til að vekja athygl á möuleikum tölvunnar.
Ég heyrði það frá einum frambjóðanda að honum hugnaðist ekki að í núverandi Stjórnarskrá eru þó nokkur ákvæði sem leyfa að um Stjórnarskrárbundin ákvæði megi fjalla á Alþingi til breytinga án þess að það teljist breyting á Stjórnarskrá. Ég tel að slíkt sé í meira lagi vafasamt, Stjórnarskrá verði ekki breytt nema þar sé ótvírætt um Stjórnarskrárbreytingu að ræða og þá verði málsmeðferðin í samræmi við það.


Kjördæmaskipun og fjöldi þingmanna

Ég geri mér ljóst að eflaust er ég búinn að fjalla áður um það sem ég skrifa hér, þetta eru upprifjanir og áherslur

Kjördæmaskipun

Ég held að það sé óhætt að fullyrða að meiri hluti frambjóðenda til Stjórnlagaþings vill vinna að því að gera Ísland að einu kjördæmi, þar er einblínt á einn þátt eingöngu; jöfnun atkvæða.

Ég er efins um að gera Ísland að einu kjördæmi þó það tryggi jafnt vægi atkvæða, lengra verður tæplega komist í því. En ég óttast önnur áhrif, sérstaklega hættuna á auknu flokksræði. Eftir að Ísland hefur verið gert að einu kjördæmi verða allir framboðslistar matreiddir í Reykjavík á flokksskrifstofunum. Ég óttast að þar með verði áhrif hinna dreifðari og afskekktari byggða borinn fyrir borð. Möguleiki væri að jafnframt framboði lista verði einstaklingum heimilt að bjóða sig fram með ákveðnum fjölda meðmælanda. Einhver slík réttarbót yrði að fylgja verði Ísland gert að einu kjördæmi. 

Fjöldi þingmanna

Annað sem er oft slegið fram af frambjóðendum til Stjórnlagaþings er að fækka skuli þingmönnum, líklega eru flestir þar að horfa til sparnaðar.

Ég held að flestir sem slíku varpa fram þekki lítið til starfa Alþingis. Það er dapurlegt ef það er almennt álit að þingfundir, sem hægt er að horfa á í Sjónvarpinu, sýni í hnotskurn það mikla starf sem fram fer á Alþingi. Aðalstarfið fer fram í þeim mörgu nefndum sem kosnar eru á Alþingi, nefndir sem hafa mismunandi verkefni, sumar fjalla um iðnað og atvinnumál aðrar um menntamál og ekki má gleyma þeirri sem ekki hefur mesta ábyrgð, fjárlaganefnd.Til að manna allar nefndir þingsins þarf ákveðinn fjölda, það væri miður ef hver þingmaður getur ekki einbeitt sér að einum málflokki í nefnd. Þess vegna er það mikill misskilningur að fjöldi á löggjafarsamkundu eins lands sé eitthvert hlutfall af fjölda borgaranna, það er ekki nema eðlilegt að fjöldi á löggjafarsamkundu fámenns lands sé hlutfallslega meiri en meðal stærri þjóða. Eitt atriði í viðbót; með sama fjölda þingmanna og nú er eru meiri líkur á að þar sitji þverskurður þjóðarinnar. Það mætti gjarnan setja hámarkstíma á hve lengi hver og einn má sitja á Alþingi. Þannig minnka líkurnar á að til verði stétt atvinnustjórnmálamanna sem aldir eru upp í flokkunum, rétt klára lögfræðiprófið og koma blautir á bak við eyrun til setu á Alþingi án þess að hafa komið nálægt atvinnuvegum eða brauðstriti þjóðarinnar.

Ef það tekst að gera þau skörpu skil sem nauðsynleg eru milli Alþingis og Ríkisstjórnar þá verða störf Alþingis mun skilvirkari, þá mun Alþingi hafa mun meira frumkvæði að lagasetningum. Það hefur lengi verið dapurlegt að fylgjast með því að Alþingi er á stundum óstarfhæft vegna þess að það bíður eftir frumkvæði Ríkisstjórnar, hún hefur nær alfari hrifsað til sín allt frumkvæði að lagasetningu eða hvað verður oft um þingmannafrumvörp, hve oft daga þau uppi?


Við verðum að skapa skörp skil á milli Alþingis (löggjafarvaldsins) og Ríkistjórnar (framkvæmdavaldsins)

Nú þegar nær dregur kosningum til Stjórnlagaþings er ekki úr vegi að vekja athygli í stuttum pistlum á hver eru þau meginmál sem ég vil leggja áherslu á:

Viljum við halda í þingræði sem ríkjandi stjórnarform? Þá er ekki úr vegi að rifja upp örstutt hvað er átt við með þingræði.

Við kjóum fulltrúa á Alþingi, alþingismenn. Oftast skipa þeir sér í stjórnmálaflokka og eftir kosningar hefjast samningar milli flokka til að mynda Ríkisstjórn. Sú reglu hefur verið nær alsráðandi að einungis alþingismenn verða ráðherrar en þeir sitja samt sem áður áfram sem þingmenn.

Þetta er þingræði en þá kemur spurningin: Er þetta það eina sem kemur til greina sem stjórnskipun Íslands, erum við að skaða lýðræðið með því að hrófla við þessu?

Nei þetta er ekkert "heilagt" fyrirkomulag og það þarf síður en svo að skaða lýðræðið þó við þingræðinu sé hróflað.

Þetta er mín skoðun í stuttu máli:

Ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi. Það á ekki að vera lögmál að það verði umfram allt þingmenn sem verða ráðherrar. Þingmenn sem þó verða ráðherrar segi af sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á Alþingi en hafa rétt til að koma á þingfundi til að mæla fyrir lagafrumvörpum en hafa ekki atkvæðisrétt. Einstakar þingnefndir hafa rétt til að kalla ráðherra á nefndarfundi til að nokkurs konar yfirheyrslu. Þarna er skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Með þessu er endir bundinn á innihaldslaust þras á milli ráðherra og þingmanna svo sem með fyrirspurnum einkum frá þingmönnum í stjórnarandstöðu. Þegar ráðherrar fá fyrirspurnir á borð við "hvernig var brugðist við heillaóskum Hilary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna sl. 17. júní" eða "hvernig eru minkaveiðar skipulagar nú" þá hljóta allir að sjá að það verður að binda enda á þetta rugl sem framar öðru hefur stórskemmt orðstír Alþingis.

Er hægt að auka áhrif  kjósenda á hvað Ríkisstjórn þjóðin fær efir kosningar? Er hægt að búa við þetta kerfi að einhver ríkisstjórn taki við völdum eftir kosningarog þá sambræðsla flokka sem eru búnir að bræða sín stefnumál, sem fólkið kaus, í einhvern allt annan bræðing en fram var settur fyrir kosningar?

Fram hafa komið hugmyndir, fyrst settar fram af Vilmundi Gylfasyni, um að forsætisráðherra yrði kosinn beinni kosningu og hann veldi síðan og skipaði ráðherra. Auðvitað yrði hver og einn sem býður sig fram til forsætisráðherra að setja fram skýra stefnu fyrir framkvæmdavaldið og það yrðu að vera fleiri umferðir kosninga þar til forsætisráðherra yrði kjörinn af meirihluta kjósenda.

Ætti slík ríkisstjórn að vera bundin af því að fá meirihluta stuðning á Alþingi?

Þetta kann allt að virka sem útópía á marga. Ég held samt að þarna sé verið að reifa eitt mikilvægasta mál sem Stjórnlagaþing mun fjalla um:

Aðskilnaður Alþingis (löggjafans) og Ríkisstjórnar (framkvæmdavaldsins) er algjör nauðsyn. Sú stjórnskipan sem nú er við lýði hefur gengið sér til húðar og haft í för með sér ýmiskonar subbuskap, jafnvel spillingu.

Þegar þessi mál hafa verið til lykta leidd er tímabært að ræða stöðu Forsetaembættisins.

Ætlum við að hala í það embætti og hvert á þá að vera hlutverk þess?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband