Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
19.8.2010 | 15:53
Ég hef átt samleið með Hitaveitu Reykjavíkur í meira en hálfa öld
Fyrst þegar ég fór að venja komu mína til Hitaveitu Reykjavíkur var skrifstofa og afgreiðsla Hitaveitunnar í íbúðarhverfi, nánar til tekið við Drápuhlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Jóhannes Zoega var þá forstjóri Hitaveitunnar og kynntumst við Jóhannes vel og leyfi ég mér að segja að öll okkar kynni voru hin bestu. Jóhannes stjórnaði þeirri miklu uppbyggingu Hitaveitunnar sem hófst um 1960 þegar Geir Hallgrímsson varð borgarstjóri.
Hitaveita Reykjavíkur vann það grettistak að leggja hitaveitu í alla Reykjavík innan Hringbrautar á stríðsárunum, nokkur hús höfðu áður átt kost á heitu vatni úr Laugardal en eftir það átak varð alger stöðnun, ekkert frekar gert í útvíkkun hitaveitunnar fyrr en þeir Geir og Jóhannes komu til skjalanna. Ég var einn af þeim bæjarfulltrúum í Bæjarstjórn Kópavogs sem vildi taka þá stefnu að semja við Hitaveitu Reykjavíkur um að Hitaveitan legði hitaveitu um allan Kópavog án nokkurra fjárútláta af hálfu Kópavogs en vissulega voru þau sjónarmið á lofti að stofna eigin hitaveitu í Kópavogi, leita eftir vatni í bæjarlandinu og leggja síðan hitaveitu með stórfelldum lántökum. Þessi stefna varð undir sem betur fer en hafði það í för með sér að þáverandi meirihluti í Bæjarstjórn sprakk en stefnan um samninga við Hitaveitu Reykjavíkur varð ofan á. Þannig var Kópavogsbúum forðað frá því að taka á sig drápsklyfjar af skuldum sem langan tíma hefði tekið að komast út úr. Síðan fóru Garðabær, Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur að okkar dæmi og þannig urðu allir íbúar höfuðborgarsvæðisins aðnjótandi þessara mestu gæða sem Ísland á; að hita upp hús sín með jarðvarma, orkugjafa án allrar mengunar.
Eftir að Jóhannes lét af stjórn sem forstjóri Hitaveitu Reykjavíkur tók Gunnar Kristinsson við, mætur maður sem ég átti hin bestu samskipti við. Síðan byggði Hitaveita Reykjavíkur aðalstöðvar sínar við Grensásveg, þar var rúmt um alla starfsemi og ég held að allir hafi unað glaðir við sitt. Þessir heiðursmenn, Jóhannes Zoega og Gunnar Kristinsson er báðir látnir.
Svo kom að því að hitaveitan, vatnsveitan og holræsakerfið í Reykjavík voru sameinað undir einn hatt. Guðmundur Þóroddsson vatnsveitustjóri tók við stjórn í hinu sameinaða fyrirtæki. Allan þann tíma frá því hin stórfellda uppbygging og útbreiðsla hitaveitunnar hófst var Hitaveita Reykjavíkur og síðan hið sameinaða fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, mjólkurkú sem skilaði eiganda sínum umtalsverðum arði.
En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls.
Hvað gerðist?
Vissulega var farið í nýjar stórframkvæmdir. Nesjavallavirkjun byggð sem framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn, virkjun sem var hagkvæm í alla staði og er búin að borga sig. Síðan kemur Hellisheiðarvirkjun sem enn sem komið er framleiðir aðeins rafmagn, ekki heitt vatn einnig, nýtir aðeins 15% af jarðorkunni í stað 85% eins og Nesjavallavirkjun. Þá voru tekin mikil útlend lán og síðan kom hrunið.
Er það eina skýringin á slæmri stöðu OR, útlendu lánin?
Þau eru þyngst en því verður ekki á móti mælt að hjá OR hófst flottræfilsháttur í rekstri sem ekki mátti síður rekja til pólitíkusa en stjórnenda OR. Skýrasta dæmið um það er hið skelfilega hússkrímsli við Bæjarháls. Ekki veit ég hvað það er stórt en þó tekið sé tillit til að hitaveita, vatnsveita og holræsakerfi hafi verið sameinuð í eitt, er ekki lítil þensla í húsnæði og mannafla frá Drápuhlíð til Bæjarháls. Bruðlið við byggingu hússins við Bæjarháls var með eindæmum, að bruðla þar endalaust með fjármuni almennings er ófyrirgefanlegt og afurðin er einhver ljótasta og óhagkvæmasta bygging sem risið hefur hér á landi á undanförnum árum.
Síðasta kjörtímabil var eitthvert svartasta tímabilið í pólitískri sögu Reykjavíkur frá upphafi. Forystuna um þá niðurlægingu hafði Sjálfstæðisflokkurinn. Til að reyna að hreinsa sig völdu kjörnir fulltrúar að gera Guðmund Þóroddsson forstjóra að blóraböggli og hann rekinn og Hjörleifur Kvaran ráðinn í staðin, hafði áður verið lögfræðingur fyrirtækisins og þar áður Reykjavíkurborgar. Nú hefur Hjörleifur verið látinn taka pokann sinn, en hverju breytir það, er verið að finna nýjan blóraböggul?
Alla starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar. Leitun mun á fyrirtæki á Íslandi sem hefur eins tryggan rekstrargrundvöll, hefur nánast einkarétt á að reka hitaveitur á Suð-vesturlandi nema á Reykjanesi.
Um langan aldur mun skrímslið við Bæjarháls verða minnismerki um hvernig kjörnum fulltrúum, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, tókst að klúðra málum gersamlega með bruðli og gífurlegri skuldsetningu.
Megi "Skrímslið" verða öllum viðvörun um aldur og ævi.
19.8.2010 | 11:24
Stundum nær bullið nýjum hæðum
Ég ætla að birta hér á mínu bloggi pistil eftir konu eina (ætla ég) sem nefnir sig "Benedikta". Mér finnst ekki úr vegi að sýna hverskonar bull kemur frá þeim sem hæst láta í djöfulgangi gegn núverandi Ríkisstjórn. Hvort þessi "Benedikta" gefur mávum við Stjórnarráðið eða lemur pottlok við Seðlabankann veit ég ekki, en mér finnst hún smellpassa inn í rugluliðið sem þar emjar, veinar og æpir.
Pistillinn er svar hennar við athugasemd sem ég setti inn á hennar blogg. Ég mun láta það vera framvegis enda vesalings manneskjan ekki viðræðuhæf.
Og hefst þá lesturinn:
Benedikta E: Sæll Sigurður. Svo þú ert ánægður með svikráð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þeim fækkar óðfluga kjósendum þeirra sem þakka þeim sviknu kosningaloforðin. Hefur þú orðið var við - Skjaldborg heimilanna - NEI - svikið kosningaloforð Jóhönnu - en aðeins eitt af mörgum. Skjaldborg Jóhönnu fór yfir nýríka einkavini Jóhönnu úr útrásinni - banka og fjármögnunarfyrirtæki. Slagorðapólitíkusinn Jóhanna efnir engin loforð - það hefur hún víst aldrei gert á sínum 30 ára stjórnmálaferli. - Fólk flýr land í þúsunda vís - ekki er það vegna velsældar ........... - Síðustu tölur atvinnulausra 16 þúsund - burt flúnir atvinnulausir eru ekki inni í þeirri tölu - Holskefla uppboða á heimilum fólks - Eignaupptaka í stórum stíl á bílum - atvinnutækjum og vélabúnaði - smá fyrirtæki og meðalstór keyrð í þrot Höfuðstóll lána myntkörfu og verðtryggða lána stökkbreyttir ekkert aðhafst frá stjórnvöldum í því. Lýðurinn á - "Bara borga". Aðför stjórnvalda að öldruðum og öryrkjum - lögbundnar tengingar lífeyris við launa og verðhækkanir afnuminn með einu pennastriki fyrir 2009 og 2010 af ríkisstjórn Jóhönnu. Atvinnu uppbygging engin - Vaxta og verðhækkanir stjórnlausar. Fátækt fer ört vaxandi - stækkandi hópur fólks sem ekki hefur í sig né á. Enginn niðurskurður hjá stjórnsýslunni en stöðugt hert að lýðnum. Forgangsröðun verkefna hjá Jóhönnu stjórninni er vægt sagt mjög óábyrg og skrítin - ESB - Æsseif - AGS Það eru til peningar fyrir öllum hugðarefnum Jóhönnu - ef ekki þá bara að taka lán - skuldsetja þjóðina upp í rjáfur fleiri kynslóðir til framtíðar. Lygina - blekkingarnarog hræðsluáróðurinn sem sífellt er steypt yfir fólk sýna best vanhæfni stjórnvada sem valda ekki verkefninu og eiga að víkja - STRAX - Þetta eru staðreyndir Sigurður - þú getur varla mótmælt því þar sem þú lifir í þessu landi.
Nei Benedikta, ég mun ekki mótmæla þessu bulli þínu, þú mátt eiga það óskert fyrir mér.
15.8.2010 | 10:20
Íslensku þjóðinni er engin vorkunn, það er verið að hífa hana upp úr kviksyndinu sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sökktu henni í
Það styttist í það að ég haldi upp á mitt 76 ára afmæli. Sá sem hefur lifað svo langa ævi hefur séð margt, upplifað margt og reynt margt. Stundum voru lífskjör alþýðu manna ömurleg, lífsbaráttan hörð.
Í dag er emjað og veinað yfir lífskjörum á landi hér eftir hið skelfilega klúður sem hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kom þjóðinni í. Núverandi Ríkisstjórn, sem enn heldur saman þrátt fyrir Ögmund og últraliðið í Vinstri grænum, hefur lyft Grettistaki undir forystu Jóhönnu og Steingríms þrátt fyrir hælbítahjörðina sem um þau og Ríkisstjórnina situr:
Gott og vel hvernig er þá ástandið í dag?
Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið styrkara í lengri tíma.
- Verðbólgan ekki verið minni í tæp 3 ár - komin niður í 4,7%.
- Hagvöxtur hefur mælist tvo ársfjórðunga í röð.
- Kaupmáttur hefur aukist í fyrsta sinn á ársgrundvelli frá því eftir hrun.
- Atvinnuleysi er mun minna en spáð var og hefur atvinnulausum fækkað frá því á sama tíma í fyrra. 7.5% atvinnuleysi mældist í júlí en það var 8% í júlí 2009.
Getur hælbítahjörðin mótmælt þessu með rökum?
13.8.2010 | 09:59
Hundarnir í Riga (og Reykjavík)
Henning Mankell sænski krimmahöfundurinn getur verið fjári góður stundum en á það til að verða nokkuð langorður. Ég var að enda við sögu hans "Hundarnir í Riga" þar sem sögusviðið er í Ystað á Skáni en ekki síður í Riga höfuðborg Lettlands þegar alræði kommúnistaríkjanna er að falla. Söguþráðurinn þegar kemur yfir til Riga er með ólíkindum en gæti hann ekki hafa verið það eins og mál voru þar að þróast?
En það er víðar en í Riga sem hælbítahjörðin fer af stað og ekki er furða að menn eins og Jón Valur, Jón Magnússon og Páll Vilhjálmsson fari þar fremstir ef þeir telja sig finna blóðbragð. Það eru starfshættir þessara hælbíta að velja sér einhverja opinbera persónu sem hafi farið inn á grátt svæði, sú persóna skal að velli lögð hvað sem það kostar.
Ekki er langt síðan úlfahjörðin fór vælandi af stað gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vegna einhverra óskilgreindra afskipta hennar af launamálum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Þar voru ekki aðeins á ferð lítilsigldir bloggarar heldur peð á Alþingi einnig. Þar fór fremstur í flokki baróninn í Sjálfstæðisflokknum, Sigurður Kári Kristjánsson. En hvar endaði gjammið? Það hjaðnaði all skyndilega og Jóhanna stóð jafn keik á eftir.
Nú er hjörð hælbítanna heldur betur búin að finna blóðbragð og sá "seki" er Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Honum er gefið að sök að hafa sagt Alþingi ósatt, sumir tala um lygi. Ég hef reynt að átta mig á þessu máli og get engan veginn séð að Gylfi hafi sagt ósatt. Hann taldi að lán í erlendri mynt væru þá lögleg og líklega eru þau það ennþá, en tók fram að um álitamálin að greiða af þeim eftir gengi krónunnar yrðu dómstólar að fjalla um sem síðan var gert og hefur Hæstiréttur nú kveðið upp endanlegan dóm. Ekki er ólöglegt að lána í erlendri mynt en ólöglegt að greiða af þeim í íslenskum krónum eftir gengi á hverjum tíma. Hæstiréttur fjallaði ekki um hvaða vexti skyldi greiða af þessum lánum eftir dóminn en þar hefur Héraðsdómur Reykjavíkur fellt dóm, ekki ólíklegt að það fari fyrir Hæstarétt.
Ég spái því að þessi "herferð" gegn Gylfa Magnússyni endi á svipaðan hátt og herferðin gegn Jóhönnu um laun Seðlabankstjóra, herferðin koðni niður og verði að engu.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég verði vændur um að verja allt sem núverandi Ríkisstjórn og ráðherrar hennar gera. Því ætla ég að svara fyrirfram og benda á að mér finnst sjálfsagt að gagnrýna einstaka ráðherra þegar sönn átæða er til að mati þess sem málefnalega gagnrýnini setur fram. Ég hef verið ómyrkur í máli um einstakar stjórnarathafnir tveggja flokksbræðra minna í Ríkisstjórn, þeirra Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra og Kristjáns Möller samgönguráðherra. Ekki þarf að fara langt niður eftir mínu bloggi til að lesa gagnrýni á þessa tvo ráðherra. Mér finnst efni standa til þeirrar gagnrýni, hún er ekki til komin af því að reyna að koma höggi á viðkomandi.
Ég ætla að geyma mér frekari gagnrýni á tvo ráðherra aðra í Ríkisstjórninni, en þeir hafa með starfsháttum sínum gengið fram af mér með fráleitum vinnubrögðum..
29.7.2010 | 08:55
Dapurlega framganga Árna Páls félagsmálaráðherra þegar hann skipar Runólf Ágústson sem umboðsmann skuldara
Það var (og er vonandi enn) yfirlýst stefna núverandi Ríkisstjórnar að gera allar stjórnarathafnir gagnsæjar, ekki síst við skipanir í embætti. Því dapurlegra er að sjá Árna Pál félagsmálaráðherra skipa Runólf Ágústsson flokksbróður okkar beggja í embætti umboðsmanns skuldara. Runólfur á skrautlegan feril að baki, vann eflaust gott verk í byrjun sem skólameistari á Bifröst en hrökklaðist að lokum úr embætti vegna brests í siðferðilegum efnum sem og stjórnunarlegum. En Runólfur var ekki einn í heiminum, hann kom að þegar góss ameríska hersins á Keflavíkurflugvelli komst í hendur Íslendinga. En því miður stundaði hann fjármálbrask eins og hver annar útrásartortúlalubbi og skilur eftir sig skuldaslóð, skuldir sem aldrei verða greiddar.
Hverskonar dómgreindarleysi er það hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að skipa Runólf Ágústsson sem umboðsmann skuldara? Ætlar Árni Páll að láta þessa skipun í embættið standa, eða getur hann e. t. v. ekki breytt neinu?
Blaðið DV hefur ekki það orð á sér að vera áreiðanlegasti fjölmiðill landsins en oft ratast kjöftugum satt á munn. DV fjallar um ráðningu Runólfs og kemst að þeirri réttu niðurstöðu að hún sé fyrir neðan allar hellur.
Eru núverandi stjórnvöld að falla í hinn fúla pytt vinavæðingar, er það mikilvægara að vera flokksbróðir ráðherrans sem í stöðuna skipar heldur en að hafa flekklausan feril að baki?
2.7.2010 | 17:39
Nú er nóg komið af einkarekstri sem hið opinbera fjármagnar
Það hefur lengi verið deilt um einkarekstur og opinberan rekstur. Frægasta einkavæðing undanfarinna ára var þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson afhentu gjörsamlega óhæfu og spilltu liði þrjá banka sem voru áður í eigu ríkisins. Eftirleikinn þekka allir sem vilja þekkja en nú er að koma í ljós að stór hluti þjóðarinnar vill stinga höfðinu í sandinn og svæfa minnið. Annars gæti ekki Sjálfstæðisflokkurinn verið stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi eins og skoðanakannanir gefa til kynna. Svo vel gengir að dáleiða fólk að fjölmargir eru farnir að trúa því að það séu núverandi stjórnarflokkar, Samfylking og Vinstri grænir, sem eigi sökina á hruninu haustið 2008.
Hlutskipti þessara tveggja flokka er að greiða úr flækjunni og reisa landið upp eftir hrunið. Kannski er ekki einkennilegt að þeir flokkar sem hafa tekið þetta risavaxna verkefni að sér og þar með að gera fjölmargar óvinsælar ráðstafanir sem koma hart niður á landsmönnum, fái heldur slaklega útkomu í skoðanakönnunum. Það sem þar vekur ekki síður athygli er að Framsóknarflokkurinn heldur ekki kjörfylgi sínu frá síðustu alþingiskosningum.
En aftur að upphafinu, einkarekin fyrirtæki á kostnað þess opinbera.
Fyrst skal telja Guðmund og Byrgið hans. Þar var farið æði fjálslega með opinbert fé og þá kom það óhugnanlega í ljós; eftirlit hins opinbera með því fé sem Guðmundi í Byrginu var afhent var lítið sem ekki neitt. Anað dæmið er Guðmundur og Götusmiðjan. Þar á eftir að kafa til botns til að fá sannleikann upp á yfirborði. Nýjasta dæmið er Menntaskólinn Hraðbraut sem fær stóran fjárhæðir úr ríkissjóði. Ólafur Johnsen, sá er rekur skólann, hefur tekið til sín stóran hluta af opinbera framlaginu og kallar það "arðgreiðslur". Þarna eiga auðvitað að gilda sömu lög og í fyrirtækjarekstri; þar sem skólinn þarf opinberan styrk er óheimilt að greiða út arð eins og í fyrirtæki sem rekið er með tapi.
Hvað leyfi höfðu forráðmenn Sólheima í Grímsnesi til að taka stórar fjárhæðir af opinberum ríkisstyrk til að byggja kirkju (kristna að sjálfsögðu) á staðnum? Ef það er eitthvað sem ekki skortir í uppsveitum Árnessýslu þá eru það kristnar kirkjur. Það er krans af þeim í kringum Sólheima, nefnum nokkrar, Borg, Skálholt, Torfastaðir, Mosfell og Úthlíð.
Nú er verður óráðsíunni að linna og það strax.
Þá kom að því. Steinunn Valdís segir af sé þingmennsku fyrir að hafa þegið hátt í 13 milljónir í styrki frá bönkum og bröskurum til handa sjálfri sér til að pota sér fremst í prófkjöri síns flokks; sem sagt til að geta tranað sér fram fyrir samherja sína, til að geta troðið þeim aftur fyrir sig. Ég sé enga ástæðu til að mæra þessa ákvörðun Steinunnar Valdísar, hún átti fyrir löngu að vera búin að sjá að með gjörðum sínum í síðustu prófkjörum Samfylkingarinnar sýndi hún mikinn siðferðisbrest. Það er engin afsökun að peningasníkjur hafi verið viðtekin venja. Hún var líka stórtækust í sníkjunum innan síns flokks en vissulega eru þar innan dyra fleiri sem ættu að skoða sína framgöngu. Ég hef margsinnis sagt að ég er í Samfylkingunni og geri þess vegna meiri kröfur til þeirra sem eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og á Alþingi fyrir Samfylkinguna en annarra flokka manna.
Ég lýsi því einnig yfir að viðbrögð Þórunnar Sveinbjörnsdóttur við þessum tíðindum, að Steinunn Valdís segði af sér, voru lágkúruleg svo ekki sé meira sagt. Hún hrósaði Steinunni Valdísi og tók sérstaklega fram að afsögn hennar væri fyrst og fremst til að styrkjar flokkinn, Samfylkinguna. En hvað með Alþingi, Borgarstjórn Reykjavíkur, hvað með þjóðina? Þarna birtist nákvæmlega það sama og kom fram hjá Þorgerði Katrínu þegar hún dró sig í hlé frá þingmennsku. Gjörðin var fyrst og fremst til að styrkja flokkinn hennar, Sjálfstæðisflokkinn, annað virtist ekki skipta máli.
Flokksræðishugsun þeirra sem nú eru í valdastöðum í þjóðfélaginu er orðið mein sem þessir sömu eru nú að súpa seiðið af.
En hvað um aðra stórbetlara í öðrum flokkum, ætla þeir að sitja sem fastast? Hvað um Guðlaug Þór, ekki var Steinunn Valdís hálfdrættingur á við hann í styrkjum til að knésetja félaga sína. Hvað um alla hina?. Steinunn Valdís hefur sýnt fordæmi sem stillir mörgum öðrum stjórnmálamönnum upp við vegg.
Þeirra er valið, er þeirra innri spilling á svo háu stigi að þeir sjá ekkert athugavert við eigin gjörðir?
Svo kemur næsta vandamálið. Um leið og einhver segir af sér kemur varamaður inn. Ég held að margir séu stöðugt með hroll eftir að Óli Björn Kárason, holdgervingur óheftrar frjálshyggju, maður sem skuldaði í bönkunum hálfan milljarð (ekki hann sjálfur, félag sem hann átti, kom honum ekki við, ekki ber klárinn það sem ég ber eins og karlinn sagði) tók sæti hennar á Alþingi.
Varamaður Steinunnar Valdísar kemur inn, það er Mörður Árnason. Ekki veit ég neitt um hvort Mörður hefur þegið styrki eða farið í sníkjur, tel samt nauðsynlegt að hann geri hreint fyrir sínum dyrum.
19.5.2010 | 14:43
Mikið umstang út af engu
Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Það er allt í lagi og enginn tístir einu sinni þó útlendingar eignist öll hlutabréf í Marel eða Össuri. En að útlendingar eignist HS-orku er ekki það sama og útlendingar eignist auðlindir Íslands, þær eru efir sem áður í eigu þjóðarinnar. Ég stórefa að það sé hagkvæmara fyrir neytendur að Árni Sigfússon stýri HS-orku frekar en Kanadamaðurinn. Það er lítill vandi fyrir útlendinga sem eignast nær öll hlutabréf í Marel eða Össuri að segja einn daginn "við viljum ekki hafa okkar fyrirtæki á Íslandi, við förum með það til Bangladess". Engin getur sagt neitt.
En hvað með HS-orku?
Það fer enginn með það fyrirtæki burtu af Íslandi. Það vinnur úr íslenskum auðlindum og fari það burt er enga auðlindaorku að hafa. Kaupendur orkunnar eru rótfastir á Íslandi, Suðurnesjamen, Álver sem verða ekki svo auðveldlega flutt burtu á einni nóttu.
Það er dálítið broslegt þetta upphlaup Vinstri grænna vegna kaupa Kanadamannsins á HS-orku. Þetta er búið að liggja fyrir lengi að það mundi gerast og HS-orka var þegar að miklu leyti í útlendri eigu. Ég held að upphlaup Vinstri grænna komi þessari sölu sáralítið við.Þarna eru pólitísk átök til heimabrúks, innan flokksins og gagnvart samstarfsflokknum.
Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að Ríkissjóður, sem á nánast eingöngu skuldir, fari að reiða fram 16 milljarða króna aðeins til að koma í veg fyrir að í stað þess komi 16 milljarðar í útlendum gjaldeyri inn í landið?
Ég mun sofa vært þó HS-orka sé í eigu Kanadamangsins, ekki ólíklegt að það væri æskilegt að fleiri íslensk fyrirtæki fengju slíkar útlendar vítamínsprautur.
En hvað um Vinstri græna? Það heyrist ekki hósti né stuna frá þeim um kvótamálið? Er allt í lagi þó þjóðin hafi verið rænd auðlind sinni, er það í lagi ef þeir sem rændu eru íslenskir og það langt fram í ættir og þar að auki rammasta afturhald semfyrirfinnst á landi hér?
Thor Jensen ætti varla nokkurra kosta völ að fá að nýta íslenska auðlind í dag. Var hann ekki danskur að uppruna, báðir foreldrarnir danskir og Thor fæddur í Danmörku?
Nokkur orð til Ármanns Einarssonar útgerðarmanns í Auðbjörgu ehf. í Þorlákshöfn frá landkrabba
eftir Sigurð Grétar Guðmundsson
Ármann virðist taka það illa upp að ég bað hann, ef hann legði í að svara mér, að vera málefnalegur. Ég get ekki annað en birt málsgrein úr hugarheimi hans sem sýnir svolítið annað:
Sigurður Grétar talar eins og sönnum vinstrimanni sæmir sem vill að ríkið sé með puttana í allt og öllu eins og gafst svo vel í ráðstjórnarríkjunum gömlu. Hann vill líka fara að fordæmi Mugabe í Zimbabwe og gera eignaréttinn að engu með tilheyrandi upplausn í samfélaginu.
Ef Ármann veit það ekki þá er það skjalfest og þekkt um alla heimsbyggðina að stjórnarstefnan í Ráðstjórnarríkjunum var alla tíð glötuð enda hrundi þetta alræðisríki nánast til grunna á einni nóttu og sá hlýtur að vera rakalítill sem þarft að líkja mér við geðsjúkan þjóðarleiðtoga í Afríku sem er búinn að rústa blómlegasta landbúnaðarlandi í þeirri álfu.
Þetta kemur ekki við mig á nokkurn hátt en mikið er hægt að lúta lágt til að koma ímynduðu höggi á viðmælandann.
Orð sem eru gulls ígildi
En þá ætla ég að vitna orðrétt í grein Ármanns þar sem hann staðfestir í örfáum orðum það sem ég gagnrýndi í minni fyrri grein þegar hann segir:
Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni).
Ég þakka fyrir þessa hreinskilni sem er kannski óvart fram sett. Þarna er viðurkennt að þessi grein atvinnulífsins, sjávarútvegur, er ofurseld því að verða að kaupa menn út úr greininni og þá vil ég spyrja. Hve mikið er búið að blóðmjólka íslenskan sjávarútveg til þeirra sem eru að selja ykkur réttindi sem þeir eiga ekkert í og þið hefðuð aldrei þurft að kaupa?
Nú skulum við hverfa aftur til þess tíma þegar kvóti í sjávarútvegi var settur á af illri nauðsyn. Útgerðarmenn fengu úthlutaðan kvóta eftir veiðireynslu og þeir voru ekki rukkaðir um eina einustu krónu fyrir það. Ég er þeirrar skoðunar að á þeim tíma hafi verið rétt að setja kvóta á veiðarnar, það hafði fljótlega þau áhrif að fiskiskipum fækkaði og ég veit ekki betur en að hið illa ríkisvald hafi stuðlað að því með því að leggja til fjármagn til að úrelda skip. Förum síðan allt til dagsins í dag. Setjum svo að þannig hefði kvótakerfið verið alla tíð, hið skelfilega framsal, sala, kaup og leiga hefði aldrei komið til. Ég er þess fullviss að útgerðarfyrirtæki svo sem Auðbjörg ehf. hefði ekki minni kvóta í dag en raunin er. Stóri munurinn er sá að það fyrirtæki hefði aldrei þurft að kaupa kvóta, ekki heldur aðrir útgerðarmenn. Þeir sem hefðu farið út úr greininni hefðu einfaldlega hætt eins og í öllum öðrum greinum atvinnulífsins, þeir hefðu engar greiðslur fengið frá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, menn gátu jafnvel selt sín skip eða fengið opinbera aðstoð við að úrelda þau.
Ekki veit ég hve háar fjárhæðir hafa verið dregnar út úr íslenskum sjávarútvegi síðan frjálsa framsalið var sett á.
Er það rétt að þar sé um hundruðir milljarða að ræða? Væri ekki greinin betur sett ef þessir fjármunir væru í vel reknum útgerðarfyrirtækjum eins og Auðbjörgu og fleirum, í stað þess að verða að afhenda þá til einstaklinga, sem sumir hverjir fjárfesta skynsamlega í alls óskyldum atvinnurekstri, en aðrir hafa sannarlega lifað í lúxus meðan þið sem eftir eruð í greininni berjist fyrir tilveru ykkar.
Engin svör komu í grein Ármanns við nokkrum sláandi dæmum sem ég kom með í fyrri grein. Hvað um Eskju á Eskifirði, hvað um erfingja Alla ríka sem nú velta sér í allsnægtum í útlöndum, hvað um Vestmannaeyinginn sem lifir góðu lífi á því að eiga skip bundið við bryggju og leigja kvótann? Ef kvótinn hefði alla tíð verið í sama formi og upphaflega var hugsað hefði þessi útgerðarmaður einfaldlega orðið að skila kvótanum og einhver sem rak sitt útgerðarfyrirtæki vel hefði fengið hann.
Fyrirtækin keyrð í þrot?
Það er mikið til í því að ég hef takmarkað vit á sjávarútvegi. En ég skil fullkomlega hversu eitraður bikar frjálsa framsalið, kaupin, salan og leigan er fyrir ykkur sem viljið stunda fiskveiðar og vinnslu og gera það vel. Ykkur var afhentur þessi réttur, framsalið, og mér er slétt sama hvar þeir menn voru í pólitík og flokkum sem það gerðu, söm var þeirra gerðin. Þið gleyptuð við þessu og síðan hófst braskið og blóðugast af öllu er það sem ég hef vitnað til í þinni grein, ég ætla að birta þá tilvitnun aftur:
Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni).
Ég spurði í minni fyrri grein hvernig það gæti gert öll útgerðarfyrirtæki gjaldþrota ef kvótinn yrði innkallaður á tuttugu árum, svarið er einmitt í tilvitnuninni. Ég svaraði mér reyndar sjálfur. Útgerðarmenn eru búnir að slá eign sinni á kvótann. Þeir eru búnir að bókfæra sameiginlega eign allrar þjóðarinnar og það sem er alvarlegast af öllu; veðsetja hana hérlendis sem erlendis upp í topp.
Er þetta ekki rétt?
Kvótinn verður aftur sameign þjóðarinar
Það verður kvótinn á nákvæmlega sama hátt og fiskurinn í sjónum, útgerðarmenn eiga hann ekki fyrr en þeir hafa veitt hann og komið með hann að landi. Ég ætla að vona að þið losnið úr herkví íhaldshugsunarinnar og sjáið að það er búið að leiða íslenskan sjávarútveg í skelfilegar ógöngur. Þegar réttindi, sem öll þjóðin á, geta gert ykkur gjaldþrota með því einu að afturkalla 5% kvótans árlega þá er eitthvað rotið. Ykkur verður mjög líklega aftur afhentur þessi sami kvóti sem réttindi frá þjóðinni, það verður að veiða fiskinn, það höfum við gert alla tíð og sjávarútvegur verður enn um langan aldur ein af styrkustu stoðum þjóðarbúsins.
En þið eruð búnir að flækja ykkur í skelfilegt fjárhættuspil sem er kvótabraskið. Það verður að finna leið til að styrkja ykkur og aðstoða til að komast út úr því þegar kvótinn verður aftur gerður að þjóðareign.
Ármann er óánægður með að ég skuli kalla hann íhald. Í sjálfu sér er það ekkert skammaryrði í mínum huga, lýsir aðeins hugsunhætti ýmissa einstaklinga. Ég minni á að annar af forgönguflokkum Sjálfstæðisflokksins hét reyndar Íhaldsflokkur. Þeir sem fá nafnbótina íhald í dag eru einmitt þeir sem vilja engu breyta, sitja í sama stól, ganga sömu sporin og áður. Það viljð þið útgerðarmenn flestir gera, þó hef ég grun um að sumir hverjir í ykkar röðum séu farnir að efast um ágæti þvermóðskunnar og íhaldsstefnunnar í kvótasukkinu.
Væri ekki nær að koma að þessu máli með opinn huga og finna skynsamlegar lausnir. Er það ekki besta gjöfin sem þið getið gefið arftökum ykkar; að losa þá undan þeirri kvöð sem lýst er svo ágætlega í þinni grein, ég hef þá tilvitnun sem mín lokaorð:
Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni).
Ég var í þeim hópi sem vonaði að umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði til þess að umræðan um hugsanlega kosti og galla aðildar yrðu yrði yfirvegaðri en áður þar, væntanlega fáum við staðreyndir og svör um aðild sem við getum byggt á.
En því er ekki aldeilis að heilsa. Þeir sem fara mikinn hér á blogginu og hafa í frammi "svartagallsraus" um hvað bíði okkar ef við göngum þar inn hafa færst í aukana en þeir sem vilja upplýsta umræðu hafa nánast þagnað.
Ég get vel endurtekið hver mín afstaða til aðildar er, það hef ég reyndar gert áður hér á blogginu. Ég get engan vegið gert það upp við mig með jái eða neii, ég verð fyrst að fá mörg svör við áleitnum spurningum. Því miður eru margar fullyrðingar i gangi um allar þær skelfingar sem bíði okkar ef við förum inn en í rauninni veit enginn neitt hvað er handan hornsins. Þeir neikvæðu benda til dæmis oft á hina meingölluðu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, það liggur í augum uppi að hana munum við aldrei samþykkja, við eigum og munum eiga óskoraða lögsögu yfir okkar landhelgi og þeim staðbundnu fiskistofnum sem þar eru. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af ísl. landbúnaði. Í honum býr það mikil sköpunargleði (ef hann fær að starfa óáreittur af stóra bróður) að hann mun spjara sig.
Ég hef fylgst með ýmsum svartagallsbloggurum hér sem tína allt til sem er skelfilegt við aðild að Evrópusambandinu. Ein fáránlegasta röksemdin er sú að ofboðslegir erfiðleikar Grikkja séu Evrópusambandinu og evrunni að kenna. Þarna er staðreyndum algjörlega snúið á haus, ef það er eitthvað sem getur bjargað Grikkjum út úr fjármálöngþveiti þeirra er það einmitt aðildin að ESB og upptaka evrunnar.
Það er full ástæða til að rifja það upp af hverju fjármálöngþveiti Grikkja stafar. Það er algjörlega heimatilbúinn vandi. Grikkland hefur alla tíð verið spillt land sem hefur eytt langt um efni fram. Embættismenn og pólitíkusar hafa rænt og ruplað úr fjárhirslum ríkisins undanfarna ártugi auk þess að stjórnvöld hafa falsað opinberar tölur úr ríkisbúskapnum, reynt með því að leyna vandanum og fegra ástandið. Það þarf því engan að undra þó almenningur í Grikklandi rísi upp svo að við borgarastyrjöld liggur. Allur almenningur veit og hefur alltaf vitað hvað yfirstéttin, stjórnmálamennirnir, embættismennirnir og fjármálbraskararnir eru eru gjörspilltir mútuþegar og ekki nóg með það. Þar hafa menn stolið , rænt og ruplað og nú á almenningur að borga brúsann með versnandi hag, lægri launum og hærri sköttum. Munurinn á Grikklandi og Íslandi er sá að þar hefur glæpalýðurinn haft miklu meiri tíma til að stela og blekkja, hérlendis voru þeir stöðvaðir það fljótt en voru þó búnir a tæma bankana og hirða alla þá fjármuni sem þeir komust yfir.
Ég hef ekkert á móti því að fá ábendingar um það sem slæmt er við aðild Íslands að ESB, en farið ekki með bull og rangar staðhæfingar. En ég efa ekki að þeir svæsnustu munu halda áfram að berja höfðinu við steininn og kenna ESB um spillinguna og þjófnaðinn á þjóðarauði í Grikklandi.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar