Færsluflokkur: Dægurmál
10.9.2010 | 10:18
Hverjum var Hrunið 2008 að kenna?
Nú fara menn mikinn hér á blogginu og eflaust víðar skilst mér þar sem skýrsla Atla Gíslasonar og hans meðnefndarmann er að birtast. Margir bloggarar fara hamförum gegn þeim sem sátu í Ríkisstjórn Geirs Haarde fyrir Samfylkinguna. Þar hafa menn fundið sökudólgana, enginn er þó eins slæmur í þeirra augum og Össur Skarphéðinsson. Það má sjá fingraför eins manns á þessari herferð en það er fyrrum forsætisráðherra, fyrrum Seðlabankastjóri Davíð Oddsson. Það er merkileg söguskoðun að ætla að ráðherrar Samfylkingarinnar í Ríkisstjórn Geirs Haarde beri aðalábyrgð á Hruninu, tæplega minnst á að í sömu Ríkisstjórn sátu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem höfðu reyndar setið lengi í þeim stólum, fyrst undir forsæti Davíðs Oddssonar, síðan Halldórs Ásgrímssonar og síðast undir forsæti Geirs Haarde. Vissulega er pólitískt minni mann hérlendis heldur gloppótt, en Davíð Oddssyni finnst samt að það þurfi að skerpa á gloppunum og afvegaleiða sem flesta; fyrst og fremst að leiða athyglina frá því að hann bar mesta ábyrgð að rekstri þjóðfélagsins árum saman fyrir hrun.
Ætla menn nokkrum manni að meðtaka þann boðskap frá Hádegismóum að aðalsökudólgar Hrunsins í október 2008 séu þeir ráðherrar Samfylkingarinnar sem tóku sæti í Ríkisstjórn Geirs Haarde um mitt ár 207? Það er vissulega mannlegt að leiða athyglina frá sjálfum sér þegar slæm mál eru í farvatninu. En almenningur er ekki búinn að gleyma því að þeir sem bera meginábyrgð á Hruninu úr hópi stjórnmálamanna eru Davíð Oddsson og Halldór Ásrímsson. Fleiri lögðu þar hönd á plóg svo sem Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir, Árni Matthiesen og Geir Haarde auk allra fjárglæframannanna í bönkunum.
Nú er spurningin þessi; á að setja Landsdóm yfir þeim sem voru ráðherrar í Ríkisstjórn Geirs Haarde sem tók við stjórnartaumunum um mitt ár 2007? Þeir sem þar sátu fyrir Sjálfstæðisflokkinn áttu miklu lengri setu í Ríkisstjórn en eru gjörðir manna frá þeim tíma fyrndar?
Sitja þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrómsson þess vegna í öruggu skjóli og þurfa ekki að svara fyrir gerðir sínar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2010 | 20:42
Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn hafa öll svikið sína kjósendur
Hreyfingin var ekki til við síðustu kosningar og því enginn á hennar vegum í framboði hvorki Þráinn Bertelsson né nokkur annar. Þráinn, og þau þrjú sem flutu með honum á þing voru kjörin sem frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar. Þrjú þeirra yfirgáfu Borgarahreyfinguna og skildu Þráin eftir einan, nú er hann einnig horfinn frá þeirri hreyfingu sem kom honum á þing, Borgarahreyfingin á þar með engan þingmann.
Þessir fjórmenningar töldu sig fremsta og heiðarlegasta af öllum pottlokaberjurum og fóru inn undir merkjum heiðarleika og endurnýjunar. Öll hafa þau svikið sína kjósendur. Að vera kosinn á þing af ákveðnum hópi kjósenda, hlaupa frá þeim kjósendum í aðra flokka er ekkert annað en lágkúra og svik. Þessir fjórmenningar hafa afhjúpað sig sem spillta stjórnmálamenn.
Var ekki að þeirra áliti nóg af þeim fyrir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.9.2010 | 11:16
Eru ekki allir til í að lækka hitareikninginn?
Eru einhver töfrabrögð í boði til þess að lækka hitareikninginn? Kannski ekki töfrabrögð en það er Íslendingseðlið sem vert er að skoða, þar í liggur möguleiki til lækkunar.
Hvernig má það það vera?
Ein afleiðingin af því hve heita vatnið hefur verið ódýrt er að hjá okkur Íslendingum hafa skapast hitavenjur sem hvergi í nokkru öðru landi þekkjast. Þetta er sá vani að hafa hita á heimilum mun hærri en nokkurs staðar á byggðu bóli. Hönnuðir hitakerfa vinna út frá þeirri forsendu að hitakerfi húsa sé fært um að halda 20°C hita innandyra þó úti sé mínus 15°C. Þetta er arfleifð þess tíma að innihiti þótti hæfilegur 20°C. En mikið vill oft meira og í dag þekkist vart að innihiti sé undir 22°C, 24°C búa margir við .
Þarna er verið að sóa peningum. Fyrir hverja °C sem þér tekst að lækka stöðugan innihita lækkar þú hitareikninginn um 5%.
En til þess að það takist þurfa stýritæki hitakerfisins að vera í lagi og rétt valin. Stýritækin þurfa þá að stjórnast af lofthitanum inni, ekki af hita vatnsins sem út af ofnunum rennur.
Annar ótrúlegur ósiður Íslendinga er að láta glugga standa upp á gátt daglangt ef ekki allan sólarhringinn. Þetta er gert þó enginn sé heima frá morgni og langt fram eftir degi. Að sjálfsögðu er loftræsing mikil nauðsyn en ef enginn er heim eiga gluggar að vera lokaðir. Loftræsingu á að framkvæma með fullri opnun glugga og kröftugum loftskiptum í nokkurn tíma, hafa glugga svo ekki opnari en þörf krefur þegar verið er heima, þetta getur skilað þó nokkrum krónum. Margir vilja sofa við opinn glugga, það eiga menn að sjálfsögðu að veita sér.
Tvennt á að vera til á hverju heimili a) vandaður hitamælir sem segir þér hve heitt er inni b) rakamælir sem sýnir hve mikill raki er í vistarverum, á ekki ekki að vera undir 40%. Yfirleitt er of lágt rakastig í íbúðum og öðrum vistarverum hérlendis.
Hvernig á að auka rakann í íbúðum? Nota úðakönnur eða/og setja grunnar skálar með vatni á ofna. Svo eru einnig til tæki sem sjá um rétt rakastig og hreinsa loftið. Hjá tækjaóðri þjóð er ekki svo vitlaust að fjárfesta í slíku tæki.
6.9.2010 | 11:22
Þetta er reginhneyksli, geirfugl er líkur geirfugli
Þessi fugl er því miður útdauður vegna græðgi mannskepnunnar. Suðurnesjamenn vildu heiðra minningu þessa horfna fugls og reistu honum minnisvarða, styttu þar sem reyndar eiga a koma fleiri styttur af útdauðum fuglum.
En þá verður allt vitlaust. Það kemur í ljós að styttan af geirfugli á Suðurnesjum líkist styttu af styttu af geirfugli í Reykjavík. Þetta er þegar talið af sérfræðingum sem hugverkastuldur. Þannig hlýtur geirfuglinn á Suðurnesjum eiga að líkjast einhverju allt öðrum fugli en útdauðum geirfugli, var ekki hægt að hafa hrafn eða grágæs sem fyrirmynd til að komast hjá hugverkastuldi?
Þetta hlýtur að leiða til þess að enginn listamaður má birta styttu af geirfugli framar.
Og af hverju?
Vegna hættunnar á að geirfuglsstyttan líkist geirfugli og þar með geirfuglsstyttunni í Reykjavík.
Stundum gera listaverkafræðingar sig að athlægi. Ég legg til að Suðurnesjamenn fjarlægi hið snarasta styttuna af geirfuglinum og reisi á staðnum styttu af "listaverkafræðingnum" Knúti Brun, þetta getur veri smástytta, svona í geirfuglsstærð. En þá skal enginn dirfast að gera styttu af Knúti Brun og stilla henni upp, hún gæti líkst Knúti Brun og er þar með hugverkastuldur!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.8.2010 | 13:45
Sigurður Einarsson stundaði skothríð á eigin fætur
Í Fréttablaðinu sl. laugardag var heljarinnar viðtal við Sigurð Einarsson fjármálamann og fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings sáluga. Viðtalið tóku þeir Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri og Stígur Helgason blaðamaður. Að sjálfsögðu þurftu óvandaðir bloggarar að ráðast á þá tvo fyrir að upphefja Sigurð í "Baugsmiðli" sem er heiti sem Fréttablaðið verður að dragnast með ennþá. Það er engin ásæða til að ráðast á þá Ólaf og Stíg, mér fannst þeir spyrja nokkuð hvasst á köflum eins og tilefni var til. Sigurður Einarsson var einn af alalleikendum í bankahruninu og það er sjálfsögð skylda við almenning að hann svari áleitnum spurningum, en hafa verður í heiðri að enginn er sekur fyrr en hann hefur verið dæmdur sekur.
Viðtalið var hvorki meira ná minna en þrjár síður og tæplega hefur nokkur maður, sem ber hrunið mikla á herðum sér, fengið jafn gullið tækifæri til að rétta sinn hlut, koma fram af tilhlýðilegri auðmýkt, og reyna að fá almenningsálitið sér nokkuð hliðhollara en verið hefur.
En aldrei hefur nokkur maður, sem ber hrunið á herðum sér, klúðrað slíku tækifæri jafn rækilega og Sigurður Einarsson gerði á síðum Fréttablaðsins.
Sigurður Einarsson gerði allt rétt að eigin áliti, hann bar ekki nokkra ábyrgð á því að Kaupþingsbanki valt með braki og brestum. Allt sem þarna gerðist var "öðrum" að kenna. Að sjá setningar hafðar eftir stjórnarformanninum svo sem þessa:
"Hafi stjórnvöld talið að við hefðum átt að minnka, vaxa hægar eða til dæmis færa starfsemina eitthvað annað, þá hefðu þau mátt benda okkur á það. Það var aldrei gert"
Eða þetta:
"Hann nefnir til dæmis að þegar Kaupþing vildi koma sér út úr kaupunum á NIBC- bankanum í Hollandi. Þá hefði honum þótt æskilegt að fá bréf frá íslenska Fjármálaeftirlitinu, sem myndi í raun banna bankanum að ljúka kaupunum"
Rauði þráðurinn í viðtali Fréttablaðsins er sú veruleikafirring sem viðmælandinn Sigurður Einarsson sýnir. Það væri hægt að draga fram margt í svörum hans sem sýnir það, þessar tvær tilvitnanir eru aðeins brot af fráleitum flótta Sigurðar undir mottóin" ekki benda á mig".
Sigurði Einarssyni má líkja við ökumann sem ekur á 200 km hraða og veldur stórslysi. Eftir á er ökumaðurinn hissa og reiður og spyr "af hverju var lögreglan ekki búin að stoppa mig?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.8.2010 | 14:39
Vilborg G.Hanssen leyfir ekki að gerðar séu athugasemdir við blogg hennar (nema vera útvalinn) og hikar þess vegna ekki við að fara með rangt mál
Þó ég hafi gagnrýnt Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra þá læt ég ekki óhlutvanda bloggara komast upp með að vega að neinum ap ósekju, hvorki Árna Páli né öðrum. Kona sem nefnir sig Vilborg G. Hanssen vegur úr lokuðu búri sínu þegar hún fjallar um stjórn Íbúðalánasjóð og félagsmálaráðherra.
1. Hún segir að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi verið búin að ráða Ástu Bragadóttur sem forstjóra Íbúðalánasjóðs. Það er rangt, stjórnin fól henni að gegna stöðunni þar til forstjóri yrði valinn úr hópi umsækjenda. Ásta var einn af umsækjendum.
2. Stjórn ÍBLS reyndi að ráða samhljóða einn af fjórum umsækjendum sem töldust hæfastir, það tókst ekki.
3 Árni Páll Árnason félagsmálráðherra skipaði þá valnefnd til að meta umsækjendur, það er góð stjórnsýsla. Í valnefndinni eiga sæti Jón Sigurðsson (fv. formaður Framsóknar), Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og dr. Tinna Laufey í HÍ. Þessi valnefnd ætti að vera yfir allan vafa um pólitíska fyrirgreiðslu ríkisstjórnarinnar eða annarra afla. Ásta Bragadóttir virðist hafa talið sig svo sjálfsagða í embættið, þar sem hún var beðin að gegna því tímabundið, að hún dró umsókn sína til baka.
Ef óhlutvandir bloggarar telja sig óhulta fyrir gagnrýni eða leiðréttingum með því að loka á athugasemdir þá eru til leiðir, eins og hér sést, til að ná til þeirra.
Mitt blogg er öllum opið fyrir athugasemdum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.8.2010 | 09:01
Spaugstofan lögð niður í Sjónvarpinu, hárrétt ákvörðun
Það virðist hrista upp í mörgum að Spaugstofan hafi runnið sitt skeið í Sjónvarpinu, það er ekki einkennilegt því þeir eru búnir að vera fastur punktur í Sjónvarpinu í rúmlega tuttugu ár.
En það voru ekki Spaugstofumenn sem tóku þessa ákvörðun, það var Páll Magnússon sem það gerði tilneyddur með niðurskurðarhnífinn á lofti.
En tími Spaugstofunnar var liðinn og þó fyrr hefði verið. Oft á tíðum hittu þeir á að gera góða þætti en þreytumerkin á þeim voru greinileg síðustu árin. Það var frekar sjaldgæft að þeim tækist að hitta naglann á höfuðið í spaugi sínu og þöglir einþáttungar Arnar Árnasonar, sem stundum voru voru settir inn í prógrammið til uppfyllingar, vor sérlega pínlegir satt að segja.
Ég hef verið þeirrar skoðunar í þó nokkurn tíma að Spaugstofan ætti að hverfa af skjánum, en í skemmtanabransanum eiga þeir sem koma fram oft og verða vinsælir erfitt með að þekkja sinn vitjunartíma.
En nú hefur Páll Magnússon tekið af þeim ómakið. Þegar er farið að bollaleggja að þeir komi fram á örðum stöðvum, ekki hirði ég um það. Ég sé einungis Sjónvarpið og þykir alveg nóg að hafa völ á einni lélegri sjónvarpsstöð. Einhver kann að segja sem svo að ég sé tæplega hæfur til að dæma þær stöðvar sem ég hef enga reynslu af, en mér nægir að líta yfir dagskrár annarra stöðva, þar eru ríkjandi amerískir aulaþættir sem ég ef engan áhuga á.
En aftur að Spaugstofumönnum sem ekki þekktu sinn vitjunartíma. Ég minnist þess sem Einar Kristjánsson óperusöngvari sagði forðum. Hann var nær allan sinn starfsaldur söngvari við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Einar tilkynnti óvænt á besta aldri að hann væri hættur hjá Konunglega og hættur að syngja opinberlega. Fjölmargir skoruðu á hann að halda söngnum áfram en þá svaraði Einar:
Ég vil heldur að sagt verði "synd að hann Einar sé hættur að syngja" frekar en "synd að hann Einar sé enn að syngja".
Spaugstofumenn hefðu átt að taka álíka ákvörðun eins og Einar fyrir þó nokkru, ekki láta Pál taka hana fyrir sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2010 | 09:51
Borða geitur með hníf og gaffli?
Það var ágætt viðtal við fróða konu um geitur í Ríkisútvarpinu í morgun. En því miður féll konan í þan fúla málfarspytt að tala um að skepnur borði.
Orðið að "éta" var lengi ráðandi í íslensku máli en svo fannst einhverjum það ekki nógu virðulegt orð og þá varð til orðið að "borða". Hún er dregin af borðinu sem setið er við þegar menn éta. Hins vegar lifir þetta góða gamla orð góðu lífi í norrænum málum, enn tala Svíar um að "eta" mat og skammast sín ekki fyrir.
Ég get engan veginn fellt mig við að nota orðið að "borða" um þann verknað þegar dýr éta. Pempíuhátturinn sækir á, afar sjaldan er umræða um æti fiska eða fugla, það er auðvitað miklu virðulegra að tala um að fæðu dýra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.7.2010 | 09:21
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um vexti afmyntkörfulánum er Salómonsdómur og réttsýnn gagnnvart lántakendum
Dómurinn sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur um vexti af myntkörfulánum, sem dæmd hafa verið ógild, er mjög réttsýnn gagnvart lántakendum. Ef höfuðstóll lánanna er færður niður um tugi prósenta hvernig í ósköpunum er hægt að fara fram á að vaxtaprósentan sé áfram sú sama? Líklega yrðu þá komin fram hagstæðustu lán sem nokkru sinni hafa verið til á Íslandi frá því verðtrygging var tekin upp, lán sem bera neikvæða vexti og eru ekki í samræmi við nein önnur lánaform hérlendis.
Ég sé ekki annað en að Hæstiréttur muni mjög bráðlega staðfesta dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, óbreyttir vextir af þessum lánum koma ekki til greina en þarna er farin mjög væg leið gagnvart skuldurum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.7.2010 | 12:22
Auglýsingar Símans eru fyrirtækinu til skammar
Einhverjar ógeðfelldustu auglýsingar sem dynja framan í okkur í Sjónvarpinu eru frá Símanum, fyrirtæki sem á að vera eitt af símafyrirtækjum á samkeppnismarkaði en hefur greinilega slíka velvild stjórnvalda að geta haldið landsmönnum í gíslingu. En aftur að auglýsingum Símans. Þar birtast mest aular sem eru gerðir sem ógeðslegastir, ýmist slefandi eða gubbandi og svo er ekki hikað við að klæmast á íslensku máli og ekki virðist málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafa neitt við þetta að athuga.
Sem sauðþrár stuðningsmaður Ríkisútvarsins (ég segi sauðþrár því stundum vildi maður helst geta lokað endanlega fyrir það sem frá Ríkisútvarpinu kemur) þá geri ég þá kröfu að tekið sé til hendi til lagfæringar á auglýsingastofu stofnunarinnar til þess að ýmiskonar viðbjóður, eins og auglýsingar Símans, þurfi ekki að dynja á þeim sem ennþá horfa á dagskrá Sjónvarpsins.
Ég sagði að framan að greinilega nýtur Síminn sérstakrar vildar stjórnvalda og Samkeppniseftirlits. Allt byrjaði þetta með einkavæðingunni. Þá vildu margir fara þá leið að skilja grunnnetið frá sölunni, grunnnetinu sem öll síma- og fjarskiptafyrirtæki þurfa að hafa aðgang að. En það vildu stjórnvöld ekki hlusta á enda var þetta á Davíðs/Halldórs tímanum.
Ég ákvað eftir að fjarskipti voru gefin frjáls að færa mig frá Símanum eftir ótrúlega framkomu fyrirtækisins. Nýr sími keyptur hjá n fékk ekki samband þegar hann var settur í hleðslu, Fór með hann á verkstæði Símans í Ármúla og eftir viku og mörg símtöl var mér sagt að nú mætti ég sækja gripinn. Ég skundaði á staðinn og síminn var lagður á borði, þakkaði fyrir og ætlaði að halda á brott. En ekki aldeilis, síminn gripinn og fyrir mig lagður reikningur sem ég skyldi borga! En síminn er nýr, hann er í ábyrgð? Nei hún gildir ekki, þú hlýtur að hafa set snúruna þjösnalega í samband, lóðning hafði gefið sig. Ég neitaði að borga. Þá var mér tilkynnt að þar með yrði síminn tekin í gíslingu og ekki afhentur fyrr en ég borgaði viðgerðina.
Hverra kosta átti ég völ? Ég borgaði og ákvað á stundinni að hætta öllum viðskiptum við Símann, það væru fleiri kostir til og flutti mig yfir til Vódafón.
En þar fór ég villur vegar, það losnar enginn við Símann og öll árin síðan fæ ég að sjálfsögðu reikninga frá Vódafón en mér til mikillar furðu einnig frá Símanum. Því fyrirtæki þarf ég að borga nær 2.000 kr mánaðarlega fyrir eitthvað sem Síminn kallar "Þjónustu vegna heimasíma" og þegar ég fékk mér síma með númerabirtingu hélt ég að ég gæti fengið það skráð hjá Vódafon. Nei, þar var mér sagt að ég yrði að leita til Símans, þetta væri hans einkasvið.
Og allar götur síðan borga ég Símanum mánaðargreiðslu kr. 99 fyrir númerabirtingu. Stundum læðist inn kostnaður á reikningum Símans "símtöl innanlands", "símtöl í upplýsingaveitur" og"símtöl í þjónustunúmer". Svo skulum við ekki gleyma Símaskránni sem gefin er út árlega af Símanum með kostnaði fyrir alla sem símanúmer hafa á Íslandi, burtséð við hvað fjarskiptatfyrirtæki þeir skipta við.
Er þetta hin frjálsa samkeppni í því landi Íslandi á 21. öld?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar