Færsluflokkur: Dægurmál
2.7.2010 | 17:39
Nú er nóg komið af einkarekstri sem hið opinbera fjármagnar
Það hefur lengi verið deilt um einkarekstur og opinberan rekstur. Frægasta einkavæðing undanfarinna ára var þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson afhentu gjörsamlega óhæfu og spilltu liði þrjá banka sem voru áður í eigu ríkisins. Eftirleikinn þekka allir sem vilja þekkja en nú er að koma í ljós að stór hluti þjóðarinnar vill stinga höfðinu í sandinn og svæfa minnið. Annars gæti ekki Sjálfstæðisflokkurinn verið stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi eins og skoðanakannanir gefa til kynna. Svo vel gengir að dáleiða fólk að fjölmargir eru farnir að trúa því að það séu núverandi stjórnarflokkar, Samfylking og Vinstri grænir, sem eigi sökina á hruninu haustið 2008.
Hlutskipti þessara tveggja flokka er að greiða úr flækjunni og reisa landið upp eftir hrunið. Kannski er ekki einkennilegt að þeir flokkar sem hafa tekið þetta risavaxna verkefni að sér og þar með að gera fjölmargar óvinsælar ráðstafanir sem koma hart niður á landsmönnum, fái heldur slaklega útkomu í skoðanakönnunum. Það sem þar vekur ekki síður athygli er að Framsóknarflokkurinn heldur ekki kjörfylgi sínu frá síðustu alþingiskosningum.
En aftur að upphafinu, einkarekin fyrirtæki á kostnað þess opinbera.
Fyrst skal telja Guðmund og Byrgið hans. Þar var farið æði fjálslega með opinbert fé og þá kom það óhugnanlega í ljós; eftirlit hins opinbera með því fé sem Guðmundi í Byrginu var afhent var lítið sem ekki neitt. Anað dæmið er Guðmundur og Götusmiðjan. Þar á eftir að kafa til botns til að fá sannleikann upp á yfirborði. Nýjasta dæmið er Menntaskólinn Hraðbraut sem fær stóran fjárhæðir úr ríkissjóði. Ólafur Johnsen, sá er rekur skólann, hefur tekið til sín stóran hluta af opinbera framlaginu og kallar það "arðgreiðslur". Þarna eiga auðvitað að gilda sömu lög og í fyrirtækjarekstri; þar sem skólinn þarf opinberan styrk er óheimilt að greiða út arð eins og í fyrirtæki sem rekið er með tapi.
Hvað leyfi höfðu forráðmenn Sólheima í Grímsnesi til að taka stórar fjárhæðir af opinberum ríkisstyrk til að byggja kirkju (kristna að sjálfsögðu) á staðnum? Ef það er eitthvað sem ekki skortir í uppsveitum Árnessýslu þá eru það kristnar kirkjur. Það er krans af þeim í kringum Sólheima, nefnum nokkrar, Borg, Skálholt, Torfastaðir, Mosfell og Úthlíð.
Nú er verður óráðsíunni að linna og það strax.
Mér er spurn; getur ráðherra setið áfram í sínu embætti eftir að á hann hefur verið lýst vantrausti af flokksstjórn síns stjórnmálaflokks?
Ég mun ná þeim háa aldri að verða 76 ára á þessu ári. Það er sárt að verða vitni að því að sá maður sem Samfylkingin, minn flokkur, hefur sýnt það traust að gegna starfi félagsmálaráðherra í Ríkisstjórn Íslands skuli ítrekað ráðast á kjör okkar eldri borgara, þú veist það full vel Árni Páll að þetta eru ekki staðlausir stafir. Þessi ríkistjórn hefur að vísu verið nokkuð samstillt í því að taka réttindi og möguleika af eldri borgurum til að sjá sér farborða. Ég fagnaði því mjög þegar afnumið var það niðurlægjandi ákvæði, sem minnti á framfærsluskyldu fyrri ára, að tekjur maka hefðu áhrif á lífeyri hins í hjónabandi og vissulega bjó ég nokkur ár við það óréttlæti og ekki kenni ég Árna Páli um það, hann hefur nóg að bera samt. Ég fagnaði því eindregið þegar frítekjumark lífeyrisþega var hækkað hressilega upp í 1.300.200 kr. á ári
Ég er einn af þeim sem starfaði lengst af ævi minnar sem sjálfstætt starfandi pípulagningameistari og því miður höfum við margir sem þannig er ástatt um sárlitlar tekjur úr lífeyrissjóðum. En þrátt fyrir aldur og veikindaáföll sá ég nokkurn möguleika á að reyna að afla mér tekna sem ráðgjafi í mínu fagi, margt er gott sem gamlir kveða. En núverandi Ríkisstjórn, sem ég hef stutt með ráðum og dáð, lét það verða eitt að sínum fyrstu verkum að lækka frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.
Hvernig í ósköpunum sá nokkur ráðherra eða fræðingur að það mundi auka tekjur Ríkissjóðs eða spara útgjöld hans? Ég vildi gjarnan sjá þann rökstuðning sé hann til á blaði, eða var þetta einungis geðþóttaákvörðun?
En nú ert þú Árni Páll orðinn eins og naut í glervörubúð þar sem þú virðist sjá það sem þitt aðalhlutverk að vega að smásálarlegum lífeyri eldri borgara þessa lands. Það vill oft fara svo að þeir sem hafa vel til hnífs og skeiðar hafa ekki minnsta skilning á kjörum þeirra sem lægst eru settir hvað tekjur varðar. Þitt síðasta verk var að berjast fyrir því að lífeyri okkar gamlingjanna væri frystur svo tryggt yrði að við fengjum engan ábata af því litla launaskriði sem mögulega verður hér á landi á komandi tímum.
Ég skoraði á Steinunni Valdísi flokkssystur okkar að segja af sér þingmennsku vegna fjármálbralls í prófkjörum. Steinunn Valdís mat sína stöðu rétt og sagði af sér. Ráherra sem hefur ekki traust síns flokks og flokksfélaga á að segja af sér.
Það átt þú að gera Árni Páll!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.6.2010 | 11:26
Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar?
Landsfundi Sjálfstæðisflokksins er lokið. Á fundinum bar hæst sú fáránlega tillaga, sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að sagt er, að Ísland dragi umsókn sína um inngöngu í Evrópusambandið til baka.
Satt best að segja hafði ég það mikið álit á Sjálfstæðisflokknum að mér datt ekki í hug að svo heimskuleg tillaga yrði samþykkt á landsfundi flokksins. En það er líklega enn einu sinni að sannast það sem Hannes Hólmstein sagði "sjálfstæðismenn eru ekkert að hugsa um pólitík, þeir vinna á daginn og grilla á kvöldin".
Ömurlegast er þetta fyrir formann flokksins Bjarna Benediktsson sem var gerður afturreka með hófsamari tillögu "að leggja aðildarumsóknina á hilluna í bili". Þetta afhjúpar tvennt rækilega. Mikill meirihluti landsfundarfulltrúa setur sig ekki á nokkurn hátt inn í mál sem fyrir fundinum liggja, núverandi formaður Bjarni Benediktsson hefur mjög takmörkuð áhrif og völd. Í sjónvarpsfréttum frá landsfundinum brá fyrir gamalkunnu andliti Davíðs Oddssonar sem gekk glaðbeittur milli borða og heilsaði fólki kampakátur.
Þarna fór sá maður sem öllu ræður í Sjálfstæðisflokknum í dag, hann leggur allar línur og það er eins gott fyrir Bjarna Benediktsson og hans meðstjórnendur að lúta vilja þess sterka, annars munu þeir hafa verra af. Svo virðist eins og megnið af landfundarfulltrúum hafi ekki skilið um hvað var kosið, flestir héldu að það væri verið að kjósa um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki.
Því fór víðs fjarri. Aðildarviðræður eru til þess að við fáum allir landsmen þau svör sem við verðum að fá til að hægt sé að ljúka þessu máli. Aðildarviðræðurnar leiða í ljós hvaða kosti það hefur fyrir Ísland að ganga í ESB og ekki síður; hvaða fórnir við verðum að færa séu þær einhverjar. Þá fyrst getur þjóðin svarða þeirri spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við göngum í ESB eða ekki. Ég er hlynntur inngöngu en get engan vegin sagt til um það nú hvort ég munu greiða atkvæði með inngöngu eða hafna. Það get ég ekki fyrr en svörin liggja á borðinu.
Hvers vegna vilja ýmis sterk öfl í þjóðfélaginu allt til vinna til að koma í veg fyrir áframhaldandi aðildarviðræður?
Sterkustu öflin eru Bændasamtökin og Landsamband íslenskra útvegsmanna að ógleymdum ritstjóra Morgunblaðsins Davíð Oddssyni, og þar með því málgagninu sem hann stýrir, Morgunblaðinu. Það er ekki óeðlilegt að ritstjóri ráði mestu um stefnu þess blaðs sem hann stýrir en það háskalega er að enn þann dag í dag ræður Davíð Oddsson ekki aðeins Morgunblaðinu, hann ræður einnig öllu í einum stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokknum. Kjörnir stjórnarmenn flokksins, ekki síst formaðurinn Bjarni Benediktsson formaður eru ekki annað en strengjabrúður í höndum Davíðs Oddssonar og það er enginn í augsýn sem ógnar hans veldi. Sjálfstæðismenn svo sem Þorsteinn Pálsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Benedikt Jóhannesson og margir fleiri skoðanabræður þeirra fengu viðvörun á landsfundinum. Gegn þeim er spjótinu beint þegar formaður flokksins var gerður afturreka með sína tillögu um aðildarviðræðurnar að skipan úr Hádegismóum, þannig samþykkt að aðildarviðræður skyldu stöðvaðar skilyrðislaust.
En ég hef ekki svarað því enn hvers vegna þessu sterku afturhaldsöfl sem ég að framan nefndi leggja höfuðáherslu á að stöðva aðildarviðræður?
Það er augljóst mál hver ástæðan er. Það er óttinn við hvaða árangri við náum í aðildarviðræðum það er óttinn við það að þar muni komi í ljós að kostirnir séu yfirgnæfandi af inngöngu, ókostirnir sáralitlir. Það kann að koma í ljós að okkur standi til boða að ráða áfram alfarið yfir fiskinum í sjónum og landhelginni og að sjálfsögðu; óskert yfirráð yfir öllum auðlindum til lands og sjávarbotns eins og öll aðildarríki ESB hafa haldið við inngöngu.
Þessi svör mega ekki sjá dagsins ljós að áliti fyrrnefndra afturhaldafla; reyndar gleymdi ég þar að nefna afturhaldið í Vinstri grænum undir forystu Ögmundar Jónassonar og Ásmundar Daða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.6.2010 | 09:57
Samfylkingin í Hafnarfirði skýtur sig í fótinn
Það er engin furða þó andstæðingar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði noti klúður hennar í pólitískum tilgangi. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja að Samfylkingin og Vinstri grænir myndu meirihluta í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, samanlagt hafa þessir tveir flokkar afl til þess. Ég hef áður bent á að hvergi í stjórnskipunarlögum ríkis eða sveitarfélaga er orð um að meirihlutar skuli myndaðir, en upp á þessu mjög svo lýðræðislega fjandsamlega ferli fundu einhverjir pólitískir pótintátar, líklega fóru þar fremstir Sjálfstæðismenn í Reykjavík sem löngum réðu lögum og lofum þar í borg.
En þar með er ekki öll sagan sögð í Hafnarfirði. Sá mæti maður Lúðvík Geirsson hefur fallið í þann fúla pytt eins og margir aðrir (t. d. Gunnar Birgisson í Kópavogi) að þekkja ekki sinn vitjunartíma. Menn sem haf verið lengi í forystu, og ráðið þar öllu sem þeir vildu ráða, virðast skerðast illa á eigin dómgreind og ekki finna sjálfir hvenær þeir eiga að draga sig í hlé. Lúðvík tók þá djörfu ákvörðun að taka baráttusæti í framboði Samfylkingarinnar en fékk ekki stuðning og náði ekki kjöri. Það er dapurlegt að Lúðvík falli í þá gryfju að álita sjálfan sig ómissandi og að hann verði að vera bæjarstjóri áfram.
En Samfylkingin og Vinstri grænir í Hafnarfirði virðast vera nokkuð samstíga í dómgreindarleysinu og fara þá leið sem ekki er hægt að segja um annað en að sé rotin spilling. Þessir meirihlutaflokkar virðast fyrst og fremst hugsa um að forystumenn flokkanna fái vegtyllur og þá er farin sú ógeðfellda leið að þeir skuli báðir fá að verma sæti bæjarstjórans á kjörtímabilinu, Samfylkingin í tvö fyrstu árin og Vinstri grænir síðan í þau tvö seinni. Þarna er ekki verið að hugsa um hag bæjarfélagsins heldur um rassinn á forystumönnunum. Þetta er ekkert annað en spilling, þetta var gert á Akureyri á síðasta kjörtímabili og allir ættu að muna sirkusinn í Reykjavík og ég hef ekki orku til að rifja það upp. Selfoss og Grindavík urðu einnig fórnarlömb slíkrar þróunar og greinilegt er að almenningur kann ekki að meta slíkt; að pólitíkusar noti bæjarfélögin í loddaraleik.
Mér finnst líklegt að Samfylkingin og Vinstri grænir eigi eftir að súpa seiðið að ráðsmennski sinni í Hafnarfirði, sá tími á að vera liðinn að flokkar og forystumenn geti notað það sem þeim er trúað fyrir í pólitískum loddaraleik.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.6.2010 | 09:31
Veggjöld eða ekki veggjöld?
Eru veggjöld ætíð af hinu illa? Svo mætti ætla ef tekið er mið af vanstilltum bloggurum eða samskonar greinarhöfundum í öðrum fjölmiðlum. Það virðist vera nokkuð sama hvaða róttækar tilögur koma fram; þá hefst mikið ramakvein hjá þeim sem alltaf eru fúlir á móti. Þar má benda á hugmyndir Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra um að frysta laun opinberra stafsmanna næstu þrjú árin. Líklega er engin leið betri til að tryggja opinberum stafsmönnum störf áfram, en opinberir starfsmönnum fjölgaði gífurlega í bólutíðinni og er víst að fjölga ennþá. Tillögur Jóns Steinssonar um að hafa eina virðisaukaskattsprósentu á alla selda vöru og þjónustu fékk sömu móttökur hjá öskuröpunum, bakgrunnurinn ekkert skoðaður. Það er sérstakt að þeir sem hæst hafa látið og öskra stöðugt um að Ríkisstjórnin geri ekki neitt og heimta aðgerðir, umhverfast algjörlega ef fram koma róttækar tillögur sem vert er að skoða.
Ég hef hér að framan nefnt þrjár róttækar tillögur sem berja á niður strax í fæðingu án nokkurrar skoðunar. Það sem ég nefndi fyrst eru vegtollar, aðferð sem gæti hleypt miklu lífi í opinberar framkvæmdir, fjármögnun þeirra og mundi draga talsvert úr viðvarandi atvinnuleysi. Við skulum ekki gleyma því að slíkar framkvæmdir hafa mikil jákvæð áhrif, vegaframkvæmdir sem byggjast á að kostnaður verði endurgreiddur með vegatollum mun örva atvinnulífið umtalsvert vegna afleiddra starfa einnig.
Kristján Möller samgönguráðherra lýsti því nýlega í viðtali að það er hægt að innheimta vegagjöld rafrænt það er óþarfi að menn sitji í búrum og heimti peninga af öllum sem framhjá búrunum fara. Þannig mundu vega tollar á engan hátt hamla umferð, en þær framkvæmdir sem kalla á vegtolla skapa betri umferðaræðar, gera umferðina öruggari og draga úr umferðarslysum, greiða götu allra sem um vegina fara.
Ég minnist þess að hafa komið til höfuðborgar eins vestræns ríkis fyrir nokkrum árum þar sem til var mikið net þar sem vegatollar voru innheimtir. Þannig hafði þessi borg getað lagt mikið af jarðgöngum sem gjörsamlega endurnýjaði umferðarnetið. Þetta var í höfuðborg ríkasta lands heims, Noregs, þetta var í Oslo. Meira að segja ríkasta land í heimi notaði vegatolla til að standa undir vega- og gangagerð.
Ég hef hér að framan nefnt þrjár athyglisverðar tillögur, róttækar tillögur; a) veggjöld sem leggur grundvöll að umtalsverðum vegaframkvæmdum b) tillögur Árna Páls Árnasonar um að frysta laun opinberra starfsmann í 3 ár, sem mun ekki síst koma opinberum starfsmönnum til góða c) hugmynd Jóns Steinssonar um eina % virðisaukaskatts, sem mun einfalda alla slíka skattheimtu og ekki síst; tryggja að ábatinn af skattheimtunni skili sér til ríkisins og okkar allra, flestum ætti að vera í fersku minni að þegar % á matvæli var lækkuð hvarf ábatinn að mestu í fjárhirslur verslunar og þjónustu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.5.2010 | 10:26
Mun sjónvarsumræðan einhverju breyta?
Foringjar framboðanna í Reykjavík fengu mikinn tíma hjá Sjónvarpinu í gær til að láta ljós sitt skína. Ég verð að hrósa Sjónvarpinu fyrir það að láta alla foringja framboða í Reykjavík koma til umræðunnar. Þannig stóð Stö2 ekki að máli, hjá þeim fengu aðeins þeir, sem spáð er að ná fulltrúa í Borgarstjórn, að koma en hinir voru útilokaðir. Vægast sagt mjög ólýðræðisleg gjörð.
En má ætla að þessari umræða í gærkvöldi í Sjónvarpinu breyti einhverju um niðurstöður kosninganna? Líklega hefur ekki stór hópur horftekki á þennan umræðuþátt, sérstaklega held ég að það eigi við yngra fólk og það er eflaust hagstætt Jóni Gnarr og Besta flokknum.
Það er freistandi að gefa umsögn um hvernig foringjarnir stóðu sig í umræðunni. Hanna Birna er mjög frambærilegur stjórnmálamaður og ekki kæmi mér á óvart ef Sjálfstæðisflokknum tekst að endurheimta traust að hún verði innan fárra ára orðin foringi flokksins. Hjá Hönnu Birnu fer tvennt saman sem fáir stjórnmálmenn hafa til brunns að bera; hún er bæði mælsk og rökföst. Ef Sjálfstæðisflokknum tekst að halda nokkru fylgi er það ekki vafi að það er borgarstjóranum núverandi að þakka, mér sýnist ekki að það lið sem hún hefur með sér geri mikla lukku.
Dagur B. Eggertsson komst vel frá umræðunni og honum tókst að skýra stefnu Samfylkingarinnar í borginni, en flokkurinn leggur höfuðáherslu á atvinnumál. Það liggur í augum uppi að atvinna, að fólk hafi atvinnu, að til séu fyrirtæki með góðu starfsliði sem skapa verðmæti, er undirstaða alls þess sem gera skal og gera verður því þar liggur grunnurinn að tekjum borgarinnar og allra sveitarfélaga. Ég þurfti nokkurn tím til að átta mig á þessari stefnu; hvernig kjörnir fulltrúar í borgarstjórn geta haft afgerandi áhrif á aukningu atvinnu en Degi tókst ágætlega að skýra það.
Þessir tveir foringjar stóðu sig áberandi best í gær en auk þeirra við ég nefna Baldvin foringja Reykjavíkurlistans. Baldvin komst ekki mikið að en hann benti rækilega á "sárið" í borginni, Reykjavíkurflugvöll. Það er sérstakt að það skuli jafnvel vera meirihluti fyrir því í Reykjavík að flugvöllurinn verði festur í sessi um ókomin ár. Baldvini tókst að benda á fjárhagslega þýðingu þess að flugvöllurinn fari sem fyrst, þar sé vissulega mikill og góður grundvöllur fyrir bættum fjárhag borgarinnar, jafnvel strax og ákvörðun er tekin um að flugvöllurinn fari.
Helga frá Frjálslyndum komst nokkuð vel frá umræðunni þó hún hefði sig ekki mikið í frammi.
En síðan fór að halla undan fæti. Vinstri grænir eru stöðugt að verða einkennilegra fyrirbrigði í íslenskri pólitík. Hins vegar þekki ég vel þennan óm sem kom fram hjá Sóleyju Tómásdóttur frá árum mínum í Alþýðubandlaginu. Löngum var ég þar litinn illu auga frá "vinstri deildinni" sem leit hornauga alla þá sem ekki voru opinberir starfsmenn eða háskólafólk. Þeir sem ráku eigin fyrirtæki voru álitnir kapítalistar af "últraliðinu" og þar gyllti umfram allt að vera nógu "harður" og berja á allt og öllu sem ekki samrýmdist þeirra últra skoðunum. Sóley féll rækilega í þann fúla pytt í gær. Tuggði stöðugt um umönnunarstéttir, svo mikilvægar sem þær eru, en gaf ekkert upp um baráttu fyrir aukinni atvinnu og útrýmingu atvinnuleysis. Ég endurtek enn að án þess að lagður sé grunnur verður ekkert hús byggt. Ég man vinstra liðið í Alþýðubandalaginu sem ætíð hafði allt að því fyrirlitningu á grunninum en vildi endilega byggja hátimbraðar hallir og byrja helst á efstu hæð og turninum!
Og hvað með Gnarr og hans flokk, Besta flokkinn. Jóni tókst ekki einu sinni að vera skemmtilegur, margtuggði um hvítflibbafangelsi á í Arnarholti fyrir útlendinga, uppskar smá hlátur þegar hann sagði að "hann hefði aldrei flutt flugvöll". Ég býst við að Besti flokkurinn fái talsvert af atkvæðum en ef almennt hefur verið horft á umræðuna þá getur tæplega verið að fylgi flokksins hafi haldist uppi, þvílíkur fíflagangur.
Þá er sögu Framsóknarflokksins lokið að sinni í Borgarstjórn Reykjavíkur. Einar Skúlason var mjög lélegur í umræðunni og reyndi stöðugt að tyggja um hina miklu "endurnýjun" Framsóknarflokksins. Hvað á hann við. Sigmund Davíð formann? Ef hann er endurnýjunin þá byggist hún á því að fara aftur til fortíðar, ef tekið er mið af SD á Alþingi þá hefur þessi nýi foringi fært alla umræðu þar aftur til þeirra tíma fyrir áratugum sem orðhengilsháttur og þras þótti helsti aðall málafylgjumanna .
Og þá er aðeins eftir eitt furðulegasta fyrirbærið í borgarstjórnarpólitíkinni, Ólafur Magnússon. Mottóið í hans rökhyggju, bæði þegar hann fékk orðið eða gjammaði stöðugt fram í hjá þeim sem orðið höfðu, var "ég, um mig, frá mér, til mín". Satt best að segja fannst mér framganga Ólafs vera dapurleg og það er kominn tími til að hann fái endanlega lausn frá borgarmálum í Reykjavík. allavega lausn frá því að verakjörin fulltrúi. Það var ekki uppbyggjandi að sjá fyrir sér mann með Messíasar komplex á háu stigi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Örfá atriði í þetta skipti.
Það eru allir að berjast fyrir "að fjölga atvinnutækifærum". Í mínu ungdæmi gerðu menn sitt besta til "að auka atvinnu". Þetta sýnir í hnotskurn hvernig hugtök eru sett fram á nýjan hátt með fjölgun atkvæða. Í fyrra tilfellinu eru atkvæðin 10 en í því seinna 6. Þetta sýnir okkar málþróun. Þar fyrir utan er áferð setninganna þeirri fyrri í óhag finnst mér, en eru það kannski elliglöp?
Enn bendi ég þeim sem skrifa texta á, hvort sem það er á blogginu eða í öðrum fjölmiðlum, hve orðið "staðsett" er ofnotað og það spillir næstum alltaf textanum. Reynið næst að lesa yfir textann ykkar og athugið hvort orðið "staðsettur" kemur þar fyrir. Fellið "staðsettur" brott. Ég er ekki í nokkrum vafa að allir munu sjá að það er nær alltaf til bóta.
Ekki má gleyma garminum honum Katli. Íþróttafréttamenn segja gjarnan að "báðir" hafi skorað fimm mörk. Eftir mínum skilningi þá hefur hvor leikmaður skorað tvö og hálft mark, ekki satt.? Eða eiga bögubósarnir við að "hvor"leikmaður hafi skorað 5 mörk?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2010 | 14:43
Mikið umstang út af engu
Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Það er allt í lagi og enginn tístir einu sinni þó útlendingar eignist öll hlutabréf í Marel eða Össuri. En að útlendingar eignist HS-orku er ekki það sama og útlendingar eignist auðlindir Íslands, þær eru efir sem áður í eigu þjóðarinnar. Ég stórefa að það sé hagkvæmara fyrir neytendur að Árni Sigfússon stýri HS-orku frekar en Kanadamaðurinn. Það er lítill vandi fyrir útlendinga sem eignast nær öll hlutabréf í Marel eða Össuri að segja einn daginn "við viljum ekki hafa okkar fyrirtæki á Íslandi, við förum með það til Bangladess". Engin getur sagt neitt.
En hvað með HS-orku?
Það fer enginn með það fyrirtæki burtu af Íslandi. Það vinnur úr íslenskum auðlindum og fari það burt er enga auðlindaorku að hafa. Kaupendur orkunnar eru rótfastir á Íslandi, Suðurnesjamen, Álver sem verða ekki svo auðveldlega flutt burtu á einni nóttu.
Það er dálítið broslegt þetta upphlaup Vinstri grænna vegna kaupa Kanadamannsins á HS-orku. Þetta er búið að liggja fyrir lengi að það mundi gerast og HS-orka var þegar að miklu leyti í útlendri eigu. Ég held að upphlaup Vinstri grænna komi þessari sölu sáralítið við.Þarna eru pólitísk átök til heimabrúks, innan flokksins og gagnvart samstarfsflokknum.
Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að Ríkissjóður, sem á nánast eingöngu skuldir, fari að reiða fram 16 milljarða króna aðeins til að koma í veg fyrir að í stað þess komi 16 milljarðar í útlendum gjaldeyri inn í landið?
Ég mun sofa vært þó HS-orka sé í eigu Kanadamangsins, ekki ólíklegt að það væri æskilegt að fleiri íslensk fyrirtæki fengju slíkar útlendar vítamínsprautur.
En hvað um Vinstri græna? Það heyrist ekki hósti né stuna frá þeim um kvótamálið? Er allt í lagi þó þjóðin hafi verið rænd auðlind sinni, er það í lagi ef þeir sem rændu eru íslenskir og það langt fram í ættir og þar að auki rammasta afturhald semfyrirfinnst á landi hér?
Thor Jensen ætti varla nokkurra kosta völ að fá að nýta íslenska auðlind í dag. Var hann ekki danskur að uppruna, báðir foreldrarnir danskir og Thor fæddur í Danmörku?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.5.2010 | 17:34
Má ekki bjóða þér drullu úr dós?
Ekki veit ég hver fyrstur fann upp það þjóðráð að setja upp heitan pott, var það ekki Snorri Sturluson eða Guðrún Ósvífurdóttir? Heitir pottar urðu til í Kanada, Noregi og líklega í Sviss. Fyrstu heitu pottarnir í þessum löndum fylgdu vetraríþróttum og snjó. Sá galli fylgdi að þetta var dýr lúxus, vatnið varða að hita upp með rafmagni eða viði og þess vegna kom ekki til greina að kasta vatninu eftir hverja pottferð. En þá var hætta á hverskyns sýkingum og lausnin varð sú að setja í hvern pott dælu sem dældi vatninu í gegnum hreinsibúnað eins og gert er í sundlaugum. Þetta var ekki nóg frekar en í sundlaugunum, það þurfti klór í vatnið ásamt ýmsu öðru gumsi svo það er ekki fjarri sem einn góður maður sagði "það kostar mikla peninga að eiga og reka pott, það þarf að kaupa mikið af drullu í dósum". Þess vegna urðu heitir pottar í fyrrnefndum löndum og grannríkjum aldrei almenningseign, það voru aðeins þeir efnameiri sem eignuðust lúxusinn og þá helst þeir sem áttu fjallahús og stunduðu vetraríþróttir.
En svo uppgötvuðu menn að til var land sem hvorki þurfti að borga fyrir rafmagn eða drullu í dósum eða dýran hreinsibúnað. Það var landið þar sem heitt vatn spratt upp úr jörðinni, nær allir hituðu hús sín með heitu jarðvatni, sendu síðan vatnið undir bílastæðið til að halda því snjó- og hálkulausu.
Þetta land er í miðju Norður-Atlantshafi og heitir ÍSLAND.
Í þessu landi varð heiti potturinn almenningseign, stofnkostnaður lágur og reksturinn einnig, kostaði kannski 50 - 60 krónur hver áfylling, Síðan var vatnið látið renna sína leið og fyllt á aftur við næstu pottferð, enginn hreinsibúnaður, engin drulla úr dósum.
Þetta er ófögnuðurinn sem fylgir rafhituðum pottum.
Tveir íslenskir framleiðendur bjuggu til heita potta, svokallaðar skeljar og eru þær mjög víða við íslensk hús. En þessir tveir framleiðendur voru ákaflega lélegir sölumenn og markaðsfræði var þeim lokuð bók, nokkuð sem hefur verið mjög algengt fyrirbæri hér á landi um langan aldur.
Og það var ekki að sökum að spyrja; innflytjendur og seljendur lagnaefnis í hita og neysluvatnskerfi gripu gæsina. Þeir byrjuðu allir að flytja inn rafhitaða heita potta sem nær engin þörf var fyrir hér á landi nema í undantekningartilfellum, aðeins á þeim fáu stöðum sem ekki er kostur á jarðhitavatni. Hver um annan þveran fylltu þeir verslanir sínar af innfluttum rafhituðum pottum sem voru rándýrir, en þetta var að vísu á þeim tímum sem Ísland sigldi inn í þá hátimbruðu höll að verða mesta fjármálveldi heimsins. Og lagnasalar græddu morð fjár á trúgirni og snobbi landans.
Nú var ekki nógu fínt að sitja í skeljum frá Trefjum eða X-Norm sem í var aðeins hreint íslenskt vatn úr iðrum jarðar. Nú vildu allir vera ekki vera minna en "upper middle class" og ekki missa af unaði klórvatnsins.
Já, það er dapurlegt hvernig íslenskir lagnasalar og fleiri lukkuriddarar hafa leikið þessa þjóð. Sannfært hana um að hún verði að sitja í vatni sem er blandað drullu úr dósum og ég spyr að lokum:
Ætlar landinn að halda áfram að láta óprúttnar lagnaverslanir og lukkuriddara hafa sig að fífli?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.5.2010 | 23:33
Mættu nýnasistar haga sé á sama hátt á þingpöllum og í dómssal?
Lára Hanna Einarsdóttir er einn öflugasti bloggari hér á þessum síðum. Oft æði skörp en nú hefur hún tekið að sér að safna um sig hópi álitsgjafa sem eru henni hjartanlega sammála um "píslarvætti" óeirðaseggjanna sem ruddust inn á svalir á Alþingi, efndu þar til slagsmála og slösuðu starfsmenn þingsins.
Ég læddi þessari athugasemd inn hjá henni en ætla að láta hana koma hér fram í mínu eigin bloggi.
Þið ágætu álitsgjafar að framan. Snúum dæminu við og segjum sem svo að Alþingi hafi verið að fjalla um réttindi þeldökkra aðfluttra borgara með jákvæðum hætti, auka réttindi þeirra. Þá ræðst hópur nýnasista inn á svalir þingsalarins með háreisti og á endanum kemur til átaka milli starfsmanna Alþingis og nýnasistanna sem endar með að því nýnasistarnir slasa starfsmenn.
Væruð þið flest hér að framan tilbúin til að verja framgang nýnasistanna og þá einnig framgöngu þeirra í dómssal þegar mál þeirra yrði tekið fyrir þar?
Það hlýtur að vera, ef þið teljið ofbeldi og yfirgang við Alþingi, dómstóla og lögreglu réttlætanlegt þá hljóta allir að hafa sama rétt til slíkra aðgerða án tillits til skoðana, sama hver málstaðurinn er.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar