Færsluflokkur: Dægurmál
30.4.2010 | 09:38
Hvergi í stjórnskipunarlögum er gert ráð fyrir meirihluta og minnihluta, hvorki í sveitarstjórnum né á Alþingi
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2010 | 14:59
Ætlum við ekkert að gera í að endurskipuleggja stjórnsýslu landsins?
Gallarnir í stjórnskipun landsins æpa á hvern mann. Strax eftir hrun var það almenn krafa að kallað yrði saman stjórnlagaþing en nú virðist sú krafa haf þagnað eða hún þögguð niður. Þær raddir hafa komið frá Alþingi að það sé ófært að fara að kalla saman Jóna og Gunnur til að setja landinu nýja stjórnaskrá, það sé skýlaust hlutverk Alþingis.
Það er þá ekki úr vegi að rifja upp afrekaskrá Alþingis í því mikla verkefni; að setja landinu nýja stjórnaskrá. Þetta hlutverk var því falið strax við lýðveldisstofnunina 1944 eða því sem næst og til að vera sanngjarn er sjálfsagt að rifja upp hvað þessi merka stofnun hefur gert. Alþingi hefur kjörið Stjórnarskrárnefndir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég held. En út úr því starfi hefur ekki komið nokkur skapaður hlutur, engar tillögur, engar hugmyndir.
Brotalöm
Mér finnst augljóst hvar brotalöm er fyrst og fremst í stjórnskipuninni. Í núverandi skipulagi hefur Alþingi látið kúga sig svo algerlega að það er ekki orðið annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn (framkvæmdavaldið) á hverjum tíma. Á því hefur engin breyting orðið eftir að núverandi Ríkisstjórn tók við. Þessu reyna alþingismenn að mæta með því að stunda malfundaæfingar af kappi, því meira sem sagt er því minna af viti. Fullyrt var í fréttum í dag að þingmannfrumvörp yrðu að fá blessum ráðherra til að fá umræðu og kannski afgreiðslu á þingi.Efling Alþingis mikil nauðsyn
Ég ætla að leyfa mér að koma með þá tillögu að framkvæmdavaldið (Ríkisstjórn) og löggjafarvaldið (Alþingi) verði aðskilið þannig að Alþingi verði ekki framvegis afgreiðslustofnun fyrir Ríkisstjórn. Óneitanlega kemur upp í huga sú róttæka tillaga Vilmundar Gylfasonar að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu. Á þann hátt erum við að fjarlægjast þingbundnar Ríkisstjórnir, en þau tengsl þarf þó ekki að slíta að fullu. En eitt er höfuðnauðsyn; ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi, þeir eiga að sinna sínum störfum en mæta fyrir Alþingi og einstökum þingnefndum þegar þeir eru þangað kallaðir. Tveir þingmenn, Siv Friðleifsdóttir og Björgvin Sigurðsson, hafa lagt fram tillögur að breyttri stjórnskipan. Hvorutveggja tillögurnar, Sivjar um að þingmen afsali sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar og tillaga Björgvins um að gera landið að einu kjördæmi, eru kák eitt ef ekki kemur meira til. Ef ráðherrar eiga að segja af sér en sitja a samt á þingi þá getur lítill flokkur, segjum Framsóknarflokkurinn, stóraukið fjölda sitjandi fulltrúa á Alþingi eigi hann aðild að Ríkisstjórn. Ef landið er gert að einu kjördæmi er flokksræðið algjört, ég vil heldur una við það að einhver hafi tvöfaldan atkvæðisþunga. En það má leiðrétta þó landið sé ekki eitt kjördæmi.
Skipun Ríkisstjórnar
Vel má vera að við höldum í þingræðið en gerum a því endurbætur. Með því eins og sagt er að framan að ráðherrar sitji alls ekki á þingi. Þannig er sá möguleiki opnaður að ráðherrar séu ekki síður valdir utan þings en innan. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur staðið stjórnlandsins fyrir þrifum að það sé nánast skylda að ráðherrar séu ætíð valdir úr hópi þingmanna. Hefur það sýnt sig á umliðnum árum að þar sitji endilega hæfasta fólki?
En þetta er aðeins brot af því sem þarf að endurbæta, það gerist ekki nema við hugsum málið og komum með hugmyndir, jafnvel djarfar hugmyndir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.4.2010 | 09:17
Húsasmiðjan er málsfarssóði eins og fjölmargar aðrar verslanir
Í dag, á sumardaginn fyrsta, er opnuauglýsing frá Húsasmiðjunni í Fréttablaðinu. Rétt hefði verið að skanna fyrirsögnina og birta hana þannig en ég ætla ekki að eyða tíma í það. En fyrirsögnin er þessi:
TAX FREE
sumardaginn fyrsta!
AF REIÐHJÓLUM OG LEIKFÖNGUM
Setningin er ruglingsleg, auk þess hef ég aldrei skilið hve útlendar slettur eru orðnar algengar í auglýsingum verslana að ég ekki tali um málfar fólks í viðtölum í ljósvakamiðlum. Þar sýnist mér að sletturnar versni eftir því sem menntunarstigið er hærra.
Hvað er svona heillandi við að auglýsa TAX FREE, hvers vegna ekki að auglýsa VASK FRÍTT, Það gæti gengið eftir íslenskum málvenjum, styttingin Vaskur af Virðisaukaskattur hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt. Af hverju er svona miklu fínna að auglýsa OUTLET, hvers vegna ekki að nota gamla góða íslenska orðið ÚTSALA.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að málfarssóðarnir eru ekki í verslununum. Þeir eru í auglýsingastofunum. Þar sitja menn og konur sem hafa orðið hjarðmennskunni að bráð, þegar ein beljan mígur verður öllum mál.
En þeir sem auglýsingarnar kosta eiga að vera á verði og gera kröfur um að auglýsingar þeirra séu á góðu og gildu íslensku máli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2010 | 14:14
Sigmundur Davíð rassskelltur í skoðanakönnun
Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokka og Ríkisstjórnar er merkilegt um margt. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir tapa fylgi frá síðustu skoðanakönnun og tæplega er hægt að búast við öðru eins og ástandið var um það leyti sem skoðanakönnunin var tekin. Ég er ekki í nokkrum vafa að þar eru þrjú mál helstu orsakavaldar.
1. ICESAVE. Almenningur er orðinn yfir sig þreyttur á þessu máli og það alvarlegasta er að mikill fjöldi fólks skilur hvorki upp né niður í því, það er engin furða. Minnið er stutt og fjölmargir eru búnir að gleyma því hvernig þetta mál varð til. Fjölmargir eru búnir að gleyma því að orsökin er einkavæðing (les gjöf) forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til helstu fjárglæframanna og gæðinga sinna flokka ásamt því hömlulausa frelsi sem þessum einkabönkum var gefið.
2. Sú skelfilega bóla sem þandist út í kjölfar hrunsins í skuldstöðu allra sem skulduðu á Íslandi og oftast hefur verið kallað "Skuldastaða heimilanna"er mikil orsök, en rétt er að muna að þetta ástand hefur einnig hitt fyrir stóran hluta íslenskra fyrirtækja Þetta orsakast aðallega af tvennu; a) lánum sem miðast við erlenda mynt b) vísitölutrygging skulda. Risstjórninni hefur verið ásökuð fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við þessum gífurlega vanda hins venjulega Íslendings og það má taka undir það. Hún gat brugðist miklu hraðar við og sýnt meiri stjórnun. Vissulega er búið að gera ráðstafanir til að bjarga mörgum, það þekki ég persónulega. En síðustu ráðstafanir sem Ríkisstjórnin hefur boðað eru mikil réttarbót fyrir hinn venjulega mann. Ég við enn og aftur undirstrika, eins og ég hef gert áður, að það verður aldrei hægt að bjarga öllum, sumir munu missa allt sem þeir eiga og hefði líklega misst allt þó ekkert hrun hefði orðið. En þeir eiga einnig sinn rétt til að lifa í framtíðinni við þolanleg kjör. Það á ekki að gefa skuldheimtumönnum og fjármálastofnunum rétt til að halda þessu fólki í fátækragildru ár eða áratugi fram í tímann. Með þeim ráðstöfunum sem Ríkisstjórnin er nú að gera á að vera girt fyrir það. Að standa uppi eignalaus er skelfilegt, það þekki ég einnig persónulega. En að vera hundeltur árum saman er ennþá verra, það þekki ég einnig. Ég bjó við það að banki og Skattheimta ríkisins voru með mig í sínum greipum í meira en ártug eftir að ég hafði misst allt. Ég vona að enginn þurfi að lifa slíku lífi og ég held að nú séu að renna upp mannúðlegri tímar.
3. Órólega deildin hjá Vinstri grænum hefur valdið miklum skaða. Ögmundur springur á limminu og er hylltur sem hetja að öfgafólki til hægri og vinstri. Ég þarf ekki að lýsa því nánar, hér áundan er sérstakur pistill um það efni. Sú hugmynd að dekstra Ögmund aftur í ráðherrastól hefur kannski ekki kostað Vinstri græna svo mikið í þessari skoðanakönnun. En ég er ekki í nokkrum vafa að margir góðir og gegnir jafnaðarmenn eru að refsa Samfylkingunni, þetta spil í kringum prímadonnuna Ögmund var of beiskur biti til að margt Samfylkingarfólk, og þar á meðal ég, geti kyngt honum.
Skoðum meira í þessari mjög svo merkilegu skoðanakönnun. Hún sýnir mikla sókn Sjálfstæðisflokksins og það ætti ekki að koma svo mjög á óvart. Þarna er Sjálfstæðisflokkurinn að fá fylgi sem byggist engan veginn á verðleikum Bjarna Benediktssonar eða annarra forystumanna flokksins. Þarna birtist að fjölmargir fylgjendur Samfylkingarinnar og reyndar "skynsama" hluta Vinstri grænna eru að refsa sínum flokkum, ekki síst fyrir samstöðuleysið sem orsakast af órólegu deildinni í VG og "kóngalátum" Ögmundar. Ég endurtek enn og aftur; þá var mér nóg boðið.
En skoðum þá eitt. Ef þetta er rétt greining hvers vegna kemur þetta ekki fram í aukningu hjá Framsóknarflokknum?
Þetta er það athyglisverðasta við þessa skoðanakönnun. Þessi niðurstaða sýnir hve mjög nýbakaður formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð, er rúinn öllu trausti. Þetta sýnir að almenningur í þessu landi lætur ekki hvað gapuxa sem er vaða uppi með stóryrði og bakferli, lætur ekki bjóða sér endalaust lýðskrum eins og Sigmundur Davíð hefur haft í frammi frá þeim fyrsta degi sem hann hefur starfað sem formaður Framsóknarflokksins. Enginn ungur maður, sem komið hefur inn í íslenska pólitík frá hruninu, hefur fengið annað eins tækifæri til ná tökum á sínu hlutverki, koma fram sem víðsýnn framtíðarleiðtogi, leiðtogi sem hóf sig upp fyrir það skelfilega argaþras sem mörgum, og það með réttu, finnst íslensk stjórnmál veru sokkin í.
En Sigmundur Davíð hélt að með því að stunda pólitískan smásmugulegan skotgrafahernað gæti hann orðið stór kall í íslenskri pólitík og fékk fullkominn frið til að stunda þann leik. Hann hafði fullan og óskoraðan stuðning þeirra Höskuldar, Vigdísar og Eyglóar þingmanna til að verða hælbítur en ekki leiðtogi. En rödd Höskuldar virðist þögnuð, lítið heyrist í Vigdísi. En Eygló kom mér á óvart þegar hún kom fram í Kastljósi til að ræða nýjustu ráðstafanir Ríkisstjórnarinnar í skuldamálum almennings, skyndilega var komin þingkona sem talaði af yfirvegun og málefnalega. Við skulum vona að þarna sé Eygló örlítið að opna augu fyrir því að moldvörpustefna Sigmundar Davíðs er dauðadæmd.
Þessi skoðanakönnun er rasskelling fyrir Sigmund Davíð og Framsóknarflokkinn. Það koma Alþingiskosningar fyrr eða síðar. Eina von Framsóknarmanna er sú, ef þeir vilja ná einhverjum árangri þar, er að losa sig við þann mann sem ég hef leyft mér að nefna versta "maðk" sem komið hefur inn í íslenska pólitík á síðustu árum.
Sá maður heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Það var hann sem réði því að við tókum ekki tilboði Breta og Hollendinga eftir áramótin um mikla lækkun á vaxtabyrði á ICESAVE. Ég hef að framan skrifað pistil um þetta moldvörpustarf Sigmundar Davíðs. Ef við hefðum samið á þessum nótum værum við laus úr ICESAVE spennitreyjunni. Við komumst ekki hjá því að greiða þessa skuld, en núna hangir þetta mál ófrágengið yfir okkur.
Getu Sigmundur Davíð skýrt fyrir okkur hvað það mun kosta okkur?
Sjálfstæðismenn ættu að stíga varlega til jarðar. Sú háa súla sem þeir sjá bláa á síðum Fréttablaðsins er ekki vegna þess að þeir njóti svo mikils álits og traust. Fylgi í skoðanakönnun, sem byggist á tímabundinni óánægju með aðra flokka, tollir illa í húsi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.3.2010 | 17:21
Hvað ætlast þingemnn fyrir með því að fara að krukka í stjórnskipunina handahófskennt?
Tvö þingmannafrumvörp hafa litið dagsins ljós á hinu há Alþingi um stjórnskipan landsins. Annað leggur til að þeir þingmenn, sem taka við ráðherraembættum, láti af þingmennsku og varamenn taki sæti þeirra. Hinsvegar virðast þeir þingmen sem verða ráðherrar að sitja á þingi áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Hinsvegar er frumvarp um að gera landið að einu kjördæmi til að tryggja að vægi allra atkvæðisbærra einstaklinga hafi nákvæmlega sama vægi hvort sem þeir búa í Reykjavík, Rauðasandi eða Raufarhöfn
Hvað gengur þeim þingmönnum til sem með þessu vilja fara að krukka í stjórnskipunina?
Það er eins og hin sterka krafa um stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár og þar með stjórnskipun landsins sé týnd og tröllum gefin, að minnsta kosti virðist þessi krafa vera týnd hjá þeim alþingismönnum sem að þessu "krukki" standa. Það er engin lausn að þeir alþingismenn, sem verða ráðherrar, láti af þingmennsku og varmenn þeirra setjist á þig. Lítill flokkur fær ekki lítinn liðstyrk ef hann á aðild að ríkisstjórn, hann gæti jafnvel tvöfaldað þá sem sitja fyrir flokkinn á Alþingi þó atkvæðisbærum hafi ekki fjölgað. Þetta þarf að skoða miklu betur og ég er í grundvallaratriðum sammála því að aðskilja löggjafarþingið og framkvæmdarvaldið betur en gert hefur verið. Ég álít að þeir sem eru ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn og ekki nóg með það; þeir eiga alls ekki að sitja á þingi en þingnefndir eiga að kalla þá fyrir þegar ástæða þykir til.
Að gera landið að einu kjördæmi án nokkurra annarra rástafana er neyðarúrræði sem þó líklega þarf að grípa til, en ekkert mun efla flokksræðið meira en sú gjörð. Hinsvegar má fara blandaða leið og jafnvel skoða að á landinu verði nokkur einmenningskjördæmi jafnframt til að flokksræðið verði ekki algjört.
Báðum þessum tillögum á að kippa til baka, þær eru engan veginn tímabærar. Slíkar breytingar eru hluti að miklu stærra máli, stjórnskipaninni í heild og endurskoðun stjórnarskrárinnar. Af hverju hefur það mál algjörlega lognast út af, við eigum að krefjast stjórnlagaþings nú á þessu ári svo að unnt sá að vinna að alefli að stjórnlagaumbótum. Þær eiga að vera komnar til framkvæmda í næstu þingkosningum ef þær verða á eðlilegum tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2010 | 16:54
Froðufellandi Sigmar gegn Árna Páli félagsmálaráðherra
Það var mjög eftirminnilegt viðtalið sem Sigmar í Kastljósi átti við Árna Pál félagsmálaráðherra um leiðréttingar á gengistryggðum bílalánum. Það hefur lengi verið gagnrýnt, og það með réttu að nokkru leyti, að meira sé gengið að og meiri ábyrgð sett á skuldara en lánveitendur, og það er talsvert til í því. Nú hefur Árni Páll skorið upp herör gegn þeim sem lánuðu villt og galið fé til bílakaupa og ég hef verið einn af þeim sem hefur fundist að það hafi verið krafan að öllum skuli bjargað hve óskynsamlega sem menn höguðu sér í lántökum fyrir hrunið og fjölmiðlar hafa tekið undir það að meiri ábyrgð ætti að leggja á lánveitendur. Það er einmitt það sem Árni Páll stefnir að með aðgerðum sínum að krefja lánveitendur um lækkun höfuðstóls bílalána jafnveð ganga svo langt að þessir einu og sönnu sem lánuðu til bílakaupa emja og veina og segjast sjá fram á gjaldþrot.
En í gærkvöldi gerðist nokkuð athyglisvert í Kastljósi. Það mátti segja að Sigmar fréttamaður missti algjörlega stjórn á sér og segja má að Árni Páll hafi tæpast fengið frið til að ljúka nokkurri setningu. Sigmar varð þarna næstum því sér til skammar. Þeir lántakendur eru til vissulega sem höguðu sér eins og þeir ættu heiminn og slógu endalaust lán, margir hefðu farið á hausinn þó ekkert hrun hefði orðið. En ég held að fréttamann verði að halda sér ámottunni og koma fram af kurteisi en ekki froðufellandi bræði eins og Sigmar gerði í gærkvöldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2010 | 13:54
Á nú að fara að skríða fyrir prímadonnunni Ögmundi?
Það eru þokkalegar fréttir sem berast með fjölmiðlum. Ríkisstjórnin og hennar eindregnu stuðningsmenn telja að það sé haldreipið að taka Ögmund aftur inn í stjórnina. Á ég að trúa því að flokkssystkini mín í Samfylkingunni séu svo skyni skroppin að þau láti sér detta það í hug að það styrki Ríkisstjórnina að gera Ögmund aftur að ráðherra?
Mitt álit á Ögmundi Jónassyni þingmanni Vinstri græna er að þar fer egóisti sem fyrst og fremst hugsar um sjálfan sig en reynir að dylja það með hástemmdum orðum um að hann sé svo mikill hugsjónamaður að hann gefi aldrei eftir sín prinsip. Ögmundur hélt hástemmdar ræður á þinginu og sagði að Ríkisstjórnin þyrfti að "skerpa" sína stefnu og tök á vandamálum. Ég held að það þurfi túlk til að koma kjarnanum í máli Ögmundar til skila. Þetta þýðir á mannamáli að Ríkisstjórnin verður að beygja sig í einu og öllu að vilja Ögmundar Jónassonar hvort sem hann verður innan eða utan Ríkisstjórnar. Eitt að því sem hefur gefið Ríkisstjórninni styrk og trúverðugleika er að hafa í sínum röðum tvo ópólitíska ráðherra þau Rögnu dómsmálaráðherra og Gylfa viðskiptaráðherra. Auðvitað er best að taka hvíslinu á götunni með varúð en eittvað hlýtur þetta einhversstaðar hafa komið til álita og umræðu að láta þau víkja. Það væri mikill missir fyrir Ríkisstjórnina að missa þau Rögnu og Gylfa, slæm skipti að fá Ögmund í staðinn, manninn sem hér eftir sem hingað til mun halda öllum í gíslingu svo hrapalega að stjórnin verður nánast óstarfhæf.
Ég held að þessi skrípalega þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram sl. laugardag hafi ekkert að segja fyrir líf eða dauða Ríkisstjórnarinnar, þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hefur engin áhrif hvorki hérlendis eða erlendis. Það sem skilur á milli lífs og dauða allra Ríkistjórna er að hún sé samhent og með samhentan meirihluta bak við sig.
Því miður hefur núverandi Ríkisstjórn hvorugt!
Innan Ríkistjórnarinnar á klofningsdeild Vinstri grænna öflugan fulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur, og ekki treysti ég Jóni Bjarnasyni yfir þröskuldinn. Klofningsdeildin í Vinstri grænum er orðin óhæf til samstarfs. Það er mikill skaði því innan þess flokks er margt úrvalsfólk og fer þar Steingrímur J. Sigfússon fremstur meðal jafningja. En eggin í hreiðrinu þurfa öll að vera hrein og blómleg en því er ekki að heilsa innan Vinstri grænna, fúleggin eru of mörg.
Ég hef þá trú að við komumst ekki heil út úr þeirri kreppu sem við erum í núna nema undir forystu Samfylkingarinnar.
Verður ekki Samfylkingin að fara að finna sér stuðning hjá öðrum en Vinstri grænum, þeir eru óhæfir til samstarfs vegna fúleggjana, best að viðurkenna það strax og vinna samkvæmt því.
3.3.2010 | 09:45
Ekki bíða eftir köldu húsi eða ökklavatni á gólfum
Svo er sagt í gömlum sögnum að margir máttu þola það, einkum á efri árum, að þeir færu ekki einir um götur, þeir hefðu eignastfylgjur sem nánast fylgdu viðkomandi hvert fótmál og létu jafnvel finna til sín þegar til hvílu var gengið. Þessar fylgjur gátu verið æði mismunandi, illgjarnar sumar en aðrar góðar og hjálpsamar. Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá svo aldurs vegna ætti ég jafnvel að hafa eignast fylgju, en samkvæmt skynsemistrú nútímans byggðist trú á fylgjur á einfeldni og trúgirni, aðalega undirmálsfólks.
En ég verð þó að játa á mig að fylgju nokkra hef ég eignast og skal ég segja frá því á síðum Morgunblaðsins enda kviknaði hún þar, kveikjan að henni fæddist 1992. Fyrir einhverja tilviljun örlaganna hóf ég þá að skrifa pistla sem nefndust Lagnafréttir. Þetta áttu ekki að verða margir pistlar en oft taka mál aðra stefnu en ætlað er. Þessi skrif stóðu vikulega næstum í 16 ár og urðu pistlarnir nær 700 að tölu. En það bærðist fleira að baki pistlanna en á yfirborði sást. Þeir virtust nokkuð mikið lesnir og þar með varð ég ósjálfrátt ráðgjafi fjölmargra húseigenda og húsbyggjenda.
Og ég fer ekkert leynt með það að líklega hafa 75% sem til mín leituðu verið konur. Þetta sýndi mér og sannaði að konur láta sig meiru varða hvernig heimilið þróast og eru opnari og skilningsríkari á það hvað þarf að lagfæra innan stokks og utan. En allt tekur enda og ég hætti þessum skrifum að mig minnir haustið 2008 og segi gjarnan að það féll fleira þá haustmánuði en fjármálakerfi þjóðfélagsins.
En þá gerist það óvænta. Þó skrifum sé lokið hef ég nokkra samfylgd áfram, það gerist enn að ég fæ póst á netinu, einstaka upphringingu og einstaka bréf þeirra eldri sem ekki eiga tölvu. Nú er það síður en svo að ég sé að kvarta undan því að til mín sé leitað enn, finnst það meira að segja hlýlegt og nokkur sönnun þess að margt sé gott sem gamlir kveða.
Nýlega frétti ég af skemmtilegu framtaki. Dagana 5. og 6. mars nk. verður sýning og upplýsingastefna í Smáralind, kjölfesta þessa framtaks er Múrbúðin. Sýning þessi ber nafnið Viðhald 2010 og er ætlað að veita sem mestri og bestri þekkingu til allra þeirra fjölmörgu sem þurfa á leiðbeiningum og ráðleggingum að halda um viðhald heimila og húseigna. Nú er lag, 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti af vinnulið út þetta ár, aldrei fleiri góðir iðnaðarmenn á lausum kili sem klæjar í lófana eftir að fá verkefni og síðast en ekki síst; fjölmörg hús eru að grotna niður.
Þetta varð til þess að ég fékk hugmynd. Ef ég bý yfir einhverri reynslu og þekkingu sem komið getur að gagni þá ákvað ég að mæta á staðinn og rabba við gott fólk á sama hátt og þegar mínir gömlu og góðu góðu lesendur höfðu samband við mig, ég vona að ýmislegt af þeim ráðum hafi komið að gagni.
Ég ætla að vera til taks á sýningunni Viðhald 2010 í Smáralind 5.- 6. mars, kannski er ég undir áhrifum gamallar góðrar fylgju.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2010 | 12:15
Veit fólk ekki í hvaða landi það býr?
Enn og aftur fáum við fréttir af fólki sem æðir upp um fjöll og firnindi þó spáð sé bandvitlausu veðri og það á þeim árstíma sem búast má við hverju sem er veðurfarslega, ekki aðeins á hálendinu heldur einnig í byggð. Nýlegar hörmungarfréttir eru enn ofarlega í huga og ég minnist fólks sem björgunarsveitir náðu heilu á húfi til byggða á árum áður, fólk sem komið var til jökla með smá börn. Og undantekningarlaust var þessum angurgöpum tekið sem hetjum af fjölmiðlum, sérdeilis þó sjónvarpstöðvum.
Í gærkvöldi kom frétt um að fjölmargir væru strandaglópar í Borgarnesi, ófært með öllu undir Hafnarfjalli og engin leið að komast áfram til norðurs eða vesturs. Það sem þó ótrúlegast var að þarna voru yfir 100 nemendur úr Víðstaðskóla í Hafnarfirði sem voru á leið til Akureyrar.
Ég spyr: Hvað er ámilli eyrnanna á forráðmönnum Víðistaðaskóla að samþykkja að hundrað nemendur skólans og rúmlega það fái að leggja í slíka ferð þó komið hafi fjölmargar veðurspár og viðvaranir um að fólk skyldi halda sig heima og ekki leggja í nein ferðalög. Þessum viðvörunum var sératklaga beint til íbúa á Vesturlandi, Suð-Vesturlandi og Suðurlandi.
Eru forráðmenn Víðistaðaskóla bæði sjón- og heyrnarlausir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2010 | 11:05
Sigmundur Davíð hafði sitt fram og eyðilagði síðustu von okkar að losna úr ICESAVE martröðinni
Það náðist 100% samstaða allra íslenskra stjórnmálaflokka í ICESAVE málinu eins og Hollendingar og Bretar sögðu forsendu þess að unnt væri að leiða þetta mál til lykta. En sú samstaða er ekki um lausn ICESAVE heldur þvert á móti; lokatilboðinu að utan var hafnað og þarf ekki að fara í grafgötur um hver þar réði ferð. Að sjálfsögðu var það formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, einhver hættulegasti maðkur sem komist hefur til áhrifa í landsmálum hérlendis. Ekki þarf að efast um að þar hefur Sigmundur Davíð átt góðan bandamann í Birgittu Jónsdóttur frá þeim rústum sem eftir eru af Borgarahreyfingunni sem öllu ætlaði að bjarga. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei sýnt neina reisn í þessu máli, kom fram fyrir sjónvarsvélar og lýsti yfir fylgisspekt og hollustu við Sigmund Davíð. Þannig tókst stjórnarandstöðunni að svínbeygja þau Steingrím og Jóhönnu; þau áttu engra kosta völ en að fylgja þeim sem ósveigjanlegastur var, Sigmundi Davíð. Það gera þau tilneydd, ef þau hefðu ekki gert það hefði engin samstaða verið milli stjórnmálaafla á Íslandi eins og var grundvallarkrafa Hollendinga og Breta. Svo vissum við reyndar ekki upp á hverju ólíkindatólið á Bessastöðum tæki.
Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þetta tilboð að utan var lokatilboð. Í báðum löndunum er pólitísk upplausn, Hollenska stjórnin fallin, þar er nánast stjórnlaust land, kosningar framundan í Bretlandi og þar af leiðandi verður ekkert við okkur talað á næstu mánuðum. Nú hlakkar í Sigmundi Davíð sem lýsti því glottandi í sjónvarpi að líklega yrði ekkert rætt frekar um lausn málsins fyrr en í fyrsta lagi næsta haust.
Á meðan blæðir Íslandi, allt situr fast í okkar mikilvægustu málum; að koma atvinnulífinu á skrið, að fá það fjármagn sem okkur hefur verið lofað, að ráðast i virkjanir, orku verðum við að fá, að laða að útlenda fjárfesta sem munu sneiða hjá Íslandi meðan ICESAVE ófreskjan hangir yfir okkur.
Ég endurtek þá eindregnu skoðun mína: Það voru hrapaleg mistök að taka ekki því tilboði sem okkur barst frá Hollendingum og Bretum. Það hljóta allir að sjá að hér var um lokatilboð að ræða, þessar tvær þjóðir hafa enga burði né áhuga á að ræða við okkur um þessi mál frekar, allt bendir til langvarandi málaferla sem getur stórskaðað enn frekar íslenska hagsmuni.
Það verður okkur dýrkeypt að hafa lent í klóm gersamlega samviskulauss manns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarlokksins. Ég sé ekki nema eina lausn framundan til að frelsa land og þjóð frá þessum manni, að vísu daufa von: Að enn finnist svo heiðarleg og atkvæðamikil öfl innan Framsóknarflokksins að þau losi land og þjóð ( og flokks sinn) við þennan samvikulausa karakter Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Það er augljóst að hann á trygga samherja, "ungstirnin" Vigdísi og Eygló alþingiskonur og fram til þessa Höskuld Þórhallsson en það er athyglisvert að frá honum hefur ekkert heyrst að undanförnu.
En ég kalla eftir tveimur einstaklingum, þingmönnum Framsónarflokksins: Hvar eru þau Guðmundur Steingrímsson og Siv Freiðleifsdóttir? Ætla þau að láta Sigmund Davíð, ekki aðeins eyðileggja Framsóknarflokkinn, heldur einnig rústa þá björgun sem stendur yfir í þjóðfélaginu?
Ég óska Össuri utanríkisráðherra góðrar ferðar á fund utanríkisráðherra Bandaríkjanna Hilary Clinton. En ég get alveg sagt honum það strax að þá ferð getur hann alvega sparað sér. Hilary Clinton hefur ekki nokkurn áhuga á þessari litlu eyju í Norðu-Atlantshafi sem heitir Ísland. Hún mun ekki hafa nokkurn áhuga á hvernig okkur farnast hérlendis. Hún hefur fangið fullt af hrikalegum vandamálum; klúðrinu í Afganistan og manndrápunum þar, ruglukollana í Íran, gjöreyðilagt þjóðlíf í Írak og opinberar morðingjasveitir í Ísrael.
Svo skulum við ekki gleyma áhrifunum frá Hádegismóum. Þar situr gamall bitur maður sem hugsar um það eitt að ná sér niðri á gömlum andstæðingum og jafnvel fyrri samherjum. Það væri betur ef menn gerðu sér grein fyrir hvar maðkarnir leynast í moðinu.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar