Björk er stórkostlegur listamaður en skilningsvana aftuhaldssinni í þjóðmálum

Björk Guðmundsdóttir hefur stofnað til átaks til að berja í gegn að kaup Kanadamannsins á Magma Energi á Suðurnesjum verið ógilt og þá líklega á þann hátt að Ríkið yfirtaki kaupin, eða er ekki svo?. Ekki veit ég hvaðan okkar févana ríkissjóður á að fá peninga til að snara út fyrir Magma Energi eða er einhver ástæða til að ógilda þessi kaup? Ég held að Björk og hennar meðreiðarsinnar ættu í fyrsta lagi að lesa það sem dr. Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Marorku segir í Fréttablaðinu í gær og það sem Magnús Orri Schram alþingismaður segir í Fréttablaðinu í dag. Báðir benda á dökkar hliðar þess að rifta samningum við Magma Energi þar sem það hefði hrikalegar afleiðingar og mundu svipta okkur trausti á erlendum vettvangi, trausti sem við þurfum svo sárlega á að halda nú.

Ég held að það sé engin stórhætta á ferðum þó Kanadamaðurinn hafi eignast Magma Energi, tel jafnvel að það tryggi góðan rekstur fyrirtækisins og örugga afbendinu orku á ekki verri kjörum en hingað til fyrir Suðurnesjamenn. Þarna er um að ræða lítinn hluta af orkuframleiðslu þjóðarinnar og sú bábilja virðist hafa komist inn í mörg höfuð að þarna séum við að fórna auðlind en því fer víðs fjarri. Þarna fær fyrirtæki einkarétt á að framleiða orku í 65 ár og það er nákvæmlega það sama og Landvirkjun fær rétt til: að nýta okkar sameiginlegu orkuauðlindir í fallvötnunum, Orkuveita Reykjavíkur fær sama rétt á Hengilsvæðinu. 

Gægist ekki þarna fram þessi gamla óvild og ótti við útlendinga? 

Björk hefur ekkert sagt um hrikalegasta ránið á auðlindum okkar þjóðar, það virðist ekki hafa haldið vöku fyrir henni að fiskimiðin og fiskurinn í sjónum er ekki lengur í eigu þjóðarinnar heldur í eigu klíku sem nefnist Landsamband íslenskra útvegsmanna. Aldrei hefur annað eins skemmdarverk verið unnið á eigum þjóðarinnar eins og þegar örfáum mönnum, eða fjölskyldum, var afhent þessi auðlind endurgjaldslaust. 

Björk, ertu efins um að ég fari með rétt mál?

Er það ekki rétt að allur fiskur úr sjó er veiddur af þeim sem eiga hann, þeir eru búnir að bókfæra þessi réttindi sem sína eign, þeir selja hann hver öðrum, leigja  hver öðrum og kaupa  hverjir af öðrum. 

Og hvað koma útlendingar að þessu? Eru þetta ekki allt Íslendingar, það er nú eitthvað annað ef okkar eigin þjóðbræður hirða af okkur auðlindirnar. En það er ekki svo vel. Íslenskur sjávarútvegur er skuldum hlaðinn vegna þess að þegar einhver hættir í greininni selur hann öðrum sem eiga skip og gera út "réttinn" fyrir fúlgur fjár og festa það fé i allt öðrum greinum eða eyða þessum peningum í lúxuslíf í með öðrum landeyðum á sólarströndum.

Já, en hvað með útlendinga, er þetta ekki alt í lagi meðan aðeins Íslendingar hirða af þjóðinni auðlindir hafsins? En svo er aldeilis ekki. Flestir útgerðarmenn eru búnir að veðsetja þessa sameign þjóðarinnar upp í topp, ekki aðeins hérlendis heldur einnig í útlendum bönkum og lánastofnunum. Hvað gerist ef illa fer í rekstrinum, fara þá ekki auðlindir hafsins beint til útlendinga, til útlendra banka?

Björk, þú ætlar að bjarga okkur frá Kanadamanninum sem kom með vel þegna fjármuni inn í íslenskt efnahagslíf og ætlar að framleiða orku á Suðurnesjum í 65 ár landi  þjóðinni  til hagsældar. Hann eignast enga íslenska auðlind með því, ekki tekur hann hana með sér að nýtingartíma liðnum. Þú hugsar ekkert um það hvað skaða það mundi hafa í för með sér að rifta samningunum um Magma Energi. Og þú hefur líklega aldrei leitt hugann að því botnlausa sukki sem átt hefur sér stað með auðlindir hafsins.

Hvað var að gerast í Sjávarútvegsráðuneytinu í gær?

Þar mætti öll útgerðarmafía , allt forystulið Landsambands íslenskra útvegsmanna og vel það.

Hver var ástæðan?

Að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra gaf veiðar á úthafsrækju frjálsar. Það var verið að taka spón úr aski þeirrar klíku sem í dag telja sig eiga allan fisk í íslenskri landhelgi og utan eins og sjá má. Þetta gæti kostað það að einhverjir utan klíkunnar færu að veiða úthafsrækju.

Og það verður að koma í veg fyrir það með öllum ráðum, þetta minnir svolítið á vissa athafnamann sem áttu ákveðin hverfi í stórborgum Bandaríkjanna og Ítalíu, einkarétt þar að eigin áliti til "athafna".

Björg, ég hef alltaf haldið upp á þig allar götur frá því þú varst að sniglast með mömmu þinni barn að aldri hjá Leikfélagi Kópavogs forðum daga. En umfram allt; hugsaðu og kynntu þér mál áður en þú talar og grípur til aðgerða. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Sigurður Grétar.  Innilega sammála með fiskimiðin og vildi gjarna sjá söngkonuna tjá sig um þau óheillamál öll.  Magmamálið og skúffan í Svíþjóð endurspeglar í raun langvarandi ódug stjórnvalda til heildrænnar löggjafar um auðlindir, löggjafar sem er skýr og endurspeglar hagsmuni þjóðarinnar í bráð og lengd.

LÁ 

lydurarnason (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 11:03

2 identicon

Thad er nú samt óttalega kjánalegt ad binda sig í 65 ár!!  Ef thessi adili getur graett á thessum orkusamningi thá gaeti thjódin graett á orkunni sjálf og tharf tví ekki ad afsala sér rétti sínum til orkunnar.  Vid vitum ekki hve orkan verdur verdmaet á morgun og thess vegna er kjánalegt ad binda thjódina í áratugi.  Vid svona samningagerd thar sem hagsmunir eru miklir er einnig stórkostleg haetta á spillingu.

Slappa af (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 12:49

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ekki ert þú einn fárra Sigurður sem ekki hefur fattað það að Magma ætlar að láta íslendinga sjálfa fjármagna kaupin á HS ? ÞAÐ ER EKKERT FJÁRMAGN AÐ KOMA TIL LANDSINS Í GEGNUM MAGMA.

Óskar Þorkelsson, 20.7.2010 kl. 13:43

4 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Þarna kemur enn einu sinni fram sá grundvallarmisskilningur að við séum að afsala okkur auðlind eða orku. Er íslenska þjóðin að "græða" á orkunni?. Er ekki Orkuveita Reykjavíkur í hrikalegum fjárhagsvandræðum og hvernig hefur gengið að láta hitaveitur landsins bera sig fjárhagslega? Það er sama hver vinnur orkuna og selur hana, ef það á að vera algjört skilyrði að þar megi útlendingar aldrei koma að þá þarf að setja það í lög sem er reyndar ekki framkvæmanlegt. Ef íslendingar vilja umfram allt eiga og reka öll orkufyrirtæki þá verðum við að leggja fram það fjármagn sem til þess þarf.

Orkuuppsprettan verður á sínum stað, það hefur enginn útlendingur eignast hana. En við þurfum fjármagn til að virkja orkuna og hvernig hefur Landsvirkjun gert það? Með hrikalegum lántökum sem líklega eru hættulega miklar. Eru ekki útlendingar á bak við þau himinháu lán? Hvaðan kom fjármagnið?

Eigum við ekki að freista þess að ná áttum í þessu Magma Energi máli. Kanadamaðurinn hefur aðeins rétt til að framleiða orkuna og selja síðan, hvort það er hann, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun eða Sveitarfélögin á Suðurnesjum skiptir ekki svo miklu máli. Hins vegar skiptir það miklu máli að þarna koma inn miklir fjármunir og áhættan er ekki okkar heldur Kanadamannsins.

Nú er okkar ágæti iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir að reyna að róa æsingaliðið. Hún segir réttilega að ekki komi til greina að ógilda samninginn við Magma Energi en hún ætlar að freista þess að stytta nýtingartímann úr 65 árum í 45 ár og að fá forkaupsrétt að hlutabréfum Magma Energi. 

Gleymum því samt ekki að til þess að virkja orkuna á Íslandi þarf fjármagn. Fram að þessu hefur það verið gert með útlendum lánum.

Og hver er áhættan þar fyrir þjóð sem reynir að lafa með handónýtan gjaldmiðil sem ekki nokkur þjóð önnur vill líta við. Hvaða áhætta er það að virkja orku á Íslandi með útlendum lánum?

Því getur Orkuveita Reykjavíkur svarað.

Og að lokum til þín "Slappa af" Það er sama hver ætlar að "græða" á orkunni, til þess að svo megi verða þarf sá hinn sami að leggja fram mikið fjármagn. Hvort það er útlent lánsfé eða útlend fjárfesting þá er það ekki okkar peningar, við eigum þá ekki til. 

Hvort er skysamlegra; útlent lán eða útlend fjárfesting? Hvoru fylgir meiri áhætta? Ætli mest af "gróðanum" hafi ekki farið á undanförnum árum í að standa undir útlendum lánum?

Sigurður Grétar Guðmundsson, 20.7.2010 kl. 13:54

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Þannig að þín vegna mætti alveg selja t.d. Landsvirkjun og OR, orkuver þeirra og nýtingarrétt, til erlendra einkafyrirtækja?

Væntanlega allt í lagi að Kínverjar fjármagni og byggi með kínverskum verkamönnum næstu stóru fallvatnsvirkjun, sem verði svo seld kanadískum námueiganda, sem selur svo orkuna til stóriðjuverksmiðju í eigu bandarísks stórfyrirtækis...

Skeggi Skaftason, 20.7.2010 kl. 16:08

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ehem - þarna seilist þú langt með því að bera nýtingarrétt LV við nýtingarrétt fyrirtækis Ross Beatty.

  • Mín skoðun er að leiga til 65 ára + réttur til 35 ára framlengingar, sé alveg sambærileg við það þegar bandaríkjamenn tóku tiltekið landsvæði á leigu fyrir margt löngu á Kúpu til 99 ár og sytja þar enn sem fastast.
  • Slíkir leigusamningar eru langt - langt í frá að vera sanngjarnir.

-------------------

Þ.e. að setja málið á dreif, að halda því fram að þetta snúist um andstöðu gegn aðild útlendinga að jarðhitaverkefnum hérlendis.

  • Punkturinn er, að leigja til 65 + 35 ára.
  • Þá ertu de facto að selja auðlyndina sjálfa.

Allt annað væri, ef samningurinn væri til 25 + 15 ára, sem dæmi.

----------------------

Sannarlega á að vera heimilt fyrir útlendinga að fjárfesta hér - en þá skv. eðlilegum skilmálum.

  • Það krefst þess að þeir séu sanngjarnir.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 20.7.2010 kl. 20:45

7 identicon

Það er sorgleg staðreynd að fyrir löngu var lagt upp með plottið sem nú er orðið að veruleika.   Fyrirtækið var sett á laggirnar gagngert til að komast yfir nýtingarrétt orkuauðlyndarinnar. 

Ísland var skuldsett markvisst hvort sem það var með viðkomu sk "economical hitman" eða ekki.  Allt hefur gengið að óskum og ekki ósvipað og kemur fram í kvikmyndinni Draumalandinu. 

Orkufyrirtækin stóðu vel en fyrir ófyrirhyggju stjórnenda hefur verið ráðist í illa ígrundaðar og dýrar framkvæmdir langt umfram það sem efni eða ástæður stóðu til.   Skuldsett fyrirtækin neyðast þannig til að gefa út skuldabréf sem breytt er í hlutafélög eftir klækjaleiðum.    Þannig varð til sú staða sem við okkur blasir í dag.

Orkuveita Reykjavíkur er skuldsett og fyrir liggur gjaldskrárhækkun eða að leita annarra leiða við endurfjármögnun.

Endurfjármögnun á loftkastalaverkefnum sem hafa ekkert með hitaveituna að gera annað en að hitaveitan borgar brúsann. 

Viturlegast væri að brytja niður orkuveituna í grunneiningar og tryggja þannig rekstrargrundvöll hitaveitunnar en láta gæluverkefnin í  dótturfélög og ef þau ekki standa undir sér þá mun gjaldþrot þeirra ekki hafa áhfir á móðurfélagið.     Svo þarf að draga draumóramennina sem bollalögðu allan ráðahaginn til ábyrgðar.

Það þarf að tryggja almenningi í landinu afnot af landsins gæðum á hagstæðum kjörum.   Það eru raforkunet, hitaveita, fiskur og einhver landbúnaður.  Ferskt vatn og góðar samgöngur.   Skólakerfi, heilsugæsla og almenn velferð.   Þar fyrir utan er fullt af nýbyggingum og dugmikið og skapandi fólk.   Að halda það að erlent fjármagn skipti hér sköpum er barnaskapur.    Verið er að greiða úr þeirri flækju sem hlaust af gríðarlegum lántökum, skuldsetningu og bankahruni og mikilvægt að almenningur í landinu líði ekki frekar fyrir afglöpin.   Ísland á í vanda sem ekki verður flúinn og nú er aðeins verið að draga á langinn óhjákvæmilegt gjaldþrot þjóðarbúsins um leið og rækilega er tryggt að allir innviðir landsins fái að fuðra upp á bálinu sem einginn sér fyrir reyk. 

Auðlyndir allar ber að þjóðnýta við erfiðar aðstæður.  Það er heilbrigð skynsemi en einhverra hluta vegna vefst fyrir þingmönnum að festa það í lög.  Kannis er það of augljóst til að þess þurfi.

 Ef erlent fyrirtæki fær nýtingarréttinn á auðlyndinni þýðir það einungis að sá hagnaður sem auðlyndin aflar flyst úr landi til móðurfélagsins rétt eins og hagnaðurinn af álframleiðslunni í landinu og þannig geta Íslendingar notað restina af gjaldeyrinum sínum til að borga fyrir að kynda húsin sín.   Til hamingju Ísland með stjórnina sem þið hafið kosið ykkur.

Njótið nú síðustu daga sjálfstæðisins og að það skuli vera ókeypis í sund.  Þegar hitaveitan verður einkavædd er ekkert sem heitir ókeypis lengur.   Þið megið þakka fyrir að geta kynt húsin ykkar og það verður refsivert að dýfa fæti í heitar laugar á afréttum eða nýta annað sem heyrir undir nýtingarrétt stórfyrirtækjanna án þess að á móti komi sérstakt gjald til rétthafa auðlyndarinnar.

Það er mikilvægt að Íslendingar standi saman um þessar mundir, sem aldrei fyrr.  

GuðjónGunnarsson (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 22:27

8 identicon

Það er kannski spurning sem menn þurfa að svara, hvernig fór OR svona lóðbeint á hausinn? Þetta var peningaprentunarvél borgarinnar til margra áratuga. Á örfáum árum breyttist þessi gullnáma yfir það í að verða að einhverjum ruslahaug. Hvernig stóð á þvi? Varla tapaði OR svona miklu á því að pumpa upp heitu vatni, flytja það til borgarbúa og rukka fyrir það sanngjarnt gjald?

Hvenær hófust vandræðin? Væri ekki nær að skoða það?

hvað með Hitaveitu Suðurnesja? Þetta fyrirtæki borgaði sig upp á 30 árum. Síðan fer eitthvað ferli af stað, og fyrirtækið er á hausnum? Var það þessi hefðbundni rekstur, að flytja vatn og rafmagn til suðurnesja manna sem fyrirtækið hafði gert um áratugaskeið með góðum árangri sem olli þessu, eða var það kannski einhver önnur starfsemi, viðskipti við aðra kúnna en þá sem fyrirtækið hafði verið með í viðskiptum áratugina á undan sem ollu þessu?

Björk sagði það ORÐRÉTT að hún hefði ekkert á móti erlendri fjárfestingu. Þú hlýtur að hafa séð það? Hins vegar er aðkoma Magma ólögleg. Þar setti Björk punkt við þessa sögu.

joi (IP-tala skráð) 21.7.2010 kl. 09:25

9 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Að Björk hafi sagt það ORÐRÉTT að hún væri ekki á móti erlendri fjárfestingu ætla ég ekki að draga í efa, en þá fullyrðingu hef ég hvorki heyrt né séð.

Hvernig stendur á þessari hörmulegu stöðu Orkuveitu Reykjavíkur?

Það er laukrétt þetta var gullegg Reykjavíkurborgar lengst af.

Ástæðan er einföld. Gífurlegar lántökur OR og síðan hrunið sem tvö- eða þrefölduðu þessar útlendu skuldir. Þarna er ekki hægt að segja um neina ólöglega gerninga hafi verið að ræða; lánin voru tekin í útlendri mynt og þau skal borga til baka í sömu mynt. En í millitíðinni hrynur okkar gjörsamlega ónýta mynt, krónan, og þar með hrundi fjárhagur OR. Lánin skulu borgast í útlenskri mynt, en tekjur OR eru hin ónýta króna.

Þarna kemur glögglega í ljós að það er miklu meiri áhætta fólgin í því að taka án í útlöndum í útlenskum myntum en að leyfa útlendingum að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum að vissu marki. Segjum svo að útlenskir aðilar hefðu fjárfest í Orkuveitu Reykjavíkur, segjum eignast 15%, þá hefði OR fengið fjármagn en ekki þurft að taka lán sem því nam.

Staða OR væri allt önnur og betri ef það hefði verið gert og svo er hægt um hnútana að búa að þessu fylgi sáralítil áhætta. Hlutafé í fyrirtæki er og verður ætíð áhættufjármagn, ef illa fer tapar hluthafinn sínu fé en lánið er ætíð á ábyrgð fyrirtækisins.

Hvernig fór fyrir bönkunum? Þeir slógu endalaust lán í útlöndum og fóru algjöra kollsteypu. hverjir eiga Arion og Íslandsbanka í dag?

Það vitum við ekki, en eitt er víst; þessa banka eiga Íslendingar ekki nema að mjög litlu leyti heldur einhverjir útlendir vogunarsjóðir og þessi eign gengur kaupum og sölum án þess að við Íslendingar getum neitt við því gert.

Þetta sýnir okkur að það er miklu meiri áhætta fólgin í því að taka lán í útlöndum í þarlendum myntum en að leyfa fjárfestingu útlendinga að vissu marki í íslenskum fyrirtækjum. En því miður; það er búið að afvegaleiða umræðuna gjörsamlega; fjölmargir trúa því statt og stöðugt að við séum að selja auðlindir okkar svo sem jarðvarmann sem er alrangt. Óttinn við að útlendingar eignist hluti íslenskum fyrirtækjum er inngróinn í ótrúlega marga vegna stanslauss áróðurs gegn því að leyfa slíkt, en það virðist enginn hafa neitt við það að athuga að íslensk fyrirtæki geti tekið endalaust lán í útlendum myntum. Að vísu er það ekki hægt lengur, það vill enginn lána Íslendingum peninga. Og fjárfestar munu forðast okkur ef ekki fæst hér stjórnmálalegur stöðugleiki, ef við stöndum ekki við skuldbindingar okkar eða ef við ógildum samninga við útlendinga af einskærri móðursýki. Og ekki batnar það ef við drögum umsókn okkar að ESB til baka, þá er orðspor okkar Íslendinga að engu orðið á alþjóðlegum vettvangi.

Höfum við efni á því?

Joi, það sem þú nefnir að framan og spyrð hversvegna standi fyrirtækin svo illa er svarið það sama:

Lántökur í útlöndum í útlenskum myntum en tekjurnar í handónýtri mynt, krónunni, en gengi hennar hrundi eins og fleira í hruninu mikla í okt. 2008. 

Þú segir að aðkoma að Magma að kaupum á HS-orku sé ólögleg.

Hversvegna í ósköpunum lætur engin reyna á það fyrir dómstóum hvort svo sé? Hversvegna þessar upphrópanir, látum dómstóla skera úr um lögmæti gerningsins! 

Sigurður Grétar Guðmundsson, 21.7.2010 kl. 11:44

10 identicon

Gömlu valdastéttirnar á Íslandi hafa hamrað á landanum að fjárfestingar útlendinga á Íslandi séu af hinu vonda, þetta gera þær af ótta við að missa völdin. Það skiptir voðalega litlu máli hver nýtir auðlindirnar á Íslandi ef þeir sem nýta þær borga skatta og gjöld á Íslandi og ráða íslenkst starfsfólk.

Bjöggi (IP-tala skráð) 21.7.2010 kl. 14:05

11 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Bjöggi, þetta stutta innlegg þitt kemur að kjarna málsins. Ég held að þú hittir þarna naglann á höfuðið.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 21.7.2010 kl. 19:44

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Mikliir snilinngar þið 2.

  • Bjöggi talar um gömlu valdastéttirnar - segjum svo að það sé rétt, en hvað akkúrat er grundvöllur þeirra áhrifa?
  • Hann segir að engu skipti, hver akkúrat nýtir auðlindirnar en á sama tíma, kallar hann þá er það gera í dag, gömlu valdaséttirnar.
  • Þarna er hann sjálfum sér ósamkvæmur, því þ.e. einmitt nýtingarétturinn sem er grundvöllur þeirra er hann kallar gömlu valdaséttirnar.
  • Þ.s. hann er raunverulega að segja, er að hann kjósi frekar, að erlendir aðilar fari með þau völd og áhrif.
  • Að sjálfsögðu, fylgja þessu völd og áhrif, því fylgja alltaf aðgangur að miklu fjármagni.

----------------------------Er það ef til vill draumalandið sem Samfó stefnir á.

  • Að Samfó dreymi um, að með þessu séu helstu pólit. andstæðingar Samfó lamaðir, og gerðir valdalitlir eða valdalausir.
  • Síðan, verði það Samfó, sem drottni - eða ef til vill ekki alveg rétta orðið - hafi "nominal" völd sem þjónn hinna nýju valda-aðila, þ.e. þeirra erlendu fjársterku aðila, sem ráði þaðan í frá í krafti síns fjármagns.
  • Þið ímyndið ykkur, að erlend stórfyrirtæki, með engin tengsl önnur við Ísland, með eigendur sem ekki hafa hér alist upp, sem ekki senda börn sín í skóla hérlendis; verði betri kostur sem valda-aðilar Íslands?
  • Hafið þið heyt máltækið, að far úr öskunni í eldinn?

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.7.2010 kl. 22:04

13 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hmm, vantaði "t" tvisvar í orðið "valdastétt".

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.7.2010 kl. 22:05

14 Smámynd: Alfreð K

Get ekki verið meira ósammála fyrirsögn, mundi snúa þessu algjörlega við og segja: „Björk er vafasöm listakona en stórkostleg baráttukona í þjóðmálum!“

Fínt framtak hjá Björku, höldum yfirráðum yfir okkar eigin náttúruauðlindum og nýtum þær í OKKAR þágu!

Varðandi OR, HS og önnur veitufyrirtæki, allt tal um „gullegg“ og „gullgæsir“ hefur alltaf farið voðalega í pirrurnar á mér (að fólk skuli hafa komist upp með slíkt tal í fjölmiðlum á seinni árum!), þetta eru opinber fyrirtæki sem eiga að EINGÖNGU AÐ SJÁ FÓLKI FYRIR GRUNNÞÖRFUM gegn vægu gjaldi svo sem vatni, hita og rafmagn, þau EIGA EKKI OG ÁTTU ALDREI AÐ VERA Í SKULDASÖFNUN OG BRASKI!

Hvorki hjá hinu opinbera undir stjórn Alfreðs Þ. né hjá einkaaðilum undir stjórn manna eins og Hannesar S., Bjarna Á. eða þá einhvers Ross B.!

Alfreð K, 23.7.2010 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband