Íslandsklukkan í Þjóðleikhúsinu er afburða góð leiksýning

Það var vissulega með nokkuð gagnrýnum huga sem ég tók mér sæti í Þjóðleikhúsinu til að sjá þriðju uppfærslu sem ég hef séð þar á hinu magnaða verki Halldórs Laxness, Íslandsklukkunni. Ég vissi að þar mundi ég sjá ný efnistök Baltasar, hvernig mundi mér líka þau? Enn situr í mér sýningin sem ég sá fyrir 55 árum, en þá var  vígsluverk Þjóðleikhússins tekið til endursýningar vegna Nóbelsverðlauna Halldórs Laxness. Þetta var sýningin sem formaði Íslandsklukkuna sem leikhúsverk, sá sem hvað mest og best vann að þeirri umbreytingu var leikstjóri verksins, Lárus Pálsson. Ég skal vissulega játa það að Jón Hreggviðsson er í mínum huga Brynjólfur Jóhannesson, Snæfríður Herdís Þorvaldsdóttir, Arnas Þorsteinn Ö. Stephensen og Jón Grínvisensis Lárus Pálsson. En ég gerði mér grein fyrir því að það var ekki sami persónuleikinn sem gekk inn í Þjóðleikhúsið sl. föstudag og tvítugi ungi maðurinn sem settist þar í stólinn 1955, þá þegar að fangast alvarlega af leiklistargyðjunni sem hann átti að förunaut í yfir fjóra áratugi.

Vissulega leist mér ekki á sviðið í upphafinu en ég gekk fljótlega inn í þetta nýja umhverfi Íslandsklukkunnar og naut svo sannarlega að heyra hinn meitlaða texta Halldórs og sjá persónur hans persónugerast. Hér er ekki ætlunin að skrifa  leiklistarrýni, miklu frekar að fara nokkrum orðum um eftirminnilega upplifun í leikhúsi. Ég get samt ekki setið á mér að minnast á nokkur þeirra sem ljáðu persónum Íslandsklukkunnar hold, blóð, hreyfingar og rödd, við suma var ég fyllilega sáttur, ekki alveg eins við aðra eins og gengur. Ingvar er þriðji Jóninn Hreggviðsson  sem ég sé þarna á fjölunum. Hann gaf ólánsmanninum Jóni fyllilega allt sem þurfti. Lilja Nótt sem Snæfríður fyllti mjög vel út í þær lýsingar sem koma fram í textanum (álfakroppurinn mjói) en náði ekki alveg að sýna mér þá Snæfríði sem ég vildi sjá. Framsögn hennar var einnig stundum á tæpasta vaði og þar held ég að Þjóðleikhúsið þurfi að gera átak, framsögn hefur að mér fundist frekar vera afturför hjá leikhúsunum. Meira að segja gamli jöfurinn Erlingur Gíslason, sem flutti prologus Halldórs Laxness að ég held frá vígslu hússins, var of kraftlaus svo tæpast heyrðist út í salinn. En mér féll mjög vel túlkun Björns Thors á jungkæranum Magnúsi í Bræðratungu, ólánsmannsins sem drakk frá sér vitið á kvöldin og grét á morgnana. Hann sýndi vel þennan klofna persónuleika.

En umhverfið var ekki sá raunveruleika stíll sem oftast hefur fylgt gamalli íslenskri klassík en sýndi þá ótrúlegu endurnýjun sem leikhúsið ræður yfir. Meira að segja hýðing Jóns Hreggviðssonar með hvellhettum og tússpenna, sem vissulega var á mörkunum, gekk  upp.

Það sem ég gekk inn með hvað gagnrýnast í mínu sinni var að láta konu leika Jón Grindvíking og ég spurði sjálfan mig; á að gera Jón að fífli eða skrípi, það væri skemmdarverk. En Ilmur gerði þetta mjög vel og slapp fyrir horn. Kækurinn sem Lárus Pálsson bjó til 1950, að klóra sér á kálfanum, hefur ætíð fylgt Jóni síðan. Ilmur notaði kækinn því miður of ótæplega, þetta gerist stundum í leikhúsi; ef eitthvað atriði fellur í kramið og vekur hlátur verður freistingin til endurtekninga og mikil, reyndir leikarar eiga ekki að falla í þá gryfju.

En allt tekur enda, svo er um hverja leiksýningu og oft er vandi að ljúka góðu verki. Ekki veit ég hvað Baltasar gengur til að útvatna lokatriðið þegar Jón Hreggviðsson mætir dómkirkjuprestinum, sem Jón Eyjólfsson lýsi mæta vel, með því að troða honum með sinni ektakvinnu Snæfríði Íslandssól inn í hliðarsvalirnar þar sem þó sjást varla. Þetta dró úr skerpu lokanna, Jón á heimleið eftir áratuga streð við yfirvöldin, Snæfríður stendur við orð sín; heldur þann versta en þann næstbesta. Ég er ekki viss um að þeir sem ekki þekkja Íslandklukkuna gerla hafi áttað sig á hvað persónur voru þar á ferð, hver voru karlinn og konan sem varla sáust inn í svölunum, þetta atriði má ekki útvatnast .

En Íslandsklukka Baltasar er geysilega gott leikhúsverk. Hann er trúr hinum magnaði texta Halldórs þó sumir mættu fara nokkuð ákveðnar og skarpar með hann. Engu hefur verið bætt við, mér heyrðist að eitthvað hefði verið fellt út svo sem í samræðum Snæfríðar við föður sinn og hjá kanselíráðinu með sultutauið.

Og að lokum; aldrei bregst Herdís, hún var einstök í sínu litla hlutverki sem móðir Jóns Hreggviðssonar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður. Skemmtileg úttekt hjá þér. Sammála þér um sýninguna, hún er bæði ferskt og frumlegt leikhúsverk. En eitthvað hefur ruglast hjá þér: sýningin er ekki eftir Baltasar heldur Benedikt Erlingsson. Bestu kveðjur. Stefán B.

Stefán Baldursson (IP-tala skráð) 26.9.2010 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 113882

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband