Hæstiréttur ógildir kosningar til Stjórnlagaþings með pólitískum dómi

Þetta eru mikil tíðindi og koma vissulega á óvart. Hér hefur Hæstiréttur kveðið upp pólitískan dóm eins og hann sé pantaður úr Valhöll enda ríkir þar mikil Þórðargleði. Þar fer fremstur hinn nýi varaformaður Sjálfstæðisflokksins Ólöf Nordal. Reynsluleysi hennar á hinum pólitíska vettvangi kemur æ meir í ljós og engu líkara en að hennar eina og sanna fyrirmynd sé reyndar ekki í Sjálfstæðisflokknum, Vigdís Hauksdóttir heitir fyrirmyndin sem er búin að slá öll met í ofstæki og innihaldslausum glamuryrðum.

En hvernig dirfist ég að gagnrýna Hæstarétt? Er hann ekki yfir alla gagnrýni hafinn?

Því hafna ég alfarið og endurtek: dómur Hæstaréttar um ógildingu kosninga til Stjórnlagaþings er pólitískur dómur, til þess gerður að styðja íslenskan stjórnmálaflokk, Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur barist með öllum meðulum gegn Stjórnlagaþinginu og verkefni þess, að skipan yfirstjórnanda flokksins Davíðs Oddssonar ritstjóra Morgunblaðsins, enda hefur Morgunblaðinu verið stanslaust beitt gegn þessu merka átaki að kjósa til Stjórnlagaþing.

En nú er líklega farið að fjúka í marga (vonandi) og ég skal ekki víkjast undan því að rökstyðja það að dómur Hæstaréttar sé fráleitur og hlutdrægur. Dómstólar eiga að vinna eftir gildandi lögum á tvennan hátt: a) gildandi lagabókstaf b) anda gildandi laga. Þarna er sá gullni meðalvegur sem hver dómstóll verður að feta. Í þessum dómi Hæstaréttar er hver smuga fundin til að fara eftir lagabókstafnum en ekki í neinu hirt um að fara eftir anda laganna. Reyndar hefur sá merki lagaprófessor Eiríkur Tómasson bent á (um leið og hann dregur dóm Hæstaréttar í efa) að ef skírskotunin í lög um Alþingiskosningar hefðu ekki verið í lögunum um kosningar til Stjórnlagaþings hefði Hæstiréttur ekki getað notað þær smugur sem hann fann til að ógilda lögin.

Þá hefði ekki verið hægt að gera athugasemd við pappaveggina, ekki við kjörseðlana, ekki við kjörkassana eða annað sem Hæstiréttur tíndi til.

Núverandi dómarar við Hæstarétt eru nánast alfarið afsprengi Sjálfstæðisflokksins og skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Sá lærdómur af þessum hlutdræga dómi er ekki sístur sá að skipun þeirra sem eru þriðja valdið, dómara, verður að breyta og það strax.  

Og mörgum Sjálfstæðismönnum rennur blóðið til skyldunnar og réttlæta þennan fráleita dóm og réttlæta ekki síður baráttu Sjálfstæðisflokksins gegn kjöri Sjórnlagaþings og að það fái það verkefni að semja Íslandi nýja Stjórnarskrá.

Í Féttablaðinu í dag (laugard. 29. jan) horfir Þorsteinn Pálsson af sínum Kögunarhóli sem jafnan og þar er þessi makalausa setning:

Sjálfstæðisflokkurinn vildi hins vegar að Alþingi risi undir þessari skyldu sjálft. Það hefði getað tryggt skjótvirkari framgang þeirra stjórnarskrárbreytinga sem kallað er eftir.

Hvar hefur Þorsteinn Pálsson alið manninn eftir að hann sleit barnsskónum? Veit fyrrverandi forsætisráðherra ekki að þetta hefur verið verkefni Aþingis í nær 56 ár eða allt frá því lýðveldið var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944?

Og hver er árangurinn, það ætti Þorsteinn Pálsson að vita mæta vel, árangurinn er enginn! Þrátt fyrir að starfað hafi árum saman Stjórnarskrárnefndir kjörnar af Alþingi, oftast nær undir formennsku Sjálfstæðismanna.

Kosningarnar til að velja fulltrúa á Stjórnlagaþinng var nýjung, það var engan veginn hægt að styðjast við þau lög um kosningar sem gilda í landinu. Þess vegna voru sett sérstök lög um þessar kosningar og þar voru gerð mistök, að vísa í lög um Alþingiskosningar. Enginn hefur efað að kosningarnar fór rétt og skipulega fram, engin efar að þeir 25 fulltrúar sem kjörnir voru voru rétt kjörnir, engum hefur hugkvæmst að eitthvað óheiðarlegt hafi verið við kosningarnar.

Þes vegna átti Sjálfstæðsiflokkurin enga aðra leið færa til að eyðileggja þetta merka framtak en kalla eftir flokkshollustu þeirra sem hann hefur skipað í æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Sammála. Takk.

Björn Birgisson, 29.1.2011 kl. 17:03

2 Smámynd: Rauða Ljónið

Nú hlýtur að vera komið að því  að ríkisstjórnin og Jóhanna verða  að sanna með óyggjandi hætti að sanna það fyrir þjóðinni að allir sýknudómar og vægirdómar sem kveðnir hafa verið upp í Hæstarétt eða héraðsréttum landsins, hvort sem er í fjársvikum svo sem Baugsmálið, sifjaspellum eða öðrum dómum er lúta að kynferðismálum þjófnuðum og öðrum glæpum að menn séu dæmdir saklausir fyrir tilstuðnings Sjálfstæðisflokksins Valhallar og Davíðs Oddsonar og að þeir sem setja í fangelsum landsins séu allir saklausir en einu sakirnar sé að þeir hafi ekki verið stuðningsmenn Davíðs eða íhaldsins og dæmdir í fangavist fyrir þær sakir þjóðin verður að krefjast þess að það veri upplýst.
Rök eru ekki nægileg til að benda á dóm um Stjórnlagaþing komi frá Valhöll.
Vænti þess að þú geti beint á fleiri dóma til stuðnings þessum málflutningi.
Kv, Sigurjón

Rauða Ljónið, 29.1.2011 kl. 18:04

3 identicon

Sigurður Grétar hefur ef til vill ekki kynnt sér, nefnir að minnsta kosti ekki, ummæli Eddu Jónsdóttur mannréttindafræðings í útvarpsþættinum Speglinum 26. janúar eða álit frá prófessor Róbert Spanó deildarforseta lagadeildar HÍ á bls. 2 í Morgunblaðinu sama dag. Einn dómaranna í þessu máli var Viðar Már Matthíasson, sem Ögmundur Jónasson skipaði í embætti í september síðast liðnum. Vingjarnleg kveðja.

http://dagskra.ruv.is/ras1/2011/01/26/ 

Sigurður (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 18:11

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Þá hefði ekki verið hægt að gera athugasemd við pappaveggina, ekki við kjörseðlana, ekki við kjörkassana eða annað sem Hæstiréttur tíndi til."

Þetta stenst ekki. Þú þarft ekki að taka fram að gildandi lög gildi um e-h tiltekið. Þau gera það alltaf algerlega sjálfvirk nema að sérlög tiltaki aðra aðferð, sem þá gildir.

Ef ekki hefði verið vísað í lög um Alþingiskosningar þá hefðu þau gilt eftir sem áður, enda einu gildu lögin hérlendis um almennar kosningar, fyrir utan sérlög um sveitastjórnarkosningar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 29.1.2011 kl. 19:00

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ekki oft er ég sammála þér Sigurður Grétar, en í þetta skipti tek ég undir hvert orð.  Það þyrfti að bera þennan dóm undir alþjóðlegan dómstól, til að fá úr því skorið að þeir hafi þetta umboð sem þeir taka sér.  Af því að hér er rætt um ýmsa aðra dóma svo sem kynferðisdóma og slíkt, þá hef ég í huga dóm frá hæstarétti um nauðgunarmál, þar sem ég vil meina að framið hafi verið réttarmorð á tilteknum manni.  Ég myndi vilja sjá þann dóm tekinn upp á öðrum vettvangi og málsatvik skoðuð af dómurum sem vilja hafa réttlætið að leiðarljósi.  Ég persónulega ber ekkert traust til hæstaréttar eins og hann er skipaður í dag.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2011 kl. 21:24

6 identicon

Ég held að Sigurður ætti bara að halda sig í pípulögnunum - það er það sem hann sennilega kann !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Sleppa alveg að reyna að vera lögfræðingur og geta skilgreint Hæastaréttardóma - þar er hann   EKKI  á réttri hillu.

Magnús (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 22:06

7 identicon

Ég hef lesið nokkuð marga dóma Hæstaréttar, bæði nýlega og gamla, og ég man bara ekki eftir neinum með röksemdafærslu, sem mér þykir lykta af flokkspólitík. Jónas frá Hriflu þóttist finna hana, veit ég, en það gerðu fáir á þeim árum eða síðar. Og í þeim lagaskræðum, sem ég hef skoðað, kemst slík gagnrýni varla á blað, þótt dómar séu upp og ofan léttvægir fundnir. Ég hef ekki orðið var við, að dómarar í Hæstarétti hafi á embættisárum sínum tekið þátt í flokksstarfi. Ef þeir eru þakklátir þeim ráðherra, sem skipaði þá, fara flestir mjög fínt með það, eins og Viðar Már nú, sem með þessari nýju ákvörðun hefur sannarlega ekki auðveldað Ögmundi lífið. Þetta eru staðreyndir, eins og ég les þær. Traust á dómurum er svo annað mál. Og það sýnist mér takmarkað hjá Sigurði Grétari, Birni og Ásthildi. Þau eru í sínum góða rétti með þá afstöðu. Páll Hreinsson og nefnd hans rannsakaði ráðherra, þingmenn, bankamenn, suma embættismenn, forseta Íslands og jafnvel fjölmiðlamenn en minntist ekki á dómara. Páll hefur kannski ekki treyst sér til að gerast dómari yfir kollegum sínum. Þess vegna fáum við aldrei að vita, hvort einhverjir dómarar voru til dæmis á kafi í braski, skuldum vafðir eða höfðu langtum meiri veltu en launamenn í góðu embætti eru líklegir til. Þetta þótti mér galli á skýrslu Pálsnefndarinnar, því að dómsvald er einn af meginþáttum ríkisins og slíkur fróðleikur hefði ef til vill hjálpað mér, þremenningunum að framan og mörgum öðrum að treysta dómurum svona nokkurn veginn, þrátt fyrir vantraust eða skepsís á einstökum úrlausnum og röksemdum þeirra. Vingjarnleg kveðja.

Ps. Ég er nú ekki sammála Magnúsi. Nafni minn er alveg nógu málefnalegur til þess, að hægt sé að vera stundum sammála honum og stundum ósammála, og alltaf held ég hann vilji hafa það sannara. 

Sigurður (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 22:48

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sigurður það er notalegt að lesa svona skrif eins og þín, hér er maður sem segir sína meiningu án þess að vera með fordóma á neinn hátt, það vantar fleiri svona til að auðga umræðuna og færa hana á hærra plan.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2011 kl. 23:23

9 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Sigurður, þetta er vel rökstudd grein. Það er varhugavert að dómur eða úrskurður Hæstaréttar byggi á meintum vanköntum, ekki að einhver hafi boðið skaða á framkvæmd kosninganna og að það sé næg ástæða til að ógilda heilar kosningar. Slíkt er ekki algengur gjörningur í lýðræðisríki. Ef einhver sem hefur grun um að atkvæði séu ekki rétt talin eða að einhver hafi kosið nokkrum mínútum eftir lokun kjörstaðar kærir,getur þá rétturinn ógilt kosningarnar? Má ekki alltaf finna einhverja  hnökra á kosningaframkvæmd? Þetta voru kosningar á landsvísu,ekki verið að kjósa stjórn í litlu félagi.  Hér á eftir er það eina sem ég fann ( Mbl.is 29 des síðastliðinn ) um kærurnar sjálfar.

 "Þrjár kærur bárust til Hæstaréttar vegna stjórnlagaþingskosninganna. Þær miða meðal annars að því að fá úrskurð um það hvort kosningaleynd hafi verið tryggð við atkvæðagreiðsluna og hvort rétt hafi verið staðið að úthlutun sæta á þingið.  Ákveðið verður eftir áramót hvaða hæstaréttardómarar fjalla um málið."

Sigurður Ingólfsson, 30.1.2011 kl. 11:04

10 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sigurður, auðvitað er það dálítið svakaleg ákvörðun að ógilda almennar kosningar. Sú ákvörðun á örugglega alltaf eftir að verða umdeild. En, á hinn bóginn hafa dómararnir örugglega rétt fyrir sér, um það að þeir hökrar sem þeir tala um hafa raunverulega verið fyrir hendi. En, hvort það dugi til að réttlæta að slá kosningarnar af - þ.e. á hinn bóginn allt annað dæmi.

Sennilega hefðu þær átt að standa. Hæstiréttur einfaldlega átt að tjá sig harðort um vankanta framkvæmdar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.1.2011 kl. 14:20

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það færi forvitnilegt að vita hvernig þessir einstaklingar hefðu dæmt þetta sama ef það hefði verið Sjálfstæðisflokkurinn sem vildi sjórnlagaþingið, mér segir svo hugur um að þá hefði komið eitthvað annað út úr dæminu.  Það svakalega við þetta er að hæstiréttur er rúin trausti, þeir seldu sannfæringu sína til að koma höggi á andstæðinga, eins og svo oft vill verða hjá okkar fulltrúum í dag.  Það er erfitt að hugsa til þess að þarna sitji menn sem hafa ekki tiltrú fólksins í landinu.  Þetta setur los á svo marga hluti. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2011 kl. 14:32

12 Smámynd: Björn Birgisson

Ein spurning. Hvað hefði Hæstiréttur gert ef kosningaþátttakan hefði verið 85%? Svona í líkingu við venjulega kjörsókn hérlendis.

Björn Birgisson, 30.1.2011 kl. 14:36

13 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Sannarlega ánægjulegt að fá svona margar athugasemdir sem flestar eru málefnalegar, þannig eigum við að ræða málin eins og blaðamaður Pressunnar benti svo rækilega á í Silfri Egils sem var að ljúka.

Ég er ekki sammála þér nú Einar Örn, þó það sé ég oft í þinni skörpu greiningu á peningamálum þjóðarinnar. Þú segir:

Ef ekki hefði verið vísað í lög um Alþingiskosningar þá hefðu þau gilt eftir sem áður, enda einu gildu lögin hérlendis um almennar kosningar, fyrir utan sérlög um sveitastjórnarkosningar.

Þetta er vissulega kjarni málsins þó með öfugum formerkjum sé hjá þér Einar Örn. Á nákvæmlega sama hátt og til eru sérstök lög um sveitarstjórnarkosningar þá hafði Alþingi fullt vald til að setja sérstök lög um kosningar til Stjórnlagaþings sem það vissulega gerði. Þar var hægt að setja í lögin ákveðnari texta um hvernig framkvæmdinni skyldi hagað svo sem því að ekki væri skylda að vera með hefðbundna kjörklefa, þar skyldu vera sérstakir kjörseðlar og kjörkassar og þar mátti einnig taka fram að önnur lög um kosningar (til Alþingis og sveitarstjórna) giltu í engu um kosningar til Stjórnlagaþings árið 2010 enda voru þetta einnota lög aðeins um þessar kosningar.

Eitt af gildum íslensks þjóðafélags að þar hafa flestir þegnarnir áhuga á fjölmörgum málefnum þó þau ekki beinlínis tengist sérfræðiþekkingu hvers og eins. Hverjum og einum þjóðfélagsþegni ber skylda til að vera sem best upplýstur og með víðtæka þekkingu á þjóðmálum.

Á þessu byggist lýðræðið, þess vegna ekki aðeins leyfist pípulagningamanni að hafa skoðanir á dómum og lögfræði, það er miklu fremur skylda hans.

Einar Örn, ég fer eftir orðum Eiríks Tómassonar prófessors í lögfræði þegar hann sagði að ef ekki hefði sérstaklega verið skírskotað til laga um kosningar til Alþingis í lögunum um kosningar til Stjórnlagaþings hefði úrskurður Hæstaréttar tæplega getað orðið á þann hátt að ógilda kosningarnar.

En hvað um fordæmin, auðvitað réttlætir eitt brot ekki önnur?

Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og man mjög glöggt eftir kosningunum 1944 þegar þjóðin svaraði þeirri spurningu hvort við skyldum skilja við Danska kónginn og stofna lýðræði. Þá voru gerðar margvíslegar undanþágur frá ríkjandi kosningalögum. Gífurleg áhersla var lögð á mikla kosningaþátttöku og ekki síður að sem flestir segðu já við lýðveldisstofnun. En þá var leyft að kjósendur væru eltir uppi með kjörseðla og kjörkassa. Farið var um öll sjúkrahús og allir sjúklingar sem blýanti gátu valdið látnir kjósa, gott hvort það var ekki leyfilegt að þeir sem voru algjörlega farlama máttu ekki framselja öðrum fulltrúa kjörstjórnar að kjósa fyrir sig. Kjörstjórnarmenn fóru á afskekktustu bæi þar sem lá farlama fólk til að safna atkvæðum þeirra. Talið var að mig minnir í hverjum hreppi en ekki kjördæmi eins og kosningalög mæltu fyrir um. Kosningaútvarp var opið allan daginn og strax eftir hádegi fóru tölur að berast, jáatkvæðin alltaf vel yfir 90%, næstum 100%,  ég man enn eftir áherslum þulanna þegar fréttir bárust frá hreppum þar sem kosningaþátttaka var 100% að ég ekki tali um þegar jáatkvæðin voru jafnvel 100% einnig .

En þessu upprifjun er aðeins til gamans gerð því líklega fer þeim fækkandi á landi hér sem muna þessa atburði, kosningarnar um stofnun lýðveldis á Íslandi og hátíðahöldin á Þingvöllum 17. júní 1944. En mér finnst ekki ólíklegt að kosningalög hafi við lýðveldiskosningarnar verið sveigð á ýmsa lund.

Hvað hefði gerst ef einhver hefði kært og kosningarnar um stofnun lýðveldis á Íslandi verið dæmdar ógildar?

En að lokum. Margir, þar á meðal ég, hafa ritað og rætt um "dóm" hæstaréttar en það er rangt. Hæstiréttur kvað ekki upp neinn "dóm" þarna var um "úrskurð" að ræða af því Alþingi fól réttinum þetta hlutverk. Þarna var því engin sókn eða vörn, sexmenningarnir bræddu með sér án nokkurrar utanaðkomandi afskipta hvað úrskurð skyldi upp kveða.

Enn og aftur komum við að veikleikanum sem er löggjafinn, Alþingi. Þar var ekki nærri því nógu vönduð vinnubrögð og ég endurtek; Alþingi var í lófa lagið að setja lög um kosningar til Stjórnagaþings þar sem EKKERT af þeim atriðum sem Hæstiréttur tínir til hefðu getað ógilt kosningarnar. Landskjörstjórn hefur sagt af sér en Alþingismenn ættu ekki að rýna í Biblíuna og segja "sjá þú Guðs lambið sem burt ber heimsins syndir".

Alþingi á að líta í eigin barm í þessu máli eins og mörgum fleiri og ekki síst að fara að sýna þjóðinni boðleg vinnubrögð en ekki sandkassaleik ódælla krakkaorma.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 30.1.2011 kl. 14:56

14 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sigurður - eins og þú segir sjálfur, að ef Alþingi hefði vandað sig, og haft lögin nákvæmari, og sett inn ákvæði um tilhögun kosninga í hvívetna, hefði Hæstiréttur ekkert getað gert.

Ég sé ekki ástæðu, til að tjá mig um hvort dómurinn var vegna pólit. skoðana dómaranna eða þá að þeir séu einfaldlega mjög harðir prinsipp menn þegar kemur á túlkunum leikreglum lýðræðis.

En, hitt er alveg öruggt. Að ef lögin hefðu farið í gegnum allt ferlið frá A - Ö, sett inn lýsingar t.d. á hvað teldist löglegur kjörkassi, ósættanleg framkvæmd kosninga á kjörstöðum, ásættanleg merking kjörseðla og útlit o.s.frv. - þá hefði dómurinn ekki getað tekið þessa afstöðu.

Dómararnir, í reynd kveða þann úrskurð, að almennar kosningar hafi reglur um Alþingiskosningar sem viðmið, nema annað standi í sérlögum um tiltekna kosningu sem þá sé frávik frá aðalreglu, sem fram komi í lögum um Alþingiskosningar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.1.2011 kl. 15:11

15 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Björn, þú varst ekki kominn inn með þína athugasemd þegar ég skrifaði mína en þú setur svo sannarlega fram athyglisverða spurningu og segir:

Ein spurning. Hvað hefði Hæstiréttur gert ef kosningaþátttakan hefði verið 85%? Svona í líkingu við venjulega kjörsókn hérlendis.

Það er eitt af því dapurlega sem kom fram við kosningarnar til Stjórnlagaþings að þrátt fyrir háværar kröfur um "beint lýðræði" og  "valdið til fólksins" fór svo að 2/3 af kosningabærum notuðu ekki rétt sinn í kosningunum til Stjórnlagþings. Auðvitað var hægt að búast við því að kosningaþátttaka yrði ekki nema í besta falli nema milli 50 - 60% þar sem stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar (eftir skoðanakönnunum) barðist gegn þeim og ekki síður Morgunblaðið sem hefur talsverð áhrif ennþá þó dvínandi fari. Ég tel að 50 - 60% væri sigur fyrir lýðræðið. Sem dæmi get ég nefnt að sveitungar mínir í Þorlákshöfn, sem í orði vildu styðja mig til þingsetu, mættu innan við 30% á kjörstað.

Lengi skal manninn reyna.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 30.1.2011 kl. 15:12

16 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þ.s. þú minntist á gjaldmiðla. Þá er ég búinn að finna út verðþróun Punds og Dollars frá 1920.

Virði dollars hefur minnkað um 90,8% síðan 1920.

Virði punds hefur fallið um 95,1% síðan 1920.

Ég geri ráð fyrir að rétt sé, að virði krónu hafi fallið 99,9% yfir sama tímabil.

Skemmtilegt að hafa þetta í samhengi.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.1.2011 kl. 15:14

17 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sigurður - ég hið minnsta mætti og kaus. En, ég veit um fólk sem einfaldleg féllust hendur og treysti sér ekki í málið vegna þess hve því fannst það flókið.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.1.2011 kl. 15:16

18 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

En, spurning Björns er góð. Mann grunar, að dómararnir hefðu verið minna líklegir til að fella slíkann úrskurð, við þær aðstæður.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.1.2011 kl. 15:17

19 identicon

Ég hef velt því fyrir mér hvert viðhorf íhaldsmanna hefði verið til Hæstaréttar, ef Samfylking hefði verið við völd síðustu tvö kjörtímabil og náð að skipa alla dómara í Hæstarétt.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 30.1.2011 kl. 17:26

20 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Svavar, ég vona að við berum gæfu til þess að breyta skipun hæstaréttardómara og annara dóma þannig að ENGINN flokkur fái þann möguleika að raða flokksþýum sínum inn í dómstólana, sama hvaða flokkur það er.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 31.1.2011 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 113861

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband