Sigmundur Davíð og Vigdís voru í lágkúrunni, hryllingssaga Ásbörns Óttarssonar af kvótabraski var með ólíkindum

Eflaust hefðu margir viljað að stefnuræða Jóhönnu hefði verið miklu ítarlegri og sagt okkur nákvæmlega hvað er framundan í skattamálum, niðurskurði, skuldastöðu og fl. en við því var tæpast að búast. Lágkúruna áttu þau Sigmundur Davíð og Vigdís Hauksdóttir. Það er dapurlegt að tveir nýir þingmen skulu vera á svo lágu plani eins og þau voru í kvöld og svo kórónaði Sigmundur Davíð allt með hroka sínum; ávarpaði hvorki forseta þingsins eða áheyrendur. Það er vissulega áhyggjuefni fyrir Framsóknarflokkinn ef hann ætlar að grafa sig niður í kalt stríð að gamalli fyrirmynd. Það var nokkur annar blær á ræðu Guðmundar Steingrímssonar og ég fagna því að það skuli kominn maður á þing sem hefur það vald á mæltu máli að geta talað blaðalaust, að undanförnu hefur það verið Steingrímur einn sem hefur haft það á valdi sínu. Mér fannst Borgarahreyfingin nokkuð málefnaleg enda getur hún varla verið öðruvísi ef hún ætlar að vera trú sínum uppruna.

En Sjálfstæðisflokkurinn kom mér á óvart. Ólöf Nordal var yfirveguð eins og hún á kyn til,  var málefnaleg án allra upphrópana. Hins vegar varð ég undrandi á hvernig Bjarni Benediktsson form. Sjálfstæðisflokksins beraði sig sem vaktmann fyrir óbreytt kvótakerfi, hann eyddi talsverðu af ræðutíma sínum í að rekja hryllingsmynd útgerðarauðvaldsins að allur sjávarútvegur færi á hausinn ef fyrningaleiðin væri farin. En að hann skyldi vera svo seinheppinn að segja fyrningarleiðina "þjóðnýtingu" var með ólíkindum, Hver á veiðiréttinn, hver á auðlindina, hver á fiskinn í sjónum? Var formaður Sjálfstæðisflokksins að lýsa því yfir að auðlindir hafsins væru ekki sameign þjóðarinnar heldur óafturkræf eign fárra sægreifa?

En nýi þingmaðurinn frá Rifi var þó sá seinheppnasti í umræðunum. Sem útgerðarmaður rak hann áróður fyrir sín einkasjónarmið eins og þau koma honum fyrir sjónir en sagði sögu sem lýsti í hnotskurn hversu kvótakerfið er rotið og óheilbrigt. Útgerðarmaður í Ólafsvík seldi honum og öðrum útgerðarmanni á Rifi allan kvótann sinn á  tugi milljóna. Þeir á Rifi áttu ekki krónu og slógu lán fyrir kvótakaupunum 100%. Nú hafa þessi lán hækkað og hækkað vegna óstjórnar Sjálfstæðisflokksins, en hvað um þann sem seldi?. Hann lifir eins og blómi í eggi, ávaxtaði það sem hann fékk fyrir kvótann og þarf ekki að dýfa hendi í kalt vatn, Hann á enn bátinn sem hann fékk kvótann út á en sá bátur fer aldrei úr höfn lengur.

Þetta sagði Ásbjörn í ræðu á Alþingi, þarna lýsti hann réttilega þessu  gjörspillta kerfi, maður selur réttindi sem samfélagið veitir honum, hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi sameign þjóðarinnar yrði braskvara sem gerði suma svo ríka að þeir geta lifað í vellystingum praktuglega án þess að þurfa nokkuð fyrir því að hafa.

Hvernig fór fyrir Eskju á Eskifirði, hvert fóru lötu erfingjar Alla ríka með andvirði kvótans, hvernig var með "dýrasta" skilnað Íslandsögunnar þegar Samherjaforstjórinn skildi við eiginkonu síns. Hann varð að borga henni væna summu vegna syndandi þorska í sjónum. Áður hafði sameigandi hans og frændi fengið einnig stórar summur fyrir lifandi þorska sem þeir töldu sig eiga, frændinn flutti til Reykjavíkur og braskaði þar með þorskapeningana, sem við, þjóðin, héldum að við ættum.

Ef einhver útgerðar - eða fiskvinnslufyrirtæki fara á hausinn við fyrninguna þá mega þau fara rúllandi á hausinn, þá er enginn grundvöllur fyrir tilveru þeirra. Það eru nógu margir sem eru reiðubúnir til að ná í þann fisk sem við fáum að veiða árlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvers konar röksemdarfærsla er þetta eiginlega?

Þeir eru bölvaðir sem seldu kvótann sem þeir áttu ekki og þess vegna mega þeir sem keyptu fara rúllandi á hausinn vegna þess að það langar svo marga í útgerð?

Þetta heldur ekki vatni hjá þér sem er frekar lélegt af manni í þinni grein.

Grétar (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 00:07

2 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Kvótabraskið er ein stór og mikil "hryllingssaga". 

Páll A. Þorgeirsson, 19.5.2009 kl. 00:35

3 Smámynd: Eygló

Hef ekki nógu mikið vit á umræðuefninu en verð að koma til þín þakklæti fyrir fallega meðferð íslenskunnar. Mættu vera fleiri, ekki satt?

Eygló, 20.5.2009 kl. 02:28

4 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Maija, þakka þér fyrir þitt innskot. Ég var í 16 ár fastur pistlahöfundur við Morgunblaðið, skrifaði pistil sem bar nafnið "LAGNAFRÉTTIR" í Fasteignablað Mbl. Þetta var skemmtileg glíma við að koma tæknilegum upplýsingum til almennings á því sviði sem nafn pistilsins bar blandað hæfilegum húmor auk þess að skoða stöðugt hvernig ég notaði okkar ástkæra og ylhýra mál. Svo einkennilegt sem það var tók það mig ekki svo langan tíma að semja hvern pistil, en eftir það kom yfirlestur og þá kom ýmislegt í ljós sem betur mátti fara. Þar get ég nefnt að það er hætta á að sömu orðin komi aftur og aftur í setningum, þá reyndi ég að finna önnur sömu merkingar til að textinn yrði blæbrigðaríkari. Hinsvegar var ég ákaflega lélegur prófarkalesari, þar brast mig þolinmæði svo Helga kona mín bjargaði mér æði oft. En segi það fullum fetum að það er margt dapurlegt í því sem íslenskt fjölmiðlafólk lætur frá sér fara, það er að reyna að nota gömul og gegn spakmæli eða orðatiltæki en þar vill oft allt snúa öfugt og afbakað. Það er gleðilegt að mæta þér í blogginu, það er ekki oft sem þeir sem eru að rita texta á íslensku hafa áhuga góðri textameðferð sem er ekki aðeins réttritun, svo ágæt sem hún er, heldur stíll og blæbrigði.

Þetta áttu að vera örfá þakkarorð, en svo kemst maður á skrið svo mál er að linni.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 20.5.2009 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 113922

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband