Ögmundur Jónasson fer yfir siðferðismörkin, hörmulegt að fylgjast með orðræðu hans

Það er nokkuð líkt með pólitískri framgöngu Ögmundar Jónassonar og Spaugstofunni. Hvorugur aðilinn þekkir sinn vitjunartíma, skilur ekki að tímaglasið er runnið út. Ögmundur varð ungur öflugur foringi opinberra starfsmann og safnaði að sér harðskeyttri fylgissveit sem bar hann á höndum sér alla leið inn í sali Alþingis.

Við síðustu myndun Ríkistjórnar varð Ögmundur ráðherra, það taldi að sjálfsögðu hans harðskeytta fylgissveit sjálfsagt, ekki kom annað til greina.

En þá fór að halla undan fæti hjá Ögmundi. Þessi maðu,r sem alla tíð hafði verið baráttummaður launþega og andófsmaður á Alþingi, fótaði sig ekki þegar pólitíska ábyrgðin lagðist á hans herðar; hann kiknaði og sagði af sér ráðherradómi.

Síðan þá hefur farið fram ótrúlegur sirkus í kringum Ögmund Jónasson. Heimssveit hann í Vinstri grænum hefur rembdist við eins og rjúpan við staurinn að koma Ögmundi aftur í ráherrastöðu, nokkuð sem hann hefur einu sinni kiknað undan, einu sinni er nóg.

En nú hefur Ögmundur farið rækilega yfir strikið í hatrömmum málflutning sínum gegn aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Þeir eru vissulega til á blogginu sem hafa gripið til samlíkinga við alræðisríki nasista, sem atti heiminum út í hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar, en að maður sem hefur verið jafn áhrifamikill og Ögmundur Jónasson gerði slíkt bjóst ég ekki við. Að voga sér slíkan samanburð, svo sem að Evrópusambandið sé að auka sitt "lífsrými"  er eins og köld vatnsgusa framan í hvern mann. En Ögmundur bætir um betur og líkir Evrópusambandinu við hvítu mennina sem komu frá Evrópu, sölsuðu undir sig lönd Indíána í Vesturheimi og borguðu fyrir með glerperlum og spíra.

Ég held að Ögmundur ætti að fara að dæmi Einars Kristjánssonar óperusöngvara sem ég rakti í pistlinum um Spaugstofuna.

Það þurfa allir að þekkja sinn vitjunartíma, einnig Ögmundur Jónasson!


Spaugstofan lögð niður í Sjónvarpinu, hárrétt ákvörðun

Það virðist hrista upp í mörgum að Spaugstofan hafi runnið sitt skeið í Sjónvarpinu, það er ekki einkennilegt því þeir eru búnir að vera fastur punktur í Sjónvarpinu í rúmlega tuttugu ár.

En það voru ekki Spaugstofumenn sem tóku þessa ákvörðun, það var Páll Magnússon sem það gerði tilneyddur með niðurskurðarhnífinn á lofti.

En tími Spaugstofunnar var liðinn og þó fyrr hefði verið. Oft á tíðum hittu þeir á að gera góða þætti en þreytumerkin á þeim voru greinileg síðustu árin. Það var frekar sjaldgæft að þeim tækist að hitta naglann á höfuðið í spaugi sínu og þöglir einþáttungar Arnar Árnasonar, sem stundum  voru voru settir inn í prógrammið til uppfyllingar, vor sérlega pínlegir satt að segja.

Ég hef verið þeirrar skoðunar í þó nokkurn tíma að Spaugstofan ætti að hverfa af skjánum, en í skemmtanabransanum eiga þeir sem koma fram oft og verða vinsælir erfitt með að þekkja sinn vitjunartíma.

En nú hefur Páll Magnússon tekið af þeim ómakið. Þegar er farið að bollaleggja að þeir komi fram á örðum stöðvum, ekki hirði ég um það. Ég sé einungis Sjónvarpið og þykir alveg nóg að hafa völ á einni lélegri sjónvarpsstöð. Einhver kann að segja sem svo að ég sé tæplega hæfur til að dæma þær stöðvar sem ég hef enga reynslu af, en mér nægir að líta yfir dagskrár annarra stöðva, þar eru ríkjandi amerískir aulaþættir sem ég ef engan áhuga á.

En aftur að Spaugstofumönnum sem ekki þekktu sinn vitjunartíma. Ég minnist þess sem Einar Kristjánsson óperusöngvari sagði forðum. Hann var nær allan sinn starfsaldur söngvari við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Einar tilkynnti óvænt á besta aldri að hann væri hættur hjá Konunglega og hættur að syngja opinberlega. Fjölmargir skoruðu á hann að halda söngnum áfram en þá svaraði Einar:

Ég vil heldur að sagt verði "synd að hann Einar sé hættur að syngja" frekar en "synd að hann Einar sé enn að syngja".

Spaugstofumenn hefðu átt að taka álíka ákvörðun eins og Einar fyrir þó nokkru, ekki láta Pál taka hana fyrir sig.


Borða geitur með hníf og gaffli?

Það var ágætt viðtal við fróða konu um geitur í Ríkisútvarpinu í morgun. En því miður féll konan í þan fúla málfarspytt að tala um að skepnur borði.

Orðið að "éta" var lengi ráðandi í íslensku máli en svo fannst einhverjum það ekki nógu virðulegt orð og þá varð til orðið að "borða". Hún er dregin af borðinu sem setið er við þegar menn éta. Hins vegar lifir þetta góða gamla orð góðu lífi í norrænum málum, enn tala Svíar um að "eta" mat og skammast sín ekki fyrir.

Ég get engan veginn fellt mig við að nota orðið að "borða" um þann verknað þegar dýr éta. Pempíuhátturinn sækir á, afar sjaldan er umræða um æti fiska eða fugla, það er auðvitað miklu virðulegra að tala um að fæðu dýra.


Það er samstaða um að auðlindir Íslands skuli vera í eigu þjóðarinar

Svo hefur ekki alltaf verið en baráttan um Gullfoss opnaði augu manna fyrir því  að ekki væri alltaf hægt að meta náttúruperlur einungis með peningalegum sjónarmiðum. Ýmsir gerðust talsmenn þessara sjónarmiða, m. a. sá umdeildi en sterki stjórnmálamaður Jónas frá Hriflu. Ekki má gleyma Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir fyrir verndun Gullfoss sem var í túnfæti hennar.

Þetta ættum við að hafa í huga í fárinu sem nú stendur um kaup Magma Energiy á meirihluta á HS-orku.

Það sem við verðum að gera er að muna að AUÐLIND er eitt en NÝTING hennar annað. Margir stjórnmálmenn gera sig seka um hreinar falsanir, rugla vísvitandi saman þessu tvennu. Verra er þó að fölmiðlar eru engu betri. Það er dapurlegt að fylgjast með Fréttastofu Ríkisútvarpsins taka þátt í þessum hráskinnaleik. Þessi fjölmiðill  átti löngum mitt traust en ímynd hans hefur laskast illilega. Eina ljósið þeim bæ var oft á tíðum gagnmerkar fréttaskýringar í "SPEGLINUM" sem var á dagskrá eftir kvöldfréttir, en til þessa þáttar hefur ekki heyrst í langan tíma.

En ég segi enn og aftur: Þeir sem hæst láta um eign Magma Energi í ORKUFYRIRTÆKINU HS-orku hafa ekki sagt orð um að örfáar fjölskyldur skuli hafa sölsað undir sig eina helstu AUÐLIND Íslands, fiskinn í sjónum og réttinn til að veiða hann.

Er í lagi að allt velti á því að þeir sem sölsa undir sig AUÐLINDIR séu Íslendingar, en að allt verði vitlaust ef útlendingar leggja fram fjármagn í ORKUFYRIRTÆKI?


Dapurlega framganga Árna Páls félagsmálaráðherra þegar hann skipar Runólf Ágústson sem umboðsmann skuldara

Það var (og er vonandi enn) yfirlýst stefna núverandi Ríkisstjórnar að gera allar stjórnarathafnir gagnsæjar, ekki síst við skipanir í embætti. Því dapurlegra er að sjá Árna Pál félagsmálaráðherra skipa Runólf Ágústsson flokksbróður okkar beggja í embætti umboðsmanns skuldara. Runólfur á skrautlegan feril að baki, vann eflaust  gott verk í byrjun sem skólameistari á Bifröst en hrökklaðist að lokum úr embætti vegna brests í siðferðilegum efnum sem og stjórnunarlegum. En Runólfur var ekki einn í heiminum, hann kom að þegar góss ameríska hersins á Keflavíkurflugvelli komst í hendur Íslendinga. En því miður stundaði hann fjármálbrask eins og hver annar útrásartortúlalubbi og skilur eftir sig skuldaslóð, skuldir sem aldrei verða greiddar.

Hverskonar dómgreindarleysi er það hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að skipa Runólf Ágústsson sem umboðsmann skuldara? Ætlar Árni Páll að láta þessa skipun í embættið standa, eða getur hann e. t. v. ekki breytt neinu?

Blaðið DV hefur ekki það orð á sér að vera áreiðanlegasti fjölmiðill landsins en oft ratast kjöftugum satt á munn. DV fjallar um ráðningu Runólfs og kemst að þeirri réttu niðurstöðu að hún sé fyrir neðan allar hellur. 

Eru núverandi stjórnvöld að falla í hinn fúla pytt vinavæðingar, er það mikilvægara að vera flokksbróðir ráðherrans sem í stöðuna skipar heldur en að hafa flekklausan feril að baki?


Fréttastofa Sjónvarpsins verður sér til skammar

Fréttastofa Sjónvarpsins boðaði í yfirliti frétta að rætt yrði við Ögmund Jónasson þar sem hann krefðist þess að auðlindir landsins yrðu í þjóðareign í viðræðum um Magma málið. Ég sló því auðvitað föstu að Ögmundur ætlaði að verða það óheiðarlegur, eins og margir fleiri, að halda því fram að Magma Energy væri að kaupa auðlind með kaupum sínum á HS-orku.

En svo kom viðtalið og þá blöskraði mér óheiðarleiki fréttamanns Fréttastofu Sjónvarpsins. Ögmundur ræddi vissulega um Magma Energy en hann minntist ekki einu orði á að það fyrirtæki hefði með kaupunum eignast hlut í auðlind. Hann talaði um orkufyrirtæki og gerði þá kröfu um að slík fyrirtæki væru í íslenskri eigu, í eigu hins opinbera, að þau væru rekin sem þjóðnýtt fyrirtæki.

Ég er ákaflega ósammála Ögmundi í hans einstrengingslegu afstöðu, hann er einstrengingur í öllum málum. En það er til skammar að fréttamaður Fréttastofu Sjónvarpsins leggi mönnum orð í munn eins og það að Ögmundur hafi rætt um auðlindir þegar hann ræddi um orkufyrirtæki.


Ríkisstjórnin lyppast niður fyrir öfgaöflunum í Vinstri grænum

Það er ekki hægt að kaupa friðinn á hvað verði sem er. Allt sem kom frá blaðamannfundi Jóhönnu og Steingríms staðfesti hrollvekjandi staðreyndir. Það á að vinna að því öllum árum að ógilda kaupin síðustu á Magma Energy, jafnvel að steypa Ríkissjóði í enn meiri skuldir til að eyðileggja þessa mjög svo vel þegnu útlendu fjárfestingu. Ég hef bent rækilega á það að arður af fyrirtækjum á Íslandi í eigu útlendinga fer að sjálfsögðu að einhverjum hluta til eigendanna. En ég hef líka bent á það að fyrirtæki í orkugeiranum að fullu í eigu Íslendinga borga ekki minni arð til útlendinga í formi vaxta að lánum sem tekin hafa verið í útlöndum til að reisa virkjanir hvort sem er vatnsaflsvirkjanir eða jarðgufuvirkjanir.

Ég hef ætíð haft mikið álit á Steingrími J. Sigfússyni en hann kaupir formannssætið í Vinstri grænum og stól fjármálaráðherra því verði að láta öfgafullar skoðanir Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur verða ráðandi stefnu í málefnum Magma Energy. Hins vergar hefði ég haldið að Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin létu ekki undan í þessu máli. Þetta mál er grafalvarlegt, ekki út af eignarhaldinu í Magma Energy heldur út af framtíðinni. En öfgahópurinn í Vinstri grænum ná fram sínum villtustu og heimskulegustu áætlunum er búið að vinna slíkt skemmdarverk á endurreisn íslenskara atviknunnuvega, gegn því að nokkrir útlendur fjárfestir vilji leggja fjármuni í íslenskt atvinnulíf, fjármagn sem okkur sárvantar. Ég endurtek; það er okkur mun hagkvæmara að fá áhættufjármagn frá útlöndum sem er á ábyrgð fjármagnseigenda en að taka yfirþyrmandi lán með vöxtum sem verður að greiða og einnig að endurgreiða lánin að fullu, undan því verður ekki vikist.

Ég hlýt að endurskoða stuðning minn við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna eftir þessa atburði. Það hefur verið að koma æ betur í ljós að Vinstri grænir eru ekki samstarfshæfir. Hélt lengi að Steingrímur formaður flokksins gæti ráðið þar ferðinni en því miður hefur hann verið kúgaður til hlýðni af öfgaöflum flokksins.

Og það sem er ennþá verra; Samfylkingin hefur einnig lyppast niður og keypt áframhaldandi líf Ríkisstjórnarinnar með því að láta undan öfgaöflunum í VG. 

Er þetta það sem koma skal, á að kaupa líf Ríkisstjórnarinnar hvaða verði sem er? Það er búið að rétta öfgaöflunum litla puttann, það verður ekki langt þar til þau taka höndina alla.

Það er skynsamlegra að draga að sér höndina og láta öfgaöfl Vinstri grænna sigla sin  sjó.


Skora á alla, meira að segja Vinstri græna, að ræða Magma málið og og fyrirkomulag orkuvinnslu á Íslandi af skynsemi

Ég held að það væri hollt fyrir alla að fara inn á

askja.blog.is

þar sem Ketill Sigurjónsson bloggar undir fyrirsögninni "Um eignarhald og arðsemi". Mér finnst Ketill komast þar vel að kjarna málsins og sýna fram á hvað innihaldslausar upphrópanir hafa verið í gangi í Magma málinu.

Eitt ætla ég að koma inn á og það er röksemd Vinstri grænna, Bjarkar og fleiri að fyrirtækið Magma Energy verði að vara í Íslenskri eigu til að við töpum ekki af þeim ágóða sem af rekstri fyrirtækisins verður vonandi.

Það er vissulega góðra gjalda vert að vilja halda arðinum í landinu en er það tryggt með því að hið opinbera eigi fyrirtækin?

Hve mikill hluti af arðinum af rekstri Landsvirkjunar hefur orðið eftir í landinu, 100% eða hvað? Nei aldeilis ekki, stór hluti af arði Landvirkjunar hefur runnið úr landi sem vextir af þeim gífurlegu lánum sem Landsvirkjun hefur orðið að taka hjá útlendum bönkum til að byggja sínar virkjanir.

Hafa Vinstri grænir aldrei leitt hugann að þessari staðreynd?

Útlent fjármagn sem fjárfesting eða útlent fjármagn sem lánsfé; hvoru tveggja mun taka til sín fjármuni sem fara úr landi, annarsvegar sem arður til fjármagnseigenda, hinsvegar sem vextir til banka og fjármálafyritækja. 


Ruglið í loftslagsmálum heldur áfram

Fyrir nokkrum árum stofnuðu tveir ungir menn upplýsingasíðu, Loftslag.is. Þetta leist mér ljómandi á, þarna fóru menn sem virkilega lögðu sig eftir fræðunum að mér fannst. En Adam var ekki lengi í Paradís, þessir tveir ungu menn eru gjörsamlega heilaþvegnir af þessum áróðri frá ICPP, loftslagsnefnd Sameinuð þjóðanna og þeim hátt launuðu vísindamönnum sem starfa fyrir þá nefnd, aðallega við háskóla í hinum vestræna heimi. Þessi fræði ganga út á það að maðurinn með gjörðum sínum og kolefnisbruna sé að hækka hita jarðarinnar þannig að stór vá sé framundan.

Í bloggi þeirra núna stendur þetta:

Á komandi áratugum mun hitastig halda áfram að aukast, eins og flestir virðast vera búnir að átta sig á. En hverjar verða afleiðingarnar af hnattrænni hitastigshækkun upp á 4°C

Hver er þess umkomin að segja fyrir um slíkt?

Ekki nokkur einasti maður, við vitum tæpast hvað gerist á næsta ári og fjölmargir vísindamenn haf talið meiri hættu á því eftir tvo ártugi að hiti í heiminum fari fallandi, jafnvel að "lítil ísöld" sé þá í uppsiglingu, reikna þetta eftir háttum sólar. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir að það var hart í ári á síðustu litlu ísöld en hiti í heiminum hóf að falla eftir árið 1300 og á 17. og 18. öld voru mikil harðindi ekki síst á Íslandi.

Og takið nú eftir: Hnattræn hlýnun hefur engin orðið á þessum fyrsta áratug 21. aldar, eða frá árinu 2000.  Síðustu 150 árin hefur hnattræn hlýnun aðeins verið 0,6°C.

Hver getur fullyrt um framtíðina? Eru þessir ungu menn á Loftslag.is reiðubúnir til að segja okkur  hvenær Katla muni gjósa, eða Hekla eða hve langt er í að Eyjafjallajökull muni gjósa aftur. Þeir geta alveg eins sagt okkur fyrir um slíka atburði eins og að fullyrða að það muni hlýna hnattrænt um heilar 4°C á  næstu áratugum.


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um vexti afmyntkörfulánum er Salómonsdómur og réttsýnn gagnnvart lántakendum

Dómurinn sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur um vexti af myntkörfulánum, sem dæmd hafa verið ógild, er mjög réttsýnn  gagnvart lántakendum. Ef höfuðstóll lánanna er færður niður um tugi prósenta hvernig í ósköpunum er hægt að fara fram á að vaxtaprósentan sé áfram sú sama? Líklega yrðu þá komin fram hagstæðustu lán sem nokkru sinni hafa verið til á Íslandi frá því verðtrygging var tekin upp, lán sem bera neikvæða vexti og eru ekki í samræmi við nein önnur lánaform hérlendis.

Ég sé ekki annað en að Hæstiréttur muni mjög bráðlega staðfesta dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, óbreyttir vextir af þessum lánum koma ekki til greina en þarna er farin mjög væg leið gagnvart skuldurum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband