Færsluflokkur: Ferðalög

Íbúar í Landeyjum eiga tæpast undankomuleið ef Kötluhlaup kemur vestur af Mýrdalsjökli

Það er samdóma álit þeirra sem gerst þekkja að það sé ekki spurning um að Katla gjósi, spurningin sé miklu fremur hvenær. Flestir búast við stórhlaupi niður Mýrdalssand, þannig var það í síðasta gosi 1918. En það er ekki útilokað að stórhlaup verði vestur af Mýrdalsjökli  og leggist þá einkum í farveg Markarfljóts sem ekki annar slíku hamfarafljóti heldur muni það leggjast yfir miklu stærra svæði. Svo gæti hlaupið verið öflugt að það færði Landeyjar í kaf, ef svo hörmuleg vildi til þá er fjöldi manns í bráðri lífshættu

Héraðsblaðið "Dagskráin" sem gefin er út á Selfossi birtir ákall frá íbúum Vestur-Landeyja sem við slíkar hamfarir yrðu innikróaðir, þeirra undankomuleið er sú að fara á móti flóðinu og komast yfir brúna á Þverá sunnan Hvolsvallar. Það hljóta allir að sjá að undankomuleið undar holskeflu stórhlaups er að hörfa undan því en ekki öfugt.

Kötluhlaup.jpgMeðfylgjandi kort af , sem fengið er úr "Dagskránni", sýnir hvað þarf að gera til að til að skapa undankomuleið fyrir Vestur-Landeyinga. Við ármót Ytri-Rangá, Hólsár og Þverár verður að byggja brú yfir Hólsá við Djúpós, en Djúpós er sá staður nefndur þar sem Þykkbæingar á sinni tíð hlóðu fyrir vatnsflaum Þverár og Ytri-Rangár sem þá byltist vestur í Þjórsá og Þykkvibær var á rauninni stór hólmi umflotinn vatnselg á alla vegu.

Hugsanleg brú yfir Hólsá er merkt með hring á myndinni.

Með þessari brú er opin og greið leið til vesturs undan hugsanlegri flóðbylgju, þá er komin tenging við Þykkvabæjarlveg og sem liggur upp með Ytri-Rangá að vestan upp að Ægisíðu (gengt Hellu). Önnur mynd úr "Dagskránni" sýnir enn betur hvar hugsanleg leið til vesturs úr Vestur Landeyjum skal koma og þar sést fyrrnefnd ármót þriggja fljótanna

Djúpós.jpg Eflaust vefst þetta fyrir þeim sem ekki eru staðkunnugir en ef áhugi er á að kynna sér þetta betur þá er hægt að taka fram kortið af Mið-Suðurlandi og fá stærri mynd af svæðinu.

En með byggingu brúar yfir Hólsá við Djúpós opnast fleiri möguleikar, þessi brú getur opnað algerleg nýjan veg og orðið hluti af Suðurstrandarvegi sem nú er langt komin með bundnu slitlagi milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Hólsárbrúin tengist beint inn á Þykkvabæjarveg sem er með bundnu slitlagi alla leið í gegnum Þykkvabæ og vestur að Háfi sem stendur á bökkum Þjórsár. Með fyllingu yfir eyrarnar í Þjórsá og brú yfir höfuðálinn vestan Traustholtshólma er komið inn á Flóaveg og þar vantar aðeins að leggja bundið slitlag á 10 km spotta til að tengjast Gauðverjabæjarvegi sem er með bundnu slitlagi. Ef síðan þjóðvegurinn er færður norður fyrir Stokkseyri á sama hátt og hann liggur nú fyrir norðan Eyrabakka er komin nýr þjóðvegur frá Hólsárbrú til Grindavíkur. Síðan má láta gamminn geysa og hugsa sér að Þverárvegur frá Hólsárbrú að Þverárbrú á Suðurlandsvegi verði byggður upp og klæddur bundu slitlagi.

Þetta sýnir að bygging brúar yfir Hólsá við Djúpós er ekki aðeins öryggistenging fyrir íbúa Vestur-Landeyja við hugsanlegar hamfarið, heldur fyrst sporið í áttina að Suðurstrandarvegi frá Grindavík með tenginu í Austur-Landeyjum við Suðurlandsveg.


Fólk virðist tilbúið til að skrifa undir hvaða vitleysu sem er

Ólafur Ragnar forseti sagði í nýársávarpi sínu að þjóðaratkvæðagreiðslan sem hann bjó til um fyrri Icesave samning sýndi að þjóðinni væri treystandi til að taka ákvarðanir í stærri málum með þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég var í upphafi, og lengst af, stuðningsmaður Ólafs Ragnars til forsetakjörs og til setu í því embætti. En satt að segja er ég að verða oftar og oftar ósammála Ólafi Ragnari og svo er einnig um þennan boðskap hans frá nýársdegi. Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave var engin sönnun fyrir hve djúpvitur þjóðarsálin er, þær kosningar voru hálfgerður skrípaleikur. Sem frambjóðandi til Stjórnlagaþings lýsti ég mig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum en um slíkar kosninga yrði að gilda fastar reglur hvernig þær bæri að. Eitt er víst; það er með öllu ófært að einn  maður með athyglissýki geti ákveðið upp á sitt eindæmi að nú skuli þjóðin kjósa. Eitt slíkt slys er í uppsiglingu; þó Alþingi samþykki nýjasta Icesavesamninginn þá mun maðurinn á Bessastöðum kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, hann hefur nánast lýst því yfir.

Tugir þúsunda einstaklinga virðast tilbúnir til að skrifa undir nánast hvað sem er ef einungis nógu öflugir áróðursmeistarar skipuleggja framtakið. Annarsvegar krafan um að auðlindir á og í landi séu þjóðareign og hinsvegar herleiðing Sunnlendinga til að mótæla afnotagjaldi bifreiðaeigenda af notkun þjóðvega, gjald sem rynni óskert til að endurbæta slysagildrurnar á þjóðvegum út frá höfuðborginni. Ég skal fúslega játa að ég var í upphafi harður andstæðingur þessa afnotagjalds en ég hef alla tíð verið ákaflega lélegur í múgmennsku. Ég skrifa aldrei undir neinar bænaskrár sem eru síðasta arfleifð kóngaveldis á Íslandi. En mér finnst það skylda hvers og eins þjóðfélagsþegns að kryfja hvert mál til mergjar, ekki að verða fórnarlamb múgmennsku eða hjarðmennsku, gera bara eins og allir aðrir gera. það er einmitt verið leiðin til lélegra stjórnarhátta, lýðræðið krefst þess að "hver maður geri skyldi sína" og skoða bakgrunn hvers máls. Þjóðaratkvæði um auðlindirnar er dæmi um frumhlaup sem er algjörlega án nokkurrar hugsunar, enginn veit hvernig á að forma þá spurningu sem ætlast er til að fari í þjóaratkvæði. Sunnlendingar þvinguðu fram á sínum tíma að Suðurlandsvegur á milli Reykjavíkur og Selfoss yrði 2+2 í stað 2+1 þó það þýddi fyrst og fremst óheyrilega sóun á fjármunum. Og nú hafa tugþúsundir Sunnlendinga mótmælt með múgmennsku og undirskriftum því að tekið sé afnotagjald af þeim sem um vegina út frá Reykjavík aka. Enginn vill borga meira fyrir gæði en hann er er nauðbeygður til. Hins vegar er það mín skoðun að við Sunnlendingar eigum aðeins um tvennt að velja:a) að greiða afnotagjaldið næstu árin, að hverfa frá 2+2 á Suðurlandsvegi og leggja 2+1 veg og fá endurbætur á einum hættulegasta þjóðvegi landsins, b) að berjast kröftuglega gegn afnotagjaldinu m. a. með alkunnri múgmennsku og undirskriftum og kveða það niður í eitt skipti fyrir öll og fá mjög takmarkaðar endurbætur á Suðurlandsvegi næsta áratuginn.

Sunnlendingar, þið eigið valið. Er til of mikils mælst að þið notið þær heilasellur sem hver og einn á og skoðið málið í kjölinn.


Svandís umhverfisráðherra er ekki "framandi" en svo sannarlega "ágeng"

Ekki veit ég hvar ráðsmennska Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra endar, barátta hennar gegn flóru landsins er orðinn slík þjóðremba að engu tali tekur. Það er nánast verið að gera allar helstu skógræktartegundir útlægar af því þær séu "framandi" eða með öðrum orðum að stofni til uppsprottin að fræjum sem safnað hefur verið á norðlægum slóðum þar sem aðstæður eru svipaðar og á Íslandi enda hafa þær margar hverjar staðið sig afburða vel til skógræktar hérlendis. Fjandskapurinn við lúpínuna er eitt, fjandskapur við þessa harðgerðu og duglegu uppgræðsluplöntu sem fer á undan öðrum gróðri, undirbýr jarðveginn fyrir annan gróður sem vel að merkja er með íslenskt ríkisfang, hefur verið hér frá landnámsöld.

Enn sem komið er hefur Svandís ekki fengið ísbjarnarmál til úrlausnar en það yrði sannarleg spennandi að fylgjast með hvernig hún mundi höndla slíka uppákomu. Ekki ólíklegt að henni tækist að fara fram úr allri vitleysunni sem Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sýndi við hennar "ísbjarnarmál". 

En Svandís á einn möguleika ef ísbjörn gengur á land. Sá er að fá Jón Gnarr með sér til Norðurlands (því þar mun ísbjörn eflaust ganga á land ef hann kemur á annað borð). Saman geta þau klappað bangsa og boðið hann velkominn til Íslands í von um að hann hvorki klóri þau né bíti. Síðan taka þau hann með sér í flugvél, auðvitað fær bangsi besta sætið suður. Síðan verði honum smíðuð fullkomin "svíta" í Húsdýragarði Reykjavíkurborgar, þá verður uppfyllt það eina af kosningaloforðum Jóns Gnarr sem hann lofaði aldrei að svíkja.

En nú skulum við staldra við. Er ekki ísbjörn "framandi" í íslenskri náttúru? Flokkast ísbjörn ekki undir sömu lögmál og lerki til skógræktar eða lúpína til jarðvegsbóta? Er ekki borin von að Jón Gnarr fái sína heitustu ósk uppfyllta um ísbjörn í Húsdýragarðinn meðan Svandís er umhverfisráðherra?

Ætli þau yrðu ekki að taka gjörólíka stefnu með bangsa eftir að þau Svandís og Jón verða búin að  klappa honum þeirri von að sá hvíti éti þau ekki?

Og hvert skal þá halda?

Ætli það sé ekki öruggast að fara með hann alla leið á Norðurpólinn og skilja hann þar eftir, kannski verður hann þá orðinn svo elskur að þeim tveimur að hann vilji engan veginn skilja við þessa tvo Íslendinga sem hafa sýnt honum slíka vináttu. Kannski fá þau Svandís og Jón ekki af sér að yfirgefa þennan nýja vin sinn. Blátt bann Svandísar við "framandi" dýrum og plöntum á Íslandi verður líkleg til þess að bangsi verður kyrrsettur þar norðurfrá.

Spurningin er hvort þau skötuhjúin Svandís og Jón kjósa ekki frelsið þar líka. Á Norðurpólnum er eitt öruggt. Þar eru allar plöntur "framandi", þar þarf ekkert að flokka.


Nú er lag Ögmundur að vinda ofan af óráðsíu forvera þíns, Kristjáns Möller

Ögmundur var, eins og búast mátti við, í klemmu í Kastljósi í gærkvöldi að sannfæra Sigmar og hlustendur alla um að VG sé ekki kofinn flokkur. Það er ekki undarlegt, þingflokkurinn er klofinn, það fór ekki á milli mála efir að hafa hlustað á viðtal við Atla Gíslason.

En Ögmundur var skeleggur og afgerandi þegar hann ræddi um hugsanlega gjaldtöku á höfuðvegum út frá Reykjavík, Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Ég leit öðrum augum á þessa gjaldtöku, sem ég fram að því taldi algjöra fásinnu, eftir að hafa hlustað á rök Ögmundar sem eru mjög einföld:

Ef við viljum fá umbætur á þessum stofnbrautum eins fljótt og auðið er verður að afla fjár með gjaldtöku allra sem um framangreinda þjóðvegi fara.

Ef við neitum alfarið að gangast undir þessa gjaldtöku þá verður ekkert frekar gert á næstu árum í endurbótum á þessum þjóðvegum, það er einfaldlega ekki til fjármagn.

Sem íbúi fyrir "austan fjall" tel ég að við eigum að samþykkja gjaldtökuna. Margur kann að segja, sem þekkir mína hagi, sem svo að það sé einfalt fyrir mig að samþykkja, lífeyrisþega sem fer sjaldan um þjóðvegina, allavega ekki nauðbeygður til þess vegna vinnu minnar. Þar á móti segi ég að þeir sem þar fara á milli vegna vinnu sinnar  eru flestir, ef ekki allir, á góðum launum, ekki vafi að þau eru hærri en þau laun sem ég fæ útborguð mánaðarlega kr. 129.000 svo eflaust kunna tvær ferðir á mánuði að ganga nær minni pyngju en þeirra sem eru í fullu starfi á sæmilegum launum og fara daglega.

En þá tek ég upp gamalt baráttumál um sparnað í útgjöldum til vegamála. Forveri Ögmundar á stóli samgönguráðherra var flokksbróðir minn Kristján Möller. Ég tók þátt í umræðunni um Suðurlandveginn í ræðu og riti hvort hann ætti að vera 2+2 eða 2+1. Ég hikaði ekki við að segja að 2+2 vegur væri óþarfur, hann væri flottræfilsháttur og það er bjargföst sannfærin mín enn þann dag í dag. En háværar raddir hér austanfjalls féllu að hugmyndum Kristjáns Möller sem var ölvaður af velgengni sinni af því að hafa látið bora í gegnum fjöllin í sinni heimsbyggð, flott skyldi það vera.

Hinn 6. jan. 2008, vel að merkja fyrir hrun en á hrunárinu, var haldinn merkilegur fundur á Grand Hótel, fundarboðandi Lýðheilsustöð. Þar var rætt um hvort skyldi velja 2+2 eða 2+1 á Suðurlandsvegi. Þar hélt Haraldur Sigþórsson verkfræðingur á Línuhönnun eftirminnilegt og fróðlegt erindi. Hann bar saman kostnaðinn við Suðurlandsveg ef annarsvegar yrði farið í 2+2 væri kostnaðurinn 6 milljarðar en ef farið  yrði í 2+1 yrði kostnaðurinn 2 milljarðar. Umferðaröryggi yrði það sama miðað við hámarkshraða 90 km á 2+1 og 110 km hraða á 2+2. Þróun í öðrum löndum væri sú, sérstaklega í Evrópu (Svíþjóð) að æ fleiri vegir væru lagðir sem 2 +1. Slíkur vegur mundi hæglega anna þeirri umferð sem yrði um Suðurlandsveg til ársins 2030.

Ég tók þátt í umræðunni á fundinum og mælyi með 2+1 vegi gegn nokkrum háværum Sunnlendingum en hafði stuðning tveggja  lækna, Brynjólf Mogensen læknis og formanns slysavarnaráðs og Sigurðar Guðmundssonar þáverandi landlæknis.

Það er rétt að hafa það í huga að fundurinn og þær ákvarðanir sem teknar voru af Kristjáni Möller voru teknar í upphafi hrunársins, hvaða máli skipti hvað hlutirnir kostuðu, nægir voru andskotans peningarnir. En nú er lag að hugsa málið upp á nýtt. Það er aðeins komin í framkvæmd 2+2 vegalagning yfir Sandskeið. Og ef Ögmundur veit það ekki þá bendi ég honum á að fá það staðfest hjá Vegagerðinni að á þeim tímapunkti sem fundurinn var haldinn í  jan. 2008 var til hönnun vegarins milli Reykjavíkur og Selfoss sem 2+1, lausn sem vegagerðin mælti eindregið með.

Ég vona að Ögmundur samgönguráðherra taki til hendi og geri sér grein fyrir hve mikla fjármuni má spara með því að hverfa til upphaflegra áætlana með 2+1 veg. Hann á vísa góða ráðgjafa hjá Vegagerðinni og ég bendi honum eindregið á að fá Harald Sigþórsson verkfræðing einnig sem ráðgjafa sinn.

Ögmundur, þarna eru miklir fjármunir í húfi, við lifum ekki lengur í loftbólu fjármálavitfirringar sem betur fer.


Dapurleg framganga Róberts Marshall í verkfræðiklúðrinu mikla, Landeyjahöfn

Róbert Marshall þingmaður í Suðurkjördæmi og Vestmanneyingur er einn af þeim sem þunga ábyrgð bera á því að sandhöfnin Landeyjahöfn var byggð. Verkfræðimenntaðir menn hjá Siglingastofnun og víðar lét starfsheiður sinn lönd og leið, létu undan pólitískum þrýstingi og "hönnuðu" þessa höfn sem allir staðkunnugir vissu að gæti aldrei orðið nothæft samgöngumannvirki.

Ástæða þess að ég beini orðum mínum að Róbert Marshall, sem vissulega er á mína ábyrgð sem Alþingismaður, hefur látið þann boðskap frá sérfara að það sem nú vanti til að Landeyjahöfn sé brúkleg sé enn frekari pólitísk afskipti að þessu klúðri öllu, einmitt það sem hefur leitt til 4 milljarða taps ofan í sandinn. Í gömlum fjársjóðaævintýrum var leitað að földum fjársjóðum,  ekki síst á sandströndum. Þessum ævintýrum hafa Íslendingar snúið algjörlega við með því að grafa fjármuni í sand á ströndu sem er á stöðugri hreyfingu og víst er að sá fjársjóður mun hverfa og tapast með öllu. 

Róbert Marshall gekk algjörlega fram af mér þegar hann lét Sjónvarpið hafa viðtal við sig í þessu algjöra hneykslismáli. Hann krafðist þess að pólitíkusar tækju að sér ákvarðanir  í stað embættismanna og þar með að sanddæluskip yrði í stöðugri vinnu við að dæla sandi úr Landeyjahöfn. Einhversstaðar sá ég að ætla mætti að kostnaður við sanddæluskip yrði 360 milljónir á ári, eftir 10 ár yrði búið að henda í þetta vonlausa verkefni ekki lægri upphæð en fleygt var í stofnkostnaðinn við byggingu hafnarinnar.

Við höfum mikið rætt um það undanfarið að skapa þurfi skarpari skil milli löggjafarvalds annarsvegar og framkvæmdavalds hinsvegar. En um hvað er Róbert Marskall að biðja? Hann er að krefjast þess að Alþingismenn taki ákvarðanir um framkvæmdir og rekstur mannvirkis sem Alþingismen eiga ekki að skipta sér af á nokkurn hátt.Róbert Marshall má reyndar vera ánægður með að koma  hvergi nærri  þeirri vonlausu baráttu við að halda því í nothæfu ástandi, hans ábyrgð er þegar orðin næg, ábyrgð sem hann rís tæplega undir.

Hvað hefði nýr Herjólfur kostað? Nýr Herjólfur sem hefði farið milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar á innan við 2 klst? Flestir eru Vestmannaeyingar á leið til Reykjavíkur. Með nýjum Herjólfi til Þorlákshafnar hefði tekið þá um 2 tíma og 40 mín, að fara gömlu leiðina eða álíka og það tekur að fara um Landeyjahöfn þá sjaldan að færi gefst til þess.

Ætlar Róbert Marshall virkilega að gera þá kröfu að sanddæluskip verði að störfum árið um kring í Landeyjahöfn? 


Þjóðin ætti að taka sér Reyni Pétur sem fyrirmynd og líta bjartari augum á framtíðina

Það var einstök mynd sem við fengum að sjá í Sjónvarpinu þar sem bjartsýnismaðurinn  Reynir Pétur á Sólheimum birtist. Óneitanlega hvarflaði hugurinn að andstæðunni, sumum bloggurum sem aldrei sjá annað en dauðann og djöfulinn í hverju skoti og velta sér endalaust upp úr svartsýni og hlutdrægni

Reynir Pétur varð þjóðþekktur þegar hann gekk hringveginn fyrir 25 árum, það var svo sannarlega ástæða til að rifja það afrek upp því nú er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem var ófædd eða nýfædd þegar gangan mikla var farin. Reynir Pétur á að varða veginn fyrir þjóðina og kenna henni að leggja bölmóðinn alfarið niður og eigna sér bjartari framtíðarsýn.

Ég finn að nú byrja svartagallsrausararnir að segja "það er allt að fara norður og niður, það gerist ekkert jákvætt".

Er það svo?

Lítum á nokkur jákvæð atriði:


Stýrivextir lækkaðir um eitt prósentustig - eru nú 4.5%, það er ekki langt síðan þeir voru 18%?

Laun hækkuðu um 2,0% frá fyrri ársfjórðungi

New York Times: Iceland Emerged From Recession in 3rd Quarter

1,2% hagvöxtur á milli ársfjórðunga

Einkaneysla jókst um 3,8% á þriðja ársfjórðungi

Vöruskiptin hagstæð um 10,4 milljarða í nóvember

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins ekki betri í áratugi

Ríkistjórnin bætir við sig um 6%  skv. þjóðarpúlsi Capacent, 36% styðja rikisstjórnina

Atvinnuleitendur fá desemberuppbót

Landinn orðinn léttari í lundu - væntingavísitala hækkar um helming

Vöruskiptajöfnuður hagstæðari í ár en í fyrra 

Aflaverðmæti jókst um 14 milljarða 


Aðeins ein leið til að bjarga Landeyjahöfn

Verstu hrakspár um Landeyjahöfn hafa ræst. Það ástand sem þar er komið upp er nokkuð sem fjöldi sjómanna og jafnvel landmanna í Rangárþingi óttuðust. Ég man þá tíð þegar ég var að alast upp á Þjórsárbökkum og sækja barnaskóla í Þykkvabæinn að Rangæingar áttu allir sem einn tvær óskir a) að byggð yrði höfn á suðurströndinni b) að Urriðafoss yrði virkjaður samkvæmt áætlunum Títanfélagsins og Einars Benedikssonar. Nú er höfnin orðin staðreynd en því miður má búast við að Landeyjahöfn eigi eftir að valda miklum vonbrigðum.

Um miðja síðustu öld, eftir að Ameríkanar settu upp herstöðina á Keflavíkurflugvelli, hófu þeir mikla könnun á því hvort unnt væri að byggja höfn í sandfjörum Suðurlands. Þá heyri ég það að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að vænlegast væri að byggja höfnina suður frá Þykkvabæ, í fjörunni milli Hólsár og Þjórsár. Þar var til örnefni sem ég veit ekki hvort nokkur man lengur, Dyrasandur, og var hluti af fyrrnefndri strönd. Ég held að örnefnið sé svo gagnsætt að það segi meira en mörg orð. En Kanarnir byggðu enga höfn og eru sem betur fer farnir til síns heima eða til að ráðskast með aðrar þjóðir en Íslendinga.

Mér var sagt að Lúðvík Gissurarson, sem rak faðernismál gegn Hermanni Jónassyni fyrrum forsætisráðherra látnum og vann það, hafi nýlega skrifað grein í Mbl. þar sem hann setti fram hugmynd sem reyndar varð mér umhugsunarefni þegar ég heyrði fyrst getið um áætlanir um Landeyjahöfn. Lúðvík leggur til að smálækur verði lagður inn í höfnina til hreinsunar hennar, gæti haft einhver áhrif en ég held að vatnsmagnið sé of lítið.

Landeyjahöfn er á röngum stað, hún átti að vera í minni Markarfljóts eða því sem næst. Þar hefði þurft lokubúnað til að leiða beint til sjávar ísskrið og til að geta stjórnað því hve mikið vatnsmagn ætti að renna í gegnum höfnina. Vatnsmagnið í Markarfljóti er glettilega mikið en eins og í öðrum jökulám mismikið. Þar kemur lokubúnaðurinn til og heldur jöfnu rennsli í gegnum höfnina. Það þyrfti þó að vera það mikið að sandrif næði ekki að myndast í hafnarmynninu eða út frá því. þessi straumur ætti engan veginn að hindra skip í að sigla inn í höfnina. Engin ástæða til að hafa áhyggjur af eldgosaöskunni, streymið í gegnum höfnina verður að vera það mikið og dreift um höfnina að öll askan skili sér til sjávar. en setjist ekki til.

En Landeyjahöfn verður ekki flutt austur að Markarfljóti en fyrir góðan pening er hægt að flytja Markarfljót að höfninni eða hluta þess. Þetta kann að vera dýr framkvæmd en hvað skal gera? Á að láta dýpkunarskip vera 365 daga á ári við að dæla sandi úr höfninni, hvað kostar það?

Ég býst við að fram komi mótrök, að ísskrið í Markarfljóti geri óskunda í höfninni. En til þess er lokubúnaðurinn, hann er til að veita hugsanlegu ísskriði beint til sjávar. Sú tækni er öll til hjá Landsvirkjun enda virðist ekki vanþörf á að fleiri en sérfræðingar Siglingastofnunar komi að björgun Landeyjahafnar, bæði lærðir og leikir.

Er eitthvert vit í því að byggja höfn í ármynni eða sama sem í því, virknin yrði sú sama með því að veita Markarfljóti að hluta til hafnarinnar? Förum í ferðalag í  austurátt. Þar hefur risið blómleg byggð við höfn sem er í ármynni, Höfn í Hornafirð. Ég tel harla ólíklegt að sá blómlegi og fallegi bær væri til ef lífgjafann vantaði, Hornafjarðarfljót.

Urðu engar slíkar pælingar til í kollum sérfræðinganna á Siglingastofnun, datt þeim aldrei Hornafjarðarfljót og Höfn í Hornafirði í hug?


Guðlaugur Þór vaknar eftir dúk og disk á miðjum Suðurlandsvegi

Guðlaugur Þór alþingismaður virðist eiga greiðan aðgang að Ríkisútvarpinu. Viðtal við hann um Suðurlandsveginn í hádegisfréttum  Útvarpsins í dag og síðan viðtal um sama efni í Sjónvarpinu um kvöldið. Það sem hann sagði um þetta verkefni var vissulega rétt svo langt sem það náði. Hann spurði réttilega af hverju Suðurlandvegurinn væri byggður 2+2 en ekki 2+1 sem er mun ódýrara, skapar ekki minna umferðaröryggi.

En hvar hefur Guðlaugur Þór verið undanfarin tvö ár?

Átökin um val á gerð Suðurlandsvegar fór fram á öndverðu ári 2008. Þá var mikil móðursýki í pólitíkusum og fleirum austan Hellisheiðar og þá var barið í gegn að Suðurlandvegurinn skyldi verða 2+2. Ég beitti mér nokkuð fyrir því að vegurinn yrði 2+1 þar sem þar var um góða lausn að ræða, 2+2 yrði þrefalt dýrari en 2+1.

Í byrjun febrúar árið 2008 hélt Lýðheilsustöð fund um Suðurlandsveginn á Grand Hótel í Reykjavík. Við sem komum frá Selfossi og Þorlákshöfn urðum nokkuð sein á fundinn vegna ófærðar en ef mig minnir rétt þá var það þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, sem setti fundinn en hvarf síðan strax af vettvangi. 

Haraldur Sigþórsson verkfræðingur á Línuhönnun flutti ítarlegt erindi um þessar tvær vegagerðir, 2+2 og 2+1.  Í máli hans kom fram að reikna mætti með að 2+2 væri þrefalt dýrari framkvæmd en 2+1 sem væri fyllilega jafn öruggur vegur samt. Gerð 2+1 vegar eykst víðast hvar á kostnað 2+2, sérstaklega væru Svíar þar í farabroddi og Bandríkjamenn væru farnir að kynna sér ítarlega rök Svíanna og taka upp þeirra stefnu í vegamálum.

Ég var fyrstur upp á eftir frummælendum og hélt fram rökunum fyrir 2+1, það sama gerðu Brynjólfur Mogensen slysavarnarlæknir og Sigurður Guðmundsson landlæknir. En ýmsar háværar raddir frá Suðurlandi heimtuðu 2+2, ekki kæmi annað til greina.

Og það varð ofaná, stefnan var tekin á 2+2 veg milli Reykjavíkur of Selfoss þrátt fyrir að Vegagerðin vildi taka stefnuna á 2+1, fá öruggan veg á 1/3 kostnaðar.

En takið eftir: Þessi umræða fór fram árla árs 2008 áður en hrunið mikla skall á. 

Núna er verið að ganga til samninga við verktaka um fyrsta kaflann, frá Lögbergi að Litlu kaffistofunni, vegurinn skal vera 2+2.

Hefur ekkert breyst eftir hrunið? Datt engum í hug að ef til vill væri rétt í fjárhagslegri stöðu þjóðfélagsins að horfa svolítið í kostnaðinn? Klingdu engar bjöllur hjá ráðamönnum? Hvernig stendur á því að þingmaður kemur nú af fjöllum eins og jólasveinn í desember og veit greinilega ekkert hvað hefur verið að gerast síðustu 2 árin? Af hverju hljóp hann burtu af fundinum forðum og gleymdi málinu síðan gersamlega þar til hann virðist vakna nú þegar verið er að undirskrifa verksamning um fyrsta áfangann. Hann er tæknilega 2+2 svo þeir sem tóku ávörðun um að láta þá sóun standa virðast ekki vera í tengslum við ástandið í þjóðfélaginu.

Sá sem ber mesta og þyngsta ábyrgð á því að vegagerðinni var ekki breytt í  2+1 og 1/3 hluti kostnaðar er Kristján Möller samgönguráðherra. Hann tók snemma þá ákvörðun að fylgja flottræfilshætti ákveðinna Sunnlendinga sem með því reyndu að slá sig til riddara í pólitískum tilgangi. Það er vart hægt að segja annað en það eru embættisafglöp Kristjáns Möllers að hafa ekki tekið í taumana og stöðvað þessa óheyrilegu sóun sem lögn 2+2 vegar milli Reykjavíkur og Selfoss er.

Guðlaugur Þór, ætti bara að sofna aftur og umfram allt: láta sig hverfa fyrir fullt og allt af Alþingi. 


Loka Reykjavíkurflugvelli, hraðlest milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar

Það komu fram mörg loforð og stefnumið hjá nýjum meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur, meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Eitt af því merkasta er að Reykjavíkurflugvelli verði lokað og landið nýtt til bygginga í framtíðinni og hraðlest lögð til Keflavíkurflugvallar. Það eru mörg ár síðan ég komst á þá skoðun að þetta væri besta lausnin. Ef menn hafa hafa verið samþykkir því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður hefur lausn innanlandsflugsins ætíð verið sú að byggja nýjan flugvöll frá grunni ýmist á Hólmsheiði eða í saltbaðinu á Lönguskerjum. Þó eigum við flugvöll, Keflavíkurflugvöll, í aðeins um 50 km frá miðborg Reykjavíkur. Vissulega hafa ýmsir bent eindregið á hraðlest til Keflavíkurflugvallar en það hefur ætíð verið barið niður þar sem kostnaðurinn væri svo mikill.

En hve mikill væri kostnaðurinn af því að byggja nýjan flugvöll?

Vonandi verður þetta stefna sem verður að raunveruleika. Ég minni  á gamla grein eftir mig þar sem ég taldi tímabært að huga að neðanjarðarlest á höfuðborgarsvæðinu. Þar gæti verið um krossbraut að ræða a) frá Hafnarfirði til Grafarvogs b) frá Breiðholti út á Granda. Engir peningar til verður eflaust sagt en sem langtímamarkmið getur þetta orðið að veruleika. Við þessa krossbraut neðanjarðar verða síðan tengt strætisvagnakerfi, hvað mundi það draga úr notkun einkabíla á götunum?

En nú verður Kristján Möller samgönguráðherra að vakna og ekki síður Jón Gnarr, Dagur og Hanna Birna og allir hinir sem taka ákvarðanir. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður af þá er sú umferðamiðstöð sem á að fara að byggja á kolröngum stað. Ég ætla að vera svo ósvífinn að ætla Siglfirðingnum Kristjáni Möller það að með því að byggja umferðarmiðstöð norðan við Hótel Loftleiðir sé hann leynt eða ljóst verið að vinna að því að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi. Umferðarmiðstöðin á bæði að þjóna innanlandsflugi og rútuumferð úr borg og í. Ef flugumferð þarna verður lögð niður er það deginum ljósara að umferðamiðstöð er þarna á kolröngum stað og kallar á mun meiri um umferð á þeim götum sem nú þegar eru fullsetnar. Allar rútur verða að fara inn um þröngsetnar götur inn og út, allir sem koma á eigin bílum eða leigubílum lenda í sömu umferðhnútum.

Umferðamiðstöð fyrir rútur, hvort sem eru á áætlunarleiðum eða í hópferðum, á að sjálfsögðu að vera sem næst helstu umferðaæðum út frá höfuðborgarsvæðinu. Þar kom eindregið til greina   a) Mjóddin b) Nágrenni Rauðavatns


Svívirðileg álagning olíufélaganna birtist grímulaust við Smiðjuveginn í Kópavogi

Lengst af störfuðu þrjú olíufélög á Íslandi og þótti mörgum nóg um, líklega kallaði þetta á hærri álagningu þar sem yfirstjórn þriggja dreifingarfélaga þyrfti sitt í kostnað og að gjalda hluthöfunum sæmilega digran álegan arð. En fyrir nokkrum árum bættist fjórði dreifingarfélagið í hópinn, þá héldu margir að kominn væri fram sölufélag bensíns og olíu sem mundi láta sé nægja minni álagningu og þar með lækka verðið.

En þetta nýjasta olíufélag hefur fyrirhafnarlaust runnið inn í samráðshópinn, það selja allir þessa vöru á sama verði. En við norðurenda Byko í Breiddinni gefur á að líta. Rétt hjá Bónus við Smiðjuveginn hefur verið sjálfsafgreiðslustöð frá Skeljungi, Orkan, og ef litið er yfir Nýbýlaveginn blasir mikil og vel hýst bensínsstöð frá N1. En þetta dugar ekki. Mitt á milli þessara tveggja bensínstöðva er Atlantic olíufélagið búið að reisa bensínsölu, fékk svolitla skák úr bílastæði Byko. Sem sagt; á örlitlum bletti eru komnar 3 bensínstöðvar, hvað segir þetta okkur sem erum að kikna undan bensínverði? Það segir okkur að bensínsölufélögin vaða í peningum til að leika sér með, byggja bensínstöðvar hver við annars hlið.

Er ekki hægt að finna smá blett fyrir Olís þarna, ekki eiga þeir að verða útundan. Þeir hljóta að eiga gnægð seðla eins og hin félögin til að leika sér með. 


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband