Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Með mínum minnisstæðustu dögum

Ég glaðvaknaði en vissi ekki af hverju. Klukkan sýndi að hún var ekki orðin sjö að morgni. Ég var í góðu yfirlæti hjá þeim Agli og Böggu í Skarði í Þykkvabæ. Það var svo langt að sækja skóla frá Sandhólaferju til Þykkvabæjar að okkur systkinunum frá "Ferju" var komið fyrir á bæjum í Þykkvabænum, sóttum skóla 2 vikur í senn og vorum heima næstu 2 vikur. Mér leið ákaflega vel hjá þeim sæmdarhjónum Agli og Böggu í Skarði, einnig í skólanum hjá Guðmundi Vernharðssyni.

En þetta var 29. mars 1947 og einhverra hluta vegna var ég skyndilega glaðvakandi og fékk verkefni til að leysa, verkefni í eðlisfræði. Þar sem ég svaf í Skarði hékk mikill olíulampi úr lofti. En það var nokkuð að gerast sem mér kom spánskt fyrir sjónir; lampinn rólaði fram og til baka og ég fór í mikil heilabrot. Ef ég hefði rekið mig í lampann þegar ég fór í rúmið þá hefði hann átt að stöðvast fyrir löngu. Þá rak Magga vinnukona inn nefið og sagði "Sggi, varðstu var við nokkuð? Ég neitaði því upptekinn í erfiðu eðlisfræðiverefni; af hverju rólaði lampinn til og frá. Ég fór á fætur, heimilisfólk var komið á fætur og stóð úti í blíðviðrinu.

Á austurhimni var mikið sjónarspil. Þar reis kolsvartur mökkur langt upp í loftið, lóðréttur norðan til eins og hamraveggur, en samfelldur mökkur til suðurs. Ekki hugsaði ég út í það þá að þessi kolsvarti mökkur mundi breiða svo úr sér og ná til Evrópu, Bretlands og Frakklands.

En gosið í Heklu var staðreynd, þessi fjalladrottning hafði verið stillt og prúð í meira en 100 ár en nú fannst henni tími til kominn að ræskja sig og það með það sterkum jarðskjálfta að hann hreyfði hressilega við olíulampanum í Skarði, eðlisfræðiþrautin var leyst. Ég fór í skólann og Guðmundur kennari og skólastjóri staðfesti að Hekla væri að gjósa. Veður var gott, stillt og bjart. En það breyttist skyndilega. Um kl. 9:00 sást ekki á milli húsa í Þykkvabæ.

 


Ríkisútvarpið er í tilvistarkreppu, þessi ómetanlega menningarstofnun fyrri ára

Þegar ég fæddist var Ríkisútvapið 4 ár. Síðan höfum við, ég og Ríkisútvarpið,  átt samfellda samleið og það hefur verið mér óemetanlegt. Ég ólst upp á menningarheimili sem hafði tónlist í hávegum, faðir minn átti orgel sem hann var að mestu hættur að spila á en elsti bróðir minn, Þorgeir, hafði tekið við, hann lærði hjá Kjartani frá, að ég held,  Stóra-Núpi, lærði að lesa og spila eftir nótum. Það var oft tekið lagið þegar góða gesti bar að garði.

En á seinni árum hefur mér orðið æ ljósara hve gífurleg menningarstofnun Ríkisútvarpið var á fyrstu ártugum sinnar tilvistar, ég vil segja ótvírætt fyrstu þrjá ártugina. Foreldrar mínir keyptu útvarpstæki um leið og RÚV tók til starfa. Minnisvert tæki sem samanstóð af hátalara, lampatæki, sýrurafhlöðu og stóru þurrbatteríi, allt þetta varð að vera til svo hljóð heyrist, úti var loftnet sem strengt var í staur mikinn nokkuð frá húsinu. Þurrbatteríið var keypt hjá verslun Friðriks í Þykkvabæ, en sýrugeymarnir voru 2, annar alltaf í hleðslu á Urriðafossi yfir í Árnessýslu.

Það var þessi menningarstofnun sem leiddi mig og mína kynslóð inn í undraheim tómlistarinnar, þar var ekki aðeins leikið á eitt orgel, þar hljómuðu öll hljóðfæri í stórum hljómsveitum. Ég fékk að kynnast Motsart og öllum stóru meisturunum, Stefán Íslandi söng perlurnar með þeim afleiðingum að í bernsku ákvað ég að verða óperusöngvari, af því varð þó ekki af skiljanlegum ástæðum. Útvarpssögurnar voru ógleymanlegar og svo komu laugardagsleikritin, Lárus Pálsson og allir hinir stórkostlegu leikararnir urðu heimilisvinir. Svo barnatímar Þorsteins Ö á sunnudögum, það þurfti mikið að ganga á til að draga mann frá tækinu þá. Bjarni Björnsson lék jólasveininn um hver jól og ég minnist þeirrar sorgar þegar sagt var frá því að hann væri dáínn. Auðvitað átti maður sem barn ekki að vita annað en þarna færi ekta jólasveinn en stundum gerði maður þeim eldri það til geðs að vera eitthvað heimskari og einfaldari en raunin var.

En ekki sleppa sér aðveg í "nostalgíunni". 

Allar stofnanir þurfa að fylgjast með í straumi tímans, aðlaga sig að breyttum veruleika. Og þar hefur RÚV brugðst eða ölu heldur stjórnmálmennirnir sem ráðskast hafa með þessa merku stofnun. Fyrir líklega u. þ. b. 25 árum var útvarps- og sjónvarpsrekstur gefinn frjáls. Því miður voru ekki allir þeir sem réðu örlögum RÚV með það á hreinu hvað þeir vildu. Í stað þess að halda fast í hið upprunaleg menningargildi RÚV var ákveðið að elta "frjálsu" stöðvarnar, vera sem mest eins og þær og vinna í harðri samkeppni. Þess vegna var RÁS2 sofnuð og löngu áður var búið að stofna Sjónvarpið, sjónvarpsstöð sem varð í harðri samkeppni við "frjálsu" stöðvarnar og skrapar auglýsingamarkaðinn sem ákafast. Efni sjónvarpsins er keimlíkt hinum "frjálsu", ameríst drasl áberandi. Þó má segja Sjónvarpinu það til hróss að hjá þeim slæðist með efni frá Evrópulöndum, stundum sæmiegt, stundum skelfilega lélegt (þýskar og franskar myndir margar slæmar).

En nú er RÚV að verða nánast óþolandi vegna yfirgengilegra íþróttafrétta. Vetrarleikarnir taka sinn toll en í gær tók steininn úr þegar boðað var að framundan væri heil syrpa af umfjöllun um löndin sem taka þátt í Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu á sumri komandi. Meira að segja á besta útsendingartíma. Þá er ótalið að 10 - 20% af hvejum fréttatíma kl 19:00 fer í íþróttafréttir. Mér finnst sjálfsagt að flytja fréttir af öllu því kraftmikla unga íþróttafólki hérlendis sem er í öllum mögulegum íþróttgreinum.

En mér er spurn: Hefur það verið kannað hve stór hluti sjáenda og hlustenda RÚV er áfjáður í að sjá amerískan körfubolta, amerískan "fótbolta" og síðan fréttir frá nánast hverju golfmóti vestanhafs? Þurfum við að eltast við alla knattspyrnuleiki í Evrópu?

Og þá kemur  spurning: Hve mikill kostnaður fylgir því að stofna sérstaka íþróttarás. Þar geta hinir "forföllnu" horft og séð meðan við hin veljum okkur annað, þar gætu verið fréttir frá yfirstandandi Vetrarólympíuleikum. Hve margir sitja fram eftir nótti til að sjá hægvirka og langdregna keppni skíðaíþrótta, hefur það verið kannað?

En að kjarna málsins. Hvaða breytingar vil ég, sem þessar línur rita, sjá á Ríkisútvarpinu?

1. Leggja niður eða selja RÁS2. Allt sem þar kemur fram er lítill vandi að finna á öðrum stöðvum.

2. Efla RÁS1. Þó ekki þannig að lengja dagskrána. Hana mætti gera fjölbreytari og að hluta léttari, þó verðum við að vera nokkuð íhaldsöm þarna, gömlu gildin eiga að halda sér.

3. Efla landhlutastöðvarnar, efla og auka heimaunnið efni þeirra, hleypa þeim markvisst inn í RÁS1 svo hlustendur fylgist betur með hvað er að garast hjá samborgurum sem víðast.

4. Taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði,  landshlutastöðvum ættu þó að eiga möguleika á tilkynningum og auglýsingum sem tæplaga komast til viðkomandi frá "frjálsu" stöðvunum. Þetta gæfi öðrum stöðvum auknar tekjun og þær greiði RÚV ákveðinn hluta af þeim tekjum. Þarna er vandfundið meðalhófið en það er hægt að finna.

5. Nefskattur til RÚV afnuminn, stofnunin færi alfarið á fjárlög.

6. Sjónvarpinu yrði sett ný stefnuskrá og raunar RÚV í held. Sjónvarpið hafi ákveðnar skyldur til að efla innlenda dagskrárgerð og ekki síst styðja íslenska kvikmyndagerð. Sjónvarpið hafi skyldur til að kynna menningu sem víðast að t. d. með því að kynna hvað er að gerast í kvikmyndagerð í fjarlægum löndur. Þá á Sjónvarpið að efla margskonar kynnigar á mannlífi, náttúru og þróun í heiminum, reka öfluga og heiðarlega fréttastofu, flytja fréttaskýringar í hæsta gæðaflokki 

PS: Aldrei talsetja kvikmyndir fyrir  fullorðna. Það er hluti af því að kynnast örum menningarheimum að hlusta á framandi tungutak. Textun á að nægja 

 

 


Svandís, það er langt frá því að allir séu sammála um skaðlega hlýnun jarðar

Velkomin heim Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra frá þessari ótrúlegu samkomu í Kaupmannahöfn. Ég var að enda við að svara öðrum hér á blogginu þar sem ég sagði að vonandi renni upp þeir tímar að forystumenn þjóða og allur almenningur átti sig á þeirri staðreynd að það er með öllu útilokað að mannskepnan geti haft nokkur teljandi, eða jafnvel engin, áhrif á loftslag jarðar eða ráði veðri og vindum. Það verður sólin og ýmsir aðrir þættir sem þar munu ráða eins og undarfarin milljónir ára.

Hlýnun jarðar var nokkur á síðustu öld eða um 0,74°C. Þetta mun ekki breyta gæðum jarðlífs nema til hins betra, gæðum sem eru eins og ég veit að þú gerir þér ljóst, æði misskipt. Því miður hafa ákveðin öfl í heiminum, ólíklegustu öfl hafa þar náð saman mannkyninu til stórtjóns, að beina allri athyglinni að einni af grundvallar undirstöðum lífs á jörðinni, koltvísýringi CO2, og gera þessa undirstöðu lífsins að blóraböggli fyrir hlýnun jarðar sem er engan veginn sú mikla vá sem af er látið.

Hitaþróun á 20. öldÉg ætla ekki að skrifa langt mál að sinni en læt fylgja með línurit yfir þróun hita á jörðinni á 20. öld. Þetta línurit gerir örugglega ekki minna úr hækkun hita en efni standa til því línuritið er komið frá HadleyCRU sem er reyndar staðið að því að "lagfæra" staðreyndir til að fá "betri" niðurstöðu. Því hefur verið haldið fram að hækkun hita hafi verið samfelld alla öldina en eins og sjá má hefur þróunin verið upp og niður. Þarna sést einnig tvennt athyglisvert; hækkun og lækkun hita  fylgir hinum sterka Kyrrahafstraumi PDO, hvort hann er jákvæður eða neikvæður, og virkni sólar var mikil og vaxandi seinni hluta aldarinnar en er nú að breytast enda hefur hiti ekki farið hækkandi á þessari öld, þeirri 21. En ég veit Svandís að um slíka smámuni hafið þið á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn ekki skeytt. Ráðstefnan var líkari uppboðsmarkaði, eftir því sem ég hef séð í fréttaflutningi, þar sem hver þjóðarleiðtoginn reyndi að yfirbjóða hina með innihaldslausum yfirlýsingum, einnig sameiginlegt að enginn vissi neitt um loftslagsmál.

Það er svo ótalmargt sem hægt er að segja um þessa makalausu vitleysu sem þið nær allir stjórnmálamenn heimsins hafið látið leiða ykkur út í og ég er ákveðinn í að láta heyra meira í mér.

Þú segir að allir séu orðnir sammála í loftslagsmálum og þá miklu vá sem framundan er. Líklega áttu   þá við ráðamenn, ekki almenning og það er langur vegur f´r því að allir vísindamenn séu þessarar skoðunar. Þeir sem andmæla fá ekkert birt eftir sig í vísindritum né fréttamiðlum samanber Fréttastofu RÚV. 

Ég skora á þig og þitt ráðuneyti til að láta fara fram skoðanakönnun hérlendis um hvort almenningur trúi því að hlýnun jarðar sé vá og hvort sú vá (ef vá er) sé"lífsandanum" koltvísýringi CO2 að kenna.

Persónulega óttast ég meira að fram undan sé lækkandi hiti á jörðinni svo líklega þarf hvorki þú né aðrir stjórnmálamenn að fara í felur vegna heimskulegustu ályktunar sem gerð hefur verið á alþjóðlegri ráðstefnu:

Að hiti skuli ekki hækka meira en 2°C á þessari öld!!!

Já mikill er máttur mannsins!!! 

Aðeins ein lítil spá. Þessi vetur verður harður, miklar frosthörkur á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku. Stundum sleppum við betur eftir því hvernig lægðir haga sér en við skulum einnig búast við frostköldum vetri.

 


Nú er mælirinn fullur, Fréttastofa RÚV verður sér til stórskammar

Þorvaldur Friðriksson fréttamaður á Fréttastofu RÚV flutti óforskammaðan heimsendapistil í hádegisútvarpinu í dag 1. des. Blákalt hélt hann því fram að yfirborð íss á Suðurskauti og Grænlandsjökull bráðni tvöfalt hraðar en áður hefði verið ætlað, yfirborð sjávar muni hækka um 1,5 m á þessari öld, síðan kom upptalning á eyjum sem fara munu á kaf og svo kom rúsínan í pylsuendanum; upptalning á stórborgum sem hverfa munu undir yfirborð sjávar þar á meðal London og New York!

Fyrir skömmu las ég blogg Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Þar minntist hann á yfirgengilegan pistil Þorvaldar Friðrikssonar um loftslagsmál í morgunútvarinu sem hann nánast gat ekki annað en hlegið að.

Á meðan allar fréttastofur og fréttamiðlar heimsins fjalla um "ClimateGate" falsanir vísindamanna sem vinna undirstöður kenninga IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, minnist Fréttastofa RÚV ekki á hneykslið en heldur áfram að ryðja frá sér fráleitustu heimsendaspám sem frá einhverjum svokölluðum "vísindamönnum " hafa komið.

Nú er nóg komið, Óðinn fréttastofustjóri og Páll útvarpsstjóri verða að grípa í taumana. 


Kenningin um að koltvísýringur CO2 sé að hækka hita í heiminum hefur aldrei verið sönnuð

Kenningin er ekki sannanleg, enda kenning.

Þakka þér Höski Búi fyrir þessa yfirlýsingu. Þarna er einmitt kjarni málsins; óljós kenning er að leiða okkur á hrikalegar villigötur, það er búið að trylla  flesta stjórnmálamenn til að eyða milljörðum í baráttu til að halda niðri hnattrænum hita, (sem ekki er hægt og það er heldur ekki að hlýna á jörðinni) og skattleggja fram úr hófi atvinnulíf sem mun síðan leiða til  lélegri lífskjara og meiri hörmunga fyrir hinar"gleymdu" þjóðir sem eru að eru án vatns, án heilbrigðisþjónustu og matar.

Þú segir að ég endurtaki alltaf það sama og því neita ég ekki, ég krefst svara, þetta er einmitt það sem þíð á Loftslag.is gerið; endurtakið alltaf það sama. 

Þú segir að þið fjallið um loftslagsbreytingar ekki veðrið. Síðan segið þið að aukning á CO2 og hlýnun jarðar hafi veðurfarslegar afleiðingar.

Hvernig er hægt að komast svona í mótsögn við sjálfan sig?

Nú er rætt um að nautpeningur á Indlandi sé stórhættulegur vegna þess metans sem hann gefur frá sér, ég hef séð "sanntrúaða" predika að það eigi jafnvel allir að hætta að leggja sér kjöt til munns vegna þessa. En á hverju á þá mannfólkið að lifa? Á grænmeti segja sömu spekingar. Er það mögulegt að auka stórlega ræktun grænmetis og djöflast um leið gegn aukningu CO2 sem er undirstaða alls gróður í heiminum?

Að rækta grænmeti eru einmitt þau ráð sem Grænfriðungar gáfu Grænlendingum og Inúítum í Norður-Kanada, þá gætu þeir hætta að veita hvali, seli og annað sjávarfang. Ráð af sama toga og franska drottningin gaf almenningi; ef ekki er til brauð því borðar fólkið þá ekki kökur!

Þið segið að aukning CO2 komi als ekki úr hafinu, það verður seint sannað. Þið ættuð að vita það að hver manneskja gefur frá sér umtalsvert CO2 við öndun.

Hefur ekki mannfjöldi í heiminum tvöfaldast á síðustu öld eða réttara sagt seinni hluta seinustu aldar?

Ætlið þið svo að halda áfram að stinga höfðinu í sandinn varðandi hið stóra "ClimateGate" láta eins og það hneyksli hafi aldrei gerst, að "vísindamen" hafi hagrætt staðreyndum til að sanna kenningar sínar. Er Michael Mann enn einn af ykkar "páfum" í vísindum loftslagsins? Ertu að vísa til hans þegar þú segir "en mælingar á náttúrunni urðu til þess að menn gátu reynt á hana með almennilegum mæligögnum".

Ég veit að ykkur "sanntrúuðum "  er ekki verra við neitt en rökræður, það kemur alltaf betur og betur í ljós.

Pistillinn að ofan var athugasemd við það sem kom fram á loftslag.is. Set það einnig hér fram á mínu bloggi. Til skýringar: Michael Mann prófessor við háskóla í Virginíu vestra er sannur að hrikalegum fölsunum um veðurfar frá árinu 1000 til nútímans. Hann reyndi að sýna fram á að hiti á miðöldum (víkingatímanum) sem sannarlega var að m.k. 2°C hærri en nú, hafi aldrei verið staðreynd. Hann reyndi einnig að sýna fram á að "Litla ísöld" á 17. og 18. öld hafi aldrei verið til, íslenskir annálar segja okkur nákvæmlega um veðurfar á þeim tíma. Eitt árið gengu 30 hvítabirnir á land á Íslandi, meira að segja 2 í Skaftafellssýslum.

Og engin Þórunn til að taka á móti þeim!

Hafís náði 15 sjómílur suður af landinu það árið!


Varnaðarorð um Landsspítalann í tíma töluð

Því miður setti ég það ekki á mig hvað konan hét sem kom í Silfur Egils í gær og varaði eindregið við því gönuhlaupi að ætla að byggja nýjan Landspítala á gömlu Hringbrautinni. Mér hefur lengi verið það ljóst að það er yfirgengileg vitleysa að byggja spítalann út frá gamla spítalanum.

Rökin eru margskonar en nefnum þau helstu:

Umferð til og frá spítalanum kollvarpar endanlega því gatnakerfi sem fyrir er. Það verður að grafa bílagöng undir Öskjuhlíð, önnur undir Þingholtin. Það leysir þó ekki vandann, allar leiðir til austurs teppast á morgnana og aftur eftir vinnudag.

Að ætla að endurbyggja gömlu húsin, hið formfasta  hús Guðjóns Samúelssonar og alla kofana sem hefur verið raðað þar í kring hver öðrum ljótari, er eitt af því sem er eins mikið óráð og nokkuð getur verið óráð.

Ný bygging á "frjálsum" stað í útkanti borgarinnar er tvímælalaust það sem er skynsamlegast.

Hvers vegna ekki í nánd við Vífilstaði?

Í nýjum spítala skipulögðum frá grunni þar sem ekkert gamalt og úr sér gengið er að þvælast fyrir gæti einnig orðið til þess að öll vinna innanhúss yrði skipulagðari, það er ekki nokkur vafi á að hluti af vanda spítalans er nú léleg afköst vegna slæms og óhentugs húsnæðis en það er fleira að.

Skipulag verka innan spítalans eru sumstaðar mjög slæmt þar sem gamlir kóngar og drottningar ráða ríkjum, tví- og þríverknaður er þar því miður allt of algengur.

En þetta er mein sem ekki má tala um!


Maður er nefnur Jochen Flasberth

Þessi mjög svo sérkennilegur maður var á dögunum skipaður Präsident des Umweltbundesamtes í Þýskalandi af  Angelu Merkel kanslara. Hann mun þar með vera forseti stofnunar sem er æðsta ráð í Þýskalandi í umhverfismálum, ætli þetta sé ekki einhverskonar Umhverfisstofnun Þýskalands. Angela valdi hann vegna  þess að hann er ákafur umhverfissinni enda tók hann þegar til starfa af miklum þrótti. Hans fyrsta stefnumörkun var að Þýskaland skyldi vera laust við koltvísýring CO2 árið 2050, þetta var engin hálfvelgja hjá Jochen, landið og íbúar þess skyldu vera lausir við þetta "eiturgas" 100% á þessum fjórum áratugum.

Einn ágætur prófessor að nafni Thüne kærði Jochen Flasberth til lögreglu fyrir að stefna að þjóðarmorði. Í landi þar  sem búið væri að útrýma CO2 algjörlega þrífst ekkert líf, enginn hvorki menn né skepnur geta lifað við þessa vöntun og enginn gróður þrífst heldur.

Forsetinn fyrir Umhverfisstofnun Þýskalands hefur nú dregið aðeins í land. CO2 skal ekki útrýmt algjörlega en stefna skal að því að minnka það um 80%, ekki 100%, fyrir árið 2050.

Ef það tækist yrði lífið erfitt í Þýskalandi, en sem betur fer getur enginn mannlegur máttur afrekað það.

 

 


Hraðinn er ekki eina orsökin, ekki síður yfirgengilegt fúsk

Það voru ekki fagrar myndir sem birtust nýlega í Sjónvarpsfréttum af rakaskemmdum  í nýjum eða nýlegum húsum. Ástæðan var sögð of mikill hraði í byggingu húsanna en ég vil ekki nefna það sem einu ástæðuna. Ef heiðarlegir iðnaðarmenn eru að störfum þá fara þeir aldrei hraðar í sínum störfum en svo að verkið sé eins vel af hendi leyst og mögulegt er. Það er engin sem getur gert alla hluti 100% en  iðnaðarmenn eiga ætíð að reyna að komast eins nálægt því marki og mögulegt er.

Hver er þá orsökin?

Ég nefni orsökina  FÚSK, tökuorð, en hefur náð vistfestu í íslensku. Því miður er það svo að á undanförnum "stórveldisárum"  hefur margt farið úrskeiðis í störfum okkar, ekki aðeins í fjármálaheiminum, heldur einnig í mörgum þáttum atvinnulífsins og þar er byggingariðnaðurinn ekki undanskilinn. Þessir hroðalegu gallar á nýjum húsum, þar sem raki með tilheyrandi sveppagróðri er sýnilegur víða, er ekkert annað en fúsk, kæruleysi og einnig það að hafa kastað fyrir róða margvíslegri þekkingu sem var jafnvel vel þekkt hérlendis áður en byggingaöldin hófst eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Við erum að stæra okkur af því að tækninni hafi fleygt fram, ný byggingarefni komið á markað og hvorutveggja er þetta gott og blessað. En það er líklegt að það komi okkur að litlu gagni að eignast nýjan forláta bíl ef við kunnum ekki að aka honum og höfum jafnvel ekki réttindi til þess. Nú ætla ég ekki að bera alfarið blak af ísl. iðnaðarmönnum, stundum hafa þeim verið mislagðar hendur. Reyndar sagði ég einhvertíma í einhverjum minna gömlu pistla, Lagnafrétta í Fasteignablaði Morgunblaðsins, að jafnvel  stundum væru hættulegustu fúskararnir með bæði sveinsbréf og meistarabréf. En það eru aðrir hlutir sem hafa verið orsakavaldur að þeim miklu göllum sem hafa verið að koma fram undanfarin ár í nýjum byggingum.

Mistökin með byggingarstjórana

Árið 1998 var samin og löggilt ný Byggingarreglugerð hérlendis, reglugerð sem gildir fyrir landið í heild. Þar var eitt nýmæli sem átti að vera mikið framfaraskref. Áður höfðu meistarar í hveri iðngrein borið ábyrgð á störfum sinna mann og því að þeirra þáttur í byggingunni væri sómasamlega unninn. Hins vegar hafði sú þróun orðið að í stórbyggingum höfðu þau stóru byggingarfyrirtæki sem voru heildarverktakar sett upp embætti Byggingarstjóra, eðlileg og sjálfsögð þróun, hæfur maður fenginn til að samræma störf allra iðnþátta svo ekki ræki sig hvað á annars horn. Þetta fyrirkomulag kom hvergi fram í Byggingarlögum eða afleiddri Byggingarreglugerð, þetta var eðlileg þróun, löggjafinn þurfti þar vergi að koma nálægt, þörfin kallaði á þetta án nokkurrar þvingunar. Þannig breyttist lítið í störfum eða ábyrgð einstakra iðnmeistara, þeir höfðu áfram samband við Byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, lögðu inn teikningar og sáu um úttektir. En þá kom löggjafinn til sögunnar og þurfti endilega að grípa inn í, þróunin mátti ekki hafa sinn ganga án þess að hann væri með puttana í þessu sem öðru. Embætti Byggingarstjóra var fyrirskipað, ekki aðeins í stærri byggingum eða stærri verkum, heldur í öllum byggingum alveg niður í hundakofa.

Skorið á tengslin

Ekki nóg með það, skorið var á öll bein tengsl iðnmeistara og Byggingarfulltrúa, nú skyldi Byggingarstjórinn sjá um allt. Hann skilaði inn nöfnum iðnmeistaranna og hann fékk óskorað vald til að sjá um úttektir á verkum. Afleiðingin varð allt að því skelfileg aðallega í minni framkvæmdum, í minni byggingum. Á liðnum veltiárum hafa orðið til margskonar byggingarfyrirtæki sem hafa ætlað að græða í bólunni miklu, fengið lóðir og farið að byggja hús. Eigandinn varð sé út um tryggingu og fékk réttindi til að starfa sem Byggingarstjóri. Og þá hófst fúskið fyrir alvöru, Einhvernveginn tókst að útvega nöfn manna með meistararéttindi, þeir komu stundum ekkert nálægt byggingunum. Byggjandinn réði til sín einhverja menn, oft þótti gott að geta krækti í nokkra Pólverja sem hægt var að hýrudraga. Nú skal það skýrt tekið fram að fjölmargir Pólverjar hafa unnið hér í margvíslegum atvinnugreinum á undanförnum árum við góðan orstír. En starfsmennirnir voru oft, íslenskir sem útlenskir menn sem aldrei höfðu komið nálægt húsbyggingum fyrr. En hvað um úttektir og eftirlit hins opinbera? Byggingarstjórinn sá um að kalla til úttektar og samkvæmt Byggingarreglugerðinni frá 1998 þurfti hann ekkert að láta iðnmeistara vita, þeir höfðu ekki hugmynd um að risið var hús sem þeir báru vissulega talsverða ábyrgð á. Ekki er hægt að segja þessum iðnmeisturm neitt til afsökunar, þeir höfðu svo mikið að gera að þar kom tímaskorurinn og hraðinn vissulega til sögunnar. Annað sérkennilegra í ölli þessu kraðaki var aðstundum kom eitthvað upp á og þá kom í ljós að Byggingarstjórinn hafði aldrei komið á staðinn og vissi heldur ekki að þarna í mýrinni eða á melnum væri risið hús.

Afleiðingarnar eru fúsk

Það var kannski full mikið sagt í upphafi að hraðinn væri ekki hluti af orsökinni en hraði, þar sem menn hafa ekki tök á neinu, er ekkert annað en fúsk. Það er því sannarlega tími til kominn að taka Byggingarreglugerðina frá 1998 til gagngerðrar endurskoðunar. Taka aftur um gamla og góða siði og ábyrgð sem að mörgu leyti hafði reynst vel. Nú hefur heldur betur róast á byggingarmarkaði. Það á ekki að hika við að gera þá sem hlutina framkvæmdu ábyrga fyrir sínum gjörðum. Það væri jafnvel full ástæða til að Samtök iðnaðarins, innan þeirra vébanda eru atvinnurekendur, og Samiðn, þar eru iðnaðarsveinar, létu þetta til sín taka og gerður átak í því að saklausir kaupendur þyrftu ekki að hrekjast úr húsum sem þeir hafa keypt eða látið byggja. Og auðvitað eiga Byggingarfulltrúarnir að koma að þessum máli.

 


Olli Rehn og sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins

Mér finnst full ástæða til að bjóða þann finnska Olli Rehn velkominn til Íslands. Við erum að fara í aðildarviðræður við ES, þess vegna er fengur að komu þessa góða gests sem hefur í tösku sinn litlar 2000 spurningar sem Jóhanna, Steingrímur og við öll verðum að svara skilmerkilega.

Sem betur fer tókst svo vel til að Alþingi samþykkti, naumlega þó, að sækja um aðild að ES. Á engan annan hátt var hægt að binda enda á áralangt þras um hvort þarna væru gull og græna skóga að fá eða ginnungagap ofstjórnar og allsherjar taps sjálfstæðis þjóðarinnar væri öruggt. Hvorutveggja er fjarri lagi.

En innganga íslands í EB er allt annar handleggur en umsókn um aðild og  aðildarviðræður. Menn setja fyrir sig einkum sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu bandalagsins og það er svolítið sem vefst fyrir mér, algjörum landkrabba, þegar ég kíki inn í þann furðulega heim sem kallast sjávarútvegsstefna ES. Ég ætla samt að velta þessu aðeins fyrir mér í von um að einhverjir sérfræðingar í þjóðarrétti kunni að álpast inn á bloggið mitt og sýni mér fram á hvað ég er grunnhygginn eða þá sem ég vona frekar; að ég sé að ræða mál sem sé þess virði að það sé skoðað.

Sjávarútvegsstefna ES virðist vera einhverskonar grautur á þann hátt að þjóðir fái leyfi til að fara inn í landhelgi annarra ríkja og veiða þar fisk, sérstaklega ef þær hafa eitthvað sem kallast veiðireynsla sem oftast er fyrri rányrkja eins og margar þjóðir stunduðu á Íslandsmiðum.

En nú spyr þessi fávísi landkrabbi:

Hvers vegna er það ótvírætt að hver þjóð á þau gæði sem felast í hafsbotninum undir eigin landhelgi?

Danir eiga ótvíræðan rétt til olíu og gass undir sinni landhelgi, það eiga Skotar einnig.

Enginn dregur í efa að við eigum það sem leynast kann á hafsbotni Drekasvæðisins, þessu horni lengst norður í höfum út undir 200 mílna mörkunum.

Og enn spyr landkrabbinn:

Af hverju gildir ekki ótvírætt það sama um fiskinn í sjónum og það sem gildir um það sem leynast kann í hafsbotninum. Víða eru staðbundnar fiskitegundir sem alast upp verða veiðanlegir með hækkandi aldri, hjá okkur er víst þorskurinn fremstur meðal jafningja í þeirri stóru fjölskyldu.

Svo eru líka flökkustofnar svo sem síld, makríll og kolmunni sem fara má segja "milli landa". Í dag verðum við að semja um veiðar úr slíkum stofnum, það er engin nýlunda.

Evrópusambandið er í syngjandi rugli með sína sjávarútvegsstefnu. Geta Íslendingar lagt fram lausnir sem losa þá úr snörunni, hver þjóð skal eiga þá staðbundnu fiskistofna sem eru sannarlega í þeirra landhelgi. Ef fiskur þvælist í Norðursjó yfir mörkin, fer úr Skoskri landhelgi yfir í Dnaska þá einfaldlega breytir hann um ríkisfang, verður Danskur.

Þetta var hans val.


Hjöllannir og Ánnannir hafa lagt undir sig fréttastofur RÚV og Morgunblaðsins

Það er ekki lengur tilviljun að sömu dómsdagsfréttirnar birtast samtímis í fréttum Ríkisútvarpsins og á síðum Morgunblaðsins. Það er með ólíkindum að ákveðin öfl (hjöllannir og ánnannir) skuli hafa orðið svo sterk ítök í þeim tveimur fréttamiðlum sem traustastir hafa verið taldir hérlendis um langa hríð.

Frétt dagsins er að "vísindamenn" hafi kannað þyngd ísbjarnahúna og það sé augljóst að þeir léttist vegna skorts á æti, veiðisvæði þeirra skreppi saman. Staðreyndin er sú að ísinn á Norðurskautinu er ekki að hopa, hann hopar á sumrum en eykst á vetrum og hefur verið mjög svipaður frá ári til árs undanfarin ár.

Ef eitthvað er að gerast í að ísbjarnarhúnar séu að léttast vegna ónógs ætis þá getur það ekki stafað af öðru en því að ísbirnir eru að verða of margir á Norðurskautinu. Um 1960 voru þeir taldir vera um það bil 5000 en nú eru þeir fimmfalt fleiri eða um 25000!  Kannski var það orsökin fyrir flækingunum sem komu til Íslands á síðasta ári og settu allt á annan endann, að minnsta kosti í Umhverfisráðuneytinu. Þessir ísbirnir flæktust út fyrir sínar hefðbundnu veiðilendur. Ísbirnir eru einfarar nema rétt um fengitímann og helga sér víðáttumikil veiðisvæði.

Það er kominn tími til að fréttastjórar Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins standi fyrir máli sínu, það er dapurlegt að horfa upp á hvernig þeir láta ákveðin öfl draga sig á asnaeyrum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband