Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings

Ég var að koma frá pósthúsinu hér i Þorlákshöfn, sem er reyndar með afgreiðslu hjá Landsbankanum, og póstlagði framboð mitt til Stjórnlagaþings með 44 meðmælendum. Ég mun bráðlega ræða ýmis atriði sem mér finnst að þyrfti að ræða vandlega á Stjórnlagaþinginu og þá gætu ef til vill orðið nokkur málefnaleg skoðanaskipti.

Engan hefði átt að draga fyrir Landsdóm vegna þess að Landsdómur er algjörleg óhæft og ólöglegt verkfæri til að kalla fram réttlæti

Það var dapurlegt að sitja fyrir framan skjáinn og fylgjast með atkvæðagreiðslunni um hvort ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra úr Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórninni, sem sat frá miðju ári 2007 fram í byrjun árs 2009. Enginn ber jafn mikla ábyrgð á þeim ömurlega farvegi sem Landsdómsmálið tók og Atli Gíslason formaður þingmannanefndarinnar svokölluðu. Það er að  dapurlegt því sú nefnd skilaði gagnmerku starfi sem algjörlega hefur fallið í skuggann af þessu ömurlega Landsdómsmáli.

Landsdómur er algjörlega úrelt fyrirbrigði sem sett var á laggirnar þegar við fengum heimastjórn í upphafi 20. aldar og einu sinni munu lögin um Landsdóm hafa verið endurskoðuð í staðinn fyrir að afnema þau með öllu. Með landsdómi er verið að rugla saman tveimur af grunstoðum lýðræðis á Íslandi, dómsvaldi og löggjafarvaldi. Ef stjórnmálamenn, hvort sem það eru ráðherrar eða aðrir kjörnir fulltrúar, teljast hafa brotið að sér á dómsvaldið að fjalla um mál þeirra.

Ef við skoðum uppbyggingu Landsdóms þá er það með ólíkindum að önnur eins stofnun, sem kalla má skrímsli, skuli vera til í íslenskri stjórnskipan. Alþingi er komið í  komið inn á svið dómskerfisins sem ákærandi, skipar hluta dómsstólsins og kýs sér saksóknara til að sækja mál á hendur þeim sem Alþingi samþykkir að skuli dregnir fyrir dóminn. Ekki nóg með það, Alþingi skal kjósa fimm alþingismenn  sem aðstoðarsaksóknara. Önnur eins hringavitleysa og lögin um Landsdóm eru tæplega til Í Lagasafni Íslands.

En þetta eru gildandi lög, er ekki eðlilegt að Alþingi fari eftir gildandi lögum? Á Alþingi hvíldi engin skylda um að vinna samkvæmt lögum um Landsdóm. Ég er yfir mig undarandi á að ekki einn einasti af 63 þingmönnum þjóðarinnar skyldi ekki standa upp og lýsa því yfir að lögin um Landsdóm væru svo gölluð að það væri ekki mögulegt að fara að vinna eftir þeim og sá hinn sami tæki ekki þátt í þeim hráskinnaleik sem leikinn var á Alþingi. Ég hef áður bent á hve lögin um Landsdóm brjóta stjórnarskrána hvað varðar hinar þrjár meginstoðir lýðræðisins, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi lög eru brot á Stjórnarskrá Íslands, brot á jafnréttisreglunni og þar með mannréttindabrot.

Mér finnst að þessir föstu lögspekingar, sem yfirleitt eru leiddir á skjá og í aðra fjölmiðla, hafi fallið á prófinu. Þeir hafa flestir vottað lögunum um Landsdóm, þessu gamla skrifli sem ætti að vera búð að afskrifa fyrir löngu, virðingu sína með því að votta að allt sé í ljúfasta lagi með þessi lög, pottþétt gegn Stjórnarskrá, jafnréttishugtakinu og mannréttindum.

Nú ætla ég að gera þá kröfu til hæfustu lögspekinga landsins, annarra en þeirra sem hafa látið draga sig í að gefa lögunum um Landsdóm heilbrigðisvottorð, láti duglega heyra í sér og taki hressilega á þessu ógeðfellda máli, á máli þar sem Alþingi féll gjörsamlega á prófinu og vann eftir lögum sem brýtur gegn öllum grundvallarreglum íslensks þjóðfélags.  Það getur tæplega verið hlutskipti pípulagningameistara í Þorlákshöfn að benda á þær augljósu staðreyndir sem raktar hafa verið að framan, hvar eru allir okkar hæfustu lögspekingar, hæfir lögspekingar sem ekki hafa selt sálu sína.


Aðeins ein leið til að bjarga Landeyjahöfn

Verstu hrakspár um Landeyjahöfn hafa ræst. Það ástand sem þar er komið upp er nokkuð sem fjöldi sjómanna og jafnvel landmanna í Rangárþingi óttuðust. Ég man þá tíð þegar ég var að alast upp á Þjórsárbökkum og sækja barnaskóla í Þykkvabæinn að Rangæingar áttu allir sem einn tvær óskir a) að byggð yrði höfn á suðurströndinni b) að Urriðafoss yrði virkjaður samkvæmt áætlunum Títanfélagsins og Einars Benedikssonar. Nú er höfnin orðin staðreynd en því miður má búast við að Landeyjahöfn eigi eftir að valda miklum vonbrigðum.

Um miðja síðustu öld, eftir að Ameríkanar settu upp herstöðina á Keflavíkurflugvelli, hófu þeir mikla könnun á því hvort unnt væri að byggja höfn í sandfjörum Suðurlands. Þá heyri ég það að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að vænlegast væri að byggja höfnina suður frá Þykkvabæ, í fjörunni milli Hólsár og Þjórsár. Þar var til örnefni sem ég veit ekki hvort nokkur man lengur, Dyrasandur, og var hluti af fyrrnefndri strönd. Ég held að örnefnið sé svo gagnsætt að það segi meira en mörg orð. En Kanarnir byggðu enga höfn og eru sem betur fer farnir til síns heima eða til að ráðskast með aðrar þjóðir en Íslendinga.

Mér var sagt að Lúðvík Gissurarson, sem rak faðernismál gegn Hermanni Jónassyni fyrrum forsætisráðherra látnum og vann það, hafi nýlega skrifað grein í Mbl. þar sem hann setti fram hugmynd sem reyndar varð mér umhugsunarefni þegar ég heyrði fyrst getið um áætlanir um Landeyjahöfn. Lúðvík leggur til að smálækur verði lagður inn í höfnina til hreinsunar hennar, gæti haft einhver áhrif en ég held að vatnsmagnið sé of lítið.

Landeyjahöfn er á röngum stað, hún átti að vera í minni Markarfljóts eða því sem næst. Þar hefði þurft lokubúnað til að leiða beint til sjávar ísskrið og til að geta stjórnað því hve mikið vatnsmagn ætti að renna í gegnum höfnina. Vatnsmagnið í Markarfljóti er glettilega mikið en eins og í öðrum jökulám mismikið. Þar kemur lokubúnaðurinn til og heldur jöfnu rennsli í gegnum höfnina. Það þyrfti þó að vera það mikið að sandrif næði ekki að myndast í hafnarmynninu eða út frá því. þessi straumur ætti engan veginn að hindra skip í að sigla inn í höfnina. Engin ástæða til að hafa áhyggjur af eldgosaöskunni, streymið í gegnum höfnina verður að vera það mikið og dreift um höfnina að öll askan skili sér til sjávar. en setjist ekki til.

En Landeyjahöfn verður ekki flutt austur að Markarfljóti en fyrir góðan pening er hægt að flytja Markarfljót að höfninni eða hluta þess. Þetta kann að vera dýr framkvæmd en hvað skal gera? Á að láta dýpkunarskip vera 365 daga á ári við að dæla sandi úr höfninni, hvað kostar það?

Ég býst við að fram komi mótrök, að ísskrið í Markarfljóti geri óskunda í höfninni. En til þess er lokubúnaðurinn, hann er til að veita hugsanlegu ísskriði beint til sjávar. Sú tækni er öll til hjá Landsvirkjun enda virðist ekki vanþörf á að fleiri en sérfræðingar Siglingastofnunar komi að björgun Landeyjahafnar, bæði lærðir og leikir.

Er eitthvert vit í því að byggja höfn í ármynni eða sama sem í því, virknin yrði sú sama með því að veita Markarfljóti að hluta til hafnarinnar? Förum í ferðalag í  austurátt. Þar hefur risið blómleg byggð við höfn sem er í ármynni, Höfn í Hornafirð. Ég tel harla ólíklegt að sá blómlegi og fallegi bær væri til ef lífgjafann vantaði, Hornafjarðarfljót.

Urðu engar slíkar pælingar til í kollum sérfræðinganna á Siglingastofnun, datt þeim aldrei Hornafjarðarfljót og Höfn í Hornafirði í hug?


Heita vatnið hækkar umtalsvert frá Orkuveitu Reykjavíkur, nú er lag að fara í endurbætur á hitakerfum

Fyrst skulum við gera okkur ljóst að þeir sem kaupa heitt vatn frá Orkuveitu Reykjavíkur (þar áður Hitaveitu Reykjavíkur) hafa í mörg ár keypt ódýrustu orku til húshitunar sem fáanleg er  sem fáanleg er hvarvetna á byggðu bóli. Heita vatnið hefur meira að segja ekkert hækkað síðustu ár og satt að segja hefur það ekki verið skynsamleg stefna hjá OR að láta ekki verðið á heita vatninu fylgja verðlagi.

En þetta lága orkuverð hefur haft einn leiðan fylgikvilla. Vegna hins lága verðs hafa húseigendur haft litinn áhuga á að endurnýja sín hitakerfi og stýritæki þeirra, allt í lagi þó vatnið renni til muna of heitt út í skólplagnir, allt í lagi þó hitinn í íbúðinni fari upp úr öllu valdi, þá bara að opna alla glugga og svalhurðir upp á gátt. En húseigendur skynja oft ekki að þetta viðhaldsleysi gerir hitakerfin léleg, hiti í húsum ójafn, hitaþægindin engan veginn eins og þau ættu að vera ef viðhald t. d. stýritækja hitakerfa væri í lagi. Svo er gott að muna þetta: Það er ekki verið að kaupa heitt vatn, það er verið að kaupa varma, um að gera að kreista sem flestar hitagráður úr vatninu.

Nú er lag

Endurnýjun stýritækja hitakerfa fylgir auðvitað talsverður kostnaður aðallega vegna þess að það útheimtir talsverða vinnu fagmanna, fagmanna sem vita hvað þeir eru að gera og vita að þeir eiga ekki að fara frá verkinu fyrr en hitakerfið hefur verið stillt (því það þarf ekki síður að gera þó sett séu upp ný stýritæki)  og húseigandi fengið í hendur stuttar leiðbeiningar um hvernig hann á að nýta sér kosti nýrra stýritækja.

Eyðirðu of miklu af heitu vatni?

Það geta flestir húseigendur gert sér grein fyrir með því að fá frá OR upplýsingar um eigin eyðslu, svokallaða "álestrarsögu" hvers kerfis. Það eru til einfalt og gott dæmi um að hver og einn á að geta lesið út úr þeim gögnum hve mikið hann eyðir af heitu vatni, hvort það er eðlileg eyðsla eða bruðl sem kostar ennþá meira hér eftir en hingað til. Þetta er hægt að sjá á nýtingartölunni.

Hana er hægt að finna með einföldu dæmi sem byggist á hlutfallinu milli stærðar hússins í rúmmetrum  og hvað margir rúmmetrar af heitu vatni hafa verið keyptir á 1 ári. Segjum að hús sé 500 rúmmetrar að stærð og hafi keypt 500 rúmmetra af heitu vatni frá OR á ári. Þá er nýtingartalan 1. Slík hitakerfi og hús eru finnanleg en þau eru líklega ekki mörg, lengra verður tæpleg komist í nýtingu á keyptu heitu vatni. Annað dæmi: húsið er jafnstórt eða 500 rúmmetrar  en kaupir og notar 1000 rúmmetra af heitu vatni á ári. Þá er nýtingartalan 2 og þá geturðu verið viss um að það er eitthvað að í hitakerfi hússins, þú eyðir of miklu af heitu vatni.

En hvað er eðlileg notkun á heitu vatni í 500 rúmmetra húsi. Ekki ástæða til að hrökkva við þó notaðir séu 650 rúmmetrar af heitu vatni, þá er nýtingartalan 1,3. En því hærri sem nýtingartalan verður er ennþá meiri ástæða til að fara að huga að lagfæringum sem í mörgum tilfellum þurfa ekki að vera svo kostnaðarsamar.

En það er þörf á sérfræðiþekkingu, það ættu allir að muna.


Björn Lomborg gengur í lið skattheimtumanna

Það er víst til lítils að ræða loftslagsmál lengur, svo rækilega er búið að "trylla lýðinn" lesist pólitíkusa heimsins með því endemisbulli að maðurinn sé þess megnugur að hækka hita á hnettinum. Mannskepnan hefur aldrei, sem betur fer, verið fær um slíkt og er þess vegna með öllu ófær um að lækka heimshitann að sjálfsögðu.

Björn Lomborg, danskur hagfræðingur, var lengi einn af þeim sem hélt fram heilbrigðri skynsemi í loftslagsmálum en hefur nú snúist á sveif með "stóra apparatinu", Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, en segist hins vegar ekki hafa skipt um skoðun! En það liggja miklir peningar í  "stóra apparatinu" sem hefur ekki hikað við að falsa vísindaniðurstöður. Þar má nefna Hokkýstafinn sem falsarin Michael Mann skapaði en hefur nú orðið að draga til baka og viðurkenna fölsun sína og sá yfirgengilega fráleiti spádómur að allir jöklar Himalaja verði bráðnaðir 2035 og hundruðir milljóna manna verði vatnslausar á Indlandsskaga! Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur orðið að viðurkenna að þessi kenning er ekkert annað en bull og fals.

Meðalhiti í heiminum hefur á þeim tíma sem þessi hnöttur hefur verið byggilegur ýmist hækkað eða lækkað og orsakirnar eru nær alfarið frá sólinni, þó hefur það áhrif hvar jörðin er í Vetrarbrautinni, hnötturinn er á stöðugri hreyfingu í Vetrarbrautinni, á ekki einhvern fastan punkt þar.

Það eru miklir hlutir að gerast í sólinni núna og þær miklu hræringar munu standa allt fram á árið 2012. Þessar hræringar hafa mikil áhrif á hnettinum, þangað má rekja ójafnvægið; skógarelda á vissum svæðum jarðarinnar en gífurleg flóð á öðrum, fellibylji, eldgos og jarðskjálfta.


Jón kemur ekki á óvart en Svandís svo sannarlega

Fjölmargir kalla núverandi Ríkisstjórn "vinstri stjórn" og eftir gömlum viðmiðunarreglum er þetta satt og rétt, eða hvað? Það er því lyginni líkast að einn ráðherra þessarar vinstri stjórnar er eitthvert rammasta afturhald sem sest hefur í ráðherrastól og er þó við marga að etja í þeirri samkeppni.

Maðurinn heitir að sjálfsögðu Jón Bjarnason, fyrrum skólastjóri Bændaskólans á Hólum og þótti standa sig vel í því starfi. En hugur Jóns stóð til frama í pólitík og hann valdi að starfa í Samfylkingunni. Ekki minna en þingsæti kom til greina í framapoti Jóns og hann hellti sér út í prófkjör en varð að lúta í lægra haldi fyrir öðrum núverandi ráðherra, Kristjáni Möller.

En Jón dó ekki ráðalaus, hann snaraði sér yfir landamæri flokka og dúkkaði upp í prófkjöri Vinstri grænna fyrir þá komandi  Alþingiskosningar. Hvað fleyið hét sem Jón sigldi á skipti ekki máli, aðalatriðið var að ná landi við Austurvöll.

Og það tókst, síðan hefur Jón verið þingmaður Vinstri grænna og ekki nóg með það; sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í núverandi Ríkisstjórn. Ekki geri ég mér grein fyrir á hvað vegferð Jón er sem sjávarútvegsráðherra en sem landbúnaðarráðherra er hann líklega að slá met í íhaldssemi og varðhundastöðu. Hann lýsir yfir af tröppum stjórnarráðins að hann standi vörð um Bændasamtökin og alla þá innmúruðu íhaldssemi sem þar þrífst og hefur lifað á miklum styrkjum frá landsmönum öllum, telur alla gagnrýni á eigin íhaldsmennsku árás á íslenska bændastétt.

Íslenskur landbúnaður getur átt góða framtíð, ekki síður innan ESB en utan, og öll viljum við halda landinu sem mest í byggð. En til að svo geti orðið verður að losa bændastéttina við það helsi sem afturhald allra tíma hefur hengt á hana. Margskonar nýjungar hafa sprottið upp hjá sumum bændur í úrvinnslu eigin afurða, er það ekki leiðin ásamt mikilli fjölbreytni í ferðaþjónustu bænda?

En er ekki hinn íhaldssami ráðherra Jón Bjarnason svo upptekinn af verndum gamalla þröngra sjónarmiða að hann er jafnvel tilbúinn til að bregða fæti fyrir vaxtarsprotana?

Konur hafa prýtt sæti Umhverfisráðherra í síðustu Ríkisstjórnum. Allir muna framgöngu Þórunnar Sveinbjarnardóttur í ísbjarnamálunum og sem betur fer sat Kolbrún Halldórsdóttir ekki lengi á stóli. Þá kom til skjalanna hin skelegga Svandís Svavarsdóttir sem hafði staðið vel vaktina sem borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.

En nú nýverið bárust hrikalegar fréttir frá valdstofnunum sem undir Svandísi heyra svo sem Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins. 

Sú óheyrilega gjörð að útrýma lúpínu í Þórsmörk með EITRI hefur tæplega verið gerð án samþykkis þess sem æðstur er í valdapíramídanum, Svandísar Svavarsdóttur ráðherra.

Í hvað veröld lifum við? Á hvaða landi lifum við? Er það ekki á Íslandi þar sem við þurfum lífnauðsynlega á öflugustu landgræðslujurt sem fyrirfinnst, lúpínunni, að halda?

Eitt er að hefta útbreiðslu þessarar þörfu jurtar en að fara út í íslenska náttúru og hefja eyðingu gróðurs með EITRI er ekkert annað en glæpsamlegt athæfi.

Þeir sem bera ábyrgð á slíku  eiga að svara til saka að fullu. 


Borða geitur með hníf og gaffli?

Það var ágætt viðtal við fróða konu um geitur í Ríkisútvarpinu í morgun. En því miður féll konan í þan fúla málfarspytt að tala um að skepnur borði.

Orðið að "éta" var lengi ráðandi í íslensku máli en svo fannst einhverjum það ekki nógu virðulegt orð og þá varð til orðið að "borða". Hún er dregin af borðinu sem setið er við þegar menn éta. Hins vegar lifir þetta góða gamla orð góðu lífi í norrænum málum, enn tala Svíar um að "eta" mat og skammast sín ekki fyrir.

Ég get engan veginn fellt mig við að nota orðið að "borða" um þann verknað þegar dýr éta. Pempíuhátturinn sækir á, afar sjaldan er umræða um æti fiska eða fugla, það er auðvitað miklu virðulegra að tala um að fæðu dýra.


Ef fara á í hernað gegn lúpínunni með eiturefnum þá nálgast það að vera glæpsamleg gjörð

Undanfarin ár hef ég fylgst með gróðrinum í kringum mín tiltölulegu nýju heimkynni, Þorlákshöfn. Það er vissulega melgresið magnaðasta vopnið til að hefta sandfokið og græða sandana. En lúpínan hefur einnig skilað okkur mun betra landi en áður var. Tvennu hef ég tekið eftir í sumar sem mér finnst athyglisvert. Innan um lúpínuna virðist kjarrgróður dafna mjög vel, bæði kjarrgróður sem sáir sér  og einnig nokkuð af gróðursettum trjám. Ég fæ ekki annað séð en að með tíð og tíma muni kjarrið jafnvel taka völdin og þá muni lúpínan hörfa. Annað athyglisvert sá ég nýlega. Í gömlu grjótnámunni niður við strönd hefur lúpínan náð nokkurri fótfestu. En í sumar hefur önnur tegund, sem fjölmörgum er illa við, njólinn,  tekið sér bólfestu í lúpínubreiðunum.

Flestir vita að njólinn sækir í áburðarríkan jarðveg, heima við bæi, í nánd við mykjuhauga til dæmis. Njólinn hefur fundið að þar sem lúpínan vex er jarðvegurinn áburðarmikill og dafnar þar vel. Þarna vinna tvær jurtategundir að því að bæta jarðvegin á stuttum tíma, þarna fer brátt að verða kjörlendi til að gróðursetja ýmsar trjátegundir.

Það er yfirgengileg heimska að fara með hernað á lúpínuna. Að yfirlýstir náttúruverndarsinnar skuli jafnvel vera að bræða með sér að nota í þeim hernaði eiturefni þá nálgast það að vera glæpsamlegt.


Veldur olídæling úr iðrum jarðar jarðskjálftum?

Mikið hefur verið deilt á olíuleit og olíuvinnslu úr iðrum jarðar og þá aðallega vegna tveggja raka á móti slíku. Hættan af olíuslysum eins og nú er alvarlegt mál á Mexíkóflóa og að þar væri verið að vinna kolefni sem mundu auka koltvísýring CO2 í lofthjúpi jarðar. Olíuslysin eru staðreynd og eiga mjög líklega eftir að verða enn hrikalegri í framtíðinni. Hin mótrökin eru að með brennslu olíu muni CO2 magnið aukast og þar með muni hnattrænn hiti hækka. Ég hef oft og áður sett fram mín sjónarmið sem eru þessi:

CO2 er ein mikilvægasta gastegund heimsins og án hennar yrði hér enginn jarðagróði og súrefni takmarkað. Kenningin um að CO2 magn hækki hita hnattrænt hefur aldrei verið sönnuð. Hækkun hita er eitt, aukning CO2 annað. Persónulega óttast ég meira að hnattrænt fari hiti lækkandi en hækkandi, það er öllum aðgengilegt að kynna sér hvaða afleiðingar litla ísöld hafði á norðurhveli jarðar. Á árunum 1400 fram til 1800 var hnattrænn hiti skelfilega lágur eftir að hafa verið mun hærra en hann er í dag á landnámsöld, árin 900 fram til 1400.

En nú hefur  The University of Texas Institut for Geophysics (UTIG) sett fram ógnvænlega kenningu sem vert er að hugsa um. Stanslaus olíuvinnsla úr iðrum jarðar tæmir stóra geyma í jarðskorpunni, þar með hverfur sá mikli þrýstingur sem olía og gas myndaði. Öll sú spenna sem sem sá þrýstingur orsakaði hverfur og hvað þá? Er ekki líklegt að spennan í jarðskopunni færist til, er það svo ólíklegt að það geti orsakað jarðskjálfta?

Það væri fróðlegt ef jarðvísindamen okkar létu frá sér heyra um þessa kenningu.


Enn á ný er þessi forpokaða opinbera og þjóðnýtta stofnun, Þjóðkirkjan, að sýna að öllum landslýð hve mjög hún er úr takti við þjóðlífið

Það er ýmislegt sem við drögnumst með úr fortíðinni og líklega er ekkert eins lífseigt og Íslenska lútherska þjóðkirkjan. Við drögnumst enn með þetta norræna kirkjumunstur, að hver og einn sem fæðist hér á landi, og ekki er þegar tekið fram að eigi ekki að vera í Þjóðkirkjunni, er sjálfkrafa inn í hana skráður, þar er hann skírður ómálga þar sem einhver honum nákominn festir hann á tré Þjókirkjunnar, svo kemur fermingin og mjög líklega giftingin, hjónabandið. Þó er þó sú undantekning að hver sá sem hefur kynferðislegar hvatir til einstaklinga af eigin kyni er úthýst. Um þetta hefur verið deilt enn einu sinni og málið leist á þann aumingjalega hátt að vísa því til nefndar.

Nú gæti einhver sagt sem svo að hér tali enn einn kirkjuhatarinn en ég ber ekki nokkurn kala til trúaðra manna, ég er hins vegar ekki í Þjóðkirkjunni né nokkrum öðrum trúarsöfnuði og það er mér frjálst sem betur fer. Ég vil á sama hátt að hver og einn sé frjáls að því að trúa á hvern þann guð sem hann kýs, nóg er framboðið af guðum í heimi hér.

En það er mín krafa að öll trúarbrögð séu jafn rétthá og að Ríkisvaldið sé ekki að vasast í trúmálum. Það kann að vera að einhver ráðherra í ríkisstjórninni eigi að hafa trúmál almennt á sinni könnu en það á alfarið að útiloka að almennur íslenskur háskóli, ríkisrekinn, sé með trúarbragðakennslu og þá aðeins kennslu í einum trúarbrögðum, kristinni trú.

En hvað er prestastefna að væla um lagfrumvarp frá Alþingi um hjúskap? Ef þessi kirkjudeild væri frjáls og laus við að  vera tengd ríkisvaldinu þá einfaldlega tekur hún ákvarðanir á eigin forsendum, líklega þá sem virðist vera ætíð í meirihluta, að banna hjónavígslur tveggja einstaklinga af sama kyni. Ef þessi kirkjudeild væri sjálfstæð hefði hún fullan rétt til þess. Hvað afleiðingar það kynni að hafa fyrir frosnar trúargrillur er annað mál en þeir og þær um það.

Ég hef aðeins heyrt eina snjalla tillögu frá prestastefnunni sem nú situr á rökstólum. Það er tillaga Geirs Waage í Reykholti að vígslurétturinn, rétturinn til að gefa saman hjón, verði tekinn af prestum og þá auðvitað í öllum kirkjudeildum. Héðan í frá ættu það að vera embættismenn ríkisins sem skrásettu hjónabandssáttmálann. Ef trúaðir karlar og konur vilja fá blessun presta eftirá þá það, ekkert því til fyrirstöðu.

Trúarbrögð hafa fylgt mannkyni frá örófi alda og munu líklega gera svo lengi sem menn bjástra við að lifa á þessum hnetti. En trú og trúarbrögð eiga að vera algjörlega frjáls, hlutverk ríkisvaldsins er það eitt að gæta þess að svo sé. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 113858

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband