Færsluflokkur: Kjaramál

Engir útlendingar fá veiðiréttindi í íslenskri lögsögu þó við göngum í Evrópusambandið

Ég hef lengi vonað að umræðan hérlendis um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði málefnaleg. Ég hef ekkert við það að athuga að margir séu andvígir inngöngu í ESB, en ef litið er á það sem frá andstæðingum inngöngu hér á blogginu kemur er ekki hægt að neita því að þar hafa komið fram allskyns fullyrðingar sem eiga enga stoð í veruleikanum. Ungir bændur vara við herskyldu ungra Íslendinga ef við göngum í ESB og fjölmargir hanga endalaust á fiskveiðistefnu ESB sem eitthvað sem sé óumbreytanlegt. Það er örugglega algjör samstaða um það hérlendis að við munum ALDREI gefa eftir yfirráð okkar yfir fiski og fiskveiðum í okkar lögsögu. Það get ég fullyrt sem fylgismaður inngöngu ef við fáum svo hagstæðan samning að það tryggi betur tilveru og efnahag Íslands auk margra annarra  kosta.

Ég hef oftar en einu sinni skrifað um þessi mál á blogginu og haldið því fram að við gætum náð samningum við ESB um inngöngu Íslands og jafnframt haft tryggt yfirráð yfir auðlindum hafsins, bæði í botni og sjó í okkar lögsögu.

Það er ánægjulegt að hlusta á aðalsamningamann okkar við ESB þegar hann segir:

Stefán sagði það vera á kristaltæru að aðrar þjóðir hefðu ekki veiðiréttindi við Ísland, því hér hefðu engir aðrir verið að veiða í yfir 30 ár! Hann sagði þetta mæta skilning innan ESB og að framkvæmdastjórnin myndi t.d. ekki styðja kröfur Spánverja um fiskveiðiréttindi hér við land. ,,Enginn annar en við eigum rétt hér við land," sagði Stefán á fundinum.

Er þetta ekki kristalstært, þurfum við að halda áfram að fullyrða að við verðum við inngöngu að gangast undir stórgallaða fiskveiðistefnu Evrópusambandsins sem þeir eru þar að auki að gefast upp á?


Eru ekki allir til í að lækka hitareikninginn?

Eru einhver töfrabrögð í boði til þess að lækka hitareikninginn? Kannski ekki töfrabrögð en það er Íslendingseðlið sem vert er að skoða, þar í liggur möguleiki til lækkunar.

Hvernig má það það vera?

Ein afleiðingin af því hve heita vatnið hefur verið ódýrt er að hjá okkur Íslendingum hafa skapast hitavenjur sem hvergi í nokkru öðru landi þekkjast. Þetta er sá vani að hafa hita á heimilum mun hærri en nokkurs staðar  á byggðu bóli. Hönnuðir hitakerfa vinna út frá þeirri forsendu að hitakerfi húsa sé fært um að halda 20°C hita innandyra þó úti sé mínus 15°C. Þetta er arfleifð þess tíma að innihiti þótti hæfilegur 20°C. En mikið vill oft meira og í dag þekkist vart að innihiti sé undir 22°C, 24°C  búa margir við . 

Þarna er verið að sóa peningum. Fyrir hverja °C sem þér tekst að lækka stöðugan innihita lækkar þú hitareikninginn um 5%.

En til þess að það takist þurfa stýritæki hitakerfisins að vera í lagi og rétt valin. Stýritækin þurfa þá að stjórnast af lofthitanum inni, ekki af hita vatnsins sem út af ofnunum rennur.

Annar ótrúlegur ósiður Íslendinga er að láta glugga standa upp á gátt daglangt ef ekki allan sólarhringinn. Þetta er gert þó enginn sé heima frá morgni og langt fram eftir degi. Að sjálfsögðu er loftræsing mikil nauðsyn en ef enginn er heim eiga gluggar að vera lokaðir. Loftræsingu á að framkvæma með fullri opnun glugga og kröftugum loftskiptum í nokkurn tíma, hafa glugga svo ekki opnari en þörf krefur þegar verið er heima, þetta getur skilað þó nokkrum krónum. Margir vilja sofa við opinn glugga, það eiga menn að sjálfsögðu að veita sér.

Tvennt á að vera til á hverju heimili a) vandaður hitamælir sem segir þér hve heitt er inni b) rakamælir sem sýnir hve mikill raki er í vistarverum, á ekki ekki að vera undir 40%. Yfirleitt er of lágt rakastig í íbúðum og öðrum vistarverum hérlendis.

Hvernig á að auka rakann í íbúðum? Nota úðakönnur eða/og setja grunnar skálar með vatni á ofna. Svo eru einnig til tæki sem sjá um rétt rakastig og hreinsa loftið. Hjá tækjaóðri þjóð er ekki svo vitlaust að fjárfesta í slíku tæki.


Heita vatnið hækkar umtalsvert frá Orkuveitu Reykjavíkur, nú er lag að fara í endurbætur á hitakerfum

Fyrst skulum við gera okkur ljóst að þeir sem kaupa heitt vatn frá Orkuveitu Reykjavíkur (þar áður Hitaveitu Reykjavíkur) hafa í mörg ár keypt ódýrustu orku til húshitunar sem fáanleg er  sem fáanleg er hvarvetna á byggðu bóli. Heita vatnið hefur meira að segja ekkert hækkað síðustu ár og satt að segja hefur það ekki verið skynsamleg stefna hjá OR að láta ekki verðið á heita vatninu fylgja verðlagi.

En þetta lága orkuverð hefur haft einn leiðan fylgikvilla. Vegna hins lága verðs hafa húseigendur haft litinn áhuga á að endurnýja sín hitakerfi og stýritæki þeirra, allt í lagi þó vatnið renni til muna of heitt út í skólplagnir, allt í lagi þó hitinn í íbúðinni fari upp úr öllu valdi, þá bara að opna alla glugga og svalhurðir upp á gátt. En húseigendur skynja oft ekki að þetta viðhaldsleysi gerir hitakerfin léleg, hiti í húsum ójafn, hitaþægindin engan veginn eins og þau ættu að vera ef viðhald t. d. stýritækja hitakerfa væri í lagi. Svo er gott að muna þetta: Það er ekki verið að kaupa heitt vatn, það er verið að kaupa varma, um að gera að kreista sem flestar hitagráður úr vatninu.

Nú er lag

Endurnýjun stýritækja hitakerfa fylgir auðvitað talsverður kostnaður aðallega vegna þess að það útheimtir talsverða vinnu fagmanna, fagmanna sem vita hvað þeir eru að gera og vita að þeir eiga ekki að fara frá verkinu fyrr en hitakerfið hefur verið stillt (því það þarf ekki síður að gera þó sett séu upp ný stýritæki)  og húseigandi fengið í hendur stuttar leiðbeiningar um hvernig hann á að nýta sér kosti nýrra stýritækja.

Eyðirðu of miklu af heitu vatni?

Það geta flestir húseigendur gert sér grein fyrir með því að fá frá OR upplýsingar um eigin eyðslu, svokallaða "álestrarsögu" hvers kerfis. Það eru til einfalt og gott dæmi um að hver og einn á að geta lesið út úr þeim gögnum hve mikið hann eyðir af heitu vatni, hvort það er eðlileg eyðsla eða bruðl sem kostar ennþá meira hér eftir en hingað til. Þetta er hægt að sjá á nýtingartölunni.

Hana er hægt að finna með einföldu dæmi sem byggist á hlutfallinu milli stærðar hússins í rúmmetrum  og hvað margir rúmmetrar af heitu vatni hafa verið keyptir á 1 ári. Segjum að hús sé 500 rúmmetrar að stærð og hafi keypt 500 rúmmetra af heitu vatni frá OR á ári. Þá er nýtingartalan 1. Slík hitakerfi og hús eru finnanleg en þau eru líklega ekki mörg, lengra verður tæpleg komist í nýtingu á keyptu heitu vatni. Annað dæmi: húsið er jafnstórt eða 500 rúmmetrar  en kaupir og notar 1000 rúmmetra af heitu vatni á ári. Þá er nýtingartalan 2 og þá geturðu verið viss um að það er eitthvað að í hitakerfi hússins, þú eyðir of miklu af heitu vatni.

En hvað er eðlileg notkun á heitu vatni í 500 rúmmetra húsi. Ekki ástæða til að hrökkva við þó notaðir séu 650 rúmmetrar af heitu vatni, þá er nýtingartalan 1,3. En því hærri sem nýtingartalan verður er ennþá meiri ástæða til að fara að huga að lagfæringum sem í mörgum tilfellum þurfa ekki að vera svo kostnaðarsamar.

En það er þörf á sérfræðiþekkingu, það ættu allir að muna.


Skæruliði sestur í Ríkisstjórn í annað sinn

Þessi tilraun, að vingast við skæruliða með því að bjóða honum til stofu, er dæmd til að mistakast. Ögmundur Jónasson er eitt allsherjar "ég, um mig, frá mér, til mín" maður sem hófst til áhrifa sem formaður BSRB, samtaka þar sem hann varð algjör einræðisherra, nokkuð sem var óhollt fyrir hans stóra egó. Guðrún Helgadóttir, fyrrum alþingismaður og forseti Alþingis, ber alla ábyrgð á því að Ögmundur varð þingmaður Alþýðubandalagsins, vann  ætíð sem minnihlutamaður á Alþingi, það var hans staður, annað getur hann ekki.

Ég segi enn og aftur; þetta er dæmt til að mistakast að reyna að berja í brestina með því að lúta skæruliðanum og hans herflokki.  Ögmundur er ekki eini skæruliðinn sem er innan  borgarhliðsins, þar situr einnig erkiíhaldið Jón Bjarnason. Vera hans og framkoma í Ríkisstjórninni hefði átt að sýna Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að þetta bragð, að taka Ögmund í Ríkistjórnina, getur engu breytt til batnaðar.

Hvernig hagaði Jón Bjarnason sér þó hann væri ráðherra í Ríkisstjórninni?

Jón Bjarnason gekk á mála hjá einræðisherra Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins. Lét birta forsíðuviðtal við sig í Morgunblaðinu þar sem hann fór með ósannindi og dylgjur um það út á hvað viðræðurnar við Evrópusambandið gengju. Þeir vissu það báðir, Jón og Davíð, að allt það sem Jón sagði efnislega um viðræðurnar var þvættingur og ég  nota ekki sterkara orð en ósannindi og skrumskæling um máflutning Jóns.

Ætti þetta ekki að sýna að það er engin trygging á því að ráðherrar sýni Ríkisstjórninni hollustu og séu heiðarlegir í sínum störfum þó þeir séu ráðherrar? Dettur nokkrum manni það í hug annað en þannig, eins og Jón,  muni Ögmundur Jónasson starfa?

Þetta er fullreynt, Vinstri grænir eru ekki samstarfshæfir í Ríkisstjórn. Kaldhæðnin er sú að minnihlutinn á Alþingi hefur ekkert að bjóða annað en þras og upphrópanir. Ef þessi Ríkisstjórn segir af sér er ekkert annað framundan, ef mynda á nýja Ríkisstjórn, en að Vinstri grænir og núverandi stjórnarandstaða myndi þá stjórn. Dálagleg framtíðarsýn eða hitt þó heldur!

Það var dapurlegt að hlusta á foringja stjórnarandstöðunnar á Alþingi í gær. Allt við það sama, gamla þrasið og bullið um að allt sé ómögulegt, hvergi örlaði á jákvæðum málflutningi.

Eru fylgjendur Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar stoltir af foringjum sínu?


Eigum við Íslendingar allan arðinn af virkjunun okkar?

Eitt af því sem kom fram hjá Guðríði Lilju Grétarsdóttur, formanni þingflokks Vinstri grænna, þegar hún lýsi yfir eindreginni andstöðu við að útlendingur gæti eignast hlut í Magma Energy, var að þá mundu þessir útlendingur eða þetta útlenda fyrirtæki fá arð af sínu hlutafé, þá færi arður af íslensku orkufyrirtæki, virkjun, úr landi. Hún vildi að við Íslendingar ættum þetta orkuver og tryggja þar með að arðurinn yrði kyrr innanlands. Er þetta ekki gott og háleitt markmið, eigum við ekki Landvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða svo nokkur séu nefnd. Er það ekki tryggt að allur arður af þessum orkufyrirtækjum verður kyrr í landinu? Er þetta ekki einfalt mál, það eiga engir útlendingar hlutafé í þessum fyrirtækjum svo þannig hlýtur það að vera eftir skilgreiningu Guðfríðar Lilju, svo engir útlendingar fá neinn arð af hlutafé í þessum fyrirtækjum.

Ég vildi að satt væri, að allur arður af öllum okkar orkufyrirtækjum yrði kyrr í landinu, það munar um minna.

En því miður. Við byggingu allra orkuvera Íslands þurftum við að fá lán í útlöndum, ekki aðeins að borga lánin aftur heldur einnig vexti á hverju einasta ári.

Eftir því sem ég veit best skulda íslensk orkufyrirtæki 600 milljarða króna í dag. Ekki veit ég hvernig skiptingin er milli innlendra og erlendra lána en mér finnst ekki óeðlilegt að erlendu lánin séu 500 milljarðar. Af þessum lánum þarf að sjálfsögðu að borga vexti. Hvað skyldi það vera háar upphæðir árlega?

Gefum okkur að erlendu lánin, 500 milljarðar, séu á 5% vöxtum. Hvað gerir það mikið í íslenskum krónum? Getur verið að það séu 25 milljarðar á ári sem við borgum úr landi árlega sem vexti?

Við getum allavega hrósað happi að við erum ekki að borga einhverjum útlendingum arð af áhættufjármagni, hlutafé, sem þeir vilja leggja í íslensk orkufyrirtæki.

Að vísu er það svo að framlagt hlutafé er áhætta þess sem það leggur fram, ef greiðslufall verður hjá orkufyrirtækinu verður það tap útlendingsins að eiga í því hlutabréf. En ef féð frá útlöndum er tekið að láni verður að greiða það til baka hvað sem tautar og raular.

En við Íslendingar viljum vera skilamenn svo það skiptir víst engu máli, ekki að mati órólegu deildarinnar hjá Vinstri Grænum.

Og þeir hafa hagfræðing í sínum hópi, sá hlýtur að vita sínu viti eða hvað?


Stundum nær bullið nýjum hæðum

Ég ætla að birta hér á mínu bloggi pistil eftir konu eina (ætla ég) sem nefnir sig "Benedikta". Mér finnst ekki úr vegi að sýna hverskonar bull kemur frá þeim sem hæst láta í djöfulgangi gegn núverandi Ríkisstjórn. Hvort þessi "Benedikta" gefur mávum við Stjórnarráðið eða lemur pottlok við Seðlabankann veit ég ekki, en mér finnst hún smellpassa inn í  rugluliðið sem þar emjar, veinar og æpir.

Pistillinn er svar hennar við athugasemd sem ég setti inn á hennar blogg. Ég mun láta það vera framvegis enda vesalings manneskjan ekki viðræðuhæf.

Og hefst þá lesturinn:

Benedikta E: Sæll Sigurður. Svo þú ert ánægður með svikráð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þeim fækkar óðfluga kjósendum þeirra sem þakka þeim sviknu kosningaloforðin. Hefur þú orðið var við - Skjaldborg heimilanna - NEI - svikið kosningaloforð Jóhönnu -  en aðeins eitt af mörgum. Skjaldborg Jóhönnu fór yfir nýríka einkavini Jóhönnu úr útrásinni - banka og fjármögnunarfyrirtæki. Slagorðapólitíkusinn Jóhanna efnir engin loforð - það hefur hún víst aldrei gert á sínum 30 ára stjórnmálaferli. - Fólk flýr land í þúsunda vís - ekki er það vegna velsældar ........... - Síðustu tölur atvinnulausra 16 þúsund - burt flúnir atvinnulausir eru ekki inni í þeirri tölu - Holskefla uppboða á heimilum fólks - Eignaupptaka í stórum stíl á bílum - atvinnutækjum og  vélabúnaði - smá fyrirtæki og meðalstór keyrð í þrot Höfuðstóll lána myntkörfu og verðtryggða lána stökkbreyttir ekkert aðhafst frá stjórnvöldum í því. Lýðurinn á - "Bara borga". Aðför stjórnvalda að öldruðum og öryrkjum - lögbundnar tengingar  lífeyris við launa og verðhækkanir afnuminn með einu pennastriki fyrir 2009 og 2010 af ríkisstjórn Jóhönnu. Atvinnu uppbygging engin - Vaxta og verðhækkanir stjórnlausar. Fátækt fer ört vaxandi - stækkandi hópur fólks sem ekki hefur í sig né á. Enginn niðurskurður hjá stjórnsýslunni en stöðugt hert að lýðnum. Forgangsröðun verkefna hjá Jóhönnu stjórninni  er vægt sagt mjög óábyrg og skrítin - ESB - Æsseif - AGS Það eru til peningar fyrir öllum hugðarefnum Jóhönnu  - ef ekki þá bara að taka lán - skuldsetja þjóðina upp í rjáfur fleiri kynslóðir til framtíðar. Lygina - blekkingarnarog hræðsluáróðurinn sem sífellt  er steypt yfir fólk sýna best vanhæfni stjórnvada sem valda ekki verkefninu og eiga að víkja - STRAX - Þetta eru staðreyndir Sigurður - þú getur varla mótmælt því þar sem þú lifir í þessu landi. 

Nei Benedikta, ég mun ekki mótmæla þessu bulli þínu, þú mátt eiga það óskert fyrir mér.   


Íslensku þjóðinni er engin vorkunn, það er verið að hífa hana upp úr kviksyndinu sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sökktu henni í

Það styttist í það að ég haldi upp á mitt 76 ára afmæli. Sá sem hefur lifað svo langa ævi hefur séð margt, upplifað margt og reynt margt. Stundum voru lífskjör alþýðu manna ömurleg, lífsbaráttan hörð.

Í dag er emjað og veinað yfir lífskjörum á landi hér eftir hið skelfilega klúður sem hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kom þjóðinni í. Núverandi Ríkisstjórn, sem enn heldur saman þrátt fyrir Ögmund og últraliðið í Vinstri grænum, hefur lyft Grettistaki undir forystu Jóhönnu og Steingríms þrátt fyrir hælbítahjörðina sem um þau og Ríkisstjórnina situr:

Gott og vel hvernig er þá ástandið í dag?

   Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið styrkara í lengri tíma.
-       Verðbólgan ekki verið minni í tæp 3 ár - komin niður í 4,7%.
-       Hagvöxtur hefur mælist tvo ársfjórðunga í röð.
-       Kaupmáttur hefur aukist í fyrsta sinn á ársgrundvelli frá því eftir hrun.
-       Atvinnuleysi er mun minna en spáð var og hefur atvinnulausum fækkað frá því á sama tíma í fyrra. 7.5% atvinnuleysi mældist í júlí en það var 8% í júlí 2009
.

Getur hælbítahjörðin mótmælt þessu með rökum? 


Hundarnir í Riga (og Reykjavík)

Henning Mankell sænski krimmahöfundurinn getur verið fjári góður stundum en á það til að verða nokkuð langorður. Ég var að enda við sögu hans "Hundarnir í Riga" þar sem sögusviðið er í Ystað á Skáni en ekki síður í Riga höfuðborg Lettlands þegar alræði kommúnistaríkjanna er að falla. Söguþráðurinn þegar kemur yfir til Riga er með ólíkindum en gæti hann ekki hafa verið það eins og mál voru þar að þróast?

En það er víðar en í Riga sem hælbítahjörðin fer af stað og ekki er furða að menn eins og Jón Valur, Jón Magnússon og Páll Vilhjálmsson fari þar fremstir ef þeir telja sig finna blóðbragð. Það eru starfshættir þessara hælbíta að velja sér einhverja opinbera persónu sem hafi farið inn á grátt svæði, sú persóna skal að velli lögð hvað sem það kostar.

Ekki er langt síðan úlfahjörðin fór vælandi af stað gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vegna einhverra óskilgreindra afskipta hennar af launamálum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Þar voru ekki aðeins á ferð lítilsigldir bloggarar heldur peð á Alþingi einnig. Þar fór fremstur í flokki baróninn í Sjálfstæðisflokknum, Sigurður Kári Kristjánsson. En hvar endaði gjammið? Það hjaðnaði all skyndilega og Jóhanna stóð jafn keik á eftir.

Nú er hjörð hælbítanna heldur betur búin að finna blóðbragð og sá "seki" er Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Honum er gefið að sök að hafa sagt Alþingi ósatt, sumir tala um lygi. Ég hef reynt að átta mig á þessu máli og get engan veginn séð að Gylfi hafi sagt ósatt. Hann taldi að lán í erlendri mynt væru þá lögleg og líklega eru þau það ennþá, en tók fram að um álitamálin að greiða af þeim eftir gengi krónunnar yrðu dómstólar að fjalla um sem síðan var gert og hefur Hæstiréttur nú kveðið upp endanlegan dóm. Ekki er ólöglegt að lána í erlendri mynt en ólöglegt að greiða af þeim í íslenskum krónum eftir gengi á hverjum tíma. Hæstiréttur fjallaði  ekki um hvaða vexti skyldi greiða af þessum lánum eftir dóminn en þar hefur Héraðsdómur Reykjavíkur fellt dóm, ekki ólíklegt að það fari fyrir Hæstarétt.

Ég spái því að þessi "herferð" gegn Gylfa Magnússyni endi á svipaðan hátt og herferðin gegn Jóhönnu um laun Seðlabankstjóra, herferðin koðni niður og verði að engu. 

Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég verði vændur um að verja allt sem núverandi Ríkisstjórn og ráðherrar hennar gera. Því ætla ég að svara fyrirfram og benda á að mér finnst sjálfsagt að gagnrýna einstaka ráðherra þegar sönn átæða er til að mati þess sem málefnalega gagnrýnini setur fram. Ég hef verið ómyrkur í máli um einstakar stjórnarathafnir tveggja flokksbræðra minna í Ríkisstjórn, þeirra Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra og Kristjáns Möller samgönguráðherra. Ekki þarf að fara langt niður eftir mínu bloggi til að lesa gagnrýni á þessa tvo ráðherra. Mér finnst efni standa til þeirrar gagnrýni, hún er ekki til komin af því að reyna að koma höggi á viðkomandi.

Ég ætla að geyma mér frekari gagnrýni á tvo ráðherra aðra í Ríkisstjórninni, en þeir hafa með starfsháttum sínum gengið fram af mér með fráleitum vinnubrögðum.. 


Ögmundur Jónasson fer yfir siðferðismörkin, hörmulegt að fylgjast með orðræðu hans

Það er nokkuð líkt með pólitískri framgöngu Ögmundar Jónassonar og Spaugstofunni. Hvorugur aðilinn þekkir sinn vitjunartíma, skilur ekki að tímaglasið er runnið út. Ögmundur varð ungur öflugur foringi opinberra starfsmann og safnaði að sér harðskeyttri fylgissveit sem bar hann á höndum sér alla leið inn í sali Alþingis.

Við síðustu myndun Ríkistjórnar varð Ögmundur ráðherra, það taldi að sjálfsögðu hans harðskeytta fylgissveit sjálfsagt, ekki kom annað til greina.

En þá fór að halla undan fæti hjá Ögmundi. Þessi maðu,r sem alla tíð hafði verið baráttummaður launþega og andófsmaður á Alþingi, fótaði sig ekki þegar pólitíska ábyrgðin lagðist á hans herðar; hann kiknaði og sagði af sér ráðherradómi.

Síðan þá hefur farið fram ótrúlegur sirkus í kringum Ögmund Jónasson. Heimssveit hann í Vinstri grænum hefur rembdist við eins og rjúpan við staurinn að koma Ögmundi aftur í ráherrastöðu, nokkuð sem hann hefur einu sinni kiknað undan, einu sinni er nóg.

En nú hefur Ögmundur farið rækilega yfir strikið í hatrömmum málflutning sínum gegn aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Þeir eru vissulega til á blogginu sem hafa gripið til samlíkinga við alræðisríki nasista, sem atti heiminum út í hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar, en að maður sem hefur verið jafn áhrifamikill og Ögmundur Jónasson gerði slíkt bjóst ég ekki við. Að voga sér slíkan samanburð, svo sem að Evrópusambandið sé að auka sitt "lífsrými"  er eins og köld vatnsgusa framan í hvern mann. En Ögmundur bætir um betur og líkir Evrópusambandinu við hvítu mennina sem komu frá Evrópu, sölsuðu undir sig lönd Indíána í Vesturheimi og borguðu fyrir með glerperlum og spíra.

Ég held að Ögmundur ætti að fara að dæmi Einars Kristjánssonar óperusöngvara sem ég rakti í pistlinum um Spaugstofuna.

Það þurfa allir að þekkja sinn vitjunartíma, einnig Ögmundur Jónasson!


Það er samstaða um að auðlindir Íslands skuli vera í eigu þjóðarinar

Svo hefur ekki alltaf verið en baráttan um Gullfoss opnaði augu manna fyrir því  að ekki væri alltaf hægt að meta náttúruperlur einungis með peningalegum sjónarmiðum. Ýmsir gerðust talsmenn þessara sjónarmiða, m. a. sá umdeildi en sterki stjórnmálamaður Jónas frá Hriflu. Ekki má gleyma Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir fyrir verndun Gullfoss sem var í túnfæti hennar.

Þetta ættum við að hafa í huga í fárinu sem nú stendur um kaup Magma Energiy á meirihluta á HS-orku.

Það sem við verðum að gera er að muna að AUÐLIND er eitt en NÝTING hennar annað. Margir stjórnmálmenn gera sig seka um hreinar falsanir, rugla vísvitandi saman þessu tvennu. Verra er þó að fölmiðlar eru engu betri. Það er dapurlegt að fylgjast með Fréttastofu Ríkisútvarpsins taka þátt í þessum hráskinnaleik. Þessi fjölmiðill  átti löngum mitt traust en ímynd hans hefur laskast illilega. Eina ljósið þeim bæ var oft á tíðum gagnmerkar fréttaskýringar í "SPEGLINUM" sem var á dagskrá eftir kvöldfréttir, en til þessa þáttar hefur ekki heyrst í langan tíma.

En ég segi enn og aftur: Þeir sem hæst láta um eign Magma Energi í ORKUFYRIRTÆKINU HS-orku hafa ekki sagt orð um að örfáar fjölskyldur skuli hafa sölsað undir sig eina helstu AUÐLIND Íslands, fiskinn í sjónum og réttinn til að veiða hann.

Er í lagi að allt velti á því að þeir sem sölsa undir sig AUÐLINDIR séu Íslendingar, en að allt verði vitlaust ef útlendingar leggja fram fjármagn í ORKUFYRIRTÆKI?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 113922

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband