Færsluflokkur: Kjaramál

Hvernig er innivistin á þínu heimili?

Íslendingar búa flestir í góðum húsum, með góðum hitakerfum og flestir á svæðum þar sem hitaorkan er frekar ódýr. Það má fullyrða það jafnvel eftir síðustu hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur og svo virðist sem Hitaveitur víðar ætli að sigla í kjölfarið. Einhversstaðar sá ég að Hitaveita Árborgar ætli að hækka heita vatnið hressilega.

En þetta er nógu langur inngangur því það tók sig upp gömul árátta, sú að koma með svolítinn pistil um góðar hitavenjur sem Íslendingar á hitaveitusvæðum hafa ekki vanið sig á vegna þess hve heita vatnið hefur verið ódýrt.

Tvennt er nauðsynlegt að hafa í huga til að manni líði vel innandyra og það er ekki vanþörf á að fara nokkrum orðum um það þegar kuldaboli er farin að sýna klærnar. 

a) Það er jafn slæmt að búa við og of mikinn hita eins og of lítinn. Æskilegur  innihiti er 20 -21°C, það finnst líklega flestum of lágt, en er ekki betra að halda lægra hitastigi og fara þá bara í peysu? Algengt hitastig á hitaveitusvæðum er 23 - 25°C. Við slíkan stöðugan hita líður engum vel og eftir að heita vatnið hækkaði í verði er rétt að benda húseigendum á að hann lækkar hitareikninginn um 5% fyrir hverja hitagráðu (°C) honum tekst að lækka hitann stöðugt.

b) Rakastig innanhúss er nokkuð sem nánast enginn hirðir um eða gerir sér ekki grein fyrir að sé eitthvað sem er mikilægt. Núna þegar frost er farið að sýna sig má búast við að rakastigið falli innanhúss. Rakastigið á ekki að vera lægra en 40%, mætti vera 50%, en víða er það um 30% og þaðan af lægra.

Tvennt ætti að vera til á hverju heimili 1) hitamælir 2) rakamælir. Ef þessi mælar sýna þér að hitinn er 25°C og rakstigið 28% þá má ætla að þér líði ekki nógu vel. Ef hitinn er 21°C og rakastigið 40% þá er öruggt að þér líður mun betur.

En hvernig á að halda stöðugu hitastigi og æskilega miklum raka?

Hitastillar á hitakerfinu (ofnakerfi/gólfhiti) eiga að sjá um rétt hitastig en þá verða hitakerfin að sjálfsögðu að vera rétt stillt. Það er ekki nóg að stilla hita á hitastilli (termóstati), það þarf einnig að stilla rennslið um kerfið.

Sértu með ofnakerfi og villt auka rakan á einfaldan hátt þá er gamla húsráðið að setja ílát með vatni á heita ofnana, það er einnig hægt sérstaklega í opnum eldhúsum, að sjóða vatn í potti. En öruggast er auðvitað að kaupa rakatæki, þau geta haldið rakanum hæfilegum og jöfnum.


Leiðir út úr skuldavanda fasteignaeigenda sem hafa verið reiknaðar út

Sérfræðinganefndin, sem Ríkisstjórnin skipaði, hefur lokið störfum. Nú þegar eru ýmsir farnir að agnúast út í störf sérfræðinganefndarinnar, en væri ekki rétt að skoða fyrst hvað kom út úr hennar starfi.

Í skýrslunni kemur fram að engin ein leið dugi ein og sér til að fækka heimilum sem eru í greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Leiðirnar eru miskostnaðarsamar og misáhrifaríkar til að hjálpa þeim heimilum sem eru í vanda stödd.



Staða heimilanna

·    Um fjórðungur heimila landsins er ekki með skuldir vegna húsnæðis.

·    Vanskil tekjuhæstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru þrefalt minni í dag en árið 2004. Þetta bendir til þess að þeir sem helst bættu stöðu sína síðastliðin ár standi enn vel og ráði vel við greiðslubyrði lána sinna.

·    Tekjulægstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru færri í vanskilum nú en árið 2004.

·    3.651 manns, eða um 5% lántakenda, eru í þeirri stöðu að þeir eiga ekki fyrir grunnneyslu. Sérfræðingahópurinn telur að þessum hópi verður ekki bjargað með skuldaaðgerðum. Þá reynir á að fjármálastofnanir, ríki og sveitarfélög bjóði upp á húsnæðisúrræði.

·    Þá standa eftir 7.097 heimili sem eru í greiðsluvanda, (sé miðað við neysluviðmið Umboðsmanns skuldara + 50%) eða 10.666 heimili (sé miðað við tvöfalt neysluviðmið UMS).

·    Rúmlega 80% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda keypti fasteign á árunum 2004-2008.

·    Gengisbundin húsnæðislán eru í kringum 117 milljarðar og nema 8,4% af heildar fasteignaskuldum heimila 1. október. Þessi lán munu lækka verði frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengislán að lögum.

Misdýrar og misáhrifaríkar leiðir

·    Hækkun vaxtabóta er sú leið sem skilar mestum árangri miðað við kostnað, sé markmiðið að fækka heimilum sem eru í vanda. Við aðgerðina komast 1.450 heimili úr vanda, eða 20,5% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 1,3 milljón á ári.

·    Dýrustu leiðirnar eru flöt 15,5% niðurfelling skulda og niðurfærsla skulda miðað við upphaflega lánsfjárhæð, ef fækka á heimilum í vanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 12,4 milljónir, ef fara á aðra hvora þessara leiða.

·    Ljóst er að engin ein leið hjálpar öllum. Þær dýrari þýða mikið högg fyrir ríkissjóð og lífeyrissjóðina, sem þarf að fjármagna með hærri sköttum, niðurskurði eða skerðingu lífeyrisbóta. Þær ódýrari gagnast frekar þeim sem minnst hafa milli handanna en skila litlu til þeirra sem hafa séð lán sín hækka, en eru þó ekki í greiðsluvanda.



Athyglisverðar niðurstöður

·    Færri eru í vanskilum við Íbúðalánasjóð nú en voru árið 1997.

·    Heildarskuldbindingar heimila hjá Íbúðalánasjóði eru 579 milljarðar en heildarútlán banka og sparisjóða til fasteignakaupa einstaklinga nema hins vegar 630 milljörðum skv. skýrslu sérfræðingahópsins. Lán lífeyrissjóða beint til fasteignakaupa nema 183 milljörðum.

·    Sérfræðingahópurinn taldi mjög erfitt, ef ekki útilokað, að meta þrjár þeirra leiða sem honum var falið að athuga. Þetta eru svokölluð tveggja þrepa nálgun, „LÍN-leiðin“ og eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi. LÍN-leiðin er talin gagnast tiltölulega fáum og koma lítt til móts við þá sem lakast standa. Sú leið felst í að afborganir verði tekjutengdar.



Sem fyrr segir þá voru 11 mismunandi leiðir til að bregðast við vandanum skoðaðar sérstaklega af hópnum. Þessar leiðir eru;

Sértæk skuldaaðlögun
Flöt lækkun skulda um 15,5%
Niðurfærsla skulda m.v. upphaflega lánsfjárhæð
Lækkun skulda að 110% verðm.eigna
Lækkun skulda að 100% verðm.eigna
Stiglækkandi niðurfærsla skulda að 90% af verðm.eigna
Hækkun vaxtabóta
Lækkun vaxta í 3%
Tveggja þrepa nálgun (sölu-/kaupréttur)
LÍN leiðin
Eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi.
 


Ríkissjóður á hundruðir milljarða króna hjá Lífeyrissjóðum landsins, fé sem þeir geta braskað með að vild

Einn ágætur bloggari, líklega einn af þeim gleggri á tölur og peningagildi, velti upp mörgum hliðum þess að lina skuldabyrði almennings sem er ekki einfalt mál. M. a. kom framhjá honum að niðurfærsla fasteignalána gæti orðið Lífeyrissjóðum landsins þung byrði, svo þung að Ríkissjóður yrði jafnvel að hlaupa undir bagga og veita fé í Lífeyrissjóðina. Hann benti jafnframt á að Ríkissjóður ætti að fá teygjuband á þessi fjárframlög, greiða þau á allt að tíu árum.

En er ekki eitt að gleymast? Í allri skattheimtu er það regla að skatt skal greiða um leið og skattstofn verður til, þannig er það bæði um tekjuskatt og fjármagnsskatt og að ég held um alla aðra skatta. 

Nei, það er ein undantekning. Lífeyrisgreiðslur í Lífeyrissjóði eiga að bera skatt en sá skattur er ekki tekin af stofninum um leið og hann verður til. Sá sem fær greiðsluna til varðveislu og ávöxtunar fær einnig að halda skattgreiðslunum árum saman sér til ábata, líklega geta þessir skattpeningar verið í umferð Lífeyrisjóðanna í ártugi, eru fimmtán tugir ára ekki mögulegir?

Ef svo fer að Lífeyrissjóðirnir standa ekki undir þeim afföllum sem skuldaniðurfelling hefur í för með sér þá þarf Ríkissjóður ekki að leggja þeim til  fjármagn beint. Það gæti hins vegar verið í formi þess að Ríkissjóður gæfi eitthvað eftir af hinni miklu skattaskuld Lífeyrissjóðanna, sá sem á stórfé hjá öðrum aðilum getur tæpast þurft að leggja þeim til fé þó tímabundnir erfiðleikar steðji að.


Palli er ekki einn í heiminum, það ættu stjórnvöld að reyna að skilja

Það hefur vissulega vakið athygli að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram viðamiklar tillögur í efnahags- og skattamálum. Um þessar tillögur tókust þeir á Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Björn Valur Gíslason varaformaður Fjárlaganefndar Alþingis í Kastljósi í gærkvöldi. Mér heyrðist að inntak tillagna Sjálfstæðismanna væri að afturkalla margskonar hækkanir á sköttum, sem Ríkisstjórnin hefur innleitt, draga stórlega úr niðurskurði fjárveitinga. Þetta mundi skapa ný störf, hækka þar með skatttekjur og efla hagvöxt. Gallinn við þetta sýnist mér vera sá að aukning skatttekna vegna fjölgunar starfa gerist ekki samstundis það tæki nokkur ár að skila sér.

En ég komst yfir eintak af Fréttablaðinu í morgun (sem er ekki auðvelt í Þorlákshöfn) og þar með fylgdi sérblað Markaðarins. Ég hef gagnrýnt fjölmiðla hér að framan og raunar haft um ástand íslenskra fjölmiðla orðið að það sé skelfilegt, þar vanti nær alfarið fréttaskýringar sem upplýsi alþýðu á heiðarlegan hátt um gang þjóðmála. En í Markaði Fréttablaðsins er opna þar sem skattabreytingar Ríkistjórnarinnar eru teknar til gegnumlýsingar og sú mynd sem þar er dregin upp er ekki svo jákvæð sem óskandi væri. 

Það er vitað að Ríkissjóður þarf auknar tekjur, um það þarf ekki að deila. Það virðist vera auðvelt að setjast yfir skattalög og segja einfaldlega "þessir geta borgað meira, og þessir og þessir". En þá kemur bakhliðin í ljós og ég rengi ekki vitnisburð manna sem gjörþekkja atvinnurekstur og skattakerfið. Það er grunnhyggni að hækka skatta en gera sér ekki grein fyrir jafnframt hvort þessir skattar skili sér í Ríkiskassann. Þarna er ekki átt við skattaundanskot heldur það sem ætti að liggja í augum uppi; Ísland er ekki eyland í efnahagsmálum og ef við ætlum að reisa landið úr rústunum, sem misvitrir banka- og stjórnmálamenn komu okkur í, þá verðum við að laða að okkur fjármagn, fyrirtæki og hugmyndir. Okkur getur greint á um hvort það skuli vera í formi lána eða fjárfestinga en látum það liggja á milli hluta að sinni.

Eftir þessa ágætu könnun Markaðar Fréttablaðsins get ég ekki betur séð en að Ríkisstjórnin sé á margan hátt á skaðlegum villigötum í skattlagningu, skattar eru lagðir á ýmis milliríkjaviðskipti en það verður til þess að það flæði fjármagns, sem reiknað er með inn í landið, skilar sér ekki. Í stað þess að greiða götu fjárfestinga inn í landið eru reistar gamaldags skorður sem skaða. Það virðist því vera ýmislegt í gagnrýni Sjálfstæðismanna á þessu sviði sem ekki er hægt að skella skollaeyrum við.

Ég vona að Ríkisstjórnin falli ekki í gryfju þvermóðskunnar, geti ekki brotið odd af oflæti sínu, það er oft erfitt að viðurkenna mistök sín en það er enginn maður að minni þó hann geri það. Og ef eitthvað er að marka það að Ríkisstjórnin vilji hafa samráð við stjórnarandstöðuna þá verður hún að hlusta á hana þegar koma tillögur sem kunna að vera gagnlegar.


Þrjár stofnair eða samtök grafa sína eigin gröf


Ég við Þjóðkirkjuna, Landsamband íslenskra útvegsmanna og Bændasamtök Íslands. Ég hef hér að framan lýst þeirri skoðun minni að það eigi að aðskilja Þjóðkirkjuna og Ríkið alfarið. Þetta er af neinum fjandskap við hina evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjuna. En ég undrast viðbrögð biskupa, presta og preláta við hófsömum tillögum Menningarráðs Reykjavíkur um að ekki skuli stunda trúboð í skólum. Enginn dregur í efa að meirihluti Íslendinga eru í hinni evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunni, en á fleira ber að líta.

Þarna komum við að mikilvægu atriði sem varðar störf þeirra sem á Stjórnagaþing setjast. Meirihlutinn verður ætíð að taka  tillit til þeirra sem eru í minnihluta. Mér blöskrar hvað forystumenn hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar, eru blindir á þessi sjálfsögðu mannréttindi. Þeir berjast gegn öllum breytingum á eigin forréttindum í skólum landsins. Þeir ættu nú að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig; erum við ekki að skaða okkar eigin kirkju og boðskap hennar með þessu framferði, er það kirkju okkar til framdráttar að búa til vaxandi óvild í garð hinar evangelísku lútersku kirkju, Þjóðkirkjunnar?

Landsamtök íslenskra útvegsmann eru hagsmunasamtök þeirra sem gera út fiskiskip, allavega stærri fiskiskip. Þeir sem þann atvinnuveg stunda fengu fyrir um tuttugu árum eignarhald á auðlindinni, fiskinum í sjónum. Á meðan tilfinningar blossa vegna auðlinda á landi virðast flestir láta sér þetta í léttu rúmi liggja.

En ég held áfram að klifa á því að með þessu ólöglega eignarhaldi (þeir sem það framseldu höfðu engan rétt til þess) hafi útvegsmönnum verið réttur eitraður bikar sem nú er að leggja heilbrigði þeirra í rúst. Þetta er það sem hefur sogað gífurlega fjármuni út úr greininni. 

En útvegsmenn umhverfast í hvert sinn sem aðeins er kvakað um  endurheimtur á réttlætinu, að þjóðin fái til baka sína eign, auðlindir hafsins. Íslenskur sjávarútvegur ætti að taka slíku fagnandi, fagna því að þeir væru frelsaðir frá því að dæla fármagni í kaup á kvóta eða leigu, borga þeim fúlgur fjár sem hætta og leggjast í ljúfa lífið í útlendur stórborgum og flatmaga á sólarströndum, þess í stað að greiða samfélaginu sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni.

En útvegsmenn eru sjálfum sér verstir, þeir halda að þeir muni missa spón úr aski, engu má breyta.

Bændasamtök Ísland hafa viðurkennt að þau standi að hluta undir rekstrarkostnaði Heimssýnar, samtaka sem ekki aðeins berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur vinna að því öllum árum að aðildarviðræðum verði hætt. Ég get engan veginn sagt á þessari stundu hvort ég muni greiða atkvæði með inngöngu Íslands í Evrópusambandið, til þess skortir mig þær upplýsingar sem aðildarviðræðurnar skila. Reyndar tel ég að frekar ólíklegt að við fáum viðunandi samning, en umfram allt; látum reyna á það. En nú er spurningin þessi: Hafa  Bændasamtök Íslands rétt til að láta mikla fjármuni af hendi rakana til samtaka sem berjast fyrir því að við fáum aldrei svör við því hvort við náum fram þeim samningum við Evrópusambandið að það verði þess virði að skoða hann og meta og taka afstöðu til hans í þjóðaratkvæðagreiðslu? Eru Bændasamtök Íslands með umboð allra bænda til að verja fjármunum í það að bændur fái aldrei að vita hvað í boði er og hvaða kvaðir fylgja? Er það ekki með öllu siðlaust að samtök og atvinnugrein, sem þiggur geysilegt fé úr okkar sameiginlegu sjóðum, verji fé til einhliða áróður fyrir að berja niður öflun upplýsinga sem bændur landsins hafa sannarlega rétt til að fá?

Enn ein samtökin sem augljóslega vinna gegn eigin hagsmunum og hika ekki við siðleysi og jafnvel lögbrot í þeim tilgangi.


Hverjar eru auðlindir Íslands, hver á að eiga þær, hverjir eiga að nýta þær?

Sá sem hefur boðið sig fram til Stjórnlagaþings verður að svara þeim spurningum sem koma fram í fyrirsögn pistilsins.

Fyrst vil ég gera stutta grein fyrir hverjar eru auðlindir Íslands. Að undanförnu hefur verið einblínt á orkugjafann, vatnsorku og jarðvarmaorku. Að sjálfsögðu hárrétt, þarna er hluti af auðlindum landsins en aðeins hluti. Það fer ekki á milli mála að nú stendur yfir landsfundur Landsambands íslenskra útvegsmanna, boðskapurinn sem þaðan kom er þessi; þið skuluð ekki voga ykkur að hrófla við núverandi kvótakerfi, þetta er okkar eign, við höfum keypt réttinn til að veiða fiskinn í sjónum dýru verði og það er vissulega rétt, margir haf gert það. En sú furðulega staða að tilfinningar og pólitík tröllríður umræðunni um auðlindir á landi, einkum orkugjafana, þá virðist auðlindin í hafinu, lífríkið í hafinu lítið hreyfa við þeim sem hæst hafa um vatnsaflsvirkjanir eð jarðvarmavirkjanir.

Við gerðum þau reginmistök fyrir um það bil 20 árum að rétta útgerðarmönnum eignarétt á fiskinum í sjónum, þeir fengi ekki aðeins eignarréttinn heldur rétt til að selja og leigja þessa mikilvægu "eign". Aldrei frá upphafi Íslandsbyggðar hefur einum hagsmunahópi verið afhent endurgjaldslaust önnur eins verðmæti, auðlindina miklu í hafinu sem örðum fremur hefur á undanförnum öldum haldið lífinu í Íslendingum og staðið undir velferð okkar.

En ég hef átt í nokkrum orðaskiptum við útgerðamann hér í Þorlákshöfn í litlu þorpsblaði. Þar viðurkenndi hann að íslenskur sjávarútvegur, sjávarútvegsfyrirtæki, eru skuldum vafin og kvótinn veðsettur innanlands og utan. Ekki nóg með það, hann viðurkenndi einnig hvernig þessar himinháu skuldir höfðu hrannast upp þrátt fyrir að þessi hagsmunahópur, útgerðarmenn, fengu auðlindina án nokkurs endurgjalds. Hann staðfesti að skuldirnar eru að mestu tilkomnar vegna kaupa á kvóta þeirra sem eru að hætta útgerð.

Hérlendis sem erlendis sitja fjölmargir fyrrverandi útgerðarmenn og lifa kóngalífi á þeim fjármunum sem þeir fengu fyrir sölu á kvóta til  þeirra sem áfram basla. 

Gera menn sér grein fyrir hve gífurlegir fjármunir hafa sogast út úr þessari atvinnugrein, fiskveiðum og útgerð, á þennan hátt? Gera útgerðarmenn sér ekki grein fyrir hve eitraður bikar það var sem að þeim var réttur með því að gefa þeim kvótann, með frjálsa framsalinu, með leigunni á kvótanum, með því að verða að kaupa út úr greininni með geysilegum fjármunum þá sem hætta ?

Það var sett á laggirnar nefnd til að endurskoða kvótakerfið og ég gerði mér miklar vonir um að sú endurskoðun mundi skila okkur, almenningi og þjóðinni allri, eignaréttinn og nýtingarréttinn yfir auðlindum hafsins, yfir nýtingu þeirra fiskistofna sem eru innan okkar 200 mílna lögsögu. Út úr starfi endurskoðunarnefndarinnar kom ekkert sem hönd er á festandi, loðmulla sem LÍÚ samdi og kallast samningaleið; sem sagt óbreytt ástand.

LÍÚ hefur með hræðsluáróðri tekist að halda í þennan "eignarétt" sinna fyrirtækja. Slíku verður að breyta og ný Stjórnarskrá verður að taka af skarið:

Auðlindir hafsins eru eign þjóðarinnar, engan afslátt frá því!


Flatur niðurskurður á skuldum fasteignaeiganda er feigðarflan

Svo virðist sem Ríkisstjórnin sé að missa staðfestuna og láta undan þeim sem hæst hafa látið og heimtað flatan niðurskurð á skuldum fasteignaeigenda. Þar láta hæst minnihlutaflokkar á Alþingi með Framsóknarmenn í broddi fylkingar og ekki stendur á Hreyfingunni , Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur (Birgitta er úti á túni að lemja tunnur), að fylgja þeirri forystu, svolítið hik virðist vera á Sjálfstæðismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna fylgja málinu eindregið og nú er búið að festa hugsanlegan flatan niðurskurð skulda heimilanna við 18%. Satt best að segja get ég ekki skilið Hagsmunasamtök heimilanna  styðji slíkar aðgerðir því þær munu  að lokum kosta skattgreiðendur fúlgur fjár og leysa lítinn vanda.

Ég hef fyrir framan mig töflu frá Fjármálaráðuneytinu, sem ég dreg ekki í efa, að 20412 einstaklingar skuldi meira en 100% í sínum fasteignum og það kann að vera að þar bætist fleiri í hópinn ef fasteignaverð lækkar umtalsvert.

En þennan hóp má alls ekki setja í eina rétt og ganga síðan til verks þannig að skuldir allra séu færðar niður um 18% því aðstæður innan þessa hóps eru ákaflega misjafnar og það liggur í augum uppi að það verður ekki öllum bjargað. Ég undrast stórlega orð  bankastjóra Landsbankans í Sjónvarpinu í gærkvöldi að það ætti að einbeita sér að því að bjarga þeim sem eru verst settir.

Ef það verður gert verður engum bjargað.

Þarna eru 1360 einstaklingar sem skulda meira en 200% af verðgildi sinna fasteigna. Það liggur í augum uppi að þessum hópi verður ekki bjargað þó bankastjóri Landsbankans vilji einbeita sér að því. Með 18% flötum niðurskurði fær þessi hópur háar afskriftir af sínum skuldum en mér finnst liggja í augum uppi að það dugi engan veginn til að bjarga þeim frá því að missa  eignir sínar.

Það sem hefði átt að gera fyrir löngu er að greina þá sem skulda yfir 100% af sínum heimilum og sannreyna hvern og einn, hvernig er hægt að hjálpa þeim sem geta orðið bjargálna. Ef markið er sett sem hámark við þá sem skulda alt að 150% þá eru það 16433 einstaklingar.

Þetta er hópurinn sem á að einbeita sér að því að bjarga. Þeir sem eru yfir þessum mörkum eru 3979 einstaklingar og þeirra mál ber að sjálfsögu að skoða einnig. En þetta er sá hópur sem þarf mesta fjármuni til að bjarga og í þessum hópi eru þeir sem höguðu sér óskynsamlegast. Það er ekki vafi að margir þar voru í allt og dýru húsnæði og stóru og ekki ólíklegt að á heimreiðinni hafi staðið tveir jeppar, jafnvel sportbíll einnig og í einum bílskúrnum mótorhjólið, snjósleðinn og fjórhjólið. Ég veit að þessi orð geta orðið mér dýrkeypt en mér er nokkuð sama. Þetta eru þau orð sem hafa verið "tabú" í allri umræðunni, ég hika ekki við að brjóta það "tabú".

Satt best að segja líst mér ekkert á hvernig þessi mál þróast nú og spurning hvort hið fornkveðna "því verr gefast heimskra manna ráð því fleiri sem koma saman" á ekki orðið við um hvert stefnir.

 


Ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings

Ég var að koma frá pósthúsinu hér i Þorlákshöfn, sem er reyndar með afgreiðslu hjá Landsbankanum, og póstlagði framboð mitt til Stjórnlagaþings með 44 meðmælendum. Ég mun bráðlega ræða ýmis atriði sem mér finnst að þyrfti að ræða vandlega á Stjórnlagaþinginu og þá gætu ef til vill orðið nokkur málefnaleg skoðanaskipti.

Hvað sagði Mark Flanagan um árangur íslenskra stjórnvalda eftir hrun?

Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa verið umdeilt hér á landi. Ekki hefur þó tekist að benda á nokkuð sem sýni  að AGS segi íslenskum stjórnvöldum fyrir verkum og ég álít að við værum í dag ver stödd ef við hefðum ekki tekið upp samstarf við AGS. Mark Flanagan hefur frá upphafi verið formaður sendinefndar AGS hér á landi frá því samstarfið hófst en lætur nú af því starfi.

Hann metur ástand efnahags- og þjóðmála á eftirfarandi hátt og ég held að álit hans sé öllum holl lesning:

 „Það var fullt tilefni til að ætla að ástandið yrði slæmt á meðan
kreppan stæði yfir. En íslenska hagkerfið virðist hafa náð jafnvægi
fyrr en við reiknuðum með. Ég veit að það mat kann að vera umdeilt á
Íslandi, en ef við horfum á alla helstu hagvísa þá sýna þeir þann
árangur. Neysla virðist hafa náð jafnvægi í lok síðasta árs,
vinnumarkaður hefur náð jafnvægi, verðbólga hefur lækkað mikið og
gjaldmiðillinn hefur jafnað sig frábærlega á síðustu mánuðum. Margir
þeirra lykilþátta sem eru nauðsynlegir til að ná efnahagslegum
stöðugleika hafa orðið að veruleika á síðustu tveimur árum.“

„Það hefur því mjög margt náðst fram hvað varðar aðlögun íslenska
efnahagslífsins að nýjum veruleika. Ísland er að mörgu leyti langt á
undan öðrum löndum í sínum bata sem hafa lent í svona vandræðum"

„Það er líka mikið afrek að íslenskum stjórnvöldum hefur tekist að
fara í gegnum þessa aðlögun á sama tíma og þeim hefur tekist að
viðhalda meginundirstöðum norræns velferðarkerfis og án þess að gera
eðlisbreytingu á því sem við hjá AGS teljum vera mjög einfalt og
afkastamikið skattkerfi.“

„Það er ekki hægt að vinna sig upp úr svona stórri kreppu á skömmum
tíma. Þar er enn margt sem þarf að gera til að gera efnahag landsins
stöðugan á ný og það tekur tíma að vinna úr skuldabagga af þeirri
stærðargráðu sem Ísland glímir við.“

“Reynslan úr fyrri kreppum segir okkur að endurskipulagningarferli
fyrirtækja taki vanalega á bilinu 18-36 mánuði. Núna erum við stödd
nokkurn veginn í miðju þess tímaramma.”
 


Þetta er athugasemd við bloggi andstæðings aðildarviðræðna Íslands við ESB

Ég veit ekki af hverju ekki er hægt að ræða jafn mikilvægt mál og aðildarumsókn Íslands að ESB án þess að grípa til útúrsnúninga. Það er sérkennilegt að segja að Joe Borg hafi verið boðið til Ísland til trúboðs. Eitt er víst, trúboð á heima hjá trúflokkum, ekki í alvarlegri umræðu um mikilvæg þjóðmál. Joe Borg var boðið hingað til lands til að miðla reynslu sinni og þekkingu, en hann leiddi aðildarviðræður Möltu við ESB. Þarftu Jón Baldur að grípa til svo lágkúrulegra meðala að reyna að lítillækka mann sem Joe Borg með því að koma því inn að hann hafi síðar, eftir inngöngu Möltu orðið hálaunaður embættismaður hjá ESB. Fyrst sagðirðu 4 milljóna maður en nú ertu búinn að lækka launin um 25%, nú eru þau 3 millj. Eftir inngöngu hvers lands skipar það fulltrúa sinn hjá ESB og var ekki eðlilegast að Malta skipaði sinn reyndasta mann. Er málefnafátækt þín slík að þú þurfir að reyna að lítillækka þennan ágæta gest? Og má ég spyrja; af hverju þorðir þú ekki að koma á fyrirlestur Joe Borg í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag?

Malta er lítil eyja með 400.000 íbúa svo það liggur í augum uppi að við höfum margt af þeim að læra þegar af þeirra reynslu af aðildarviðræðum og inngöngu. Það sem kemur hér fram að ofan, að Ísland sé að bera sig saman um fiskveiðar við Möltu og reynslu þeirra, þá er það alrangt. Maltverjar eiga nánast engin fiskiskip nema minni báta sem veiða aðallega innan 50 mílna frá landi og hlutur fisveiða og vinnslu er örlítið brot að þeirra þjóðarframleiðslu, algerlaga öfugt við Ísland. 

Það kom margt athyglisvert fram hjá Joe Borg og því hefur ekki verið gerð skil ef undan er skilið Silfur Egils. Eitt það athyglisverðasta var þetta:

Fisveiðistefna ESB er í algjörri endurskoðun. Það er því tilgangslaust að mála skrattann á vegginn og búa til einhver ákvæði um að hér yrðu Spánverjar, Portúgalar og fleiri ESB þjóðir komnar með rétt til veiða innan okkar lögsögu ef við göngum í ESB enda mundum við ALDREI samþykkja slíkt. Joe Borg taldi að við þessa endurskoðun gæti svo farið að ESB mundi frekar aðalaga sig að fiskveiðistefnu Íslands en öfugt. (Þá er örugglega ekki verið að miða við okkar skelfilega kvótakerfi með frjálsu framsali, sölu og leigu).

Hann benti einnig á hve nauðsynlegt það væri að öll hagsmunasamtök og allur almenningur í umsóknarlandinu fengju stöðugt upplýsingar um gang mála þegar umsóknarviðræður væru komnar á skrið. Þá kom skemmtileg spurning úr sal; hvað eigum við þá að gera við samtök eins og Bændasamtökin sem vilja ekkert heyra, ekkert kynna sér, loka alfarið öllum dyrum og gluggum. Í eina skiptið varð Joe Borg orðfall og viðurkenndi hreinlega að við slíku hefði hann ekkert svar, hefði ekki reynslu af slíkum heimóttarskap.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 113881

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband