Þetta er athugasemd við bloggi andstæðings aðildarviðræðna Íslands við ESB

Ég veit ekki af hverju ekki er hægt að ræða jafn mikilvægt mál og aðildarumsókn Íslands að ESB án þess að grípa til útúrsnúninga. Það er sérkennilegt að segja að Joe Borg hafi verið boðið til Ísland til trúboðs. Eitt er víst, trúboð á heima hjá trúflokkum, ekki í alvarlegri umræðu um mikilvæg þjóðmál. Joe Borg var boðið hingað til lands til að miðla reynslu sinni og þekkingu, en hann leiddi aðildarviðræður Möltu við ESB. Þarftu Jón Baldur að grípa til svo lágkúrulegra meðala að reyna að lítillækka mann sem Joe Borg með því að koma því inn að hann hafi síðar, eftir inngöngu Möltu orðið hálaunaður embættismaður hjá ESB. Fyrst sagðirðu 4 milljóna maður en nú ertu búinn að lækka launin um 25%, nú eru þau 3 millj. Eftir inngöngu hvers lands skipar það fulltrúa sinn hjá ESB og var ekki eðlilegast að Malta skipaði sinn reyndasta mann. Er málefnafátækt þín slík að þú þurfir að reyna að lítillækka þennan ágæta gest? Og má ég spyrja; af hverju þorðir þú ekki að koma á fyrirlestur Joe Borg í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag?

Malta er lítil eyja með 400.000 íbúa svo það liggur í augum uppi að við höfum margt af þeim að læra þegar af þeirra reynslu af aðildarviðræðum og inngöngu. Það sem kemur hér fram að ofan, að Ísland sé að bera sig saman um fiskveiðar við Möltu og reynslu þeirra, þá er það alrangt. Maltverjar eiga nánast engin fiskiskip nema minni báta sem veiða aðallega innan 50 mílna frá landi og hlutur fisveiða og vinnslu er örlítið brot að þeirra þjóðarframleiðslu, algerlaga öfugt við Ísland. 

Það kom margt athyglisvert fram hjá Joe Borg og því hefur ekki verið gerð skil ef undan er skilið Silfur Egils. Eitt það athyglisverðasta var þetta:

Fisveiðistefna ESB er í algjörri endurskoðun. Það er því tilgangslaust að mála skrattann á vegginn og búa til einhver ákvæði um að hér yrðu Spánverjar, Portúgalar og fleiri ESB þjóðir komnar með rétt til veiða innan okkar lögsögu ef við göngum í ESB enda mundum við ALDREI samþykkja slíkt. Joe Borg taldi að við þessa endurskoðun gæti svo farið að ESB mundi frekar aðalaga sig að fiskveiðistefnu Íslands en öfugt. (Þá er örugglega ekki verið að miða við okkar skelfilega kvótakerfi með frjálsu framsali, sölu og leigu).

Hann benti einnig á hve nauðsynlegt það væri að öll hagsmunasamtök og allur almenningur í umsóknarlandinu fengju stöðugt upplýsingar um gang mála þegar umsóknarviðræður væru komnar á skrið. Þá kom skemmtileg spurning úr sal; hvað eigum við þá að gera við samtök eins og Bændasamtökin sem vilja ekkert heyra, ekkert kynna sér, loka alfarið öllum dyrum og gluggum. Í eina skiptið varð Joe Borg orðfall og viðurkenndi hreinlega að við slíku hefði hann ekkert svar, hefði ekki reynslu af slíkum heimóttarskap.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Sæll Sigurður.

Það dylst engum að sú mynd sem heimsókn Borgs gaf er að smáríki geti náð góðum samningum, átt samleið með Evrópusambandinu og haft sín áhrif innan þess. Enda sýnist mér að það hafi verið tilgangur heimsóknarinnar. Það má deila um manninn, en sleppum því og höldum okkur við málefnin.

Ég ætla að leyfa mér málefnalegar athugasemdir eingöngu (enda stíft kallað eftir því þessa dagana).

Þegar RÚV sýndi síðasta vetur þátt um Möltu og Evrópusambandið lagði ég það á mig að lesa aðildarsamninginn, viðaukana, bókanirnar og allan pakkann. Niðurstaðan var að það er akkúrat ekkert merkilegt eða sérstakt við samninginn. Í plöggum Möltu er að finna þrjú frávik frá meginlínum sem ég man eftir, öll léttvæg, þar af aðeins eitt sem hægt er að flokka sem undanþágu frá grunnreglum ESB. Að auki voru ríflega 70 aðlögunarreglur, sem alltaf þarf að semja. Þær eru nú allar fallnar úr gildi nema tvær, sem báðar varða landbúnað.

Þáttur RÚV bara yfirskriftina "Geta Íslendingar lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu?". Eins og þú veist eru tvö stærstu málin í umsókn Íslands landbúnaður og sjávarútvegur. Það er táknrænt að í þættinum var eytt fjórtán sekúndum í þessa tvo atvinnuvegi, samanlagt. Sjávarútvegur er aukaatriði á Möltu, eins og þú nefnir réttilega, enda var hann afgreiddur með einni setningu; að hann væri ekki samanburðarhæfur við Ísland. Annars er fiskveiðistefna ESB búin að vera í "algjörri endurskoðun" síðan 1983 en nánast ekkert breyst.

Það litla sem kom fram um landbúnað var að aðildin hefur bitnað hart á bændum, margir hafa gefist upp en þeir sem eftir eru hafa margir sameinast til að reyna að halda velli. Hagur bænda hefur því versnað umtalsvert. Aðlögunarreglurnar tvær, sem enn gilda, falla brátt úr gildi. Önnur á næsta ári og hin árið 2015, en hún varðar styrki vegna grænmetis-, ávaxta- og kornræktar. Þá mun þrengja enn meira að maltneskum bændum.

Og ef við svörum spurningunni um hvað við getum lært af Möltu, varðandi þessar tvær atvinnugreinar, þá er svarið: Nánast ekkert.

En það var tvennt við aðildina sem er gott fyrir Möltu. Annað varðar sjálfsmynd þjóðarinnar (að tengjast Evrópu en vera ekki "smáríki við strendur Norður Afríku") og hitt eru svo umhverfismál, þar sem Malta var á algjörum byrjunarreit. Hvorugt atriðið hefur neina vigt hér á landi, þar sem við höfum áratuga sögu í evrópskri, norrænni og alþjóðlegri samvinnu og höfum rekið hér umhverfisráðuneyti í tuttugu ár og þurfum ekki að játast undir yfirþjóðlega stjórn til að byrja að flokka sorp og endurvinna umbúðir. 

Það er sjálfsagt að fá erlenda gesti til að ræða málin. En það er sorglegt hvernig fjölmiðlar taka við öllu og birta án athugasemda. Það hefði ekki þurft mikla vinnu til að sjá t.d. að útgjöld þjóðarinnar til ESB eru þegar orðin hærri en styrkirnir, að ný könnun sýnir að aðeins 17,2% landsmanna telja sig merkja breytingar til batnaðar, að spilling hefur ekki minnkað í landinu, að ólöglegum innflytjendum fjölgaði verulega og er orðið erfitt vandamál, að síðustu tvö ár hafa 30 þúsund manns, eða tæp 8% þjóðarinnar, þurft að treysta á erlenda matvælaaðstoð o.s.frv., o.s.frv.

Frávikin þrjú sem ég nefndi hér að ofan eru þessi:

 - sett regla um hámarksstærð fiskibáta og fjölda veiðileyfa innan landhelginnar. Hún er byggð á verndunarsjónarmiðum en veitir ekki undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni, enda hafa nokkur veiðileyfi þegar komist í eigu erlendra útgerðarmanna.

 - samþykkt að áfram megi leita ráðgjafar hjá fjölþjóðlegri stofnun varðandi veiðar á túnfiski (bluefin tuna). Þetta þurfti að færa til bókar þar sem ekki er um ESB stofnun að ræða.

 - samþykkt að ríkisstjórn Möltu sé heimilt að takmarka íbúðareign þeirra sem ekki eiga þar lögheimili við eina íbúð (protocol no 6). Þetta er það eina sem flokkast sem undantekning frá grunnreglum og á sér fordæmi í samningi Dana um sumarhúsaeign þar í landi.

Svo eru alls kyns bókanir, sem margar eru fyrst og fremst formsatriði, t.d. bókun um að það breyti ekki stafsetningar- og málfræðireglum í maltneska tungumálinu að orðið "euro" sé notað á peningaseðla og mynt (ég er ekki að skálda þetta!).

Þetta voru nú öll ósköpin. Það sem Borg hafði fram að færa var að menn þurfi að hafa góða samningamenn og vanda til verka, sem við gátum svo sem sagt okkur sjálf.

Að veita fólki upplýsingar

Eitt lagði Borg áherslu á, en það er að veita fólki réttar upplýsingar.

Í upplýsingum sem almenningi á Möltu voru veittar var réttilega bent á veto-ákvæðin. Það er neitunarvald sem smáríki geta notað sem öryggisventil ef þau telja að verulega sé gengið gegn hagsmunum þeirra.

Eftir inngöngu Möltu hélt ESB eðlilega áfram að þróast. Síðasta stóra breytingin er Lissabon samningurinn, en í honum eru veto-ákvæði þurrkuð burt í 68 málaflokkum. Hjá sumum þeirra sem sögðu já í atkvæðagreiðslunni á Möltu kunna veto ákvæðin að hafa ráðið úrslitum. Nú hafa þau verið rýrð verulega en ekki hægt að taka atkvæðið til baka.

Þetta ætti að minna okkur á að ESB hættir ekki að þróast og breytast við það að Ísland gangi inn. Ef menn nenna að kynna sér það sem er að gerast í utanríkismálum þessar vikurnar þá held ég að mörgum hugnist ekki þau skref sem stigin eru í átt til sambandsríkis. Sú þróun mun halda áfram.

Bið þig að afsaka hvað þetta er langt, en það kostar meiri fyrirhöfn að kryfja málin og vera málefnalegur, en að beita klisjum og upphrópunum, svo þetta er vonandi í lagi.

Haraldur Hansson, 27.9.2010 kl. 12:52

2 identicon

Haraldur:  Þú skrifar:

Það er sjálfsagt að fá erlenda gesti til að ræða málin. En það er sorglegt hvernig fjölmiðlar taka við öllu og birta án athugasemda. Það hefði ekki þurft mikla vinnu til að sjá t.d. að útgjöld þjóðarinnar til ESB eru þegar orðin hærri en styrkirnir, að ný könnun sýnir að aðeins 17,2% landsmanna telja sig merkja breytingar til batnaðar, að spilling hefur ekki minnkað í landinu, að ólöglegum innflytjendum fjölgaði verulega og er orðið erfitt vandamál, að síðustu tvö ár hafa 30 þúsund manns, eða tæp 8% þjóðarinnar, þurft að treysta á erlenda matvælaaðstoð o.s.frv., o.s.frv. 

Hvar færðu þessar upplýsingar?  

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 27.9.2010 kl. 13:13

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Stefán, þú finnur þetta allt og meira til með hjálp Google.

Þegar ég skrifaði athugasemdina treysti ég á minnið, enda fór ég mjög vandlega yfir Möltumálin öll í fyrravetur. Þetta var slegið inn í flýti í matartímanum svo ég hafði ekki tíma í að gúggla og linka. Í flýtinum hefur slæðst slæm innsláttarvilla: Þar sem stendur 17,2% á að vera 37,2%. Biðst velvirðingar, en þetta leiðréttist hér með.

En til að spara þér leitina eru hér tenglar á nokkrar heimildir: 
Maltverjar borga meira en þeir fá (hér), vandi vegna ólöglegra innflytjenda (hér), frásögn af matvælaaðstoð (hér) og niðurstaða úr könnun Malta Today (hér, pdf).

Könnunin var gerð eftir fimm ára veru Möltu í ESB og sýnir þetta með að 37,2% merkja breytingu til hins betra, en 32% vilja yfirgefa sambandið. Þar er margt annað áhugavert. T.d. að þegar spurt er um helsta kostinn við ESB aðild nefna aðeins 4% evruna, en þegar spurt er um helsta gallann nefna 25,3% hækkandi verðlag. Samt er okkur ítrekað sagt að verðlag hér muni lækka!

Einnig athyglisvert að tæp 89% vita ekkert um Lissabon samninginn, sem þó er ígildi stjórnarskrár. Það er ljótur vitnisburður um virðinguna fyrir lýðræðinu.

Mæli einnig með að menn kynni sér aðdraganda ESB aðildar Möltu, en það er löng saga þar að baki.

Varðandi undanþágur og aðlögunarreglur þá finnur þú aðildarsamninginn á upplýsingavef ESB. Þú græðir ekkert á að lesa samningsplaggið sjálft, það er bara staðlaður texti eins og hjá öllum hinum. Smelltu á viðaukana (Annex I og Annex II) og þar finnur þú það sem nefnt er í athugasemd minni. Bókanir og annað sem fylgir er að finna á sama vefsvæði.

Haraldur Hansson, 27.9.2010 kl. 17:33

4 identicon

Haraldur:  Malta greiðir meira en það fær, þ.e. ríkið.  Hvað með þjóðina? 

Hér er hægt að sjá Maltverjar hafa það betur en fyrir 10 árum síðan.

Það kemur ekki fram í fréttinni um ólöglega innflytjendur að það hafi byrjað með inngöngu Möltu í ESB.

Þú leiðréttir þig í athugasemdinni og segir 37,2% telja sig merkja breytingu til hins betra. 

Það er ekki sagt hvenær Maltverjar byrjuðu að dreifa mat til þeirra sem þess þurfa.  Var það fyrir inngöngu í ESB eða eftir?

Hækkandi verðlag.  Orkuverð hefur hækkað mikið með hækkandi verðlagi á olíu.  Við finnum ekki svo mikið fyrir því á Íslandi því hér er ekki kynnt með olíu, gasi eða kolum.  

Þó svo að Maltverjar séu ekki alveg sáttir, þá vill samt rúmur meirihluti samt sem áður halda áfram í sambandinu.

Svo er það þjóðsaga að matvælaverð muni lækka á Íslandi.  Mér finnst rangt að segja það að matvælaverð muni lækka. Það er frjáls markaður og hann ræður.  Á Íslandi er ekki hefð fyrir því að kaupmenn lækki verð hjá sér nema þá tímabundið.

Það er ekkert skrýtið að aðeins 4% nefni evruna.  Ef þú talar við fólk í ESB, þá er því alveg nákvæmlega sama með hverju það greiðir.  Allavega er það mín reynsla.  Það er litið á mig stórum augum þegar ég spyr hvað því finnist um evruna;)

Við einblínum um of á evruna eða krónuna.  Við getum aðeins tekið upp evru þegar krónan er stöðug.  Sögulega séð þá hefur ríkið alltaf verið með fingurna í krónunni.  Það mun ekkert breytast.  Því tel ég að upptaka evru komi í veg fyrir þessa leiki með gjaldmiðilinn.

Ég er mjög sáttur sem íbúi í ESB.  Þetta eru fréttir eins og annað og margt af því er misskilið á Íslandi.  Ekki viljandi, en stundum.

Ef við myndum þýða alla fjölmiðla á Íslandi yfir á erlend tungumál, þá myndu einnig margir spyrja sig hvað væri að hér á landi;)  En sumt af því er eðlilegt í okkar augum.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 27.9.2010 kl. 19:12

5 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Takk fyrir fróðlegg innlegg Haraldur. Hvet þig til að taka saman grein um þetta og birta fjölmiðlum.

Jón Baldur Lorange, 27.9.2010 kl. 20:27

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Stefán. Þú býrð í Evrulandi og ert sattur. Þú ert sjómaður, sem fiskar við Íslandstrendur. (væntanlega kokkur á einum og kvart) Ég skil vel að þú skulir vera alsæll með þetta atvinnuöryggi. Vafalaust með fullar hendur fjár, jafnvel einstæður í ofanálag. Allt er þetta sótt í auðlind þíns heimalands.  Hvernig í ósköpunum vogar þú þér að mæra lífskilyrði í evrópulöndum út frá þessu?  Rökin eru: " Ég bý í evrópusambandinu og hef það fínt. Þessvegna er evrópusambandi fínt."

Hvað finnst þér annars um umsókn Evrópusambandsins um sæti í sameinuðu þjóðunum? Þ.e. sem þjóð. Tókst ekki nú en þeir munu halda áfram að reyna enda búnir að ganga svo frá að þetta er að verða megaríki með lénum upp á gamla móðinn.  Eru þetta trúarbrögð hjá þér, eða ristir sannfæringin ekki dýpra en lýst er hér að ofan?

Jón Steinar Ragnarsson, 27.9.2010 kl. 23:01

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Stefán: Þetta með ólöglega innflytjendur er nokkuð sem varð að vandmáli eftir opnun landamæranna við inngöngu í ESB. Athugaðu líka að könnunin sem ég vísa í var framkvæmd til að kanna hvað Maltverjum fannst um áhrif aðildar eftir fimm ára reynslu.

Hækkað verðlag kom fram strax við inngöngu þegar kjöt hækkaði umtalsvert í verði. Ástæðan var að við aðild var bannað að flytja inn lambakjöt frá Nýja Sjálandi, enda er það utan tollamúranna.

Það er tvennt sem ég tek heils hugar undir með þér: Við einblínum um of á evruna eða krónuna. Og - að það er bara þjóðsaga að matvælaverð lækki við inngöngu.

Það eina sem gerist við inngöngu er að við gefum frá okkur forræðið í stórum málum. Það er gjaldið fyrir evruna, sem t.d. Portúgalar trúðu að væri frábær en vita núna að er skaðræði.

Framsal valds úr landi leiðir á endanum til tjóns - hjá því verður ekki komst. Fjarlægt stjórnvald er aldrei góður kostur.

Haraldur Hansson, 27.9.2010 kl. 23:53

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við höfum verið undir erlendu valdi mestalla söguna okkar. Þessi rúm swextíu ár með sjálfstæði og eigið þing hafa verið mesta blómaskeið okkar sögu, þótt menn greini á um smáatriðin í hinu daglega amstri. Evrópusinnar telja okkur miklu betur borgið í gamla fyrirkomulaginu, sem lén undir máttugu ofurvaldi og án sjálfræðis í öllum meginmálum. Við erum svo vonlaus og ómöguleg að þeirra mati að við getum ekki séð um okkur sjálf.  Við erum nú samt skrimtandi eftir kröftugasta hrun sögunnar hjá einni þjóð (á pappírnum allavega) og í ofanálag með glæpagengið valsandi um í stjórnarráðinu og seðlabankanum.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.9.2010 kl. 00:23

9 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Sæll Sigurður Grétar,

Ætli það sé ekki best að svara þér á heimavelli.

Ekki sá ég mér fært að mæta á annars fróðlegan fund með Joe Borg. Ég hef hins vegar hlustað á spurningar og svör að mestu en á eftir að hlusta á erindið hans til enda. Allur fróðleikur um kosti og galla aðildar Íslands að ESB er gagnlegur en hann missir marks ef hann er of einhliða.

Varðandi laun Joe Borg þá var ég nú bara að telja upp staðreyndir sem rétt er líka að hafa upp á borðinu og hefur t.d. verið fjallað um í fjölmiðlum á Malta.

Það er rétt að sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB (CFP) er í endurskoðun. Það er líka sameiginleg landbúnaðarstefna sambandsins (CAP). Í dag er hvaða stefna bíður nýrra aðildarríkja eftir 2013 eða um það leiti sem Íslands væri að gerast aðili ef þjóðin játast undir Evrópusambandið. Það er að sjálfsögðu óskhyggja að halda því fram að 27 aðildarríki ESB taki upp á því að endurskrifa CFP í anda íslensku sjávarútvegsstefnunnar. En auðvitað erum við Íslendingar frægir fyrir að eltast við glópagull og tálsýnir, og ætli að það verði nokkur breytinga á því úr þessu.

Varðandi fyrirspurn Kolfinnu Baldvinsdóttur úr sal að Bændasamtökin, og þú vitnar í hér að ofan, vilji ekkert heyra né sjá er dæmigerður áróður frá aðildarsinnum gegn þeim sem eru fullir efasemda um aðild. Vissulega minnir þetta á trúboð þar sem trúboðinn hneykslast á þeim heiðingjunum sem sjá ekki ljósið. En þú veist það vel Gísli að Bændasamtökin hafa lagt sig fram við að kynna sér kosti og galla aðildar fyrir íslenskan landbúnað í mörg ár. Þá eru fulltrúar bænda í samningahópum stjórnvalda og ég veit ekki til annars en þeir hafi unnið þar af sama kappi og aðrir við að kynna sér regluverk ESB. Þá hafa Bændasamtökin tekið á móti sérfræðingur ESB að undanförnu og svona mætti lengi telja.

Það sýnir kannski best hve Bændasamtökin eru inn í málum að þetta eru einu samtökin sem gera sér grein fyrir því að aðlögunarferli er hafið og mesti þrýsturinn er frá ýmsum á íslenskan landbúnað. Þetta kom m.a. fram í máli Joe Borg að á Möltu hefði fljótt verið hafist handa við aðlögun landbúnaðar að CAP til að undirbúa hann undir fulla aðild. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við það, þó að aðildarsinnar vilji gera það tortryggilegt, að óska eftir skýringum frá stjórnvöldum um hvað sé raunverulega í gangi. Stjórnvöld á Íslandi hafa nú ekki fram að þessu staðið vaktina fyrir hagsmuni almennings þegar þess þurfti mest við.

Jón Baldur Lorange, 28.9.2010 kl. 00:29

10 Smámynd: Jón Baldur Lorange

... ekki veit ég hvernig Gísli kom til sögunnar ... en þetta átti að sjálfsögðu að vera Sigurður Grétar.

Jón Baldur Lorange, 28.9.2010 kl. 07:25

11 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Jón Baldur, ég veit að þú ert tengdur Bændasamtökunum, þess vegna ætti ég ekki að rengja það sem þú segir um þeirra afstöðu. Hinsvegar fer ég talsvert eftir því sem Haraldur formaður þeirra hefur sagt á opinberum vettvangi og það er ótrúlega einhliða og ekki síður málflutningur Ásmundar Einars alþingismanns, en hann talar ekki fyrir bændur heldur fyrir sjálfan sig og sem formaður Heimssýnar sem berjast ákaft gegn inngöngu í ESB.

Hinsvegar þakka ég þér fyrir málefnalega umfjöllun, en eins og við vitum  báðir þá er dapurlegt að sjá hvað frá sumum bloggurum kemur.

Ég undirstrika enn og aftur að ég er hvorki "trúboði" né "frelsaður" og get ekki sagt á þessari stundu hvort ég muni greiða atkvæði með eða móti inngöngu, það fer eftir því hvaða árangri samningafólk okkar nær.

En ég fagna þeirri skoðanakönnun sem Fréttablaðið greinir frá í dag; umtalsverður meirihluti landsmanna er andvígur því að draga umsókn Íslands að ESB til baka.

Svo bendi ég á greinina í Fréttablaðinu í dag um  doktorsvörn Magnúsar Bjarnasonar við Háskólann í Amsterdam þar sem hann setur fram greiningu á því hvað kynni að bíða okkar ef við göngum í ESB.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 28.9.2010 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 113875

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband