Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Það er stutt að fara frá Pontíusi til Pílatusar

Sandgerðingur einn kvartaði sáran á bloggi Víkurfrétta yfir þeim móttökum sem hann og fjölskylda hans fékk í Bláa lóninu.

picture_3_1052200.pngÞetta er ekki í fyrsta sinn sem það sést á prenti að menn kvarta yfir því að þeir séu "sendir frá Pontíusi til Pílatusar".

 Eina bótin er þó sú að það er ekki langt á milli Pontíusar og Pílatusar því þetta er einn og sami persónuleikinn, einn af persónum Biblíunnar, Rómverji sem aldrei slíku vant uppfyllti kröfu Gyðinga og dæmdi Jesú til dauða.

Í mínu ungdæmi voru menn svo velupplýstir í Biblíunni að menn fóru rétt með það sem þar er sagt að frelsarinn sjálfur hefði verið sendur frá Pontíusi til Heródesar en þannig minnir mig að ég hafi lært þetta í biblíusögunum í Barnaskólanum í Þykkvabænum. Hver veit nema ég fari að lesa Biblíuna (en ég á enga slíka bók á íslensku) til að rifja upp og sannreyna hvort Gamla testamentið er slík sorabók sem mig minnir. Þar frömdu menn morð og sifjaspell, framseldu  dætur sínar til næturgamans fjölmennum hópum karla vegna þess að þær voru hreinar meyjar, allt að undirlagi guðs, sá sami guð hikaði ekki við að steikja íbúa heilla borga eða drekkja fjölmennum herdeildum ef þær voru eitthvað að ybbast upp á guðs útvöldu þjóð, Gyðinga. Svo segjast margir kristnir menn að þeir trúi hverju orði sem í Biblíunni stendur! Lifa þeir samkvæmt slíkum "orðum".

Jón Valur, þú ert ef til reiðubúinn með einhverjar athugasemdir við það sem ég segi að ofan.

 

 


Látum ekki umræðuna um aðskilnað ríkis og kirkju yfirgnæfa önnur og mikilvægari mál í aðdraganda kosninga til Stjórnlagaþings

Ég legg til einfalda málsmeðferð á Stjórnlagaþingi. Fellum 62. grein, sem segir að hin evangelíska lúterska kirkja sé þjóðkirkja og ríkinu beri að styðja hana,  brott úr Stjórnarskránni. Hins vegar verði áréttað að algert trúfrelsi ríki á Íslandi.
Þetta mundi í sjálfu sér engu breyta um þjóðkirkjuna, samningar milli ríkis og kirkju mundu gilda áfram.
En eftir að ný Stjórnarskrá hefur verið samþykkt og hefur tekið gildi er það þjóðarinnar að ákveða stöðu evangelísku lútersku kirkjunnar hér á landi, það verði einfaldlega ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Zapatero áminnti Benedikt páfa

Benedikt páfi var í heimsókn í því rammkaþólska landi Spáni. Páfi hafði margt að athuga við ýmislegt sem þarlend stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd svo sem að auka réttindi samkynhneigðra, leyfa getnaðarvarnir og jafnvel fóstureyðingar. En eins og allir vita er þetta allt eitur í beinum kaþólskra ráðamanna með páfann í broddi fylkingar. Þegar þeir kvöddust Zapatero forsætisráðherra og Benedikt páfi gaf Zapatero páfanum áminningu, minnti hann á að Spánn væri veraldlegt ríki þar sem engin trúarstofnun væri beinlínis rekin af ríkinu og trúfrelsi væri ríkjandi á Spáni. Undanfarið hafa allmiklar deilur spunnist um það hvað áhrif Þjóðkirkjan á að hafa í skólum landsins. Svolítið kómísk deila því þar eru margir sem vilja umfram allt halda þeim áhrifum sem Þjóðkirkjan hefur en hafa áður látið vel í sér heyra með hneykslun á múslímum sem víða haf sótt fast á að gera stjórnsýslu ríkja og trúarreglur múslíma eitt og það sama.

En svo vil ég nota þetta tækifæri á að undirstrika að önnur mál eru mikilvægari á Stjórnlagaþingi að mínu áliti en aðskilnaður Ríkis og Þjóðkirkju.


Biskupsstofa kannar afstöðu frambjóðenda til Stjórnlagaþings til sambands Ríkis og Þjóðkirkju

Ég, eins og allir frambjóðendur Stjórnlagaþings, hef fengið póst frá Biskupsstofu með tilvitnun í núverandi Stjórnarskrá svohljóðandi:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.
Síðan koma tvær spurningar svohljóðandi:

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

Ég tel eðlilegt að sem flestir kanni skoðanir frambjóðenda til einstakra mála eins og Biskupsstofa gerir hér. Ég hef ekki svarað Biskupsstofa beint en vísað til þess sem ég hef skrifað um samband Ríkis og Þjóðkirkju hér fyrr á blogginu. Ef Biskupsstofa óskar frekar eftir beinum svörum mínum er sjálfsagt að að verða við því.

En ég get ekki látið hjá líða að koma inn á það sem mér finnst furðulegur misskilningur hjá kristnum einstaklingum, en tek fram að þar á ég ekki við þessa könnun Biskupsstofu, frekar einstaklinga sem ég hef heyrt í.  Ég hef lýst þeirri skoðun minni að Ríki og Þjóðkirkju eigi aða aðskilja algjörlega. En þá bregður svo við að sumir virðast taka þessa skoðun um aðskilnað Ríkis og Þjóðkirkju sem andúð og baráttu gegn kristinni trú. Í mínum huga er fyrirkomulag stofnana trúfélaga eitt, trúin annað. Það er enginn fjandskapur við núverandi Þjóðkirkju þó ég telji það réttlæti að Ríkið sé ekki að reka stofnanir ákveðinna trúarbragða. Ég hef einnig leitt að því rök að aðskilnaðurinn mundi frekar styrkja núverandi Þjóðkirkju en veikja hana.  

Eru ekki einhverjir öflugustu söfnuðir kristninnar hérlendis Fríkirkjusöfnuðirnir í Reykjavík og Hafnarfirði?


Stjórnarskráin á að tryggja trúfrelsi á Íslandi

Eitt af "heitustu" málum dagsins í dag er hvernig skilja beri "trúfrelsi" og það kann að vera skiljanlegt eins og trú er fjölmörgum mikilvæg og  ekki er vafi á að kristin trú er það sem flestir aðhyllast á landi hér. En eftir að "trúfrelsi" var tekið í lög hérlendis hafa fjölmörg önnur trúarbrögð en kristin trú náð hér fótfestu. Þá kemur þversögnin; kristnir menn, eða eigum við að segja hin lúterska Þjóðkirkja, er ekki tilbúin að viðurkenna jafnrétti allra trúarbragða.

Þess vegna kemur ekki annað til greina en að í nýrri Stjórnarskrá verði gerður alger skilnaður milli ríkis og Þjóðkirkju. Margir kirkjunnar menn halda því þó fram að sá aðskilnaður sé þegar orðinn en það er alrangt, við erum enn með okkar Ríkiskirkju sem vill  ekki sleppa þeim áhrifum sem hún hefur náð inn í menntakerfi þjóðarinnar.

Í núverandi Stjórnarskrá , SJÖUNDA KAFLA, 62. grein, stendur:

Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Stjórnarskráin núverandi er oft heldur loðin en hér fer ekkert á milli mála, við höfum Ríkistrúarbrögð. Það þýðir lítið fyrir forystumenn Þjóðkirkjunnar að halda öðru fram þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á undanförnum árum á tengslum Ríkis og Þjókirkju.

Hér á landi ríkir miklir fordómar gagnvart öðrum trúarbrögðum en kristinni trú. Ekki hvað síst er það íslamstrú sem fordómarnir beinast að og er þá bent á árásirnar á Tvíburaturnana í New York og ýmis önnur hermdarverk sem íslamistar hafa gert sig seka um. Þessi verk minnihluta íslamista eru síðan heimfært upp á trúarbrögðin í heild sem er auðvitað hrein firra.

Kristnir menn eru engan veginn með hreinan skjöld frekar en íslamistar en það væri hrein firra að það sé heimfært upp a trúarbrögðin í heild. Ég ætla að nefna aðeins eitt dæmi. Árið 1982 voru framin í Líbanon, í flóttamannabúðunum Shabra og Shatila einhver hryllilegust fjöldamorð á síðari tímum og þar voru að verki kristnir falangistar, Líbanar. Ekki voru þeir einir að verki því Ísraelski herinn sat um búðirnar til að enginn slyppi burt. Þegar þetta gerðist voru nær allir karlmenn í búðunum flúnir til Túnis svo fórnarlömbin voru konur, börn og gamalmenni. Þarna gengu kristnir men fram af ótrúlegri grimmd, fyrst með nauðgunum og síðan allsherjar slátrun.

Eigum við að fordæma kristna trú vegna þessara og annarra álíka voðaverka sem kristnir menn hafa á samviskunni?

Að sjálfsögðu ekki.

Nú er mikið deilt um áhrif kristinnar kirkju og presta hennar í skólum landsins allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla. Þessi þungu áhrif prestanna koma mér talsvert á óvart því þetta þekktist ekki í mínu ungdæmi, en það er æði langt síðan ég var ungur. Þessi áhrif hafa greinilega verið að aukast jafnt og þétt á liðnum árum.

Mín afstaða er afdráttarlaus:

Við eigum að aðskilja Ríkið og Þjóðkirkjuna algerlega.

Engin kirkjudeild á að hafa aðgang að óbörnuðum börnum og ungmennum innar skólaveggja.

Við eigum, sem hluta af sögukennslu, að fræða um trúarbrögð og þá öll trúarbrögð.

Hver trúarbrögð og sá söfnuður sem þau reka, á að starfa innan sinna kirkna og safnaða, þeir sem þangað vilja sækja styrk og trú á að vera það að öllu frjálst.

Ríkisvaldið á að styðja trúarsöfnuði hvaða trú sem þeir boða. Það er greinilegt að mikill meirihluti þjóðarinnar er trúaður á einhvern hátt.

Þarna á að vera fullkominn jöfnuður og það eru alls engin rök að einhver trúarbrögð hafi meira fylgi en önnur, algjört jafnræði skal ríkja.

En aftur að Þjóðkirkjunni. Ég er undrandi á hvað þeir sem mæla fyrir munn hennar eru harðir á því að þessi kirkjudeild verði að vera undir sérstakri vernd ríkisins, að prestar hennar megi þröngva sér inn í skóla landsins  til að þeir, þó ekki sé nema með nærveru sinni, klæðnaði og atferli, geti haft áhrif á óharðnaðar  sálir sem eiga tvímælalaust rétt til að verði ekki fyrir slíkri innrætingu. Þarna finnst mér birtast ótrúleg minnimáttatkennd og vantrú á boðskap og stafi núverandi Þjóðkirkju. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ekkert mundi efla meir hina evangelísku lútersku kirkju en að losa hana úr hinu langa faðmlagi við ríkið og að hún hætti því að efna til ófriðar við svo marga þegna þessa lands.

Er ekki friðarboðskapur (ef við sleppum Gamla testamentinu) kjarninn í boðskap  kristinnar trúar?


Þjóðir heimsins munu leyfa Ísraelsmönnum að kæfa endanlega Palestínumenn og stela því litla landi sem þeir eiga eftir

Enn eru sýndarmennskusamningar settir á svið milli Ísraelsmann og Palestínumanna. Þeir munu fara eins og allir aðrir slíkir fundir út um þúfur. Barak Obama bandríkjaforseti hefur í þessu máli minna vald en margir hyggja, þrýstihópar Ísraels eru miklu sterkari en forsetaembættið.

Bloggari einn sem er þrennt að eigin sögn; kristinn, zíónisti,og sjálfstæðismaður. Þetta er blanda sem margir burðast með og hann vitnaði um ást sína á Ísrael og öllum þeirra gjörðum.Líklega einn af bókstafstrúarmönnunum sem lifir og hrærist í öllum þeim viðbjóði sem Gamla testamentið sýnir á síðum sínum. 

Ég setti inn hjá honum stutta athugasemd, læt hana fylgja með:

Voru það ekki Gyðingar sem krossfestu Jesú? Ekki veit ég hvaðan dálæti kristinna manna á Ísraelsríki kemur, ríki sem að mörgu leyti hefur tileinkað sér starfshætti þeirra sem píndu Gyðinga hvað mest, nasistanna í Þýskalandi undir forystu Hitlers.

Gyðingar eru trúflokkur, tæplega þjóðflokkur, þeir búa nánast hvarvetna um heiminn og úr Þeirra hópi hefur komið margt úrvalsfólk. Ísrael hefur engan rétt til að vera í forsvari fyrir alla Gyðinga. Í mínum augum er mikill skyldleik með zíonisma og nasisma, stefnan er "lífsrými", sjálfsagt að ráðast gegn Pólverjum og Tékkum og stela landi þeirra, það gerðu nasistar, settu upp útrýmingarbúðir fyrir Gyðinga af því þeir voru álitnir óæðri þjóðflokkur. Sama gera Ísraelsmenn í Ísrael. Nær öllu landi sem Ísrael hefur komist yfir í dag hafa þeir stolið frá Palestínumönnum, sem að þeirra áliti er óæðri kynstofn.

Það er margt líkt með skyldum, nasistum og zíónistum.

 


Hvað þarf að brenna margar Biblíur til að mótmæla eða bæta fyrir glæpi og hryðjuverk kristinna manna?

Kolruglaður preláti í Florida vestra, sem stýrir 50 manna söfnuði, hefur sett heiminn á annan með hótun um að brenna slatta af Kóraninum, hinni helgu bók íslam. Sá hinn sami klerkur ætti að líta sér nær og hugleiða hve margar Biblíur, helga bók kristinna, þyrfti að brenna til að mótmæla framferði kristinna manna frá þeim tíma að kristin trú var fundin upp eða í nálægt 2000 ár. Þar á ég ekki við afbrot kristinnar kirkju, það er sérkapítuli, heldur verk kristinna manna sem vissulega höfðu oft presta með í för til að réttlæta verk sín.

Nýjasta dæmið er Íraksstríðið, einhver versti glæpur kristinna manna, Bush og Blair, á síðari tímum. Íraksstríðið var háð undir merkjum þess að koma þyrfti fyrir kattarnef Saddam Hussein einvaldi í Írak sem hafði vissulega marga glæpi á samviskunni. Ástæðan var sú uppgefin að finna þyrfti eiturvopn sem Saddam lumaði á en sem Bandaríkin höfðu á sínum tíma gefið honum, ætluð til að drepa Írani sem höfðu unnið sér það til óhelgi að koma frá völdum gjörspilltum keisara. Írak var á þeim tíma það ríki í Arabaheiminum þar sem lífskjör voru hvað best, menntun góð og kvenfrelsi á mun hærra stigi en í öðrum Arabalöndum. Í dag er Írak rjúkandi rúst, að sumu leyti er búið að skjóta landinu aftur á steinöld, lífskjör skelfileg, mannréttindi lakari en nokkurn tíma undir Saddam.

En Saddam var búinn með öll eiturvopnin sem Bandaríkin gáfu honum svo ástæðan gufaði upp en það skipti ekki svo miklu máli; Bush var alveg sama, hans raunverulega ástæða var að komast yfir olíulindir Íraks auk þess að sýna sinn sjúka hug, hann kallaði sjálfan sig stoltur "stríðsforseta".

Og dindillinn Tony Blair elti hann eins og tryggur smalahundur húsbónda sinn. 

Líklega eru ekki margir sem gera sér grein fyrir að mikið af erfiðleikum hinna ríku vesturlanda í dag eru "timburmenn" nýlendustefnunnar sem flestir hyggja að sé löngu liðin. En svo er aldeilis ekki, nýlendustefnan lifir sínu lífi og er nú að koma þessum dólgslegu hvítu kristnu drottnurum í koll. Á 18. og 19. öld og fram eftir þeirri 20. fóru hvítir kristnir vesturlandamenn eins og stormsveipur  yfir Afríku, Suður-Ameríku og stóran hluta Asíu, deildu þar og drottnuðu, frömdu hvarvetna skelfilega glæpi. Bandríkjamenn höfðu samið viðauka við Biblíuna. Þar var voru svartir menn skilgreindir sem "ekkimenn" sem heimilt var að taka, setja í hlekki og flytja nauðuga til Bandaríkjanna og gera þá að þrælum. Þetta var reyndar í samræmi við Biblína, það stendur í boðorðunum tíu að mann skuli ekki girnast "þræl eða ambátt" nágrannans, skýrar verður það varla að þrælahald er vel séð í Biblíunni

Hvíti maðurinn kristni strádrap frumbyggja gervallrar Ameríku og Ástralíu, allt var þetta gert í nafni Jesú Krists.

Já, það þyrfti dálaglegan stafla af Biblíum til brennslu ef það getur á einhvern hátt bætt fyrir glæpi og hryðjuverk hvítra kristinna manna.  


Örn Bárður Jónsson prestur fer með rangt mál úr prdikunarstóli

Nú eru menn að reyna að ná vopnum sínum í Þjóðkirkjunni til að verja hana og réttlæta. Mér brá sannarlega þegar Örn Bárður prestur í Nessókn í Reykjavík birtist á Sjónvarpsskjá og hikaði ekki við að fara með rangt mál í sunnudagspredikun sinni. Örn Bárður hélt því blákalt fram að fjölmiðlar hefðu rekið áróður fyir því að fólk segði sig úr Þjókirkjunni. Ég fylgist nokkuð vel með fjölmiðlum og ég hef ekki orðið var við slíkan áróður í nokkrum fjölmiðli. Hins vegar hafa einstaklingar birt greinar í prentmiðlum og á blogginu þar sem skorað hefur verið á fólk að segja sig úr þjóðkirkjunni eða krafist aðskilnaðar Ríkis og Þjóðkirkju. Það er ekki hægt að halda því fram með rökum að þetta sé á ábyrgð viðkomandi fjölmiðla. Slíkar greinar eða bloggpistlar eru ekki á ábyrgð neins nema höfundanna sem birta skoðanir sínar. Er það krafa Arnar Bárðar að upp verði tekin ritskoðun og öllum sem blaka við þjóðkirkjunni meinaður aðgangur að fjölmiðlum? Er það sæmandi presti að fara með rangt mál af predikunarstóli?

Ég svaraði Þórhalli Heimissyni presti, sem ég ber virðingu fyrir, en því ekki að birta það beint á mínu bloggi?

Þú kemur mér á óvart Þórhallur með hvað þú ert afdráttarlaus í þínu máli eins og fyrirsögnin að þínum pistli ber vott um, að þessu finnst mér vera fengur að prestur fer ekki í felur. Svo þú vitir hvar ég stend þá sagði ég mig úr Þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að öll trúarbrögð eru hjóm og hismi og voru fundin upp til að sefja lýðinn og ég er ekki hissa á að fólk í gegnum skelfingar fyrri alda þyrftu á einhverju að halda til að geta lifað af daglegar hörmungar.

Ég  var viðstaddur nafngjöf og skírn yndislegs drengs í dag, móðirin er stjúpdóttir míns elsta sonar. Presturinn fór með trúarjátninguna sem ég hef oft heyrt, en samt brá mér. Í henni lýsa menn yfir trú á guð, hans son Jesú og heilagan anda. Lengi hélt ég að kristin trú væri eingyðistrú, guðinn væri aðeins einn en þarna kemur fram að í kristinni trú eru þeir þeir þrír. Og ekki nóg með að kristnir menn eigi að trúa á þrjá guði heldur heyrði ég í fyrsta skipti, eða tók eftir, i að við eigum að trúa á þann fjórða.

Og hver skyldi það vera?

Jú, kristnir men eiga að trúa á heilaga kristna kirkju auk þessara þriggja guða.

Sem sagt, við eigum að lýsa því yfir að stofnun sú er hin látni brotlegi biskup, Ólafur Skúlason, var biskup yfir sé guðs ígildi og þar með fjórði guð kristinna manna.

Þórhallur, mér finnst margt af því sem þú ert að gera lofsvert, það gætirðu gert hvort sem þú ert prestur kristins safnaðar eða ekki.

En nú ætla ég að leggja fyrir þig samviskuspurningu sem ég á enga heimtingu á að þú svarir, kannski eru aðrir ábyrgari fyrir svarinu.

Við höfum í þjóðfélaginu gífurlega sterkt afl sem heitir Frímúrarareglan. Er það ekki nánast víst að allir þeir sem studdu Óaf Skúlason og reyndu að hylma yfir hans lífernu, meira að segja áður en hann var kjörinn biskup, sé samsvarin klíka í Frímúrarareglunni? Er Hjálmar Jónson dómkirkjuprestur í reglunni, er Pálmi Matthíasson í reglunni, er Vigfús Þór í reglunni og síðast er ekki síst; er núverandi biskup Karl Sigurbjörnsson í reglunni?

Mér finnst ekki úr vegi að þeir sem ég hef nefnt að framan svari undanbragðalaust.


Nátttröllið glottir

Það er langt síðan ég fór að líta á Lútersku þjóðkirkjuna sem Nátttröll í íslensku þjóðfélagi. Ég sagði mig úr henni af því að ég er algjörlega andvígur því að hér séu þjóðnýtt trúarbrögð sem ALLIR eru skráðir inn í við fæðingu  og einnig að ég er algjör guðleysingi, trúi ekki á þessa þrjá guði kristinnar trúar, Guð, Jésú og heilagan anda. Ég tel sjálfsagt að hver og einn fái að velja sín trúarbrögð eða trúleysi og ég held að það sé ekki hjá því komist að ríkið styrki trúfélög að einhverju leyti. En þá veður það að vera á algjörum jafnréttisgrundvelli. Þess vegna er þessi gamli arfur, Nátttröllið Þjóðkirkjan með öllu óþolandi, þetta er arfur frá fyrri öldum þegar Kristnar kirkjur, fyrst kaþólska kirkjan og eftir "siðaskiptin" lúterska kirkjan höfðu ótrúleg völd hérlendis og víðar og sópuðu til sín löndum og lausum aurum með glæpsamlegri starfsemi, því verður ekki neitað með rökum.

Nú stöndum við frammi fyrir því að biskup lúterskra hérlendis, sem er látinn, er uppvís að því að hafa verið barnaníðingur og ofbeldismaður gagnvart konum. Sú skelfilega vitneskja að þegar hann var hafinn á æðsta stall Þjóðkirkjunnar vissu margir innan stofnunarinnar, Nátttröllsins, hvað mann þessi einstaklingur hafði geyma; samt var hann kjörinn biskup.

Einn af þeim sem brá skildi fyrir hinn brotlega prest sem var kjörinn biskup var arftaki hans, Karl Sigurbjörnsson, sem nú ber titilinn "Biskup Íslands" minna má það ekki vera. Ef þetta Nátttröll, Íslenska þjóðkirkjan væri ekki á sérstöku framfæri ríkisins og þjóðarinnar allrar, stæði sjálf undir framfærslu sinni, mundi ég ekki skipta mér af því hvaða misheppnaðir einstaklingar stýrðu Nátttröllinu. En ég fæ ekki séð hvernig Karl Sigurbjörnsson, sem er í rauninni ríkistarfsmaður, ætlar að sitja áfram í þessu embætti með þessum mikilúðlega titli.

Hann er rúinn trausti og ætti að segja af sér á stundinni.

Eitt af því sem væntanlegt Stjórnlagaþing þarf að taka á er að skafa burt allt sem  stendur í núverandi Stjórnarskrá um Íslenska þjóðkirkju, það er eitt af mörgum málum sem hreinsa þarf út.

Burt með þjóðnýtt trúarbrögð á Íslandi, burt með trúarstofnun sem allir Íslendingar eru sjálfkrafa skráðir inn í við fæðingu og eiga þaðan tæpast útgönguleið.

Ef menn segja að útgönguleiðirnar séu greiðar ættu þeir fyrst að minnast frelsishetjunnar Helga Hóseassonar!


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband