Færsluflokkur: Menntun og skóli
7.11.2012 | 17:23
Hún verslaði sér nærbrækur
Fyrir nokkru hlustaði ég á unga konu, að ég held á Rás 2, sem þar var kynnt sem pistlahöfundur sem mundi flytja reglulega pistla í útvarpið.
Vissulega var konan lífleg og flutti sinn pistil vel, en þar lagði hún út af eigin nærbrókum eða öllu heldur; skorti á þeim nauðsynlegu flíkum.
Pistilinn endaði hún á því að segja að þessum skorti yrði hún að útrýma.
Og hvað gerði hún?
Hún fór í búð og verslaði sér nærbrækur.
Er nokkuð við þetta að athuga, verður ekki hver að bjarga sér? Að sjálfsögðu, en þessi eflaust ágæti pistlahöfundur er greinilega sýktur af þeim sem ráða málþróun hér á landi því fyrir aðeins nokkrum árum hefði hún eflaust sagt að hún hefði keypt sér nærbrækur.
Sama heyrðist frá bóndanum sem kynnti nýtt greiðslukort, sem mig minnir að heiti fjárkort eða eitthvað álíka. Kostirnir við þetta nýja kort voru margir t. d. auðveldar það handhöfum þess að versla sér hótel þegar farið er í ferðalag að sögn bóndans.
Ætlar maðurinn virkilega að fá sér heilt hótel til að dvelja í nokkrar nætur?
Örugglega ekki; hann ætlaði að kaupa sér gistingu, nema hvað.
Á örstuttum tíma er búið að útrýma öllu vinsælu fólki hér á landi en það er ekki hægt að þverfóta fyrir ástsælu fólki. Nú má heyra bílainnflytjendur auglýsa ástsæla bíla svo til að verða ástsæll þarf ekki að vera persóna með sláandi hjarta og sjálfstæða hugsun í kolli.
Ég man vel eftir því þegar ég fór í það mikla ævintýri að fara til útlanda í fyrsta sinni.
En nú fer enginn til útlanda þó það sé miklu auðveldara og ódýrara en fyrir meira en hálfri öld.
Eru þá allir hættir að ferðast?
Ekki aldeilis. En nú fer fólk í stórum hópum erlendis, það dvelur erlendis og flestir koma aftur erlendis frá.
Eitt orð virðist ómissandi í alla texta. Það er þetta hvimleiða orð staðsett.
Ég ætla að biðja lesendur sem rekast á þetta innskotsorð næst í texta að strika yfir það og lesa textann án þess. Er það ekki til bóta?
Hverjir ráða þróun íslensks máls nú?
Fjölmiðlafólk og textasmiðir auglýsinga, þarna eru þeir sem ráða ferðinni. Kemur þeim aldrei til hugar að nota sjálfstæða hugsun eða finnst þeim þægilegra að fljóta með straumnum?
Höfundur er vatnsvirkjameistari & orkuráðgjafi, búsettur í Þorlákshöfn
11.11.2010 | 11:43
Zapatero áminnti Benedikt páfa
Benedikt páfi var í heimsókn í því rammkaþólska landi Spáni. Páfi hafði margt að athuga við ýmislegt sem þarlend stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd svo sem að auka réttindi samkynhneigðra, leyfa getnaðarvarnir og jafnvel fóstureyðingar. En eins og allir vita er þetta allt eitur í beinum kaþólskra ráðamanna með páfann í broddi fylkingar. Þegar þeir kvöddust Zapatero forsætisráðherra og Benedikt páfi gaf Zapatero páfanum áminningu, minnti hann á að Spánn væri veraldlegt ríki þar sem engin trúarstofnun væri beinlínis rekin af ríkinu og trúfrelsi væri ríkjandi á Spáni. Undanfarið hafa allmiklar deilur spunnist um það hvað áhrif Þjóðkirkjan á að hafa í skólum landsins. Svolítið kómísk deila því þar eru margir sem vilja umfram allt halda þeim áhrifum sem Þjóðkirkjan hefur en hafa áður látið vel í sér heyra með hneykslun á múslímum sem víða haf sótt fast á að gera stjórnsýslu ríkja og trúarreglur múslíma eitt og það sama.
En svo vil ég nota þetta tækifæri á að undirstrika að önnur mál eru mikilvægari á Stjórnlagaþingi að mínu áliti en aðskilnaður Ríkis og Þjóðkirkju.
2.11.2010 | 17:39
Ánægjuleg og fróðleg heimsókn í Háskólann í Reykjavík
Það fyrsta sem mætir manni við komuna í ný húsakynni Háskólans í Reykjavík er gott skipulag bygginganna, ég tala um þau í fleirtölu því þannig er skólinn uppbyggður, sjálfstæðar álmur út frá sterkri miðju, Sólinni.
Ég fór í heimsókn í HR laugard. 31. okt sl. með því gamla fornfræga félagi, Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík. Þar tók á móti okkur Gunnar Guðni Tómasson sem ég held að ég megi titla sem deildarstjóra tækni- og raungreina ásamt meðkennara sínum. Það kom ýmislegt á óvart. Háskólinn Í Reykjavík er í rauninni afsprengi Verslunarskólans og þar mætti einnig nefna Viðskiptaráð sem er kannski ekki í dag uppáhald allra. Ég hef alltaf litið á HR fyrst og fremst sem háskóla sem sinnir viðskiptalífinu, ég hélt áður en ég kom í þessa heimsókn að þar væru einkum menntaðir viðskiptafræðingar, endurskoðendur og hagfræðingar. En þarna kom annað í ljós og kannski hefði ég átt að muna eftir því að ein af undurstöðunum, sem skólinn byggði strax á við stofnun, var þáverandi Tækniskóli.
En hvað kom mest á óvart?
Að öflugasta deild skólans er tækni- og raungreinadeild og þar er boðið nám sem aldraður maður kynnti sér opinmynntur, aldraður maður sem reyndi að finna sér frekara nám fyrir meira en hálfri öld eftir sveinspróf í pípulögnum en það var ekkert slíkt nám í boði á Íslandi þá.
Ég sannfærðist um það að enginn háskóli á Íslandi leggur jafn ríka áherslu á tækni- og raungreinar og Háskólinn í Reykjavík. Ég nefni fyrst Iðnfræðimenntun og að sjálfsögðu varð aldinn pípulagningamaður með 52 áragamalt sveinspróf stoltur og glaður þegar í ljós kom að HR gefur engan afslátt frá því að þeir sem hefja iðnfræðinám séu með sveinspróf í fögum sem eru undirstöður þeirrar menntunar. Þó varð ég fyrst undrandi þegar Gunnar Guðni kynnti okkur of sýndi tæknibúnað skólans, vinnustofur þar sem nemendur geta sannreynt það sem hugir þeirra hafa skapað og er tilbúið á skjánum. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt því það þekkja flestir að góð hugmynd eða hönnun fær ekki eldskírn sína fyrr en hún er fullsköpuð og vinnsluhæf.
En svo kom gamla íslenska áráttan í ljós þegar okkur var kynntur þessi alltumlykjandi niðurskurður sem er afleiðingin af gersamlega brjáluðu ástandi sem kollvelti fjármálum þjóðarinnar á haustdögum 2008. Það verða víst fáar stofnanir eða skólar sem ekki verða að taka á sig skerðingu. En Háskólanum í Reykjavík er skammtaður niðurskurðurinn, hann kemur ekki í einni og sömu skál heldur er rækilega búið að skammta í askana af stjórnvöldum.
Og úr hvaða aski skyldi mest vera tekið, svo mikið að það glittir í botn?
Gamla áráttan að taka mest af tækni- og raungreinum, þessum myndarlegasta vaxtasprota Háskólans í Reykjavík.
Ég er hér með þessum pistli mínum að halda áfram umfjöllun minni um auðlindir Íslands. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ein helsta auðlindin er hugarorkan, hana verðum við að rækta. Við höfum orðið fyrir miklu áfalli af völdum þeirra sem menntuðu sig og tóku sæti við, að þeir héldu, við allsnægtaborð fjármagnsins, fjármagnið skyldi öllu bjarga. Er það ekki þversögn að hlífa þeim greinum sem framleiddu því miður flesta af mestu óþurftarmönnum sem uppi hafa verið á Íslandi frá Sturlungaöld? Hvers vegna í ósköpunum koma stjórnvöld ekki auga á að vaxtarsproti okkar í framtíðinni er ekki síst í tækni- og raungreinum.
Í gærkvöldi var viðtal í Sjónvarpinu við framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Marorka.
Hver eru helstu vandamál Marorki?
Skortur á starfsmönnum, rímar það við að engir vilji fjölga starfsmönnum, allt sé í doða?
Nei. engan veginn. En eru stjórnvöld ekki að raða vitlaust í askana, eru það ekki einmitt starfskraftar þeirra sem afla sér menntunar í raungreinum sem sjáanlega er skortur á í dag?
Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að við höfum mikla þörf fyrir hugverkahópinn og vissulega var það litill minnihluti úr þeim hópi sem reyndist rotin epli. En við höfum menntað mikinn fjölda t. d. viðskiptafræðinga sem eru að vinna mörg nytsamleg verk. En vorum við ekki farin að mennta of marga í hugverkagreinum? Er ekki kominn tími til að við skiljum þörfina fyrir tækni- og raungreinafólkið. er ekki í þeim falin ein af okkar auðlindum?
Ég ætla að vona að við lokafrágang Fjárlaga nái sá skilningur inn hjá Alþingi og stjórnvöldum að í tækni- og raungreinamenntun liggur einn okkar öflugasti sproti í baráttunni við að komast upp úr dýinu sem við mörrum í eftir Hrunið mikla.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.10.2010 | 16:32
Hvað vakir fyir þingmönnum, sem fljótlega eftir að Stjórnlagaþing var ákveðið, fóru að koma fram með tillögur sem varða stjórnarskrána?
Mér finnst þetta nokkuð sláandi. Alþingi, sem hefur ekki getað endurskoðað Stjórnarskrána i heild frá lýðveldisstofnun er nú farið að vasast í breytingum á stjórnarskrártengdum málum. Það er vitað að aðgreining þriggja þátta stjórnkerfisins verður eitt mikilvægasta verkefni Stjórnlagaþings. Samt eru þingmenn að koma fram með tillögur um að þingmenn segi af sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar, landið verði gert að einu kjördæmi og núna síðast að setja einhverskonar reglur um persónukjör.
Ættu ekki Alþingismenn að sýna verðandi Stjórnlagaþingi þá virðingu og það traust að slík mál verði þar tekin föstum tökum og verði í þeirri heildarendurskoðun Stjórnarskrárinnar sem að er stefnt?
9.10.2010 | 10:13
Hvimleið ónákvæmni í fjölmiðlum og ekki síður dapurleg málþróun
Til hamingju með afmælið á morgun þríburar á Brjánslæk. Ég var að lesa um ykkur í Fréttablaðinu í morgun og þá kom enn einu sinni í ljós léleg landafæðikunnátta fréttamanns, eða var það bara flumbrugangur? Þríburarnir voru sagðir eiga heima á Brjánslæk, reyndar á Brjánslæk við Patreksfjörð. Ég fór að kanna í eigin huga hvort einhver bær með því nafni sé við Patreksfjörð en þegar ég sá að þríburarnir sækja skóla að Birkimel þá fór ekki á milli mála að þeir eiga heima á Brjánslæk á Barðaströnd við Breiðafjörð.
Hvernig væri nú fjölmiðlamenn góðir að vanda sig svolítið betur?
Þó ég væri ekki að leggja náið við hlustir þá heyrði ég að í útvarpinu á Rás 1 var einhver umræða um Snæfellsnes. Þar var sagt að á nesinu væru þrír þéttbýliskjarnar (5 atkvæði). Hvers á hið gamla stutta og snjalla orð ÞORP (1 atkvæði) að gjalda? Ég á heima í Sveitarfélaginu Ölfusi og til nánari skýringar í þorpinu Þorlákshöfn.
22.6.2010 | 11:57
Dapurlegt að sjá hvernig Háskóli Íslands sinnir um Herdísarvík
Eitt sinn var Selvogur einhver afskekktasta byggð á suðvesturlandi. Það mun breytast mikið þegar Suðurstrandarvegur verður endanlega opnaður fyrir umferð. Sl. sunnudag buðu vinir okkar hér í Þorlákshöfn okkur hjónum til kynningarferðar í Selvog þar sem leiðsögumaðurinn var borinn og barnfæddur í Selvogi. Þar eru fjölmargar minjar, rústir af sjóbúðum sem sumar hverjar hafa síðan verið nýttar sem gripahús. Við fórum alla leið til Herdísarvíkur þar sem þjóðskáldið Einar Benediktsson lifði sín síðustu ár við umhyggju og atlæti kjarnakonunnar Hlínar. Eftir dauða Einars bjó Hlín nokkurn tíma áfram í Herdísarvík en er ánafnaði Háskóla Íslands Herdísarvík, jörð og hús.
Það er dapurlegt að koma til Herdísarvíkur og sú spurning hlýtur að vakna hvort Háskóli Íslands hafi engan metnað til að heiðra minningu Einars þjóðskálds og ekki síður Hlínar, konunnar sem gerði síðustu ár þjóðskáldsins þolanleg. Ekkert er hirt um umhverfið, byrjað hefur verið á smíði palls við suðuhlið hússins en því ekki lokið og greinilegt að á viðinn hefur ekki verið borið í langan tíma. Augljóst er að langt er síðan að borið hefur verið á timburklæðningu hússins og ryð er komið í vatnsbretti. Ekki er vafi á því að margir vilja líta við í Herdísarvík framvegis þegar Suðurstrandarvegur verður nýr "gullinn hringur" þarna opnast ný sýn fyrir íslenska jafnt sem útlenda ferðamenn.
Nú er annaðhvort fyrir Háskóla Íslands að gera; hysja upp um sig brækurnar og bjarga staðnum áður en hann grotnar niður endanlega eða koma staðnum og húsinu i eigu og umsjá einhvers sem hefur þann metnað að taka þar til hendi og skapa staðnum nýjan tilgang.
Örfá atriði í þetta skipti.
Það eru allir að berjast fyrir "að fjölga atvinnutækifærum". Í mínu ungdæmi gerðu menn sitt besta til "að auka atvinnu". Þetta sýnir í hnotskurn hvernig hugtök eru sett fram á nýjan hátt með fjölgun atkvæða. Í fyrra tilfellinu eru atkvæðin 10 en í því seinna 6. Þetta sýnir okkar málþróun. Þar fyrir utan er áferð setninganna þeirri fyrri í óhag finnst mér, en eru það kannski elliglöp?
Enn bendi ég þeim sem skrifa texta á, hvort sem það er á blogginu eða í öðrum fjölmiðlum, hve orðið "staðsett" er ofnotað og það spillir næstum alltaf textanum. Reynið næst að lesa yfir textann ykkar og athugið hvort orðið "staðsettur" kemur þar fyrir. Fellið "staðsettur" brott. Ég er ekki í nokkrum vafa að allir munu sjá að það er nær alltaf til bóta.
Ekki má gleyma garminum honum Katli. Íþróttafréttamenn segja gjarnan að "báðir" hafi skorað fimm mörk. Eftir mínum skilningi þá hefur hvor leikmaður skorað tvö og hálft mark, ekki satt.? Eða eiga bögubósarnir við að "hvor"leikmaður hafi skorað 5 mörk?
29.4.2010 | 11:27
Smákóngaárátta er undirrótin að baráttunni gegn Iðnaðarmálagjaldinu
Maður er nefndur Vörður og er húsasmíðameistari. Hann hafði sigur gegn Iðnaðarmálagjaldinu fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Ætla mætti að þar færi maður mikilla hugsjóna en sagan er reyndar allt önnur. Samtök iðnaðarins, sem hafa tekið við þessu gjaldi og ráðstafað því til góðra verka, eru samtök flestra þeirra sem reka iðnfyrirtæki þar á meðal flestra meistarafélaga í iðnaði, flestra félaga í byggingariðnaði. Gjaldinu hefur verið varið til uppbyggingar menntunar í iðnaði. Ég er hér fyrir framan mig 6 binda flokk kennslubóka fyrir pípulagnanema sem sækja sína bóklegu menntun í Fjölbrautar- og iðnskóla. Þetta er flokkur kennslubóka, sem ég hafði forgöngu um að var saminn og gefinn út á þeim árum sem ég var starfandi með Samtökum iðnaðarins. Þessi bókaflokkur var að mestu kostaður af þeim fjármunum sem fékkst með Iðnaðarmálagjaldinu, auk þessa fjölmörg önnur framfaramál iðnaðarins í landinu.
En það eru til smákóngar sem ekki vilja styðja heildina og þar eru fremstir forystumenn Meistarafélags húsasmiða, Meistarafélags dúklagningamann og Félag pípulagningameistara. Þeir vilja ekki skipa sér í megin afl sem Samtök iðnaðarins enda augljóst að þar kæmust þeir ekki til fremstu mannaforráða vegna eigin verðleika, þess vegna er betra að hokra í kotinu heldur en eiga heimilisfesti á höfuðbólinu.
En þessir hokrarar sáu ofsjónum yfir Iðnaðarmálagjaldinu sem þeir eins og aðrir iðnrekendur þurftu að borga. Þeir hófu baráttu, ekki að leggja gjaldið niður heldur að þeir fengju hluta af kökunni. Sú barátta stóð lengi en löggjafinn taldi að gjaldið kæmi flestum að bestum notum ef einn, í þessu tilfelli Samtök iðnaðarins, sæju um vörslu þess og ráðstöfun.
Þá gáfust kotbændur upp en hófu nýja baráttu. Fyrst þeir fengju ekkert í sinn vasa skyldi enginn fá neitt. Þannig var stefnunni kúvent og nú hófst mikill málarekstur fyrir Héraðsdómi fyrst og síðan Hæstarétti. Á báðum dómstigum töpuðu kotbændur. Þá var stefnt fyrir Mannréttindadómstólinn þar sem þeir höfði sigur. Ekki að skatturinn væri ólöglegur heldur að eitt hagsmunafélag, Samtök iðnaðarins, fengi hann til umráða og ráðstafaði honum. Ef þessum skatti sem var ráðstafað til eflingar iðnaði í landinu, fyrst og fremst til menntunar og í önnur mikilvæg málefni iðnaðar, og það hefði verið óháður aðili sem hefði stýrt því hefði gjaldið ekki verið dæmt stangast á við mannréttindi.
Það er skaði fyrir allan iðnað á Íslandi að þessi skattstofn og tekjustofn fyrir menntun og þróun iðnaðar skuli þar með verða afnuminn. Mér finnst rétt að sagan komi fram eins og hún er rétt, þeir sem þarna unnu að málum eru ekki réttlætismenn sem höfðu sigur heldur litlir kallar sem af öfundsýki og lítilmennsku börðust fyrir því að skaða íslenskan iðnað og höfðu sigur, því miður.
En það eru fjölmörg önnur samtök á Íslandi sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Bændasamtökin og Félag smábátaeigenda. Þess vegna er ég undrandi á því sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir (sé það rétt eftir haft) að þó Iðnaðarmálagjaldið verði afnumið verði ekki hreyft við annarri skattheimtu á ýmsar atvinnugreinar þar sem skattheimtan rennur til hagsmunasamtaka.
Nú er um tvennt að velja fyrir stjórnvöld:
1. Afnema iðnaðarmálagjaldið og öll önnur hliðstæð gjöld sem í gildi eru hérlendis.
2. Láta öll þessi gjöld standa en færa þau til óháðra aðila sem ráðstafi þeim til eflingar viðkomandi atvinnugrein. Óháðu aðilarnir gætu einfaldlega verið stjórnir sjóða sem myndast af gjaldinu, þessar stjórnir gætu verið skipaðar af ráðherra þó með tilnefningum að hluta frá helstu hagsmunaaðilum. Þetta yrði ekki ólíkt og stjórnir lífeyrissjóða sem vissulega eru ekki góðar fyrirmyndir.
Eitt er víst; við getum ekki hundsað dóm Mannréttindadómstólsins. En við getum samt með breytingum látið þessa gjaldtöku standa. Það er þörf fyrir hana og þetta gjald hefur á undanförnum árum staðið undir kostnaði við mörg framfaramál iðnaðarins. En það eru samtök hér á landi sem beinlínis líta á þetta gjald sem félagsgjald sinna samtaka og það getur ekki staðist. Ég fullyrði að svo er ekki raunin með Iðnaðarmálagjaldið en íslenskur iðnaður má ekki missa þann slagkraft góðra verka sem þetta gjald stendur undir.
Ég vona að "kotbændurnir" hjá húsasmíðameisturum, dúkagningameisturum og pípulagningameisturum verðir ekki hafnir til skýjanna með geislabaug réttlætis um höfuðið. Þeirra gjörð var í upphafi að skara eld að sinni köku en þegar það tókst ekki var kúvent; fyrst þeir fengju ekkert skyldi enginn fá neitt.
22.4.2010 | 09:17
Húsasmiðjan er málsfarssóði eins og fjölmargar aðrar verslanir
Í dag, á sumardaginn fyrsta, er opnuauglýsing frá Húsasmiðjunni í Fréttablaðinu. Rétt hefði verið að skanna fyrirsögnina og birta hana þannig en ég ætla ekki að eyða tíma í það. En fyrirsögnin er þessi:
TAX FREE
sumardaginn fyrsta!
AF REIÐHJÓLUM OG LEIKFÖNGUM
Setningin er ruglingsleg, auk þess hef ég aldrei skilið hve útlendar slettur eru orðnar algengar í auglýsingum verslana að ég ekki tali um málfar fólks í viðtölum í ljósvakamiðlum. Þar sýnist mér að sletturnar versni eftir því sem menntunarstigið er hærra.
Hvað er svona heillandi við að auglýsa TAX FREE, hvers vegna ekki að auglýsa VASK FRÍTT, Það gæti gengið eftir íslenskum málvenjum, styttingin Vaskur af Virðisaukaskattur hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt. Af hverju er svona miklu fínna að auglýsa OUTLET, hvers vegna ekki að nota gamla góða íslenska orðið ÚTSALA.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að málfarssóðarnir eru ekki í verslununum. Þeir eru í auglýsingastofunum. Þar sitja menn og konur sem hafa orðið hjarðmennskunni að bráð, þegar ein beljan mígur verður öllum mál.
En þeir sem auglýsingarnar kosta eiga að vera á verði og gera kröfur um að auglýsingar þeirra séu á góðu og gildu íslensku máli.
27.11.2009 | 16:46
Það er "ástsælt" að fara "erlendis" og "versla" jólagjafir
Ég var að fá póst á netinu frá Olís þar sem ég er einn af lyklabörnunum. Þar er mér boðið að koma í Ellingsen á Granda á morgun og "versla jólagjafir" með 20% afslætti.
Nú er ég svo skrítin skepna að ég "versla" aldrei jólagjafir en það kemur fyrir að ég "kaupi" jólagjafir ef ég á einhverjar krónur í buddunni.
Það eru ekki ýkja mörg ár síðan rætt var um "að það væri vinsælt að fara til útlanda og kaupa jólagjafir".
Nú er ég ekki að reka áróður fyrir svoleiðis flakki. En ég mótmæli þeirri lágkúru sem er orðin svo áberandi hjá tveimur starfsstéttum; fjölmiðlamönnum og ekki síður textahöfundum á auglýsingastofum.
Það er með ólíkindum á hve skömmum tíma þessu fólki tekst að útrýma góðum og gildum orðum í íslensku máli og koma með í staðinn, oft á tíðum, algjör orðskrípi.
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar