Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hvernig á að stöðva heimskulegar ákvarðanir frankvæmdavaldsins sem hafa í för með sér stórskaða og fjárjagslegt tap?

Hefur þetta eitthvað með nýja og endurskoðaða Stjórnarskrá að gera? Vissulega kann svo að vera að einhver verði að vera til í þjóðfélaginu, einhverskonar sía sem stöðvað getur yfirgengilegar heimskulegar fjárveitingar til vonlausra framkvæmda.
Það er ekki ólíklegt að nú segi einhver: Nefndu dæmi máli þínu til stuðnings.
Dæmið er Landeyjahöfn, vonlausustu framkvæmd síðari tíma. Það sem fær mig til að vekja máls á öllum þeim fjármunum sem þar munu sökkva í sandinn er glapræði Ögmundar Jónassonar og dómgreindarleysi að láta þá misvitru verkfræðinga sem hönnuðu þetta vonlausa mannvirki til að fleygja nú 180 milljónum til viðbótar í sandinn, í tóma vitleysu. Þar á að búa til varnargarð úr sandi til að færa árósa Markarfljót 2 km til austur!!!. Þetta er fyrsta vers. Í öðru lagi á að gera samning við dýpkunarfyrirtæki um stöðugan sandmokstur í vetur. Þetta er annað vers. Í þriðja lagi á að smíða sandplóg sem lóðsbáturinn í Vestmanna eyjum á að nota til að drag sand út úr höfninni. Þetta er þriðja vers, allt er þegar þrennt er.
Allt verður þetta unnið fyrir gíg. Það er ekki framburður Markarfljóts sem orsakar sandfyllingu Landeyjahafnar, það er hinn gífurlegi sandburður sem er á stöðugri hreyfingu út af og við ströndina. Skammt fyrir vestan Landeyjahöfn strandaði togarinn Surprise fyrir 40 - 50 árum. Skipið sat þar fast í sandinum og náðist aldrei af strandstað. Í dag sést hvorki tangur né tetur eftir af togaranum, sjórinn er búinn að grafa hann fyrir löngu í sandinn.
Sjórinn mun mjög líklega grafa undan hafnargörðum Landeyjahafnar og færa þá að lokum endanlega í kaf.
Það eina sem nú á að gera af viti er að hafna allri frekari peningasóun í þetta fyrirtæki, ákveða að ekki verði reynt að nota höfnina í vetur og Herjólfur fari sína gömlu leið til Þorlákshafnar. Vistmannaeyingum er ekki bjóðandi upp á þessa hringavitleysu að vita aldrei hvort siglt verður til lands í dag eða ekki.
Það eina rétta hefði verið að kaupa nýjan Herjólf, hraðskreiðari ferju sem hefði siglt á milli Þorlákshafnar og Eyja á innan við 2 klst.
Það er mikil þörf á því að inn í stjórnsýsluna verði settur öryggisventill sem getur komið í veg fyrir að anað sé út í vonlausar framkvæmdir og gífurlegt fjárhagstap.
Ekki ólíklegt að í nýja Stjórnarskrá verði að koma ákvæði um slíka málsmeðferð.

Það getur ekki verið hagkvæmt að reka allan þennan fjölda af lífeyrirsjóðum hér á landi

Ragnar Ingólfsson stjórnarmaður í VR var gestur í Silfri Egils sl. sunnudag. Þar gagnrýndi hann hinn mikla rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna. Ég hef löngum undrast hvaða þörf er fyir allan þennan fjölda. Sumir lífeyrisþegar lífeyrissjóðanna hafa fengið þunga skelli í töpuðum lífeyri vegna rýrnunar hjá nokkrum minni lífeyrissjóðunum, ýmist af röngum fjárfestinga stjórnendanna, en það hefur einnig komið fyrir að þeir sem þá áttu að annast þá hafa látið greipar sópa í sjóðunum og sumir jafnvel síðan hlaupist af landi brott.

En stjórnendur lífeyrissjóðanna eru í algjörri afneitun. Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Sambands lífeyrissjóða, Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ljúka upp einum rómi um að hjá lífeyrisjóðunum sé allt í blóma, hagkvæmni mikil og lágur rekstrarkostnaður. Ég held að það verði ekki hjá því komist að gerð verði úttekt á sjóðunum, þessir forystumenn falla í sama afturhaldpyttinn og LÍÚ, Þjóðkirkjan og Bændasamtökin, það má engu breyta, allt er eins og það á að vera.

En er það svo? Íslenskur hagfræðingur í framhaldsnámi í útlöndum sagði framtíðarhorfur lífeyrissjóðanna mjög dökkar og ekki langt í að þeir getir ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ætla forystumenn lífeyrissjóðanna að hundsa með ölu þessa gagnrýni? Hvað mælir gegn því að á Íslandi starfi einn hagkvæmur lífeyrissjóður og þannig verði sparaðar hundruðir milljarða í rekstrarkostnað?                                                                        


Leiðir út úr skuldavanda fasteignaeigenda sem hafa verið reiknaðar út

Sérfræðinganefndin, sem Ríkisstjórnin skipaði, hefur lokið störfum. Nú þegar eru ýmsir farnir að agnúast út í störf sérfræðinganefndarinnar, en væri ekki rétt að skoða fyrst hvað kom út úr hennar starfi.

Í skýrslunni kemur fram að engin ein leið dugi ein og sér til að fækka heimilum sem eru í greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Leiðirnar eru miskostnaðarsamar og misáhrifaríkar til að hjálpa þeim heimilum sem eru í vanda stödd.



Staða heimilanna

·    Um fjórðungur heimila landsins er ekki með skuldir vegna húsnæðis.

·    Vanskil tekjuhæstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru þrefalt minni í dag en árið 2004. Þetta bendir til þess að þeir sem helst bættu stöðu sína síðastliðin ár standi enn vel og ráði vel við greiðslubyrði lána sinna.

·    Tekjulægstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru færri í vanskilum nú en árið 2004.

·    3.651 manns, eða um 5% lántakenda, eru í þeirri stöðu að þeir eiga ekki fyrir grunnneyslu. Sérfræðingahópurinn telur að þessum hópi verður ekki bjargað með skuldaaðgerðum. Þá reynir á að fjármálastofnanir, ríki og sveitarfélög bjóði upp á húsnæðisúrræði.

·    Þá standa eftir 7.097 heimili sem eru í greiðsluvanda, (sé miðað við neysluviðmið Umboðsmanns skuldara + 50%) eða 10.666 heimili (sé miðað við tvöfalt neysluviðmið UMS).

·    Rúmlega 80% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda keypti fasteign á árunum 2004-2008.

·    Gengisbundin húsnæðislán eru í kringum 117 milljarðar og nema 8,4% af heildar fasteignaskuldum heimila 1. október. Þessi lán munu lækka verði frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengislán að lögum.

Misdýrar og misáhrifaríkar leiðir

·    Hækkun vaxtabóta er sú leið sem skilar mestum árangri miðað við kostnað, sé markmiðið að fækka heimilum sem eru í vanda. Við aðgerðina komast 1.450 heimili úr vanda, eða 20,5% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 1,3 milljón á ári.

·    Dýrustu leiðirnar eru flöt 15,5% niðurfelling skulda og niðurfærsla skulda miðað við upphaflega lánsfjárhæð, ef fækka á heimilum í vanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 12,4 milljónir, ef fara á aðra hvora þessara leiða.

·    Ljóst er að engin ein leið hjálpar öllum. Þær dýrari þýða mikið högg fyrir ríkissjóð og lífeyrissjóðina, sem þarf að fjármagna með hærri sköttum, niðurskurði eða skerðingu lífeyrisbóta. Þær ódýrari gagnast frekar þeim sem minnst hafa milli handanna en skila litlu til þeirra sem hafa séð lán sín hækka, en eru þó ekki í greiðsluvanda.



Athyglisverðar niðurstöður

·    Færri eru í vanskilum við Íbúðalánasjóð nú en voru árið 1997.

·    Heildarskuldbindingar heimila hjá Íbúðalánasjóði eru 579 milljarðar en heildarútlán banka og sparisjóða til fasteignakaupa einstaklinga nema hins vegar 630 milljörðum skv. skýrslu sérfræðingahópsins. Lán lífeyrissjóða beint til fasteignakaupa nema 183 milljörðum.

·    Sérfræðingahópurinn taldi mjög erfitt, ef ekki útilokað, að meta þrjár þeirra leiða sem honum var falið að athuga. Þetta eru svokölluð tveggja þrepa nálgun, „LÍN-leiðin“ og eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi. LÍN-leiðin er talin gagnast tiltölulega fáum og koma lítt til móts við þá sem lakast standa. Sú leið felst í að afborganir verði tekjutengdar.



Sem fyrr segir þá voru 11 mismunandi leiðir til að bregðast við vandanum skoðaðar sérstaklega af hópnum. Þessar leiðir eru;

Sértæk skuldaaðlögun
Flöt lækkun skulda um 15,5%
Niðurfærsla skulda m.v. upphaflega lánsfjárhæð
Lækkun skulda að 110% verðm.eigna
Lækkun skulda að 100% verðm.eigna
Stiglækkandi niðurfærsla skulda að 90% af verðm.eigna
Hækkun vaxtabóta
Lækkun vaxta í 3%
Tveggja þrepa nálgun (sölu-/kaupréttur)
LÍN leiðin
Eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi.
 


Athyglisvert viðtal Þórhalls við Björk í Návígi í gærkvöldi

Ég játa strax; viðtalið kom mér mjög á óvart, jákvætt á óvart. Björk sýndi og sannaði að hún er ekki í hópi glamrara, hún hefur greinilega kynnt sér mál auðlindanna og orkugeirans á Íslandi mjög vel.

Það er vissulega hægt að þrasa endalaust um kaup Magma Energy á hluta af HS-Orku á Suðurnesjum. En þær deilur sem þar hafa risið koma ekki síst af því að við höfum ekki markað okkur stefnu í auðlinda- og orkumálum, það er kjarni málsins. Ég held raunar að við ættum að hætta að þrefa um Magma málið og láta það ná fram að ganga, allt annað er rugl. En sé okkur það ekki að skapi eigum við umfram allt að marka stefnuna til framtíðar það vel að við í framtíðinni verðum að finna okkur annað til að þrasa um. En stefnumörkunin er lífsnauðsyn og þá ákalla ég Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um að ganga hratt til verks, ég trúi henni og treysti til forystu.

Þrennt gladdi mig sérstaklega sem Björk sagði í gær:

Hún benti á það sem og ég hef bent á áður en fengið litla athygli; nýting jarðgufu til orkuframleiðslu er allt annað mál en nýting vatnsafls. Á mínu bloggi er þessi pistill:

Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind

Mér til nokkurrar furðu hef ég lítil viðbrögð fengið. En Björg kom réttilega inn á að við gætur ekki borað að vild og sótt endalaust gufu, jarðhitasvæðin eru viðkvæm en nóg um það; þeir sem ekki hafa lesið þennan pistil minn geta blaðað aftur til 8. okt. og þar er hann.

Í annan stað nefndi hún fiskinn í sjónum sem mér finnst fá allt of litla athygli sem auðlind. Auðlindaumræðan hefur eingöngu snúist um auðlindir á og í  landi, þess vegna verður þessi mikli hvellur út af Magma Energy, allt virðist ætla af göflunum að ganga vegna eignarhalds einkaaðila, ekki á auðlindinni heldur á nýtingu hennar. En þeir sem hæst láta þar virðast eingöngu taka við sér ef útlendingar koma með eignaraðild, en láta sér í léttu rúmi liggja þó íslenskir ríkisborgarar sölsi undir sig auðlindir okkar með dyggum stuðningi stjórnmálaafla. Mér liggur við að bera þetta saman við það að við kipptum okkur ekki upp við það að menn færu um rænandi og ruplandi einungis ef þar færu Íslendingar en legðum allt kapp á að góma slíka kóna ef þeir væru útlendingar.

Í þriðja lagi vil ég nefna þá róttæku hugmynd sem Björk setti fram; að breyta stálgrindaskálunum tveimur, sem búið er að reisa fyrir álver, í ylræktarver. Þarna mætist það sem ég hef lagt áherslu á; að ef við öflum gufu til orkuframleiðslu getum við ekki nýtt hana af viti og framsýni nema láta hana fyrst framleiða rafmagn og þar á eftir heitt vatn eða áframhaldandi sem gufu líkt og gert er á Nesjavöllum, Svartsengi og gert verður í Hellisheiðarvirkjun.

Ég benti á Kröfluvirkjun; hversvegna ekki ylræktarver þar?

 

 


Eru engin takmörg fyrir því hvað djúpt er hægt að sökkva sér í skotgrafirnar á Alþingi?

Ekki man ég eftir kvöldi í langan tíma þar sem svo margar jákvæðar fréttir hafa komið í fjölmiðlum. Þar á ég ekki síst við þau tímamót sem urðu á Suðurnesjum að frumkvæði Ríkisstjórnarinnar, fundi hennar með forystumönnum allra sveitarfélaga á svæðinu. Þetta er vissulega gleðileg tíðindi, þarna taka höndum saman um að efla atvinnu á svæðinu og uppbyggingu Ríkisstjórn, sem talin er vinstri stjórn, og sveitarstjórnir á Suðurnesjum sem að ég held allar teljist til hægri í pólitík.

Ætla mætti að þessu væri tekið fagnandi í stjórnsýslunni, á Alþingi ekki síst.

En það var öðru nær. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson ruku í pontu og rökkuðu allt niður sem fram kom í í þessi samkomulagi  og hæddust að öllu þó flokksbræður þeirra á Suðurnesjum gangi fagnandi til verks. 

Líklegt þykir mér að þarna hafi lágkúran á Alþingi komist neðst í leðjuna.

En hvaða samkomulag var gert á Suðurnesjum í dag, er ekki fróðlegt að líta á það?

Hér á eftir fer listi yfir þau verkefni sem ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í morgun að ráðast í nú þegar:

Forsætisráðherra

1. Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum

Að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra:

1. Flutningur Landhelgisgæslu

Að skoðaðir verði vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti.

Fjármálaráðherra:

1. Gagnaver

Að lagt verði fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt

Að til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingu á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir verði 250 m.kr. veitt aukalega til þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

3. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu (Kadeco og Fjárfestingarsvið Íslandsstofu)

Að hrundið verði af stað kynningar- og markaðsátaki á fasteignum á varnarsvæðinu en Þróunarfélag Keflavíkur á fjölmargar eignir á gamla varnarsvæðinu sem er nauðsynlegt að komist í notkun.

4. Hersetusafn á Suðurnesjum

Að Þróunarfélagi Keflavíkur verði falið að setja á stofn Hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið myndi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimstyrjöld.

Iðnaðarráðherra:

1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum

Að unnið verði með starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum sem iðnaðarráðherra hefur skipað og ný verkefni verði lögð fyrir starfshópinn sem rýnir þau og metur. Jafnframt muni starfshópurinn vinna nýjar tillögur í samstarfi við heimamenn og leggja fyrir ráðherra og stofnanir.

2. Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku

Að stutt verði við verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur verið falið að hefja undirbúning að um klasasamstarf á sviði líforku sem tengist jarðvarmaverum á Reykjanesi.

Félags- og tryggingamálaráðherra

1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta lengt í 4 ár

Að hámarkstímabil greiðslu bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði verði lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur ár.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum – ráðning verkefnisstjóra.

Ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráðinn verði starfsmaður/verkefnisstjóri sem haldi utan formlegt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga á sviði velferðarmála sveitarfélaganna á svæðinu. Verkefnisstjórn skipuð lykilfólki frá sveitarfélögunum og fulltrúum Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Umboðsmanns skuldara myndar samráðshóp sem vinnur með verkefnisstjóranum. Velferðarvaktin verði verkefnisstjórn og verkefnisstjóra til ráðgjafar og haldi utan um verkefnið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar/félags- og tryggingamálaráðherra. Verkefnið er hugsað sem fyrirmyndarverkefni sem önnur svæði gætu síðar ýtt úr vör.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum.

Umboðsmaður skuldara fái aðstöðu á Suðurnesjum og taki þar á móti fólki sem þarf á þjónustu embættisins að halda. Til að byrja með þarf að setja tvo starfsmenn í verkið þar sem nauðungasölur eru hlutfallslega mjög margar á Suðurnesjum m.a. tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra


1. Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

2. Fiskitækniskóli Íslands.

Fisktækniskóla Íslands verði tryggt eitt stöðugildi.

Þetta er það sem þeir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins þeir Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson töldu sig hafa stöðu til að rakka niður og hæðast að. Mér segir svo hugur um að ýmsir flokksfélagar þeirra á Alþingi kunni þeim litlar þakkir fyrir.


Ríkissjóður á hundruðir milljarða króna hjá Lífeyrissjóðum landsins, fé sem þeir geta braskað með að vild

Einn ágætur bloggari, líklega einn af þeim gleggri á tölur og peningagildi, velti upp mörgum hliðum þess að lina skuldabyrði almennings sem er ekki einfalt mál. M. a. kom framhjá honum að niðurfærsla fasteignalána gæti orðið Lífeyrissjóðum landsins þung byrði, svo þung að Ríkissjóður yrði jafnvel að hlaupa undir bagga og veita fé í Lífeyrissjóðina. Hann benti jafnframt á að Ríkissjóður ætti að fá teygjuband á þessi fjárframlög, greiða þau á allt að tíu árum.

En er ekki eitt að gleymast? Í allri skattheimtu er það regla að skatt skal greiða um leið og skattstofn verður til, þannig er það bæði um tekjuskatt og fjármagnsskatt og að ég held um alla aðra skatta. 

Nei, það er ein undantekning. Lífeyrisgreiðslur í Lífeyrissjóði eiga að bera skatt en sá skattur er ekki tekin af stofninum um leið og hann verður til. Sá sem fær greiðsluna til varðveislu og ávöxtunar fær einnig að halda skattgreiðslunum árum saman sér til ábata, líklega geta þessir skattpeningar verið í umferð Lífeyrisjóðanna í ártugi, eru fimmtán tugir ára ekki mögulegir?

Ef svo fer að Lífeyrissjóðirnir standa ekki undir þeim afföllum sem skuldaniðurfelling hefur í för með sér þá þarf Ríkissjóður ekki að leggja þeim til  fjármagn beint. Það gæti hins vegar verið í formi þess að Ríkissjóður gæfi eitthvað eftir af hinni miklu skattaskuld Lífeyrissjóðanna, sá sem á stórfé hjá öðrum aðilum getur tæpast þurft að leggja þeim til fé þó tímabundnir erfiðleikar steðji að.


Palli er ekki einn í heiminum, það ættu stjórnvöld að reyna að skilja

Það hefur vissulega vakið athygli að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram viðamiklar tillögur í efnahags- og skattamálum. Um þessar tillögur tókust þeir á Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Björn Valur Gíslason varaformaður Fjárlaganefndar Alþingis í Kastljósi í gærkvöldi. Mér heyrðist að inntak tillagna Sjálfstæðismanna væri að afturkalla margskonar hækkanir á sköttum, sem Ríkisstjórnin hefur innleitt, draga stórlega úr niðurskurði fjárveitinga. Þetta mundi skapa ný störf, hækka þar með skatttekjur og efla hagvöxt. Gallinn við þetta sýnist mér vera sá að aukning skatttekna vegna fjölgunar starfa gerist ekki samstundis það tæki nokkur ár að skila sér.

En ég komst yfir eintak af Fréttablaðinu í morgun (sem er ekki auðvelt í Þorlákshöfn) og þar með fylgdi sérblað Markaðarins. Ég hef gagnrýnt fjölmiðla hér að framan og raunar haft um ástand íslenskra fjölmiðla orðið að það sé skelfilegt, þar vanti nær alfarið fréttaskýringar sem upplýsi alþýðu á heiðarlegan hátt um gang þjóðmála. En í Markaði Fréttablaðsins er opna þar sem skattabreytingar Ríkistjórnarinnar eru teknar til gegnumlýsingar og sú mynd sem þar er dregin upp er ekki svo jákvæð sem óskandi væri. 

Það er vitað að Ríkissjóður þarf auknar tekjur, um það þarf ekki að deila. Það virðist vera auðvelt að setjast yfir skattalög og segja einfaldlega "þessir geta borgað meira, og þessir og þessir". En þá kemur bakhliðin í ljós og ég rengi ekki vitnisburð manna sem gjörþekkja atvinnurekstur og skattakerfið. Það er grunnhyggni að hækka skatta en gera sér ekki grein fyrir jafnframt hvort þessir skattar skili sér í Ríkiskassann. Þarna er ekki átt við skattaundanskot heldur það sem ætti að liggja í augum uppi; Ísland er ekki eyland í efnahagsmálum og ef við ætlum að reisa landið úr rústunum, sem misvitrir banka- og stjórnmálamenn komu okkur í, þá verðum við að laða að okkur fjármagn, fyrirtæki og hugmyndir. Okkur getur greint á um hvort það skuli vera í formi lána eða fjárfestinga en látum það liggja á milli hluta að sinni.

Eftir þessa ágætu könnun Markaðar Fréttablaðsins get ég ekki betur séð en að Ríkisstjórnin sé á margan hátt á skaðlegum villigötum í skattlagningu, skattar eru lagðir á ýmis milliríkjaviðskipti en það verður til þess að það flæði fjármagns, sem reiknað er með inn í landið, skilar sér ekki. Í stað þess að greiða götu fjárfestinga inn í landið eru reistar gamaldags skorður sem skaða. Það virðist því vera ýmislegt í gagnrýni Sjálfstæðismanna á þessu sviði sem ekki er hægt að skella skollaeyrum við.

Ég vona að Ríkisstjórnin falli ekki í gryfju þvermóðskunnar, geti ekki brotið odd af oflæti sínu, það er oft erfitt að viðurkenna mistök sín en það er enginn maður að minni þó hann geri það. Og ef eitthvað er að marka það að Ríkisstjórnin vilji hafa samráð við stjórnarandstöðuna þá verður hún að hlusta á hana þegar koma tillögur sem kunna að vera gagnlegar.


Hverjar eru auðlindir Íslands, hver á að eiga þær, hverjir eiga að nýta þær?

Sá sem hefur boðið sig fram til Stjórnlagaþings verður að svara þeim spurningum sem koma fram í fyrirsögn pistilsins.

Fyrst vil ég gera stutta grein fyrir hverjar eru auðlindir Íslands. Að undanförnu hefur verið einblínt á orkugjafann, vatnsorku og jarðvarmaorku. Að sjálfsögðu hárrétt, þarna er hluti af auðlindum landsins en aðeins hluti. Það fer ekki á milli mála að nú stendur yfir landsfundur Landsambands íslenskra útvegsmanna, boðskapurinn sem þaðan kom er þessi; þið skuluð ekki voga ykkur að hrófla við núverandi kvótakerfi, þetta er okkar eign, við höfum keypt réttinn til að veiða fiskinn í sjónum dýru verði og það er vissulega rétt, margir haf gert það. En sú furðulega staða að tilfinningar og pólitík tröllríður umræðunni um auðlindir á landi, einkum orkugjafana, þá virðist auðlindin í hafinu, lífríkið í hafinu lítið hreyfa við þeim sem hæst hafa um vatnsaflsvirkjanir eð jarðvarmavirkjanir.

Við gerðum þau reginmistök fyrir um það bil 20 árum að rétta útgerðarmönnum eignarétt á fiskinum í sjónum, þeir fengi ekki aðeins eignarréttinn heldur rétt til að selja og leigja þessa mikilvægu "eign". Aldrei frá upphafi Íslandsbyggðar hefur einum hagsmunahópi verið afhent endurgjaldslaust önnur eins verðmæti, auðlindina miklu í hafinu sem örðum fremur hefur á undanförnum öldum haldið lífinu í Íslendingum og staðið undir velferð okkar.

En ég hef átt í nokkrum orðaskiptum við útgerðamann hér í Þorlákshöfn í litlu þorpsblaði. Þar viðurkenndi hann að íslenskur sjávarútvegur, sjávarútvegsfyrirtæki, eru skuldum vafin og kvótinn veðsettur innanlands og utan. Ekki nóg með það, hann viðurkenndi einnig hvernig þessar himinháu skuldir höfðu hrannast upp þrátt fyrir að þessi hagsmunahópur, útgerðarmenn, fengu auðlindina án nokkurs endurgjalds. Hann staðfesti að skuldirnar eru að mestu tilkomnar vegna kaupa á kvóta þeirra sem eru að hætta útgerð.

Hérlendis sem erlendis sitja fjölmargir fyrrverandi útgerðarmenn og lifa kóngalífi á þeim fjármunum sem þeir fengu fyrir sölu á kvóta til  þeirra sem áfram basla. 

Gera menn sér grein fyrir hve gífurlegir fjármunir hafa sogast út úr þessari atvinnugrein, fiskveiðum og útgerð, á þennan hátt? Gera útgerðarmenn sér ekki grein fyrir hve eitraður bikar það var sem að þeim var réttur með því að gefa þeim kvótann, með frjálsa framsalinu, með leigunni á kvótanum, með því að verða að kaupa út úr greininni með geysilegum fjármunum þá sem hætta ?

Það var sett á laggirnar nefnd til að endurskoða kvótakerfið og ég gerði mér miklar vonir um að sú endurskoðun mundi skila okkur, almenningi og þjóðinni allri, eignaréttinn og nýtingarréttinn yfir auðlindum hafsins, yfir nýtingu þeirra fiskistofna sem eru innan okkar 200 mílna lögsögu. Út úr starfi endurskoðunarnefndarinnar kom ekkert sem hönd er á festandi, loðmulla sem LÍÚ samdi og kallast samningaleið; sem sagt óbreytt ástand.

LÍÚ hefur með hræðsluáróðri tekist að halda í þennan "eignarétt" sinna fyrirtækja. Slíku verður að breyta og ný Stjórnarskrá verður að taka af skarið:

Auðlindir hafsins eru eign þjóðarinnar, engan afslátt frá því!


Athyglisvert viðtal við Pál Skúlason í Sjónvarpinu í gær

Þórhallur Gunnarsson er að sækja sig með sinn nýja vikulega viðtalsþátt í Sjónvarpinu og í gærkvöldi kom margt merkilegt fram. Greining Páls Skúlasonar fyrrum Háskólarektors á ástandi stjórnmálumræðunnar á Íslandi var gagnmerk. Það er dapurlegt að flest af því sem hann sagði þar um er rétt ályktað; stjórnmálmenn og stjórnmálumræða á Íslandi er í skotgröfum þar sem hver reynir að komast lengra í "málfundaumræðunni".

Það hefði mátt ætla að Hrunið hefði þjappað stjórnmálamönnum saman um að ræða málefnin með rökum og yfirvegun en það er öðru nær; aldrei hefur Alþingi verið eins lágt metið og nú samkvæmt skoðanakönnunum. Ég ætla ekki að hika við að nefna ákveðna einstaklinga til að sýna fram á hve djúpt er hægt að sökkva. Framsóknarflokkurinn hefur velskt í brimskafli stjórnmálanna frá því að Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson skyldu við flokkinn í rúst eftir fjármálsukkið við einkavæðingu bankanna. Nýr formaður fannst, ungur maður að nafni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ekki nokkur maður í stjórnmálflórunni hefur átt önnur eins tækifæri til að lyfta sér og sínum flokki upp úr skotgröfunum.

En það fór á annan veg. Sigmundur Davíð sökk í pytt skotgrafanna á stundinni dyggilega studdur að ungum angurgöpum í flokknum. Þó virðist hann ekki hafa algjöran stuðning. Guðmundur Steingrímsson sýnir að hann vill ekki í pyttinn fara og ekki heyrist mikið frá Siv Friðleifsdóttur. Enginn af nýju þingmönnum Framsóknarflokksins hefur þó valdið eins miklum vonbrigðum og Vigdís Hauksdóttir sem á svipstundu tókst að tileinka sér hernað skotgrafanna eftir að hún komst á þing. Nýjasta ævintýri hennar er að leggja fram tillögu, ásamt ýmsum skoðanasystkinum úr öðrum flokkum, um að þjóðin greiði um það atkvæði þegar kosið verður til Stjórnlagaþings hvort draga skuli umsókn Íslands um inngöngu í ESB til baka. Flumbrugangur hennar og meðflutningsmanna er slíkur að þau voru öll búin að gleyma nýsettum lögum, sem þau tóku þátt í að afgreiða, um að líða skuli minnst 3 mánuðir frá því Alþingi samþykkir þjóðaratkvæði þar til atkvæðagreiðslan fer fram! "Sorry" segir Vigdís, ég flyt bara tillögu um breyta nýsettum lögum um þjóðaratkvæði! Telur Vigdís Hauksdóttir að Alþingi sé sjálfsafgreiðsla þar sem hún og hennar líkar geti valsað um og fengið flýtimeðferð til að þóknast sýniþörf viðkomandi?

Hávær krafa kom fram í búsáhaldabyltingunni um að hreinsa alla sem þá sátu á Alþingi út, burt með þá og reyndar að stjórnmálflokkarnir fykju  líka. Mikil endurnýjun varð hjá flokkunum og nýtt afl kom einn á þing, hét þá Borgarahreyfingin, en hinir nýju þingmenn þessarar hreyfingar voru vart sestir á þing þegar Borgarahreyfingin klofnaði, þrír sátu eftir í nýjum flokki Hreyfingunni og einn, Þráinn, labbaði yfir til Vinstri grænna og hefur síðan staðið sig best að fjórmenningunum, hefur ekki sagt orð. En þrímenningarnir Birgitta, Margrét og Þór haf ekki setið auðum höndum en sokkið djúpt í svað skotgrafanna.

Sjálfstæðisflokkurinn er því miður að mestu á valdi síns gamla foringja Davíðs Oddssonar en stóð þó vel að málum við atkvæðagreiðsluna um Landsdóm, voru sjálfum sér samkvæmir. Ekki verður það sama sagt um þó nokkra af þingmönnum Samfylkingarinnar sem sýndu einhverskonar klæki við atkvæðagreiðsluna, voru ýmist með eða á móti. Sem betur fer var meirihluti þingmanna flokksins staðfastur og greiddi atkvæði á móti Landsdómi.

Hvers vegna tel ég að þeir sem greiddu atkvæði gegn því að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm hafi staðið réttar að málum? Því hef ég lýst áður í pistli hér á blogginu og vísa til þess en skal þó endurtaka tvennt. Í fyrsta lagi næst þar engan veginn til þeirra stjórnmálamanna sem mesta ábyrgð bera á Hruninu í okt. 2008, þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, í öðru lagi er Landdómur eins og gamalt skrímsli sem er ónothæft með öllu.

En aftur að vitalinu við Pál Skúlason. Hann benti eindregið á þörf fyrir upplýsingu um flest mál sem hið opinbera fjallar um og þar væri Sjónvarpið kjörinn vettvangur sem svo annarlega væri vannýttur til þeirra hluta. Hann lagði til að gerðir yrðu stuttir hnitmiðaðir fræðsluþættir um margvísleg efni, svo sem Stjórnarskrána og komandi Stjórnlagaþing. Ég hef lengi saknað slíkra þátta, vandaðra fréttaskýringa t. d. Í dag eru aðeins tveir þættir sem standa undir nafni þar. Það er "Spegillinn" í Ríkisútvarpinu og "Silfur Egils" í Ríkissjónvarpinu.

Vona að ráðmenn hafi heyrt þessi sjónarmið Páls Skúlasonar og taki þau alvarlega.


Flatur niðurskurður á skuldum fasteignaeiganda er feigðarflan

Svo virðist sem Ríkisstjórnin sé að missa staðfestuna og láta undan þeim sem hæst hafa látið og heimtað flatan niðurskurð á skuldum fasteignaeigenda. Þar láta hæst minnihlutaflokkar á Alþingi með Framsóknarmenn í broddi fylkingar og ekki stendur á Hreyfingunni , Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur (Birgitta er úti á túni að lemja tunnur), að fylgja þeirri forystu, svolítið hik virðist vera á Sjálfstæðismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna fylgja málinu eindregið og nú er búið að festa hugsanlegan flatan niðurskurð skulda heimilanna við 18%. Satt best að segja get ég ekki skilið Hagsmunasamtök heimilanna  styðji slíkar aðgerðir því þær munu  að lokum kosta skattgreiðendur fúlgur fjár og leysa lítinn vanda.

Ég hef fyrir framan mig töflu frá Fjármálaráðuneytinu, sem ég dreg ekki í efa, að 20412 einstaklingar skuldi meira en 100% í sínum fasteignum og það kann að vera að þar bætist fleiri í hópinn ef fasteignaverð lækkar umtalsvert.

En þennan hóp má alls ekki setja í eina rétt og ganga síðan til verks þannig að skuldir allra séu færðar niður um 18% því aðstæður innan þessa hóps eru ákaflega misjafnar og það liggur í augum uppi að það verður ekki öllum bjargað. Ég undrast stórlega orð  bankastjóra Landsbankans í Sjónvarpinu í gærkvöldi að það ætti að einbeita sér að því að bjarga þeim sem eru verst settir.

Ef það verður gert verður engum bjargað.

Þarna eru 1360 einstaklingar sem skulda meira en 200% af verðgildi sinna fasteigna. Það liggur í augum uppi að þessum hópi verður ekki bjargað þó bankastjóri Landsbankans vilji einbeita sér að því. Með 18% flötum niðurskurði fær þessi hópur háar afskriftir af sínum skuldum en mér finnst liggja í augum uppi að það dugi engan veginn til að bjarga þeim frá því að missa  eignir sínar.

Það sem hefði átt að gera fyrir löngu er að greina þá sem skulda yfir 100% af sínum heimilum og sannreyna hvern og einn, hvernig er hægt að hjálpa þeim sem geta orðið bjargálna. Ef markið er sett sem hámark við þá sem skulda alt að 150% þá eru það 16433 einstaklingar.

Þetta er hópurinn sem á að einbeita sér að því að bjarga. Þeir sem eru yfir þessum mörkum eru 3979 einstaklingar og þeirra mál ber að sjálfsögu að skoða einnig. En þetta er sá hópur sem þarf mesta fjármuni til að bjarga og í þessum hópi eru þeir sem höguðu sér óskynsamlegast. Það er ekki vafi að margir þar voru í allt og dýru húsnæði og stóru og ekki ólíklegt að á heimreiðinni hafi staðið tveir jeppar, jafnvel sportbíll einnig og í einum bílskúrnum mótorhjólið, snjósleðinn og fjórhjólið. Ég veit að þessi orð geta orðið mér dýrkeypt en mér er nokkuð sama. Þetta eru þau orð sem hafa verið "tabú" í allri umræðunni, ég hika ekki við að brjóta það "tabú".

Satt best að segja líst mér ekkert á hvernig þessi mál þróast nú og spurning hvort hið fornkveðna "því verr gefast heimskra manna ráð því fleiri sem koma saman" á ekki orðið við um hvert stefnir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband